Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Ég vil Pál Baldvin í Þjóðleikhúsið - takk

Einu sinni var ég spurð af frómri blaðakonu (já, svo fræg) hvort ég væri kona sem hefði skoðanir á öllu.

Ég hélt það nú, enda bloggari og alles.

Ég var hins vegar ekkert að upplýsa hana um að oft á tíðum hef ég ekkert skoðun á því sem ég þykist hafa skoðun á.

Finnst bara gaman að steyta görn, jájá.

En ég hef sterka skoðun á því hver á að verða Þjóðleikhússtjóri.

Algjörlega upp á punkt og prik.

Páll Baldvin Baldvinsson, heitir maðurinn og ég hef þá trú að verði hann ráðinn þá renni upp nýir tímar í íslensku leikhúslífi og það til hins betra offkors.

Ég veit auðvitað ekkert um hvort það er rétt hjá mér, en mig grunar það.  Innsæi mitt hefur talað.

Ég þekki manninn ekki en við vorum samskipa í skólum Vesturbæjar.

Mér fannst hann þóttafullur og leiðinlegur unglingur svona séð frá sjálfri mér þar sem ég sat á mínum hrokastalli og virti fyrir mér öll fíflin í kringum mig (Halo).

Hann skrifaði líka ömurlega krítík um eina af plötum míns heittelskaða í denn og það fannst okkur báðum skemmtilegt.

Ég held nefnilega að Páll Baldvin sé að mestu laus við sjálfshátíðarelementið sem þjáir íslenska listaelítu oft á tíðum.

Ég held að hann muni vinna Þjóðleikhúsinu gagn og þá áhorfendum í leiðinni með því að vera fyrst og síðast faglegur og sjaldnast eða aldrei í vinsældaleit.

Kommon þetta er maður með gífurlega þekkingu á málaflokknum.

Eini mínusinn við málið væri ef hann hætti í Kiljunni þar sem hann myndar stórskemmtilegt mótvægi við hina létt taugaveikluðu og stórskemmtilegu Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

Sem ég er hins vegar ekkert hrifin af þegar hún skrifar í Moggann.

Já, ég vil Pál Baldvin.

Eins og ég hafi um það að segja.

Svo er hann beisíklí algjör dúllurass.

Vonandi er þetta þó rétt.


Helvítis fokking fokk

Stundum grípur mig bjartsýni.

Ég fer að trúa því að hrunið kenni okkur nýja siði og nýjan þankagang.

Ég fer að telja mér trú um að svona lífsreynsla geti ekki látið heila þjóð ósnortna, að allt verði stokkað upp og það gefið upp á nýtt.

Ég læt mig dreyma um að klíkuskapur, vinátta, fjölskyldutengsl og fóstbræðralög heyri sögunni til sem atvinnumiðlanir á Íslandi.

Vá, ég verð að játa að ég barnalegri en mér er holt.

Vegna þess að lítið sem ekkert breytist.

Eins og sjá má hér, bara svo ég taki lítið dæmi.

Tek fram að þetta er ekki persónulegt, ég er bara orðin svo þreytt á þessu klíkuþjóðfélagi.

Á Íslandi skemmir það greinilega ekki fyrir að vera vel tengdur í fjölskyldu.

Helvítis fokking fokk.


Menningarlegt ísskápsinnihald og ekkert kynlíf

Ég er ákveðin í að halda mig við léttúðug bloggefni í dag og missa mig ekki í kreppu- og spillingarfréttir.

Hef ekki trú á að það haldi en ég reyni.

Ég bloggaði um píkur og brjóst í síðustu færslu þannig að það verður að duga í bili.

En ég var að velta fyrir mér einu sem er rosalega 2007!

Muniði eftir greinunum í blöðunum þegar "frægt" fólk var spurt hvað það væri með í matinn og hvað væri í ísskápnum og svona?

Auðvitað munið þið það vegna þess að það var alltaf rosa flott í matinn og innihaldið í ísskápnum var alveg eins og í lúxusdellí í New York.

Ég trúði því auðvitað ekki eitt augnablik að þegar blaðið hringdi í sóandsó og spurði hvað hún væri með í matinn í kvöld og hún alveg: Jú, ég er með antilópusteik al búllsjitt e lúxus du la sonofabits, með handplokkuðum villisveppum frá Himmalaya og kampavínssósu.  Í forrétt er vatnakarfi frá Víetnam með ostrusósu og créme friggingbrulé í eftirrétt.

Sko á þriðjudagskvöldi.  Ég garga.

Svo var hringt í annan sóandsó sem taldist frægur og hann beðinn um að kíkja í ísskápinn á mánudegi.

Sóandsó alveg: Jú, látum okkur nú sjá: Ostar frá Frakklandi, gapachio frá Ítalíu, nýkreistur djús úr ferskjum frá Ísrael, súrsuð froskaeyru frá fenjasvæðunum í Brasilíu, fjörmjólk og hamingjuegg týnt undan vímuðum hænsnum sem leika lausum hala fyrir austan fjall.

Halló, aldrei tómatsósa, mjólk og skyr og plokkfiskleifar.

Aldrei.

Hvað er í mínum ísskáp í dag?

Jú, tómatsósa, Mango chutney, ostur, smjör, nautahakk, laukur og annað grænmeti.

(Fruss og einn cola-drykkur en ekki segja neinum frá því börnin mín á fjallinu).

Sjúkkitt, eins gott að enginn hringi og spyrji mig að þessari spurningu, ég væri neydd til að ljúga upp á mig menningarlegu ísskápsinnihaldi!.

Hagið ykkur þann 090909.

Það ætla ég að gera.  Jeræt.


mbl.is Kynlíf fyrir heimilisfriðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjósta- og píkublogg?

brjóst 

Ég held að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af íslensku þjóðarsálinni svona þegar að er gáð.

Lesendur Moggans eru amk í ljúfum fasa virðist mér ef ég tek mið af mest lesnu fréttunum í dag.

Viti menn, sú í fyrsta sæti er um einhverja Guðrúnu sem er fallegust á EM.

Þessi frétt sem ég tengi hér við er um að skyndilega hafi birst myndir af berum konubrjóstum í grænlenska sjónvarpinu fyrir mistök.

Kannski er það áhugafólk um fegurð kvenna sem heita Guðrún sem lesa mikið vefmiðlana.

Eða unglingar sem eru á hormónafylleríi og fríka út ef þeir sjá minnst á konubrjóst.

Ef ég gef mér það þá erum við auðvitað enn með öllum mjalla, ábyrg og áhyggjufull í gamla kreppufasanum að frátöldum ofannefndum hópum.

Annars er ég svo reið yfir mörgu þessa dagana að ég hef ákveðið að segja sem minnst um það og gerast ábyrgðarlaus brjósta- og píkubloggari.

Ég get líka farið að fylgjast með fegurðarsamkeppnum víða um heim.

Eða lært að sjóða niður hvítkál.

Farið í naglaskóla (svoooooooo mikið ég, ég veit það).

Nú eða hreinlega rifjað upp harðangur og klaustur, farið á hannyrðanámskeið og bróderað frá mér allt vit eins og nunna á sterum.

Svo gæti ég auðvitað bloggað eins og engin sé framtíðin um lagningu ljósleiðara milli aflandseyja og náð mér í sérþekkingu á málefninu á gúggúl.

Eða sótt um þýðingarvinnu á Rauðu seríunum sem eru miklar bókmenntir og myndu jafnvel færa mér þýðingarverðlaunin næst þegar þeim verður úthlutað.

Ég myndi auðvitað láta gúggúl um verkið og enginn myndi kvarta.

Rauðu seríurnar eru síríus bókmenntir, dýpri en "Lygn streymir Don" sem olli því að ég var hársbreidd frá því að rífa augun úr augntóftunum á mér  og eyrun af til vara í denn en þrælaði mér samt í gegnum hálf vitfirrt úr leiðindum.

Til hvers?

Jú ég var alltaf að bíða eftir því að einhver fréttamiðill (þessir þrír á landinu) myndu hringja í mig og spyrja mig hvað ég væri að lesa.  Vildi ekki vera að lesa um Árna og Rúnu í Hraunkoti og ætlaði að virka gáfaðri en jafnaldrar mínir.

Hefði getað sparað mér lesturinn á helvítis bókinni, það hefur enginn hringt ennþá.

Hvað um það.

Allt í góðu á kærleiks - eða því sem næst.

Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

Næst verður það brjósta- og píkubloggið.

Ég gæti sagt ykkur sögur.

Og mun gera nema eitthvað annað og safaríkara (hm) komi uppá.


mbl.is Óvænt brjóstasýning í grænlenska sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðmál um svefn eða skó

The%20Shining

Talandi um kvikmyndir.  Úff, ég er í vandræðum.

Málið er að ég horfi ekki á hryllingsmyndir nema með örfáum undantekningum.

Ég lenti nefnilega í skelfilegri upplifun þegar ég bjó í Gautaborg um árið og leigði mér "Shining".

Mikið rosalega hræddi hún mig sú mynd.

Ómæ hvað Jack Nicholson var mikill ógeðismaður í þeirri rullu.

Samt man ég ekki mikið úr myndinni nema hversu hrædd ég var, andrúmsloft illsku og svo man ég að konan hans Jack í myndinni var eins og hún væri að deyja úr berklum eða eitthvað.  Alveg ferlega þreytuleg konan.

Ég veit að ég er ekki í lagi en eftirköstin af því að horfa á þessa mynd voru langvarandi og skelfileg fyrir mig.  Nema hvað.

Ég þorði ekki að sofna í myrkri í fleiri mánuði á eftir.

En málið gerðist alvarlegra en svo því þetta þróaðist út í það að geta ekki sofið við ljós heldur.

Ég hætti einfaldlega að sofa á tímabili.

Í hausinn á mér komu aftur og aftur flashback úr myndarfjandanum.

Here´s Johnny var eitt.

Þegar Jack var á barnum með manninum frá helvíti var önnur.

En þetta vandamál með myndina hefur elt mig uppi.

Ég hef nefnilega veðjað við hinn helminginn af kærleiks að ég þori alveg að sjá hana núna þrjátíu árum síðar eða svo.

Hann vil meina að ég sé ennþá skíthrædd og taugaveikluð og muni verða andvaka fram að jólum.

Ég í öllum mínum hortugheitum þverneita því og hef veðjað við hann um málið.

Þess vegna er mér þessi vandi á höndum.

Hvort er mikilvægara?

Að sofa eða vinna rándýru stígvélin sem veðmálið gengur út á?

Sjitt.


mbl.is Verða kvikmyndir leigðar út og seldar á YouTube?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælt fram í rauðan dauðann

Hvað á að troða hóteli á sjálft Ingólfstorgið?

Skemma götumyndina?

Eyðileggja gamla Sigtún - láta það hverfa?

Ég vil ekki hafa þennan fíflagang.

Það er merkilegt með Íslendinga (suma) hvernig þeir vilja troða öllu á sama reitinn.

Og byggja háhýsi líka, eins og hroðbjóðinn á Höfðatorgi.

Ef íhaldið í borginni hefði fengið að ráða væri Torfan minni eitt.

Moggahöllinn er svona dæmi um skelfilegan arkitektúr og kumbalda sem var troðið niður í gamla miðbæinn.

Mogahöllin er reyndar svo ljót að mér er farið að finnast hún falleg, verra verður það ekki.

Við skulum ekki tala um ráðhúsið.

Manni líður eins og Gúliver hafi tekið með sér heimili sitt til Putalands og slengt því ofan í tjörnina.

Látið Ingólfstorg vera mig langar til að borgin mín eigi sér einhverja húsasögu.

Að virðing sé borin fyrir því gamla.

Hlustið á það yfirvöld.

Annars getið þið þarna hjá borginni átt okkur á fæti.

Við munum einfaldlega mótmæla þessum gjörningi fram í rauðan dauðann.


mbl.is Baráttutónleikar á Ingólfstorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Meira af henni en minna af mér"

feit. 

Á sumum menningarsvæðum þykja holdugar konur fallegar.

Merki um velmegun og það er logískt finnst mér.

En við vestrænar konur viljum helst hverfa af yfirborði jarðar ef þess er nokkur kostur.

Þessi mynd vakti hjá mér viðbrögð sem mig langar ekkert að kannast við.

Fyrst hugsaði ég ég með mér hversu falleg þessi kona væri, að hún geislaði af heilbrigði.

Svo festist ég í lærunum. 

Alveg: Eru þau ekki af einhverjum öðrum, mömmu hennar eða jafnvel eiginmanni?  Þau eru hjúmongus.

Mér fannst þau alveg dekka heilt búningsherbergi, að það væri hægt að byggja á þeim heilt úthverfi nánast.

Ég skammast mín fyrir hversu móttækileg ég hef verið fyrir heilaþvotti tísku- og útlitsómenningarinnar.

Samt vinn ég í því á fullu að losa mig við þetta fáránlega mat á kvenlegum formum sem er búið til af fatahönnuðum og snyrtivöruframleiðendum og hefur orðið mörgum konum og stúlkum að aldurtila vegna átröskunarsjúkdóma.

"Meira af henni en minna af mér" var auglýsing sem gekk ljósum logum á markaði fyrir þetta 15 árum eða svo.

Kona vel í holdum horfði á spegilmynd sína sem var svo horuð að hún gaf sveltandi börnum í Afríku ekkert eftir í holdleysi.

En hvað um það, Lizzie Miller er falleg.

Það er heilaþvottastöðin sem er að trufla sjónina í mér og fleirum og það ætti að vera verkefni okkar allra að útrýma stöðluðum markaðshugmyndum um hvernig við eigum að líta út.

Gínukonan er ekki til nema í heimi tískunnar þar sem örlítil prósenta kvenna gengur um deyjandi úr hor og átröskunarsjúkdómum og gefa tóninn.

Út með gínukonuna og inn með hina venjulegu konu sem er alls konar í laginu og nánast aldrei eins og gína.

Nú eða barbídúkka sem samkvæmt nákvæmum útreikningum gæti ekki gengið upprétt eins og hún er í laginu.

Algjörlega flott kona hún Lizzie Miller, læri og allt - og ekki orð um það meir.

Sjá hér.

 


mbl.is Þrýstnar línur vekja fögnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjört einkaframtak án innblöndunar

Nýju myndina um hrunið sem verður frumsýnd 9. október og heitir "Guð blessi Ísland", ætla ég að sjá, það er á hreinu.

Þá verður liðið ár frá þeim degi sem allt hrundi svona formlega þó auðvitað hafi allt farið í vaskinn löngu áður en okkur starfsmönnum á plani haldið í ástandi hins hamingjusama hálfvita eins lengi og nokkur kostur var.

Ég ætla að sjá hana þó ekki væri nema nafnsins vegna sem er auðvitað tilvísun í orð Geirs Haarde þegar hann bað guð fyrir okkur þann 7. október í fyrra vansællar minningar.

Ég hef reyndar alltaf skilið þetta ákall Geirs á guð.

Maðurinn vissi auðvitað að hann og hans hómís voru gjörsamlega ófærir að bjarga nokkrum sköpuðum hlut og þá var ekkert eftir nema ákall á hinn almáttuga.

Sem mér finnst ekki hafa tekið neitt sérstaklega vel í bón Geirs Hilmars.

En hvað gat Geir gert?

Ekki gat hann beðið VG um að bjarga okkur.

Það hefði verið pólitísk sjálfsmorð.

En hið pólitíska sjálfsmorð var auðvitað framið án hjálpar nokkurs manns eða máttar.

Algjört einkaframtak án innblöndunar.

Gvöð blessi Kolbeinsey, hún er að hverfa í sjó.


mbl.is Þetta er bara allt farið í steik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókablogg um Kínverjann

Kínverjinn

Ég var að lesa nýju bókina hans Hennings Mankell.

Kínverjann.

Hún er frábær.

Glæpasaga sem heillaði mig upp úr skónum.

Af hverju?

Jú hún er meira en glæpasaga, hún er um pólitík, fjöldamorð, þrælahald, græðgi og réttindabaráttu.

Í bókinni er farið víða um heim bæði í tíma og rúmi.

Sögusviðið teygir sig frá Svíþjóð, Englands og alla leið til Kína í nútímanum ásamt Kína og Bandaríkjum fortíðar.

Ótrúlega vel skrifuð bók sem er heillandi, ógnvænleg, fróðleg og spennandi, allt í senn.  Ein af þessum spennubókum sem halda manni föngnum allt til enda.

Ég er að verða fíkin í krimma sem er alveg nýtt fyrir mér.

Ha?

Lesið Kínverjann, þið verðið ekki svikin.


Söknuður, sorg, blíða, ást, gredda (nú eða þrá), svefnleysi, hungur eftir hlátri og samræðum, hahahahahaha, búhúhúhúhú og komdu heim - núna!

 love-letter

Kúbanski rithöfundurinn Ludmilla hefur séð fyrir sér í 15 ár með því að skrifa ástarbréf fyrir fólk.

Af hverju datt mér þetta ekki í hug, hugsaði ég og boraði í nefið á mér gröm á svip.

Svo kviknaði á perunni.  Auðvitað datt mér þetta ekki í hug þar sem ég hef aldrei skrifað eitt einasta ástarbréf á minni löngu ævi.

Er of krumpuð og lokuð til að hafa skrifað ástarviðföngum mínum í gegnum lífið enda eru til símar og engin ástæða til að skella samböndum til baka í tíma allt aftur til fjaðurpennamenningarinnar.

Hvernig myndi ég skrifa ástarbréf ef ég ætlaði í einlægni að setja hlýjar og heitar kveðjur á blað til míns heittelskaða?

Hm.... látum okkur nú sjá, hafið þolinmæði ég kann þetta ekki. 

Hvar á hann að vera staddur?  Jú hann getur verið að spila blús, segjum á Kúbu.  Nei það gengur ekki, hefði aldrei samþykkt að fá ekki að fljóta með.  Ókei, setjum hann niður með gítarinn í Félagsheimili Harðangursfjarðar í Norge. Mig langar ekkert þangað.

Jibbedydonk.

Elsku ástin mín (hérna heldur hann að ég sé að gera eitthvað stórkostlegt af mér en ókei, allt fyrir ástina).

Ég elska þig jafn mikið og ég gerði þegar þú fórst.  Ég get ekki borðað, ekki lesið og ekki bloggað.  Það er nefnilega búið að loka fyrir rafmagnið.

Gengur ekki, kaldhæðni í ástarbréfum er nónó.

Ég gæti ekki verið væmin á blaði þó líf mitt væri undir.

Ég gæti hins vegar alveg átt það til að gerast smá klúr til að fá ástina mína til að brosa.

Elsku draumaprinsinn minn, ég sakna þín mest í við gúrkurekkann í Hagkaupum og þangað fer ég þegar þrá mín eftir þér verður hvað öflugust, ég styn af frygð innan um grænmetið, allt frá kúrbítum að ætiþislahrúgunni.

Ég gefst upp, ég er í alvörunni smáborgaraleg í ástarmálum, sko hvað varðar svona ástarjátningar.  Svo er ég hrædd um að einhver kæmist í bréfið og myndi setja það á netið og hringja á væmnilögguna nú eða klámlögguna ef ég fer í klúru deildina.

Af hverju á maður að búa til sönnunargögn gegn sjálfum sér?

Hvað hefur maður ekki oft orðið ástfanginn í bríari í svo sem eins og vikutíma nú eða sólarhring þegar best (verst) lét? 

Haldið þið að það væri gaman að hafa skriflegar heimildir um tilraunastarfsemi með eigin hormóna?

Arg.

Þá er best að lyfta tóli og tala í gegnum sæstrenginn.

Ég gæti sagt:

Söknuður, sorg, blíða, ást, gredda (nú eða þrá), svefnleysi, hungur eftir hlátri og samræðum, hahahahahaha, búhúhúhúhú og komdu heim - núna.

Love you darling.

Nei, ég þarf örugglega að leita á önnur mið eftir tekjulind.

Ástarbréfahöfundur verð ég ekki úr þessu.

P.s. Ég öfunda samt smá vinkonur mínar sem eiga ástarbréf í skókössum upp á háalofti.

Það er einhvers konar "Notebook" og "Bridges in Whatevercounty" yfir því.


mbl.is Ástarbréf í akkorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2987142

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband