Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Kaffi- og ristavél við rúmið

Ég var að tala við vinkonu mína áðan.  Hún var að kaupa sér nýtt sjónvarp.

Ég spurði hvað væri að flatskjánum sem fyrir var og hún sagði að það væri ekkert sérstakt, en ætlaði að hafa hann í svefnherberginu.

Ég vona að ég verði aldrei svo heillum horfin að hafa sjónvarp til að glápa á úr rúminu. Þá fyndist mér að ég væri kolfallinn í sýndarveruleikann sem þar finnst.

Mynduð þið hafa kaffivélina, ryksuguna og brauðristina við rúmið ykkar?  Bara svona ef ske kynni að ykkur langaði að nota viðkomandi tæki?  I don´t think so.

Ég vil hafa mitt sjónvarp á einum stað, inni í stofu eða litla herbergi og ég mæti þangað til að horfa á það.  Ég vil ekki hafa sjónvarp í eldhúsinu.  Það er enginn andskotans flóafriður fyrir áreiti í nútímanum.

En vinkonan spurði mig dálítið pirruð svona, hvenær ég ætlaði eiginlega að fá mér flatskjá.

Ég: Það veit ég ekki, sjónvarpið mitt er fínt.

Hún: Þetta er hundgamalt tæki, þungt og myndgæðin léleg.  (Hvernig er það, geta gæði verið vond eða léleg?).  Hoppaðu inn í nútímann kona, það á ENGINN túputæki nú orðið.

Síðan hef ég staðið mig að því að horfa ísköldum fyrirlitningaraugum á tækjaskrattann, og mér hefur liðið eins og hálfgerðum lúser.

Ok, í svona fimm mínútur eftir að ég talaði við hana, fannst mér mig vanta flatskjá og það strax í gær.

En vitleysan rann af mér nánast strax og nú horfi á á tækið mitt, sem er bara fínt og hentar okkur vel, með ástaraugum.

Ég vona að það endist jafn lengi og ég.

Úje


Í hvaða sæti - einhver?

Eftir að útslitin í Júró lágu fyrir, lág ég sprungin af harmi, í drapplitaða sófanum mínum, með marglitu flauelspúðunum.  Ég var með hárið í hnút og klædd í rauðan silkikjól og var afskaplega rómantísk og kvenleg útlits, ef ég á að vera alveg hreinskilin.  Ég hafði háan ekka sem yfirgnæfði Sigmar í sjónvarpinu, og ég sá ekki út úr augunum vegna tára.  Ég heyrði sum sé hvorki né sá.

Þess vegna spyr ég ykkur.  Í hvaða fokkings sæti lentum við?

Vinsamlegast setjið svarið í kommentakerfið og verið snögg að því. 

 Annars góð,

later!


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ok, ég er komin út úr skápnum.

Ég er komin í vandræði, sko Júróvisjón vandræði.

Þar sem ég hef verið svo hipp og kúl í þessum málum, svarið af mér áhuga og svona, hef ég bloggað um þetta eins og fífl og hélt ég kæmist upp með það.

Síminn hringdi áðan.

Frumburður: Mamma, ég er í kasti.

Mamman: Ha, hvað er svona fyndið?

Fr: Þú, það bloggar enginn á Mogganum eins mikið og þú um Júróvisjón.  Komdu út úr skápnum kona, ég man ekki eftir að þú hafir misst af einu einasta Júrókvöldi, frá blautu barnsbeini.

M: Hvaða vitleysa.  Ég hef engan smekk fyrir Júrómúsik.

Fr: Hver hefur það?  En þú horfir.  Ég er þó að minnsta kosti þekktur Júróvisjónplebbi og ekki lokuð inni í skáp.

M (hæðnislega): Ég hélt að þú hefðir svo þróaðan músíksmekk og hlustaðir löngum stundum á klassík.

Fr: Rétt, en hvað get ég sagt, ég ólst upp í Svíþjóð!W00t

Ergó: Samkvæmt frumburði er ég Júrófan í afneitun.  Ég játa á mig ósköpin.

Haldið þið að ég sé ekki að verða tilbúin með matinn. 

Er sko upptekin klukkan síben.

La´de swinge!


Michael Jackson snæddu hjarta!

Þegar ég bjó í Svíþjóð á árum áður, kynntist ég Júróvisjónæðinu í fyrsta sinn.  Við Íslendingar voru ekki farin að vera með á þeim tíma.

Pælingarnar í Sverige voru svipaðar og hér núna. 

Svíarnir voru dedd á því í hvert skipti að þeir myndu vinna.  Þegar það gekk ekki eftir voru ástæðurnar alltaf vegna öfundar og rætni valnefndanna.  Já og klíkuskapar og samtryggingaráráttu "þessara" ósmekklegu Evrópuþjóða" sem höfðu ekki örðu af músíkalitet í sínum óeðlu beinum.

Þetta var ansi skemmtilegt sport að fylgjast með.

Og svo komu Herrey´s á sínum fokkings gylltu skóm.  Ég hélt að landið færi á límingunum.

Heimsfrægð var í uppsiglingu.  Michael Jackson snæddu hjarta.

Stjörnur voru fæddar.

En meira að segja ég sem á það til að hrífast með gat ekki annað en setið í einum langdregnum aumingjahrolli yfir sænsk-amerísku mormónunum sem töluðu svengelsku.  Þeir voru nördar par excelance.

En lagið svingaði, því varð ekki á móti mælt.  Og vann, hvað annað.  Sverige är bäst.  Jájá.

Svo miður mín varð ég vegna þessarar athygli sem mín elskaða Svíþjóð hlaut vegna gullskóabræðra að ég sá mér ekki annað fært en að flytja til míns heima.

Og þá kom Gleðibankinn.

Ég segi ekki meir.

Hef reyndar aldrei skilið af hverju Gleðibankinn fór ekki alla leið.

Við áttum það svo innilega skilið.

Áfram Ísland!

Újeeeeeeeeee

Færið ykkur nú í gullskóna gott fólk og dansið um allt eins og vankaðar hænur með bræðrunum gullskóm.


mbl.is „Fegin að Dustin datt út"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

May the best man win

Ég vill ekki vera þjóðernissinnuð nema upp að vissu marki.  Auðvitað þykir mér vænt um landið mitt og þá sem þar búa, svona flesta amk. 

Ég hef átt þá barnalegu draumsýn að einhvern tímann verði heimurinn landamæralaus og við séum ekki að girða okkur inni, berjast og misskipta gæðum hnattarins.  Það liggur við að ég roðni þegar ég viðurkenni það að hugsa svona.  En einhver verður að gera það og líkurnar á að þetta gerist næstu þúsund árin eða svo eru minni en engar.  En mig dreymir um þetta samt.

Þess vegna á ég tiltölulega auðvelt með að heyra þjóðsönginn rappaðan eða stappaðan, hvíslaðan og gargaðan.  Það hreyfir ekki við mér nema ég hef lúmskt gaman að svoleiðis músíktilraunum.

Þess vegna fæ ég aldrei kikk yfir þjóðfánum, hvorki annarra landa né hinum íslenska, nema hvað mér finnst hann flottur á litinn.  Mun flottari en sænski fáninn t.d. sem er alveg þræl fölur á að líta.

Af sömu orsökum hef ég yfirleitt ekki misst mig í Júróvisjónæði þó Ísland sé með í pakkanum.

Ég hef ekki fengið kölduflog út af landsleikjum í hinum ýmsu íþróttaleikjum eða öðrum keppnum þjóða á milli.  Ónei.

Mér hefur fundist og finnst reyndar enn, lítið um fína drætti í þessari Evrósöngkeppni.

Og þetta byrjaði allt ósköp sakleysislega að þessu sinni.  Ég var að fíflast með keppnina til að geta bloggað bjánafærslur um hana.  Haldiði ekki að ég hafi farið á taugum og orðið stressuð og tryllt þegar Ísland fór áfram.  Nærri því klæddi mig í næsta fána sem á leið minni varð, svei mér þá.

Og þá fór ég að hugsa.

Ég vil ekki hanga eins og fjallkonan á diazepam fyrir framan sjónvarpið í heitri bæn um að Ísland muni vinna, mér er nefnilega slétt sama eða verður slétt sama um leið og ég kem til sjálfrar mín.

Nú ætla ég að nota morgundaginn í að lesa skemmtilega bók, síðan ætla ég að gera eitthvað allt annað en að horfa á keppnina. 

Ok, ég fylgist með en ég held með engum.

Lengra teygi ég mig ekki í þágu lands og þjóðar.

May the best man win.


Píkukjólar að láni?

 Melodimen+Charlotte+Perrelli+struts+off+to+the+Globen

Jájá, auðvitað blogga ég meira um Júró.

Nú fötin.  Jesús minn.  Ég vissi ekki að það væri samnýting á fötum í keppninni.  Það kom mér "skemmtilega á óvart".

Fyrst kom Perrelli í þessum flotta silfurkjól sem náði henni nánast upp í júnóvott, og ég hugsaði alveg: Vá þessi skilur ekki eftir nema hálfan sentímeta fyrir ímyndunaraflið".  Og svo var það búið.  Fatnaður konunnar hefði þar með ekki verið ræddur hér á þessari bloggsíðu, hefði ekki hver glyðran ég meina konan af annarri mætt í kjólnum hennar Charlottu.  Allir námu þeir rétt við júnóvott, kæmi mér ekki á óvart að þessi fatastíll fengi nafnið "Píkustíllinn".

En Regína og Friðrik voru flott, ekkert út á þau að setja.  Meira að segja bleiku skórnir voru dúllulegir.

Þó ég hafi gaman að draga þessi "söngvakeppni" sundur og saman í háði, þá var ég í alvöru stolt af okkar fólki.  Þau voru svo "pró".

En aftur að píkukjólunum.  Ég skil alveg þörf sumra kvennanna þarna í gærkvöldi til að klæða sig áberandi illa fyrir neðan mitti, miðað við að sumar þeirra héldu ekki lagi og beinlínis görguðu í míkrófóninn.  Þá getur það verið bráð nauðsynlegt að færa athygli áhorfandans frá míkrófóni og að einhverju öðru.

Sáuð þið "If you wanna have fun don´t run"?  Ég segi ekki meira.  Eða síðhærða manninn sem gargaði eitt ljótasta lag sem samið hefur verið?

Jösses í vondum fíling.  Þvílíkar eyrnamisþyrmingar.

Hvað ætli Merzedes menn  séu að hugsa núna? 

Dem, dem, dem, að vera ekki friggings fluga á vegg. 


Ég er norn

whitch 

Nú fer að bresta á með stóru stundinni.  Jösses, hvílíkur spenningurWhistling.

En auðvitað sendi rmaður ljós, varma og orku beint til Belgrad.  En af því að ég er norn þá ættu þessar aðgerðir að hitta í mark.

En bíðið nú við.  Það er dávaldur með í för sem ætlar að taka íslensku söngfuglana til meðferðar fyrir keppni.  Nú, nú.  Engin þörf á mér.

Ég get auðvitað beitt mínum kynngimagnaða krafti á allar þær milljónir mana sem kjósa.

Jú krakkar mínir, þetta hefst.  Við komumst í úrslit.

Verið róleg.  Jennýsín reddar þessu.

Farin að sjóða galdur.

P.s. Fyrst ég er á annað borð fallin í töfrana þá er best að ég sendi á Perrelli og láti hana misstíga sig á skýjakljúfunum sem hún ber á fótunum.  En ekki hvað?Devil

Áfram Ísland.Wizard


mbl.is „Dávaldur“ með í för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örmagna en kúl

Sjálfri mér trú og til að þurfa ekki að gleypa í mig allar fullyrðingar mínar um að ég muni að þessu sinni hanga intúitt yfir Júró, þá gerði ég einmitt það, frá byrjun til enda.  Og sannast sagna er ég úrvinda eftir afrekið.

Ég ákvað að líta á þetta sem sjó, ekki tónleika.  Guði sé lof.  Það vorum margir í töff skóm í keppninni.  Það linaði sársaukann í eyrunum. 

Ég vona að okkar riðill sé skárri en þessi, hlýtur eiginlega að vera af því við erum þar og Charlotta Perrelli (hún heitir Anna Jenny Charlotta, ég næ ekki upp í nef).  Ásamt Danmörku, það hlýtur að ganga.

Þvílíkar tónsmíðar.  Stundum hélt ég að það væri verið að endursýna tuttugu ára framlög, ég sver það.

En..

Armenía var lúmskt töff.  Gæti unnið.

Fínnland: Hversu oft er hægt að segja sama brandarann?

Noregur: Ég fann ekkert út úr melódíunni fyrr en í síðasta viðlagi.

Rússland: Gæinn reif sig úr að ofan í restina.  Þar með fór hans síðasta kartafla í mínum garði fyrir lítið.

Írland: Úff.

Og svo man ég ekki meir.  Jú Grikkland var smá líkt Armeníu minnir mig.

Þetta var sum sé ordíl ef ekki hefði verið fyrir skótauið.

Ég veðja á Armeníu.  Gætu unnið, þ.e. ef Sverige taka þetta ekki - nú eða við, god forbid.

Jú og Bosnía-Herzigovina voru megakrútt.

En ég stóð mína pligt.

Djö sem ég er mikill harðsoðningur.

Úje.

Armenía gjörsvovel!

 

 


Ég er skápanörd

Ég er skápanörd.  Ég viðurkenni það hér með.  Það er aðallega í tengslum við sjónvarpsefni, sem nörðurinn í mér blómstrar.  Svo er ég smáborgari og mér finnst vont að falla á hipp og kúl prófinu. Vill vera svo djúp 24/7.  Jeræt.

Ég ætlaði að segja upp Stöð 2 í sumar.  Horfi ekki oft á stöðina, að undanskyldum fréttum og Mannamáli, en ég varð að hætta við það.

Ég hef nördast við að horfa á American Idol frá byrjun.  Alveg gjörsamlega intúitt.  Alveg: tek ekki símann, fer með kaffi, sígó og aðrar birgðir af nauðsynjum að sjónvarpinu.  Má ekki trufla og svo pissa ég í auglýsingahléinu.  Ég fæ krúttköst, tárast og er svo plebbaleg að þið megið engum segja.

Og svo þegar ég ætlaði að fara að segja upp áskriftinni fram á haust sá ég að "So you think you can dance" er að byrja.  Það fer um mig straumur.  Nörðurinn flippar út.  Því má ég ekki missa af.  Ég er svo mikill plebbi að það ætti að klípa mig.

Og núna Júróvisjón.  Ég hef ekki verið að glápa á þessa "keppni" (halló, í raun er ekki hægt að keppa í listum, "but then again" þá er Júró ekki list) nema með öðru auganu.  Hef yfirleitt hætt að horfa þegar Ísland og Svíþjóð eru búin að ljúka sér af og svo horft á stigagjöfina, en í ár er ég orðin svo veik af mínum nördisma að ég er jafn intúitt og með Ædólið, já ég viðurkenni vanmátt minn.

Sverige vinnur samkvæmt skoðanakönnun frá BBC.  Ísland verður í 8. sæti.

Gæti trúað að þetta væri nærri lagi.  Sko Svíarnir eru með uppskriftina.  Júróvisjón er friggings þjóðarsport í landinu.  Svo kunna þeir að nota vindvélarnar maður minn.  Hárið fýkur nærri því af kjérlingunni henni Perelli.  Sem btw er ógissla sæt og í fínu formi þessa dagana.

Heja Sverige.


Hverjir vinna Eurovision?

Á hverju ári, fyrir Júró, fáum við fréttir frá gengi íslenska framlagsins oft á dag, liggur mér við að segja.

"Konunglegar móttökur".

Mikill áhugi blaðamanna, almennings og Páfans í róm á íslenska laginu.

Silvía Nótt átti staðinn þegar hún tók þátt fyrir okkur (reyndar í eina skiptið þar sem ég var í sjöunda himni yfir framlaginu, stúlkan var frábær, en það vildi enginn kannast við þegar hún floppaði), og enginn mátti vatni halda yfir laginu og flytjandanum. 

Það hefur margt oft komið í ljós að þessir blaðamannafundir, kynningar, partí og allt hvað það heitir, skila ekki miklu í beinhörðum poengum.  Sjaldnast twelve points eða ten points. 

Hvað um það, jafnvel ég ætla að horfa á laugardaginn EF Ísland og Sverige fara áfram, en þessi lönd erum mér hvað kærust allra landa. 

Sænska lagið er hundleiðinlegt, hið íslenska aðeins skárra, en hvað gerir maður ekki fyrir vini sína.

Ég er auðvitað rhytma og blues hundur, rokkið tætir mig og tryllir og ballöður geta gert mig meyra á vondum degi.  En ég sver það og ég er ekki að ljúga, að lögin frá Balkanlöndunum eru mér svo framandi að þau snerta mig ekki, nema þá til að pirra mig.  Ég mjúta þau þegar þau eru spiluð.

Þetta eru ugglaust fordómar.  Ég er líka með geigvænlega Júró fordóma, finnst keppnin hámark plebbismans en svo er ég ekkert skárri en flestir, ég horfi (mjúta af og til), pæli í fötum og svoleiðis, en tuða samt og tauta fyrir allan peninginn.

En þar er ég komin niður á kjarna málsins.  Ég elska að hata Júróvisjón.  Það er beinlínis sáluhjálparatriði fyrir mig og fleiri að fá tækifæri til að krullast upp amk. einu sinni á ári.

Ég er farin að telja í - von-tú-þrí.

Olsen bræður voru dúllur.  Plebbadúllur.  Gæti étið þá.

Og hver vinnur í ár?  Ég veðja á Svíþjóð.


mbl.is Konunglegar móttökur í Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987757

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.