Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Alkajól

 

Jól og alkahólismi eru eitruð blanda.

Sem betur fer var ég ekki orðin fyllibytta þegar stelpurnar mínar voru litlar.

Ég hef sloppið fyrir horn í jólahaldinu undanfarin ár, þ.e. áður en ég fór í meðferð, en bara rétt svo.

Í hitteðfyrra, þ.e. síðustu jólin sem ég var virk, var ég svo heppin að fá lungna- og barkabólgu.  Ég lá hálfdauð í rúminu yfir jólin, sem kom sér ákaflega vel, því ég var orðin langt leidd af drykkju og hefði átt verulega erfitt með að standa mig í því hlutverki sem ég hef ásamkað mér á jólum.

Læknirinn var svo elskulegur að segja mér að ég gæti smitað og þar með var komin pottþétt afsökun fyrir lok, lok og læs.  Ískápurinn var auðvitað úttroðin af dýrindis hráefnum til matargerðar en hva, það var sett á bið.

Bið sem í raun varði þar til ég fór í meðferð á nýju ári, seint á nýju ári.

Það er ekki eins og maður hafi verið eitthvað jólaskraut, ónei.

Ekki par jólaleg hún Jenný Anna þarna í restina.

En í fyrra og núna gegnir öðru máli.

Þetta er snúra, já jólasnúra.

Falalalalalalala!


An occasional beer

 60

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ég er óvirkur alki, og þannig vil ég hafa það.  Reglulega er ég spurð af fólki hvort ég telji að þessi eða hinn sé alki, það er hringt í mig vegna þess að aðstandendur hafa áhyggjur af einhverjum í fjölskyldunni og fólk vill bera áhyggjur sínar undir mig.  Ég skil það vel, en ég get ekki dæmt um hver er alkahólisti og hver ekki.  Það er ekki í mínu valdi, enda þó maður greinist með sjúkdóm, þá gerir það mann ekki að sérfræðing í greininni.  Yfirleitt vísa ég fólki á SÁÁ með sínar spurningar. 

Það sem skiptir máli er auðvitað alkinn sjálfur, hvort hann er búinn að ganga sína leið á enda og horfist í augu við ástandið sem blasir hvarvetna við, er búið að gera lengi og er öllum sjáanlegt nema honum.

Afneitunin er merkilegt og magnað fyrirbrigði.  Ég ætti að vita það.  Ári áður en ég fór í meðferð var ég lögð inn á sjúkrahús, dauðveik með ónýtt bris, þar sem ég var stödd í sumarfríi í fjarlægu landi.  Ein af dætrum mínum kom til að standa vaktina yfir móður sinni á móti eiginmanni.  Úff þetta er erfitt stöff.

Læknirinn var fljótur að reikna út vandamálið, brisið, ástand á mér og svona og þar sem hún, ásamt húsbandi og dóttur stóðu við sjúkrabeð hins forstokkaða alka, átti sér eftirfarandi samtal sér stað:

Læknir: You drink much?

Alkinn: No I can´t say I do, probably like most people (W00t)

Læknir: What do you drink?

Alkinn: A little red now and then and an occasional beer!!!! (Hvað segist um ca. 8 á dag?)

Heimspressan var því miður ekki á staðnum til að verða vitni að þessari stund sannleikans á Spáni, en hefði svipur dóttur minnar og manns náðst á mynd, hefði vantrúarsvipur þeirra verið algjörlega ekta.

Tek fram að mér fannst ég alls ekki vera að segja ósatt.  Það er hægt að búllsjitta sig að því marki að maður trúir bullinu í sjálfu sér, allt til að geta haldið áfram að drekka.

Þetta var erfitt en þema vikunnar hjá mér, er sjálfsblekkingin og mér er hollast að muna hvernig fyrir mér var komið.

Svo bið ég almættið í góðri samvinnu við sjálfa mig að halda mér edrú, einn dag í einu, svo ég meiði mína nánustu aldrei meir.

..og þá er það frá en þetta var snúra dagsins.


Og þegiði svo!

Stundum eru gerðar rannsóknir þar sem niðurstaðan er mér verulega að skapi.  Svokallaðar draumaniðurstöður sem slá á klisjur og blása út í hafsauga viðteknum skoðunum í þjóðfélaginu. 

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar athugunar á 149 rannsóknum á mörg þúsund manns, er það mýta og ekkert annað en að konur séu málgefnara kynið.

Ha.. þar kom að því að þetta fór fjandans til.

Að vísu tala karlmenn bara lítið eitt meira en konur að meðaltali, en ég er sátt við það.

Ef marka má alla brandarana um mágleði kvenna og að karlmenn láti varla frá sér setningu öðru vísi en að hún sé djúphugsuð og upplýst, þá slær þessi rannsókn heldur betur á það kjaftæði og rugl.

Karlmenn tala meira í boðhætti en konur.

Dæmi: Hoppa! Hlaupa!, Gera!, Skera!, Hlýða! og Smíða!

Konur munu hinsvegar vera meira í tenglsatali og ég ímynda mér að þá sér verið að meina umræður um líðan og svoleiðis.  Konur eru sérfræðingar í að taka út ástand og stemmingu.  Er það nema von.

Ég er auðvitað að taka þetta út fyrir rammann hérna með smá heimatilbúnum túlkunum, en þetta er skemmtileg pæling.

Auðvitað er þessi mýta um málglaðar konur tilkomin vegna þess að það hefur alltaf verið til staðar tilhneigingin til að þagga niður í konum.  Sussa á þær, gera lítið úr því sem þær hafa fram að færa og láta sem skoðanir þeirra séu fánýtt hjal.

Nú er búið að sýna fram á, það sem við vitum reyndar flestar stelpurnar, þ.e. að körlum þyki líka voða gaman að hlusta á sjálfa sig. Ætli þeir séu jafn meðvitaðir um það?

Later, morgunbænirnar bíða.

Guð blessi ykkur til sjávar og sveitaHalo

Úhújeija!


mbl.is Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur í skjóli nætur

Ég bloggaði um húmorinn hans Össurar í gær, held ég, varðandi Júlíus Vífil.  Mér fannst það krúttlegt hjá karli.  Ég er ekki aðdáandi Össurar, mér er eiginlega slétt sama um hann sem stjórnmálamann,  en hann er litríkur karakter og svo er hann geðbrigðamaður.

En ég ætla ekki að gera hann að umtalsefni hér frekar, heldur þær undarlegu bloggfærslur um bloggfærslu Össurar (blogg, blogg, blogg og í allar áttir blogg).  Hér skrifar hver samsærispostulinn á fætur öðrum um þau undarlegheit að Össur skuli hafa skrifað pistilinn um nótt.  Össur reit sína færslu rétt tæplega 02,00 eftir miðnætti, og það er allt í einu orðið aðalmálið.  Einhver leiddi getum að því að karlinn væri í glasi.  Hinir ganga ekki svo langt heldur gefa það óbeint í skyn.

Halló - ég er edrú, enda óvirkur alki, þó það nú væri, og ég blogga á öllum tímum sólarhrings, nánar tiltekið, þegar það hentar mér.  Ég er næturhrafn og mér líður vel í næturkyrrðinni.  Stundum, ekki oft reyndar, er ég andvaka og þá blogga ég gjarnan.  Aldrei hefur hvarflað að mér að það dytti einhverjum í hug að vera að velta sér upp úr hvenær fólk bloggar.  Verður maður ekki að fara að taka klukkuna út af síðunni?

Mér finnst í fínu lagi að fólk hafi skoðanir á því sem ráðherrann setur frá sér.  Ekkert að því að gagnrýna hann eins og alla aðra í bloggheimum, en að vera með svona pillur er ekki sanngjarnt.  Kannski er Össur bara næturmaður eins og ég og fílar í botn að sitja í næturkyrrðinni og láta gamminn geysa og drekkur kók eða kaffi á meðan hann hamast á lyklaborðinu.

So fucking what?

Annars hló ég nú að færslunni á eyjan.is þar sem fjallað var um "tippsí Össur" hitt finnst mér verra, þegar verið er að gera fólk "grunsamlegt" bara vegna þess að fólk er ósátt við skoðanir viðkomandi.

Allir edrú og í góðum málum? Ha?

Og skamm bara.

Úje.


Eitthvað fyrir Íslendinga?

Þetta er fíflafærsla.

Ég vissi ekki að Taílendingar væru þjóðsöngsnöttarar.  Ekki að ég hafi yfirhöfuð vitað nokkuð um afstöðu þeirra til þjóðsöngva yfirhöfuð, enda alls ekki nógu vel upplýst um þetta land sem ég myndi heimsækja ef ekki væri vegna þess að það eru æði mörg lönd á óskalistanum nú þegar, og ekki víst að mér endist aldur til að tæma hann. Svo er auðvitað ákveðin skordýrahræðsla að skemma fyrir mér ferðalöngun í augnablikinu.

"Taílenskir þingmenn eru ekki sérlega hrifnir af breytingum, sem  hershöfðingjar vilja gera á fánalögum landsins. Samkvæmt lagafrumvarpinu eiga ökumenn m.a. að stöðva bíla sína tvisvar á dag til að votta fánanum og þjóðsöngnum virðingu sína."

Ég fór nefnilega að hugsa um hvernig þetta yrði í umferðinni hérna hjá okkur, og hversu brjálæðislega fyndið það yrði að horfa á Íslendinga í stressinu. stöðva rennireiðirnar og hlusta andaktugir á meðan Guðsvorslandið hljómaði í eyrum okkar allra.

Annars á ég ekki að tjá mig um þjóðsöngva.  Ég er heiðin og forstokkuð í sambandi við flest sem lýtur að þjóðernishefðum.  Það þýðir ekkert að skamma mig fyrir það, ég er fædd svona. 

Mér fannst frábært þegar Spaugstofan tók þjóðsönginn í vor og breytti textanum.  Ég get alveg hugsað mér að láta rappann, bítlann og skrykkjann.  Nánast ekkert á að vera hafið yfir húmor. Ekki Óli, ekki kirkjan og þá alls ekki þjóðsöngurinn.

Jæja, verð að drífa mig, er að fara í messuDevil

Guð geymi.

Úje


mbl.is Stöðvað til að hlusta á þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frunsur og brotnar neglur!

 

Frost í dag víðast hvar.  Já, já, segið mér fréttir.

Ég vaknaði fyrir allar aldir með Jenný Unu Eriksdóttur, og hárið á mér hefur verið límt við andlitið á mér síðan.  Ég get ekki snert nokkurn skapaðan hlut án þess að fá straum.  Mér er kallt.

Það myndi toppa ástandið á þessum frostkalda degi ef ég fengi frunsur og brotnar neglur.

Toppurinn á tilverunni.

Annars bara góð.

Góðann daginn.

Læt fylgja með eina mynd af Jenný Unu þegar hún var pínulítil og hafði stolist upp á borð.

Krútt.


mbl.is Víða talsvert frost í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drasl dagsins

Ég er svo þreytt að ég stend varla í lappir.  Hvoruga.  Dreg ýsur en það er það lengsta sem ég kemst þegar fiskur er annars vegar þessa dagana.  Kjöt, kjöt, kjöt, alltaf kjöt.  Ég vissi að ég myndi ekki höndla það að fara að heiman, strax við tvítugt, en ég lét gossa og velti mér upp úr syndsamlegum steikum hvern dag.  Hefði betur verið heima fram að þrítugu og látið foreldra mína ljúka uppeldinu.  Við erum mis fljót til þroska.

Hér hafa mublur verið bornar inn og út.  Öllu drasli sem ekki er bráðnauðsynlegt hefur verið hent.  Hér er ekki arða af óþarfa innan veggja, nema auðvitað undirrituð.  Minimalisminn orðinn algjör á heimilinu, nánast búin að ná hámarki, en því er náð, skv. Ibbu vinkonu minni, þegar við þurfum að ná í ausuna niður í kjallara.

Ég er búin að setja upp jólagardínur í eldhúsi, óróa og gyðingaljós.  Ég er svo líbó.

Eldaði góðan mat.

Jenný er í heimsókn.

Ég grét af sorg yfir lögunum í Laugardagslaginu.  Er þetta það besta sem við höfum upp á að bjóða? GMG:

Nóg um það.  Er farin að laga te.  Svo er það lúll.

Úje.

 


Össur er einfaldlega dúllurass!

Ég var að lesa bloggið hans Össurs og ég fékk krúttkast.  Maðurinn er megadúlla, það má hann eiga. Hann fer mikinn og segir að sexmenningarnir í fyrrverandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins hafi eyðilagt REI og GGE dæmið.  Hvað um það, það er ekki pistillinn sem slíkur sem henti mér í vegg af hlátri, heldur það að ráðherrann skuli kalla Júlíus Vífil, FÍFIL!

Hér er Fífill

Um Fífil

Frá FÍFLI

Til Fífils

Ójá

Hérna eru herlegheitin.

Slagvilla, minn afturendi.

Ónei.

Farin að elda.

Lalalala


Ég er klofinn persónuleiki

1

Ég er gamall hippi, í hugsun en ekki í útliti. Ég er of skveruð fyrir mussur og klossa.  Miðað við reynslu og fyrri störf, ætti ég að hoppa hæð mína yfir "Ekki kaupa deginum", blogga hvatningarblogg um að kaupa ekki örðu í dag og vekja athygli á neyslubrjálæðinu, sem ég reyndar geri oft.  En ég get það ekki að þessu sinni, því í dag ætla ég að sjoppa eins og ég hef orku til.

Ég er klofinn persónuleiki, ég sver það.  Ég myndi t.d. aldrei hengja mig í krana í mótmælaskyni eða leggjast á götuna til að leggja áherslu á gott málefni.  Ástæðan er einföld, ég tæki mig ekki nógu vel út hangandi í krana.  Væri hrædd um að gallabuxurnar myndu krullast upp á kálfa, eða að dragtarpilsið myndi hífast upp um of nálægt júnóvott.  Enginn stíll yfir því og ég vil alltaf koma vel fyrir.  Líka í mótmælaaðgerðum.  Þess vegna mótmæli ég af alefli heima í stofu (stofukommi?).

Klofningur huga míns kemur fram í ótal myndum.  Ég elska t.d. lömbin, litlu og sætu ofurheitt.  Á myndum eru þau dúllur dauðans, en á mínum matardisk eru þau jafnvel enn fallegri og ég fæ næringarlega fullnægingu þegar ég sting í þau hníf og gaffli.

En í dag mun ég vaða um eins og hippi á trippi um musteri Mammons.  Ég var einmitt að hugsa um að það væri ógeðslega flott ef flest allir myndu nota daginn til að kaupa ekki örðu, því meira pláss fyrir mig og mitt fólk. Og á meðan ég veð um allt með minn innkaupavagn, mun ég sýna stuðning í huganum. 

Það er alltaf verið að gera manni erfitt fyrir.  Þessi "Ekki kaupa dagur" er flott hugmynd, en ég legg til að hann verði settur á annan dag á árinu.  T.d. Föstudaginn Langa eða Jóladag.Devil  Sounds like a plan?

Er farin að gera innkaupalista elsku lufsurnar mínar.

Úje og amen í buddunni.


Túdú- Tékklisti Jennýjar

 1

Á morgun hendi ég út tveimur sófum og tek inn einn þokkalega stóran í staðinn.

Á morgun ætla ég bara að lesa slúðurfréttir í blöðunum til að hamingjujafna.

Á morgun ætla ég ekki að aga nokkurn annan en sjálfa mig. (Stolið úr deginum í dag).

Ég ætla að vera í jólaskapi frá morgni til kvölds.

Ég ætla að heimsækja frumburð eða hún mig.

Ég ætla að vera með hana Jenný Unu, var að grenja út barn hjá foreldrum.

Ég ælta að tala við Maysuna mína í London og Oliver líka, heyra hann segja "Amma Jenný", vitið þið að það er hægt að segja þessi tvö orð þannig að maður fletjist út á vegg í krúttkasti og fara svo að grenja úr söknuði?  Jú, jú, alveg hægt.

Ég ætla að lesa AA-bókina til hamingjuauka og bættrar heilsu.

Ég ætla að láta eins og fífl á milli þátta.

Ég ætla að jólast eins og m-f.  Ekki nema mánuður til stefnu.  Flýta sér.

Dem, það er ekki pláss fyrir meira.

Tjékk, tékk, tékk.

Bítmíbætmídóntsúmí.

Úje

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband