Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

Flóttamaður af Laugavegi

Nágrannar Kaffistígs eru að flippa út yfir "ógæfufólkinu" sem stundar staðinn. 

Íbúar á Laugavegi í nágrenni við veitingastaðinn Mónakó við Laugaveg sætta sig ekki við að staðurinn fái að selja áfengi frá kl. 11 á morgnanna.  Vegna sama "ógæfufólks" auðvitað.

Ég skil þetta allt mjög vel, eins og ég hef bloggað um áður, enda flóttamaður af Laugaveginum sjálf.

En...

Til hvaða ráða á að grípa gagnvart fólki sem fellur ekki inn í "gæfurammann"?

Á að banna því að vera í miðbæ borgarinnar.  Á daginn?  Á nóttunni? Alltaf?

Nota Akranes og Akureyrar aðferðina á fólk og banna umferð miður lukkulegs fólks undir áhrifum nálægt öðrum borgurum?

Ef þessi athvörf sem fólk virðist eiga í stöðum eins og Kaffistíg og Mónakó verður lokað, hverfur þá vandinn upp í reyk?

Ég spyr og spyr, vegna þess að ég sé ekki að hægt sé að láta eins og rónar og dópistar sé ekki til, þeir hljóta að hafa lágmarksmannréttindi.   Að minnsta kosti hlýtur það fólk eins og annað að njóta eðlilegra borgaralegra réttinda eða það ætla ég að vona.

Ég skil svo innilega hversu erfitt það er að búa í hringiðunni og geta ekki sofið, upplifa blönduðu kórana fyrir neðan svefngluggann á mans eigin persónulega verkamannsinskofa, að láta míga á útidyrnar og brjóta flöskur á gangstéttinni.  Ég hreinlega þjáist af tilhuguninni einni saman.

En einhvers staðar verða "vondir" að vera. 

Það er ekki hægt að hreinsa borgina af fólki bara af því að það fellur ekki undir skilgreininguna góðborgarar.

Það var af þeim sökum sem ég flutti af Laugavegi og upp fyrir snjólínu.

Það var mitt val.

Hvaða val hefur "ógæfufólkið"?

Borgarstjórnarmeirihluti: Hvar eru íbúðargámarnir fyrir útigangsmenn sem eru tilbúnir síðan í janúar s.l.?

 


mbl.is Þreyta vegna ógæfufólks við svefnherbergisglugga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp á vatn og brauð?

 screaming%20woman

Stundum er ég að hugsa um hversu góðu vanur maður er orðinn.  Eins og t.d. það að geta farið að versla án tillits til hvaða dagur er.  Ég man nefnilega eftir háheilögum dögum þar sem ekkert var opið.  Mikið skelfing fannst mér það leiðinlegt.  Ég hugsaði; mig gæti vantað eitthvað og hvað á ég þá að gera?

Vegna anna út af skírnarveislunni hans Hrafns Óla, sem haldinn var í gær, fór lítið fyrir innkaupatilburðum undirritaðrar.  Ég mátti ekki vera að því að pæla mikið í matseðli þrátt fyrir komandi hátíð.  Hvítasunnan er ekki bigg díl fyrir mér, enn einn frídagurinn bara.  Eina hátíðin sem ég missi kúlið yfir eru jólin.

Og í morgun rann það upp fyrir mér að það er ekkert til í kotinu.

Ok, ekkert er kannski dálítið ýkt, en ekkert bitastætt er í ískáp að finna  Það er ekki til kjöt, ekki grænmeti og því um líkt.  Ég varð samstundis pirruð þegar ég sá að Hagkaup var lokað og Bónus gefur ekkert upp á sinni heimasíðu um opnunartíma.  Ekki Krónan og ekki Nóatún.

Allt í einu bara VARÐ ég að kaupa eitt og annað.  Mér leið eins og ég væri í vist upp á vatn og brauð hér uppi í Gólan.

Og svo uppgötvaði ég að þetta er auðvitað fáránlegt sjónarmið.  Það er ágætt að búðir skulu vera lokaðar af og til.  Verra finnst mér með kaffihúsin.  Það er ekki vitund Cosmopolitan að hafa þau lokuð á frídögum.

Er ekki 10/11 eða hvað þær nú heita, opnar alltaf? 

Eða kannski ég sleppi bara öllum verslunarhugmyndum og baki pönnukökur eða eitthvað.

Hm... ég held það bara svei mér þá.

Gleðilega Hvítasunnu.


Munið þið eftir honum?

Munið eftir Hleifnum?  Ómægodd, hvað það var mikið stuð 197ogeitthvað.

Ég bjó í Keflavík.  Já, ég veit það, maður lætur lokka sig út í allan fjandann.  Þetta var, nánar tiltekið, vegna eins hinna mýmörgu hjónabanda minna, sem ég hafnaði suður með sjó.   Ég hef farið út um allt land, vítt og breitt í makavali, og endaði svo í Reykjavík 101 en það er önnur saga.

Í partíum í Keflavík á þessum árum var drukkinn vodki og viskí og twentyone.  Ég er nú hrædd um það.  Það fer um mig ef ég hugsa um bragð og lykt.  Bölvaður viðbjóður.

Og allir voru fullir, síendurtakandi sjálfa sig, röflandi leyndarmál, stelpur grátandi á trúnó inn á klósetti, alveg: "Mér hefur alltaf líkað ógeðslega vel við þig" og svona stöff, þið vitið.  Maskarinn niður á kinnar og allir í mígandi gleði.

Og svo spiluðu nördarnir Smokie (ég er ekki að djóka) "Living next door to Alice" en þarna voru niðurlægingartímar í músík hvað sárastir.  Og svo Meetloaf.  "Paradise by the dashboard light."

Og ég eins og allir hinir plebbarnir.  Mig minnir að ég hafi hríslast um í villtum dansi, eins og enginn væri morgundagurinn.  Fannst Hleifurinn æði. 

Svo kom hann, ég sá hann ekki og svo fór hann og mér gat ekki staðið meira á sama.

Ég fékk ógeð.  Hann minnir mig á hálftóm brennivínsglös þar sem sígóstubbar flutu og var sú sjón sem stundum blasti við manni daginn eftir partý.  Lyktin var súr og sjúskuð.

Og ég sver að það þótti engum neitt athugavert við fyrirkomulagið.  Svo er verið að tala um að heimur versnandi farið.

En fáið ykkur villtan snúning fyrir svefninn.

Meatloaf when you are out, stay out.


mbl.is Meat Loaf aldrei aftur til Íslands?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsærið mikla

ist2_184817_baby_bottle

Ég held því fram, blákalt, að það sé samsæri í gangi í heiminum um að troða í konur/mæður samviskubiti upp á múr og naglfestu.  Þetta samsæri var við líði þegar ég gekk með stelpurnar mínar og ekki hefur það lagast í nútímanum.

Ég er ein af þeim sem hef aldrei átt "bæklingsbörn".  Með því á ég við að bæklingurinn sem maður fékk í denn og sagði fyrir um að börn ættu að sofa sóandsó, borða kl. sóandsó o.s.frv. átti ekki við mínar dætur. (Í sama bæklingi var konum bannað að þurrka bleyjur með þvaginu í!  Jabb við erum hálfvitar).  Ég átti í mesta basli við að gefa þeim brjóst.  Svo málið var einfalt, ég hætti því.  Þeim og mér leið betur á eftir.  Það var sótt að mér úr öllum áttum.  Ég var ómöguleg móðir, óhæf nánast, sem ekki reyndi mig bláa í framan að gefa börnunum mínum brjóstamjólk.  Ég kaldrifjuð kona, ég vildi ekki það besta fyrir börnin mín.  Þetta náði mér með frumburðinn og ég kvaldist vegna mannvonsku minnar, en svo var það líka búið.  Ég sendi þessum besserwisserum fingurinn héðan, fyrir að reyna að brjóta niður það litla sjálfstraust sem ég og margar ungar mæður hafa yfir að búa.

Og enn heldur samsærið áfram.  Gerum mæður sligaðar af sektarkennd ef þær gera ekki af einhverjum ástæðum það sem fyrir þær er lagt.

Brjóstamjólk hvað sem það kostar.  Ef ekki þá færðu verr gefið barn kerling.

Hafirðu reykt áður en þú vissir að þú varst með barni þá ertu allt að því morðingi.

Sama með drykkju.

Til að fyrirbyggja misskilning þá er ég auðvitað á því að barnshafandi konur eiga ekki að reykja og ekki drekka.  Þær eiga að fá góðan svefn, hvíla sig vel og borða heilbrigðan og fjölbreyttan mat.  Ladídadída.  Hægara sagt en gert í þessu vinnuóða samfélagi.

Raunveruleiki.  Allar þungar á Íslandi eru ekki planlagðar.  Það kemur nefnilega fyrir að konur verði ófrískar án þess að hafa beinlínis ætlað sér það.  Leim, ég veit það en það er raunveruleikinn.

Hvað er fengið með því að hræða úr þeim líftóruna?  Gera meðgönguna þeirra að hreinni skelfingu?

Ég veit það ekki.

En samsærið er í fullum gangi.  Ójá.

 


mbl.is Áhrif brjóstamjólkur á greind barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkaleg útskýring - Ójá

03 

Það er afskaplega alkaleg hegðun að útskýra ofdrykkju sína eftir fyllerí með því að rýna í áfengistegundina. 

Ég verð svo full af vodka, ég ætti að skipta yfir í gin, eða hvítvín, eða rauðvín, eða rauðvín og bjór.  Þá verður þetta í lagi.

Það voru meira að segja haldin námskeið hér á landi, fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þar sem fólki var "kennt" að drekka eins og menn.  Það fer ekki miklum sögum af árangrinum.

Ég hef verið þarna, trúið mér.

Ég er líka ein af þeim sem var ekki búin að borða nógu mikið og varð þess vegna röflandi full. Eða þá að sólin skein, ég var döpur, ég var glöð og svo mátti áfram telja.  Það má segja að ég hafi verið heppin, því ofdrykkjan var að mestu leyti inn á heimilinu.  Vó, hvað ég hefði lent illa í því, gott fólk, ef ég hefði sofnað út af á djamminu.  Sjúkkit.

Það er því alveg ferlega krúttlegt og um leið sorglegt að lesa um Rúmenska manninn sem lagði fram formlega kvörtun undan bjórnum sem hann drakk.  Hann varð pissfullur af einum bjór.  Sem sagt, eitthvað að bjórnum.

Það væri líka tryllingslega fyndið ef það kæmi í ljós að einhver hyskinn starfsmaður hefði blandað þennan eina bjór með spíra, bara "for the hell of it" en þá ét ég auðvitað trefla vinkvenna minna.

Jenný Anna, talar frá átakasvæðinu, allsgáð og í fínum málum að sjálfsögðu.


mbl.is Kvartað yfir áfengisáhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sódóma

Í visi.is gefur að líta frétt um úttaugaða íbúa í miðborg óttans.

Ég hef vissa samúð með þessu fólki, enda hef ég verið í sömu sporum, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Ég bjó á Þingholtsstræti, nánast við Bankastræti. Það var á seinni kafla djammárana, þegar ég var í öflugum rómans með núverandi húsbandi.  Stutt á kránna og stutt á tún bæjarins, hvar við sátum í keleríi og drukkum alls kyns ólyfjan.  Á horninu var sú öflugasta bassatromma í heimi og ég sofnaði við búmmbangið alla daga, einhvern tímann undir morgun.

Svo flúðum við en létum okkur ekki segjast og komum aftur.  Orðin skver eins og venjulegt fólk og fluttum með opin augu, reynslunni ríkari og alls ekki tilbúin að læra af henni, á Laugaveginn.

Þar var migið utan í húsið.  Blönduðu kórana fyrir neðan svefnherbergisgluggana hef ég reynt að gera ódauðlega á blogginu, með ítrekuðum færslum.  Það var gubbað á útidyrnar, kúkað bak við hús og fólk eðlaði sig bæði fyrir framan og aftan.  Jájá.  Oftar en ekki lá við stórslysi þegar ég var í leið til vinnu á morgnanna, glerbrotin biðu eftir mér við útidyrnar.

Ég segi, mér var nær.

Við hverju býst maður þegar maður vill búa í miðjum suðupotti?  Í hringiðunni sjálfri?  Næstum inn á skemmtistöðum?  Ég held að maður geti ekki með nokkurri sanngirni búist við fuglasöng og dirrindí á nóttunni, amk. ekki þannig að það yfirgnæfi gleðilæti Reykvíkinga.

Við komumst við illan leik, farin á taugum, með lager af eyrnatöppum og svefnpillum, eftir umsátrið í hjarta borgarinnar, upp fyrir snjólínu.  Ég fór ekki í miðbæinn í fleiri mánuði eftir útrásina úr Sódómu.

Það sem ég er að reyna að segja hérna er einfaldlega þetta.  Opnunartími skiptir einhverju máli auðvitað og ég held að það eigi alls ekki að lengja hann.  En Íslendingar "skemmta" sér eins og villimenn.  Þeir veina, slást, pissa þar sem þeir eru staddir, þeir æla þegar þeir eru komnir með ónot af löglegum og ólöglegum efnum í líkamann og þeim finnst gaman að syngja.

Það þykir svo fínt að búa í Miðbænum.  Það er inn, svo hipp og kúl.  En ef fólk gengst upp í því, sem ég gerði sjálf (og það kostaði mig nánast geðheilsuna) þá verður að taka hinu góða með skítnum.

Svo gott fólk.  Sættist við umhverfið eða flytjið ella.

Ég lifði það af og gott betur.

Frétt


Komasho

Gaman að þessu.  Bensín og díselolían að hækka.  Hva!  Nú verður væntanlega tuðpartí hjá öllum þeim sem eru búnir að andskotans út í mótmæli vörubílstjóranna.

Við erum merkilegir Íslendingar.  Hef sjálf tekið þátt í tuðinu þangað til ég var orðin blá í framan.

Samt hljóta allir að vita, a.m.k. gruna, að samtakamátturinn flytur fjöll.

Dæmi: Fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga sem áttu að taka gildi 1. maí.  Aðgerðum frestað á elleftu stundu, en frestað samt.

Danir eru duglegir í að taka sig saman, finnist þeim þeir vera órétti beittir.  Frakkar líka og má þá nefna sem dæmi vörubílstjórana sem blokkera heilu þjóðvegina og almenningur fylgir þeim að málum, styður þá, enda grunar hinn almenna borgara kannski, að hagsmunir okkar, venjulegs fólks, hanga saman þegar allt kemur til alls.

Nú þegar bílstjórarnir hafa verið að mótmæla, þá bloggar hver beturvitringurinn á fætur öðrum um hversu helvíti böggandi þessir bílstjórar eru.

Sumir gefa góð ráð, sko þeir eiga að skilgreina sig betur, mótmæla þessu en ekki hinu og áfram og áfram.

Mikið skelfing er ég til í að mynda þrýstihóp til lækkunar matvæla.  Til styttingar biðlista á hinar ýmsu stofnanir og ég gæti endalaust talið upp.

En við byrjum á matarverðinu.

Einhver?


mbl.is Allir hækka bensínið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni á aðdáenda - montfærsla Össurar

 4448

Ég er í sunnudagsfíling og er að moka út úr skápunum og nú liggur þessi feita fatahrúga á herbergisgólfinu og bíður eftir að ég geri eitthvað við hana.

En hvað á ég að gera?  Fötin eru heil, ágæt alveg, þó ég segi sjálf frá, og ég er að berjast við vinstri mannúðarmanninn í mér.  Á ég að skutla þessu í poka eða gefa það niður í Rauða kross eða Hjálpræðis?  Hugs, hugs.  Þá þarf ég að þvo góssið.  Æi nenni því ekki, hendi bingnum.

Og ekki orð um það meir.

Ég er að fá gesti í kaffi á eftir, verð auðvitað að flýta mér, en sit hér og reyki eins og sprúttsali við tölvuna (uss ekki segja), er sem sagt í pásu.

Ég ætlaði ekki að pirrast út í "ráðamenn" og næturfrömuði í dag, en svo asnaðist ég inná eyjuna illu heilli.  Þar var Össur efstur á blaði.  Mikið andskotans vitleysan alltaf og montið í honum Össuri.  Nú mærir hann sjálfa sig og dýralæknirinn og svo flatterar hann Geir Haarde (hafið þið tekið eftir því hvað Haarde er orðinn rosalega pirraður í viðtölum, alveg; ég ætla ekki að svara þessu, eða ég var búinn að segja þér það- fílingur? Ég held að það sé einkaþotan sem orsakar þetta, þær gera manni hluti).

Það er ekki nýtt að Össur monti sig og mæri.  En mér finnst gott að vita að Árni er með aðdáenda.  Var reyndar farin að vorkenna manninum yfir að vera sá óvinsælasti fyrr og síðar, en sem betur fer; Össur hreinlega elskar hann.  Þeir einir geta staðið keikir og haldið í taumana á þessari firrtu þjóð.

Hér er monthaninn!

Lífið er bölvuð tík, ég segi það satt.

Muuuuuuuu

Farin að henda.


Morðingjarnir

 164071583_l

Systursonur minn er trommari í Morðingjunum, þeirri frábæru hljómsveit.

Þeir eru með húmorinn í lagi þessir strákar og nú feta þeir í fótspor Bubba, þ.e. neita að taka við íslensku krónunni sem greiðslu.

Er nokkuð betra greiðsluform til, þegar við erum evrulaus og allslaus, en fé á fæti?

Jóna systir tekur kannski að sér að sjá um hýruna fram á haust fyrir minn mann?

Morðingjarnir eru að gefa út nýja plötu og eru með tónleika á föstudagskvöldið í Iðnó.  Þar mun dilkur verða dreginn.

Gleði, gleði, gleði.

Launagreiðendur landsins hljóta að sjá nýja fleti á launamálum og stokka upp krónugreiðslurnar.  Það er hægt að greiða í kjöti, brauði, fiski og slátri, svo við ekki tölum um mjólkurvörur.  Afturhvarf til fortíðar er það sem koma skal.

 Íslenska krónan er dauð.  Morðingjarnir segja það.  Bubbi reyndar líka, en ég tek ekki mark á honum.  Hann er allt of yfirlýsingaglaður.

Ég gerist fisksali.

Það er one tuff motherfucking job.

Ýsa var það heillin.

Úje.


mbl.is Vilja fá borgað í dilkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt svín?

 c_documents_and_settings_hp_owner_my_documents_my_pictures_22_189417

Ég var að versla í matinn áðan, stofustúlkan og böttlerinn eru á ástarfundi á Þingvöllum. 

Nú, það er ekki í frásögur færandi, maturinn rándýr eins og venjulega, en þeir eru farnir að segja manni ítarlega frá uppruna vörunnar hjá Goða.

Á pakkningunni stendur með stórum rauðum stöfum; 100% íslenskt grísakjöt!!!

Og nú spyr ég eins og hálfviti, hvaða andskotans útlendinga eru þeir búnir að vera að selja mér fram að þessu?

Eða er þetta trix?  Miðinn á pakkningunni flennigulur með eldrauðum stöfum.  Ætli ég hafi átt að grípa þetta, líta ekki á miðann (eins og ég hef sögu um, þangað til núna) og hugsa; ók, þetta kjöt hérna er á tilboði?

Ég ætla að setja mér það sem verkefni á morgun og hringja í Goða og spyrja hvers vegna þurfi að taka fram að kjötið sé af íslensku svíni.

Hvað er búið að vera að gerast í stíunni hjá þeim?

Hm..

Meira ruglið þetta.

Svona í péessi má geta þess að kílóið kostaði 1783.  Hva?  Tertubiti.

ARG í vegg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987752

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.