Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Með gigg í Vesturbænum

Þessa sumars verður minnst sem ferðasumarsins mikla hér á þessu heimili.

Og það án þess að farið hafi verið í eitt einasta alvöru ferðalag.

Ferðirnar eru á milli bæjarhluta ofkors en í því liggur öll þessi móbilisering.

Í síðasta mánuði vorum við á Leifsgötunni að passa íbúð og kött meðan Sara og fjölskylda voru í Sverige hjá tengdós.

Og nú er það Vesturbærinn.  Á mánudaginn ætlum við að flytja á ákveðna götu hvar við munum halda elsta barnabarninu honum Jökkla selskap á meðan móðir plús kærasti spássera um götur bæja og borga á Ítalíu.

Minn heittelskaði segir að við séum með gigg í Vesturbænum og mér finnst það vel til fundið að nota bransamál um verkefnið.

Mér finnst sko ekki leiðinlegt að vera á leiðinni í minn elskaða Vesturbæ, hvar ég dvaldist stóran hluta ævi minnar.

Mér líður hvergi betur í þessari borg.

Og svo er Jökull góður félagsskapur, lyktin er góð, útsýnið fallegt og lífið eitt eilífðar kertaljós.

Er hægt að biðja um meira?

Ég veit það ekki en ég er farin að útbúa giggið.

Síjúgæs.


Samtakamátturinn virkar - úje

Mál Paul Ramses verður tekið fyrir á ný vegna þess að ónógar upplýsingar voru taldar fyrirliggjandi þegar málið var tekið fyrir og Paul sendur úr landi.

Á minni íslensku þýðir þetta einfaldlega:

Mál Paul Ramses, sem tekinn var höndum af lögreglu, færður í steininn í skjóli nætur og sendur úr landi, verður tekið fyrir vegna þess að það er réttlætismál.  Maðurinn er í hættu í heimalandinu.  Málið er tekið fyrir vegna þess að það er það eina rétta í stöðunni og ekki gleyma að almenningur fríkaði út, var með læti og heimtaði réttlæti til handa Paul Ramses OG öðrum í svipaðri stöðu.

Ég efast ekki um það eina mínútu að þarna skilar sér sú reiði og þau mótmæli sem fóru af stað þegar málið var upplýst.

Samtakamátturinn er ekki ímyndun.  Hann virkar.

Mikið skelfing er ég glöð fyrir hönd þessarar litlu fjölskyldu.

Til hamingju, innilega til hamingju.

Og að næsta máli.

Minn heittelskaði er á leiðinni heim að horfa á leikinn.

Hvað gerir kona sem trúir því að hún sé bad luck á íþróttakappleiki?

Að sá tapi sem hún heldur með?

Nú hún horfir á leikinn og heldur með Færeyjum!

Það ætti að virka.

Jija-you Björn Bjarnason, jia-you Paul Ramses,

Jija fokking you - öll íslenska þjóðin.

Ég er nú hrædd um það og allir saman nú.

 


mbl.is Mál Ramses tekið fyrir á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáið þetta!

Þessi pistill hér útskýrir heldur betur allt um laxveiði og pólitík..

Þetta grunaði mig.

Fuss og svei.


Sussussu

 fiskimaður

Nei sko, þarna er kominn nýr karlaklúbbur hjá meirihluta í borgarráði.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Óskar Bergsson, Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvason.

Það hefur auðvitað ekki verið neinum hæfum konum til að dreifa í flokkunum.  Hvernig læt ég allar konurnar gegnar úr Framsókn. Sussusuussu.

En innilega til hamingju strákar.

Á ekki að skella sér í veiði og innsigla bræðraböndin?

Súmí!

 


mbl.is Kosið í borgarráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jia-you Maó formaður

Húsband (spenntur): Hvernig fór leikurinn í morgun?

Ég: (kúl eins og agúrka): Við unnum sá ég á blogginu.

Hb: Ha, unnum við, váváá, veiveivei, ég meina það, algjör gapandi brilljans.  Ertu ekki glöð?

Ég: Ha, jújú, en það var ekki verið að leysa hungurvandamál heimsins, rólegur á gleðilátunum.

Hb: Gerir þú þér enga grein fyrir hvað þetta er mikið afrek, við erum komin í úrslitabaráttuna??

Ég: Jú ég heyri það og sé bæði á þér og bloggheimum.  Þið eruð í skýjunum yfir strákunum "ykkar".

Hb: Hvernig er hægt að verða ósnortinn?  Og Þorgerður Katrín á leiðinni út aftur bara allt að gerast (hér læddist kvikindislegt glott yfir ásjónu eiginmanns, hann veit hvað ég er viðkvæm fyrir ferðalögum ráðamanna til Kína).

Ég (kuldalega): Villtu ekki slást í för með henni bara.

Hb: Þú ert algjört gleðispillir.  Þetta er stórkostlegt fyrir Ísland.

Ég: Jia-you Þorgerður Katrín, Jia-you þú elskan og Jia-you Mao formaður.

Hb. Ha???

Ég var búin að lesa Moggann ekki hann. 

1-0 fyrir mér.

Úje


mbl.is Jia-you Is-land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákarnir í geiminu

Það er þetta með strákana í geiminu, sko valdageiminu, þeir sjá ekkert athugavert að þiggja boð í laxveiði í eina af dýrustu ám landsins frá vinum sínum til "fjölda ára".

Það er ekkert verið að hygla neitt og ég ekki vanur því að láta hygla mér með eitt eða neitt segir Villi Vill.

Halló Vilhjálmur, ef mér eða einhverjum nóboddí væri boðið það sama af vinum okkar þá myndi maður reka upp stór augu og spyrja; vá varstu að vinna í Lottó, hvernig náðir þú í þetta ógeðslega dýra veiðileyfi?  Og þegar ég kæmist að því að heilbrigðisráðherrann og fleiri toppar væru með í flotteríinu plús makar á pakkann og það væri svona leiðsögumaður á kjaft í fokkings ánni þá myndu fara að renna á mig tvær grímur.

En það renna engar grímur á Vilhjálm og hina strákarnir í valdageiminu.  Þar er það  "buisness as usual" að vera boðið í svona grand ferðir.

Svo finnst þessum mönnum vægast sagt undarlegt að við treystum þeim ekki.

Og Vilhjálmur þvertekur fyrir að REI hafi komið til tals í veiðiferðinni og hvað þá sameining við Geysi Green enda hafi sú hugmynd ekki komið til tals fyrr en rúmum mánuði síðar.

Þetta eigum við almenningur að taka gott og gilt jafnvel þó ýmislegt bendi til að þarna hafi strákar verið að ráða ráðum sínum á fokdýrum árbakkanum.

Við eigum að vita að þeir séu ekki að gera neitt annað í veiðiferðum drengirnir en að rækta vináttuna sem staðið hefur frá blautu barnsbeini.  Að þeir ráði ekki ráðum sínum á bak við tjöldin.  Jájá og tunglið er búið til úr osti.

Ég er eiginlega komin á þá skoðun að stór hluti íslenskra stjórnmálamanna eigi að fara í meðferð.  Og þá er ég að tala um enduruppeldis- og siðferðismeðferð.

Eða þá haska sér í frí - laaaaaaaaaaangt frí.

 


mbl.is Vilhjálmur Þ.: Ekkert annað en vinarboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banna búsið

Ég var ekki par glöð þegar það var sett á reykingabann í háloftunum.  Fannst alveg nógu stressandi að fljúga þó mér væri ekki bannað að reykja líka.

En það vandist fljótt, enda hálf ógeðsleg tilhugsunin um þetta tiltölulega litla rými, kjaftfullt af fólki sem oft er með börn, að spúa nikótíni yfir allt og alla.  Ekki geðslegt eða hvað?  Ég er dedd á þessu þrátt fyrir að vera innmúraður nikótínisti og í opnu og utanáliggjanda stríði við reykingarbannið á öllum opinberum stöðum.

Ég er fyrir löngu orðin þreytt á síendurteknum flugdólgsuppákomum í háloftunum.  Ég vil alls ekki að blindfullar manneskjur stefni öryggi mínu og annarra í stórhættu með framferði sínu.

Þarf eitthvað alvarlegt að gerast til að flugfélög átti sig á að þetta gengur ekki?

Nikótínneysla var bönnuð um borð.

Nú á að hætta að selja áfengi á sama hátt.

Burt með búsið, ekki flókið.

Hvað þarf fólk svo sem að vera að hella í sig áfengi á meðan á flugferðinni stendur?

Fólk getur bara sofið í hausinn á sér og hrunið svo í það á eigin ábyrgð með fast land undir fótum.

Icelandair, ganga á undan með góðu fordæmi.

Komasho.


mbl.is Lét ófriðlega í farþegaflugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með grillið

Ég veit ekki með ykkur en ég er komin með algjöra gaskútafóbíu.

Það er eins og nú orðið þá séu þeir springandi út um allt.

Ég er með einn á svölunum með bölvuðu gasgrillinu sem ég þarf að losna við.  Ég nota það sjaldan, það er reyndar smá ryð í því sumstaðar en annars stendur það bara þarna og tekur pláss.

Hvert fer maður með grill sem maður ætlar að henda?

Ég ætla nefnilega að fá mér kolagrill.

Aðalástæðan fyrir þessu er gaskúturinn sem ég er hrædd um að springi anytime.

Svo er auðvitað út úr kú að vera með gaseldavél á svölunum.  Ég meina það er ekkert grillbragð af gasgrilli.

En annars er ég góð. 

Ætlið þið börnin góð ekki að mæta á palla í ráðhúsinu á fimmtudaginn?

Við þurfum að safna okkur saman og verða vitni að þessum sögulegu breytingum hjá borginni.

Eller hur?

En nú er ég farin í bili, ætla að horfa á Tudors.

Garg í boðinu.


mbl.is Eldur logaði í gaskút í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..dansað á línunni?

 linudans

Ég hef orðið svo fræg að fara á Kántríhátíðina á Skagaströnd sem nú heitir Kántrídagar.  Hvaða dagaæði hefur gripið um sig um allt land?  Enginn frumleiki til í jöfnunni?

En hvað um það, rétt fyrir aldamótin fór ég með hljómsveit húsbandsins sem hafði ráðið sig til að spila þarna vegna þess að díllinn var góður.  Þeir spiluðu blús og rokk strákarnir en engu að síður voru þeir beðnir um að koma.  Og við héldum á svæðið.

Við sváfum í Félagsheimilinu.  Það verður ekki á gestrisni Íslendinga logið.  Mig minnir að þetta hafi verið dýnufyrirkomulag í fyrrverandi sturtuklefa.  Okkur leið ágætlega samt, enda ýmsu vön.

Á föstudagskvöldinu var bandið á einhverjum pöbb (Kántríbær?) og þar var hið undarlegasta samansafn af fólki aðallega mönnum sem langaði í slag.  Merkilegur fjandi og fyrirgefið Skagaströnd, þetta voru tvímælalaust utanbæjarmenn.Halo

Gömul vinkona var á staðnum að kenna dans (línudans nema hvað) og hún hélt mér selskap.  Ég man ekkert sérstaklega eftir þessari hátíð að öðru leyti en því að þarna var enginn, ekki kjaftur sem var ekki sérfræðingur í línudansi.

Og það var stöðugt verið að gera tilraunir til að draga mig út á gólf.  Fyrirgefið en ég mun aldrei dansa línudans og það sagði ég þessum dansandi, kábojklæddu konum.

Þær alveg: En maðurinn þinn spilar kántrí og þú kannt ekki að dansa línudans????

Ég: Hann spilar ekkert kántrí og þó hann gerði það þá myndi ég aldrei fara út í þá fótamennt.

Þær litu á mig undrandi og sögðu í línudanskór; hann spilar víst kántrí. Okokok.

En ástæðan fyrir færslunni er einfaldlega sú að þarna þurfti ég að horfast í augu við fordóma mína og heimóttaskap.  Mér finnst kántrí svo plebbalegt og það er tengt við svona frekar undarlegt fólk í Ameríku.  Ég skammaðist mín fyrir að einhver gæti mögulega haldið að ég væri áhugamaður um tónlistina, lífernið, móralinn og dansinn.  Ég gæti ýtt mér í vegg af pirringi út í heimsku mína.

Þess vegna sat ég þarna og með nefið upp í loft, með ískaldan fyrirlitningarsvip á andlitinu og taldi mínúturnar þar til ég kæmist í sturtuklefann.

Ég var lúðinn, ekki spurning, því ég held svei mér þá að ég hafi verið eina kvikindið á staðnum sem EKKI skemmti mér.

Allir hinir voru í geðveiku fjöri og það sást langar leiðir.

Fruss hvað ég sé eftir þessu, ég hefði átt að henda mér í dansinn og hafa gaman af.  Það var held ég enginn sem þekkti mig þarna.

En síðan hef ég ekki komið nálægt Skagaströnd.

Húsband talar enn um hvað þetta hafi verið undarleg en skemmtileg lífsreynsla.

Og þá grjótheld ég kja...

Já ég er ekki í lagi en ég hef þroskast smá síðan þá. 

Hér er svo lagið sem húsbandið lagði á sig að læra til að geta skemmt á kántríhátíðinni (ásamt fleirum auðvitað).


mbl.is Góð stemning á Kántrýdögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Botnlaus bömmer í borginni

 sad-unhappy-sick-green-face

Löðrið í borginni freyðir sem aldrei fyrr.  Allir miðlar eru fullir af samsæriskenningum og í hádegisfréttunum var Geir Haarde spurður um þreifingar íhalds á Framsókn og hann var eins og sprúttsali í framan þegar sagðist ekki kannast við neitt slíkt.  Ekki mikið pókerandlit á Geir.

Og Gísli græni hjólar úr borgarráði.  Ég skil hann vel, reyndar er hann með geðþekkari Sjálfstæðismönnum í borginni.  Maðurinn er bara í röngum flokki eins og svo margir.

En svona "grænn" eins og Gísli er þá er það verulega "bláeygt" af honum að ætla að fljúga á fundi tvisvar sinnum í mánuði.  Kommon Gísli veistu um mengunina sem svona flugmaskínur búa til?

Hafi ég einhvern tímann reynt að telja mér trú um að pólitík væri fyrst og fremst framin af hugsjónamönnum sem vildu vinna fyrir almúgann (já ég veit ég er bæði græn OG bláeygð) þá hefur sú útópía fokið út um gluggann við undirspil Ólafíumeirihlutans.

Refskákin sem er spiluð þessa dagana í borginni hefur sannfært mig um að það þurfi sterk bein til að vera í pólitík og tölverða klækjakunnáttu líka. 

Fer Ólafur út og Óskar inn?  Verða bæði Ólafur og Óskar inni með íhaldinu?

Löður hvað?

Ég geri mér ekki miklar vonir um að Óskar láti eiga sig að hlaupa til og hjálpa Sjálfstæðismönnum ef Óli verður rekinn.

En auðvitað væri það hið eina rétta.  Láta meirihlutann sjálfan um að þrífa í kringum sig.

Vei þeim flokki sem fer með íhaldinu í nýjan meirihluta og hjálpar þeim að sitja við völd á eftir það sem undan er gengið.

Sá flokkur verður líkalega minnið eitt eftir næstu kosningar.

Nema að ég sé svona græn og bláeygð og hafi ekki hundsvit á því hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni.

Ég vona sannarlega að ég sé ekki svo mikill klækjarefur að kunna að lesa í þetta sjónarspil í Borg óttans.  Ég kýs frekar að botna ekki neitt í neinu, vita ekkert og vera bara með andlitið í núllgír.

Eins og Geir Hilmar Haarde í sjónkanum í hádeginu.

Oghananú.


mbl.is Gísli Marteinn hættir í borgarráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.