Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

"Less is more"

Ég horfði auðvitað á borgarafundinn í sjónvarpinu í kvöld.

Tvennt stendur upp úr.

Katrín Jakobsdóttir sló strákunum við og hún hreinlega massaði panelinn.

Þetta segi ég ekki af því nú vill svo til að ég muni líklegast kjósa VG, þetta er einfaldlega ískalt mat.

Hitt sem stendur upp úr er að strákarnir í pólitíkinni tala of mikið.

Það verður að rífa af þeim orðið með ofbeldi, svei mér þá.

Þeir tapa big time á þessu drengirnir, því maður hættir að hlusta og hugsar í sífellu; ætla þeir aldrei að hætta?

Þráinn var fínn, kurteis og gagnorður.

Annars var þetta þvílíkur kjaftaklúbbur og strákapartí að það hálfa væri ráðstefna.

Æi, en Helgi Hjörvar er krútt.

En kæri Helgi; less is more, less is more.

Látum ljótu strákana um bullið.

Annars góð bara og í startholunum fyrir kosningarnar.

Þ.e. þegar ég fer að geta talað.

Er enn hljóðlaus.

Húsbandi finnst það leiðinlegt.


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"It was the best of times. It was the worst of times"

Gaman að sjá blússandi siglingu VG í NV-kjördæmi í skoðanakönnun, vel að merkja.

Það sem skiptir máli er þó það sem er talið upp úr kjörkössunum.

Ég horfði á borgarafundinn frá Ísafirði á RÚV í kvöld.

Það var mikið um frasapólitík og svona, en þannig eru valdaflokkarnir vanir að tala.

Ég var ánægð með Gunnar hjá O og svo auðvitað stórdúlluna hann Jón Bjarnason, minn mann á vettvangi.

Að horfa á Sjálfstæðisframbjóðendann var hins vegar aulahrollsvekjandi lífsreynsla sem mig langar ekki að endurtaka í bráð.

Þrátt fyrir kokhreysti mannsins, sem sagði "það er klárt mál", "algjörlega kristaltært" og "alveg á hreinu" í hvert sinn sem hann opnaði munninn, þá dauðvorkenndi ég honum.

Það er ábyggilega ekki auðelt að vera á framboðslista fyrir Sjálfstæðismenn á þessum síðustu tímum.

Sá frjálslyndi var ágætur.

Framsókn, já Framsókn.  Af þeim er ekkert að frétta bara.

Svo er best að skella sér í eina frábærustu byrjun á bók sem ég þekki til.

It was the best of times. It was the worst of times. It was the age of wisdom. It was the age of foolishness. It was the epoch of belief. It was the epoch of incredulity. It was the season of hope. It was the season of despair.”

Þetta er nefnilega málið.

Í þessu línum kristallast það ástand sem við búum við núna.

Gerum það besta úr því.


mbl.is Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkalegur metnaður

 hippie-girl

Í staðinn fyrir að blogga um hversu ósmekklegt mér finnst að mótmæla fyrir utan heimili manna (ekki sambærilegt og um daginn þegar einhverjir tóku göngutúr heim til dómsmálaráðherra og spjölluðu við hana), nú eða blogga um hvernig mér líður eftir að hafa fengið á kjaftinn með því að horfa á Silfrið, þá ætla ég að blogga um allt annan hlut og algjörlega fánýtan þar að auki.

Þetta er sjokkjöfnun.

Ég var að átta mig á því að ólíkt flestum, held ég, þá var ég aldrei ákveðin í að verða eitthvað ákveðið þegar ég yrði stór.

Man ekki eftir að hafa ætlað að verða rík, fræg, ferðalangur, læknir eða hjúkka.

Ég held að ég hafi siglt í gegnum æskuna lesandi annaðhvort bókmenntir eða námsefni.

Algjörlega metnaðarlaus krakki.

Svo rofaði til og ég var að pæla í að verða svona kona sem fer um heiminn og hjálpar börnum.

Annað komst líka á hreint, maður kemst ekki spönn frá rassi án æðri menntunar.

Ég átti nú eftir að taka góða pásu frá skólanum vegna anna en það er svo önnur og merkilegri saga sem má lesa um í mínum endurminningum sem koma út um jólin (jeræt).

En..

Þegar ég byrjaði að djamma hrundu framtíðarmarkmiðin fyrir lítið.

Í staðinn fékk ég mér nýtt markmið og það aðeins eitt og það var að verða nógu gömul til að ráða sjálf hvað ég væri lengi úti á nóttunni.

Rosalega metnaðarfullur krakkaandskoti þarna á ferð eða hitt þá heldur.

Ég lét mig dreyma um óheftan útivistartíma til að geta djammað og hangið með vinkonunum og lent í ævintýrum með sætum strákum.

Sko, þegar ég var að hugsa um þetta áðan þá brá mér smá.

Þetta er nefnilega svo rosalega alkalegur metnaður.

Kannski ekki skrýtið að ég hafi svo endað í meðferð löngu síðar.

Æi, ég dauðvorkenni þessari stelpuskömm sem var að kafna úr lífsþorsta.

Meiri verkunin og fyrirkomulagið.


mbl.is Mótmælendur enn í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Get ég brotið bankaleynd?

Fjármálaeftirlitið virðist vera ríki í ríkinu.

Þeir lúta sínum eigin lögmálum. 

Þeir gefa ekki upplýsingar, sama hvort í hlut á ráðherra eða aðrir sem ætla mætti að væru til þess bærir að spyrja.

FME gerir hina harðlokuðu frímúrarareglu með öll sín leyndarmál eins og opin og utanáliggjandi samtök með munnræpu.

Nú þegar Egill Helgason, Þorbjörn Þórðarson, Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson hafa sem blaðamenn lagt mikla vinnu í að upplýsa þjóðina um hvað gerðist (og er að gerast) bak við tjöldin og hafa reynt að ná til botns með hvað olli hruninu og þeirri staðreynd að við séum nánast gjaldþrota þjóð, þá rífur FME sig upp á rassgatinu og sýnir frumkvæði.

Nú þykir mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn.

FME að sýna frumkvæði er eitthvað svo stórkostlegt að það verður skráð í sögubækur.

Verst að frumkvæðið beinist í alveg kolvitlausa átt.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að viðskiptaráðherra leiði þá ekki frá villu síns vegar.

Ég er alveg til í að fara með hávaða á götum úti ef það hjálpar.

Það er nefilega stórkostlega mikið í húfi að blaðamenn verði ekki kúgaðir til þagnar.

En svo ein heimskuleg spurning sem ég er að velta fyrir mér hérna.

Getur maður brotið bankaleynd verandi ekki bankastarfsmaður?

Get ég þá brotið bankaleynd?

Hvílir bankaleynd á hinum almenna borgara og hinum almenna blaðamanni?

Halló, eruð þið viss um að við séum á Íslandi?

Rugl.


mbl.is Viðskiptaráðherra vill blaðamenn úr snörunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámark lágkúrunnar

Satt best að segja þá er ég löngu hætt að horfa á Ísland í dag.  Ég hreinlega gafst upp. 

Svo ég segi það beint út; ég fékk orðið grænar bólur við að sjá Séð og heyrt parið birtast á skjánum með andskotans nærmyndirnar og annað ámóta yfirborðskennt efni.

En svo las ég Heiðu vinkonu mína áðan.  Hún var að blogga um nærmynd sem hafði verið sýnd í kvöld af Björgólfi Thor.

Henni var ekki skemmt.

Þetta varð ég að sjá. 

Ég byggði mig upp andlega og lét vaða í þáttinn.

Fyrirgefið, en er verið að gera tilraun til að gera fólk brjálað úr reiði?

Eða aulahrolli.

Björgólfur Thor er svo mikið krútt, segja vinir hans.  Hann fer á skíði, er stundum alveg blankur á matsölustöðum eins og vinirnir og svo fer hann með börnin sín í dýragarð um leið og hann stjórnar símafundum.

Svooooo mikið krútt.

Hvað er að þeim þarna á Stöð 2?

Hafa þeir tekið leynilega ákvörðun um að eyða sjálfum sér með lélegu efni?

Hrista hreinlega af sér áhorfendur með ofbeldi, svei mér þá.

Ég er að minnsta kosti glöð yfir einu, eða varð um leið og ég var búin að hrista af mér aulahrollinn og reiðina (þetta er einn af mönnunum sem eru búnir að skuldbinda okkur Íslendinga nokkrar kynslóðir fram í tímann, lifir ljúfa lífinu í London og er enn á fokkings Forbes listanum, þó hann hafi færst eitthvað neðar), þá gladdist ég smá.

Ég horfi ekki lengur á þá þarna á stöðinni.

Ég þarf ekki að liggja í krampakenndum aulahrolli með óbragð í munninum frekar en ég vil.

Ég mun ekki misbjóða mér aftur.

Hér er upphafningin af peningamógúlnum Björgólfi Thor sem fór og skildi þjóðina eftir með reikninginn.

En er dásamaður eins og Jesús í kirkjunni hjá þeim á tyggjókúlustöðinni.

Og nú segi ég:

Fyrirgefið á meðan ég æli OG kasta mér í vegg.


Göngum á guðs og okkar vegum

Varúð, ég ætla að blogga um landsfund íhaldsins.

Þeir sem fara hamförum í koxmentakerfinu mínu og heimsins hættið að lesa og drífið ykkur á landsfundinn bara.

En Geir bað Sjálfstæðismenn afsökunar (hér með) í opnunarræðunni sinni í gær.

Oh Geir ég veit að við fíflahlutinn af þjóðinni sem enn hefur ekki séð ljósið og þar af leiðandi ekki kosið flokkinn, er afgangsstærð í hugum ykkar, en gastu ekki beint afsökunarbeiðninni að okkur líka, bara svona "for the hell of it"?

Og Fraudísk mismæli aldarinnar eða þessi gullmoli frá Sigurði Kára Kristjánssyni á landsfundinum í dag:

"Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni, þá hafnar Sjálfstæðisflokkurinn aðild að Evrópusambandinu"!!!!

Dásamlegt.

En kannski var þetta ekki "Fraudian slip of the tounge".

Kannski er þetta bein afleiðing af yfirskrift fundarins sem mér skilst að sé eitthvað á þessa leið;

"Göngum hreint til verks" og Sigurður Kári að tala þarna beint frá hjartanu.

Þetta verður skemmtileg helgi.

Og svo birtir Mogginn fréttir að öllu sem sagt er á fundinum.

Ekkert má á milli veggja liggja.

Í gær las ég blogg frá landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hvar viðkomandi hélt því fram að Guð væri sko örugglega hægri maður.

Hann bauð tam upp á þetta fallega veður í tilefni landsfundarins.

Nei, nei,  Sjálfstæðismenn og konur halda alls ekki að þeir séu nafli alheimsins.

Ekki séns.

Úje


mbl.is Mistökin Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokuheilkenni strákanna

Í eftirleik bankahrunsins þegar Geir var "maðurinn" löfðu fjölmiðlamenn á honum og þjóðin við sjónvarpið og allir biðu eftir að hann segði eitthvað.

Einhvern sannleika sem myndi ljúka upp fyrir manni staðreyndunum um ástandið, hversu illa við værum stödd, hver væri ábyrgur (kannski hann smá) og svo endalaust framvegis.

En Geir sagði aldrei neitt sem leiddi mann í sannleika en hann sagði samt helling.

Bjarni Ben er svona líka, talar og talar og maður skilur ekki rassgat hvert hann er að fara.

Ég og ein góð vinkona mín höllumst að því að þetta sé nokkurs konar þokuheilkenni.

Sko, um leið og þeir segja eitthvað þá fyllist hausinn á manni af þoku, nú eða bómull, allt eftir því hversu lengi þeir mala.

Þennan "hæfileika" virðast þeir stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum öðlast þegar þjálfun í Valhöll er að baki og þeir samkvæmt flokkslögum, fullnuma.

Íhaldið vill ekki gera sig skiljanlegt við fólk, ef einhver skyldi halda það, þeir vilja halda okkur í þokunni og mistrinu, hamingjusamlega aftengdum frá raunveruleikanum.

Svo hófst biðin eftir að "maðurinn" segði orðin.

Þau eru  "fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki staðið mig betur" eða eitthvað á þá leið.

Það var enginn að ætlast til að hann húðstrýkti sjálfan sig eða að hann ynni sér stórkostlegt mein í refsingarskyni.

Bara þetta einfalda orð "fyrirgefið" og stór hluti fólks (ekki ég þó ég hefði virt það við hann) hefði gefið íhaldinu séns.

En ég er skelfilega þakklátt fyrir að fór sem fór, búin að bíða svo lengi eftir að koma kerfisflokknum frá völdum.  Sjálftökuliðinu, kunningjareddingargæjunum, jakkafatakörlunum sem klóra hver öðrum á bakinu svo ég taki þessar lýsingar ekki lengra að sinni.

Og enn þrjóskast "maðurinn" við.

Með besta vilja er hægt að túlka orð hans í gær sem afsökunarbeiðni, sko ef maður er ekki sofnaður yfir upptalningunni hjá honum um það sem var EKKI honum að kenna.

Svo er bankaleyndin gengin út í öfgar segir Geir!

Vá, "tell me something I don´t know"!

Og Geir; má treysta því að þú meinir að það sé langt í að samstarf við Samfó verði reynt aftur?

En Framsókn?

Gætir þú gefið upp hverjir eru eðalflokknum þóknanlegir?

Ekki að það skipti neinu, Sjálfstæðisflokkurinn mun nánast þurrkast út í kosningunum í vor, það er að segja ef fátvitaheilkenni þjóðarinnar tekur sig ekki upp aftur af fullum krafti.

En segðu okkur samt, bara svona til gamans.

Jeræt.


mbl.is Bankaleyndin gengið út í öfgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar góðar vikur án stjórnmálamanna

Ég horfði á Silfrið offkors.

Æi og ói.  Nú er friðurinn úti.

Pólitíkusarnir komnir aftur enda að koma kosningar og fólk forvitið að heyra hvað þeir hafa að segja.

Ég gerði mér samstundis grein fyrir því þegar strákarnir byrjuðu að kalla hvor upp í annan að það hefur verið dásamlegt að hlusta á fólkið sem hefur verið í þáttunum síðan eftir hrun.

Venjulegt fólk sem hefur beðið eftir að það kæmi að því verið kurteist og lágstemmt.

Frammíköllin og hamagangurinn eru komin aftur.

Alveg: Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.

Meira bölvað fyrirkomulagið á þessu öllu og ég er engu nær.

Nema að VG vill gjarnan halda áfram stjórnarsamstarfinu.  Mér finnst gott að vita áður en ég kýs hvað flokkurinn sem ég exa við hyggst gera eftir að atkvæði hafa verið talin.

Samfylkingin hins vegar, er með allt opið, ekkert breytt á þeim bænum ef marka má hann Árna Pál.

Erfðaprins íhaldsins kom ekki á óvart.  Algjörlega fyrirsjáanlegur.

Treysti ég þessum strákum?

Neibb, ekki baun.


Snillingar í að vinna þegar þeir tapa

Ólöf Nordal hefði viljað sjá fleiri konur á lista.

Mæli hún heil, ég líka.  Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn myndi verði "mannlegri" með kvenlegra ívafi.

Konur í Sjálfstæðisflokknum hafa jafnan haft á orði þegar talið berst að kvennafæð í baráttusætum flokksins að konur komist áfram af eigin rammleik, kyn skipti ekki máli, allir hafi sömu tækifæri.

Ef það er rétt, sem það reyndar ekki er og ég veit allt um, þá er Sjálfstæðisflokkurinn afskaplega óheppinn með sína kvenlegu frambjóðendur.  Allt algjörar rolur! 

Þvílíkt kjaftæði.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafnréttisflokkur.  Ónei.

Svo er það Bjarni Ben.

Hann nýtur yfirgnæfandi stuðnings sem formannsframbjóðandi í Sjálfstæðisflokknum, samkvæmt nýlegri skoðanakönnum.

Hvurs lags er þetta?

Maðurinn er einn í framboði. 

Rússland hvað?

Og núna keppast allir lúserarnir við að lýsa yfir sigri.

Guðlaugur Þór Þórðarson vann sinn stærsta pólitíska sigur í prófkjöri dagsins!

Hvernig má það vera, maðurinn tapaði feitt fyrir Illuga Gunnars?

Jú, hann vann stórsigur vegna þess að hann var í að koma úr ríkisstjórn og geldur fyrir það.

Illugi var auðvitað að koma úr réttunum bara og nýtur þess.  Ha?

Pólitíkusar eru snillingar í að vinna þegar þeir tapa.


mbl.is Hefði viljað sjá fleiri konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi löng, leiðinleg og þunglyndisvekjandi

Vodafone og Nova hafa kært nýju auglýsingu símans.  Neytendastofa mælist til þess að fyrirtækið stöðvi birtingar á henni.

Ég hoppaði hæð mína með svuntu og sleif (í huganum reyndar) af gleði, því ég fæ svo mikinn aulahroll þegar hún birtist á skjánum, sem hún gerir á öllum stöðvum í hverju auglýsingahléi þessa dagana.

Fyrir utan þessa asnalegu fréttamenn sem spyrja eins og slefandi hálfvitar sömu spurningarinnar aftur og aftur (og gera stéttinni engan greiða með þessum línum sem handritshöfundur hefur skenkt þeim) þá er Hilmir Snær (sem mér finnst frábær leikari en algjörlega ofnotaður) alveg að drepa mig með gamla sjarmasvipnum sem er orðinn dálítið þreyttur og útvatnaður.

Þegar hann horfir á mann (í myndavélina sko) þá blotnar maður í fæturna vegna fljótandi augnaráðs sem var dálítið sexý í lok síðustu aldar en nómor.

Þegar hann svo blikkar auganu framan í útlenda fréttamanninn þá slæ ég höfði í vegg.  Púmm.

Nú er fjarstýringin notuð til sjálfsvarnar á heimilinu.

Þið sjáið að ég velti mér stöðugt og eilíflega upp úr stórum málum í lífinu.

Úff, en þessi aumingjahrollsauglýsing má hverfa og það strax í dag.

En ekki út af því að hún sé brot á þessari og hinni greininni um samkeppnislög, um það veit ég ekkert og er slétt sama. Nei, nei.

Hún má hverfa vegna þess að hún er óþolandi leiðinleg, löng og þunglyndisvekjandi.

Annars er ég góð.

Er að baka gulrótarbrauð, ésús minn þvílíkt hnossgæti.


mbl.is Vilja stöðva auglýsingar Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.