Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Krúttmolinn Oliver

Ömmuhjartað missti slag þegar henni bárust nýjustu myndirnar af Oliver í London.

20080729175025_9

Ef þessi elska væri ekki að koma í ágúst legðist þessi amma í rúmið af söknuði.

Sama dag og Oliver kemur, þá koma Jenný Una og Lilleman til landsins frá Svíþjóð.

Elsta barnabarnið hann Jökull er í Króatíu (og nálægum löndum, afinn búinn að hendast yfir öll ínáanleg landamæri) og kemur á sunnudaginn.

Öll mín barnabörn í útlöndum.

Amman í rusli en hér koma nýjar myndir af Oliver teknar á leikskólanum.

20080729174445_2

Og nú bíður Amman spennt eftir að krúttmolinn komi til landsins.

Mamman kemur ekki, hún er að fara til Hong Kong á vegum vinnunnar.

Það verður ekki á allt kosið í heiminum.

Dæs og krúttkast.

20080729174534_3

 


Þú ferð ekki fet Jenný Anna

 hippie-girl

Þegar maður lítur yfir blöðin sést að Íslendingar eru með veður á heilanum, sem er skiljanlegt.

Ég var reyndar alveg að fá mig fullsadda fyrr í dag þegar ég sat og lak nánast í gras þar sem ég sólaði mig eins og fín dama.  Og nú er ég hætt.  Ætla ekki að verða að efni í leðursófasett.

En varðandi verslunarmannahelgina sem er að bresta á.  Ég fékk aldrei að fara á meðan ég hafði ekki þroska til að gera það og löngunin var hvað sterkust og þegar ég var komin með þroskann þá var löngunin horfin alveg eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vann allt árið að því. þegar ég var 15 ára, að fá pabba til að hleypa mér í Húsafell.  Maðurinn var algjörlega ósveigjanlegur.  Ekki að tala um.  Og ég grét og grét, bæði hátt og í hljóði.  Faðir minn horfði á mig algjörlega ósnortinn af harmi mínum og sagði uppörvandi röddu: "Þú mátt fara í dagsferð til Þingvalla, ég skal keyra þig og vinkonurnar og ná í ykkur eftir kvöldmat".  Ég nánast small í gólf.  Maðurinn hafði aldrei verið ungur og hann var grimmur og gegnvondur.

Ég reyndi að útskýra fyrir höfundinum að mér, án þess að sýna hvað mér var stórlega misboðið, að það væri erfitt að framkvæma þessa snilldarhugmynd.  Fyrir það fyrsta væru vinkonurnar á leiðinni í Húsafell, þær ættu foreldra sem TREYSTU þeim og málið því dautt. 

Baldur Guðmundsson sagði þá nokkuð glaðklakkalegur: "En Jenný mín þú tekur bara systur þínar (5eða 6) með þér í ferðina (á bak við hann heyrðist í frú Önnu hlægja kvikindislega ofan í bringuna á sér).

Merkilegt, þetta þaggaði niður í mér það árið og það næsta líka.  Og svo kúldraðist í einhverja plebbaferð með foreldrunum og unglingaveikin heltók mig sem aldrei fyrr.

Svo fékk ég rapport frá vinkonunum.  Hver byrjaði með hverjum. hver hætti með hinum og allan þann pakka.

Ég hafði hins vegar ekki frá neinu að segja.

En takk samt mamma og pabbi, ég þurfti að láta bjarga mér frá sjálfri mér.Heart


mbl.is Útlit fyrir ágætis veður um verslunarmannahelgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Velviljaðir" einræðisherrar

Er það bara í bloggheimum sem fólk gerir sig kjánalegt með því að básúna því út í cypertómið hversu mikið mótmæli "Saving Iceland" eru þeim til ama?

Mér stendur ekki á sama ef hinum almenna borgara er svona uppsigað við mótmælaaðgerðir.  Ekki mjög lýðræðiselskandi þjóð ef svo er, Íslendingar.

Silfurmaðurinn er einn af þeim sem er að láta þetta fara í taugarnar á sér.

Ég man eftir því þegar Davíð var borgarstjóri og fólk skiptist í tvo hópa, með eða á móti Davíð.  Á þeim tíma var Þjóðarsálin vettvangur nördanna sem hringdu inn og skömmuðust eða mærðu karlinn og gerðu það af ástríðu.

Oftar en einu sinni heyrði ég fólk segja að Íslendingar þyrftu einræðisherra (Davíð), sem væri almennilegur og réttlátur!!!!!!  Mér fannst á tímabili þessu fólki verða að ósk sinni.

Og þá grét ég mig í svefn, eða hefði gert hefði ég nennt því.

Það er lýðræðislegur réttur að halda fram skoðun sinni með mótmælum. 

Auðvitað kom mér ekki á óvart að Þvagleggurinn setti þetta fólk í fangelsi og héldi því þar, þar til mál þeirra var dómfest.

Þeir eru heldur ekkert sérstaklega lýðræðislegir í því umdæmi eins og dæmin sanna.

Mér finnst lýðræðið dýrmætt og ég vil fá að praktísera réttindi mín til að mótmæla ef mér sýnist svo.

Er fólk ennþá að láta sig dreyma um "velviljaða" einræðisherrann.

Ég veit um nokkra góða kanditata í djobbið.


mbl.is Mótmælendur í skjólfatnaði merktum OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"I love you to death"

domestic_violence6_1 

Mikið skelfing er ég ánægð með að til skuli vera meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn.  Meðferð sem er fyrir karla og veitt af körlum.  Nafnið er töff, "karlar til ábyrgðar.

Ég get hins vegar ekki verið alveg sammála skýringunni sem verkefnastjórinn gefur á heimilisofbeldi.  Að gerandinn sé hræddur við að missa þann sem honum þykir væntum og beiti þess vegna ofbeldi.

Ég hélt að þessi hugmyndafræði um að þeir sem hafi átt erfiða æsku geri þetta og hitt þess vegna væri dottin út enda vita gagnslaus að mínu mati.

Ofbeldismaður beitir ofbeldi af því hann hefur einhvers staðar á leiðinni tekið ákvörðun um að gera það.  Hann velur að beita ofbeldi í samskiptum inni á heimilinu í staðinn fyrir að beita eðlilegum úrlausnaleiðum og hann sér ofbeldi sem leið til að fá sínu framgengt og hafa hlutina eftir sínu höfði.

Málið er svona einfalt.  Algjör óþarfi að flækja það með hryllingssögum úr æsku.

Við alkar getum endalaust drukkið út á alls kyns harma frá því við komum í heiminn og fram til dags dato og auðvitað gerum við það áður en við erum tilbúnir til að taka á vandanum.   

En ég er á því að það sé algjört krapp og búllsjitt.  Nær væri að taka ábyrgðina á gjörðum sínum og taka á vandamálinu sem slíku.

Merkilegt með suma af þessum "örvæntingarfullu" konulemjara hvað þeir virðast samt hafa mikla stjórn. Konan er t.d. oft slegin víðs vegar um líkamann, en ekki þar sem sést.  Ofbeldismaðurinn beitir aldrei ofbeldi í öðrum samskiptum amk. í flestum tilfellum hefur það reynst svo.

Ég endurtek að mér finnst þessi hópur fínt framtak og það hefur svo sannarlega vantað meðferðarhópa og önnur úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi heima hjá sér, ég er ekki að gera lítið úr því.

Málið er að flest okkar búa að sárri reynslu frá hinum ýmsu tímabilum í fortíð.  Spurningin er bara hvort við notum þá reynslu til að réttlæta vonda hegðun og til þess að geta viðhaldið henni ögn lengur.

En að því sögðu, þá óska ég körlum til hamingju með þetta framtak.

 


mbl.is Berja konurnar af örvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnaður fíflahúmor

Sumum finnst ekki par sniðugt að hver sem er geti bloggað.  Pirra sig rosalega á bloggandi almúganum.  Allir eru í fullum rétti með þá skoðun sína.  Sleppa að lesa bara, málið er leyst.

En svo eru það blöðin.  Þar skrifa stundum hálfvitar sem taka sjálfa sig hátíðlega og þeir koma á framfæri vitleysunni í sjálfum sér án þess að fólk depli augnhári,  þá eru það ekki vitlausir bloggarar sem eru með lyklaborðið í kjöltunni heldur blaðamenn sko, allt annar Eyfi.

Ástráður, forvarnarstarf læknanema ætlar að dreifa smokkum um verslunarmannahelgina á fjölförnustu stöðum landsins.  Gott mál.  Ekki mun af veita þegar (st)ríðandi íslensk æska fer að draga sig saman.

Talsmaður Ástráðs segir eftirfarandi í viðtengdri frétt:

"„Mér finnst fjölmiðlar stundum gefa röng skilaboð. Í grein í nýjasta hefti Reykjavík Grapewine er t.d. sagt eitthvað á þá leið að Íslendingar séu svo afkastamiklir um verslunarmannahelgina að þar komi flest börn undir og flestar nauðganir eigi sér stað þannig að hvort sem fólk langi til að skemmta sér eða verða líkamlega misnotað sé þessi helgi vel til þess fallin. Þarna er verið að gantast með jafn alvarlegan hlut og nauðganir og kynferðislegt ofbeldi sem mér finnst mjög alvarlegt þegar umræðan ætti að snúast um ábyrgð í kynlífi!“ segir Ómar Sigurvin."

Grapewine er blað fyrir útlendinga.  Svona nokkurs konar "What´s on in Reykjvík".  Ég efast um að þeir útlendingar sem hingað koma sem ferðamenn hafi húmor fyrir þessu nema að þeir séu sömu hálfvitarnir og láta þetta ógeðisviðhorf frá sér fara í formi fjölmiðils.

Þetta gerir Baggalút að væmnum sunnudagaskólakennurum.

Þeir eru ekki hálfdrættingar á við Grapewine ógeðismennina, sem skrifa á ensku.

Bullið í Baggalúti er þó á íslensku og sungið í þokkabót þannig að textinn fer væntanlega framhjá mökkdrukknum útihátíðarþátttakendum. 

Mikið rosalega er mér misboðið fyrir hönd allra kvenna og barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Mig er farið að langa fremja ólöglega verknaði sem skilja eftir sig polla í lit.

Og ég er friðsöm manneskja og ég trúi ekki á ofbeldi.

Og ég ætla rétt að vona að allir komi heilir heim eftir geðveikina sem er að skella á í fjöldasukki íslensku þjóðarinnar.

Arg.

 


Í hvaða leikriti...

oli kongur

..er ég stödd? 

Hér má sjá leikritið "Markaðstorg hégómans".  Persónur og leikendur:  Nafnlaus ljósmyndari, Jakob Frímann stílisti og Olavius Perlufestus.

Og hvaða leikrit er þetta á litla sviðinu í Miðborgarleikhúsinu? Mér sýnist það vera söngleikurinn "Látum sem ekkert c"!! Persóna og leikandi: Hanna Birna Séekkiogheyriekki.

Mér er alveg hætt að lítast á blikuna.

Er ekki hægt að kalla inn nýja leikendur og samræma verkið.  Ég sting upp á "Sláturhúsinu hraðar hendur".

Tjaldið.


mbl.is Furðar sig á einræðistilburðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af spíttrúminu og öðrum dóphúsgögnum

pull%20down%20bed%203 

Eftir að hafa sofið í lúxusrúmi hér á Leifs, svona betrabak fyrirkomulagi þá er eitt orðið ljóst.

Gamla hjónarúmið með neonljósunum og rekkverkinu verður ekki lengur notað af mér.

Fyrir liðlega tíu árum var spíttrúmið keypt eftir smáauglýsingu þegar við húsband vorum að byrja alvöru sambúð. 

Ég hef sagt ykkur frá téðu rúmi, með áföstum ljósum og hillusamstæðu, klósetti og innskotsborðum á við meðal tveggja herbergja íbúð.

Margar atlögur hef ég gert að rúmfjandanum, sem er svo ljótt að ég treysti mér ekki til að færa það í orð en ein elskuleg dóttir mín sagði við mig um daginn; mamma, nú skaltu hætta baráttunni við að losna við rúmið, það er svo ljótt, svo áttundi áratugurinn eitthvað að það fer að hrynja inn í Saltfélagið "anyday now".

Húsgögn á svipuðum aldri og rúmið eru kölluð spítthúsgögn á þessu heimili.  Minna á svona vodka í kók partý, slagsmál og kúfulla öskubakka.  Þið þekkið fílinginn.  Ég eyddi ekki löngum tíma í spíttpartíum en ég held að þau hafi farið fram í svona mubleríi.

En nú er húsband allur að koma til.  Hann nefnilega sefur eins og mófó í rúminu hennar Söru og Eriks.

Er allur eitthvað svo ungur og léttur á sér.

Ekki að hann sé gamall.  Ónei,

En þið ættuð að vita að rúm eins og okkar gerir manni hluti og einn af þeim er að maður yngist ekki rassgat enda ekki ætluð til eilífra nota hjá fólki sem helst aldrei vill skipta neinu út (á við suma ekki mig).

Farin að lúlla.

Újebb.


Elskulegheit er miðnafnið mitt - úje

 thanksgiving-sunbathing-turkey

Ég ætla að vera elskuleg - í 101 um næstu helgi.

Ég er svo mikill innipúki að ég fer ekki einu sinni á innipúkahátíðina, vill bara vera heima.

Það er auðvitað þessi eiginleiki minn að vera sífellt á skjön (segir pabbi) sem gerir það að verkum að þegar allir fara út - nú - þá fer ég inn.

Þegar allir fara í ferðalög - læsi ég dyrunum og hendi lyklinum.

En sumarið er búið að vera frábært.  Mín frönsku gen hafa stokkið í húðina á mér og nú er spurning um hvort mér verður ekki vísað úr landi, ef einhver frá Útlendingastofnun gengur í flasið á mér.Devil  Ég er búin að búa í garðinum á Leifsgötunni þar sem hitinn er ólýsanlega mikill unaður.

 Ég held áfram að passa hús dóttur minnar og í Sverige er 30 stiga hiti.

Jenný Una týnir ber og blóm og baðar sig á strönd.  Hrafn Óli kemur bara með agíar hinn ánægðasti.

Kisan Núll er dálítið pirrandi þegar hún stekkur á mig á nóttunni en æðruleysi mitt kemur í veg fyrir að það gerist hlutir.

Jökklinn minn, elsta barnabarnið er á leið með afa sínum í sólina í Króatíu.  Ekki leiðinlegt.

Annars vona ég að Akureyringar fái svefnfrið um Verslunarmannahelgina og að allir verði glaðir og ánægðir, að kaupmenn þéni mikla peninga, að gleðisafinn í Vínbúðinni seljist ekki upp, að allir dílerar detti á hausinn og fótbrotni og að andi almættisins svífi yfir vötnunum.

Vestamanneyingar mega líka nota þessi áhrínisorð.

Farin að ...

æi ykkur kemur það ekki við.  En það er djúsí - bílív jú mí.

Úje


mbl.is Þemað er elskulegheit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu að segja að ég sé feit?

Ég eyddi stórum hluta ævi minnar í megrun.

Og þegar ég skrifa þetta þá virkar það gargandi fáránlegt vegna þess að fyrir utan bústímablilið (áður en ég fór í meðferð) þegar ég safnaði utan á mig dyrkkjulopa þá hef ég tæpast nokkurn tíma verið feit.

En þetta er að ganga í fjölskyldunni, við systurnar höfum verið með sjúklegan áhuga á kílóum, eða vorum lengi vel.

Allt var prófað.  Svelti, hvítvíns- og eggjakúrinn, Scarsdale, prins- og kókkúrinn.  Ég fékk ofboðsleg kikk út úr því að sauma ærlega að sjálfri mér.

Og fituhugsunin var alltaf til staðar.

Er ég feit í þessu, er rassinn á mér stór í þessum buxum, en maginn, en lærin, en, en, en?

Og svo komu yfirlýsingarnar þegar ég fékk fitumóral á leiðinni á ball. "Rosalega næs systur eitthvað að draga mig spikfeita með ykkur á ball!" varð að fleygri setningu í systrahópnum.

Hilma systir fór í öll föt ættarinnar áður en hún gat fundið út í hverju hún var MINNST feit í.  Það varð til þess að við komumst á ballið til þess eins að hitta fólk fyrir utan þegar hleypt var út, eða nánast.

Og dætur mínar erfðu áhugan. 

Maysan kom heim og spurði Söru hvort kexið væri búið.

Saran (bálill) ertu að segja að ég sé feit?W00t

Og svo voru það megrunarpillurnar sem ég grenjaði út úr heimilislækninum þegar ég bjó í Keflavík um árið.  Mirapront hétu þær.  Ég pilluætan tók einni meir en ráðlagður skammtur var (eða fleiri), svaf ekki, fékk sár á tunguna og allskonar.   Pillurnar voru læknaspítt.  Jájá.

En ég var aldrei ánægð,  því mér leið feitt.

Og ég gekk fram hjá spegli og gargaði upp; djöfull er ég ógeðslega feit.

Nú horfi ég stundum á gamlar myndir af grannri stúlku sem fannst hún feit og það hafði ekkert með kílóatölu að gera.

Og ég er alveg viss um að konur fara frekar í megrunarlyf en karlar.  Skilaboðin um hungurlúkkið eru skýr, alveg frá því að við erum smástelpur.

Farin í megrun.. sorrí meina sólbað.


mbl.is Fleiri konur en karlar nota megrunarlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldisdómar enn á útsölu

hammer1 

Nú fara dómarnir að detta inn aftur eftir réttarhlé.

Það er með ólíkindum hversu íhaldssamir íslenskir dómstólar eru þegar kemur að því að fella dóma yfir þeim sem beita maka sinn núverandi og fyrrverandi, ofbeldi. 

Þessi málaflokkur virðist alltaf vera á tilboðspallinum.

Þessi andskotans ofbeldismaður fékk 8 mánaða fangelsi, þar af 6 skilorðsbundið fyrir að ráðast ítrekað á fyrrverandi sambýliskonu sína og tvö börnin hennar.

Ofbeldið fólst m.a. í tveimur fingurbrotum, hálstaki, hnefahögg í andlit og árás á dóttur konunnar sem reyndi að koma móður sinni til hjálpar. (Fleiri en eitt tilvik) Hva?  Tertubiti.

Annars stingur þessi dómur svo sem ekki neitt sérstaklega í augum, þetta er gengið á líkamsmeiðingum og andlegu ofbeldi á Íslandi í dag.

Sátt?

Nei, svo sannarlega ekki.

Þegar að ofbeldi gegn konum og börnum er annars vegar, þá eru dómstólarnir ekki að senda út þau skilaboð að það sé alvarlegt mál.

Andskotinn snarpstyggur.

Dómur í heild sinni.


mbl.is Réðist á konu og börn hennar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 2988495

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband