Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Sjúklegur hugarheimur Kötlu Christiansen Lange

 feather

Einhvern tímann mun ég skrifa bók.  Er reyndar löngu byrjuð, en ég er í heilagri pásu.

En það eitt og sér skiptir ekki máli.

Bloggtuðararnir (þessar elskur) sem velta sér upp úr því hvernig best sé að ná í talningu á síðurnar sínar, minnast oft á að fyrirsagnir vegi þungt.

Það er nokkuð til í þessu, ég veit að þegar fyrirsagnirnar eru mergjaðar þá eykst lesningin.  En það er ekki það sem ég er að velta mér upp úr, heldur hitt að titill bókar hlýtur þá að skipta heilmiklu máli.

Titill þarf ekki endilega að vísa til innihalds.  Segjum að ég myndi skrifa bók um örlagasögu fjölskyldu.  Mergjað kvikindi.  Og þá kæmi höfuðverkurinn.  Hvað ætti bókin að heita?

Ég var með nafn á minni sögu.  Hún átti að heita Kerlingabók.  En svo stal bloggarinn í mér nafninu af sjálfri mér og ef ég klára einhvern tímann viðkomandi bók, þá verður hún að hafa nafn.  Krassandi nafn.  Titillinn mætti fela í sér loforð um geggjaða lesningu.

Hvað með:

"P.N.G." Persona non grata?  Töff nafn en alls ekki viðeigandi í þessu tilfelli.

"Klámsögur úr vesturbænum"?  Erfitt þar sem að klám myndi að líkindum ekki vera til staðar í bókinni, þannig að þar færu margir "karlar" (af báðum kynjum) fýluferð inn í sjúkan hugarheim höfundar.  Því í bókinni verða allir sífellt á bæn og dansandi engladansa ala Þórbergur, til að sarga úr sér bölvaða gredduna. Jeræt.  Svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að bókin myndi frekar gerast í Austurbænum.  Það er allt háheilagt vestur í bæ.  Veit það af eigin reynslu.

"Ævintýri og örlög íslenskra lyftukvenna með hægðartregðu" er mergjað nafn.  En það er engin innistæða fyrir titlinum þannig að ég get ekki notað hann.

Eru til lyftukonur?

Kannski ég setji bara viðeigandi titil sem vísar í efni bókarinnar.  Ég er að hugsa um að láta hana heita "Hinn sjúklegi hugarheimur Kötlu Christiansen Lange", því það er sennilega það sem kemur til með að vera þungamiðja bókarinnar.

Er þó að hugsa um að breyta nafni aðalhetjunnar í Etnu, ef ske kynni að Katla mín ætti sér margar nöfnur, það gæti komið illa við þær blessaðar, því trúið mér að Katla vinkonan er snarblússandi geggjuð, enda komin af hálfklikkaðri kellingu sem býr fyrir ofan snjólínu í Borg Óttans.

Og í guðanna bænum hættið þið nú að láta mig ljúga ykkur full.

Farin að ydda fjaðurpennann.

Bítmæleggælofitt!

 


Að "lesa" list

 Risessan+og+eurovision+buhhhuhuhu+050

Ég elska Listahátíð.  Einkum og sér í lagi eftir að hún var tekin út til fólksins.  Munið þið risessuna? 

Og nú er ég hugfanginn af húsinu í Tjörninni.  Fór þangað í gær til að skoða.

En svo kemur bömmerinn.

Af hverju er fólk að þýða listaverk?  Eins og núna í tilraunamaraþoninu.  Nakin kona á hesti.  Kvenleiki og karlmennska.  Só?  Af hverju má ég ekki "lesa" listina án þess að einhver þurfi að segja mér hvernig ég á að túlka það sem ég "les".  Mig langar að upplifa list hreint og ómengað, án forskrifta og útskýringa.

Sama með húsið í Tjörninni.  Annar höfundurinn túlkaði verkið og hvað það ætti að fyrirstilla.

Og mín upplifun var öðruvísi.  Ég upplifði engan óhugnað yfir hinu marrandi húsi.  Mér fannst svo frábær tilhugsunin um að maður gæti lifað hamingjusömu lífi, í litlu krúttlegu húsi, þrátt fyrir þessa smá annmarka, þ.e. að það væri hálft ofan í vatni.

Ég veit ekki einu sinni hvort ég túlkaði þetta svona.  Sýnin af húsinu gladdi mig einfaldlega.  Af því hún brýtur upp hefðbundið umhverfi svo dæmi sé tekið.

List er tilfinningaleg upplifun.  Ég vil fá að njóta hennar án útksýringa og án þess að það fylgi með henni "how to do" listi.  Svona eins og þegar maður kaupir sér nýjan síma og fær "manual" með til að átta sig á hvernig kvikindið virkar.

Munið það næst.

Farin að upplifa listina í trénu hér fyrir utan gluggann minn.

Úje


mbl.is Andstæður í Hafnarhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússnesk rúlletta í Borgaskóla

Ég næ ekki upp í nefið á mér af reiði eftir að hafa lesið viðtengda frétt.

Kennara í Borgaskóla var vikið úr starfi í byrjun mars.

En..

"Í bréfi sem Inga Þ. Halldórsdóttir, skólastjóri Borgaskóla, sendi i foreldrum barna við skólann segir að málið hafi fyrst komið á borð umsjónakennara 11. janúar síðastliðinn. Þá hafi verið rætt við kennarann og hann beðinn að breyta hegðun sinni.
„Tíminn sem líður frá því þegar fyrstu stúlkurnar sögðu umsjónarkennara sínum frá líðan sinni til þess tíma er annað mál kemur upp er of langur," segir í bréfi skólastjórans. Þann tíma hefði kennarinn fengið til að breyta hegðun sinni en réttum mánuði síðar hafi móðir stúlku í 10. bekk komið með dóttur sinni til fundar við umsjónarkennara vegna atviks í lok kennslustundar vikunni áður."

Nú veit ég ekki hvað þeir í Grafarvoginum eiga við þegar þeir tala um "óviðeigandi hegðun gagnvart stúlkum", svona nákvæmlega, en ég fer nokkuð nærri um það.

Og þá á að leysa málið með því að biðja kennarann um að breyta hegðun sinni.  Mál búið og afgreitt, en þar sem kennarinn hlýddi ekki yfirboðurum og hélt áfram uppteknum hætti þá fauk hann í byrjun mars.

Fyrirgefið en mér finnst þetta alvarlegt mál, þegar kennarar, prestar og aðrar starfsstéttir sem vinna með börnum og unglingum verða uppvísir af "óeðlilegri" hegðun gagnvar ungmennum.

Ég hefði ekki hætt fyrr en viðkomandi væri látinn fara, hefðu mínar dætur lent í svona manni.

Ég hefði aldrei sætt mig við að maðurinn yrði beðinn um að láta af og halda síðan áfram vinnunni með börnunum.

Ég veit fátt ógeðslegra en þegar fólki sem er treyst fyrir börnum og ungmennum, misnotar það traust.

Breyta hegðuninni hvern andskotann.

Að tala um rússneska rúllettu.

ARG

 


mbl.is Kennara vikið frá störfum í Borgaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Home alone" heilkennið

Það er alveg hægt að fara í "Home alone" fílinginn og hlægja að/með þessu fólki sem gleymdi barninu á flugvellinum.  En mér stekkur ekki bros.

Sumir grínast með manninn sem setti bílbeltið á bjórinn og lét barnið leika lausum hala í bílnum.  Mér stekkur ekki bros þar heldur.

Það varð allt vitlaust í kommentakerfinu hjá mér í fyrra þegar ég bloggaði um hversu óábyrgt mér þætti það vera, að foreldrar Maddýar sem hvarf í Portúgal hefðu skilið eftir svona ung börn án gæslu, þó þau hafi getað starað á dyrnar, sem reyndar eru áhöld um.  Ég hefði haft meiri áhyggjur af því sem gæti gerst á bak við dyrnar, t.d. af því að börnin vöknuðu upp og yrðu hrædd og enginn til að taka þau í fangið og knúsa þau og róa.

Maður einn sagði við mig að það væri alveg jafn eðlilegt að skilja börnin ein eftir með þessum hætti eins og þegar maður skildi börn eftir uppi á herbergjum á hóteli og færi niður að borða.  Halló, hver gerir það?  Ekki ég og enginn sem ég þekki.

Það er alveg ótrúlegt hvað fólk fer í mikla vörn þegar þessi mál eru rædd.

Ég vil að fólk taki ábyrgð á börnunum sínum.  Skilji þau ekki eftir hist og her eins og ódýrar handtöskur fullar af snýtuklútum sem enginn ásælist.

Ég er búin að horfa á þessa frétt og bjórfréttina á Mogganum bæði í dag og í gær og verða þræl pirruð í hvert skipti sem ég ber þær augum.

Ef fólk er að eiga börn, er til of mikils mælst að það gæti þeirra eftir bestu getu?  Við getum aldrei komið algjörlega í veg fyrir slys og annað slæmt en við getum amk. komið í veg fyrir ansi margt með því að vera stöðugt á verði.

Og hananú.


mbl.is Gleymdu barninu á flugvellinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætið er uppi á Skaga

laughingsun

Hvað getur maður sagt?

Maður getur hoppað hæð sína, með eða án herklæða.

Svo má segja að það sé eitthvað réttlæti eftir í heiminum og eitthvað að því liggi upp á Skaga.

Stundum gleðst ég yfir litlu.

En núna tók mannúðarstefnan heljarstökk á Akranesi.

Til hamingju nerðirnir ykkar.

Og að Reykjavík.

Ég á þá ósk heitasta að meirihlutinn í borginni haldi áfram með sitt samstarf.

Ef þeir hanga saman á kjöftunum eitthvað enn, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn verða minni eitt í Borg Óttans.

Það er komið sumar!

Úúúújeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee


Ómegðin á Akranesi

Magnús Þór Hafsteinsson þarf ekki að hafa áhyggjur af villta vinstrinu mér, eins og hann orðar það svo skemmtilega í kommentakerfinu hjá Gurrí, (sem fór af stað með beitta færslu varðandi flóttamennina frá Palestínu, þó mér sýnist hún þó eitthvað vera að draga í land), sem Akranesbær sér sér ekki fært að bjóða velkomna vegna eigin ómeðgar.  Ég á nefnilega ekki heima á Akranesi og get því hvort sem er ekki strækað á hann í kosningum. 

Magnús Þór telur að Akranes eigi fullt í fangi með að sinna sínu eigin fólki.  Það er greinilega allt vaðandi í vandamálum á Skaganum.  Palestínuvandinn er ekki á það bætandi.

Hvað er í gangi í höfðinu á fólki sem hefur ekki dug, mannúð og samkennd með konunum og börnunum frá Palestínu, sem hafa gengið í gegnum skelfilega hluti?  Hvernig er hægt að segja nei takk við beiðni um að bjóða þetta fólk velkomið?

Ég skil þetta ekki.  Mun aldrei skilja og ég held að samkennd með fólki og löngun til að standa í lappirnar og rétta hjálparhönd, sé illa séð hjá mörgum "ættjarðarvinunum".  Að það sé einhverskonar vinstri villa að vilja leggja lóð á vogarskálarnar og taka ábyrgð á bræðrum okkar og systrum.

Ég er ekki oft hrifin af Össuri þessa dagana, og lái mér það hver sem vill, en karlinn sá hefur hjartað á réttum stað og ég tek ofan fyrir honum fyrir þessa færslu sem ég bið ykkur um að lesa.  Þar get ég tekið undir hvert orð.

Ég skammast mín fyrir þjóðerni mitt á svona dögum.

Palestína, gott fólk, er nú um stundir helvíti á jörð.  Þar er ekki staður fyrir konur og börn. 

Fjandinn sjálfur.


mbl.is Flóttafólk verði boðið velkomið til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkinn á snúrunni

 93

Það er langt síðan ég hef snúrað.

Í dag (mánudag) eru 19 mánuðir síðan ég fór inn á Vog.  Hm.. tíminn flýgur og hann gerir það skemmtilega, svo skemmtilega að ég man það. 

Miðað við ástandið á mér þegar ég dröslaði sjálfri mér í meðferð þá er ég á toppi tilverunnar.  Þrátt fyrir flensur af ýmsum toga, sykursýki og aðra óáran sem ég fæst við, þá er það tertubiti og ég í fantaformi,þegar þetta tvennt er borið saman.

11 daga pillufallið mitt í janúar, ýtti ansi vel við mér, er mér óhætt að segja.

Ég er vör um mig, mátulega hrædd við möguleg föll til að fara varlega.

En 19 mánuðir er heill hellingur af dögum.  Allsgáðum og dýrmætum dögum.

Ég er svo skemmtilega heppin.

Lífið býður upp á möguleika.

Og núna þegar ég leggst til svefns veit ég að ég man hvað ég gerði og hugsaði áður en ég lokaði augunum.

Það er þó nokkurs virði.

Það er ansi fagurt útsýnið af snúrunni, ég blakti rólega.


Allir á hnén

Á hverjum sunnudegi, kvölds og morgna, að viðbættum helgidögum, glymja kirkjuklukkur um alla Reykjavík.  Ég bý við hliðina á einni og fæ klukkutónlist í eyrun, blásaklaus og algjörlega úr lögum við kirkjuna.  Ætti ég að fá mér lögfræðing, kæra til löggunnar, vera með kjaft og uppsteyt?

Nebb, sleppi því, heimurinn er ekki hannaður með sérþarfir mínar í huga.  Ég lifi því með klokkenspilinu, þrátt fyrir að þær byrji að klingja eldsnemma á morgnana. 

Ég sá og heyrði bænakallið sem er hljóðskúlptúr eftir Þórarinn Jónsson, myndlistarnema við LHÍ, í fréttunum í gær.  Krúttleg hugmynd.  Alvöru útkall í bænir hjá múslimum.  Mér fannst ögn skrýtið að heyra þetta í Reykvísku umhverfi, en verkinu er ætlað að varpa jákvæðu ljósi á múslímska trú.

Bænakallið hljómar fimm sinnum á sólarhring, eina mínútu í senn.  Það mun heyrast í viku.  Klukkan fimm í nótt vöknuðu einhverjir nágrannar og eru búnir að kvarta til lögreglunnar sem ætlar í málið. 

Ég segi róið ykkur og sýnið smá umburðarlyndi.  Rosaleg sérgæska er þetta í fólki að fara í símann og hringja í lögguna út af truflun sem er mínútulöng og tímabundin þar að auki.

Það má hugsa, liggjandi í rúminu, hálfsofandi: "Ok, svona hljómar bænakallið.  Ekki svo galið.  En mikið rosalega er huggulegt að vera bara trúlaus Íslendingur hér úti í ballarhafi og þurfa ekki að rífa sig upp til að henda sér á hnén núna um miðja nótt."  Og snúa sér svo á hina hliðina og sofna sætt og rótt.

Péess. Í staðinn fyrir trúlaus, má setja, heittrúaður, ofsatrúaður. smátrúaður, nærriþvíekkerttrúaður eftir þörfum.

Allah akbar.


mbl.is Kvartað til lögreglu yfir bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best í heimi hvað?

Frá og með morgundeginum verður einn sálfræðingur í starfi hjá Fangelsismálastofnun Ríkisins.  Þórarinn Hjaltason hættir og ekki hefur verið ráðið í starf hans.

Ég er hætt að botna í þessu andskotans fyrirkomulagi sem tröllríður þjóðfélaginu þessa dagana.  Ef eitthvað er ætti að fjölga sálfræðingum við fangelsin, auka þjónustuna við það fólk sem situr á bak við lás og slá.  Gefa fólki möguleika á að koma út sem betri einstaklingar. 

En þarna má eflaust spara.  Það er líka reynt að spara á hjúkrunarfræðingum á Lsp.  Það er farið í geitarhús að leita ullar.

Draumaþjóðfélagið mitt lítur aðeins öðruvísi út.  Það væri líka skemmtileg tilbreyting að sjá og heyra af heilbrigðisráðherra án þess að hann sé að flytja manni einhverja bömmera í tengslum við sparnað í heilbrigðiskerfinu, launadeilum og útboð á deildum.

Svei mér þá ef maðurinn er ekki "bad news". 

Ég er farin að fá fyrir hjartað í hvert skipti sem ég rekst á hann í fjölmiðlum. Alltaf verið að berjast við að draga saman það sem nú þegar stendur höllum fæti.

Það er aumingjalegt að hafa ekki efni á að reka almennilega heilbrigðisþjónustu og það er lágkúrulegt að reyna að hýrudraga það fólk sem heldur í okkur lífinu þegar við veikjumst.

Best í heimi hvað?

Nú eru hjúkrunarfræðingar að mestu leyti konur.

Hvernig yrði afgreiðslan ef læknar ættu í hlut.  Væru þeir á leiðinni út um miðnættið?

ARG


mbl.is Einn sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilífar asskotans málamiðlanir

Ég er að drepast úr leti en er samt búin að afreka það að fara og passa yngsta barnabarnið mitt smá stund á meðan mamman skrapp aðeins.

Við sátum úti í sólinni ég og dúllan hann Hrafn Óli.  Hann var með basebollhúfu öfuga á höfðinu, og amman urlaðist í krúttkasti.  Mynd seinna.

En um daginn skrifaði ég eitthvað um að maður ætti aldrei að segja aldrei, enda hef ég margoft þurft að éta ofan í mig, mínar eigin yfirlýsingar.

Ég er reyndar ekki enn farin til Ameríku, en það er ekki vegna þess að ég var einu sinni svo mikill kommi, að ég vildi ekki fara þangað, því enn er ég nokkurskonar kommi en vill gjarnan fara til NY og New Orleans.  Út af músíkinni sko.  Hólímólí.  Ég hef bara ekki efni á að skreppa.  Þverbrotin yfirlýsing, í huganum gerir mig seka um málamiðlun við sjálfa mig.  Frusssssssssss.

En ég er dedd á því enn að kjósa ekki íhaldið, bara svo ég komi því á framfæri einu sinni enn.  No way Hosé.

En þegar ég las visi.is áðan brá mér í brún.  Það eru fleiri en ég sem éta ofan í sig alls kyns heitstrengingar.

Kolla Bergþórs (titluð stjörnublaðamaður á visi.is) er á leiðinni yfir á Moggann með Ólafi Steph.  Hún sem ætlaði aldrei þangað.  Þetta sannar bara það sem ég er að halda fram, sí og æ, lífið er ein andskotans málamiðlun.  Nema hvað.

Mér finnst Kolbrún skemmtilega skrýtin, sérviskunnar kona og aldrei fyrirsjáanleg.  Aldrei hefði mér dottið í hug að hún myndi t.d. fíla  bókina um negrastrákana, en hún varði hana kjafti og klóm.  Ég fatta ekki það sjónarmið en ég ber virðingu fyrir kerlunni.

Mogginn má vera lala heppinn ef ekki bara mjög heppin með að fá Kollu yfir til sín.  Hún er tvímælalaust fengur fyrir blaðið.

En nú er ég farin að huga að útför flugunnar ógeðslegu, sem var drepin hérna áðan, þar sem hún lá ósjálfbjarga á stofugólfinu, af manni sem ég þekki frekar náiðWhistling.

Megi guð vera kvikindinu náðugur og ég vona að hún mæti mér ekki í einhverju karmadrama þegar ég er öll.

Síjúgúddpípúl.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.