Leita í fréttum mbl.is

Ég gleymdi að spyrja

Ég var stórundarlegt barn.  Ég áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en nýverið.

Vó, hvað ég var furðuleg.  Mínar stelpur spurðu mig út í eitt um alla skapaða hluti, frá því þeim tókst að mynda setningu, ef ekki fyrr, svei mér þá.  Ég hins vegar, var farin að lesa bækur í samlede verker, upp úr sex ára.  Skildi auðvitað ekki helminginn, en einhvern veginn þróaðist sú hugmynd með mér þarna á þessum árum, að allra svara væri að leita í bókum.  Ég trúi því örlítið ennþá.

Ég held að ég hafi bloggað um harm minn gagnvart stráfellingu náinna ættingja útvarpsþulanna sem fluttu dánartilkynningarnar.  Mennirnir sögðu: Elskuleg dóttir mín,  faðir okkar, móðir okkar, lést í gær sóandó.  Ég var miður mín og frústreruð yfir öllum þessum dauðsföllum sem sífellt áttu sér stað hjá starfsfólki útvarpsins, en vissi samt að það var eitthvað bogið við þetta.  Spurði ég?  Nei, ég fattaði einhverju ári eða seinna að þeir voru að lesa upp tilkynningar frá öðru fólki.

Ég hélt lengi vel að amma mín segði satt, þegar hún laug því að mér þessi elska, að börnin kæmu út um magann á konum, eftir að Guð hefði komið þeim fyrir þar.  Ég spurði í huganum af hverju Guð, sem var almáttugur samkvæmt ömmu minni, hefði verið að fara þennan óþarfa milliveg við að koma börnum í heiminn þegar hann hefði getað skellt þeim beint í vögguna?  Ég spurði ekki nánar út í þetta en komst að hinu sanna útí porti í Verkó, hvar óuppdregnir strákandskotar fræddu mig um eðli barnsfæðinga, pre- og post.

Annars var mamma mín mjög oft ófrísk.  Það var dáldið í tísku þá og bara krúttlegt.  Alltaf jafn gaman að fá ný systkini (sem 99% voru stelpur), til að krúttast með.  Enda bjó ég hjá ömmu minni og gat dregið mig í hlé þegar ég var ekki í stuði fyrir grislinga.

En mér er það minnisstætt að amma mín elskuleg, sagði jafnan við mömmu í ásökunartón; Anna Björg, hvað er að heyra, ertu nú ólétt einn ganginn enn, ætlarðu aldrei að hætta?

Ég er enn að velta þessu fyrir mér, sko með sök móður minnar í óléttunni.  Ætli það hafi verið mikið um meyfæðingar þegar ég var lítil?

Ég veit það ekki því ég gleymdi að spyrja.

Dem, dem, dem.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 18.4.2008 kl. 17:17

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

ég var svona líka.........

Hrönn Sigurðardóttir, 18.4.2008 kl. 17:53

3 Smámynd: Tiger

Veistu Jenný, ég held að ég hafi verið álíka óspurull í denn - las mikið og fékk oftar en ekki ákveðin svör úr því sem ég las. Sumt fékk ég þó ekki að vita fyrr en ég rakst á það sjálfur líkt og þú. Ég er enn ákaflega óforvitinn í raun, óspurull og lendi oft í rogastans þegar ég er spurður um eitthvað sem ég ætti að vita - en veit ekki því ég hafði ekki spurt um viðkomandi efni hjá þeim aðila sem málið snýst um. Er t.d. stundum ekki með nöfn á hreinu eða vinnu vinafólks - en oftast er ég ekki að spyrja að einu eða neinu - fólk bara segir mér frá ef það vill að ég viti - og það dugar mér mjög vel. Knús á þig Jenný mín og eigðu yndislega helgi!

Tiger, 18.4.2008 kl. 17:56

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Hahaha þú ert engu lík - ég held að þetta sé af því þú varst hjá ömmu Helgu og hvað hét hann nú aftur frændi þinn... þau voru allt annað að hugsa en kynslóð foreldra þinna!

Edda Agnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 18:01

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Það sem þér dettur í hug kona

Sigrún Jónsdóttir, 18.4.2008 kl. 18:02

6 identicon

Dreptu mig ekki kona..!!!!! hehe

Það sem ég hló.....

Ég held ég geti skrautskrifað undir það , að ÞAÐ var mikið um meyfæðingar á þessum tímum... stutt á milli og tómar stelpur...

Guði sé lof og dýrð fyrir að fólk hafði bara ekkert annað að gera eða hvað veit ég, ,eða þótti það bara afar gott... júnóvotæmín.

hey þú skrifar mikið núna og skemmtilega.. en kona góð! því sem þú veltir ekki fyrir þér manneskja...hehehehehe

góða helgi

Valdís (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 18:42

7 identicon

Ég spurði heldur ekki. Las bara bækur og stundum svo vondar bækur að ég hef ekki enn náð ranghugmyndunum úr mér.

En ég spurði ekki þótt ég skildi ekki. Í den var fólk alltaf að trúlofast, eða "opinbera". Mér fannst stórundarlegt að útvarpið væri alltaf að tilkynna um trúlofun einhvers Þráins. "Þráinn opinberar" glumdi í tilkynningunum. Ég var orðin rígroskin þegar ég áttaði mig á að í raun var sagt "frá hinu opinbera."

Sama með söngtexta: "ég trúi ekki á orðin þín, ef annað segja stjörnuspær" fannst mér mjöööög lógískt og alveg eðlilegt að stjörnuspá væri "spær" í fleirtölu. Ég var bara ekki nógu rómó sem krakki til að skilja að þetta voru "stjörnur tvær"

Arg, úje og í vegg, allt þér til heiðurs.

ragnhildur (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 18:45

8 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég ætlaði nú ekkert að ljúga þessum bjánaskap hérna að ofan upp á aðra Ragnhildi, var bara ekki innskráð og þess vegna kom þetta svona út.

Ég játa.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 18.4.2008 kl. 18:47

9 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahahah, snilldarfærsla. Ég gerði stundum tilraunir sjálf í stað þess að spyrja. Vissi t.d. að sjórinn býr til öldur af því að hann er saltur og gerði einmitt spennandi tilraun í baðvaskinum með vatni og salti. Uppskar vonbrigði ... það vantaði bara meira salt.

Guðríður Haraldsdóttir, 18.4.2008 kl. 18:59

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hahaha ég man líka mjög vel eftir mér, veltandi fyrir mér þessu með dánartilkynningarnar. Ég gat alls ekki skilið hvernig einhver gat verið bæði móðir, faðir, frænka, dóttir og barnabarn einnar og sömu manneskjunnar.

Ragnhildur er líka að drepa mig hérna. Þráinn hvað...

Jóna Á. Gísladóttir, 18.4.2008 kl. 19:12

11 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

hann Ari er lítill... :D

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 19:20

12 Smámynd: M

Þetta er bara yndislegt

M, 18.4.2008 kl. 19:33

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Snilld ertu kona, takk fyrir þennan frábæra pistil   Walking Into The Wall  í vegg strax. Góða helgi elskan mín.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.4.2008 kl. 20:22

14 identicon

dem dem dem kona, hvað þú ert fyndin  - manni liggur við köfnun. Þetta með dánartilkynningarnar toppaði allt

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 20:27

15 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Bara snild hehee

Anna Margrét Bragadóttir, 18.4.2008 kl. 20:31

16 Smámynd: Ragnheiður

Æj ég dey úr hlátri og ekki skemmir Ragnhildur gleðina. Gætið þið tvær gefið út bók, hún gæti heitir axaesköft eðlilegra kvenna ?

Ragnheiður , 18.4.2008 kl. 20:35

17 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Já, ég veit ekki hver ykkar er best, pislahöfundurinn eða athugasemdirnar hér við. Ég er allavega búin að hlæja mig máttlausa yfir ykkur öllum.

Ég man vel eftir dánartilkynningunum, þær eru enn í gangi, fyrir mér var þetta bara þægilegt "heimilishljóð" úr viðtækinu, en önnur eldri systir mín velti þessu mikið fyrir sér. Og hún kallaði reglulega til mömmu: "Mamma, það á að JARÐSTINGA Gunnu á morgun". Hún heyrði sem sagt aldrei muninn á því að vera "jarðsunginn" eða "jarðstunginn" og fannst hið síðarnefnda miklu meira logiskt.

Lilja G. Bolladóttir, 18.4.2008 kl. 20:57

18 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þakka þér yndislega Jenný.  Hér er ég búin að þegja þunnu hljóði í hálfan m,annsaldur yfir argintætu þulunum, sem voru "margfeðra og fjölmæðra", og áttu heilana helvítis helling af systkinum, og öll voru steindauð upp á hverja einustu "dánartilkynningastund", dag eftir dag, þá ég var barn.  Botnaði ekki baun í þessu "ættfræðilega séð"...en skildi sosum ekkert í "konunni hans Kains" í Biblíunni heldur (hvaðan í fjandanum kom hún, ef Adam og Eva voru fyrstu menn jarðar???), svo ég þorði ekki að hafa orð á þessu, svo ég þagði, svo heimska mín yrði ekki uppvís.

  En nú veit ég að ég var ekki ein með svona furðulegar "ranghugmyndir"...þvílikur léttir!  Hmmmm... ætti kannski að spyrja dóttur mína (7 ára) hvað hún heldur um dánartilkynningarnar......

Sigríður Sigurðardóttir, 18.4.2008 kl. 21:36

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þráin (ég) opinberar: Arg, ég er að pissa á mig hérna, úr vitleysunni í okkur.  Annars finnst mér hugmyndir hennar Röggu góð meða að við Ragnhildur (og fl.) gæfum út bók "Axarsköft eðlilegra kvenna". Fram að dags dato hef ég aldrei verið kölluð eðlileg, en einu sinni verður allt fyrst. 

Valdís, sem hér skrifar fyrir ofan, söng SJÓHANSKI, SJÓHANSKI (draumur hins dáða manns) fram til 18 ára aldurs. Er það nema von að kona sé ánægð með þessa vitleysinga sem hún þekkir.

Og ég sem ætlaði að fara að horfa á sorglega mynd.

Og ég á mikið fleiri vitleysur sem ég á eftir að draga upp úr pokahorninu.

Bíðið þið bara og ég elska ykkur allar.

Þjáumst ekki í þögn. ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.4.2008 kl. 21:45

20 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ekki spurði ég mikið heima enda held ég að það hefði verið fátt um svör. Amma mín var sú eina sem ég gat leitað til með spurningar en hún svaraði alltaf í líkingamáli svo stundum var ég engu nær og opnaði bara Guðrúnu frá Lundi. 

 Snilld Jenný!!! Góða helgi vinkona og njóttu sem best.

Ía Jóhannsdóttir, 18.4.2008 kl. 21:54

21 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Takk fyrir mig og góða helgi elsku Jenný mín

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:05

22 Smámynd: Huld S. Ringsted

þú ert frábær! ég vildi óska þess að ég myndi svona hluti

Huld S. Ringsted, 18.4.2008 kl. 23:24

23 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Stelpur... mig langar að skjóta hérna inn punkti sem mér hefur iðulega dottið í hug undanfarin ár.

Hugsið ykkur - við eigum allar sömu minningarnar um sömu útvarpsrásina. Dánarfregnir og jarðafarir, óskalög sjómanna eða sjúklinga, lög unga fólksins, Laugardagskvöld með Svavari Gests, útvarpssögurnar, lestur úr nýjum bókum yfir piparkökubakstrinum fyrir jólin - munið þið rödd Andrésar Björnssonar...?

Ég gæti sjálfsagt talið upp margt, margt fleira sem við myndum allar muna eftir.

Þetta mun unga fólkið í dag ekki geta þegar á líður ævi vegna þess hve útvarpsstöðvarnar eru margar og misjafnt hvað hver hlustar á.

Þessar minningar okkar af útvarpinu, sem lék svo stórt hlutverk í lífi allra fjölskyldna á sínum tíma, tengir okkur allar (öll) saman á svo sérstakan hátt. Ég efast um að fólk á okkar aldri frá nokkru öðru landi eigi sameiginlegar minningar sem þessar eins og við eigum.

Svo kom sjónvarpið... förum ekki út í það að sinni.

Takk fyrir skemmtilegan pistil, Jenný - og athugasemdirnar eru sko ekki síðri!

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:59

24 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þú ert snillingur Jenný, og Ragnhildur líka algjörir snillingar. Dásamlegt.- Ég man bara hvað ég roðnaði þegar þulan tilkynnti landsmönnum:  Ég er brjóstahöld - Ég er undirföt  -  þetta var mjög dónó, konan hlaut að vera klikkuð! - Þulugreyið var að lesa - JEGER brjóstahöld og JEGER undirföt.-  Eins man ég líka eftir því þegar Jóhannes Arason las-  Foreldrahakk - Foreldrahakkið vinsæla, Foreldrahakkið vinsæla, er nú  komið aftur Kjötbúrið.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.4.2008 kl. 00:12

25 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Ég hafði sko fyrir því að spyrja út í allt (kölluð tungufoss fyrir vikið) og viti menn það var logið að mér, og ég sem var einstaklega auðtrúa og er jafnvel enn!!

Ég grínast oft með það að ég hafi verið svona 18 ára þegar ég hætti að reyna að ná tönnonum út úr munninum á mér eins og langa amma og amma gera, því þær lugu því að mér að ég þyrfti bara að æfa mig!!

Ég hef tekið þá ákvörðun að treysta á bækurnar!!

Ylfa Lind Gylfadóttir, 19.4.2008 kl. 01:04

26 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Las hin svörin eftir að ég skrifaði mitt svar, þar minnist ein á það að unga fólkið eigi ekki næginlegar minningar af útvarpinu, ég sjálf átti við þessa ráðgátu að stríða með ættingja þessa grey konu sem missti endalaust alltaf alla í kringum sig, og fæ alltaf jafn góða tilfinningu þegar klukkan á gufunni slær í kvöldmatinn!!

Og ég er bara 23 ára

Kanski bara afleiðing af því að vera alin upp á Raufarhöfn, veit það ekki

Ylfa Lind Gylfadóttir, 19.4.2008 kl. 01:07

27 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það var ég sem sagði þetta, Ylfa Lind... og það gleður mig að heyra að þú hafir verið alin upp með gömlu Gufuna í eyrunum því það er málið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.4.2008 kl. 01:12

28 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ylfa Lind: Frábær.

LG: Þú ert jafn snar og ég.  Me like.

Lára Hanna: Takk fyrir þetta.  Það er rétt að við deilum allar einstakri reynslu.  Guð hvað mig langar að geta skroppið til baka, hlustað á Jóhannes Arason í útvarpinu (eða þingfréttir munið þið?) og bara tekið inn bernskustemminguna.

Takk öll fyrir frábær innlegg.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.4.2008 kl. 01:13

29 identicon

Mér þótti Saðri alveg hræðilegt nafn! Og varð afar fegin þegar mér var gert ljóst að faðir Jóhannesar hét Ari, því hitt hefði verið svo leiðinlegt fyrir hann. Jóhannes var bara svona hraðmæltur þegarhann kynnti sig.

Munið þið eftir þegar maður var að klæða sig í morgunhúminu undir Lundúnafréttunum? Og hvernig Valdimar skipaði öllum að vinda bolinn?

Sunnudagsmorgnar voru notaðir fyrir heilabrot, því þá var ekki verið að flýta sér og hægt að lúra fram eftir.

Ég var sérstök áhugamanneskja um hverslags örmerkingar prestar notuðu við hjónavígslur svo hjónunum fæddust börn. Því þó svo að ég væri sjálf ,,lausaleiksbarn´´,og vissi í stórum dráttum hvernig börn kæmu undir, var afneitunin alger á mínum bæ og mér tókst að horfa blákalt framhjá eigin tilurð þegar ég velti þessu fyrir mér...

Linda María (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 2985777

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.