Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

BAKA OG BAKA..

..en ekki kjaftur kýs mig neinsstaðar.  Ég er viðstöðulaust bakandi þessa dagana.  Ég baka kanelsnúða, pönnukökur, kryddkökur, bananabrauð og núna döðlubrauð og fólkið mitt gúffar þessu í sig eins og hungraðir úlfar.  Allir svo hræddir um að þetta sé tímabundið ástand, að ég komist til sjálfrar mín á hverri stundu og baki upp frá því ekkert nema vandræði.

Beikingvúmankræsfordjöstis!


mbl.is Íslenskt bakarí komið í úrslit í keppni í Flórída
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEYÐARLÍNUR EÐA "HEITIR SÍMAR"

1

Eru til umræðu nú þegar fjöldahystería ríkir um heim allan vegna útgáfu Harry Potter bókarinnar og þar með afdrifum söguhetjanna í þeirri merku bók.  Það er sum sé talið, a.m.k. í Bretlandi, að mikið álag verði á viðkomandi "hotlines" af því fólk muni fara í sorg og aðskilnaðarerfiðleika eftir lesturinn.

Mér hefur fundist þetta pínu fyndið, pínu yfirdrifið, pínu hallærislegt og pínu aumingjalegt.

Svona var það víst líka þegar hinn væmni drengjakór "Take That" hætti samsullinu.

HVERS VEGNA VAR EKKI BOÐIÐ UPP Á SVONA ÞJÓNUSTU ÞEGAR BÍTLARNIR HÆTTU???

Þá væri maður kannski í betri málum í dag en raun ber vitni.

Bítsmí.


ERU EKKI EINVHERJIR ÞARNA ÚTI...

...sem hafa í heiðri orðatiltækið (málsháttinn) "í upphafi skyldi endirinn skoða"?  Þetta er einn af mínum uppáhalds og ég les alltaf endirinn á spennubókum áður en ég fer að lesa fyrir alvöru.  Þetta geri ég til að geta notið bókarinnar í rólegheitum og þurfa ekki að vera stressa mig yfir sögulokum.

Ástæða þess að ég er að röfla um þetta svona snemma á laugardagsmorgni er einföld.  Ég get ekki verið ein um nota þessa aðferð.  Þið Harry Potter lesendur sem eruð búnir að grafast fyrir um endi bókarinnar, skellið sögulokunum hérna í athugasemdakerfið hjá mér.  Hverjir dóu?  Gefið mér sóðaleg smáatriðin.

Skvísmí.


FJÖLDAHYSTERÍA BÚIN TIL

 

Rosalega er þetta Harry Potter fár farið að taka á sig óhugnanlegar myndir.  Allir spila með í þessari markaðssetningu og nú búa hjálparlínur í Bretlandi sig undir að fá hringingar frá örvæntingarfullum aðdáendum HP-bókanna eftir að síðasta bókin kemur út í kvöld.  Það er talin hætta á að lesendum bókarinnar finnst þeir hafa misst einhvern náinn þegar bókaflokknum lýkur.

Þetta er í besta falli brosleg múgsefjun í gangi allsstaðar í kringum okkur.  Í versta falli óhemju sorgleg vegna allra þeirra sem eru að missa einhvern náinn á hverjum degi, eiga ekki að borða og búa við stöðugar stríðsógnir og sjúkdóma.

Þegar grannt er skoðað verður þessi ballett allur svo skeflilega kjánalegur.

 


mbl.is Breskar hjálparlínur búa sig undir hringingar frá örvæntingafullum Harry Potter lesendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ER AÐ BLOGGA FRÁ VETTVANGI..

 

..þar sem hlutirnir gerast eða fyrir utan verslunina Nexus á Hverfisgötu og er þar nr. 4 í röðinni og ætla að bíða þar til kl. 23.01 annað kvöld og þá ætla ég að kaupa upplagið af Harry Potter, taka með mér heim, selja á svörtu á uppsprengdu verði.

Segi svona, en mikill rosalegur hamagangur er þetta út af bókinni. 

Flott markaðssetning er greinilega að skila sér.

Bítsmí


mbl.is Sofið fyrir utan Nexus í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BLOGGVINAHEIMSÓKNIR (NB EKKI HREINSANIR)

Muhahahahaha

Er búin að fara einn bloggvinahring eða tvo og allsstaðar ýtt á "óviðeigandi tenging við frétt" þar sem boðið er upp á þann möguleika.  Um að gera að nota fídusana.  Segi svona.  Dásamlegt að geta hlekkjað sig við tölvukvikindið þegar kona nennir ekki að gera skyldu sína á heimilinu.  Ég er með matarboð fyrir familíuna mína í kvöld (matarboð er asnalegt orð í þessu tilfelli bara sam-snæðingur væri nærri lagi) og hef alveg nóg að gera.

Ég elska ástríðukokka.  Ég get ekki logið því upp á sjálfa mig að ég sé mikill átsríðukokkur en ég er nokkuð góð samt.  Meðfæddur hæfileiki sem ég hef ekki lagt neina sérlega rækt við frekar en marga af öllum mínum dásamlegu hæfileikum.  Ég hef ekki tíma í þá alla.    Hvað um það, aftur að kokkunum og núna þeim á blogginu.  Ég veit ekkert skemmtilegra en að lesa blogg ástríðukokkanna.  Það er svo mikil innlifun í matargerðinni hjá þeim en þeir eru alls ekki nógu margir.  Ég get ekki sagt að ég hendist beint í eldhúsið og eldi samstundis allt sem þeir eru að gefa okkur uppskriftir að, en ég tileinka mér margt og ég spinn líka út frá hugmyndunum þeirra.

Matglaði læknirinn (www.ragnarfreyr.blog.is) er sá duglesti í matarblogginu.  Ég hef notað margar uppskriftir frá honum fyrir nú utan nautnina sem ég fæ af því að lesa bloggið hans.  Maðurinn er ástríðukokkur par exilance. 

Bloggvinkona mín hún Stína í Kananda (www.stinajohanns.blog.is)  er rosalega skemmtilegur matarbloggari.  Ég hef tekið eitt og annað til handargangs frá henni (kjúklingasalat og sænskt kartöflusalat toppar flest).  Hún bloggar líka um allskonar annað og er bara skemmtileg.

Edda Agnars, æskuvinkona mín bloggvinkona (www.eddaagn.blog.is)  er geggjaður kræsingabloggari.  Hún er með ótrúlega einfaldar uppskriftir af mat og bakstri sem klikkar aldrei.  Algjör barnaleikur enda konan hússtjórnarkennari.

Þetta er byrjunin góðir gestir.  Bon apitít og enga öfund.  Við getum ekki öll verið meistarar allsstaðar.

Nananabúbú.

 


ÉR ER BÓKAORMUR...

1

..það viðurkenni ég fúslega en fjaðrafokið í kringum Harry Potter, en bækurnar um hann eru flottar, er aðeins of mikið fyrir minn smekk.  Nú hefur höfundurinn skrifað aðdáendum bókanna og beðið þá að þegja yfir sögulokunum til að skemma ekki fyrir þeim sem eiga eftir að lesa.  Þvílík markaðsetning. 

Frumburðurinn er trylltur Harry Potter aðdáandi.  Hún dró Jökulinn (elsta barnabarnið ) með sér á myndina sem "alibí" þ.e. hún móðirin fórnaði sér fyrir afkvæmið og fór með honum í bíó.  Og nú er bíður hún í ofvæni eftir bókinni enda löngu búin að skrifa sig fyrir henni.  Jökull er auðvitað hrifinn af HP en ekkert í líkingu við mömmuna og ég held að honum þyki nóg um æsinginn.

Róleg bara, það er ekki eins og þetta séu heimsbókmenntir eftir Astrid Lindgren, dhö!

Súmí.


mbl.is J. K. Rowling biður aðdáendur að þegja yfir sögulokum Deathly Hallows
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAÐ LIGGUR Í LOFTINU!

 

Það liggur einhver rasismi í loftinu alls staðar í heiminum.  Nú er andúð á gyðingum að aukast í Evrópu.  Ætlar manneskjan aldrei að læra?  Hvað þarf að fórna mörgum mannslífum í heiminum áður en fólk fer að átta sig á því að þessi andúð á þeim sem eru öðruvísi kostar bara mannfórnir og aftur mannfórnir?  Ég er langt í frá sátt við Ísrael þegar kemur að málefnum Palestínu.  Það þýðir ekki að mér sé illa við gyðinga.  Mér finnast Bandaríkin með fáránlega utanríkispólitík en það þýðir ekki að mér sé illa við ameríkumenn.  Og svo má lengi telja.

Það þarf ekki að segja mikið neikvætt um útlendinga til að það komi fólk (oftast nafnlaust) skríðandi upp úr holum sínum og tjái hatur sitt og ótta við útlendinga.  Þetta skelfir mig. 

Mér hefur reynst heppilegast í lífinu, að meta fólk eftir framkomu þess en ekki hvaðan það kemur og hvar það er fætt.  Margir af mínum bestu vinum eru útlendingar.  Ég tel mig ríkari fyrir bragðið.  Eitt barnabarnanna minna er útlendingur (sænskur pabbi) og fyrir hennar hönd og annarra útlendinga er mér misboðið, þegar heiftin og hatrið gagnvart innflytjendum á Íslandi geisar hér eins og stórhríð á blogginu, svo ég taki nú bara nærtækt dæmi. 

Bara vegna þess að einhver gefur tóninn.

P.s. Ég ætlaði ekki að tjá mig meira um þetta málefni, fannst nóg komið en svo mundi ég eftir því að ég blogga af ákveðinni ástæðu, ég verð allavega að vera skoðunum mínum trú.  Og hananú!


mbl.is Andúð gagnvart gyðingum að aukast í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁHYGGJUM AFLÉTT

1

Ég var að lesa Moggann eins og venjulega og datt niður á meðfylgjandi frétt.  Húsbandið á stórafmæli eftir nokkur ár og ef hann lafir hérna megin grafar á þeim tímapunkti, sem er alls ekki víst þar sem hann er enn í nikótíninu, þá ætla ég að slá upp veislu.  Ég hef að sjálfsögðu verið að plana viðkomandi teiti undanfarin ár, enda þarf ég góðan tíma í svona fyrirkomulag eins og afmæli í fjölskyldunni.  Ég er að hugsa um að halda  veisluna á Kínamúrnum (er í samkomulagsviðræðum við þarlend stjórnvöld um að loka múrfjandanum í þessa fáu daga sem veislan stendur yfir), vera með dýr í útrýmingarhættu á matseðlinum, ekki eitthvað almúgasnakk sem hægt er að kaupa úti í búð, og þjón á mann enda gestirnir ekki margir (eitthvað um 10.000), bara nánustu vinir og kunningjar.  Veislan hefur verið að taka á sig heildarmynd undanfarið, en ég hef alveg verið lens með hvað ég ætti að bjóða upp á í formi skemmtiatriða.  Nú er það vandamál úr sögunni.  Stóns eru í miklu uppáhaldi hér við hirðina en ég hélt að þeir væru dýrir.  Sko villidýrir.  En það er ekki græðginni fyrir að fara hjá hetjunum mínum.  Þeir taka ekki nema 331 milljón fyrir einkagigg.  Ég er búin að leggja skilaboð fyrir Mick Jagger og hið glæsilegasta mannflak, sjálfan Keith og býð nú spennt eftir svari.  Ég vona að þeir séu lausir, part úr kvöldi, dagana 26. 27. 28. 29. apríl 2010.  331 milljón x4, tertubiti í heimilisbókhaldinu.

Nei ekki að ræða það, ykkur er ekki boðið.  Bara nánustu vinum og vandamönnum.

Úje.


mbl.is Fengu 331 milljón fyrir að spila í einkaveislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÉLEGUR HÚMOR

Mikið rosalega fannst mér hallærislegt að sjá í fréttatímasjónvarpsins, sviðsetningu á þrælauppboði í Alsír, í tilefni þess að 380 ár eru liðin frá Tyrkjaráninu ógurlega, í Vestmannaeyjum.  Flott að minnast þessara tímamóta en aðgerðin gjörsamlega misheppnuð þar sem öllum fannst uppboðseftirlíkingin svo rosalega sniðug og skemmtileg.

Í fyrsta lagi hafa aldrei verið haldin þrælauppboð af Tyrkjum í Vestmannaeyjum.  Í öðru lagi þá er mansal, uppboð á fólki og annar óþverraháttur, jafn grafalvarlegt mál í dag og það var dagana ógurlegu þegar Tyrkir fóru um Vestmannaeyjar rænandi og ruplandi.

Bendi á reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur, sem er vissulega skáldsaga en byggð á traustum heimildum.

Ég, í böðulsbúningnum með þrælapískuna.


mbl.is Tyrkjaránsins minnst í Vestmannaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2988086

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.