Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

DÓMAR HEIMSINS Í TILEFNI DAGSINS

 

 93

Verð bara svona í tilefni mánudagsins að skella inn því ljóði sem mest hefur hvatt mig áfram í gegnum árin.  Þetta ljóð hef ég í áranna rás skrifað inn í hvert einasta ferminga- afmælis- og útskriftakort til stúlkna sem ég þekki. Mér finnst ekki af veita að koma þessum heilræðum til kvenna þarna úti sem eru að tjá sig um klám, ofl. Það er illilega að þeim veist. Ég þarf vart að taka fram að dætur mínar fengu neðanskráð með móðurmjólkinni.  Þetta er líka ljóðið sem ég ætla að láta syngja yfir mér þegar ég er öll.  Jarðaförin auglýst síðar.LoL

OGGJÖRIÐISOVELLLL......

Dómar Heimsins, dóttir góð
munu reynast margvíslegir
Glímdu sjálf við sannleikann
hvað sem hver segir.

Gakktu einatt eigin slóð
hálir eru hversmannsvegir
Skeyttu ekki um boð né bann
hvað sem hver segir.

Inn í brjóst þitt ein og hljóð
rýndu fast ef röddin þegir.
Treystu á þinn inni mann
hvað sem hver segir.

- ljóð: Jóhannes úr Kötlum.

 


ÞJÓÐSÖNGURINN

73

Það virðast allir vera að fara á límingunni vegna hins nýja texta sem Spaugstofan gerði við þjóðsönginn.  Ég skil ekki þessi læti.  Nú skilst mér á fólki sem veit að ekki megi spauga með þjóðsönginn.  Mér finnst það ættu að vera lög sem banna húmorsleysi, það er öllu meira áríðandi.  Mér hugnast ekki þjóðrembingur ég er meira að segja í prinsippinu á móti landamærum og einhvern tímann var ég meðlimur í hreyfingu sem hét, að því er mig minnir, world without bounderies".  Þessi hreyfing, hvaðhúnnúhét, hafði það að markmiði að öllum landamærum yrði lagt og heimurinn yrði allra. Dálítið róttækt kannski en alls ekki svo galið að hafa markmið. 

Það er í lagi að hafa þjóðsöng en hann á ekki að vera alheilagur. Stóran hluta ævi minnar þá hljóp ég á sunnudagskvöldum til að ná að slökkva á sjónvarpinu áður en þjóðsöngurinn var spilaður, því það var BANNAÐ að slökkva eftir að hann var byrjaður.  Þvílíkur hégómi.

Ég legg til að leyfilegt verði að varíera með þjóðsönginn.  Það væri gaman ef einhver setti hann í rappform þannig að venjulegt fólk gæti þó amk. trallað með.  Það þarf söngstig úr skóla til að geta hummað með honum eins og hann er úr garði gerður núna.

Íslands þúsund ár.... úje 

 


MEÐ TÁR Í AUGUM

83

Í Sunnudagskastljósinu áðan var höfundur bókarinn Launhelgi lyganna, gestur Evu Maríu.  Ég náði ekki fullu nafni konunnar en veit að hún er kölluð Linda.

Ég sat með tárin í augunum og hlustaði á frásögn Lindu.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hlusta á frásögn konu sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem barn, hvert skipti er nýtt,  en sársauki þeirra allra er sá sami. Í þetta skipti er það Linda sem gengur fram fyrir skjöldu og leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að búa börnum sem búa við kynferðisofbeldi, öruggari framtíð.  Mér fannst hún flott og hugrökk. Hreint aðdáunarverð kona.

Ég get ekki hætt að furða mig á því hvernig allt umhverfi barna bregst þeim æ ofan í æ, þegar þau búa við þann hrylling að vera misnotuð inn á heimilinu.  Það er hvergi skjól fyrir barnið, traust þess á lífinu er malað mélinu smærra, útleiðirnar engar, virðist vera.  Fullorðnir eiga það til að standa saman gegn barninu.  Betra að þegja en hræra upp í fjölskyldunni.  Uss. uss.. Þega Linda sagði frá rétt um tólf ára aldur var hún lokuð inni á klósetti á meðal fullorðna fólkið æpti og gargaði.  Mig verkjar í hjartað yfir þeim sársauka sem þessi litla telpa hlýtur að hafa fundið til innilokuð eins og sakamaður.  Síðan var hún, fyrir framan ofbeldismanninn, látin sverja við Biblíuna að ofbeldið hafi átt sér stað.  Manni langar að fara og brjóta eitthvað.

Það þarf mikið hughreysti til að koma fram og segja frá opinberlega.  Eins og Linda núna sem og Thelma Ásdísardóttir.  Ég er svo viss um að með því að rjúfa þöngnina leggja allar þessar konur  sem ákveða að segja frá, nýjan grunn fyrir börn framtíðar, þannig að erfiðara verði að meiða börn og nánast eyðileggja líf þeirra í barnæsku.  Það virðist kannski langsótt markmið að útrýma ofbeldi á konum og börnum en ekkert minna en það á að vera á stefnuskránni hjá okkur öllum.


AF MANSALI

51

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar umræðan um mansal, klám og vændi er á borðinu (allt þetta sami hlutur), hvort góður slatti fólks sem talar um þessa hluti  geri sér í alvöru ljóst hversu nútíma þrælahald á konum og börnum er gífurlegt.

Ég var að glugga í Fréttablaðið og las dagbók Þráins Bertelssonar þar sem ma. koma fram sláandi tölur um mansal í nútímanum en Þráinn hefur verið að vinna rannsóknarvinnu sem lýtur að bók sem hann er að skrifa.  Ég rak augun í eftirfarandi tölur:

Á hverju ári eru meira en 10 milljónir manna, aðallega þó konur og börn, seldar mansali. Og í Thailandi einu starfa meira en ein miljón kynlífsþræla við að svala fýsnum Vesturlandabúa - nær eingöngu konur og börn!!!

Á sama tíma sem við lögleiðum vændi eru milljónir á milljónir ofan misnotaðir og í ánauð.  Svo verður fólk hissa á að þeir skuli ergja mann þessir "frelsiselskandi" menn sem reka upp ramakvein ef einhver leyfir sér að minnast á raunveruleikan svo ég tali nú ekki um ef við leyfum okkur að vera á móti klámi.

Við megum vera á móti mansali svo fremi að það hrófli ekki við því sem þeir telja "eðlilegt" klám.  ARG....ég ríf í hár mér.


DAGURINN Í DAG

50

Þarna úti er félagi sem berst í fallhættu eftir margra ára edrúmennsku.  Ég vil að viðkomandi viti að ég hugsa til hans og við hann vil ég segja þetta:  Þú veist hvað þér ber að gera, þú hefur verkfærin og nú er bara að nota þau.  Ég læt fylgja "daginn í dag" en þar ættir þú að geta fundið eitthvað þér til hugarhægðar.  Taktu klukkutíma í einu, eða jafnvel mínútu.  Löngunin gengur yfir og það er hjálp að fá. Þú þarft bara að sækja hana.  Mundu að lögnunin til að hætta að drekka er það sem rak okkur af stað í upphafi, nýttu þér hugsunina um það.  Til þín fylgja hlýjar hugsanir frá mér en aðeins þú getur tekið skrefið. 

Þegar ég fór í mína áfengismeðferð í fyrra og ég var dregin frá grafarbakka og inn í hús, fékk ég lítið spjald sem heitir "Dagurinn í dag" að gjöf.  Þetta er lífsspeki sem ég held að allir hafi gott af að tileinka sér.

Í dag ætla ég að láta deginum nægja sína þjáning og ekki taka ákvörðun lengra fram í tímann en næstu tólf stundir.  Ég ætla ekki að reyna að brjóta til mergjar öll vandamál lífs míns.

Í dag ætla ég að vera ánægð.  Ég ætla að trúa því sem Abraham Lincoln sagði: "Flestir eru eins ánægðir og þeir einsetja sér að vera."

Í dag ætla ég að leitast við að fá andlegan styrk.  Ég ætla að læra eitthvað nytsamt.  Ég ætla að lesa eitthvað sem krefst áreynslu, hugsunar og einbeitingar.

Í dag ætla ég að laga mig eftir aðstæðunum en ekki reyna að breyta öllu í það horf sem mig langar til sjálfa.

Í dag ætla ég að þjálfa mig á þrennan hátt.  Ég ætla að gera einhverjum gott, án þess að nokkur viti. Ég ætla að gera eitthvað sem mér leiðist, aðeins til þjálfunar.  Og ef tilfinningar mínar eru særðar, ætla ég ekki að láta á því bera.

Í dag ætla ég að vera eins snyrtileg og mér er unnt, tala rólega og koma kurteislega fram.  Gagnrýna engan. Reyna ekki að bæta eða aga nokkurn annan en sjálfan mig.

Í dag ætla ég að fara eftir áætlun.  Líklega fylgi ég henni ekki nákvæmlega, en ég ætla að fara eftir henni í höfðudráttum.  Ég ætla að forðast tvo kvilla: hraða og ráðleysi.

Í dag ætla ég að hafa hálfrar stundar ró aðeins fyrir sjálfa mig, til hugleiðingar og hvíldar.  Á þessari hvíldarstund ætla ég að öðlast betra yfirlit um líf mitt.

Í dag ætla ég að vera æðrulaus.  Ég æla ekki að vera hrædd við að njóta þess sem fagurt er og trúa því að veröldin gefur mér á sama hátt og ég henni.

Í dag ætla ég að reyna að temja mér auðmýkt hjartans og vera ekki hrædd við að viðurkenna breyskleika minn.

Baráttukveðjur,

 


LAUGARDAGSPÆLINGAR

53

Það er svo margt sem mig langar að blogga um.  Samt er það stundum þannig að hugsanirnar eru eins og rússibani á fullri ferð, láta ekki að stjórn.  Þannig hefur það verið undanfarið hjá mér, einfaldlega vegna þess að ég hef látið öllum illum látum með sjálfa mig.  Farið fram úr mér, gert of mikið, mæðst í mörgu eins og Marta greyið og hreinlega gleymt að forgangsraða.

Ég var að hugsa um hversu rík þörf er innra með okkur að máta alla skapað hluti við okkur sjálf. Auðvitað er það nauðsynlegt að velflestu leyti, við höfum bara okkar reynslu til að notast við. Það sem er þó að fara í taugarnar á mér er þessi þörf margra til að hafna öllu sem er þeim ekki þóknanlegt.

Áður en ég komst til vits og ára uþb í október á síðasta áriLoL (ekki alveg svona slæmt) þá var ég óþolandi dómhörð oft á tíðum.  Ég hafði ZERO tolerans fyrir fólki sem fór aðrar leiðir en ég.  Þetta viðurkenndi ég ekki svona opinberlega en ef ég dæmi sjálfa mig af ummælum mínum á þessum sokkabandsárum þroska míns, þá er ég vegin og léttvæg fundin.  Ergo: "Guilty as charged".  Ég ætla ekki að mála skrattann á vegginn en ég var illa haldin af dómhörku. Einkum og sérílagi upp úr þrítugt. Ég er núna eldri en sjálf erfðasyndin (af hinni friðelskandi blómakynslóð) en sem betur fer hefur mér með víxlsporum mínum í lífinu lærst að hver manneskja er dýrmæt, þrátt fyrir að hún sé etv hundleiðinleg, með allt aðra lífsýn en ég sjálf og að viðhorf hennar minni mig á geimveru.

Til að útskýra hvað ég meina svona blákallt þá kem ég með nokkur dæmi um fullyrðingar mínarBlush:

Alkahólistar eru aumingjar (þarna hef ég greinilega ræst karmalögmálið því ég endaði í meðferð sjálf og fékk upplýsingar um sjúkdóminn alkahólisma frá fyrstu hendi. Ég lærði "the hard way" að alkahólistar eru ekki aumingjar enda hefði ég seint skrifað upp á að ég væri vesalingur)

Fólk sem er ekki sammála mér í pólitík eru hugsjónalausir hálfvitar Þarna varð mér illa á í messunni og fékk að komast að því fullkeyptu að fólk er,  án tillits til stjórnmálaskoðana, fyrst og fremst manneskjur sem allar hafa sama útgangspunkt.  Þe að betrumbæta samfélagið. Eini munurinn á  milli fólks eru leiðirnar að markinu. (verð þó að taka fram að "sumir" virðast löngu hafa gleymt þessari fallegu fyrirætlun og skara bara eld að eigin köku).

Konur sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru handbendi kvennakúgunarafla og því með greindarvísitölu langt undir stofuhita Þetta þurfti ég að éta ofan í mig eins og margt annað.  Allar konur sem vilja hafa áhrifa á samfélagið eru af hinu góða en eins og áður er nefnt eru leiðirnar að markinu margar og þótt ég sé fullkomlega og algjörlega óssammála þeim þá þýðir það ekki að þeirra hugsjónir séu eitthvað verri en mínar.

Ég tók nú bara svona yfirborðskennd dæmi.  Dómharka sem beinist persónulega að fólki er þó verst og ég kom því miður við í þeirri deild líka og dvaldi þar mun lengur en sem nam einum kaffibolla. En ég gengst við vanþroska mínum. Orð og hugsanir hafa ábyrgð.

Í dag ætla ég ætla ég að tala rólega og koma kurteislega fram.  Gagnrýna engan.  Reyna ekki að bæta eða aga nokkurn annan en sjálfa mig.

Svo mörg voru þau orð.

 

 


VESALINGS STARHAGI

97

Ég er ein af þeim sem skrifuðu undir mótmæli gegn opnun Háspennu í Mjóddinni.  Nú er það mál úr sögunni og þökk fyrir það.  Nú á að koma þessu "fyrirtæki" sem blómstrar á annara harmi þe hefur tekjur af spilafíklum að stórum hluta, fyrir á Starhaga. Borgarfulltrúar Samfylkingar og VG lögðu í dag fram bókun á fundi borgarráðs þar sem það er átalið að láta Háspennu eftir dýrmæta byggingarlóð við Starhaga.  Nú get ég ekki séð að nokkurt íbúðahverfi kæri sig um þessa starfsemi.  Hreint óskaplega gætum við verið án svona spilasala.  Nú spilar fólk á netinu líka og lendir þar í alls konar vandræðum.  Er það ekki nóg?  Mér finnst eitthvað svo sjúklegt við að líknarfélög hafi hag af spilakössum.  Mér finnst það í raun absúrt.

Spilafíkn mun vera hryllilegur sjúkdómur.  Hún snertir alla fjölskyldu fíkilsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum (sjálfsvíg ekki óalgeng).  Það má vera að það teljist til frelsis að fólk fái að spila rassinn úr buxunum.  Það er þá frelsi sem ég kæri mig ekki um.


mbl.is Gagnrýna að Háspenna fái lóð við Starhaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

UNGLINGSSTELPUR

26

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið af hverju ég sé ekki með þessa venjulegu "heimurversnandifer" skoðun á unglingum eins og mér skilst að sé náttúrulögmál þegar maður hefur fjarlægst sjálfa sig á táningsaldri næganlega mikið.  Tilfinningin er ekki til staðar og mér finnst unglingsstelpur, sem ég þekki betur til en stáka á þessum aldri, vera betri ef eitthvað er, stilltari, meðvitaðri og rólegri en við vorum hérna í denn.  Auðvitað eru þær í hóp, flissandi og hvíslandi en þær virðast vera vissari um hvað þær vilja og hvert þær stefna. Ég er náttúrulega bara að tala um þann hóp sem ég þekki vel til.

Ég var unglingur í bítlaæðinu.  Áður en það brast á voru ekki til unglingar, það voru til smástelpur sem síðan stökkbreyttust í kerlingar, með slæður, í nælonsokkum svakalega líkar mæðrum sínum og það var ekkert unglingalegt við þær.  Við bítlastelpukynslóðin, við gerðum uppreisn.  Hárið var ofan í augu, maskarinn "House of Westmore" var aldrei skilinn eftir heima og varirnar voru málaðar með hvítum sanseruðum varalit eða zinkpasta.  Við vorum í útvíðum buxum sem flöksuðust um allt, í leðurjökkum og vorum ógnvænlega flottar að okkur sjálfum fannst.  Ekki máttum við mála okkur heima, þar sem fjölskyldan var í losti yfir breytingunni sem hafði orðið á "barninu" þannig að við máluðum okkur í Njálsgötu-Gunnarsbraut-strætó... án spegils.

Við fórum í Æskulýðsráðið á Opið Hús og dingluðum augnahárunum og gerðum okkur smá til við bítlastrákana.  Það hét reyndar að vera á föstu, að haldast í hendur við einhvern gæja.  Ég náði að vera á föstu með einum í þrjár vikur og halda í hendina á honum og hann sagði hæ.. og bæ.. og ekkert meira, en það var eitthvað svo mikil útgeislun frá honum þegar hann sagði þau og KRAFTUR.  Eftir þriggja vikna handahangs sagði ég viðkomandi upp, ég var ekki svona saklaus.

Við gerðum allskonar af okkur.  Stálumst í borð í Akraborgina og héldum upp á Skaga, skruppum upp í bæ og sjá.... við misstum af bátnum.  Engin ferð í bæinn fyrr en daginn eftir og við trylltumst úr gleði (en ég vældi smá því ég vissi hvað biði mín, straff í amk. viku), foreldrar mínir brjáluðust á sinn rólega og yfirvegaða hátt en gátu ekkert gert, á þessum tíma var meiriháttar mál að fara upp á Skaga.  Við skemmtum okkur konunglega og enn í dag má ég ekki heyra Mr. tambourine man án þess að tárast úr gleði.

Við lugum því vinkonurnar að við ætluðum á skíði og vera eina nótt í KR-skála.  Ferðinni var heitið í Stapann og skv. foreldrum okkar þá voru bara kanamellur í Stapanum (landafræðikunnátta foreldranna ekki alveg að gera sig).  Við héldum því með útigallana og vel nestaðar (svið og sollis) í Keflavíkurrútuna og djömmuðum kröftuglega en áttum í vandræðum með skíðanestið og plebbafötin svona "geymsluwise". Daginn eftir klipum við okkur í kinnarnar til að sýnast útiteknar.  Þetta er í eina skiptið sem svona lygaplott heppnaðist.  Það var svo mikil spenna fólgin í öllum þessum undirbúningi, sektarkennd auðvitað líka en við urðum sérfræðingar í að ná okkar fram.

Við vorum of ungar í Glaumbæ, við komumst að því að með því að mæta kl. 20.00 var okkur hleypt inn og við létum fara lítið fyrir okkur upp á efstu hæð þar til að húsið fylltist um kl. 23,00Blush

Iss ég verð að stoppa núna.  Sögurnar eru óteljandi.  Þetta verður RITRÖÐ.  Nóg sagt í bili og ef að þú pabbi slysast hér inn, þá máttu vita að mér finnst þetta mjög leiðinlegt. Hm... fyrirgefðu og ekki segja mömmu.

778


SKÍRNIN Í BOÐI VÍS

332

Í morgun las ég í Blaðinu að nú fá skírnarbörn Grafarvogskirkju áritaðan smekk að gjöf frá VÍS.  Þetta er pínu fyndið og rosalega "smekklaust".  Nú teygja fyrirtækin anga sína inn í prívatathafnir fjölskyldnanna í Grafarvogi og nágrenni, ekkert tækifæri til auglýsingamennsku skal látið ónotað.

Í praxis lítur þetta svona út: Hvítur smekkur með rauðri rönd og á honum stendur: "Þakkið Drottni því að hann er góður" og undir mynd af Grafarvogskirkju stendur "Með kveðju frá Grafarvogskirkju"  Með smekknum fylgir svo auglýsingabæklingur um bílstóla frá VÍS.

Í staðinn fyrir auglýsinguna fær kirkjan styrk frá VÍS. 

Skyldi bresta á með fjöldaflótta úr Grafarvogssókn þegar skíra á börn?  Smekkurinn er nefnilega forljótur og kannski vill fólk halda auglýsendum utanvið sínar helgustu stundir eins og þegar barni er gefið nafn. Æi ég vona það.


SIGURÐUR KÁRI ÓTTAST EKKI RAUÐ HVERFI

23

Í "Íslandi í dag" þar sem Sigurður Kári og Ögmundur sátu fyrir svörum var ma rætt um lögleiðinguna á vændi sem rann í gegn í þinginu á meðan fagnaðarlætin um fyrningarafnám á kynferðisafbrotum stóðu sem hæst.  Ég held að fæstir hafi áttað sig á þessu veiðileyfi sem búið er að gefa út á konur og nú geta íslenskir melludólgar fagnað.

En aftur að Sigurði Kára.  Aðspurður kvaðst hann ekki óttast að rauð hverfi muni rísa hér þar sem eftirspurnin væri einfaldlega ekki til staðar.  Það er þá í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn telur það af hinu góða að skortur á eftirspurn skuli vera fyrir hendi.  Hvaðan Sigurður Kári hefur þessar upplýsingar um skort á eftirspurn eftir vændi vildi ég gjarnan fá að vita.

Nú eru klámkóngar þessa lands, eigendur staða þar sem mansal og vændi lifa góðu lífi, með ríkari mönnum.  Sumir þeirra flagga auðlegð sinni og senda samfélaginu fokkmerki, enda voru þeir nánast ósnertanlegir og núna eru þeir orðnir löglegir.  Eins og Eimskipafélagið og Aktavis.  Merkilegt að þessir staðir þar sem vændi er stundað og hingað fluttar erlendar konur sem koma oft úr sárri fátækt og neyð, skuli hagnast svona rosalega ef eftirspurn eftir vændiskonum er ekki til staðar.  Erfitt að sjá hvernig það á að ganga upp.

Nú er bara að setjast niður og bíða.  Lögin taka gildi um næstu helgi.  Ég hef á tilfinningunni að ýmislegt eigi eftir að breytast.  Núna er allt opið og leyfilegt og dólgarnir hljóta að fagna því.  Mansal og vændi er blómlegur bissniss.  Dúndrandi hagvöxtur í greininni. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 2988124

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.