Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

Ein andskotans ráðgáta - ég sverða

 03_sunbathing

Ég er í flippstuði.

Sennilega af því að það er ekki þingfundur á morgun og þá get ég þrifið heimilið og hent út öllu draslinu sem hefur safnast fyrir á meðan ég sat með sjónvarpið í fanginu og horfði á Alþingi.

Ókei, ég er að ýkja en ég er búin að vera voða bissí að fylgjast með af því ég er ábyrgur borgari, kjósandi og dásamlegt atkvæði. 

Ég finn alltaf verulega til mín fyrir kosningar.

Er alveg að hugsa um að hringja í ákveðna pólitíkusa og læða að þeim að miði sé möguleiki.

Heyrðu stjórnmálamaður: Mig vantar almennilegt sumarhús með palli og potti, grilli og á það, rúm og meððí og bíl til að komast.

Ertu geim?

Halló, ég er ekki lúði.  Myndi aldrei biðja um sollis.  Bara alls ekki.

En er heimurinn ekki bilaður?

Kommon, hvers lags firrti heimur er það sem við búum í sem gerir hundategund í Hvíta húsinu að fréttaefni?

Ég meina heimurinn sveltur.  Börn eru að deyja úr hungri og sjúkdómum, það er heil veröld fyrir utan Evrópu og Bandaríkin og við skenkjum því ekki þanka.

Af hverju er enginn markaður fyrir mér, af hverju liggja ekki fréttamenn á línunni?

Jenný hverjar eru matarvenjur þínar?

Hvar kaupir þú í matinn?

Uppáhaldsilmvatn?

Syngur þú í baði?

Bíómynd?

Nei, nei, ekki nokkur áhugi.

Engin spyr mig einu sinni um alla mína fjölmörgu eiginmenn.  Hversu margir eru þeir, hvað varð um þá, eru þeir lifandi?

Enda segi ég ekki orð, varir mínar eru límdar saman.

Ég er ein andskotans ráðgáta, ég sverða.

Lífið er hundstík - í kreppunni.

Úje


mbl.is Hvíta húsið ákveður hundategundina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Járn í járn, brúðkaup í sveit og falleg börn

Eftir daginn í dag þá er ég komin með upp í kok af fléttu- og baktjaldapólitík.

Allt stendur fast, plottið fær á sig nýjar og nýjar myndir.

En...

Í kvöld hef ég horft á bíómyndina Sveitabrúðkaup.

Ég brosti út í annað af og til en líður að öðru leyti eins og að ég hafi verið plötuð illilega.

Myndin var hlaðin lofi af gagnrýnendum.  Halló - erum við að tala um sömu mynd?

sofandi engill

Um helgina voru þau hér í gistingu Hrafn Óli og Jenný Una þau yndislegu systkini.

Hrafn Óli a.k.a. Lilleman/Lillebror, hleypur um allt, opnar og lokar hurðum, réttir ömmu og afa eitt og annað sem hann finnur og segir "kakk" svo fallega.

Svo sofnaði hann í rauðum náttgalla sem stendur á "Here comes trouble" sem er nokkuð nærri lagi þegar hann á í hlut.  Krúttsprengja inn í merg og bein drengurinn og svo fallegur, ekki síst þegar hann sefur.

jenny með pabba.

Og svo er hér ein mynd af Jenný Unu með pabba sínum en hún er á því stelpan að pabbi hennar geti gert alla hluti skemmtilega, líka þá alla hversdagslegustu.

Hrafn Óli er sammála og amman styður erindið líka.

Annars er þessi dagur alveg orðinn nægilega langur.

Farin í lúll, eða að minnsta kosti að hugsa um að fara þangað.

Nótt-nótt á ykkur.


mbl.is Lausn ekki fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hústaka á Hól

Hústökumennirnir á Hólnum sitja sem fastast.

Ennþá...

Annar ætlar að yfirgefa kastalann í júní, hinn kannski aldrei nokkurn tímann, að því er virðist.

En nú er það svo að þetta er ekki í þeirra höndum þó þeir haldi það, ásamt Flokknum sem ól annan og hefur sennilega tekið hinn í fóstur á seinni tímum.

Á morgun kemur nýr dagur (já ég veit það, forspárri en fjandinn sjálfur).

Þá verður nýr þingfundur og á morgun ætla ég að fylgjast með hvort frammíköllin og gelgjustælarnir í prófkjörskandídötum íhaldsins fara þverrandi.

Af því að það er fylgst með grannt með þeim sko, út um víðan völl skilst mér.

En að allt öðru.

Á morgun verður veður, já ég er að segja ykkur satt börnin mín södd og sæl.

Ekki þetta ískalda frostveður sem gerir hárið á manni rafmagnað, svíður í lungun og sprengir á manni varirnar, svo ég tali nú ekki um sprungnar neglur og kalsár á fótum.

Nei það verður rok og rigning.

Er það ekki dásamlegt?

I´m singin in the rain.  Lalalalalalala.


mbl.is Vill að Eiríkur hætti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vill ekki hleypa upp þessu partíi en....

 fíll

Ég vill ekki vera gleðispillir, ég vil ekki hleypa upp partíinu með því að hella úr glasinu mínu framan í næsta mann og ég vil ekki úa þegar allir klappa en kæra ISG ...þú segist myndu vera með á mótmælunum á Austurvelli værir þú ekki í ríkisstjórn.

Sko.. ef þú værir ekki í ríkisstjórn ásamt Geira þá væru engin mótmæli.

Málið er einfalt.

Þjóðin vill kjósa.

Þjóðin vill Seðlabankafílinn í postulínsbúðinni burt.

Þjóðin vill nýtt fólk, nýja sýn.

Nýir vendir sópa best.

Kommon, fólkið fyrst svo flokkurinn segir þú.

Voðalega hljómar þetta eitthvað áróðurskennt og búið til af Sven Ingvars frá Nató.

Fólkið vill kjósa - það er bara þannig.

Það þarf ekkert að draga lappirnar okkar vegna.  Bara svo það sé á hreinu.

Svo má Samfylkingin klappa fyrir þér þangað til hún verður marin á fingrunum.

Að öðru leyti finnst mér þú frábær.

Ójá.


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfallajöfnun

Það er best að skella inn eins og einni fíflafærslu til að áfallajafna.

Ég er nefnilega viss um að það að dagurinn á ekki eftir að verða áfallalaus í pólitískum skilningi og þessi stöðuga óvissa, reiði, og depurð geta drepið heilan hest, hvað þá eymingja eins og moi.

Forstokkað viðhorf mitt í sígarettumálunum er nú orðið mest í nefinu á mér enda ég búin að minnka reykingar niður í nokkrar á dag (misnokkrar múha) og er að verða að löðurmannlegum broddborgara í nikótínhegðunarlegum skilningi.

Hvað um það.

Munið þið eftir myndinni "Leaving Las Vegas"?  Æi þessi um manninn sem ákveður að drekka sig yfir móðuna miklu og tekst það auðvitað?  Nicolas Cage lék aðalhlutverkið.

Sko þessi mynd virkaði á mig þannig að mig langaði ekki til að fá mér í glas lengi á eftir.  Best að taka þó fram að þetta var áður en ég fór að drekka mér til vansa og fjölskyldu minni til ama og sárra leiðinda. 

Ergó: Myndin virkaði vel á mig sem fyrirbyggjandi boðskapur. 

En hún virkaði ekki vel á kæran vin okkar hér á kærleiks sem þá var að reyna að halda sér edrú og gekk verkefnið brösuglega.

Hann sagði mér að þegar hann horfði á myndina hafi gripið hann þessi rosalega brennivínslöngun sem jókst og jókst í takt við dauðadrykkju söguhetjunnar.

Nú hafa Danir gert rannsókn sem sýnir fram á að tóbaksviðvaranir auki reykingar. 

Þetta er nefnilega málið.  Fíkillinn, alkinn eða nikótínistinn lýtur ekki sömu lögmálum og hófsemdarmaðurinn.

Ég hef nefnilega setið og reykt í nikótínfullnægingu á meðan ég les alveg kúl og kæld textana á pökkunum sem eiga að fæla mig frá stöffinu.

"Reykingar drepa". 

Ég alveg: okokok, eitt sinn skal hver deyja.

"Reykingar eru mjög ávanabindandi, byrjaðu ekki að reykja".

Ég alveg stundarhátt við sjálfa mig: Er líklegt að sá sem er ekki byrjaður að reykja liggi og lesi utan á sígarettupakka?  Fífl. 

"Þeir sem reykja deyja fyrir aldur fram"

Ég alveg: Só, ég er fimmtíuogsex ekkert unglamb og kem sterkari inn með hverjum deginum sem líður.  Hvað segirðu um það addna Þorgrímur Þráinsson reykingarstalker og leiðindapúki?

Fíklar finna alltaf réttlætingar.  Hroki og forstokkun er helsta vopnið.

Nú má ég ekki vera að þessu.

Farin út að reykja og á meðan ætla ég að lesa vandlega utan á sígópakkann mér til skemmtunar.

DJÓK


mbl.is Ýtir andróðurinn undir tóbaksfíkn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærri dauð í tveimur löndum

Munið þið þá tíma þegar maður fór til bankastjórans, stillti sér upp í röð og ef maður var ekki nógu snemma á ferðinni varð að endurtaka leikinn daginn eftir?

Jabb, ekki svo langt síðan.  Það sem ég er hins vegar að nostalgíast með er öskubakkinn eða bakkarnir hjá stjóra og niðri í bankanum.

Þvílíkir draumatímar, þ.e. áður en fólk fattaði að það væri sóðalegt að reykja hvar sem er og algjör óþarfi að láta bjóða sér upp á það.

Ég man eftir að hafa setið í Domus Medica og reykt eins og mér væri borgað fyrir það á meðan ég beið eftir að komast til læknis út af hálsbólgu.  Ég minnist þess ekki að neinn hafi verið neitt sérstaklega hissa yfir því.

Þegar afmælis-, fermingar- og brúðkaupsveislur voru haldnar, eða hvar sem fólk kom saman til að gleðjast voru settar sígarettur og kveikjarar á hvert borð.  Það var ekki almennileg veisla ef ekki var boðið upp á Camlel og Viceroy að minnsta kosti.

Áttatíuogeitthvað sat ég löngum stundum á fundum í kvennahreyfingunni og við mökkuðum hver í kapp við aðra þannig að það var ekki líft á samkundunum.  Það var alltaf ein og ein kona sem kvartaði og við afgreiddum það með því að sú væri leiðinleg!

Nú eru aðrir tímar, eða hvað?

Fyrir þremur árum þegar ég var í sumó á Spáni var ég flutt fárveik inn á spítala.

Án þess að ég ætli að tíunda það neitt frekar þá var ég á leiðinni heim og fékk að fara niður í kaffiteríu ásamt húsbandi, Söru minni og spænskri vinkonu, hvar læknarnir mínir sátu ALLIR og þömbuðu bjór og reyktu sig bláa í framan.

Svo gerðist það þarna í kaffiteríunni að ég fór í sykurlost (ekki búið að greina sykursýki), ég froðufelldi þarna á gólfinu í heiftarlegum krömpum og læknarnir stukku til og skutluðu mér á börur (er mér sagt) og tveir þeirra voru í hvítu sloppnum með síuna lafandi úr kjaftinum.

Þeir misstu mig svo af börunum og búmm pang á gólfið.  Það er mesta furða að ég skuli vera lifandi.

En læknarnir voru búnir að sitja þarna og hygge sig yfir bjór töluvert góða stund og voru því drukknir undir sjúkrabörum.  Fyrir nú utan það að það getur verið erfitt að hlaupa með konu í villtum krampa með sígó í kjafti og sjá ekki neitt fyrir reyk.

(Ég lá í heittelskaða og Sörunni sem var komin út til að fylgjast með móður sinni eftir að ég rankaði við mér eftir töluvert langan tíma og hafði gífurlegar áhyggjur af því hvernig ég hefði tekið mig út í krampanum.  Alveg: Flettist pilsið upp í heila?  Var ég með lafandi tungu?  Var ég öll krumpuð í framan?  Ekki, verður minnistap varanlegt ((mundi ekki suma hluti)?  Eina sem ég pældi í hvort ég hafi verið eðlileg en ekki eins og hálfviti í krampanum, jösses).

Ég hef áður sagt ykkur að líf mitt hefur fram að meðferð ekki einkennst af mikilli lognmollu.

Ég hef nefnilega nærri drepist í tveimur löndum.

Á Spáni auðvitað af ofangreindum orsökum og árinu áður á Elmegade í Köbenhavn, hvar ég steðjaði fram á byssukúlu í gengjabardaga.  Byssukúlan tók ákvörðun um að beygja fram hjá á síðustu stundu og ég labbaði alveg vonn kúl mama áfram og klofaði yfir lögregluhindranir og sheferhunda.

Ég var í glasi for crying out loud.

En núna er ég nokkuð örugg með mig.  Bláedrú og meðferðuð á besta hugsanlegan máta.

Dem, þessi færsla átti aðallega að vera um þegar allir reyktu alls staðar og kvikmyndastjörnurnar fengu háar fjárhæðir fyrir að reykja í bíómyndum.

Æi, ég er eiginlega fegin að það má ekki reykja út um allt.

Það er ógeðslega ógeðslegt.

Ég vil að minnsta kosti að mínir doktóres séu edrú í vinnunni og ég krefst þess að þeir séu löngu hættir að reykja.

Þíjú.

 


mbl.is Kvikmyndastjörnur fengu stórfé fyrir að reykja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég dey - nú þá dey ég - lifið með því

Ég hef fengið svo mörg brjálæðisköst um ævina vegna köngulóa að ég held að ég sleppi því núna.

Skrýtið hvað "úlfur, úlfur" heilkennið hittir mann stundum fyrir.

Ég er búin að fabúlera um það margoft á blogginu hvað ég myndi gera ladídadída ef ég gengi fram á eitraða óskapnaði í köngulóarformi og lýsa því fjálglega.

Núna, hins vegar, þegar innrás ógeðanna er hafin þá nenni ég ekki að garga, nenni ekki að hoppa hæð mína og nenni ekki að gúggla viðbjóðinn til að kanna með einkenni af biti frá viðkomandi langlöpp og hvernig á að bregðast við þeim.

Það er af sem áður var, mér er virkilega að förlast.

Einu sinni rétt áður en ég flutti til Íslands frá Gautaborg fór ég að hitta vin minn á kaffihúsi í hádeginu.  Ég keypti mér GP til að lesa á meðan ég beið.  Á forsíðunni var mynd af Tarantúllu sem hafði sloppið úr búri hjá löggunni, að mig minnir.  Ég hoppaði nánast upp á borðið þarna inni í kaffihúsinu og um mig fór þvílík skelfingarbylgja og mér leið eins og hún hefði farið rakleiðis að leita að mér haldin einbeittri þráhyggju á minni persónu.

Og ég gat varla horft á Charlotte´s web með henni Jenný Unu út af þessum köngulóartryllingi.

Ótrúlegar svona fóbíur.

Þegar ég las þessa frétt þá hugsaði ég - fóbíu minni trú - nú hafa ættingjar þessarar þarna í Reykjanesbæ verið sloppnar á undan henni í bæinn.W00t

Og það fór um mig hrollur og mig klæjaði út um allt.

En svo nennti ég ekki að vera með læti.

Ég er orðin svo leið á sjálfri mér veinandi og gargandi með líkurnar 1/trilljón eða nánast.

En ef þær koma - þá dey ég. Dílvitðit!

Það er ekki öðruvísi.

En þá verða ansi margir hryggir.  Ég er svo unaðslegur persónuleiki.

Liggaliggalá.


mbl.is Risakönguló í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mamma Mía minn afturendi

abba

Þó ég viti vart hvort ég er að koma eða fara þessa dagana þá er ég með suma hluti á hreinu.

Ég ætla ekki að sjá Mamma Mia þó mér yrði boðið þangað af sjálfri Sylvíu Svíadrottningu.

Sem er ekki mjög líklegt.

Ég hafði gaman að Abba þegar þeir unnu Eurovision og það tók af skelfilega fljótt.

Steingelt tyggjókúlupopp nú eða blöðrupopp að mínu mati.

En þegar ég fer að pæla í þessu, af hverju ég get ekki bara haft gaman að svona uppákomum þá verður mér algjörlega svara vant.  Ég hreinlega urlast upp.  Og tilhugsunin um að sitja í Háskólabíó og SYNGJA og dansa með myndinni fær mig til að lúta höfði. 

En svona hef ég sennilega alltaf verið varðandi söngvamyndir.

Sound of Music, ég get ekki enn gleymt því hvað mér fannst hún glötuð, það eru ekki margar svoleiðis myndir sem toppa hana.  Ég fór með systur mínar og var á gelgjunni, ég skammaðist fyrir að láta sjá mig á þessari mynd, þær skömmuðust sín fyrir að láta sjá sig með mér sem var vægast sagt ekki til fara á hefðbundin hátt.

Og afhverju féll ég ekki í stafi yfir Julie Andrews?

Jú, einfalt mál.  Nunna sem er svo lífsglöð að henni er ráðlagt að yfirgefa klaustrið (til að misbjóða ekki guði með gleðilátum ímynda ég mér) og gerast barnfóstra milljón barna og svo fær hún algjöra fullnægingu yfir að hugsa um barnahópinn móðurlausa, neita sér um allt og fórna sér endalaust og botnlaust fyrir famílíuna Tramp.  Svo slær hún smiðshöggið á ósómann og giftist pabbanum í lok myndar.  Og í allri þessari fórnarlambsblóðbunu sem stendur aftan úr Julie Andrews í að bjarga heiminum þá brestur hún út í söng í tíma og ótíma.

Fyrirgefið á meðan ég æli.

Og ég man eftir Sommer Holliday með Cliffanum og The Yong Ones með sama átrúnaðargoði. Ég horfði á þessar myndir aftur og aftur út af Cliff, ég var ástfangin af honum þegar ég var ellefu og maður þolir ýmislegt fyrir ástina.  Ég var ákveðin í að giftast manninum.

Bítlamyndirnar voru í lagi af því þeir voru töffarar.

Singing in the Rain er klassíker sem ég hafði gaman af en ég nenni ekki að horfa á hana aftur og aftur.

Bíðum nú við, fleiri? 

Örugglega, en mannsheilinn hefur þann dásamlega eiginleika að geta gleym skelfilegum upplifunum.

Mamma Mía minn afturendi.

P.s. Það má geta þess að ég hef ekki talað við kjaft sem ekki hefur elskað viðkomandi mynd.  Ég verð að játa mig utangarðs og það ekki í fyrsta skiptið.


mbl.is Mamma Mía! þvílíkur fjöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er akademískur kynþokkaskoðari

Ég tel mig vera sérfræðing í kynþokkafullum karlmönnum, eins og reyndar flestar konur.

Kannski er ég þarna með sérfræðikunnáttu sem ég gæti gert mér peninga úr.

Ég gæti til dæmis haldið keppni um kynþokkafyllsta karlmann Íslandssögunnar - nebb gengur ekki, kynþokki er yfirleitt aðstæðnabundinn og sést ekki eftir pöntun.

Ég hef orðið svo yfir mig hástemmd af kynþokkamönnum að ég hef átt það til að giftast þeim af einskærri góðmennsku við vísindasamfélagið, til að geta rannsakað nánar þessa guðsgjöf náttúrunnar.

Ég er akademískur kynþokkaskoðari.

En..

Sebastian Tellier hefur ekki únsu af kynþokka í mínum bókum, fyrirgefðu karlinn en það eru margir kallaðir en fáir útvaldir.  Svo er ekkert að marka mig á þessum síðustu, ég fann nefnilega prótótýpu kynþokkans í húsbandi, þannig að ég er hætt að spenna augun.

Leitir og þér munuð finna.  Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Svo eru sumir karlmenn löðrandi í kynþokka í augum einnar  en nördar og törnoff í augum þeirrar næstu.

Úff ég gæti sagt ykkur sögur.W00t

En ég ætla ekki að gera það perrarnir ykkar.

Kevin Spacy var gangandi kyntröll síðast þegar ég sá hann.  Samt held ég að hann sé hommi.  Bömmer fyrir konur heimsins ef rétt reynist.

Lennon, lokið mig inni, röddin, röddin, röddin.

Hugs, hugs, hugs,

Augun á Sigmundi Erni Rúnarssyni eru ákjósanlegur staður til að drekkja sér í á góðum degi, en til að forðast það að stökkva á flatskjáinn og stórslasa á sér andlitið er um að gera að loka augunum stelpur mínar.

Baltasar Kormákur er kjörið verkefni fyrir listamenn heimsins.  Manninn í brons, hann er fallegur drengurinn.

Hvernig stendur á því að ég man ekki eftir neinum sláandi kynþokkalöðrandi karlmanni fyrir utan ofannefnda?

Er mér að förlast?

Ég veit að þeir eru ógeðismargir en hugur minn er tómur.

Ég gæti hins vegar talið upp og verið að í allan dag, törnoffin í þessari deild.

En ég vil ekki láta súa mér.

Þeir hlaupa á þúsundum.

Og svo get ég sagt ykkur leyndarmál.  Ég er svo höll undir hið skrifaða orð að ég hef reglulega orðið ástfangin af rithöfundum.  Bara vegna þess að þeir eru svo þokkafullir í skrifum.

Og ég hef orðið bergnumin af bókaútgefanda, setjara, prófarkalesara og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég er nörd.

Úje.

P.s. að allt öðru.

Sara dóttir mín bað mig að setja þennan link inn svo hann væri aðgengilegur fyrir alla.

Endilega kíkið hér.

 


mbl.is Kynþokki í Öskjuhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli lólítu graðnaglinn

aaa 

Ég minntist á það um daginn að við hér á kærleiks hefðum horft á Stones-myndina Shine a Lihgt.

Mér fanns hún frábær.  Það er eitthvað svo ótrúlega sjarmerandi og æðislegt að horfa á kallana á sviði.  Þeir eru að verða betri og betri.

En..

Merkilegast var að fylgjast með glæsilegasta mannflaki í heimi, af því hann var brosandi eins og gamall afi, alltaf að beygja sig niður að áheyrendum og stundum gaf hann þeim eitt og annð.  Keith er ofurkrútt.

Og svo var það Wúddarinn, hann var edrú for crying out loud.

Rosalega var skrýtið að sjá manninn allsgáðan á sviði.  Í staðinn fyrir að vera eins og löngu dáinn indjáni á hugbreytandi sveppum, dettandi um allt, þá var hann í þetta skipti eins og gamall maður af sama kynstofni og að ofan sem hefur aldrei gert annað en að úða í sig lífrænu grænmeti og stunda sunnudagaskóla.  Til hamingju Ronnie.

En svo féll hann á frumsýningunni, fór á séns með stúlku sem vart er búin að missa mjólkurtennurnar.  Ronnie getur verið langafi þessa barns og gott betur.  En hvað um það hann hunskaðist í meðferð.

Elsku karlinn, hann segist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga.  Elskar eiginkonu og barn sko barnið sem hann sefur hjá.

Ef ég gæti fengið tíu mínútur með gamla manninum þá myndi ég segja honum að líkurnar á að rússneska telpukornið sé í alvörunni ástfangin af honum séu stjarnfræðilega litlar.

Auðvitað gerast ævintýri af og til, en halló var Anne Nichole hrifin af sínum öldungi? 

Hvaða unglingur fellur fyrir tinandi gamalmenni eins og Ronnie bara vegna hans föngulega ytra byrðis og án tillits til innistæðna í bönkum? 

Annar skil ég svona karla.  Þeir eiga allt, geta alls staðar fengið óskir sínar uppfylltar.

Kannski er honum slétt sama hvort hún er að segja satt eða ekki.

Gamli lólítu graðnaglinn.

Fyrirgeifð á meðan ég..

dingla mér.


mbl.is Wood veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.