Færsluflokkur: Menning og listir
Sunnudagur, 2. nóvember 2008
Lítil falleg saga
Lífið er ekki bara leiðindi, svo langt því frá.
Fyrir þremur árum hóf yngsta dóttir mín hún Sara nám í Fjölbrautarskóla Ármúla. Hún helltist úr lestinni vegna annarra pælinga og settist því á skólabekk aftur til að ljúka því sem hún hafði byrjað á.
Hún fékk þá snjöllu hugmynd að stofna hjálparstarfsnefnd við skólann sem tók að sér það verkefni í samvinnu við ABC barnahjálp að byggja skóla í Pakistan fyrir 200 börn.
Núna er hjálparstarfsnefndin löngu orðinn áfangi við skólann og á þremur árum, eftir ótal kökusölur, fatamarkaði, útgáfu ljóðabókar, tónleika og endalausa sjálfboðavinnu þeirra sem eru í áfanganum er þetta afraksturinn.
Þegar Sara og Erik giftu sig fyrir tveimur árum afþökkuðu þau brúðargjafir en báðu fólk að leggja inn á skólabygginguna í staðinn.
Margir hafa lagt hönd á plóginn.
Það er hægt að gera ótútrúlegustu hluti með sameinuðu átaki.
Það á vel við núna að minna fólk á að saman erum við sterk.
Skólinn verður tilbúinn í desember n.k.
En börnin 200 fá nú kennslu (og mat) í bráðabirgðarhúsnæði. Mörg þessara barna koma úr þrælkunarvinnu sem þau hafa verið í sum frá þriggja ára aldri.
200 litlar sálir eru komnar í skjól og mér finnst það svo stórkostlegt að ég get tæpast lýst því hversu frábært framtak mér finnst þetta vera hjá krökkunum í Ármúlaskóla.
Þriggja ára vinna er að skila sér. Að vísu vantar eitthvað örlítið upp á en það er allt að koma.
Mig langaði til að deila þessari fallegu sögu með ykkur.
Mér finnst reyndar hálf óþægilegt að monta mig af börnunum mínum en ég læt það vaða.
Saran hefur glatt hjarta mömmu sinnar og það ekki lítið með þessu máli öllu saman.
Lífið er nefnilega fallegt líka.
Látið ykkur dreyma fallega.
GN.
Menning og listir | Breytt 3.11.2008 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Sunnudagur, 2. nóvember 2008
Ég elska alla femínista
Ég er oftast sammála Steingrími J. enda finnst mér hann einn af heilsteyptari stjórnmálamönnum sem við eigum. Svo er hann svo vel máli farinn sem skemmir ekki fyrir heldur.
Í Silfrinu áðan blés maðurinn mér baráttuanda í brjóst eftir hálfgerða depurð og vonleysi undanfarna daga.
Ég elska jakkafatafemínista. Ég elska alla femínista, líka í kraftgöllum með lambhúshettu, sko hugmyndafræðilega, ekkert persónulegt.
Án gamans þá fagna ég því þegar stjórnmálamenn draga fram í umræðuna skortinn á jafnrétti í þessu þjóðfélagi, eins og t.d. á konum í lykilstöðum í samfélaginu. Raddir kvenna heyrast ekki, viðhorf þeirra eru ekki með í ákvarðanatökum og því eru lausnir einsleitar eftir því.
Það þarf svo sannarlega að bæta úr enda var Jóhanna að skamma nýju ríkissbankana en þar eru 5 konur af þrjátíuogeitthvað toppum og stjórnarmönnum. Ha?
Svo þarf að kjósa á nýju ári, þar er ég sammála formanninum.
Hvort það verður einhverjum mánuðum fyrr eða seinna má kannski liggja á milli hluta.
Ég er afskaplega hrifin af hinu blandaða hagkerfi þar sem velferðarmálin eru á ábyrgð ríkisins.
Við megum aldrei lenda á þessum ömurlega stað aftur, þá meina ég þeim stað sem við erum stödd á núna.
Þetta nægir okkur næstu aldir takk fyrir.
En hvað um það, ég held að margir séu skelfingu lostnir við að stjórnin springi þá og þegar. Bara búmm bæng upp í loft. Kannski á meðan við sofum í nótt. Eins saklaus og okkur er ætlað að verða miðað við aldur reynslu og fyrri störf.
Það er að minnsta kosti bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar.
Lára Hanna var flott í Silfrinu.
Og tókuð þið eftir kraftaverkinu í þættinum?
Í fyrsta skipti í öll þessi ár sem ég hef horft á Silfrið þá var kurteisi í hávegum höfð á vettvangi dagsins.
Það greip enginn fram í svo fólk fékk að tala óáreitt. Þvílík dásamleg tilbreyting.
Ég hélt að ég ætti ekki eftir að upplifa önnur eins undur og stórmerki.
Kannski á að hafa max einn stjórnmálamann á vettvanginum. Sigrún Elsa er frábær og kurteis kona, Lára Hanna er bestust og strákarnir stóðu sig með prýði.
Segið svo að það séu ekki góðir hlutir að gerast.
Mig langaði ekki til að grýta mér í vegg í eitt einasta skipti allan þáttinn. Né garga mig hása. Ha?
Annars er ég í ástar/haturs við Silfrið.
Ég sveiflast á milli tveggja póla;
Can´t live with it - can´t live without it.
Það er þess vegna sem ég hef sjaldan misst úr þátt.
Lífið er unaður og þetta er gleðijöfnun dagsins.
![]() |
Vill að kosið verði í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 1. nóvember 2008
Zero stytttur - zero lífshamingja
Það á að halda áfram mótmælunum í dag eins og undanfarna tvo laugardaga.
Nú geta þeir sem eru í góðum göngumálum byrjað með að ganga frá Hlemmi klukkan 14,00 niður á Austurvöll þar sem fjöldafundur hefst kl. 15,00. Þeir sem eru fótfúnir, þreyttir eða einfaldlega húðlatir geta þá mætt beint á fundinn.
Þeir sem eiga heimangengt mæta væntanlega og ýta undir kröfuna um nýja tíma á Íslandi.
Ég var vöknuð fyrir allar aldir í morgun og fór út að reykja vafinn inn í allskyns teppi og gærur.
Ég skalf úr kulda. Samt á að vera hlýtt í dag. Guð láti á gott vita.
En..
Svo komst ég að því hvað ég er ógeðslega auðveld bráð fyrir auglýsendur.
Í Mogganum er nefnilega heilt fylgiblað um jólahlaðborð.
Það upphófust heitar kappræður milli mín og mín um prós og kons jólahlaðborða. Ég er margklofinn persónuleiki ég sverða.
Hin hvatvísa ég og hin skynsama ég börðust hatrammri baráttu til sigurs.
Skynsamari hlutinn sem er tiltölulega nýfæddur og því afskaplega máttfarinn og reynslulítill gagnvart hvatvísari hlutanum sem hefur áratuga reynslu og þekkingu í að manipúlera þetta hylki sem hann er staðsettur í, átti í verulegum erfiðleikum með að verjast ágjöfinni.
Það er í raun ótrúlegt að maður geti farið að láta sig vanta allskyns bara af því það er sett fram í stemmingu í fjölmiðlum.
Ég hef ekki farið á jólahlaðborð töluvert lengi og ég hef ekki saknað þess nokkuð skapaðan hlut.
Samt slefaði ég yfir myndum af veisluborðum þar sem kertaljósin gerðu stemminguna svo huggulega að mig langaði inn í myndirnar.
Manni getur nefnilega farið að vanta ótrúlegustu hluti ef þeir eru settir nógu skemmtilega upp.
Kommon ég þekkti einu sinni konu sem gat ekki á heilli sér tekið af því hún þurfti að eignast styttur. Svona sjúkur getur maður orðið í kaupfíkninni og neyslupólitíkinni.
Zero styttur - zero lífshamingja.
Halló?
En hvað um það, allir á mótmælin sem rykkorni geta valdið og ekkert röfl.
Látum hendur standa fram úr ermum (hvaðan kemur þetta rugl?).
Viðeigandi og í boði hússins.
Sameinuð stöndum við. Jájá þið þekkið jargonginn.
![]() |
Efna til mótmæla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 31. október 2008
Djöfuls sorg og leiði
Á þessum árstíma er ég venjulega búin að fara nokkrar könnunarferðir ofan í kassana sem geyma jóladótið. Ég er nefnilega jólafrík.
En ekki núna.
Þegar snjóaði fann ég engan fiðring, ekkert pre-jóla.
Að auki er ég meira að segja fallin frá að fremja kviðristu á sjálfri mér þessi jólin fái ég ekki rjúpu. Samt sór ég þess dýran eið í fyrra þar sem ég grét yfir svínasteikinni. Djöfuls sorg og leiði. Óréttlæti og viðbjóður í þessum heimi. ARG.
Nú er ég í axlaryppi bara kúl á því.
Að þessu sögðu og hugsuðu þá er ég komin að þeirri niðurstöðu að kreppan hafi stolið af mér tilhlökkuninni og kannski jafnvel jólunum. Hvað veit ég?
Ég er að minnsta kosti haldin einhverjum janúarfíling. Þið þekkið hann trúi ég. Aljgör friggings bömmer.
Við frumburður vorum að ræða kreppuráð í gær.
Við tókum um það ákvörðun að þessi jólin yrðu bækur eða geisladiskur í pökkunum.
Ekki rándýrar gjafir.
Þess vegna gladdi það mig óumræðilega þegar ég las viðtengda frétt.
Bókaverðið helst óbreytt frá því í fyrra.
Það er þá að minnsta kosti eitthvað jákvætt í fréttum þessa dagana.
Kannski ég fari fram í geymslu og kíki á seríurnar.
Virka þær? Þarf ég að fjárfesta í nýjum eða á ég að berja mig með þeim?
Fer eftir örvæntingarstiginu get ég sagt ykkur.
Svo er að hnoða í smákökur (DJÓK).
Ég er farin að tékka.
Gleðileg jól.
Falalalalalalalala!
![]() |
Verð á bókum óbreytt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Miðvikudagur, 29. október 2008
Vinir í raun
Á ögurstundu kemst fólk gjarnan að því hverjir eru vinir í raun.
Flestir, ef ekki allir hafa staðið frammi fyrir því að þurfa á alvöru vinum að halda og ég er þar engin undantekning.
Mín reynsla er sú að það megi skipta "vinagenginu" í fjóra flokka.
1. Vinirnir sem gefa ekki einungis skít í þig á örlagastundu heldur sparka í þig liggjandi.
2. Þeir sem hlaupa af stað og það má lesa greinilega skónúmerið undir skónum þeirra. Þeir hverfa og sjást ekki meir.
3. Þeir sem ætla að hjálpa, bráðum að uppfylltum skilyrðum - seinna, oft miklu seinna.
4. Sjaldgæfi hópurinn en sá dýrmætasti sýnir þér vináttuna í verki án þess að býsnast mikið yfir því hvað þá að hreykja sér af því.
Það má flokka "vinaþjóðir" Íslendinga í þetta bókhaldskerfi og það auðveldlega.
Í byrjun október þegar allt hrundi fengum við í kaupbæti með krísunni það sjaldgæfa tækifæri að komast að því hverjir eru vinir okkar meðal svo kallaðra vinaþjóða.
Í dag er það ein þjóð sem er óumdeilanlega vinaþjóð í raun. Færeyingar eru einfaldlega þeir einu sem tilheyra flokki fjögur.
Allir vita hvar Bretarnir standa.
Kanarnir, mér sýnist þeir nota skó númer 66.
Norðurlandaþjóðirnar eru hér sýnist mér í þriðja lið, hummandi og hóstandi. Þeir vilja hjálpa, við erum frændur, við elskum ykkur en... við viljum ekki fordæma Breta fyrir hryðjuverkastimpilinn. Við viljum heldur ekki snara út peningum fyrr en við erum búnir að hlusta á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
Gulltryggðir í bak og fyrir.
Ég gef ekki afturenda fyrir svoleiðis vináttu.
Geir Haarde sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að Norðurlöndin hafi ekki strax lýst því yfir að þeir ætluðu að koma okkur til aðstoðar.
Ég skil Geir afskaplega vel þarna.
Og hvað sem annars má segja um forsætisráðherrann og hans pólitík þá verð ég að viðurkenna að hann á alla mína samúð þessa dagana. Að ganga um með einhverskonar betlistaf meðal "vinaþjóða" er ekki öfundsvert verkefni.
Svo minni ég á undirskriftalistann; "Við erum ekki hryðjuverkamenn." Nú ríður á að skrifa nafnið sitt og vera með. HÉRNA.
Takk Færeyjar. Skelfilega hlýjar þetta mér um hjartaræturnar.
![]() |
Siðferðileg skylda að hjálpa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Mánudagur, 27. október 2008
Kreppujöfnun
Ég er bókanörd. Þar með er það fært til bókar.
Bókin er minn tjaldvagn, mín höll, mín snekkja og einkaþota.
Og ég þarf ekki að hreyfa mig úr sporunum.
Þegar allt er að fara fjandans til - ástandið svart og dapurt á ég vin í bókinni.
Ég segi ykkur þetta af því ég er væn manneskja (jájá) og vill gjarnan deila með mér af reynslu minni.
Ég er að hvetja til lesturs í kreppunni.
Bækur eru ekki óyfirstíganlega dýrar og þær eru aðgengilegar á bókasafninu.
Ég hef sagt það áður og segi það enn - lesum okkur í gegnum kreppuna.
Núna er ég að lesa heimtufreka bók.
Bók sem lætur ekki lesa sig með hálfum hug.
Hún krefst fullkominnar athygli lesandans.
"Nafn mitt er Rauður" heitir hún og er eftir Orhan Pamuk sem fékk Nóbelinn 2006.
Ég mæli með henni, annars væri ég auðvitað ekki að blogga um hana.
Blogga helst ekki um leiðinlegar bækur - enda er ég ekki bókmenntagagnrýnandi.
Nappaði lýsingu á efni bókarinnar af vef útgefandans.
"Seint á sextándu öld felur soldáninn í Istanbúl fremstu skrifurum og myndlistarmönnum í ríki sínu að setja saman viðhafnarrit að evrópskum sið. Verkið skal unnið á laun og er mikið hættuspil þar sem öll hlutbundin myndlist stangast á við ríkjandi trúarhugmyndir í landinu. Listamennirnir þurfa að fara huldu höfði en þegar einn þeirra hverfur sporlaust grípur um sig ótti. Hann kann að hafa orðið fórnarlamb trúarofstækis eða afbrýðisemi. Soldáninn krefst skjótra svara og hugsanlega leynist vísbending um afdrif mannsins í hálfköruðum myndverkum hans."
Ég er lestrarhestur. Úje.
Föstudagur, 24. október 2008
Nú hló ég
Ég er eins og undin tuska eftir atburði dagsins.
Ég nenni ekki að blogga um þennan dag strax enda skiptir það ekki máli.
En mikið er ég búin að hlægja af Otto Jespersen sem gerði stólpagrín af okkur Íslendingum í norska sjónvarpinu í gærkvöldi.
Hlátur er heilandi og það er frábært að geta náð sér í smá svoleiðis þegar brúnin er svo þung að ég nánast dreg hana á eftir mér í lufsum.
Genasplæsingatilraunir milli okkar, dverghesta og kinda hafa alið af sér stökkbreytur eins og Björk.
Við buðum Norðmönnum ekki í partíið meðan allt lék í lyndi þannig að nú lána þeir okkur Matatorpeninga sem munu vera verðmætari en íslenska krónan.
Sjáið sjálf.
Ég veit ekki með ykkur en ég elska svona húmor og við höfum svo sannarlega gefið handritahöfundum eitthvað til að skrifa um.
Sumir hafa kannski ekki húmor fyrir svona gríni þessa dagana en pælið í því við sleppum vel hérna. Hrokinn og mikilmennskubrjálæðið sem hefur verið í gangi kringum liðið í útrásinni gefur alveg tilefni til að það sé helgið smá að okkur.
Arg.
![]() |
Norðmenn draga Íslendinga sundur og saman í háði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Margir Kennedydagar
Bubbi vill sömu meðferð og Björk og Sigur Rós.
Heyrði það þið sem eigið í hlut? Hlýða kóngi!
Halló Krónan og Bónus!
Ég vil greiða 5% fyrir mína matvöru og ekkert kjaftæði.
Búin að versla við ykkur lengi og núna er komið að skuldadögum.
Ég vil að mér sé hlýtt!
En þetta er búinn að vera undarlegur dagur.
Reyndar eru allir dagar núorðið svona Kennedydagar.
Ha? Kennedydagar hváir þú.
Við munum öll hvar við vorum þegar við heyrðum um morðið á Kennedy. Ég held að allir dagar sem liðnir eru síðan allt fór í steik muni ekki líða manni úr minni. Kennedydagur upp á hvern dag.
Maður verður gangandi almanak íslensku bankanna. Hreint skjalasafn bara. Hægt að fletta upp í manni og leita endalausra heimilda. Alveg: Já þegar Landsbankinn fór á hausinn og Geir sagði sóandsó í sjónkanum kl, 11,30og Björgvin kom svo 11,40 og þýddi það sem Geir sagði og setti það fram á íslensku muniði? Þá var ég að þurrka af eldhúsborðinu, sjóða egg og klóra mér í hægra eyra, neðarlega og dálítið til vinstri.
En þessi dagur byrjaði leiðinlega, ég var döpur, með sting í maganum, kvíðin og í tómu tjóni frá a til ö.
Svo fékk ég vinkonur í heimsókn.
Guði sé lof fyrir vinkonur. Hvað gerði maður án þeirra?
Við spjölluðum og hlógum, reyktum úti í kuldanum og vorum á trúnó.
Þegar þær fóru voru öll mín vandamál á bak og burt.
Takk stelpur.
En nú er ég farin að lúlla í hausinn á mér.
Sé oss á morgun.
![]() |
Bubbi vill sömu meðferð og Björk og Sigur Rós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 21. október 2008
Lífshættulegur aulahrollur?
Kastljósið er minn uppáhaldsskemmtiþáttur þessa dagana.
Hver þarf Spaugstofu, Fló á skinni og aðra farsa þegar við fáum raunverulega skemmtiþætti með alvöru leikurum heim í stofu.
Ég hefði dáið úr hlátri í gærkvöldi ef ég hefði ekki verið með grátinn í hálsinum.
Hér fáum við í einum pakka, græðgina, montið, hrokann, kaupæðið, sjálfhælnina og yfirburðavissuna beint í æð.
Ó svo sárt. Æi...
Og í síðustu viku....
Valgerður í pels, Davíð í hrifningarvímu og The Pres "on a mission from god".
Talandi um aulahroll, ætli hann geti orðið svo magnaður að hann drepi mann?
Hér er svo upprifjunin á íslensku útrásinni í síðustu viku.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sunnudagur, 19. október 2008
Erfitt að halda kúlinu
Undur og stórmerki eru að gerast á hverjum degi núna.
Ég er kolfallin fyrir mínum gamla kennara sem ég var löngu búin að senda út í ystu myrkur í pólitískum skilningi. Jón Baldvin hefur auðvitað alltaf verið krútt, mismikið og frekt krútt, en nú er ég tilbúin að biðja hann um átógraf svei mér þá.
Karlinn meikaði svo mikinn sens hjá Agli í Silfrinu áðan að ég gat tekið undir hvert einasta orð og fáir koma skoðunum sínum til skila betur en sá gamli refur Jón Baldvin Hannibalsson.
Svo er hann auðvitað kennari af guðs náð og kann betur en flestir að setja upp hluti þannig að maður skilji þá.
Davíð mun vera á móti því að sækja um lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og því gengur ekkert né rekur í þeim málum.
En að Evrópusambandinu, ég er alltaf að verða meira á því að við eigum að reyna að komast þar inn um leið og við erum búin að þvo af okkur mesta skítinn og skömmina sem jakkafatamafían, bæði sú pólitíska og í fjármálageiranum er búin að ata yfir okkur.
Einar Már var líka beittur og skýr eins og hann er vanur.
En mikið rosalega erum við í djúpum skít við Íslendingar.
Það játast hér með að ég er með í maganum af angist, sko þegar ég hugsa til framtíðar.
Það er erfitt að halda kúlinu.
![]() |
Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.8.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 115
- Frá upphafi: 2988334
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 113
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bláar eyllýar
- Bloggar
- Bækur
- danskar kjötbollur með sósu
- Dómar
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Femínistablogg
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Halloki
- Hamfarablogg
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hneyksli
- Íþróttir
- Jólafár
- Kjaramál
- kvikindiskapur og illt umtal
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Lúkas
- lygasögur
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjálfsdýrkun
- Sjónvarp
- Snúra
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Synt til sigurs
- Synt yfir sundið
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Þvagleggur
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Tenglar
Tónlist
Vinir og fjölskylda
Vinkonur
Ég les alltaf
Netmiðlar
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
draumur
-
jonaa
-
hronnsig
-
larahanna
-
skessa
-
eddaagn
-
amman
-
annabjo
-
annambragadottir
-
annaragna
-
asthildurcesil
-
kolgrima
-
birnan
-
bjarnihardar
-
brjann
-
brylli
-
christinemarie
-
danjensen
-
lillagud
-
disadora
-
einari
-
einarorneinars
-
emm
-
estro
-
evabenz
-
fifudalur
-
garun
-
gelgjan
-
gunnarggg
-
halkatla
-
halo
-
hildurhelgas
-
heidah
-
helgamagg
-
hildigunnurr
-
iaprag
-
hlynurh
-
hugarfluga
-
hugsadu
-
ibbasig
-
katrinsnaeholm
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
jogamagg
-
jara
-
jensgud
-
katlaa
-
krummasnill
-
krissa1
-
lehamzdr
-
ktomm
-
laufeywaage
-
lauola
-
lindalinnet
-
madamhex
-
maggij
-
majaogco
-
mariakr
-
markusth
-
meistarinn
-
motta
-
nimbus
-
olinathorv
-
pollyanna
-
ragnarfreyr
-
ragnhildur
-
ringarinn
-
rosa
-
roslin
-
saedis
-
sailor
-
salkaforlag
-
skordalsbrynja
-
skrifa
-
snar
-
soley
-
steingerdur
-
steinnhaf
-
steinunnolina
-
stinajohanns
-
sunnadora
-
svetlana
-
thuridurbjorg
-
tibet
-
tigercopper
-
toshiki
-
unns
-
valgerdurhalldorsdottir
-
wonderwoman
-
vefritid
-
vest1
-
bidda
-
zeriaph
-
killjoker
-
sisvet
-
gudrununa
-
dora61
-
possi
-
gelin
-
silfri
-
jyderupdrottningin
-
gretaulfs
-
sibba
-
baldvinj
-
stjaniloga
-
bokakaffid
-
kreppukallinn
-
jonerr
-
gerdurpalma112
-
adhdblogg
-
astafeb
-
snjolfur
-
haddih
-
brell
-
reisubokkristinar
-
little-miss-silly
-
baldis
-
olofdebont
-
kikka
-
jarnar
-
thorolfursfinnsson
-
birnast
-
vrkristinn
-
leifur
-
astroblog
-
bjarkey
-
manisvans
-
siggisig
-
nordurljos1
-
gunnaraxel
-
ragnar73
-
sij
-
kreppu
-
runirokk
-
gotusmidjan
-
dorje
-
slembra
-
skari60
-
must
-
fhg
-
aevark
-
fridaeyland
-
hedinnb
-
cakedecoideas
-
taraji
-
audurproppe
-
kollakvaran
-
finni
-
arnaringvarsson
-
samstada
-
drum
-
gretarogoskar
-
tbs
-
vistarband
-
valdivest
-
fingurbjorg
-
gustichef
-
skulablogg
-
andreskrist
-
fasteignir
-
rognvaldurthor
-
helgatho
-
gullfoss
-
bailey
-
jennystefania
-
gattin
-
annaandulka
-
ansy
-
gumson
-
berg65
-
bjarnimax
-
brahim
-
elin
-
gudlaugbjork
-
dramb
-
gudrunkatrin
-
hvilberg
-
himmalingur
-
ingaragna
-
naflaskodun
-
kiddirokk
-
sigurborgkrhannesdottir
-
joklamus
-
stjornlagathing
-
saemi7
-
unnurgkr