Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Íslandi allt - úje

Þegar Íslendingar byrjuðu að flykkjast í sólarferðir voru fjöldafylleríin svakaleg.  Flugvélarnar dúuðu og ölóðar kerlingar og karlar hræddu líftóruna úr starfsfólkinu um borð.

Svo var djammað og djúsað í þessar vikur sem dvalið var á Spáni og það vita allir sem kæra sig um að íslenska þjóðin var sér til skammar á Spánarströndum fyrir að kunna ekki að haga sér í ferðalögum.

Svo má ekki gleyma matnum sem fólk tók með sér, það átti ekki að fara að éta baneitraðan hroðbjóð spánskra villimanna - ónei, hangikjötið, fiskbúðingurinn og saltfiskur var tekinn með.

Sumir voru að selja saltfisk í fríinu.  Jabb, þetta var skrautlegur tími.

En það var þá.

Í Danmörku hér á árum áður var talað um að þekkja mætti Íslendinga og Svía á Strikinu án þess að heyra hvaða mál þeir töluðu.

Svíarnir þekktust af því þeir þvældust á göngugötunni dauðadrukknir.

Íslendingarnir þekktust af því sama plús að þeir voru með milljón innkaupapoka í eftirdragi.

Það eru alltaf einhver alkahólíseruð þjóðarbrot að þvælast út um heimsbyggðina í leit að fjöri.  Svei mér þá ef þetta skiptist ekki reglulega á milli þjóða.

Svíar vilja meina að Finnar séu nánast óalandi og óferjandi með víni.  Þeir fari í flokkum og hafi hátt.  Vilji slást.  Satana perkille.

Og nú er enska þjóðarsálin að gera sig fræga á Spáni vegna fylleríishegðunnar sem oft endar með sjúkrahúsvist.

En hvaða þjóðarbrot göslast hér um á Íslandi eins og bilaðir valtarar? 

Finnar?

Danir?

Fólk frá Balkan?

Englendingar?

Svei mér þá ef nokkur þjóð toppar okkur Íslendingana í fönninu.

Við erum best í öllu.  Ávallt og allsstaðar.

Sjáið handboltaliðið í Peking.

Íslandi allt - úje


mbl.is Breskir ferðamenn hegða sér illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Potemkintjöldin í Kína

Það er ekkert nýtt að sett séu upp leikrit til að blekkja fjöldann.

Potemkin reisti stærsu leiktjöld sögunnar þegar hann fór með Katrínu miklu á yfirreið yfir ríki hennar og reisti þar hús sem voru framhliðin ein,  fékk hálfdauða bændur og búalið til að standa með blóm við veginn ásamt fjölmörgum fleiri blekkingum og Katrín mikla og fylgismenn hennar féllu fyrir öllum sjónhverfingarpakkanum.

Þannig að ég er ekki hissa þó Kínverjar sem eru meistarar blekkinganna, grípi til þess ráðs að blekkja heimsbyggðina og kínverskan almenning í leiðinni.

En þeir ættu ekki að þurfa þess, ráðamenn víða úr heiminum vaða á leikana og taka þátt í eða leggja með þeim hætti blessun sína yfir mannréttindabrot gestgjafanna án þess að vera að velta fyrir sér eitthvað sérstaklega hvað að baki býr, hvað er blekking og hvað er raunveruleiki.

Annars sé ég ekki hverju skiptir hver syngur og hver sést.

Hvort flugeldar eru tölvugerðir eða alvöru.

Eða hvort áhorfendur á pöllum eru sjálfboðaliðar eða gestir sem hafa borgað sig sjálfir inn á leikana.

Allt eru þetta algjör aukaatriði.

Það er raunveruleikinn sem ég gapi yfir.

Meðferðin á kínverskri alþýðu er það sem mér finnst hreint skelfilegt að vita um og  enn skelfilegra  til þess að hugsa að íslenskir ráðamenn skuli taka þátt fyrir mína hönd og annarra landsmanna.

Blekkingar hvað?


mbl.is Allt í plati í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hegðið ykkur á meðan ég sef

Þá er þessi sunnudagur liðinn og kemur ekki aftur. 

Ég er búin að vera skjálfandi úr kulda í allan dag vafin innan í peysur og hef farið tinandi eins og gamalmenni á milli stóla.  Lesandi.  Það hefur bjargað lífi mínu í þessu furðulega kuldakasti sem hefur herjað á mig frá því ég opnaði augun blásaklaus í morgun að vera með góða bók.

Ég er að lesa svo magnaða bók sem heldur mér í heljargreipum.  Glerkastalinn heitir hún og er glæný úr prentsmiðjunni.

Ég blogga auðvitað um þessa bók en ég lofa ykkur að þessa verðið þið að lesa.

Stundum er sjálft lífið lygilegra en nokkur fantasía.  Hrífandi frásögn bandarískrar konu af æsku sinni.  En meira um það seinna.

Ég ætla að vona að ég nái upp í eðlilegan hita þegar líða fer á vikuna.  Ég ætla nefnilega í berjamó.  Jess og ég er ekki að ljúga.  En ég veit ekki hvert er best að fara til berja svona dagstund og er að hugsa um að hringja í lækni sem ég þekki og fá hjá honum upplýsingar.  Hann er berjamaðurinn með ákveðnum greini í EINTÖLU.

Og svo er verið að segja mér að rabbarbari vaxi eins og mófó upp í Skammadal og það sé ölum frjálst að rífa hann upp með rótum og fara með heim.

Miðað við efnahagsástandið og veiklulega innkomu undirritaðrar (má lesa um það hjá Gurrí, muhahahaha) verður maður að fara að nýta sér allar mögulegar matarholur.

En...

Mér finnst ég verða að blogga um nálgunarbannsmálið sem er að kæfa mig úr reiði en það er sunnudagskvöld og ég bíð til morguns með að springa.

En þá verð ég líka óð á lyklaborðinu.

Nigthy - nigthy.

Hegðið ykkur á meðan ég sef.


Spenna og tilhlökkun - úje

Stundum þegar eitthvað stendur til er ég eins og barn á jólunum.  Að kafna úr spennu og tilhlökkun.

Það er í gangi núna, ójá.

Lítill snáði kemur til landsins í kvöld með ömmu-Brynju og pabba sínum og hann ætlar að vera hér í viku og svo fer afinn með hann aftur til London.

20080729140824_0

Mayan kemst ekki að þessu sinni, en það verður ekki á allt kosið.

Jenný Una sagði við mig í símann áðan frá Svíþjóð að hún ætlaði að flýta sér í fluvvélina til að leika við OlivÉr og hann má alveg klappa kisan mín.  Þannig að það verður mikið fjör og læti þegar þau hittast Oliver og hún.

Amman er í spreng.

Farin að taka blóðþrýsting.  Nei, nei, farin að smóka.

20080729175158_11

Jökull getur farið að kenna frænda sínum á gítar. Jájá.


Reynir Trausta flottur og hvað með Ramses?

Þegar ég skipti um skoðun, sem gerist reglulega þá hika ég ekki við að snúa mér í hring.

Í fyrra var ég að röfla yfir því að fólk færi og lægi í skattaskránum að drepast úr forvitni um náungann.

En..

Ég hugsaði það mál ekki til enda.  Auðvitað eiga þessir pappírar að liggja frammi.  Það er ekkert einkamál hvers og eins hvað þeir borga í skatta.   

Svo rakst ég á þennan pistil hjá honum Reyni Trausta og hann er frábær og segir allt sem segja þarf.

Ríkið það er ég.  Lesið.

Og talandi um að skipta um skoðanir reglulega.

Hm..

Ég er algjörlega að kúvenda í ESB-málinu.  Þvert á stefnu þess flokks sem ég kaus.  Það er bara kommon sens held ég að vilja út úr þessari krísu sem krónan setur okkur í.  Ég held að ég sé að verða heitur Evrópusinni, Ésús minn.

Og hvað meira, látum okkur nú sjá, hugs, hugs, hugs, flett, flett, flett,

æi það eru fleiri mál, ég man þau bara ekki í augnablikinu en ég man eitt.

HVAÐ LÍÐUR MÁLINU HANS PAUL RAMSES OG ER KONAN OG BARNIÐ EKKI ENN Á LANDINU?

Koma svo og vinna vinnuna BB og hætta að pirra sig á ÓRG.  Það er ekki frumlegt.

Aðrir geta verið í því. Jájá.

 


"Allt fínt bara"

Það eru skemmtilegir tímar framundan hjá mér.  Skemmtilegasta fólkið í lífi mínu verður allt saman komið á landinu í vikulok.

Jökull, elsta barnabarnið kom frá Króatíu og öðrum nálægum löndum, á sunnudaginn.

Oliver kemur frá London á fimmtudaginn í fylgd pabba síns og ömmu-Brynju og hann verður í viku.

Og á föstudaginn koma Jenný Una og Hrafn Óli (Lilleman) frá Svíþjóð með foreldrum sínum eftir hálfsmánaðar dvöl í heimalandi pabbans í jöfnunni.

Ég er öfundsverð kona.

Í dag ringdi lítil stúlka í ömmu sína frá Svíþjóð og hafði margt að segja.

Hún hafði veitt frosk (sko einn frosk amma) í morgun, týnt blóm og bakað súkkulaðiköku með farmor.  "Amma ég kann alveg að baka svoleiðs aþþí þú kenndir mér það".

"Ég get ekki komið heim alleg skrass amma ég þarf að vera líka hjá farmor og farfar". (Amman hlýtur að skilja að barn þarf að skipta sér á milli aðdáenda).

Og hún hélt áfram.

"Amma það var stór fluga sem reyndi að drepa mömmu mína".W00t

Amman: Og hvað sagði mamma þín þá?

Jenný: Allt fínt bara.

Og amma, það er vondur maður í skóginum sem stelir börnum.  Farmor sagði mér þa þegar við var að týna ber fyrir klukkutíma! (Klukkutími þýðir að það er mjög langt síðan).

Amman: Og varstu ekki hrædd?

Jenný: Nei bara smá ég skammar hann bara.  En amma ég kem bráðum heim með fluvvélinni.  Þú verður mjög glöð.  Þá ætla ég að vera hjá ykkur og fá nammi.  Ókei?

Amman kastaði sér í vegg haldin ólýsanlegu krúttkasti yfir öllu því smáfólki sem hefur komið inn í líf hennar yfirleitt.

Börn eru besta fólkið.


PR- liðið samt við sig

 camping

Erill vinur minn hefur ferðast eins og motherfucker um landið yfir helgina.  Gert usla hér, annan þar, algjörlega eins og af honum er ætlast.  Þessi náungi lætur mann aldrei verða fyrir vonbirgðum.

Annars er Erill karlinn samnefnari fyrir ólæti, ofbeldi, drykkjuæði, rúðubrot, ælur á víðavangi og aðra viðurkennda fylleríishegðun á útihátíðum.

En að máli málanna.  PR-mennsku þeirra sem standa fyrir útihátíðum.  PR-mennskuna má sjá í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna yfir verslunarmannahelgina.  Þeir sem tala geta ekki lofsamað dýrðina á sinni hátíð nógsamlega. 

Í fyrra var ferilskrá Erils skrautleg víða um land.  Þegar ég bloggaði um það fékk ég óða eyjamenn og akureyringa á bakið.  Ég var að tala niður þeirra heilögu hátíðar.

PR-mennskan verður aldrei öflugri en EFTIR helgina.  Þá eru sjálfboðaliðarnir margir sem vilja útbreiða hversu vel heppnuð þeirra hátíð hafi verið.

Og ég efast reyndar ekkert um að svo hafi verið fyrir flesta.

En..

tvær skráðar komur á neyðarmóttöku nauðgana er mikill og stór fórnarkostnaður

níu líkamsárásir í eyjum og fólk enn með ólæti þar í nótt kveikjandi í tjöldum

slattar af fíkniefnamálum, smávægilegum, hvað sem það nú þýðir

einhver laminn í höfuð með flösku hér, annar kjálkabrotinn þar.

Ég ætla að leyfa mér að finnast þetta of mikill og hár fórnakostnaður.

Hvað sem sjálfskipaðir ímyndafræðingar hafa um það að segja.

En fólk stendur með sinni hátíð.  Það er nokkuð ljóst.

Alveg er mér andskotans sama hver gerir hvað í hvaða þorpi.  Þetta er allt að gerast á Íslandi.

Vantar í mig hreppagenið?

En ég sendi Margréti Blöndal og hennar fólki hamingjuóskir með ágætlega unnið starf.  Þetta hefði getað orðið svo miklu verra.

Amen.

 


mbl.is Erill hjá lögreglunni í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég flutti inn mann

angel

Þar sem sumir lesendur þessarar síðu hafa borðið fram heitar óskir sínar um deitsögur þá læt ég í lítillæti mínu eina slíka fjúka hér á netið þrátt fyrir að ég muni aldrei verða söm eftir þá gjörð.

Ég geri bókstaflega allt fyrir vini mína og flest fyrir óvinina líka, eða myndi gera ætti ég þá og þeir bæðu mig.

Þegar er var tuttuguogeitthvað fráskilin, ung og síástfangin hitti ég minn BRETA.  Í London, nema hvað.  Hann var listamaður, málari, sætur og sexí, fannst mér þessi kvöld sem ég hékk með honum, en ég tek fram að klúbbarnir í London voru dimmir.  Þeir voru kertaljósadimmir.  Þið skiljið hvert ég er að fara.  Þetta varð nokkuð heitur rómans þarna í heimsborginni á milli búðarferða.

Og það var þá sem ég tók ákvörðun um að flytja inn mann.

Ók, ekki misskilja mig, við komum okkur saman um að hann kæmi til Íslands, byggi hjá mér til að byrja með og svona.  Maðurinn var ágætlega fjáður og gat séð um sig sjálfur sko.  Hann hét Choen en vissi ég að það nánast þýddi að maðurinn væri læstur sparibaukur?  Ónei.  Hann tímdi ekki að anda, maðurinn.  Ég get svarið það.

Og hann kom - sá og stórtapaði.  Ég þoldi ekki manninn í íslensku sólarljósi og var þar að auki búin að verða ástfangin tvisvar síðan ég kvaddi hann á flugvellinum hágrátandi vegna yfirvofandi aðskilnaðar.  Ég tek fram að ég elska dramatískar kveðjustundir á flugvellinum, minnir mig á Casablanca.

Og við settumst niður (lesist ég settist niður og grýtti honum í sófann á móti mér) og við ræddum saman. 

Til að gera langa sögu stutta þá gerði ég honum tilboð sem hann gat ekki hafnaðHalo

Hann fór svo að vinna í Ísbirninum, og síðan veit ég ekkert meira um þennan mann.W00t

Endilega ekki láta ykkur detta í hug að ég sé einhver Grimmhildur.

Þetta "varðaði" bara svona og æskan er grimm.

Nei og ég veit ekki hvers vegna hann valdi Ísbjörninn.

Guð fyrirgefi mér.

Ég er löngu búin að því.


Ég spyr..

jn-rape

Er þetta;

ójákvæmilegur fórnarkostnaður svo allir geti skemmt sér saman á hópfylleríi?

?????????

 


Handlagðir víbratorar?

Stundum get ég ekki annað en hlegið þegar ég les um taktana hjá Könunum í stríðinu gegn hryðjuverkum.  Ekki að stríðið sé fyndið svo langt frá því enda hefur það bitnað á sárasaklausu fólki víða um heim, heldur er það hugmyndaauðgin í að vaða yfir öll mörk gagnvart fólki.

En fréttin er um að bandaríska alríkislögreglan megi leggja hald á fartölvur og önnur rafmagnstæki ferðamanna (á líka við um bandaríska ríkisborgara) og að þeir þurfa aldrei að skila þeim aftur er í algjörum stíl við allt havaríið í hryðjuverkabardaganum mikla.  Allt leyfilegt.  Reglurnar hafa verið í gildi um einhvern tíma en eru fyrst núna að verða lýðum ljósar.

Mér datt tvennt í hug.  Varla eru þetta fréttir svo sem, amk. ekkert til að hissa sig yfir.

Mennirnir handleggja lifandi manneskjur og setja þær í fangelsi í útlöndum, pynta og drepa án þess að þeir sjái nokkurt athugavert við það og þessi mannréttindabrot eru framin í nafni "stríðsins".

Því er bara eðlilegt og sjálfsagt að þeir telji sig geta tekið dauða hluti traustataki án þess að þurfa að svara fyrir það með einum eða öðrum hætti.

Lögreglunni er síðan heimilt að deila gögnum, sem í þessum tækjum kunna að vera með öðrum stofnunum.  Punktur basta og haldið kjafti þið sem eruð með skoðanir og attitjúd á því hvað er gert við dótið ykkar.

Stelpur! Þið sem eruð á leið til USA; eignarhald ykkar á víbratorunum er ekki óumdeilanlegt við komu til fyrirheitna landsins.  Skiljið þá eftir heima.  Einkum þessa með utanborðsmótornum og fjarstýringunni.

En..

þetta er auðvitað frábær sparnaðarleið hjá hinu opinbera.  Tölvu- og farsímareikningar eiga eftir að stórminnka.

Ég er ekki á leiðinni til USA.

No fucking way.


mbl.is Mega haldleggja fartölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband