Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

..og yfir í alkóhólisma

 asf

Ég hef áður bloggað um nýútkomnu bókina hans Orra Harðar, Alkasamfélagið.

Orra finnst skorta möguleika á úrræðum eftir áfengismeðferð.

Hann gagnrýnir harðlega AA-samtökin og setur stórt spurningamerki við trúarlegan þátt í áfengislækningum dagsins í dag.

Ég er ein af þeim sem vill ekki blanda guði almáttugum inn í mitt bataferli.  Bara alls ekki.

Ég get heldur ekki tekið undir frasann "bati hvers og eins er undir einingu leynisamtakanna kominn".  Reyndar finnst mér fleiri frasar sem ganga ljósum logum um alkasamfélagið algjörlega glórulaus vitleysa.

Velferð þín er undir agerðum ríkistjórnarinnar komin.  Halló, þá væri ég dauð, ég skal segja ykkur það.

Minn bati er að stærstum hluta undir sjálfum mér kominn, ekki guði, ekki yfirnáttúrulegum kraftaverkum, ekki undirkastelsi og uppgjöf.

Að láta bata minn í hendurnar á einhverjum óskilgreindum æðri mætti gerir mig skelfingu lostna. Hvað ef hann er ekki til, hvað ef honum er slétt sama um mig vesalinginn, hvað ef hann er sömu skoðunar og ég og finnst að það sé lágmarkskrafa að ég noti heilabúið sem hann útdeildi mér?

Við erum ólíkar manneskjurnar.  Við alkar erum ólíkir innbyrðis alveg eins og sykursjúkir eru það.

Innan alkasamfélagsins eru uppi alls kyns skoðanir á hvað sé best að gera til að viðhalda bata.

Fyrir mér er það að taka ábyrgð á sjálfri mér, reyna að gera betur og átta mig á hvar veikleikar mínir liggja, hvað ég þurfi að forðast og þ.u.l. og leita mér síðan hjálpar hjá fagmönnum eins og læknum og geðlæknum eftir því sem þörf er á.

Sumir fara AA-leiðina og það er bara frábært mín vegna.  Ég hef farið hana líka.

En þegar trúarbrögðum er blandað inn í bataferlið gerir það umræðuna erfiðari.  Það er eins og maður sé að ráðast á Krist á krossinum.

Vond blanda.

Á meðan ekki hefur verið fundið lækning við alkóhólisma á maður að halda áfram að spyrja, velta fyrir sér og rökræða.

Eitt hentar þér, mér eitthvað annað.

Bókin hans Orra er innlegg í þessa umræðu.

Fróðleg bókagagnrýni á Alkasamfélagið á DV.  Lesið.

Ræðum saman.

P.s. eins og sjá má af mynd af bókarkápu þá er Orri með hvítbókina í ár.

Ekki lélegt hjá þessum frábæra stílista.

 

 


Jafnaðarmennska?

Mér finnst ekki mikil jafnaðarmennska í niðurskurðarblöndu ISG.

Þróunaraðstoð er skorin niður um 1,6 milljarða en varnarmálin 257 milljónir.

Halló, er allt í lagi á heimilinu?

Ég verð að segja að niðurskurður á þróunarsamvinnunni fer verulega fyrir brjóstið á mér.

Var ekki hægt að skera niður frekar í hinum svo kölluðu varnarmálum og í sendiráðssukkinu?

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka ábyrgð í samfélagi þjóðanna og við eigum að leggja okkar af mörkum til þeirra þjóða sem þjást vegna fátæktar og þeirrar óáran sem eru fylgifiskar hennar.

Það er svo nánast hlægilegt, þ.e. væri það ekki svona helvíti grátlegt að þetta gerum við á sama tíma og við liggjum á skeljunum biðjandi um lán víða um heim.

Svona gera jafnaðarmenn ekki.  Eða gera þeir það?

Jú hinir íslensku jafnaðarmenn í sambúð með steingeldum Sjálfstæðisflokki.

Sveiattann.


mbl.is Kostnaðurinn 25 milljónir - ekki 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innrás?

Sara mín fór í hádeginu og faðmaði Alþingishúsið, það gerði Katrín vinkona mín líka og fleiri.

Ég er stolt af mínu fólki.

Flott framtak.

En í dag hefur mér liðið illa.  Ég held að það mætti segja að ég væri með alvarlega paranoju.

Eða svona asskoti forspá, það á eftir að koma í ljós.

Það er þetta með að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að afþakka  hervernd Bretana, þrátt fyrir að það sé varla kjaftur til á þessu landi sem vill fá þá.

Hvað er að mér, það er ekki til siðs að hlusta eftir skoðunum almennings í þessu landi.

Þetta með Bretana leggst ekki vel í mig.  Mér finnst svo undarlegt að ISG hafi talað um að ekki mætti magna deiluna.

Fyrirgefið en ég fæ það ekki til að stemma að land sem hefur sett á okkur hryðjuverkalög komi hér með herflugvélar til að vernda okkur terroristana.

Ætli þeir hertaki ekki Ísland með manni og mús?

Stormi inn í Seðló og tæmi þetta litla sem þar er, eða eitthvað álíka geggjað og ólíklegt.

Ef einhver hefði sagt mér fyrir þremur mánuðum að Bretar ættu eftir að setja á okkur hryðjuverkalög þá hefði ég lagt til að sá hinn sami tékkaði sig inn á Vog eða þá geðdeild, að eigin vali auðvitað.

Ég hefði einfaldlega aldrei í mínum villtustu draumum sé það gerast.

Við vitum hversu létt og lipurlega þeir settu á okkur terroristalöggjöfina vinir okkar.

Kannski er það brandari og geggjuð paranoja í mér að hugsa svona, að þeir komi bara og hertaki óvinaþjóðina.

Ég viðurkenni að þetta tekur sig ekki vel út á prenti og kannski verð ég sótt á eftir af skuggalegum mönnum sem eru með óklæðilega treyju með ákveðnum hreyfihindrunareffektum handa mér að klæðast í.

Að þeir nemi mig á brott.

Jájá, en svona fer maður að hugsa þegar manni er orðið ljóst að ráðamenn opna tæpast á sér þverrifuna nema til að ljúga eða þá að segja manni að bíða rólegum.

Svo heyrir maður líka svo helvíti margt þessa dagana.

Er ég biluð?

Ég vona það.

ARG.


mbl.is Staðan er grafalvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér er allri lokið

Pres er orðinn reiður.  Honum finnst bræður vorir á Norðurlöndum hafa gefið skít í oss.

Kannski.

En steininn í maganum á mér stækkar og stækkar.

Ég er komin með upp í kok af lygum, undanslætti og blekkingum ráðamanna.

Hvar er helvítis lánsumsóknin til IMF?

Er hún læst ofan í skúffu Seðlabankastjóra?

Í gær sagði Geir að forseta ASÍ kæmi ekki afturenda við hvernig ríkisstjórnin starfaði.

Halló, er maðurinn ekki enn búinn að ná því að hann starfar í umboði þjóðarinnar.

Djöfuls hroki og heimska.  Já, ég blóta bara, engin ástæða til að gera neitt annað.

Og svo skil ég breskan, hollenskan og þýskan almenning sem hefur verið tekinn í görnina af íslenskum ómerkingum og í framhaldi af því spyr ég?  Af hverju eru menn sem hafa stolið sparnaði fjölda manna í útlöndum ekki á bak við lás og slá?

Er það nema von að við séum ekki á jólagjafalista þessara þjóða.

En helvítis Gordon Brown og Allister Darling gengu aðeins of langt þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalögin.  Svoleiðis gerir maður ekki nema maður vilji standa í illvígum leiðindum.

Solla sagði í gær að það væri ekki víst hvort Bretarnir kæmu að passa okkur í desember.  Það ætti ekki að magna þessa deilu.

Þá var mér eiginlega allri lokið.  Það er varla hægt að ganga lengra í að gera allt vitlaust en að beita hryðjuverkalöggjöfinni.  Ef það er ekki að kasta stríðshanskanum þá veit ég ekki hvaða skilaboð geta verið skýrari.  Þetta er svona næsti bær við að hertaka landið.

Við þurfum ekki að magna neitt.  Bretarnir hafa gefið tóninn.  Að sjálfsögðu afþökkum við vernd frá þeim.

Það breytir ekki því að breskur almenningur á samúð mína alla.

En til að gera langa sögu stutta þá treysti ég ekki ríkisstjórninni fyrir horn.

Það er búið að ljúga nóg.  Svíkja nóg og láta skeika að sköpuðu fyrir lífstíð.

Ég nenni ekki lengur að hlusta á ekki neitt.

Kjósum!


mbl.is Forsetinn gagnrýndi nágrannaríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Little did we know"

Það eru að koma jól eftir rúmlega fjörtíu daga.

Munið þið eftir látunum fyrir jólin í fyrra?

Spillingin í REI, allt vitlaust?

Mér fannst það stórmál. 

"Little did we know".

Sá sem gæti staðið í þeim smá vanda núna.

Spilið, sjáið og berið saman.

Spilling hvað?  REI var æfing.

Þeir eru þarna nokkrir af söguhetjum dagsins.

Það var þá.


Frasamaskínan Jenný Anna

 borðabiðjaelska

Smá ladídadída færsla til að hvíla okkur á pólitíkinni.

Ég er að lesa frábæra bók.  Hún heitir "borða, biðja, elska" og algjörlega það sem mig vantaði inn í hálf ömurlegan hvunndaginn.

Bókin er um konu sem heldur í ferðalag til þriggja landa, Ítalíu, Indlands og Indónesíu eftir erfiðan skilnað.

Þessi koma er manneskja sem ég sé nánast allar vinkonur mínar í.

Fyndin, hlý, töff, gefandi, forvitin, full sjálfíroníu og til alls vís. 

Hef ég sagt ykkur að ég elska vinkonur mínar?

Lesið hana.  Algjörlega frábær bók fyrir alla sem hafa gaman af að ferðast í  huganum.

En að öðru en ekki svo allt öðru.

Ég var að taka til í bókaskápunum áðan, eða réttara sagt að reyna það.  Ég festist nefnilega í þessari bókinni eða hinni og þetta gekk nokkuð seint hjá mér.

Ég hef ekki pláss fyrir fleiri bókahillur að sinni og því var ég að reyna að rýma fyrir nýjum.

Mér fannst ég samt engri bók geta pakkað niður, fannst ég þurfa að hafa hverja einustu eina innan seilingar.

Þangað til ég byrjaði að rekast á sjálfshjálparbækur.  Já, ég var einu sinni svo illa haldin að ég eignaðist nokkrar.  Merkilegt hvað margir hafa gaukað að mér slíkum í gegnum tíðina. 

Var verið að segja mér eitthvað?

Ég þoli ekki selvfölgligheter á prenti, né heldur á hraðbergi beint í viðkvæm hlustunarfærin.

Sjálfshjálparbækur eru frábær leið til að ná sér í skjótfenga peninga og fórnarlömb þessara höfunda eru að mestu leyti konur.

Lifðu lífinu lifandi!  Já sniðugt, prufa það.  Það er ef ég get risið upp frá dauðum.  Fíbbl. 

Elskaðu sjálfan þig! Já er það sniðugt, ég sem elska bara blóm og runna.  Prufa það.

Konur sem elska of mikið! Vá ef einhverri bók hefur verið ofaukið á markaði þá er það þessi.  Fleiri hundruð blaðsíður um einfalda almenna skynsemi sem er; Ekki gleypa fólk og líma þig á það eins og frímerki, það lætur þér (og því) líða illa. Getur endað með ofbeldi. Skilaboðin eru einföld: Þú situr uppi með sjálfa þig, dílaðu við það.

Svo eru það öll gullkornin sem fólk hefur stöðugt á hraðbergi.  Svona hægara sagt en gert frasa þegar maður er leiður og sár.

Það birtir upp um síðir!  Erfiðleikar herða þig!  Þakkaðu guði fyrir erfiðleikana, þeir eru þroskandi!

Og tilvitnanirnar maður minn. Þar er Einar Ben algjörlega misnotaður endalaust og botnlaust.

Ef maður opnar muninn til að segja skoðun sína á mönnum eða málefnum þá kemur "aðgát skal höfð í nærveru sálar" fljúgandi og gefur manni á kjaftinn.

Aumingja Einar Ben, hvers á hann að gjalda.

Það er reyndar vitnað í Einar Ben í annarri hvorri bloggfærslu.  Jájá, maðurinn er hittari.  Seint en samt.

Ég set gullkorn, frasa og sjálfshjálparrit í tætarann.

Þ.e. myndi gera það ef ég væri ekki búin að lána hann niður í sóandsó ráðuneyti.

Og sjá það myndaðist pláss í mínum bókaskápum.

Ekki leiðinlegt.

Lífið er dásemd á milli sorgarþátta.

Lifið lífinu lifandi og ekki segja ljótt.

Munið að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Frasamaskínan Jenný Anna


Takk Pólland.

Geir vissi ekki um pólska lánið í hádeginu, nú veit hann af því.

Það er út af því að Pólverjar höfðu samband við Svía um málið eða eitthvað svoleiðis ladída.

Fyrirgefið en ef þetta er ekki til þess fallið að maður fái raðtaugaáföll þegar forsætisráðherrann veit ekki það sem flestir aðrir vita þá veit ég ekki hvað.

Og til ykkar allra sem eruð búin að vera að röfla yfir Pólverjunum sem hér hafa unnið skuluð lúta í gras.  Skammast ykkar.

Pólska þjóðin er að reynast Íslendingum öllu betur en mörg okkar reyndust henni.

Úff ég gæti talið upp hluti en ég sleppi því.

Man eftir bloggfærslum og athugasemdum sem gerðu mann grænan í framan.

Segi einfaldlega í auðmýkt minni við ykkur sem voruð eins og viti fyrt vegna veru fólksins hér þegar enginn annar fékkst í störfin;

Nananafokkingbúbú!

Já og ég blóta að vild ykkur kemur það ekki afturenda við.

Takk Pólland.


mbl.is Geir staðfestir pólska aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefðu svín og burt með spillingarliðið

 svín

Svefn er mikilvægur og fyrir óvirka alka er hann grundvallaratriði til að vera í góðri líðan.

Þess vegna fer ég yfirleitt í rúmið á skikkanlegum tíma þrátt fyrir að ég sé kvöldmanneskja og mér finnist að fjörið hefjist upp úr miðnætti.  Búhú lífið er friggings hundstík.

Ef ég sef ekki nóg gerast hlutir.  Það vex á mig úlfafeldur og kryppa.  Ég verð að villidýri.

Ók, reynum aftur.

Ef ég sef ekki nóg gerast hlutir, ég verð úrill, döpur, svartsýn og örg.  Það alvarlegasta er þó að ég missi húmorinn.  Fyrir sjálfri mér og öllu öðru.

Í nótt vakti ég til að verða þrjú.  Út af Obama, ég var nefnilega svo hrædd um að ef ég sofnaði og léti talningamennina í USA eina um málið þá myndi maðurinn tapa kosningunum.

Muniði þegar Al Gore vann og tapaði svo?

Já, einmitt, þar gerðist það að ég fór að sofa og á meðan vann karlandskotinn hann Georg Búski.

En nú er ég sem sagt með afleiðingar nætursukksins í fullum blóma.

Ég er eitruð. 

Reyndar ber að þakka Boga Nilssyni fyrir að haga sér eins og heiðarlegur maður, hann gerði það eina rétta í stöðunni.

Vá, hugsaði ég, þarna fer eitt stykki af manni sem ekki gengur fram af mér með siðlausri hegðun.

Það lá við að ég dytti af stólnum þegar ég sá fréttina um að hann væri hættur að rannsaka.

Og þá fattaði ég að það þarf ekki mikið til að vekja aðdáun manns þessa dagana.

Það heyrir nefnilega til undantekninga að fram komi fólk úr kerfinu sem gerir hið sjálfsagða.

Hinir halda áfram að haga sér eins og svín.

Fyrirgefðu svín, ég er að gera þér skömm til.

Arg og ekki rífa kjaft við mig.  Ég er EKKI búin að jafna mig á svefnleysinu.

Farin að leita að löndum til að sigra.

Burt með spillingarliðið!

Later.


Brotið blað

Ameríkanar brutu blað í gær þegar þeir kusu Ombama sem forseta þjóðarinnar.

Ég var að horfa ræðuna hans og fjöldinn sem var mættur til að hylla þennan nýja forseta stóð með tárvot augu og hlustaði andaktugt.

Ég skildi það vel.  Það er vonin um nýja og breytta tíma sem varð að veruleika þarna í Ameríku í nótt og það sem fyrir ekki svo löngu hefði verið talið ómögulegt gerðist.

Og mér vöknaði smá um augu líka og ég hugsaði með mér að við Íslendingar þyrftum nýja tíma og nýja von.

Við þyrftum að geta endurvakið trúna á landið okkar sem mér finnst persónulega að hafi verið rænt frá okkur um hábjartan dag.

Jafnframt varð ég ótrúlega sorgmædd vegna alls þess sem hefur verið að gerast og gerist hvern dag stundum oft á dag.

Leiktjöldin eru hrunin og eftir stendur miður fallegur raunveruleikinn, flest það sem við trúðum á reyndist lygi og uppspuni.

Við getum litlu treyst, að minnsta kosti ekki þeim sem hafa fengið umboð frá okkur almenningi í þessu landi til að gæta hagsmuna okkar.

Við þurfum nýja tíma, nýjar áherslur.

Til þess að það geti gerst þurfa korktapparnir, fyrirstöðurnar og hagsmunagæslumennirnir að taka frakkann sinn og stimpla sig út.

Ef almenningur í Ameríku gat rétt af kúrsinn þá hljótum við hér að geta gert það líka.

Nú er lag.  Látum það gerast.


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nördinn er með tvær í takinu

Ein aðal ástæðan fyrir því að ég er ekki búin að tapa þeirri litlu glóru sem ég enn hef yfir að ráða er einfaldlega sú að ég hef nóg að lesa þessa dagana.

Ég hef sagt það áður og segi það enn að eitt besta ráðið á svona tímum er að lesa sig í gegnum þá.

Nóg er framboð af bókum í ár eða 759 titlar, það ætti að duga vel fram á mitt ár.

Þessa dagana er ég með tvær í takinu, sko bækur.  Reyndar var ég að ljúka annarri í gærkvöldi.

Bömmerinn við góðar bækur er að þær klárast alltaf.

ljósaskipti

Ljósaskipti er bók sem selst hefur selst í bílförmum í Ameríku.

Það má segja að bókin sé unglingabók fyrir unglinga á öllum aldri.  Hún er um vampírur.  Nútímavampírur sem eru nokkurs konar grænmetisætur, þ.e. þær lifa á dýrum ekki fólki.  Mjög hipp og kúl. 

Það er eitthvað við vampírugoðsögnina sem er svo heillandi en jafnframt skelfilegt.

Þarna er söguhetjan í nokkurskonar ástarsambandi við strák sem er blóðsuga. 

Ég var að pæla í því hvort vampírumenn væru ekki toppurinn á tilverunni hjá spennufíknum konum, hverjum ég hef átt sögu um að tilheyra.  Það yrði ekki afslöppuð stund með svoleiðis ástarviðfangi.

Hugsið ykkur að vera t.d. boðið út að borða af svona náunga og vera alveg: Verð ég drukkin eða kysst í kvöld?  Velur hann mig eða af matseðlinum? Spenna, spenna, spenna.

Svona fyrirkomulag gefur hugtakinu "að geta étið einhvern" algjörlega nýja merkingu.

Ég mæli heils hugar með "Ljósaskiptum".  Sökkvið tönnunum í hana börnin góð.Devil

Svo er ég að lesa "Bókaþjófinn" líka.

bókaþjófurinn

Þetta er bók sem ekki verður lesin einn, tveir og þrír.

Bókinni hefur verið líkt við "Dagbók Önnu Frank" og ekki út í bláinn sýnist mér.

Á vef bókaútgefandans segir:

"Lísella hefur dálæti á bókum en til að geta eignast þær verður hún að stela þeim – og í bókunum uppgötvar hún mátt orðanna og tungumálsins og um leið mátt illskunnar sem oft er tjáð í orðum. Þetta er sagan um hana og fólkið í götunni hennar sem bíður örlaga sinna þegar sprengjuregnið hefst.

Þetta er saga um hugrekki, manngæsku, gleði og ást en einnig ótta og óskiljanlega grimmd. Umfram allt er hún óður til lífsins og alls sem lífsandann dregur."

Til að gera langa sögu stutta þá er þessi bók algjör skyldulesning. 

Ég þarf engin kreppuviðtöl við sálfræðinga eða geðlækna (ha presta?  Eruð þið ekki í lagi?).

Reyndar horfi ég orðið nánast ekki á sjónvarp nema fréttir og fréttatengda þætti.

Syngjandi Býflugan á Skjánum er ekkert annað en ofbeldi á fólki sem á sér einskis ills von í kreppunni.

Útsvar, spurningakeppnin á RÚV gerir ekkert fyrir mig heldur, bara ekki mín kókdós svona utanbókalærdómsspurningakeppnir.  Er eitthvað svo nördað - of nördað fyrir mig sem er þó nokkuð af þeirri tegund fólks.

Neh, þá les ég í staðinn.

Sé ykkur seinna ljósin mín.  Ég þarf að sinna ákveðnu verkefni.

Hvaða verkefni?

Jú ég þarf að lesa smávegis.

Og hananú.  Nördinn hefur talað.

 


mbl.is Blómleg útgáfa bóka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 114
  • Frá upphafi: 2988333

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 112
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.