Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Smáa letrið

Ég skil ekki tryggingarfélög.  Er örugglega ekki ein um það, en það er sama.  Ég er ein af þeim sem nenni aldrei að lesa smáa letrið og er því þægilegur viðskiptavinur alls staðar þar sem gerðir eru samningar.

TM segir að skemmdirnar á bíl Sturlu séu ekki sitt mál.  Halló!  Bílinn stendur kyrr á löglegum stað og hann verður fyrir "óeirðum" og tryggingafélagið yppir bara öxlum.  Ísskápur springur bara eins og ekkert sé sjálfsagðara vestur í bæ og tryggingarnar borga það ekki heldur.

Þarf maður að kaupa ísskápasprengitryggingu?

Eða kjurrálöglegustæðiogbíllinnerskemmduróvartíóeirðumþannigtryggingu?

Þarf ég að liggja lárétt ef ég fæ bók í hausinn eða má ég vera standandi í báðar?

Verð ég að vera í kraftgallanum, með endurskinsmerki, lambhúshettu og eldingavara ef ég fæ loftstein í hausinn?

Ég held að ég fari og rýni í smáa letrið á tryggingarsamningnum.  Kannski þarf ég að kaupa mér óeirðatryggingu.

Helvítis óöryggi.

Gleðilegan mánudag addna.

Og Sturla var flottur á göngunni í dag.  Ætli maður verði ekki að fara að labba með manninum?

Einn fyrir alla - allir fyrir einn.

Nú brest ég á með söng.  Maístjarnan er vel við hæfi.


mbl.is Sturla: Ég berst fyrir ykkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og mammasín

20080416215110_5 

Ég lærði að lesa 5 ára og hann Óli frændi kenndi mér.  Hann fjárfesti í stafrófskveri og við tókum staf á dag.  Þann dag sem ég gat kveðið að fyrsta orðinu TÁ, varð ég yfirmáta hamingjusöm, enda man ég atvikið ennþá.  Ég elska þetta gamla kver og verð öll mössímössí innan í mér þegar ég tek það fram og skoða.  Gamli maðurinn átti eftir að kenna frumburðinum mínum að lesa líka, á samskonar kver, en Helga mín var rétt 4 ára gömul þegar hún fór að kveða að. 

Við Jenný Una erum að læra að lesa.  Þ.e. hún er að læra að lesa, ég er í heví upprifjun.Whistling

Það eru breyttir tímar og ég er að nota Stjörnubækurnar svokölluðu við heimakennsluna, en þær eru bæði skemmtilegar og hvetjandi.  Stjörnur og verðlaunapeningar í formi límmiða, fylgja með bókunum.  Bækurnar eru ætlaðar 3-5 ára börnum.

Í kvöld vorum við að skoða stóra A og litla a.  Jenný þekkir a, því það stendur fyrir amma.  Við ræddum heimspekilega saman um stóran og lítinn staf. 

Jenný: Akkurru er litla a ekki eins og mammasín?

Amman: Það er svolítið eins og mamman, en samt aðeins öðruvísi, eins og þú sem ert lík mömmu en samt aðeins öðruvísi.

Jenný: Aha, en litla a má ekki hlaupa burt frá mömmu sín og týnast, neei, það má alls ekki.

Amman: Alveg rétt Jenný mín.

Jenný: Því þá þarf löggan að koma og leita að litla a-inu.

Amman steinþagði og hugsaði með sér að löggan væri smá bissí í öðrum verkefnum þessa dagana.

Nú sefur nemandinn í litla rúminu sínu og á morgun förum með hana í íþróttaskólann í KR-heimilinu og þá á að veita verðlaun fyrir dugnað barnanna á íþróttabrautinni í vetur.

Farin í kollhnís.


Orð eru ódýr

Ég er fædd með vantrúarelement sem sýnir sig helst í því að ég treysti varlega yfirvöldum.  Að minnsta kosti set ég yfirleitt spurningarmerki við það sem þau framreiða í formi "sannleika" hverju sinni.  Það sama á við trúmál og fleiri þætti.

Vantrúar- og óhlýðnigenið spratt fram í eðli mínu þann dag sem ég byrjaði í Hagaskóla.  Síðan hef ég ekki verið söm.  Fram að þeim tíma var ég hlýðin eins og mús og hélt að fullorðið fólk væri á vegum Guðs við að gera heiminn betri.  Hvað um það, ég er alltaf að undra mig á afhverju það er engin bronsstytta af mér í andyri Hagaskóla.  Ég var svo eftirminnilegur nemandi.Whistling

Einu sinni var því haldið að fólki að fátæk börn og sennilega önnur börn líka, yrðu að fá lýsi til að lifa af.  Tveimur árum áður en ég kom í Meló var til siðs að hella úr lýsiskönnu ofan í blásaklaus börn.  Lýsið var volgt, kannski þránað og ég er með martraðir um hvernig ég hefði orðið á geði hefði ég lent í lýsispyntingunni miklu.  Ég var nefnilega svo hlýðið barn.

Nú trúi ég varlega öllum selvfölgeliheder sem t.d. stjórnvöld reiða fram í formi stórasannleika.

Ég veit að Doddson vill ekki Evrópusamband.  Ég held að sami DO sé að fríka út á valdaflippi í forljóta húsinu við Arnarhól.  Þess vegna trúi ég ekki orði af því sem frá þeirri frómu stofnun kemur, um efnahagsmál. 

Og ég trúi ekki Geir Haarde heldur,  og reyndar ekki kjafti frá íhaldinu þessa dagana og Samfylkingin er ekki að fá uppklöpp á kærleiksheimili mínu þessa heldur.

Ég trúi ekki að bændur geti ekki komist af án styrkja, frá mér, einkum og sér í lagi.

Ég trúi orðið ekki einum andskotans hræranlegum hlut þessa dagana.

Ég trúi á sjálfa mig og fólk sem lætur verkin tala.  Orð eru ódýr, upp að því marki að það er hægt að segja þau og láta síðan sem ekkert sé.

Þess vegna er moi ein af þessum 51,8% sem bera lítið sem ekkert traust til Seðlabankans.

Og hana nú og góðan daginn.


mbl.is Meirihluti ber lítið traust til Seðlabankanss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gleymdi að spyrja

Ég var stórundarlegt barn.  Ég áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en nýverið.

Vó, hvað ég var furðuleg.  Mínar stelpur spurðu mig út í eitt um alla skapaða hluti, frá því þeim tókst að mynda setningu, ef ekki fyrr, svei mér þá.  Ég hins vegar, var farin að lesa bækur í samlede verker, upp úr sex ára.  Skildi auðvitað ekki helminginn, en einhvern veginn þróaðist sú hugmynd með mér þarna á þessum árum, að allra svara væri að leita í bókum.  Ég trúi því örlítið ennþá.

Ég held að ég hafi bloggað um harm minn gagnvart stráfellingu náinna ættingja útvarpsþulanna sem fluttu dánartilkynningarnar.  Mennirnir sögðu: Elskuleg dóttir mín,  faðir okkar, móðir okkar, lést í gær sóandó.  Ég var miður mín og frústreruð yfir öllum þessum dauðsföllum sem sífellt áttu sér stað hjá starfsfólki útvarpsins, en vissi samt að það var eitthvað bogið við þetta.  Spurði ég?  Nei, ég fattaði einhverju ári eða seinna að þeir voru að lesa upp tilkynningar frá öðru fólki.

Ég hélt lengi vel að amma mín segði satt, þegar hún laug því að mér þessi elska, að börnin kæmu út um magann á konum, eftir að Guð hefði komið þeim fyrir þar.  Ég spurði í huganum af hverju Guð, sem var almáttugur samkvæmt ömmu minni, hefði verið að fara þennan óþarfa milliveg við að koma börnum í heiminn þegar hann hefði getað skellt þeim beint í vögguna?  Ég spurði ekki nánar út í þetta en komst að hinu sanna útí porti í Verkó, hvar óuppdregnir strákandskotar fræddu mig um eðli barnsfæðinga, pre- og post.

Annars var mamma mín mjög oft ófrísk.  Það var dáldið í tísku þá og bara krúttlegt.  Alltaf jafn gaman að fá ný systkini (sem 99% voru stelpur), til að krúttast með.  Enda bjó ég hjá ömmu minni og gat dregið mig í hlé þegar ég var ekki í stuði fyrir grislinga.

En mér er það minnisstætt að amma mín elskuleg, sagði jafnan við mömmu í ásökunartón; Anna Björg, hvað er að heyra, ertu nú ólétt einn ganginn enn, ætlarðu aldrei að hætta?

Ég er enn að velta þessu fyrir mér, sko með sök móður minnar í óléttunni.  Ætli það hafi verið mikið um meyfæðingar þegar ég var lítil?

Ég veit það ekki því ég gleymdi að spyrja.

Dem, dem, dem.


Eftir djúpan disk

 

Mér þykir gaman að sletta á blogginu.  Bloggið er talmál að mínu mati, og það má alveg fara frjálslega með texta.  Þess vegna er bara liff í því að nota alls kyns orðskrípi, afbakanir og útlenskur í bland.  Þetta geri ég óspart þegar þannig liggur á mér.

En...

hvaðan kemur þetta "heilt yfir" tal út um allt?  Notað í fullri alvöru meira að segja?  Í sjónvarpi, útvarpi og á bloggi.  "Svona heilt yfir"?  Þetta er svo snubbótt.  Eitthvað sænsk eða danskt heyrist mér.  Över det hela taget.  Hm.. er ekkert betra til?

Má ég þá heldur biðja um smá Bibbísku hérna.

Ég hef þekkt þær nokkrar í gegnum tíðina og þær eru yndi.

Ein kom aldrei á staðinn fyrr en eftir djúpan disk.

Önnur var með paník í loftinu og parker á gólfinu.

Sú þriðja gekk sig reglulega upp að eyrum og hún bað mig stundum að koma með sér í konvoj niður Laugaveginn.

Bara krúttlegt svona heilt yfirW00t

Hm....


Stick´em up

 

Þegar stelpurnar mínar voru litlar, þá fengu þær jafnt bíla og dúkkur.  Það var bara svoleiðis.

Þær fengu hins vegar aldrei morðtól til að leika sér að, þó ekki væri og ég sá ekki að "stelpudótið" hugnaðist þeim frekar en bílarnir og bílabrautirnar.  Verkfærakassann notuðu þær óspart, foreldrum sínum til mikillar hrellingar.

Og svo komu jól.  Við bjuggum í Svíþjóð.  Pakkaflóðið með póstunum var ótrúlegt.  Það sem sló í gegn það árið voru barnahljóðfæri frá Guslu systur minni, sem alltaf hefur haft sjúklegan húmor, svo ekki sé meira sagt.  Kvikindið á henni. (Love you honey).  Þar sem ég kunni ekki við að "ritskoða" jólagjafirnar, þá tók við tími hinna viðurstyggilegu hljóða.  Sara fékk lúður sem gaf frá sér ískrandi tóna, sem smugu í gegnum merg og bein.  Maysan fékk ámóta hljóðmengara og þær systur fundu á sér vanlíðan foreldrana og æstust í spileríinu sem aldrei fyrr.  Ég óskaði mér þess, nærri því, að hún hefði sent þeim hríðskotabyssu og skriðdreka.

Ég trúi því seintað börn séu með eðlislægan smekk á leikföngum og að sá smekkur inniberi löngun drengja til að leika sér að byssum og öðrum "dæmigerðum" strákaleikföngum.

Það er fullorðna fólkið sem gefur, með hegðun sinni og uppeldisaðferðum, tóninn í hlutverkamynduninni.  Á heimilinu og úti í þjóðfélaginu.

Dæmi; barn í vöggu. 

Strákur: Gússígússí litli maður, voða ertu stór, svo stór og sterkur.

Stelpa: Er hún ekki fallegust af öllum litla sæta stelpan, gússígússí.

Ég skal trúa þessu þegar rannsóknin er framin á alvörubörnum.

Þetta með apana er ekki marktækt.

Við erum fjandinn hafi það ekki apar.  Ekki enn að minnsta kosti.

Og farið svo að sofa í hausinn á ykkur.


mbl.is Vísbendingar um eðlislægan áhuga stráka á „strákaleikföngum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínistar athugið

 

Einu sinni ætlaði ég að sækja um í löggunni.  Það kom ekki til að góðu.  Viðhorf lögreglunnar til heimilisofbeldis og nauðgana urðu kveikjan að þessari bráðsnjöllu hugmynd minni.  Við vorum nokkrar sem ætluðum að vaða í lögregluna og þrífa þar út úr dyrum.  Það skyldi hrista upp í andskotans feðraveldinu.

Umsóknareyðublaðið var komið í hús og ég settist einbeitt og ákveðin niður með penna í hönd og var tilbúinn að láta blekið frussa.

Og ég fyllti í reitina fyrir nafn, kennitölu, lögheimili, hjúskaparstöðu, fyrri störf.

Svo fór að syrta í álinn.  Spurt var um skothæfni.  hlaupagetu, sundhraða og gott ef ekki hástökksstatus líka (man þetta ekki út í hörgul, því það er orðið langt síðan).

Ég varð hálf klessuleg þar sem ég sat með umsóknina.  Jú, ég gat synt, hlaupið gat ég þokkalega, en sá mig ekki fyrir mér á sprettinum í júníforminu.  Ég hata byssur, þannig að þarna dó áhuginn eiginlega alveg. 

Svo var spurt um hæð.  Jebb, hæð.  Ég með mína 162 cm. minnkaði umtalsvert.  Svo var ég í grennri kantinum, þannig að hver einasti aukvisi hefði getað kastað mér eins og bolta, beint í mark.

Ég gafst alla leiðina upp.  Það var þá sem ég áttaði mig á að líkamleg geta er það sem blívur hjá löggunni, ekki sú geta sem á heimili í höfuðkúpunni. Ég er nú reyndar að fíflast með þetta. 

Ég veit að nú eru breyttir tímar.  Það er flott að fólk skuli þurfa að sækja lögregluskólann og viðhorfin hjá þessum elskum gagnvart ofbeldisbrotum hafa eflaust breyst töluvert.

Hm.. ætti ég að sækja um?  Ég hleyp ekki mikið, syndi eins og fokkings selur og er sexý í svörtu.

Viljið þið rétta mér umsóknareyðublaðið um leið og þið farið út af síðunni.

Danke!

Femínistar á besta aldri, í guðanna bænum sækið þið um í löggunni, það er bráðnauðsynlegt.

Later jejejeje.


mbl.is Auglýst eftir lögreglumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prótótýpan af valdhroka..

..er Árni Mathiesen, fjármálaráðherra.

Ég hef aldrei náð þessum manni, finnst hann ekki eiga erindi í pólitík.  Maðurinn er einfaldlega alveg ferlega ósímpatískur.  Og ekki orð um það meir.

Valdhroki er landlæg veiki í íslenskri pólitík.  Sá sem slær allt út þessa dagana í téðum sjúkdómi, er samt dúllurassinn hann Árni.

Nú vogar hann sér að draga hlutleysi umboðsmanns Alþingis í efa, af því að honum hentar ekki hvernig umboðsmaður setur fram spurningar sínar varðandi veitingu embættis héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóms Austurlands.

Ég þekki ekki marga, né hef ég lesið margar víðtækar varnarræður til stuðnings þessari embættisveitingu nema auðvitað frá þeim sem fyrirsjáanlegt var að myndu verja hana.

Fólk vill einfaldlega fá svör.  Þetta mál lyktar illa en ég tek fram að ég hef enga skoðun á manninum sem var ráðinn, enda snýst þetta ekki um hans persónu heldur um embættisveitinguna sem slíka.

Andskoti sem mér finnst að fjármálaráðherrann ætti að snúa sér að öðru.

Og á meðan hann gerir það, má hann taka kúrs í lýðræðislegum vinnubrögðum og kannski temja sér virðingu fyrir umbjóðendum sínum.

We the m-f people.

Ójá.


mbl.is Ráðherra efast um hlutleysi umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefið á meðan ég æli

Sumir eru þessa dagana á kreppuvaktinni og lesa og fylgjast með öllu sem sagt er um hræðilegt efnahagsástand.  Fólk verður þunglynt og óöruggt.  Ég held að kreppan verði fyrst alvarleg þegar hún hefur náð að menga hugarfarið og hafa áhrif á andlega líðan fólks. 

Mér líður sem sagt ekki mjög kreppulega.

En..

..ég las þessa frétt um uppsagnir bankamanna og ég verð að játa að mér dauðbrá, þó ég telji mig nokkuð meðvitaða um jafnréttismál, svona yfirleitt.

Hjá Byr er hreinskilnin höfð að leiðarljósi og ekkert gert til að fela napran raunveruleikann, eins og sjá má hér:

"Herdís Pála Pálsdóttir, mannauðsstjóri hjá Byr, segir að 14 konur hafi hætt störfum frá áramótum. „Það voru gerðir starfslokasamningar við flestar þeirra, ýmist að frumkvæði bankans eða þeirra sjálfra. Þetta voru konur á öllum aldri.“ Herdís segir frekari starfslok ekki fyrirsjáanleg."

Allir sem vilja vita eru meðvitaðir um að þegar harðnar á dalnum og farið er að spara og endurskipuleggja, eru konurnar látnar fjúka fyrst.  Það er hins vegar óvenjulegt að sjá það svona svart á hvítu.  14 konur hættar frá áramótum en greinilega enginn karlmaður.

Gott fólk, þið sem haldið að jafnrétti sé náð, farið að þjófstarta heilabúinu og hugsa hlutina upp á nýtt.

Hvaða andskotans tilgerð er það að kalla þann sem rekur og ræður hjá fyrirtækjum "mannauðsstjóra"?

Ég æli.

Annars góð.

Later!

Súmí

 


mbl.is Bankamönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rebellar og skortur á frjórri hugsun

11

Hvað foreldrar geta beinlínis verið illa innrættir þegar kemur að nafngiftum á afkomendurna.  Sumir kannski, vita ekki betur, en að skíra/nefna börnin sín augljósum "stríðnisnöfnum", sjá hreinlega ekki fyrir sér að viðkomandi reifastrangi verði einhvertímann að gangandi manneskju með félagsþörf. og einstaklingsþarfir.

Auðvitað gerir fólk þetta ekki að gamni sínu.

Svo eru nöfnin í ættunum, verið að afbaka nöfn til að hægt sé að skíra í hausinn á hinum og þessum.

Svo eru það foreldrarnir sem koma með nöfn sem þykja skrýtin, en venjast svo fallega með tímanum.

Og ekki má gleyma foreldrunum sem ætla að láta barnið sitt verða einstakt meðal jafningja og fara illilega út fyrir væntanlegan þægindaramma barnsins, að því forspurðu.  Jesús minn.

Auðvitað væri best að leyfa börnunum sjálfum að velja á sig nafn, en það getur reynst erfitt þar sem viðkomandi korn hefur ekki áhuga út fyrir móðurbrjóstið.

Þegar ég var 10 ára eignaðist ég systur nr. 5.  Hún var skírð Hilma Ösp.  Þetta var á tíma Guðrúnar, Þorgerðar, Margrétar, Sigríðar og þeirra stelpnanna.  Ég hélt ég myndi deyja.  Einkum vegna Hilmunafnsins.  Mér fannst það svo skelfilegt.  Þetta var staðfest af móður vinkonu minnar, hennar Guðrúnar, sem sagði milli samanbitinna tanna; Hilma Ösp!! Ekki nema það þó!! Hvað er fólk að hugsa, sem treður svona ónöfnum á börnin sín?

Hilma Ösp er með fallegri nöfnum sem ég veit um, þó ég gæti ekki sagt það upphátt til að byrja með. 

 Annars voru foreldrar mínir rebellar í nafngiftum miðað við mikinn skort á frjórri hugsun, svona almennt, í nafngilftadeildinni hjá íbúum Reykjavíkurborgar þess tíma.

Fóru ekki alltaf troðnar slóðir þar.  En þau nöfn eru öll frábær og þá er ég ekki að grínast.

En að máli dagsins...

...að skíra barnið sitt Brooklyn vegna þess að það er nafn þess borgarhluta í New York, þar sem barnið var getið?

Halló!! Það er hægt að halda dagbók til að leggja getnaði á minnið, það þarf ekki að klína adressunni á saklaust barnið.

En hann breikaði í afmælinu sínu hann Brooklyn.

Voða gaman.

Jájá!

Á að ræða þetta eitthvað nánar?


mbl.is Brooklyn breikaði í eigin afmælisveislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband