Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

"Less is more"

Ég horfði auðvitað á borgarafundinn í sjónvarpinu í kvöld.

Tvennt stendur upp úr.

Katrín Jakobsdóttir sló strákunum við og hún hreinlega massaði panelinn.

Þetta segi ég ekki af því nú vill svo til að ég muni líklegast kjósa VG, þetta er einfaldlega ískalt mat.

Hitt sem stendur upp úr er að strákarnir í pólitíkinni tala of mikið.

Það verður að rífa af þeim orðið með ofbeldi, svei mér þá.

Þeir tapa big time á þessu drengirnir, því maður hættir að hlusta og hugsar í sífellu; ætla þeir aldrei að hætta?

Þráinn var fínn, kurteis og gagnorður.

Annars var þetta þvílíkur kjaftaklúbbur og strákapartí að það hálfa væri ráðstefna.

Æi, en Helgi Hjörvar er krútt.

En kæri Helgi; less is more, less is more.

Látum ljótu strákana um bullið.

Annars góð bara og í startholunum fyrir kosningarnar.

Þ.e. þegar ég fer að geta talað.

Er enn hljóðlaus.

Húsbandi finnst það leiðinlegt.


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem góða og gáfaða fólkið er

Sjálfstæðisflokkurinn hrynur í Reykjavík norður samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir RÚV og Mogga. (Könnun gerð nú um páskana).

Fylgið er 22% en árið 2007 fékk flokkurinn 36% atkvæða.

Ég er ekki hissa og auðvitað þykir mér ekki leiðinlegt að þetta skuli gerast.

En það er eins gott að slaka hvergi á fyrr en kjörstöðum er lokað á kjördag og muna að þetta er bara könnun ekki atkvæði úr kassa.

En ég var svona að velta því fyrir mér í byrjun þingsins í dag, þegar Bjarni Benediktsson kom í ræðustól og hreinlega gargaði á Steingrím J. í óundirbúnum fyrirspurnartíma, að það væri um tvennt að ræða hvað væri að gera hann svona snakillan.

A. Að hann væri svona frústreraður yfir ástandi Sjálfstæðisflokksins vegna styrkjamálsins að hann beindi reiðinni bara að Steingrími þessu krútti sko.

B. Að hann væri að glefsa í Steingrím til að draga fjöður yfir óviðunandi ástandi í flokknum og þarna væri svo kölluð yfirbreiðsla fundin.

Svo benti einhver mér á að það virtist eins og honum væri att fram, að hann stæði ekki fyrir þessu sjálfur.

Að hann væri ekki á eigin vegum. 

Ég veit ekkert um það.

En Sjálfstæðismenn eru í þófinu um stjórnarskrána bara "buisness as usual" og Björn Bjarnason ætlar að tala eins og hann mögulega getur til að koma í veg fyrir að almenningur fái að fara með puttana í stjórnarskrána.

Rétt hjá honum.

Hinn andlitslausi massi er beinlínis stórhættulegur og svo er hann ódannaður, illa menntaður og gott ef ekki óhreinn líka.

Fyrir nú utan þá staðreynd að almenningur vinnur á daginn og grillar á kvöldin og getur ekki staðið í svona veseni til viðbótar.

Um að gera að halda stjórnarskrárbreytingum á Alþingi.

Þar sem góða og gáfaða fólkið er.


mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn er sagna bestur

Ég varð dálítið hissa þegar ég sá að Guðlaugur Þór ætlaði að fara fram á það við Ríkisendurskoðun að þeir skoðuðu störf hans hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Ég hélt að það væri ekki hægt að panta rannsóknir hingað og þangað að eigin geðþótta.

Svo sættist ég á að Guðlaugur Þór vissi þetta betur en ég, enda í djobbinu, ég ekki.

Fólk hefur auðvitað verið að gera krúttlegt grín að þessu, eins og maður sem ég les en kýs að nafngreina ekki (fyrsti stafur Illugi Jökulsson) en hann ætlar að biðja Ríkisendurskoðun um að rannsaka greiðslur sem hann fékk sem blaðburðardrengur 1970.  Dúllan hann Illugi.

Auðvitað er sorglegt þegar öll spjót beinast að mönnum en hver verður víst að liggja eins og hann býr um sig, þannig er nú það.

Ég og vel flestir hafa fundið sig í þeirri aðstöðu.

En hvað á það að þýða að menntaður maður eins og Guðlaugur Þór, alvanur pólitíkus, skuli koma fram með svona beiðni?

Hann hlýtur að vita að maður pantar ekki svona rannsóknir bara sisvona af því manni dettur það í hug eða hvað?

Maður spyr sig.

Þetta er orðin einn alherjar farsi sem virðist engan endi ætla að fá.

Er ekki hægt að einfalda hlutina og segja bara gamla góða sannleikann?

Ég mæli með því.


mbl.is Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn-út-inn-út

perrar

Í mínu ungdæmi (vó hvað ég virðist gömul og er gömul, fjárinn sjálfur) tíðkaðist ekki að riðið væri undir stýri, nema að það hafi farið mjög leynt.

Frussssssssss.

Ég held hins vegar að þá hafi tíðkast æxlunarathafnir í aftursætum bifreiða og þá vegna aðstöðuleysis.

Enda samfarir sem fara fram í litlum fólksbifreiðum varla eitthvað til að skrifa langar skáldsögur um.

Það er einfaldlega; inn-út-inn-út - búið bless.

Ekki að ég vitið það.

Algjörlega saklaus um svona ógeðishegðun í sjálfrennireiðum.

Núna virðist fólk stunda kynlíf undir stýri og það sér til skemmtunar.

Kikkið hlýtur að felast í hættunni og hraðanum ímynda ég mér.

Þetta er sama fenómen og að henda sér í fallhlíf (ekki æsa ykkur fallhlífarfólk), fara í teygjustökk og hoppa í fossa.

Ég meðtek að það er til fullt af svona fólki en ég reyni ekki að skilja það.

Ekki að það sé eitthvað skrýtið, ég skil ekki fullt af fólki.

Heilu starfstéttirnar eru mér hulin ráðgáta, eins og til dæmis prestar og sundlaugaverðir.

Svo ég ekki tali um líkkistusmiði.

Ég næ ekki neinum flöt á starfsvalinu.

En að ríða undir stýri er held ég toppurinn á áhættufíkn.

Þetta fólk ætti að detta í það í staðinn.

Kommon, vegfarendur og fólk í bifreiðum í hættu út af einum drætti.

Ég næ ekki upp í nef.


mbl.is Stunduðu kynlíf á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugaleg rödd

 easterbunny

Sorglegt hvað fólk heldur misvel upp á páska en mikið skelfing er ég glöð að vopnaævintýrið endaði slysalaust.

Borgarar eiga ekki að eiga skotvopn.  Einfalt mál.

En súkkulaðihátíðin á kærleiks er búin að vera yndisleg.

Hér er nafna mín komin til gistingar og mamma hennar kom með hana og hjálpaði mér (lesist þreif ein nánast alla íbúðina).

(Í gær reddaði frumburðurinn helgarinnkaupunum með móður sinni mállausri, dætur mínar eru bestar).

Jenný Unu brá yfir drungalegu raddleysi ömmunnar.

Henni leist satt best að segja ekki á blikuna.

Amma, ég er ekki viss að ég ætli að gista há ykkur.

Amman: Ha, af hverju ekki?

Jenný: Þú er mjög draugaleg í röddinni.

Amman: En ég er samt alveg sama amman.

Jenný (ákveðin): Nei, þúertaekki.

Aðeins seinna:

Amma, þú ert að lagast í röddinni þinni mjög hratt.

Ég ætla að gista há ykkur afa.

Lífið er unaður.

Ég er farin að koma upp einu og einu hljóði.

Vó, hvað það gleður.

Njótið súkkulaðihátíðarinnar í botn.

Það ætla ég að gera.


mbl.is Þurfti að kalla á sérsveitina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitið og þér munuð finna

 sjálfstæðisflokkurinn

Þingmenn Sjálfstæðisflokkisins, svo krúttlegir eitthvað, ætla að mæta í páskaeggjaleit á vegum sjálfstæðifélaganna í Reykjavík.

Almáttugur Jésús á galeiðunni!

Ég ætla rétt að vona að þeir séu duglegri við eggjaleitina en þeir eru við að finna þá sem tóku á móti styrkjunum frá Landsbanka og Enron FL-Group.

Jæja hvað um það.

Ég óska þeim góðs gengis.

Súmítúðefokkingbón.

Úje.


mbl.is Þingmenn í páskaeggjaleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott framtak

Væri ég ung manneskja í dag þá er allt eins líklegt að ég hefði farið með í hústökuna á Vatnsstígnum.

Ekki af því að ég beri ekki virðingu fyrir eignarréttinum heldur vegna þess að virðing mín fyrir fólki, mannlífi og menningu er meiri og djúpstæðari.

Það eru hreysi út um alla miðborgina.

Hreysi sem eigendurnir hafa látið drabbast niður í þeirri von að borgin keypti af þeim lóðirnar á svipuðum prís og Laugavegshúsin. 

Ég ætla rétt að vona að sú klikkaða gjörð verði ekki endurtekin.

Nú ætla ég að vona að fólki sé það ekki á móti skapi að hús sem enginn hirðir um séu tekin og þeim gefið hlutverk.

Ef það fer fyrir brjóstið á einhverjum þá má hinn sami alveg skoða málið upp á nýtt.

Reyndar þurfum við öll að skoða allt upp á nýtt.

Hvaða andskotans fyrirkomulag er það að láta hús drabbast niður í miðborginni?

Þetta eru slysagildrur, eldsmatur, paradís fyrir rottur og villiketti.

Halló, hví ekki að gefa þessum húsum nýtt líf?

Ekki taka eigendurnir ábyrgð svo mikið er víst.

Til hamingju hústökufólk.

Nú er einu ógeðishúsinu færra í borginni.


mbl.is Hústökufólk á Vatnsstíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég get ekki talað

NS-eggið mitt

Páskar, páskar, páskar.

Mér finnst þeir oftast erfiðir vegna trámatískrar lífsreynslu í æsku.

Róleg, ekkert dramatískt, en þeir sem deila með mér minningum frá páskum upp úr miðri síðustu öld vita hvað ég er að meina.

Það var allt lokað, ekkert sjónvarp og endalaus helgislepja í útvarpinu.

Svo var ekki kjaftur á ferli, krakkar ekki heima og maður gekk í gegnum helvíti af leiðindum.

Allt fyrir Ésú.  Hvers átti maður að gjalda?

Núna hins vegar er ég að bíða eftir kosningum.

Mér gæti ekki verið meira sama um þennan snjókarl á Akureyri.  Hann bráðnar bara í fyllingu tímans eða eitthvað.

Svo er ég raddlaus, nenni ekki út í það en ég get ekki talað.

Hvað geri ég þá?

Jú, ég fylgist með Sjálfstæðisflokknum og borða páskaegg.

Páskaegg úr Konsum súkkulaði, sem er mitt uppáhalds súkk.

Þó ég sé sykursjúk þá leyfi ég mér smá súkkulaðisúkk á jólum og páskum.

Sumir segja að gamla fólkið elski suðusúkkið, ég segi að sælkerarnir hafi smekk fyrir því.

Svo er það hollara.

Málshátturinn var; hæst bylur í tómri tunnu, ég tek því ekki persónulega enda greind með afbrigðum.

Fáið ykkur páskaegg til að lifa af þessa daga þar sem hver spillingarfréttin rekur aðra.

Það er eitthvað karmískt við þettta nýjasta mál.  Sjálfstæðiflokkur tekinn í bóli af FL-Group.

Njótum lífsins, það er ekki seinna vænna að starta partíinu.

Maður yngist ekki.

Grátið mér stórfljót, ég get ekki talað.


mbl.is Snjókarlinn ekki látinn í friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra!

Trú mín á mannkynið (lesist fólkið í Kraganum) hefur aukist til mikilla muna.

Húrra!


mbl.is VG tvöfaldar fylgið í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fossablæti

Svona frétt er uppfyllingarefni.

Þriðjudagur smiðjudagur.

Vitið þið að mig dauðlangar á hótel um páskana.

Ég sagði mínum reisufælna eiginmanni þessi tíðindi rétt fyrir kvöldfréttir.

Hann spurði hvar hótelið ætti að vera staðsett, kannski í öðru landi?

Ég var á því að það væri slétt sama, mig langaði einfaldlega á hótel.

Og ég vildi að það heyrðist í fossi inn um gluggann.

Ég nenni ekki að segja ykkur hvernig þetta samtal þróaðist.

En ég er ekki á leiðinni á hótel um páskana.

En mér hefur hins vegar verið bent á að það sé foss í nágrenninu sem ég geti heimsótt.

Þessi í Kaupþingsanddyrinu þið vitið.

Á opnunartíma banka og sparisjóða.

Hef ég sagt ykkur hvað ég er gift skemmtilegum manni?

Ekki?

Ég held ég láti það alveg eiga sig að sinni.


mbl.is Þriðjudagur erfiðastur vinnudaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2988383

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband