Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Fautar og fól

Ég segi það satt og lýg því ekki að það fer um mig ískaldur hrollur þegar ég horfi á viðtalið við þennan vesalings fulltrúa lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Hann heitir Eyjólfur Kristjánsson.  Eyfólfur vill nefnilega koma upp lokuðum flóttamannabúðum og setja flóttamenn í gæsluvarðhald meðan mál þeirra eru skoðuð.

Það er sem sagt glæpsamlegt athæfi samkvæmt lögreglunni suður með sjó að vilja koma til Íslands sem flóttamaður.  Gæsluvarðhaldssök - ekkert minna.

Hvern fjandann er þessi maður að boða hérna?

Eyjólfur talar um að það sé óþolandi fyrir fjölskyldurnar á svæðinu að hafa einhverja menn sem mögulega geta verið morðingjar á sveimi í þessu eðla landi.

Ég ætla að leyfa mér að skammast mín fyrir hönd þessa embættis.

Var kúrsinn útlendingatortryggni 101  í lögguskólanum og ef svo er var Eyjólfur efstur á prófi?

Mér liggur við að álykta svo þegar ég hlusta á fulltrúa löggustjórans (og stjórann sjálfan reyndar líka) tala eftir árásirnar á alla hælisleitendurnar um daginn.

Einhver sagði á blogginu eitthvað um að þessar aðgerðir væru löglegar á landinu okkar kæra og þess vegna ætti maður ekkert að vera að fetta fingur út í þær.

Halló, landið er fólkið sem býr í því og ef meginþorri Íslendinga hugsar svona gagnvart fólki í neyð þá er það mér ekki afturenda kært.

En ég veit að flestir Íslendingar eru vænar manneskjur og vilja koma fallega fram við fólk.

Líka flóttamenn og líka þá sem mögulega fá ekki dvalarleyfi.

Þetta er spurning um eðlilega framkomu ekki fautaskap.

Svo tel ég að við þurfum ekki á svona æsingamönnum að halda í löggunni.

Enda dettur mér ekki í hug eitt andartak að þessir tveir sem hér eru nefndir séu einhver summa af íslenskri lögreglu.

Og guði sé lof fyrir það. 


mbl.is Vilja flóttamenn í varðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni kastar stríðshanskanum

 v

Ég er með eitt á hreinu - þessi mannfjandsamlega ríkisstjórn sem nú situr við völd er ekki mín ríkisstjórn og alls ekki ríkisstjórn kvenna í þessu landi þar sem jafnréttismálin eru á svo slæmu róli að launamunur kynjanna hjá hinu opinbera er að aukast jafnt og þétt, er nú kominn í rúm 17%.

Þetta fólk er ekki að vinna vinnuna sína.

Það er eins gott að halda því til haga að það er ekki bara Árni fjármála sem er farinn í opinbert stríð við ljósmæður og um leið almenning í þessu landi, því ekki láta ykkur detta í hug að það sé ekki gert með vitund og vilja samráðherra hans.

Ég hefði seint trúað því að kvennabaráttukonan ISG ætti eftir að sitja í ríkisstjórn sem svona fer að ráðum sínum gagnvart konum í þessu landi.  Kona sem ég hef alltaf treyst til að verja rétt kvenna.

Nú er verið að senda konur heim um leið og þær hafa fætt börnin eða á fyrstu klukkutímunum.

Er ég ein um að hafa áhyggjur af því?

Varla, en nú er spurningin hvað við gerum stelpur og allir sem láta sig málið varða.

Ætlum við að sitja undir því að þessi duglausa ríkisstjórn sýni okkur fokkmerkið hvað eftir annað á meðan meðlimirnir lifa í vellystingum praktuglega?

Við erum að verða þriðjaheimsland í jafnréttismálum eða stefnum amk. hraðbyri í það.

Goðsögnin um að við séum í svo góðum málum í þessu efni er lífsseigur andskoti.

En Árni kastaði stríðshanskanum.

Eigum við ekki að grípa hann á lofti?


mbl.is Fæddi og fór strax heim til sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naut í flagi

Árni fjármálaráðherra og heilbrigðisstarfsmaður úr dýrageiranum leggur auðvitað sitt af mörkum til lausnar í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið.

Svo er boðaður sáttafundur á morgun.

Alveg er ég viss um að þetta nýjasta framlag ráðherrans til málanna gerir það að verkum að nú verða ljósmæður til að skrifa undir hvað sem er.

Takk Árni, hvað gerðum við án þín?

 

Myndband frá Láru Hönnu.


mbl.is Ljósmæður: Uppsagnir löglegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogg um bloggara

Með leiðinlegri bloggum sem ég les eru blogg um aðra bloggara.

Þegar fólk fer hamförum vegna þess að þessi bloggar svona en ekki hinsegin.

Ég verð þó að játa að ég hef misst mig nokkrum sinnum þarna líka, en ég reyni að taka mig á, með misjöfnum árangri, en ég reyni. 

Bloggararnir sem eru með attitjúd út í heilu bloggsvæðin fara í taugarnar á mér.  Ég hefði getað skrifað óteljandi pirringsfærslur um þetta lið sem er að láta sér líða illa yfir Moggablogginu til dæmis.

Er vitneskjan um að manni er frjálst að lesa eða sleppa því, hulin helling af fólki?  Situr það alveg og rífur í hár sér og veinar í himininn: djöfullinn sjálfur ég á eftir að lesa þennan asna og fíflið hana Jenný Önnu með sitt bölvað úje?

Ég veit um bloggara á öðru svæði sem hætti að blogga út af því að almúginn streymdi fram á bloggvölinn á Moggabloggi, skrifandi pöbull var meira en ritsnillingurinn gat afborið.  Það er ekki allt í lagi heima hjá fólki!  Mér finnst bara jákvætt að sem flestir setji hugsanir sínar á blað.  Ef fólki ferst það illa úr hendi þá nær það ekki lengra.

Mér er löngu hætt að standa á sama hvort þessum eða hinum líkar það sem ég skrifa.  Ég var reyndar mjög upptekin af því í upphafi, en svo rjátlaðist það af mér sem betur fer.  Úje. 

En allir hafa tilfinningar og það er hægt að særa þær með ýmsum hætti.

Stebbi Fr. er ekki skemmtilegur bloggari að mínu mati en truflar það mig að hann skuli ekki  skrifa að mínum smekk?  Ekki vitund og ég get alveg gert grín að nákvæmum fréttafærslum hans og haft gaman að.  Það góða við Stebba Fr. að hann lætur fólk ekki skjóta sig í kaf og bloggar áfram algjörlega ósnortinn, að því er virðist, þó verið sé að draga hann sundur og saman í háði.

En stundum er farið yfir mörkin gagnvart fólki og húmorinn verður illkvittninni að bráð og mér var ekki hlátur í hug þegar ég las þetta.

Svo hvet ég alla til að blogga eins og þeir best geta og vilja. 

Fólk er að minnsta kosti farið að skrifa aftur án þess að það sé nánast eingöngu í formi sms-skeyta.

Það er bara hið besta mál.

Kveðja frá bloggfíflinu.


Halló Alþingi!

Halló Alþingi!

Hvar er eftirlaunafrumvarpið statt?

Átti ekki að kippa þessu í liðinn strax eftir sumarfrí?

Annars er ég með áhyggjur af ljósmæðrum eða réttara sagt hversu illa gengur fyrir ríkið að skilja að það þarf að ganga að sanngjörnum kröfum þeirra.

Ég bíð spennt.

Hehemm.


mbl.is Þingmannamál lúta lægra haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdu börnin í Breiðavík

Ég hef þekkt til tveggja Breiðavíkurstráka um ævina.

Annar fyrirfór sér ungur að árum, hinn lést úr alkóhólisma fullorðinn maður.

 Ég ætla ekki að fullyrða að dvöllinni í Breiðavík sé um að kenna en eftir að ofbeldið sem þar var ástundað í öllum sínum myndum kom í ljós, finnst mér það ekki ólíklegt.

Mér fannst ömurlegt að sjáforsætisráðherra vera í heví fýlu í fréttunum í kvöld vegna þess að Breiðavíkursamtökin leyfðu sér að fara með upplýsingar um gang mála í fjölmiðla.

Er ekki nóg komið af leyndarmálum?

Mér finnst enn ömurlegra að sjá þessar  snautlegu upphæði nefndar og sárt til þess að hugsa að draga eigi þessa menn fyrir nefndir þar sem á að meta þjáningu þeirra upp á nýtt. 

Sönnunarbyrðin er enn einu sinni lögð á hendur þeirra manna sem voru sem börn settir þarna út í einskismannsland þar sem þeim var þrælað út, þeim misþyrmt á allan hugsamlegan máta.

Ef einhverntíma hafa verið til gleymd börn á Íslandi þá voru það drengirnir í Breiðavík.

Íslenska ríkið er ber þá ábyrgð og á að láta hér með staðar numið.

Það hlýtur að vera hægt að gera upp málin við þá sem eftir lifa á þann máta að þeir fái að halda reisn.

Nógu andskotans mikið eru þeir búnir að þurfa að ganga í gegnum.


mbl.is Harma framgöngu forsætisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram stelpur

Ég hef bloggað um það áður hvað mér finnst orðið ljósmóðir fallegt.  Ég held svei mér þá að það sé fallegasta orðið á íslensku.  Man að minnsta kosti ekki eftir neinu fallegra í augnablikinu.

Ljósmæðurnar sem ég hef hitt í lífinu og fengið þjónustu hjá hafa allar eignast sess í hjarta mínu.

Líka þessar tvær sem sigldu eins og júfertur um ganga Fæðingarheimilisins og sögðu gerðu svona, ekki svona, ætlarðu að missa krakkann stelpa?!!  Jájá.  Þær voru í minnihluta og tilheyrðu gömlu stéttinni og þær voru börn sinnar tíðar.  Það fór ekki fram hjá okkur stelpunum að þær vildu okkur vel.

Ég hef verið afskaplega vond við nokkrar ljósmæður.  Þær tóku því vel.

Ég lét henda einni út úr fæðingastofunni á Fæðó þegar ég átti hana Mayu mína.  Mér fannst konan með svo kaldar hendur.  En svona dómaskapur á það til að grípa um sig hjá konum sem eru að drepast úr fæðingaverkjum.  Þær brosa bara ljósmæðurnar.

Eins og segulbandsspólan með Huldu Jens á Fæðó, þessi sem átti að fá mann til að slappa af, hún var æðislega ljúf röddin hennar Huldu en þegar sársaukinn var kominn yfir ákveðin þolmörk þá langaði manni til að henda segulbandinu eins og það lagði sig í vegginn og gera Huldu arflausa, atvinnulausa og landlausa.

Ljósmæðurnar sem hafa sinnt dætrum mínum eru allar englar í mannsmynd.

Það er eins og þær verði betri og betri með árunum, ljúfari, skilningsríkari og svo finnst mér þær allar með tölu svo fallegar.

Það er auðvitað ekki skrýtið vegna þess að þær taka þátt í hamingjusömustu stundum okkar í lífinu.

Og að þessu sögðu þá ætlast ég til að dýralæknirinn og íslensk stjórnvöld kippi launum ljósmæðra í liðinn og það strax.

Þetta þjóðfélag er með svo undarlega forgangsröðun að ég næ ekki upp í nefið á mér.

Ég dáist að ykkur stelpur og held með ykkur alla leið.

Áfram, áfram

Lára Hanna var að klippa þetta myndband um kjarabaráttu stelpnanna.

.


mbl.is Eitt barn fæddist á LSH í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vondu skapi

Ein af múr- og naglfestum hefðum M.R. eru tolleringar á busum.

En svo koma hinir skólarnir á eftir og reyna að toppa hver annan í sniðugheitum oft án þess að nokkur skenki því þanka hvernig áhrif þetta hefur á unga fólkið sem er að byrja í skólanum.

Ég á tvær dætur sem gengu í M.H. 

Sú elsta kom heim ölli í slori og ógeði en henni hafði verið dýft ofan í fiskikar fullt af úrgangi.  Svo var hellt yfir hana hveiti eða lími minnir mig.  Djöfuls viðbjóður.

Sú yngri fékk viðlíka yfirhalningu þó ég muni ekki í augnablikinu nákvæmlega hvernig sú vígsla var en sú stutta var ekki par hrifin.

Hvað er að skólastjórum þessara skóla?

Af hverju stöðva þeir ekki þetta ofbeldi?

Þarf allt að vera svona hipp og kúl og frjálslegt að það megi þjösnast á nýnemum með líkamlegu eg/eða andlegu ofbeldi?

Svona fíflagangur er algjörlega úr takt á tímum sem eiga að teljast upplýstir.

Annars er ég í vondu skapi en það breytir ekki því að ég er algjörlega á móti busavígslum yfirhöfuð.  Líka þegar lífið brosir við mér.

Arg.


mbl.is Varað við busavígslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"En mamma það fá allir að fara"

Mörgum er alveg svakalega illa við reglurnar um útivistartíma.  Ég hef svo sem ekkert verið að pæla í þeim eftir að stelpurnar mínar komust til manns en stundum kastast ég til baka í tíma og þá sérstaklega á haustin þegar skólarnir byrja.

Ég var þarna einu sinni.  Ég er fegin að það eru til reglur um útivistartíma - sem viðmið fyrir foreldra sem eru að vandræðast með mörkin en fyrst og fremst tekur maður ábyrgð á sínum börnum sjálfur.

Ég held að ég hafi verið leiðinleg mamma að þessu leyti ég var glerhörð á útivistartímum.

Á veturna sá ég ekki tilganginn í að stelpurnar mínar væru úti eftir kvöldmat þegar þær voru í skóla, nema frumburðurinn í Hagaskóla og hún var frekar stillt og hegðun hennar kallaði ekki á sérstakar aðgerðir í þeim málum.

Stelpurnar mínar voru í fimleikum og eftir daginn voru þær svo þreyttar að þær borðuðu og tóku því svo rólega.

Ég var aldrei hrædd við "en mamma það fá allir að fara/gera" fyrirkomulagið.  Mér gat ekki staðið meira á sama.  Af fenginni reynslu þá veit ég að ekkert barn skaðast af ákveðnum ramma og reglum.  Sumt leyfir maður sér einfaldlega ekki að taka sénsa á.

Eins og unglingapartíum, ferðalögum í skíðaskála og svo framvegis.

Ónei, það var ekki í umræðunni.

Stelpurnar mínar voru ekki yfir sig hamingjusamar yfir að það var náð í þær í allar skólatengdar skemmtanir.

En þannig var það bara.  Ég er steinhörð á því enn í dag að þú tekur ekki sénsa með börnin þín.

Reyndar náði ein þeirra (engin nöfn) að detta í það 15 ára á skólaballi sem haldið var í Hinu Húsinu, þ.e. hún komst aldrei þangað var orðin drukkin áður en rútan lagði af stað og bílstjórinn skildi hana eftir í frosti og snjó svoleiðis á sig komna.

Maður getur nefnilega engum betur treyst en sjálfum sér fyrir börnunum.

Þetta var skelfileg upplifun og var ALDREI endurtekin.

En þetta útivistarfyrirkomulag er eilífur höfuðverkur á mörgum heimulum í byrjun skólaárs.

Æi hvað ég er fegin að ég er laus.

Úff, ég hef nefnilega mildast svo með árunum.  Byði ekki í það ef ég ætti að ala upp börn og unglinga í dag.

Sjitt.

 


mbl.is Breyttur útivistartími barna og unglinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það liggur einhver fjandinn í loftinu

Það hlýtur að vera eitthvað í loftinu þessa dagana, eða einhverjar tunglstöður sem gera það að verkum að allir eru að flippa algjörlega.

Eins og Matthías sem skellir trúnaðarsamtölunum sínum á netið.

Og Svavar sem segist ýmislegt hafa við skrif Matthíasar að athuga en segir ekki; ég var ekki í trúnaðarsambandi við aðal andstæðinga vinstri manna.  Ég var ekki að tala illa um samflokksmennina í mat niðri á Mogga.  Kommon, Svavar var á stalli hjá mér, ég fæ fyrir hjartað og missi trúna á mannkynninu.  Eða svona nærri því.  Ekkert getur hissað mig lengur eins og kerlingin sagði.

Og pólitíkin.  Þar eru hlutirnir þannig að ég er nærri því orðlaus og í mínu tilfelli jafnast það á við meiri háttar hamfarir.  Ég verð að geta talað.

Ólafur Eff farinn í Frjálslynda, ekki að það breyti neinu, þeir eru minnaenekkineittflokkur í borginni, en nú er hann farinn að hafa áhyggjur af fjármálum borgarinnar.  Hefði betur haft það fyrir skilnað. 

Og nú syngur hann eins og kanarífugl.  Hvert "leyndarmálið" á fætur öðru kemur í fjölmiðlum sem eiga að færa okkur heim sanninn um að íhaldið sé óferjandi og óalandi.  Sorrí, Óli, þetta heitir að hefna sín á íslensku.

Nú, Óskar Bergsson, smiðurinn mikli lætur eins og hann sé að bjarga Reykvíkingum með þessari "fórn" sem hann er að færa með því að redda meirihlutanum.  Takk kærlega Óskar, þú ert að gera þetta fyrir þig og aðeins þig og kannski þessar 10 hræður eða svo sem kusu Framsókn í síðustu kosningum.

Látið ykkur ekki detta í hug gott fólk að við kjósendur séum ekki fyrir löngu búnir að sjá í gegnum valdagræðgina og eiginhagsmunapotið.

Sú staðreynd að Marsibil er eins og hún er og að VG standa á sínu og haga sér í borginni gerir það að verkum að ég hendi mér ekki fyrir björg í dag.

En fyrirgefið þið meðan ég hendi mér í þak.

 


mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 2987159

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband