Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Bílablinda

Funny_Car_Interior_Colors 

Ég var að uppgötva eitt, reyndar síðust til þess, en ég er hálfviti þegar kemur að bílum.

Ég hef bloggað um það áður, en ég keyri ekki bíl, vill ekki leggja það á nú þegar ónýta umferðarmenningu á þessu landi.  Vegir landsins munu ekki rísa undir því álagi sem felst í því að hafa mig keyrandi um allt.  Þetta er ekki skortur á sjálfstrausti, þetta er vísindalega sannað mál.

Og svo hef ég ekki áhuga á bílum.  Nema til að komast í frá A-Ö.  Punktur.  Ég segi stundum að ég þekki tvær bílategundir, þ.e. Benz og Bjöllu og fólk heldur að ég sé að ýkja.  Ókei, ég þekki gamla Citroen.  Ég er beisíklí bílablind. 

Ég hef farið inn í hvítan fjögurra dyra Volvo og tekið feil á honum og rauðum Opelstation, en það er langt síðan.  Ég mátti ekki vera að því að líta upp, var að skoða stundarskrána mína úti í Gautaborg.

Bíll er bíll fyrir mér og það þarf ekkert að ræða það frekar.

Úpps, svo kom að því að ég lenti í vandræðum.  Um daginn bilaði gemsi eiginmannsins og ég þurfti að ná í hann.  Ekki séns, sími capút.  Og svo varð ég hrædd.  Einhver hafði lamið hann til óbóta í vinnunni og eyðilagt símann og húsband lá nú nær dauða en lífi upp í Heiðmörk eða eitthvað.  Já mér er kunnugt um mitt töluvert líflega ímyndunarafl.

Og ég hugsaði, hvað á ég að gera?  Hringja í stöðina? Gerði það en hann svaraði ekki kalli.  Átti ég að hringja í lögguna, maðurinn var deyjandi?  Já, ég geri það.  Og ég stökk að síma.  Snarbremsaði á ganginum, þannig að það ískraði í rauðgullnu channel töflunum með nýja utanborðsmótornum. 

Og það rann upp fyrir mér að ég veit ekki hvaða tegund bíls við eigum, ég veit að hann er grænn og mjög þægilegur.   Ég veit ekki númer bílsins og ef eitthvað kæmi uppá gæti ég ekki gert viðvart.

Ég hef margspurt hverrar tegundir bíllinn minn er og mér er sagt það jafnharðan.  En ég hef þann leiðindagalla þegar kemur að málefnum (já og fólkiBlush) sem vekur ekki áhuga minn - þá hætti ég að heyra, sjá og skynja.  Vont mál.

Bíllinn minn heitir Hunday Sonata.  Brilleríllilí. 

Og næst þegar eitthvað gerist þá fletti ég upp á þessari færslu og get hóstað út úr mér nafninu á sjálfrennireiðinni eins og ég sé intúitt.  Það verður kúl.  En samt finnst mér núna, eftir að ég skrifaði nafnið á rennireiðinni, að ég muni muna það um alla eilífð.  Að blogga er heilun, ég segi það satt.

Péess.  Það kom svo í ljós að gemsi eiginmannsins var ónýtur.

Við keyptum nýjan.  Ég man ekki hvaða tegund, en hann er mjög flottur.Whistling


Afturgangan í borginni

garbage%20can

Afturgangan í borgarstjóralíki var að krúttast í vorkverkunum fyrir blaðamenn í dag.

Mér var einu sinni hlýtt til Ólafs, af því þeir voru vondir við hann í Sjálfstæðisflokknum.

Nú er hann búinn að setja niður sína síðustu kartöflu í mínum garði.

Ólafur er að spara og hann tekur klippurnar og lítur í kringum sig.  Hvar er óþarfi sem má missa sig?  Jú, Mannréttindaskrifstofa.  Þrjár stöður.  Algjör óþarfi, klipp, klipp.

Einn starfsmaður er á Mannréttindaskrifstofu.  Þórhildur Líndal.  Hún er að hætta.  Sem er auðvitað slæmt mál, Þórhildur var að gera góða hluti.  Ólafi finnst verkefni skrifstofunnar óljós!

Reykjavík er í góðum málum, það hlýtur að vera, ef þetta er það besta sem Ólafi F. dettur í hug til að flikka upp á heimilisbókhaldið. 

Mér finnst ég alltaf vera að horfa á Spaugstofuna þegar ég sé borgarstjórann í Reykjavík í fjölmiðlum.

Dem, dem, dem


mbl.is Hreinsunarátak í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt gaman og ekki skemmtilegt

"Ég á ekki að vera með ökuréttindi" sagði maðurinn í Færeyjum sem keyrði á 240 km. hraða við dómarann í réttarsalnum.  Munurinn á honum og mér er einfaldlega sá að ég sagði þessa setningu við sjálfa mig, ákveðið og endanlega, eftir að hafa misst hjól undan bílnum í miðri föstudagstraffík, sömu viku og ég tók prófið, og toppað það svo með því að leggja á víðáttuautt stæðið úti við Norræna hús og það tók mig hálftíma að leggja í það.  Það var sko þegar mennirnir sem voru að gera við þakið klöppuðu þegar ég steig út úr bölvaðri blikkbeljunni.

Þetta með ökuréttindi mín var stutt gaman og alls ekki skemmtilegt.  Ég tók ekki bílpróf fyrr en 1982 þá 30 ára gömul.  Ég fann alltaf á mér að ég og stýri bifreiðar værum ekki og gætum ekki verið í simbíós.  En þáverandi húsband linnti ekki látum og mér fannst reyndar það skortur á sjálfstæði að vera ekki keyrandi.  Ég sem vann út um allan bæ.

Þannig að fjörið stóð í viku.  Reyndar hefði ég ekki átt að ná verklega prófinu en það var augnaháradinglið á mér við prófdómarann sem gerði það að verkum að hann var á pedölunum fyrir mig prófið út í gegn.

Þetta er sko játning.  Nú er ég með chauffeur, og svo er hægt að taka strætó og fá allskyns fólk til að skutla ef maður er í vandræðum.

Í því er frelsið falið og ég get dáið án þess að hafa skaðað kjaft í umferðinni.

Nokkuð gott hjá mér ha?

Úje

 

 


mbl.is „Ég á ekki að vera með ökuréttindi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúskað og sjoppulegt

Stundum óar mér við sjálfri mér.  Ég vil vera víðsýn, opin fyrir nýjungum, hipp og kúl í alla staði.  Úje. 

En..

það er ekki alltaf þannig.  Stundum er ég blákalt íhald og ákveðnir hlutir eiga ekki að breytast, að mínu mati. 

Ég vann um nokkurra ára skeið í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti.  Eymundsson byrjaði að versla með bækur 1872.  Á meðan ég vann hjá Eymó, urðum við 100 ára.  Það var rosa partý og dúndur gaman.

Ég elskaði vinnuna mína.  Ég ýki ekki þegar ég segi að ég vissi um hverja skruddu sem til var í búðinni, hver gaf út hvaða bækur og útgáfuár.  Ég vissi líka hvaða bækur voru fáanlegar hjá forleggjara og hverjar ekki.  Þetta heitir metnaður í starfi.

Það var eins og að vera barn í sælgætisbúð að vinna í Eymó.  Fyrir mig bókaorminn var þetta himnaríki á jörð.  Ég skemmti mér konunglega upp á hvern dag.  Ég byrjaði í búðinni 19 ára og hætti 24 vegna þess að ég flutti til Köben. 

Eymundsson var klassabúð.  Þangað komu allir sem voru læsir og fóru í miðbæinn.  Þar voru allir andans menn þess tíma daglegir kaffigestir.  Það var stíll yfir Eymundsson.

Þess vegna get ég grátið (búhú ég hendi mér í vegg hérna), þegar ég les um allar Eymundssonbúðirnar sem spretta upp eins og gorkúlur,  í stórmökuðum og verslunarklösum.  Sumir hlutir eiga að vera óbreyttir.  Þeir eiga að vera minnisvarði um tíma.  Tíma sem er farinn og kemur aldrei aftur.

Ég vil ekki versla bækur í stórmörkuðum.  Það er sjoppulegt og sjúskað.

Það er törnoff dauðans að kaupa t.d. kjötfars og Atómstöðina í einni og sömu körfunni.

Og hafiððiþað.


mbl.is Fjölskylduvæn verslun Eymundsson opnar í Holtagörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með attitjúd

Hún Brynja vinkona mín og sam-amma á afmæli í dag (sunnudag).  Til hamingju elsku dúllan mín.  Það er svo bara bónus á herlegheitin, að hún er á leiðinni til London, til að hitta barnabarnið okkar hann Oliver og þá tekur hún eins og venjulega grilljón myndir af prinsinum fyrir ömmuna sem heima situr.  Konan bjargar lífi mínu vegna þess að dóttir mín (já þessi á myndinni) hún Maysa og Robbinn eru með myndavélalatari fólki.  Myndavélin sem þau fengu í jólagjöf hefur verið óhlaðin í einhverja mánuði.  Sennilega síðan þau fengu hana.  Arg.

Ég hef verið með hangandi haus í allan dag, algjörlega orkulaus.  Ég er alveg að horfast í augu við að ég er, samkvæmt kjarnyrtri vinkonu minni, letipíka, svokölluð.  Ekki fallegt.  En ok, það er skárra að verða letipíka eftir að hafa verið ofvirk mest alla ævina,  ég hefði ekki viljað byrja á letidæminu.  Þá ætti ég kannski ekki þrjár stelpur, marga eiginmenn (ekki alla í einu samt) og alls kyns hluti sem ég hef tekið mér fyrir hendur.  Hm...

Ég ætla að verða gömul kona með attitjúd.  Enn er ég ekki orðin one bad mama, er of ung til þess enn, en það kemur að því.  Ég held að margir gangi út frá því sem vísu að gamalt fólk sé allt eins, skaplausar geðluðrur með engin sérkenni.

Trúið mér, það verður enginn lognsjór í kringum undirritaða á elló.

image001

Farin að lúlla.

Og Brynja mín, góða ferð og ég hringi svo.

Nigthy.


Hefur einhver dáið?

Mér dettur ekki í hug að vera að hlakka yfir óförum þessa manns sem lokaðist inn í bílskotti, undir áhrifum og mundi ekkert hvernig hann hafði hafnað þar.

Ég er nefnilega með innilokunarkennd og hana ekki litla.

Bara tilhugsunin um að vera innilokuð í svona litlu rými gerir mig spennitreyjuhæfa.

Ég fæ innilokunarkennd í flugvélum ef ég sefja ekki sjálfa mig beinlínis frá tilhugsuninni um að vera lokuð inn í vindlahylki lengst upp í himinhvolfinu.

Mínar verstu martraðir eru allar um að vera grafin lifandi.  Fyrirgefið en ég má tjá mig hérna.

Þess vegna ætla ég að láta kveikja í mér, þrátt fyrir að ég hafi enga sönnun um að sársaukaskynið hverfi við dauðann.  Það eru bara læknar sem þykjast vita það.  Enginn til frásagnar um málið sem hefur actually gengið í gegn um bálför.

Það er það versta við dauðann, enginn getur upplýst mann um reynsluna, amk.ekki hinar vafasömu raddir á miðilsfundum, sem mér finnast engan veginn nógu traustvekjandi heimildarmenn.  Á íslenskum miðilsfundum virðast mér allir vera í peysufötum eða með fyrrverandi starfsheitið smali.

Hefur einhver dáið (ekkert ég sá ljós við endann á ganginum og ég vildi ekki koma til baka kjaftæði), og getur miðlað mér af reynslu sinni?  Ég myndi gjarnan vilja fá upplýsingar um hvort það er tilfinningalega stuðandi að brenna upp til agna. 

Komasho.

Róið mig hérna.


mbl.is Fastur í skotti bifreiðar við Miklubraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er vissulega enginn trukkur.. en!

071404%20Big%20Truck 

Ég er því miður ekki trukkur, þó öflug sé, en væri ég það myndi ég blokkera allan andskotann þangað til að það væri orðið lífvænlegt í þessu þjóðfélagi fyrir alla.  Einkum og sér í lagi fyrir börnin okkar, bæði þau heilbrigðu og þau sem þurfa sérstaka þjónustu vegna veikinda og fötlunar. 

Vörubílstjórarnir kveiktu á perunni hjá mér, þessari sem ég hélt að væri slokknað á, að eilífu amen.

Þrátt fyrir að hafa skoðanir á öllu mögulegu og vilja breyta og hamast eins og mófó, held ég að ég sé ekki hótinu skárri en þeir sem hafa sigið endanlega niður í sjónvarpssófann.  Þ.e. þessir sem eru örmagna af þreytu og hafa ekki únsu af baráttuþreki afgangs eftir vinnu.  Ég skil þá vel.

Nú lýsir peran mín sem aldrei fyrr, ég er nefnilega búin að átta mig á því að það er hægt að gera ýmislegt til að kalla fram breytingar, fyrir utan að ganga að kjörborðinu.  Reyndar er ég dálítið þreytt á að kjósa og sjá litlar sem engar breytingar. Sömu jakkafötin með mismundandi litavaríasjónum í bindunum bara.

Maður getur rifið kjaft, skrifað bréf og lagt sig flatan fyrir framan hin ýmsu ráðuneyti.  Verið lifandi andskotans verkur í afturenda valdamanna.  Er það ekki frábært?  Hversu mikil byrði er hægt að vera?  Trúið mér, það er hægt að vera svo óendalega þreytandi, að það gæti flutt fjöll, breytt árfarvegum og stöðvað úrkomur.

Nú er að safna liði og stofna hreyfingu hinna borgaralega óhlýðnu uppáþrengsla.

Lífið er dásamlegt.

Og ég verð sár ef þið fáið ykkur ekki dagsskammtinn hérna frá krossakórnum.

Úje og spila.


mbl.is Bílstjórar fresta aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjufætur

Hm.. að tala um fólk sem eru sannkallaðir flækjufætur?  Ætla til Mónakó en fóru til München.  Á ég að trúa því að þessi tvö nöfn séu eins á ítölsku?  Nú fyrst Mogginn segir það, þá hlýtur það að vera svo.

Ég man líka eftir því fyrir löngu í denn, þegar ég vann í Eymundsson, að inn stormaði kona og vildi kaupa hnattlíkan.  Hún vildi hnattlíkan á "íslensku" þ.e. það mátti ekki standa Munchen, Copenhagen eða Stockholm.  Hún gerði heljarinnar mál úr þessu, konan, og rauk út í fússi.  Kommon þetta var sjötíuogeitthvað, give me a break.  Ekki eins og það hafi allt verið löðrandi í úrvali.  Konan hefur kannski verið hrædd um að villast.  (Sé hana í anda með hnöttinn í flugvélinni).

En svo er hægt að fara til annarrar borgar en maður ætlaði í fyrstu.  Það er t.d. hægt að enda í Köben þó að viðkomandi sé alveg með það á tæru að hann sé að fara ofan í bæ á 17. júní til að djamma, og það sé ekkert ferðasnið á viðkomandi út fyrir landssteinana. Gvöð ég þekki svo skemmtilegt fólk en nefni engin nöfn (ekki ég svo það sé á hreinu).  Sá sami viðkomandi vaknaði líka á JFK í New York bara, eftir eitthvað hollígong (viðkomandi ungur og ör) og til að láta ekki klína upp á sig áfengisvanda hringdi þessi títtnefndi viðkomandi í frænku sína, fór í heimsókn og var þar í mánuð.  Smá svona breyting á plönum.  En þetta gerðist allt fyrir ógeðslega löngu síðan.  Og viðkomandinn alveg bláedrú og ábyrgur í líferni.  Eins gott.

Það hlýtur að vera smá bömmer að fara annað en maður ætlar?  Eða hvað?  Samkvæmt viðkomandi sem stundaði svoleiðis ferðalög, þá munu þau hafa verið smá súr, en samt soldið skemmtileg.

Úje, farin til Kína!

Cry me að river!  Ég hefði getað verið illa gift, en er það ekki.

Og ekkert helvítis knús hér.


mbl.is Ætluðu til Mónakó en fóru til München
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt Geirfinnsmál?

Ég hef alltaf haldið að við á Norðurlöndum, byggjum við mannúðlegt þjóðskipulag.  Reyndar gerum við það að mestu leyti, en stundum rekur mann í rogastans.

Eins og þegar löggan réðst á Saving Iceland fólkið, eins og þar væru hryðjuverkamenn á ferð, svo ég fari nú ekki langt aftur minningargötuna.

Svo heyrði ég að Íslendingurinn í Færeyjum væri búinn að vera í einangrunarvist í 170 daga samfleytt.  Þetta er ótrúleg mannfyrirlitning sem yfirvöld í Færeyjum (já, þeir kenna Dönunum um en eru varla að hafa þetta svona á móti vilja sínum) sýna í þessu tilfelli.

Ég spyr; hvað segja mannréttindasáttmálar um svona einangrunarvist?  Er ekki hámarkstími á hversu lengi má loka fólk inni í klefa á þennan hátt?

Ég man ekki hversu lengi Magnús Leopoldsson sat lengi í Síðumúlafangelsi, saklaus, í tengslum við Geirfinnsmálið, en það var lengi og mér hefur alltaf þótt það mál ljótur blettur á réttarsögu Íslands.  Allur pakkinn frá a-ö.

En ég hélt satt best að segja að svona meðferð á fólki væri ekki leyfileg í löndum þar sem mannréttindi og virðing fyrir þeim réttindum á að vera í hávegum höfð.

Gott að Solla er í málinu.

Getum við ekki fengið manninn til Íslands?

Úff


mbl.is Löng einangrunarvist Íslendings óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljinn sem vatnar

Nú á að bæta við fjórum plássum í Gistiskýlinu, sem er fyrir heimilislaust fólk.  Skýlið þar sem fólkið er rekið út á götu á morgnanna.

Gott að það sé bætt við rýmum.  En það er ekki nóg.

Getur borgin ekki farið að hunskast til að koma heimilisgámunum í gagnið?  Þeir standa tilbúnir og það tekur mánuði að finna staðsetningu fyrir viðkomandi húsnæði.

Það er viljann sem vantar, það er greinilegt.

Það getur ekki verið svona mikið mál að koma þessu af stað, ég trúi því ekki.

Er borin gjörsamlega lömuð með þennan nýja meirihluta?

Allir í ve... nei, nei, þið megið jafna ykkur frá síðustu áhendingu.


mbl.is Gistiplássum fjölgað í Gistiskýlinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2987754

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband