Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Ég er langt á undan minni samtíð :)

 

Eftir daginn í dag er ég með amk. eitt á hreinu.

Ég er langt á undan minni samtíð.

Í dag var ég að fara yfir gamlar vídeóspólur og datt þá niður á eina frá 1989, frá Mallorca þar sem ég og einn af mínum fjölmörgu eiginmönnum mínum fórum með tvær yngri dæturnar.

Og þær voru krútt.  Ég skrifa meira um það seinna.  Svo litlar og yndislegar, en núna eru þær aðeins hærri í loftinu og yndislegri ef það er mögulegt.

En Jesús minn almáttugur hvað ég er búin að hlægja mig máttlausa.

Að sjálfri mér og öllum sem væfluðust fyrir vídeóvél eiginmannsins.

Hárið sítt að aftan, permanentkrullur og gott ef allir voru ekki með sama heygula háralitinn.

Allir voru með girt upp í heila, þá meina ég þeir sem voru í buxum og pilsum.  Stuttbuxurnar voru girtar upp að brjóstum og skárust upp í júnóvott.

Og gallabuxurnar maður minn, kyrfilega reyrðar að með belti fyrir ofan mittislínu og víðar að ofan og þráðbeinar niður.  Konurnar voru eins og perur í laginu.

Það dásamlega við þetta fyrirkomulag var svo, að allir voru alveg eðlilegir á svipinn, fannst þeir alveg flottir sko, höfðu ekki hugmynd um að eftir 19 ár yrðu þeir skemmtiatriði fyrir alla sem mögulega myndu berja þá augum.

Það er það sem er svo leiðinlegt og í leiðinni frábært, hvað hver tími skilur sig frá öðrum í tísku og tíðaranda.

Ég man eftir að hafa trúað því eins og prestur biblíunni að ég ætti aldrei eftir að fara úr plattaraskónum.  Þessum með uppfyllingu á sóla upp á 15 cm.  Vá hvað ég hafði rangt fyrir mér.

En aftur að vídeóinu.  Ég er búin að sjá að ég er langt á undan minni samtíð.

Ég var ekki girt fyrir ofan miðbaug, og ég var ekki með sítt að aftan.  Gæti sennilega gengið í gegnum miðbæinn í dag í átfitti umrædds árs, en fólk myndi auðvitað halda að ég væri stórbilaður utanbæjarmaðurDevil en ég var alls ekki svo slæm.  Alls ekki svo voðalega, skelfingarósköp slæm.

Var reyndar með glataðar permanettkrullur í hárinu og í stuttu pilsi upp á mið læri og alveg ógeðslega góð með þig þarna í sólinni.  En ég kem þokkalega út svona miðað við alla vegfarendur á strandlengjunni þarna um sumarið 1989.  Og svo var ég sorglega ung, ég meina miðað við hvað ég er hryllilega 19 árum eldri núna.

En á strandlengjunni þeirri arna voru reyndar bara útlendingar.  Ég held í þá trú að við Íslendingar höfum verið hipp og kúl, þá sem nú amk. miðað við höfðatölu.Halo

Afneitunin er sterkt og dásamlegt deyfilyf í öllum þrengingum.

Adjö.


Nú ælir enginn

Það er nú svo í lífinu að eitt leiðir oft að öðru.

Þegar ég var búin að skrifa ælufærsluna um íslenskutextasnobbið, þá fór ég að hugsa meira um músík.

Og ég fór að velta fyrir mér hvaða músík það væri sem ég héldi mest upp á í lífinu (fyrir utan húsbands sko), og ég lenti í algjörri klemmu.

Hvernig stendur á því að sumir geta romsað upp úr sér frá 1-10 sínum uppáhaldslögum, plötum, diskum?  Alveg eins og þeir séu að þvo sér um hendurnar eða anda, svei mér þá.

Ég get ekki einu sinni raðað minni uppáhaldsmúsík í númeraröð eftir gæðum.  Þegar kemur að tónlist er ég einn tilfinningavöndull.

En þessa hreinlega elska ég.

JJ.Cale

Beatles

Stones (stundum)

Zeppelin

Björk

Queen

Doors

Kinks (Ray Davis)

L. Armstrong

Edit Piaf

Presley

Bowie

Þursarnir

Spilverkið

Violeta Para

Emiliana Torrini

Og þar með er það upp talið þó ég sé að gleyma heilum hellingi.

Eruð þið með á hreinu hverjir eru uppáhalds?

Sorrí, ætlaði ekki að þjófstarta á ykkur heilabúinu, það er sumar og sonna.

Lalalala!


Fyrirgefið á meðan ég æli

Ég held að Andrea Jónsdóttir, útvarpskona, sé á meðal þeirra sem vita hvað mest um tónlist.  Konan er eins og gangandi alfræðirit um greinina.

Að því sögðu, fyrir utan hvað hún hefur þægilega rödd og er flott til orðs og æðis, þá ætla ég að vera ósammála henni í einu máli.

Andreu finnst að of margir íslenskir tónlistarmenn syngi á ensku.

Þetta viðhorf getur alveg gert mig arfapirraða og þá sérstaklega þegar það kemur frá Brúðgumanum (Bubba sko).  Ef minnið er ekki að svíkja mig þá reyndi hann fyrir sér í útlöndum einhvern tímann og söng á ensku.  Það gekk ekkert sérstaklega vel, án þess að það skipti máli.

Brúðguminn hefur í gegnum árin tönglast á þessu með að syngja á íslensku.  Í bandinu hans Bubba voru krakkagreyin að snúa rokktextum yfir á íslensku til að geta sungið lögin í keppninni, því íslenskir textar voru skilyrði.  Fyrirgefið á meðan ég æli.

"Stairway to heaven" á ekki að heita himnastigi, það er ekkert annað en fokkings klám.

Músík er músík, það er í raun aukaatriði á hvaða tungumáli hún er sungin ef tilfinning tónlistarinnar kemst til skila.

Björk sló í gegn á íslensku og hún viðheldur vinsældum sínum um veröldina án tillits til á hvaða tungumáli hún syngur.  Björk er Björk.  Töfrarnir eru þarna þegar hún hefur upp raust sína.

Ekki misskilja mig, ég hef svo sannarlega ekki ömun af íslenskum textum, síður en svo, en mér finnst það bara algjört aukaatriði.

Og Andra rokkar og rúlar og ég set ekki fyrir mig þetta lítilræði sem okkur ber í milli.

Ég rokka og rúla líka, þrátt fyrir að ég eigi fyrir löngu að vera farin að sofa í hausinn á mér.

En ég festist við að horfa á fyrirlestur með Þórarni Tyrfingssyni, sem ég keypti mér á disk um daginn.  Mikið asskoti er hann fróðlegur fyrirlesturinn og Tótinn skemmtilegur.

Fyrirlesturinn var á íslensku.  Nema hvað!

Úje.

 


mbl.is Of margir syngja á ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á banalegunni

 thecolormoney0jx

Ég álít að blogg sé talmál, eins og ég hef áður sagt. Mér finnst ekki tiltökumál að afbaka, sletta og láta eins og fífl á blogginu og fæ ekki móral yfir því heldur.

En ég vil að dagblöðin sem ég les séu skrifuð á réttu máli.

Í visi.si stendur að Paul Newman "sé á banalegunni". Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að maður liggi banaleguna.  Það er kannski bara ég en þetta að "vera á banalegunni" fær mig til að halda að það sé einhver sérstakur gangur sem heiti banalegan.  Sjá hér.

En hvað um það, PN liggur fyrir dauðanum.  83 ára.  Þessi fábæri leikari og húmanisti er með lungnakrabbamein.

Það vill svo til að í gærkvöldi var ég að horfa á mynd með honum á RÚV, "Blaze, Blaze" frá 1988.  Hún var krúttleg, en þar lék hann eldri mann, fylkisstjóra, sem var óður á greddunni og náði sér í strippara.  Skiljið þið hvert ég er að fara?  Hann var frábær þó þessi mynd hafi nú ekki sest að í hjartanu á mér.

En munið þið eftir "The colour of money"?.  Þvílík snilld.

Og svo kaupið þið auðvitað Newman´s own vörurnar því þær renna allar til góðgerðamála.

Farin í heimsókn á BANALEGUNA.

Sjáumst


"Bloody wonderful"

Stundum sér maður eitthvað sem gleður mann inn að innstu hjartans rótum.

Já og það er hæfileika að finna á Bretlandi.


Fegurð og grimmd

Ég er búin að vera á leiðinni að bókablogga í dálítin tíma og nú kýli ég á það.

Ég hef nefnilega lofað bloggvinum mínum að blogga um bækurnar sem ég er að lesa.

5244

Sköpunarsögur er ein eigulegasta bók sem ég hef fengið í hendurnar lengi.  Í henni segja 12 af okkar bestu rithöfundum, Pétri Blöndal (nei, ekki þeim skarfi sem á Alþingi situr) hvernig vinnuferli þeirra er, þegar þau skrifa.  Myndirnar í bókinni eru margar og fallegar og teknar af Kristni Ingvarssyni.

Svona bók er í þeirri katagóríu sem ég kalla "sparibækur".  Hún er falleg, fróðleg og það er hægt að glugga í hana endalaust.

Ég mæli með henni og ég er komin með afmælisgjöf á línuna fyrir alla mína lesandi vini.

5368

Og svo las ég þessa um daginn. 

Sagan er að mér skilst að einhverju leyti sannsöguleg.  Hún segir frá dreng í í dönskum smábæ sem á þýska móður og verður fyrir stöðugu einelti og ofsóknum frá nánast öllum bæjarbúum, vegna þjóðernis móðurinnar.  Mamman fer ekki varhluta af fordómum bæjarbúa, hún er algjörlega einangruð.   Þessi bók er ekki falleg en hún inniheldur boðskap sem á erindi til allra.  Ég grenjaði auðvitað flóði, enda nísta örlög drengsins mann inn að beini.

Ég mæli sterklega með þessari, hún er í kilju og auðvelt að skella henni í töskuna þegar þið dúllurnar mínar, haldið í sveitina.

Ég hef ekki bloggað um bækur sem mér líka ekki, kannski ætti ég að gera það.  Hm... hugs... sé til.

Farin að lúlla.

Eða þannig.


Leiðinlegasta lagið?

Ég er að mörgu leyti fegin að vera ekki að drukkna í peningum.  Hugsið ykkur allan tímann sem fer í að gæta hagsmunanna.

Yoko dúllan, er með fólk í fullu starfi við að fylgjast með að heimsbyggðin sé ekki að stela tón frá Lenna en ég er viss um að honum er slétt sama þar sem hann svífur í óendanleika alheimsins og er örugglega orðinn að rafmagni.

Einhver notaði Imagne í bíómynd án leyfis og kerlan fór í mál.

Ég skil ekki hvernig hún nennir þessu. 

Stendur ekki í ljóðinu: "Imagne there is no possesion it´s easy if you try"?

Það er greinilega ekki svo auðvelt að slaka á yfir öllum milljónunum.

En burtséð frá því, þá er ég búin að vera á fullu í allan dag.

Versla, og versla og svo versla og svo horfði ég á tvær bíómyndir í einni strikklotu.  Já ég veit það, skömm aðessu.

En þið eruð ekkert minna en frábær.

Og því spyr ég (af því nú er ég komin á skrið, hvaða lag er leiðinlegasta lag sem þið hafið heyrt.

(Bannað að nefna "Þú villt ganga þinn veg" og "Nína og Geiri".

Komasho.


mbl.is Yoko Ono tapar máli gegn kvikmyndaframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðinlegasta bíómyndin - einhver?

newtonjohn1975 

Svo leiðinlegt að Lorezo Odone sé látinn. 

Munið þið eftir myndinni?  Lorenzo´s oil?

Ég veit ekki með ykkur, en ég hef sjaldan séð leiðinlegri mynd.

Jú annars, ég sá mynd sem hét "The invasion of the tomatoes" og var um morðóða tómata.  Tíminn fram að hlé var ansi langur, nokkrir frömdu harakiri í sætunum fyrir framan mig.  Ætli höfundur þeirrar ræmu sé enn á lífi?

Talandi um leiðinlegar bíómyndir.

Úff,  ég hef séð margar en Xanadu með Goldielocks Nítján Tonn og Gibbagibb. Ómægodd. 

Ég kalla hér eftir leiðinlegustu bíómyndunum sem þið hafið séð.

Og allir saman nú.

Ég fer og poppa (í huganum aularnir ykkar).

Xanadu og Tómatahryllingurinn deila 1. sætinu hjá mér.

Þíjú.


mbl.is Drengur sem Hollywoodmynd var gerð um er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég elska mánudaga

Mánudagar eru góðir dagar, allir dagar eru góðir dagar.  Klisja?  Nebb, ekki í mínu tilfelli.

Þegar ég var í pillunum og búsinu voru mánudagar skelfilegir vegna þess að þá fór "venjulegt" fólk hvunndagsstellingarnar.  Tókst á við vikuna, vonandi með gleði.

Ég sat eftir starandi á vegginn, haldandi um höfuðið og biðjandi einhvern mér æðri (sem ég hafði enga trú á að væri að hlusta) um að koma mér í gegnum daginn.  Jájá, ekki gaman hjá Jenný Önnu.

Þessi mánudagur hefur svolítið setið eftir í sinninu eftir að ég varð edrú.  Einhver aðkenning að blús.  Gamall bömmer að minna á sig.

En ég hef blásið á fortíðardraugana og fagna nú nýjum dögum án tillits til hvað þeir heita.

Í dag er gott veður, en öll veður eru góð að mínu mati.  Þessi er t.d. ljómandi fínn til matarinnkaupa.

 Hann er líka tilvalinn til þess að fara og ná í litla stelpu á leikskólann og knúsa hana smá.

Ég hreinlega elska mánudaga.  Þið væntanlega líka?

Úje!


Þetta er útkall!

Nú kalla ég til allar vinkonur mínar, á öllum aldri, nær og fjær að fjölkvenna í bíó í vikunni.  T.d. á fimmtudagskvöldið.

Við erum svo margar að ég nenni ekki að hringja í ykkur allar, þið hangið hvort sem er allar á blogginu mínu í vinnunni, letingjarnir ykkar, í þeirri von um að ég geri ykkur ódauðlegar hér.Halo

Og systur mínar: Greta, Jóna, Guðlaug, Ingunn, Hilma og Stenna, hringja í sys.

Sko, nú er ekkert sem heitir, við förum á beðmálin og svo á kaffihús.

Eða á kaffihús og SVO á beðmálin.  Mér gæti ekki staðið meira á sama um röð.

Ef einhvern tímann er tækifæri til að gera skemmtilegan hlut sem við allar getum hlegið að og allt það, þá er það núna.  Hver hefur ekki gaman að stelpunum.  Pæliðíðí, fötin, skórnir, töskurnar, meiköppið og allur friggings ballettinn? OMG.

Annars var ég að horfa á ameríska fréttastöð á föstudaginn, CNN eða Fox (uss, geri það stundum) og þá var heill panell af fólki að ræða hvort þær væru lausgyrtar stelpurnar.  Það var búið að fara í gegnum hvern einasta þátt og reikna fjölda elskhuga allra kvennanna og fyrir utan Samönthu sem var eins og hausaveiðari í sínum hjásofelsum, reyndust allar hinar vera "high above average" í elskhugatali.

Það virtust allir í panelnum hafa gleymt þeirri léttvægu og löðurmannlegu staðreynd að beðmálin voru sjónvarpsþættir.

Þetta minnir mig á yndislega konu sem ég þekki sem sagði við mig þegar Dallas átti hug og hjörtu margra kvenna:  "Jenný finnst þér Sue Ellen ekki líta mikið betur út eftir að hún  hætti að drekka?".

Hringið í mig esskurnar.  Vér erum á leið í kvikmyndahús og ekkert kjaftæði.

Það verða fokkings sætaferðir frá Umfó, þess vegna. 


mbl.is Beðmálin boluðu Indiana Jones úr efsta sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 2988380

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.