Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Höfuð myndu fjúka

button

Ég er ein af þeim sem vill ekki láta koma mér á óvart.  Ég krullast upp, fer í kuðung og fýlu.  Alveg satt.

Margir eiga erfitt með að skilja þetta, konur eru nefnilega sagðar elska það að láta koma sér á óvart, með demöntum, blómum, konfekti og súkkulÖðum.

En ekki hún ég.  Það ver varla hægt að gera mér verri hluti. Með nokkrum undantekningum eins og á síðastliðnum jólum þegar dætur mínar gáfu mér ferð til London.  Ég hafði þjrár vikur að venjast tilhugsuninni.  Hefði ferðalagið átt að fara fram á næstu daga á eftir, hefði ég einfaldlega farið í fár og brjálast.

Hvað varðar eðalmálma og steina, súkkulaði, blóm og konfekt, þá kæri ég mig ekki um svoleiðis.

Ég vil mikið frekar eyða peningum í aðra hluti.  Jájá, ég er ódýr í rekstri nema þegar mér er sleppt lausri í fatabúðum.

Þessu var ég að velta fyrir mér þegar ég las visir.is áðan og sá að einhver náungi hafði beðið kærustunnar með breiðtjaldsauglýsingu í bíó.  Ég hefði aldrei gifst svoleiðis manni.  Þetta er ekki rómantík í mínum huga, svona hegðun kalla ég uppáþrengsli.  Eða þá að maðurinn hafi gert konunni  tilboð sem hún gat ekki alveg vandræðalaust hafnað.

Ég er samt ekkert að gera lítið úr þessu atriði, ég veit að fullt af fólki fílar svona og það er í fínu.  Bara að svona nokkuð verði aldrei gert við mig.  Ég yrði hættuleg umhverfi mínu.  Ég sver það.  Höfuð myndu fjúka.

Annars góð og til hamingju væntanleg brúðhjón.

Já, það er til siðs að óska fólki til hamó.

Later.


Kaupa píxu!

20080416215045_0

Í morgun hringdi ég í hana Söru mína, mömmu hennar Jennýjar og Hrafns Óla.

Lítil stúlka svaraði í síman.

Amman: Góðan daginn Jenný mín, ertu að fara á leikskólann?

Jenný: Já og ég er í prinsessuskjól og kúrekastígvélum.  Ekki Solla stirða, hún er bara í jogginggalla, hún erekki prinsessa. Villtu koma til mín amma?

Amman: Þú hlýtur að vera svaka fín, en amma getur ekki komið núna.  En við hittumst á morgun.

Jenný: Og þá við kaupa nammiW00t

Amman: Við sjáum nú til með það elskan.  Má ég tala við mömmu?

Og barn rétti mömmu sinni símann og sagði, amma mín ætlar að ná í mig á morgun og kaupa píxu!

Það var nefnilega það!


Kerlingin Rice

 2006_the_road_to_guantanamo_tv_004

Ég er ekki í alsælu vegna kerlingarinnar Rice sem ætlar að heimsækja utanríkisráðherrann í dag.

Hvað er hún að vilja hingað?  Jájá, það mun heita vinnuferð.  Öllu má nú nafn gefa.

Útlitið getur blekkt.  Aldrei myndi mér detta í hug ef ég sæi þessa konu á förnum að hún væri kaldrifjuð og miskunnarlaus.  Að henni fyndist réttlætanlegt að pynta fólk til að ná fram játningu.

Mér líst vel á sýnikennslu með vatnspyntingarbekk sem Samtök hernaðararnstæðinga ætla að hafa á Austurvelli í dag kl. 17.  Kerlan Rice er boðin sérstaklega velkomin.

En sárast af öllu er að ríkið á bak við hana skuli teljast til kærustu vina Íslendinga með stríðsmaskínu sína og mannslíf á samviskunni.

Mér er í alvörunni óglatt.

Pest?  I don´t think so.


mbl.is Sviðsetja vatnspyntingar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálfti-Uppfærsla

Nýjar fréttir af nýjum sjálfta.  Símarnir dottnir út hjá mér.  Nýji sjálftinn 6,1-6,7 á Richter.  Búið að loka Ölfusárbrú.

Nýr fréttatími er á leiðinni á RÚV.

Jösses. 

Vá, það var jarðskjálfti við Selfoss fyrir einhverjum mínútum.  3,2 á Richter!

Og hegðun hafsins við Færeyjar er eitthvað undarlegt.

Nú fer ég á taugum.

Dem, ég sem ætlaði að fara í Þrastarlund og fá mér kaffi í góða veðrinu.

Dem, dem, dem.

Eruð þið ekki jarðskjálftahrædd?W00t


mbl.is Jarðskjálfti við Ingólfsfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ignorance is a bliss"

 900

Ég held að kreppa sé fyrst og fremst hugarástand.  Hvergi verður kreppan áþreifanlegri heldur en í áhyggjunum sem heltaka þann sem hefur látið hræða úr sér líftóruna vegna versnandi árferðis.

Ég er svo sannarlega ekki að gera lítið úr því að nú dynja djammreikningarnir yfir almenning sem alla jafna hefur ekki verið að tjútta á eyðslufylleríi út um víðan völl. 

Ég get bara talað fyrir mig.  Ég finn ekki mikinn mun á efnahagsástandi heimilisins frá því sem var á "þenslutímanum".  Einfaldlegar vegna þess að ég tók ekki þátt í dúndrinu. 

Ég hef ekki keypt glæsibifreiðar, flatskjái, stærra húsnæði, sumarbústað(i), farið í grillpartý á Kínamúrnum, hangið í sparifötunum á þyrlupöllum heimsins, né stundað annað lúxuslíferni, eftir því sem ég kemst næst (ef undan eru skilin dragt eða þrjárBlush).  Ónei, hér er lifað eðlilegu lífi.  Og það geri ég áfram.  Moða úr því sem ég hef og læt hræðsluáróðurinn um kreppuna sigla ljúflega framhjá mér, án þess að hann fái að menga í mér hugarfarið.

En ég hef reyndar orðið uppvís að smá "lúxus"líferni.  Eftir að ég fékk sykursýkina og breytti algjörlega um mataræði, tók ég upp á því að versla í matinn í Hagkaup.  Það var kjöt- og fiskborðið sem átti sök á því.  Líka grænmetisdeildin, jájá, mun betra grænmeti heldur en í lágvöruverslununum.

Þetta siðleysi í heimilisrekstri hef ég ástundað forstokkuð og án nokkurrar iðrunar.

En nú verð ég að endurskoða málið upp á nýtt.  Ég hef engan veginn efni á þessum flottræfilshætti lengur.  Ég er nefnilega farin að lesa strimlana úr búðinni og það er ekki skemmtileg lesning.

Það er sagt að "ignorance" sé alsæla, það er nokkuð til í því.  En þar fylgir böggull skammrifi.  Það er nefnilega ekki hægt að búllsjitta sig þegar þú hefur vitneskjuna í höndunum.

Þess vegna er ég farin í Bónus eða Krónuna.  Ugla sat á kvisti.

Úje.


mbl.is Hagkaup og Nóatún hækka mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjörningaveður

Gjörningar eða "happenings" er skemmtilegt listform.  Ég hef aldrei séð þann gjörning sem ekki hefur hreyft við mér á einhvern hátt.  List í augnabliksins hugnast mér vel.

Og nú ætla atvinnubílstjórar að vera með gjörning niðri við Alþingishús.  Reyndar er gjörningurinn fyrirfram leikstýrður og allt það, en gjörningur er það samt.

Það er húmor í þessu og skýr skilaboð líka til ráðamanna.  Jóhanna fær rósir, hinir líkkistur.  Ég hefði nú persónulega haft öskuker vegna ummáls líkkistnanna, en ég stend ekki fyrir þessu.

Jóhanna á allar rósir heimsins skilið, þó ekki væri fyrir annað en hversu sönn hún er og samkvæm sjálfri sér.

En..

það er galli á gjöf Njarðar, hvað mig varðar, þegar bílstjórarnir eru annars vegar.

Ég stóð með þeim alveg þangað til þeir fóru að kalla fram í á Alþingi og heimta forgang fram yfir fólk í neyð úti í heimi.

 Akraneshugmyndafræði Frjálslynda flokksins er engum til framdráttar og þeim og öllum sem hana stunda til vansa.  Ég er að pirringsjafna hérna svo ég held mig á lýsingaorðamottunni.

Auðvitað mæti ég ekki í jarðaförina, en ég óska þeim góðs töffurunum á trukkunum.

En þeir settu niður sína næstsíðustu kartöflu í mínum garði með því að heimta forgang yfir fólk í sárri neyð.

Lélegur stíll.

 


mbl.is Fyrst og fremst táknræn athöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Af hverju drakkstu svona mikið?"

 Alfur

SÁÁ blaðið var í pósthólfinu mínu í morgun.  Og ég las það upp til agna.

Ég er ein af þeim tugþúsund Íslendingum sem á SÁÁ líf mitt að launa.  Ég er hvorki meira né minna en sannfærð um að ég sæti ekki hér og rifi kjaft alla daga, hefði þeirra ekki notið við.

Blaðið er stútfullt af fróðleik.  Dæmi:

"Af hverju drakkstu svona mikið pabbi" er viðtal Mikahels Torfasonar við pabba sinn sem hann keyrði í meðferð fyrir einhverjum árum.  Þá fékk ég verk í móðurhjartað.  Það er vont að meiða börnin sín.  Ég lifi með því, get ekki breytt því en ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að endurtaka það ekki.

Það er grein um nikótín og alkahólista.  Helst æði oft í hendur, eins og undirrituð ætti að vita. 

Gunnar Smári skrifar frábæra grein um "Samfélag á fyllibyttustiginu" og Hörður Svavarsson skrifar um nýja greiningartækni í barna- og unglingageðsjúkdóma.

Og svo mætti áfram telja.

Frá og með morgundeginum og alla helgina er Álfurinn til sölu.  Ágóði sölunnar rennur til rekstrar unglingadeildarinnar á Vogi.  Ekki veitir af.  Við höfum nýlega lesið um að 20 fíklar, ungar mæður, hafi látist frá áramótum.  Það þarf að gefa í hérna.  Almenningur, með kaupum á Álfinum og svo ættu ráðamenn að hysja upp um sig og sjá til þess að SÁÁ sé ekki stöðugt í tilvistarkreppu vegna skorts á fjármagni.

Þessi alki kaupir álfinn og ég vænti þess að það gerir allir sem hér lesa.  Alkahólismi snertir okkur öll, á einhvern hátt.


Og ég vissi það

Hillary_vs_Obama 

Ég elska að fylgjast með kosningum og aðdraganda þeirra að sjálfsögðu.  Ef ég sest niður við sjónvarpið (túbuna þið munið) á kvöldin, horfi ég á CNN og fleiri stöðvar fjalla um komandi forsetakosningar í USA.

Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að í nóvember verði dálítið erfitt að vera hvítur karlmaður á miðjum aldri, í góðri vinnu, með hús, konu, börn og bíl, verandi demókrati í þokkabót.

Valkostirnir eru ekki beysnir fyrir þennan holdgerving ameríska draumsins.

Hvað stendur manninum til boða sem svona er ástatt um?

Jú lengi vel kom til greina að það yrði hvít kona, forrík og að margra mati ísköld tæfa (ekki mín skoðun, en hafið þið horft á Fox?), eða svartur karlmaður, forríkur og með vafasama fortíð í trúmálum.

Það krimtir nú eiginlega í mér af því stundum er skrattanum skemmt.

Fyrir ári síðan, þegar öll vötn runnu til Hillary, sagði ég einhvers staðar að það myndi saxast af henni fylgið þegar nær drægi kosningum.   Mig grunaði að það væri ekki alveg komið að því að strákarnir helyptu Hillary í Hvíta Húsið.  Og ég hafði rétt fyrir mér.

Þegar allt kemur til alls, standa þeir saman karlarnir,  jafnvel þó litasétteringin á bróðurnum sé ekki alveg eftir bókinni.

Súmí.


Að kjósa ekki rétt

Ég fékk hroll niður eftir bakinu þegar ég las um hleranirnar í Mogganum í morgun.

Ég var ekki búin að jafna mig á hrollinum þegar ég las þessa viðtengdu frétt þar sem Björn Bjarnason segir enga ástæðu til að biðja þolendur njósna íslenskra stjórnvalda afsökunar.

Björn segir njósnirnar vera þátt úr sögu kalda stríðsins.

Það má réttlæta allan fjandann með huglægum skýringum um "stríð" sem aldrei var neitt nema paranoja og hugarástand Rússa og Bandaríkjamanna.

Var fólk á hlerunarlistanum ógnun við öryggi íslenska ríkisins? 

Myndi það mögulega fremja hryðjuverk?

Eða meiða saklausa borgara?

Það er eitthvað meira en lítið að hrjá þá sem í krafti valds síns láta njósna um samborgara sína vegna gruns um að það hugsi á óæskilegan máta, kjósi ekki rétt, makki ekki rétt.

Það er sorglegt að Björn Bjarnason sjái ekki hversu ólíðandi þessir gjörningar voru.

En honum rennur kannski fyrst og fremst blóðið til skyldunnar.

Hverja ætli sé verið að hlera núna?  Hvaða óvinum ríkisins þarf mögulega að fylgjast með og njósna um í dag? 

Ég myndi svo gjarnan vilja vita það.


mbl.is Dómur sögunnar á einn veg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuðrur og glerull

Ég ætla að blogga um fótbolta.  Landsbankadeildina. Það er dálítið mikið úr karakter þegar moi á í hlut.  En einu sinni verður allt fyrst.

En róleg gott fólk, ég skrifa ekki um tuðruna sem mennirnir sparka á undan sér um allan völl, ekki frekar en ég skrifa um glerull sem einangrun í sænskum sumarhúsum. 

En það er þessi karlamórall, svona "ég gef þér á kjaftinn helvítið þitt" sem oft ríkir í karlaíþróttum, sem er sem er mér ofarlega í huga, eftir að hafa séð Guðjón Þórðarson rífa kjaft eftir leikinn við Keflavík, sem ÍA tapaði. 

Það var ekki mikið af hinum sanna íþróttaanda í þeim orðum.

Ég hélt að íþróttir og íþróttahreyfingin ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og vera æskunni hvatning til þátttöku í íþróttum og fyrirmynd um góða hegðun.

Ef brotið var á einhverjum fer það ekki sína réttu boðleið?  Þarf maðurinn að bresta í reiðilestur í fréttatíma sjónvarps?

Mér leiðist þessi karlaheimur.  Þar er talað í stríðsfrösum, þar er æsingur og reiði, engar málamiðlanir.

Ef ég á að vera hreinskilin þá finnst mér þetta ekki mjög sjarmerandi hegðun og mig langar ekkert til að láta hana myndbirtast í þeim börnum sem tilheyra mér.

Mér finnst lágmarks krafa að þjálfarar t.d. í fótbolta, sýni af sér almennilega siði.  Líka þó fjúki í þá.

Annars góð.

Later.

 


mbl.is Ummæli Guðjóns til umfjöllunar hjá aganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband