Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Andskotans veðurfræðingarnir og lítil bók

Ja hver röndóttur, hugsaði ég áðan þegar ég las þessa frétt um að stormi sé spáð annað kvöld.

Geta nú ekki andskotans veðurfræðingarnir verið starfi sínu vaxnir og haldið þessu jólakortaástandi í veðrinu fram á annan í jólum svona upp á stemminguna, hugsaði ég jafnframt og sparkaði í sófaborðið.

Síðan tvinnaði ég saman nokkrum velvöldum formælingum og sendi út í andrúmsloftið.

Eins og allir vita þá eru það veðurfræðingarnir sem eru ábyrgir fyrir veðrinu og mér finnst þeir ekki standa sig þessa dagana.

En hver er ábyrgur fyrir kveikjaravandamálinu sem ég og fleiri stríðum við?

Ég veit ekki með ykkur en ég er stöðugt í vandræðum með kveikjara.  Þeir týnast eða þeim er stolið.

Nú eða þá að þeir virka ekki á örlagastundu.

Rosalega hlýtur einhver að hafa hagnast á að finna upp einnota (og það í orðsins örgustu)kveikjara.

Alveg eins og sá sem fann upp sogrörið og regnhlífarnar í drykkina.

Allt millar.

-----------------------------------------------------------

En að öðru.

Nýlega barst mér lítil bók sem heitir "Nær en blærinn".

Á bókarkápu stendur m.a.

"Það er von höfundarins að bókin geti að einhverju leyti hjálpað þeim sem eiga um sárt að binda hvort sem viðkomandi býr við skert lífsgæði vegna veikinda eða heilkennis eða er aðstandandi.  Margir takast á við hvort tveggja.  Bókin er einnig skrifuð í þeirri von að hún verði fólki hvatning til að eygja ljósglætu þegar myrkrið hellist tímabundið yfir, það haldi í vonina og ljósið, jafnvel þó leitin og leiðin að sátt við aðstæður sínar geti verið löng og ströng".

Ég tel að þessi bók höfði jafnt til fíkla og aðstandenda.  Það er von í bókinni. 

Nánari upplýsingar má fá með að fara inn á  www.seselia.com

Fín handbók að grípa til þegar syrtir í álin börnin góð.

Svo er að drífa sig í bókabúðina.

Farin að búa til rjómaís.

Falalalalala

 


mbl.is Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með jólaljós í hárinu

 christmas-lights-2

Ég skrapp niður á Laugaveg áðan til að kaupa eina jólagjöf og það var frábær stemming þessa stuttu stund sem ég stoppaði þar.

Það var kannski vegna þess að ég var þar, ég er ein risastór stemmingsbredda þegar hér er komið sögu og ég var með blikkandi jólaseríu í hárinu.

Ekki lítið augnayndi.

Ég var í kaffiboði heima hjá frumburði í dag og þar á meðal góðra gesta var Jenný Una að taka upp einn jólapakka frá Heggufrænkusín og Jöklafrændasín af því þetta var kveðjuveisla fyrir fjölskylduna hennar, þau eru að fara til Svíþjóðar að halda jólin.

Ástæða þessa kjaftavaðals í mér sko er tilkominn vegna þess að þegar ég horfði á barnið reyna að slíta sig í gegnum pakkninguna á leikfanginu og sá að það var ekki vinnandi vegur að það tækist hjá henni á þessum jólum, fór ég að hugsa um hvaða illgjarni nörd það var sem hannaði leikfangapakkningarnar sem notaðar eru í nútímanum.

Hafið þið lent í að taka upp svona fígúrur eins og t.d. leikfangabíla svo ég tali ekki um svona guðsvolaðar Barbie dúkkur með milljón litlum fylgihlutum?

Ekki?

Látið þá eiga sig að kynnast þeirri ömurlegu lífsreynslu.

Maður þarf að græja sig upp af alvöru verkfærum þegar tekin eru upp leikföng.

Fyrst ber að nefna hið bráðnauðsynlega hnúajárn.  Til að berja í gegnum þykkasta plastið.  Það gengur stundum.

Ef ekki þá þarf að hafa duggulítinn steinskeril (ekki heyrt það orð nei) og þeir fást í Ellingsen.  Þessir skerlar eru notaðir til að þrælast í gegnum tjöruborinn þakpappa og sníða til asfaltkanta og ég ráðlegg að varlega sé farið með þetta verkfæri og enginn nálægur í herbergi.

Svo þarf svona skæri eins og bændur nota til að klippa kindurnar sínar (Smile) til að freista þess að losa endalausar vefjur af nælonþræði sem er vafinn utan um hvern lítinn hlut (Barbie skór hefur tvær vefjur, eina á hæl og eina á tá).

Ef dúkka, bíll, smáfígúrur og annað slíkt hefur losnað án blóðsúthellinga og leikfang komist óskemmt úr pakkanum, má kalla á gjafaþegann sem gleðst örugglega þ.e. ef hann er ekki löngu sofnaður, vaxinn upp úr leikfanginu eða hreinlega fluttur að heiman og farinn til náms í útlöndum.

Hver er þessi manneskja sem hannaði pakkningarnar?

Ætli það sé sama fíflið og hannaði uppþvottavélar og ofna niður við gólf?

Eitthver álka sem veit ekki að það er vont að vinna niður fyrir sig og að smábörn ganga með innréttingum og geta brent sig á ofnum og slíku.

Alveg er ég viss um að þessir brjáluðu hönnuðir eru karlmenn.  Engin kona gerir svona.Halo

Rosalega væri ég til í að hitta svona fólk í fjöru.

Þetta er nú meiri andskotans verkunin.

En..

Annars bara góð


mbl.is Jólainnkaupin í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbamein

Hvað er að mínum ástkæra Mogga?

Skelfing er það sjoppulegt að fara að ræða um sjúkdóm bankastýru Nýja Glitnis í sambandi við hlutabréfakaupin sem týndust.

Birna segist forðast að tengja veikindi sín þeirri handvömm sem varð við frágang hlutabréfakaupanna en það er akkúrat það sem hún gerir með því að láta taka við sig viðtal um málið þar sem hún tengir þetta tvennt svo saman.

Krabbamein er sá sjúkdómur sem fólk er hræddast við.

Við ráðumst ekki að veiku fólki, við sýnum því tillitsemi.

Ég óska Birnu til hamingju með að hafa sigrast á sínum sjúkdómi.

En bæði Mogginn og Birna hefðu átt að sleppa þessu samstarfsverkefni.

Þetta er svo rosalega gegnsætt.

Later.


mbl.is Stríddi við krabbamein frá sumri að aðalfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa prí og póst með nettu lyfjaívafi

 rkál

Ég er heppin.  Hætt að bryðja svefnlyf og róandi og skola niður með rauðvíni. 

Allir þessir þrír kostnaðarliðir í heimilishaldi mínu um stíft þriggja ára skeið eru þar með núllaðir út og ég bara brosi á eigin safa.

Stinningarlyfin lækka, þá geta allir verið ríðandi í kreppunni.  Unaðslegt enda stendur einhversstaðar að kynlíf sé dóp fátæka mannsins, eða voru það trúarbrögð?  Skítt sama.

En að kreppunni prí og póst.

Í sumar á meðan ég fíflið hélt að allt léki í lyndi hegðaði ég mér eins og útbrunnin söngdíva á megrunartöflum í grænmetisdeild stórmarkaðs nokkurs hér í Borg Skelfingarinnar.

Ég fór á límingunum við saklausan starfsmann í grænum slopp yfir þeirri ósvinnu að ferskt rósakál væri ekki flutt inn til landsins nema á jólunum.

Ég átti ekki orð; Hvers lags þriðja heims grænmetisland er þessi eyja, veinaði ég nánast stjörf af hneykslan.

Grænisloppur var miður sín fyrir mína hönd og klappaði mér föðurlega á öxlina og muldraði; Ég veit það, það er skömm aðessu.

En í eftirleik hruns þegar ekki stendur steinn yfir steini er fólk að velta fyrir sér hvort kaupa eigi grænar eða blandað.

Eða eitthvað í þá veruna.

Allt breytt.

Jájá. 


mbl.is Svefnlyf hækka í verði – stinningarlyf lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofmetin lífsreynsla

Í desember á hver dagur að vera skemmtilegur, fullur af tilhlökkun, mildur og dimmur.

Desember á að flela í sér epla og negullykt með dassi af appelsínuilmi og helst á fólk bara að bíða eftir jólunum og drekka heitt súkkulaði með rjóma.  Það á að horfast í augu, knúsa börnin sín og pakka inn jólagjöfum.

Líka í kreppu.

En það er ekki svoleiðis.  Í dag er ég að drepast úr kulda og ef mér er kalt þá er ekkert gaman að neinu.

Svo er ég algjörlega utan við mig.

Ég vaknaði svona í morgun.  Var stórt spurningarmerki í framan, alveg: Hver er tilgangur lífsins? Af hverju er veður?  Af hverju þurfum við að borða?  Eru óhefðbundnar lækningar það sem koma skal?  Hver fann upp drykkjarrörið?  Er hann ríkur?  Af hverju er utanborðsmótor kallaður utanborðs? Hvað er fídusinn með því að hafa hann hangandi yfir borðstokkinn? 

Ég hreinilega þoli ekki hvað ég þarf alltaf að hugsa djúpar hugsanir þegar ég reika um nývöknuð.

Svo á hún Helga mín afmæli og það er jólaskemmtun á Laufásborg hjá Jenný Unu á eftir sem ég ætla að sækja.

Ætli ég sé veik?

Ég sat hér áðan og var að sýsla inni á heimabankanum.  Hélt á öryggislyklinum og svona.

Stóð upp og var á leiðinni út að reykja.

Setti öryggislykil í þar til gert box og steðjaði með kveikjarann út í kuldann til að draga nikótínið ofan í lungu og fremja hægfara sjálfsmorð í desemberkuldanum njótandi þess út í ystu æsar í minni forherðingu.

Ég reyndi að kveikja í helvítis sígarettunni marg oft og það var liðinn dágóður tími, amk. nokkrar langar sekúndur þegar ég fattaði að öryggislykilinn er ekki kveikjari í dulargervi.

Þegar ég steðjaði inn til að skipta á lykli og kveikjara datt ég um útidyraþröskuldinn og flaug glæsilega inn eftir ganginum.

Hafið þið farið í sleik við parkett? 

Ekki?

Það er ofmetin lífsreynsla.

Hmrpfmmfprfm


Í langvarandi friggings blakkáti

 lýðræðið

Þegar ég var í rauðvíninu og svefnpillunum (ásamt róandi ofkors) var ég í langvarandi stöðugu blakkáti.

Þetta tók á sig öflugar birtingarmyndir.

Þegar af mér rann hafði fólk skilið, fyrirtæki farið á hausinn, loftslag jarðar tekið verulegum breytingum og alls kyns hlutir gerst í pólitík sem eiga eftir að verða skráðir á spjöld sögunnar.

Ég alveg: Vááá, er hægt að borga með svona plastmiða í búðum?  Æi þið vitið hvað ég meina, tilfinningin var alveg þannig sko.  Þyrnirósa vöknuð í áfalli yfir breyttum tímum.

Allt var nýtt fyrir mér sem hafði verið meira og minna vímuð í þetta 2-3 ár með einhverjum hvíldum og við þessu gengst ég fúslega, enda með minnisbetra fólki í dag og bláedrú á eigin safa.

En ráðamenn muna ekkert.  Þeir eru í stöðugu óminni og mér finnst ég alveg vera að kallast á við alkann í mér þegar ég les fréttir þessa dagana.

Ég man ekki eftir þessu símtali, segir Geir.

Ég man ekki eftir neinum fundi á þessum tíma, segir ISG.

Hinir alveg: Ha, sagði hann það?  Hvenær?

Allir alveg komandi af fjöllum eins og jólasveinar.

Sko, ég var í óminni af kemískum ástæðum.  Heilinn á mér var í stöðugri maríneringu og eftirtektin og minnið voru eftir því.

Nú veit ég að ráðamenn eru bláedrú og ekki að nota lyf í óhófi enda ekki reikandi um með vímusvip sem þekkist í fleiri kílómetra fjarlægð. 

Trúið mér, vanir menn vönduð vinna hérna.  Er sérfræðingur í greininni.

Hvaða andskotans afsökun hefur þetta fólk fyrir sínu stöðuga blakkáti?

Mér er bara fjandans spurn.

Hikk.

P.s. Tók þessa mynd af einhverjum bloggvini.  Vona að mér verði fyrirgefið en þarna hefur einhver hitt naglan gjörsamlega á höfuðið.


mbl.is Man ekki eftir símtali við Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að hafa skoðun?

Ég sá þessa frétt í gærkvöldi og varð satt best að segja steinhissa.

Ég, í barnaskap mínum og einfeldni hef alltaf tengt víðsýni og menntun saman.  Fundist eitt fylgja öðru, a.m.k. svona oftast.

En þarna fer hópur forpokaðra lögfræðinema í HR sem hefur myndað hóp til að fá ræðu Katrínar Oddsdóttur laganema frá síðasta Austurvallafundi, fjarlægða af heimasíðu skólans.

Þessi ræða Katrínar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og séu langt frá því að vera í nokkru samræmi við það sem kennt sé  við skólann. Þar komist hún m.a. að þeirri niðurstöðu að valdarán sé ekki brot á lögum.

Er bannað að hafa skoðun í frítíma og halda henni fram?

Er ekki málfrelsi við HR?

Ættu þessir verðandi lögfræðingar ekki að kynna sér stjórnarskrárvarin réttindi hverrar manneskju að fá að segja skoðun sína?

Ég er svo sannarlega ekki sammála öllu því sem Katrín sagði en ræðan hennar var helvíti góð.

Jésús minn hvað fólk getur tekið sjálft sig alvarlega.

Það ætti að banna það ef eitthvað er. 


mbl.is Óánægð með ræðu á heimasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellini hvern andskotann

Birna Glitnis er að vinna hjá báðum bönkunum.  Þiggur laun frá þeim nýja en tryggð hennar er við sína gömlu vinnuveitendur.

Gætum við fengið bankastjóra sem veit fyrir hvern hann er að vinna?

Leitaðu að "litlaglitnismanninum" og komdu á hann böndum.  Það er auðvitað akútmál í stöðunni.

Annars var ég að velta fyrir mér þessu með að verða fyrir áföllum.

Ég hef lent í nokkrum, sumum stórum, um ævina.  Það er ekki góð reynsla og það vita allir sem reynt hafa.

En eftir áfallið kemur doðinn, vantrúin, maður gengur um í einhverskonar lofttæmingu og líður eins og í draumi nú eða martröð.

Á einhverjum tímapunkti eftir áfallið hefst úrvinnslan og um leið heilunin.

Manneskjunni er ekki eiginlegt að ganga um í krísu, varnarmekanisminn fer í gang við reynum að gera okkur heilbrigð að nýju.

Þess vegna hef ég verið að velta fyrir mér einu og það ekki að ástæðulausu, hvernig við fólkið á Íslandi þolum þessi stöðugu áföll.  Hvernig klárum við okkur út úr einhverju sem engan enda virðist ætla að taka?

Engin úrvinnsla getur hafist á meðan áföllin dúndrast yfir mann á hverjum degi og ég veit eins og flestir aðrir að þetta er aðeins byrjunin.

Ég held að þetta endi með ósköpum ef fram fer sem horfir.

Þess vegna bið ég ykkur andskotans kverúlantarnir ykkar, hverjir sem þið eruð að segja sannleikann, segja af ykkur þar sem það á við, hætta í feluleik og fela alþjóðasamfélaginu að hreinsa upp skítinn eftir sukkárin og setja sannleikann á borðið.

Svo við almenningur förum ekki í grafgötur með hvað gerðist og hvers vegna.

Ég persónulega þoli ekki miklu meir.

En ég læt mig auðvitað hafa það af því annað virðist ekki vera í boði.

Og hápunktur þessa súrrealíska raunveruleika er að við eigum að borga brúsann líka.

Fellini hvern andskotann?


mbl.is Segja fullyrðingar ekki eiga við Glitni sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það grundvallaratriði svo Alþingi fái viðhaldið virðingu sinni að rannsóknarnefndin sem rannsaka á bankahrunið taki til starfa sem fyrst.

Hvaða virðingu?


Breitt bak í vesen og tjón

Kannski er ég haldin ofsóknaræði en þegar ég hlusta á Birgi Ármannsson, forsætisráðherra, Seðlabankastjóra og alla hina kallana, þá fæ ég á tilfinninguna að þeir tilheyri einhverskonar leynireglu sem skiptir þá miklu máli,  meira máli en hagsmunir almennings.

Það er eins og hjörtu þessara manna slái í takt. 

Þeir tala eins, þeir standa saman í gegnum þykkt og þunnt.

Ok, ég tek því þá ef ég er að kafna úr samsæriskenningafári, ég hef breitt bak í vesen og tjón.

Birgir vill ekki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að frysta eigur þeirra manna sem eiga þátt í falli bankanna.

Hann talar um að það sé ekki stemming fyrir neyðarlögum einkum og sér í lagi þar sem hryðjuverkalögum hafi verið beitt á Íslenska þjóð.

Halló, er það sambærilegt?

Fyrirgefið á meðan ég bregð mér aðeins frá til að veina hástöfum.

Komin aftur.

Við erum í klúðri, almenningur borgar, segja þeir eða amk. eru það skilaboðin í því sem þeir segja mennirnir.

Við Íslendingar höfum ekkert val, við sem komum ekki nálægt peningageðveikinni, lúxusnum og ruglinu sitjum uppi með reikninginn.  Við skulum borga og brosa ekkert kjaftæði.

En það má ekki taka þær eignir sem eftir standa til að lámarka skaðann.  Ónó, það er gerræði.

Ég held að Bræðrabandið sé staðreynd.

Súmí en ég held það samt.

Skítt með það þó ég verði færð í vatteraðan klefa í klædd undarlegri treyju sem gerir ekkert fyrir mig svona úlitslega séð.


mbl.is Vill ekki frysta eignir auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.