Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hrífandi glerkastali

glerkastalinn 

Í sumar hef ég lesið óvenjulega lítið miðað við það sem ég er vön.  Ég kenni veðrinu um, annað eins sumar og það sem brátt er á enda hef ég ekki upplifað á "draumaeyjunni".

En nú er ég lögst í lestur sem aldrei fyrr.

Ég bloggaði um að ég væri að lesa Glerkastalann um daginn.  Hafði á orði að hún væri hrífandi.  Svo fór ég að velta fyrir mér orðalaginu hjá mér. Getur frásögn konu um fátækt, ofbeldi, hungur og vanrækslu í uppeldinu verið hrífandi? Já,  í þessu tilfelli er frásögnin hrífandi þrátt fyrir allan ljótleikann.

Á bókarkápu segir:

"Frásögn Jeannette Walls af æsku sinni er í senn miskunnarlaus og angurvær; ástin til foreldranna skín í gegn þrátt fyrir þær hörmulegu aðstæður sem þau bjuggu börnum sínum.

Jeannette Walls býr í New York og Virginíu og er gift rithöfundinum John Taylor. Hún skrifar reglulega á MSNBC.com
. "

Ég hafði heyrt um þessa konu og bókina hennar.  Æska hennar var skelfileg.  Meðferð foreldranna á börnunum ótrúleg og sú staðreynd að í lok bókarinnar eru foreldrarnir komnir á götuna í New York að eigin vali, á meðan börnin hafa komið sér vel áfram í lífinu, er náttúrulega bara óvenjulegt svo ekki sé nú meira sagt. 

En öll frásögn Jeannette er lygasögu líkust en hún er jákvæð þrátt fyrir skelfilegan raunveruleikan sem hún og systkini hennar búa við.

Þetta er svona bók sem skilur mann eftir gapandi og ég var hálf fúl þegar lestri lauk, ég vildi meira.

Ég mæli með Glerkastalanum, hún situr svo sannarlega eftir í hjarta og sinni.

Vó hvað góðar bækur gefa manni mikið. 

Og nú er ég að klára spennubók sem heitir Svartnætti.  Þið fáið upplýsingar um leið og ég má vera að bókafíklarnir ykkar.

Annars voða góð og á leiðinni í þrif.

Og ég sem ætlaði í berjamó. 

Later.


Meðvirkni?

Ég og Sara dóttir mín vorum í símamaraþoni áðan og vorum að ræða um meðvirkni.

Hvað er meðvirkni?

Samkvæmt sumum þá flokkast það undir meðvirkni að rétta hjálparhönd, veita stuðning og gera greiða.  Moi er ekki sammála.

En ég er ansi meðvirk samt held ég.

Einhver sagði mér einhvern tímann að það væri meðvirkni ef maður fengi aulahroll.  Að það væri bullandi meðvirkni ef maður fæli andlitið í höndum sér ef einhver annar gerði sig að fífli.  Að slík hegðun væri dæmi um lélega sjálfsmynd.

Ég er algjör aulahrollur en ég neita því alfarið að ég sé með lélega sjálfsmynd.  Ég er beinlínis ástfangin af henni nýju Jenný Önnu, finnst hún hipp og kúl og ógeðslega töff vúman.

Ég get ekki horft á sjónvarpsþáttinn "Tekinn" (ekki bara af því hann er hundleiðinlegur), ég vorkenni svo fórnarlömbunum.  Finnst það jaðra við mannvonsku að láta fólk halda að það hafi valdið slysum og svoleiðis.  Sumir segja að það sé meðvirkni.  Mér finnst það ekki.

Og þegar þulurnar í sjónvarpinu halda áfram að brosa út í tómið eftir að þær eru búnar að þylja dagskrána og það dregst að myndavélinni sé beint frá þeim.  GMG hvað mér finnst það vandræðalegt.  Þá fer ég undir borð.

Það er sennilega ekki alveg eðlilegt.

Það er líka sagt að stjórnsemi sé meðvirkni.  Þá er nú allur pólitíski flotinn á Íslandi í akút meðferðarþörf.  Eða hvað?

Fólk sem er súperviðkvæmt fyrir gagnrýni, jafnvel þegar hún kemur frá bláókunnugum, mun vera rosalega meðvirkt.  Ef það er rétt þá er stór hluti bloggheima í alvarlegri meðvirknikrísu sbr. t.d. þá sem ritskoða kommentin og birta þau ekki einu sinni fyrr en eftir lúslesningu.  Svo ég tali nú ekki um þá sem banna komment svona yfirleitt.

Annars veit ég ekki haus né sporð á meðvirkni annað en það sem ég hef lesið og það sem er að trufla mig varðandi eigin hegðun.  "I aim to please" sagði maðurinn.

Ég á vin sem gat ekki sagt nei, ég hef bloggað um þann dúllurass áður.  Hann fór á námskeið til að læra að segja nei.  Það má segja að námskeiðið hafi slegið í gegn hjá mínum manni.  Hann hefur ekki sagt já í ein fimm ár nema í draumi.

Gulli, villtu rétta mér smjörið - NEI!

Gulli, komum í bíltúr - NEI!

Gulli, elskaðu mig - NEI!

Gulli, farðu til helvítis - NEI!

Gulli er einn, hann lætur engan vaða yfir sig, hann er í því að segja nei við spegilmyndina eftir að allir vinirnir, eiginkonan og vinnan fuku veg allrar veraldar.

Gulli, villtu gjöra svo vel að mæta í vinnuna - NEI!


Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása

Orðið ljósmóðir er eitt það fallegasta í íslenskri tungu og að mínu mati er starf ljósmóður eitthvað það merkilegasta sem hægt er að hafa með höndum.  Í mínum huga eru þessar konur mikið meira en bara heilbrigðisstarfsmenn, þær eiga alveg sérstakan stað í hjarta mínu og ég er full þakklætis í þeirra garð.

Hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk spítalanna nýtur líka sérstakrar virðingar í mínum huga, það er eitthvað svo stórt og merkilegt við fólk sem vinnur við að bjarga lífi annarra og annast um okkur þegar við erum veik og aum. 

Ég gæti líka talið upp endalaust af fólki sem sinnir öðrum og hefur það að lífsstarfi.  Leikskólakennarar, fólkið sem sinnir öldruðum og á endanum allur sá aragrúi kvenna sem þrífur skít í öllum þeim stofnunum sem sjá um manneskjur.  Þið vitið hvað ég meina.

Og ég er þreytt á að sjá lítilsvirðinguna sem "hið opinbera" sýnir þessu fólki þegar kemur að því að greiða því fyrir vinnuna sína.

Hver króna er talin eftir, það er reynt að blóðmjólka starfskraftana og nú er yfirvofandi brotthvarf ljósmæðra úr starfi vegna launa sem ég persónulega skammast mín fyrir að séu greidd þeim sem taka á móti börnunum okkar og hjálpa foreldrunum með fyrstu skrefin í foreldrahlutverkinu.

Ég er svona við það að springa.

Það er svo ekki á það bætandi þegar einn einn stjórinn og það stjórinn á Lsp. fær 25% launahækkun, fer upp í 1.618.56 á mánuði.

Hann stjórnar batteríinu og fyrirgefðu maður/kona sem ert í djobbinu, finnst þér ekkert siðlaust við þetta fyrirkomulag á meðan fólkið á "plani" fær ekki það lítilræði, sem það á svo sannarlega rétt á, fyrir að halda þessari stærstu heilbrigðisstofnun okkar Íslendinga gangandi?

Ég er svona uþb. að fá endanlega nóg af þessari jakkafatahugmyndafræði sem tröllríður þjóðfélaginu.

Mat á mikilvægi í þessu þjóðfélagi er svo karllægt að það er að verða óþolandi að horfa upp á forgangsröðunina í launamálum og öðrum málum líka reyndar.

Fífl.  Aljgörir jeppar til höfuðsins þetta lið.


mbl.is Laun forstjóra Landspítala hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlahúmor - ekki kafna úr hlátri af eigin krúttheitum

Bloggheimar eru í langdregnu krúttkasti yfir jakkafötunum í Sjálfstæðisflokknum.  Fólki finnst svo krúttlegt að drengirnir ósnertanlegu gantist hvor við annan.

Hahahahaha.

Karlahúmor, jakkafatahúmor, vindlahúmor, bakherbergishúmor,égáÍslandhúmor og allir krullast upp af gleði. 

Nenni ekki að pæla frekar í því.  Allir þurfa að skemmta sér, líka ofurmenninn.

Og svo að henni Agnesi Bragadóttur, sem mér finnst flottur blaðamaður.

En þegar ég sé hana reiða í sjónvarpinu þá stekk ég á bak við næstu mublu og fel mig.  Ég er skíthrædd við þessa konu, ef ég hitti hana í ham, augliti til auglitis myndi sjást undir iljarnar á mér.

Kannski átti hún ekkert að vera að kalla Árna Johnsen stórslys og mælast til þess að hann héldi kjafti, frekar brussulegt hjá henni, en ég held að hún sé ekki ein um þá skoðun.  Það eru bara ekki allir sem þora að segja það upphátt.

  En ég segi það og meina að ég myndi taka lykkju á leið mína frekar en abbast upp á Agnesi. 

Agnes í Kastljósi

Annars finnst mér alltaf gott þegar pólitískir andstæðingar sjá sjálfir um að minnka fylgi flokksins síns.  Árni er búinn að standa sig vel í því.

Mér fannst ekki par smekklegt af honum að bera sitt mál saman við Bónusmálið, en samt er það ákaflega "árnískt" að gera það.

Ef maðurinn ætlar í mál við Agnesi, þá hann um það, en rosaleg viðkvæmni er þetta.  Magnús Geir bloggaði um offramboð á Árna og ég er á því að sá mæti maður hafi rétt fyrir sér.  Árni ætti að hafa sig hægan um hríð.  Öllu má ofgera og ég er rosalega mettuð af þessum manni.

Og eitt í viðbót hérna sem er búið að vera að pirra mig í einhverja daga.

Sigmar með BB í drottningarviðtali.  Sumir sjónvarpsmenn mættu fara að kíka á starfslýsinguna.  Kastljós er fréttatengdur þáttur og ég vil að það sé reynt að fá eitthvað út úr pólitíkusum þegar þeir mæta til yfirheyrslu.  Viðtalið var eins og hátíðarútgáfa af Séð og Heyrt, svo ég taki nú ekki sterkara til orða.

Sigmar er ekki beittur nú um stundir.

Björn og Simmi.

Hvar er Helgi Seljan?  Enn á sjó?

Ég sakna drengsins.

Ajö í bili


mbl.is Davíð boðaði Sigurð Kára á leynifund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúðar og kókómjólk - eðaggibara?

Við systurnar eigum langa og skrautlega ökusögu.

Hver á sinn máta.

Ég keyri ekki vegna dekksins sem losnaði undan bílnum í fyrsta skipti sem ég fór í bíltúr með börnin mín.  Ég fæ enn þakkarkort frá umferðadeild lögreglunnar á hverju ári vegna þeirrar ákvörðunar minnar að keyra ekki bíl framar í þessu lífi.

Sumar systur af sex keyra eins og brjálæðingar.  Blóta og sverja yfir fíflunum í umferðinni.  Eru sum sé eðlilegir íslenskir ökumenn.

Gusla systir mín sneiddi baksýnisspeglana af Fíatbílnum mínum fyrir margt löngu þegar hún var minn einkabílstjóri á sumri ástarinnar.  Við krúsuðum líka góða stund í sama bíl á götum borgarinnar í ýmiskonar snatti og við sáum ekki rassgat út úr augum vegna þoku.  Þokan reyndist vera gufa vegna slitinnar reimar í bíl, Gusla var mjög hissa.  Viftureim what?  Var það ekki veðrið?  Ég hló mig máttlausa, Fíatinn hafði ekki húmor fyrir þessari vankunnáttu og pabbi ekki heldur.

Ingunn systir mín skrapp í bakaríið 198tíuogeitthvað á risastórum kagga sem þau hjón höfðu fjárfest í.  Hún steig á bensínið þessi elska í staðinn fyrir bremsur þegar hún keyrði upp að húsinu sem var einn stór glerveggur.  Inn um gluggann fór hún og rann snyrtilega upp að afgreiðsluborðinu.

Alvöru kona reynir að halda andlitinu í öllum aðstæðum.  Hún missir ekki kúlið.  Þarna sat systir mín með stálbita á húddinu, glerlufsur í hárinu, brauð og kökur í framsætinu og bílinn sinn nánast óskaddaðan, og hún brosti breitt.

Bakarinn varð árásargjarn og gargaði og veinaði yfir nýja veggnum og innréttingunni.  Systir mín sá bara eitt í stöðunni, hún gat ekki bakkað út og keyrt á brott  vegna byggingarefnis af ýmsu tagi sem fylgdi innkomunni.  Hún gerði það eina rétta í stöðunni.  Hún bað brosandi um tvo snúða og kókómjólk

Hún rankaði reyndar við sér með hendur bakarans um hálsinn á sér í krampakenndri tilraun til að binda endi á líf hennar eða allt að því.  En það skiptir ekki máli, hún hélt kúlinu.

Systurnar Önnu og Baldursdætur eru umferðarlögreglunni stöðug hvatning til að gera betur.W00t


Hlandkoppur á elliheimili

magart0107_p54_pic3

Þegar ég var að alast upp og langt fram á þrítugsaldur skilgreindi ég íslenska karlmenn og raðaði þeim í fimm kategóríur. 

Ruddarnir, sem hættu í skóla 12 ára, lásu aldrei neitt annað en bankabókina sína, fóru á lúðu og steinbít, migu og kúkuðu í saltan sjó, snýttu sér á gólfið, hræktu á konur, klóruðu sér í pung og ráku við í fjölmenni.  Þeir þóttu vera karlmenni hin mestu þessir ógeðismenn.  Ég var aldrei sammála og þeir hrundu úr móð.

Menntamennirnir, sem nú eru flestir komnir í yfirvigt, voru grannir, fölir og pervisnir, reyktu franskar sígarettur, héngu á Tröð, ortu ljóð og voru með axlarsítt hár.  Svona tæringartýpur, alltaf með trefil og hóstandi ofan í bringuna á sér.  Mér fannst þeir törnoff með örfáum undantekningum.  Þeir áttu ekki upp á pallborðið nema hjá kvenkyns tvíburum sínum.

Hipparnir, með hárið niður í mitti, sem bökuðu vöfflur og brauð, eða opnuðu leðurverkstæði, reyktu hass og sögðu vávává í tíma og ótíma, gengu í afganpelsum með 3 m. langa trefla, bjöllur og keðjur, leðurarmbönd og fleira glingur.  Þeir voru undantekningarlítið berfættir í skónum, áttu aldrei krónu og fóru sjaldan í bað.  Ég baðaði nokkur stykki og fannst þeir sætir, nýbaðaðir og nýpúðraðir.

Mestu plebbarnir, voru MR-náungarnir, litlu karlarnir, svona 17 ára gamalmenni í hvítum nælonskyrtum með lakkrísbindi, "innvíðum" terlínbuxum og menntóúlpu.  Þessir hoppuðu yfir unglingsárin og lentu beint á "háttíþrítugsaldrinum".  Þeir gerðu álíka mikið fyrir kynhvötina og hlandkoppur á elliheimili.

Svo voru það perlurnar á fjóshaug lífsins sem er ekki hægt að setja í kategóríur.  Það voru mínir menn og ykkur kemur ekki afturenda við hverjir þeir voru.

En nú óttast ég að maðurinn í lið eitt sé að hefja sig til vegs og virðingar.

Sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Mæómæ.

 

 


mbl.is Guðjón hættur með ÍA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir, vondir strákar

 hjúkka

Það er alltaf verið að rannsaka "bad boy heilkennið" og hversu mikið aðdráttarafl vondu strákarnir hafa á konur.

Hérna er verið að rugla saman tveimur óskyldum fyrirbærum. Það ættu rannsakendur að vita og taka mark á þegar þeim eru réttar upplýsingarnar frá fyrstu hendi.

"Vondir strákar" sem margar okkar höfum verið skotnar í, í gegnum árin og á öllum aldri eru að mínu mati blásaklausir töffarar sem ganga ekki með grunngerðina utan á sér, að minnsta kosti sumir hverjir.

Það eru ekki slæmir náungar.  Hver fellur ekki fyrir klárum manni, sem svarar vel fyrir sig, þrátt fyrir að hann virki svolítið hrjúfur og kunni ekki á rauða dregla lífsins? 

Ég hef löngum verið svag fyrir svoleiðis mönnum.  Ekki lengur enda 10 ár síðan ég gifti mig síðast og er bara  sátt við minn hlut svona hjónabandswise. 

 Ég hef aldrei séð neitt sjarmerandi við menn sem eru eins og kínverskir húsþjónar með framhaldsmenntun í hjúkrunafræðum og vaða um allt þurrkandi af og síspyrjandi hvort manni vanti eitthvað, eru sífellt sammála ruglinu sem vellur upp úr manni (mér) og kóa með manni í vitleysunni þar til kona læðist að viðkomandi í skjóli nætur, myrðir hann og nýtur þessDevil.

Svíar kalla þessa tegund "Velúrpabba" eða "Töffluhetjur" þetta eru mennirnir sem sitja fyrir þér með teketil og heimabakað þegar þú vilt helst fara á djammið.  Þeir eru með plástur í töskunni, ef þú skyldir hrasa.  Þeir kunna fyrstu hjálp og beita henni á þig þegar þú hóstar kurteisislega.  Þeir eru með verkfæratösku í bílnum, þannig að ef hái hællinn gefur sig t.d. þá er skóvinnustofa í skottinu hjá mannhelvítinu og málið dautt.  Þú getur ekki upphugsað neina þá ósk sem maðurinn er ekki fær um að láta rætast á andskotans nóinu.

Ég vil ekki sjá svona hjúkrunarmenn nema á spítölum og öðrum umönnunarstofnum og verkstæðum.

Og svo eru það "slæmu strákarnir" sem eru helvítis merðir og kvikindi.  Það er allt annað mál, ég myndi ekki einu sinni taka í spaðann á svoleiðis aula.

Robbie Williams er t.d. enginn "bad boy" eins og ég sé þá.  Hann er hrokafullur sjálfsdýrkandi og hann er útblásinn á eigin egói.  Ég held ekki að nokkrum kjafti þyki það sjarmerandi, nema kannski mömmu hans, sem ég er þó alls ekkert viss um.

Það er fullt af svona mönnum, ef eitthvað þá eru þeir verri en karlkyns útgáfan af Florence Nightingale.

Og hana nú og habbðu það sagði kerlingin.

Ég var rétt að byrja að hita mig upp og þá nennti ég ekki lengur út í karlafræðin sem ég hef stúderað frá unga aldri vegna óslökkvandi áhuga á tegundinni.

Ég kem bara með framhald.

Nú er ég að hugsa um að legga mig.

Adjö og Úje.

Engan friggings æsing í kommentakerfinu.  Þá sendi ég á ykkur vondan mann.


mbl.is Vondu strákarnir sigra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bootkamp í framkomu og góðum siðum

Einu sinni var til fyrirbæri sem hét því eðla nafni Tízkuskóli Andreu.  Jájá.

Í skólanum þeim voru kenndir mannasiðir, boðrðsiðir og örugglega hirðsiðir, án þess ég viti það og svo var eitthvað um að skólinn þjálfaði módel.  Ein vinkona mín fór í Tízkuskólann.

Ekki ég, enda engin ástæða til.  Ég er alin upp hjá sjálfmenntuðu alþýðufólki sem kunni sig.  Bæði til munns og handa.

Amma mín var eðaltöffari sem reisti mikinn ágreining við stöðugar hneigingar í skólanum, fannst það ekki kurteisi heldur æfing í undirlægju.  Hún bannaði mér að hneigja mig en auðvitað hlýddi ég því ekki, var svo mikil hópsál og hugleysingi sem barn.

En að málinu.

Nú eru stjórnmálamennirnir okkar orðnir dálítið pirraðir (dæmi).  Það gefur á þjóðarskútuna, ár er liðið frá myndun ríkisstjórnarinnar og það er farið að glitta í ergelsi vegna stöðugra eftirgangssemi fjölmiðla til að fá svör sem brenna á þjóðinni. Þetta á t.d. við um efnahagsmál, umhverfismál og fleiri málaflokka sem skipta fólk sköpum á þessu landi.

Og nú ber svo við að hver indælismanneskjan á fætur annarri og auðvitað líka sumar sem aldrei hafa verið annað en dónalegar, sýna pirring og hroka þegar fréttamenn reyna að fá þær til að svara.

Reyndar vildi ég ekki vera fréttamaður þessa dagana, stöðugt verið að hundskamma þá eða taka á þá þagnartrítmentið.  En hvað um það.

Tízkuskóli Andreu er fyrir löngu liðinn undir lok enda Íslendingar löngu hættir að hrækja á gólfið og ropa í fínum veislum.  En er ekki Heiðar snyrtir og sollis fólk til að taka ríkisstjórnina, amk. suma í henni, og kenna þeim mannasiði?

Svona bootkamp í framkomu, ha?

Ég legg það til og svei mér þá.

Guð fyrirgefi mér.


Klobbamál og raðfullnægingar

Þrátt fyrir að ég láti eitt og annað út úr mér hér á blogginu, þá er það ekki endilega eitthvað sem má heimfæra upp á mig í raunheimum.

Ég er til dæmis kjaftfor með afbrigðum á síðunni minni þegar tilfefni gefst til en í raun og sann er ég svo kurteis að ég líð fyrir það.  Oftast en alls ekki alltaf.

Ég er líka alveg hryllilega gamaldags í sambandi við umræður um kynlíf.  Þrátt fyrir að vera af ´68 kynslóðinni sem kallaði nú ekki allt ömmu sína í klobbamálunum.

 Rannsóknir um kynlíf britast nánast daglega á Mogganum.  Frá öllum sjónarhornum.

Nú er það gamla gengið.  Áttræðar konur í raðfullnægingum daginn út og inn.

En það stendur ekkert hvernig þær eru að bera sig að.

Það er engan veginn nógu gróft að segja bara að þær séu alltaf ríðandi, það vantar díteila hérna.

Hvaða stellingar notar gamla fólkið.  Hrörnar snípurinn?  Minnka typpin, úðar fólk á elliheimilum í sig Viagra?

Sama er með konur á sextugsaldri.  Eru þær graðari en þær áttræðu?  Hvað með minn aldur?  Ég gef ekkert upp.

Og nú er ég búin að ganga fram af sjálfri mér í grófleikadeildinni.

Annars á að vera hægt að segja píka, tittlingur, ríða, rúnka og allt hitt án þess að blikna - það er sko nútíminn og hann er svo hipp og kúl, svo opinn fráls og utanáliggjandi.

En hvar er rómansinn?  Fínlega daðrið, kertaljósið, fikt í hári, og knús í strætó?

Má ég heldur biðja um það?

Og svo vona ég að gamlar konur og gamlir menn fái að hafa kynlífið sitt í friði.

Og hana nú.


mbl.is Meira kynlíf og oftar fullnæging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég treysti hvorki Birni né Hauki - skrýtið

Ég hef áhyggjur af konunni hans Paul Ramses og litla barninu.

Miðað við aldur, reynslu og fyrri störf dómsmálaráðherrans og fylgisveina hans hjá Útlendingastofnun kæmi mér ekki á óvart að þau yrðu brottnuminn á sama hátt og fjölskyldufaðirinn, í skjóli nætur.

Og þegar fólk er komið úr landi er hægara sagt en gert að fá það tilbaka hingað.

Utanríkisráðherrann er víst að beita sér eitthvað í máli Pauls í gegnum sendiráðið okkar á Ítalíu með það sem markmið að það sé komið almennilega fram við hann.

Gott og vel ef rétt reynist.  En það er reyndar ekki það sem almenningur er að fara fram á.  Við erum að fara fram á að Paul verði kallaður heim og mál hans tekið fyrir hér eins og siðaðri þjóð sæmir. 

Krafan er einfaldlega sú að við högum okkur eins og fólk en ekki svínabest í þessu máli og þeim málum sem eru fyrirliggjandi svona yfirleitt, hvað varðar flóttamenn.

Ég er á því að það þurfi að fylgjast vel með yfirvöldum hvað varðar hana Rosemary svo við vöknum ekki upp við það einn morguninn (núna í vikunni) við að hún hafi verið flutt í fjötrum á næstu löggustöð og þaðan fylgt úr landi í lögreglufylgd með barnið.

Ég treysti þessum náungum ekki fyrir horn.

Undirskriftalistinn.


mbl.is Óvissuástand hjá Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband