Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Femínistablogg

Sjá ekki fullan klæðaskápinn fyrir jakkafötunum

 v

Það er bara frábært þegar kvarnast úr flokkum og nýjir koma inn.

Endurnýjun, endurnýjun, börnin góð.

En að öðru og ekki eins gleðilegu fyrir mína parta.

Þegar minnihlutastjórnin var stofnuð svall hjarta mitt af stolti yfir jöfnu kynjahlutfalli í ríkisstjórn.

Loksins, hugsaði ég, loksins voru verkin látin tala.

Stutt sæla það.

Ég er fúl út í nýja ríkisstjórn fyrir að hafa ekki haldið kynjahlutfallinu jöfnu.

Báðir þingflokkar eru stútfullir af klárum og reynslumiklum konum og engu síðri en karlarnir.

En það er eins og það sé orðið að náttúrulögmáli í höfðinu á karlkyns ráðamönnum í þessu landi að sjá ekki kjaftfullan klæðaskápinn fyrir jakkafötunum.

Falleinkunn hér.


mbl.is Enn einn kjörinn borgarfulltrúi mun hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtök iðnaðarins, ógeðslegir fúskarar

 samtök iðnaðarins

Það er ekki oft sem ég verð kjaftstopp og svo reið að ég má hafa mig alla við til að ná stjórn á mér.

Það gerðist þegar ég fletti Fréttablaðinu núna áðan.

Ég varð síðast svona reið fyrir hönd kvenna þegar Zero-kókauglýsingaherðin reið yfir, stútfull af kvenfyrirlitningu og ógeði.

Miðað við þessa auglýsingu er Zero-dæmið fagur göngutúr í mánaskini.

Velur þú fagmann eða fúskara?; spyrja Samtök iðnaðarins í stórri auglýsingu í Fréttablaðinu.

Subbulegur karlinn heldur á sprautu fyrir framan konu sem greinilega liggur á skoðunarborði með fætur í sundur.

Niðurlægjandi og ósmekklegt með eindæmum að nota konur í þessari aðstöðu til auglýsinga.

Þarna er svo vísað í ólöglegar fóstureyðingar til viðbótar við kvenfjandsamlega myndina.

Allur pakkinn tekinn, ekkert verið að pakka hugarfarinu gagnvart konum inn í bómull.

Ég er ekki talsmaður neinna samtaka þannig að ég ætla að leyfa mér að segja það sem mér býr í brjósti.

Hvaða andskotans örheilar hafa búið til auglýsinguna?

Hvaða molbúar hjá Samtökum iðnaðarins samþykktu hana.

Hvaða fífl í auglýsingadeild Fréttablaðsins hleypti þessu ógeði í gegn?

Þangað til að allir þessir aðilar hafa beðið afsökunar og tekið til baka þennan viðbjóð þá les ég ekki Fréttablaðið og Samtök iðnaðarins eru tveir í mínus með aðdáendur og stuðningsmenn.

En eitt er á hreinu, ég þarf ekki að spyrja einn né neinn um hvort Samtök iðnaðarins séu fagmenn eða fúskarar.

Svarið liggur nú þegar ljóst fyrir.

Skammist ykkar og það niður í tær.

Nýjustu fréttir, afsökunarbeiðni og auglýsing tekin út vegna viðbragða fólks við henni.

Gott og vel.

En eftir situr þessi tilfinning í mér að það er fólk þarna úti sem sér ekkert að því að gera svona og tekur við sér þegar það uppgötvar að viðbjóðurinn í hausnum á því geti skaðað ímyndina.


mbl.is Auglýsing SI vekur hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sænska leiðin er íslenska leiðin

Það gleður hjarta mitt svo innilega að loksins skuli hafa verið gert refsivert að kaupa vændi.

Það er flott innlegg í baráttuna sem fram fer um allan heim gegn mansali í hverri mynd sem það birtist.

Milljónir kvenna og barna eru seld í kynlífsþrælkun víða um heim og enginn virðist geta rönd við reist.

Það á ekki að vera hægt að kaupa sér afnot af líkama annarrar manneskju í nútímanum.

Og þá kemur "frelsiskórinn", konur sem vilja selja sig eiga að fá að gera það í friði, tónar hann.

Hann sönglar líka eitthvað um að  boð og bönn ýti vændinu neðanjarðar.

Halló, vændi er í eðli sínu neðanjarðarstarfsgrein vegna þess að hún er þess eðlis að bæði kaupandi og seljandi fyrirverða sig fyrir viðskiptin.

Stór hluti þeirra kvenna sem selja aðgang að líkama sínum hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Jú,jú, það eru til konur sem segjast elska vændisstarfið, rétt er það.

En það voru líka til svartir menn í USA sem sáu bölvun í afnámi þrælahalds.

Það er sjaldnast hægt að gera svo öllum líki, þannig er það bara.

Ég er að minnsta kosti ákaflega stolt af VG, Samfylkingu og Framsóknarflokki fyrir að koma íslensku leiðinni í gegn.

Sænska leiðin er nú íslenska leiðin.  Okkar leið.

Þetta er réttlætismál, kvenfrelsismál og mannréttindamál.

Hvað viljið þið meira?

 


mbl.is Kaup á vændi bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál númer tíu

Sannleikurinn á ekki upp á pallborðið sumsstaðar á Íslandi.

En það stendur til bóta.

Ég skildi þig Katrín, eins og reyndar allir sem vilja ekki nýta sér tækifærið og slá sér upp í pólitíkinni með því að rangtúlka orð þín.

En að máli málanna, sem á erindi við allan þingheim.

Mál númer tíu er mikilvægt mál á dagskrá þingsins í dag.

Það er langþráð bann við nektardansi og viðlíka starfsemi.

Ég og fjöldi annarra reiknum með að þing fari ekki fet fyrr en þessu máli hefur verið komið í höfn.

Um það er í raun ekki fleira að segja.

Í gegn með málið gott fólk.

Annað er ekki boðlegt.


mbl.is Orð Katrínar falla í grýttan jarðveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð - ég gæti sprungið hvenær sem er

zx 

Konur eru hormónamaskínur.

Konur eru aðallega samansettar af móðurlífi, brjóstum og svo er uppfyllingarefni þar á milli.  Ofaná sköpunarverkinu trónir svo örlítið heilakvikindi sem hefur lágmarks fúnksjón.

Konur fæða börn, gefa brjóst, fara á túr og eyða eins og brjálæðingar tíu dögum fyrir blæðingar.

Við erum tifandi lífefnafræðilegar sprengjur, getum sprungið hvenær sem er.

Við verslum af hormónskum hvötum ef einhver er nú að velkjast í vafa um hvatir sem að baki liggja.

Silly me, ég sem hélt að ég tæki upplýsta ákvörðun um að eyða peningum.

Ég hélt líka að ég hefði tekið fleiri upplýstar ákvarðanir í lífinu.

Eins og að gifta mig, skilja og að eiga börn.

Nú sé ég að ég hef sennilega verið í miðjum hormónahring þegar ég gifti mig, egglos í gangi og bíólógíska klukkan hefur gargað, ríða, ríða, ríða!

Svo hef ég verið með fyrirtíðaspennu þau skipti sem ég skildi við mína fjölmörgu eiginmenn.

Skrýtið, maður lifir í fimmtíuogeitthvað ár (förum ekki nánar út í það) og heldur að maður sé að framkvæma yfirvegaðar ákvarðanir sínar.

Ó ekkí, það er hinn kemíski mekkanaismi sem er að verki.

Ég vildi að ég væri karlmaður og fengi að ráða mér sjálf.

Fífl.


mbl.is Kaupæði tengist fyrirtíðaspennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og stelpurnar til vara

Nýja Ísland hefur ekki náð inn í nýja Seðlabankann.

Það er ljóst.

Og áfram hanga stelpurnar á varamannabekknum.

Bankaráð Seðlabankans skipa:

  • Lára V. Júlíusdóttir (A)
  • Ágúst Einarsson (A)
  • Ragnar Arnalds (A)
  • Jónas Hallgrímsson (A)
  • Ragnar Árnason (B)
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir (B)
  • Friðrik Már Baldursson (B)

 

Varamenn:

  • Margrét Kristmannsdóttir (A)
  • Guðmundur Jónsson (A)
  • Hildur Traustadóttir (A)
  • Ingibjörg Ingvadóttir (A)
  • Birgir Þór Runólfsson (B)
  • Fjóla Björg Jónsdóttir (B)
  • Sigríður Finsen (B)

 

Hvar er viljinn til að fylgja jafnréttislögum.


mbl.is Nýtt bankaráð Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjörir smalar

frummaðurinn 

Stjórnarskráin var skrifuð af körlum enda tímarnir slíkir og konur hafðar í eldhúsunum og í verkunum yfirleitt.

Svo hugsuðu þær um börn og bú.  Fengu ekki að kjósa hvað þá heldur.

Þær áttu að þegja og hlýða. 

Algjör paradís karlrembusvínanna.

En nú er árið 2009.

Og þá skipa karlarnir sig í nefnd til að skoða stjórnarskrána og ætla auðvitað að halda áfram skrifunum einir og sér nema Framsókn sem sýnir áttun á stað og stund og skipar konu.

Ég vill enga endurskoðun á stjórnarskrá af nefnd sem sem er 99% karlæg.

Við konur erum helmingur af þjóðinni.  Halló, vaknið!

Reyndar situr Atli Gíslason í nefndinni fyrir VG og hann er einn ötulasti femínisti þessa lands.

En þarna kemur ekki til greina annað en að hafa jafnt hlutfall karla og kvenna.

Katrín Jakobsdóttir segir nýja stjórnarskránefnd stríða gegn anda jafnréttislaga og vill að þingflokkarnir endurskoði tilnefningar í nefndina, þar sem nú sitja átta karlar og ein kona.

Konur úr öllum flokkum eru sama sinnis.

Stundum glápi ég eins og veðurviti út í sortann og skil ekki hvað er í gangi.

Ætla menn aldrei að læra, átta sig, hoppa inn í nútímann?

Svei mér þá, stundum finnst mér að kvenfrelsisbaráttan hafi ekki skilað sér nærri nógu vel.

Til karla á ég við.

Meiri smalarnir.


mbl.is Þingkonur mótmæla karlanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hands off"

Við lestur þessarar fréttar fékk ég hroll niður eftir bakinu.

Getur þetta verið rétt? 

"Fullyrðingar fyrrverandi nektardansara á Goldfinger um að þar væri stundað vændi, dansarar hefðu verið sviptir frelsi og að eigandi staðarins hefði tekjur af vændissölu dansara, leiddu ekki til sérstakrar rannsóknar af hálfu lögreglu höfuðborgarsvæðisins."

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að eigandi Goldfingers sé á sér samningum með sinn rekstur.

Að einhver haldi verndarhendi yfir honum og starfssemi hans.  Svona "hands off" stefna.

Amk. virðist það ekki vekja lögregluna til verka að heyra af mansali, frelsissviptingu og öðrum alvarlegum lög- og mannréttindabrotum frá konu sem er fyrrverandi innanbúðar.

Ég hefði haldið að þessar fréttir hefðu heldur betur kveikt í yfirvaldinu sem segir að það þýði ekki að málið hafi ekki verið rannsakað þó það hafi ekki leitt til ákæru.

Hvaða svar er nú það?

Annars lagði Siv Friðleifsdóttir fram frumvarp til laga um fortakslaust bann við nektardans, á þinginu í gær.

Algjörlega tímabært það og ég fagna því innilega.

Þessi hæstaréttardómur gagnvart blaðamanni Vikunnar er svo annað hneyksli sem þarf að skoða nánar og verður vonandi gert.

Stundum (oft) fæ ég það á tilfinninguna að karlaklúbbur Íslands sé með fingurna alls staðar og ráði öllu því sem hann vill ráða.

Og að allt öðru.

Var að setja inn hlekkji á húsband og skátvibbana mína á Myspace.  Kíkið.


mbl.is Ekki ráðist í rannsókn vegna Vikumálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Solla og vitjunartíminn

Mogganum finnst allt merkilegt sem frá Birni Bjarnasyni kemur.  Þessi tilbeiðsla er krúttlegt næstum því.

En ég er á því að Ingibjörg Sólrún hafi gert rétt þegar hún tók aftur ákvörðun sína með að vera áfram í pólitík.  Bæði af heilsufarslegum og pólitískum ástæðum.

ISG er ein af okkar merkilegustu stjórnamálamönnum. 

Ég kynntist henni fyrst í kvennabaráttunni og hún var kona valddreifingar og grasrótarsinnuð með afbrigðum, eins og við flestar á þessum dásamlega tíma. 

Betri borgarstjóra hafa Reykvíkingar ekki haft.  Hún innleiddi ný vinnubrögð í borginni, með gegnsærri og heiðarlegri pólitík.

En svo gekk hún í björg.  Ég áttaði mig aldrei á ISG eftir hún stökk með Samfylkinguna í stjórn með Sjálfstæðisflokk eftir síðustu kosningar og það án þess að láta reyna félagshyggjustjórnarmyndun.

Þá og síðan hef ég bara ekkert kannast við vinnulag þessarar konu.

Eftir stendur að ISG hefur verið mín fyrirmynd og fjölda annarra kvenna um margra ára skeið.

Ég óska henni góðs bata og bjartrar framtíðar.

Einkum og sér í lagi óska ég henni þess að uppgötva frelsið sem felst í því að átta sig á að ekkert okkar er ómissandi.

P.s. Ætli Moggann vanti tilfinnanlega blaðamenn?

Kommon, þeir týna molana frá BB og nota eins og um lærðar fréttaskýringar sé að ræða. 

 


mbl.is Björn óskar Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvottahegðun móður minnar

 þvottavél

Svona í tilefni dagsins og allt það.

Þá man ég eftir þvottadögunum hennar mömmu minnar (og ömmu líka reyndar) þegar ég var barn.

Mamma  með sex stelpur (síðar kom einn strákur og enn ein stelpa svona til að bæta við verkefnin) átti þvottadag á hálfsmánaðar fresti.

Á þeim dögum fór hún í þvottahúsið í kjallaranum og sást ekki meira daginn þann nema til að koma upp og fá sér kaffibolla.

Ég man að hún fór í stígvél og var frekar vígaleg í gallanum svona miðað við fíngerða persónu sína.

Ég minnist þess ekki að hún hafi nokkurn tímann beðið um hjálp, nema þá kannski að við ættum að líta eftir með þeim yngri á meðan á kjallaradvölinni stóð, en þarna stóð hún og þvoði í þvottavélinni, skolaði og vatt með rafmagnsvindu, hengdi upp og straujaði.

Forleikurinn að þvottadegi var að leggja í bleyti.

Þetta telur ekki með allan þvottinn sem hún þvoði í höndunum á milli þvottadagana.

Og hún elskaði að þvo, og hún vissi ekkert betra en að geta hengt út á snúru, vegna lyktarinnar sem kom í tauið.

Ég bjó ekki hjá foreldrum mínum en var þar eins og grár köttur.

Ef ég kom í hvítum eða ljósum fötum mátti stilla klukkuna eftir þeirri staðreynd að hún reif mig úr peysu eða treyjum sem voru ekki nógu "bragglegar" og svo lagði hún í klór og þvoði eftir kúnstarinnar reglum og flíkin varð betri en ný.

Svo straujaði hún og henni fannst það líka skemmtilegt.

Hún straujaði taubleyjur og viskustykki, ésús minn á galeiðunni!

Svo kom sjálfvirka þvottavélin.

Sem var ekki sjálfvirkari en svo að það þurfti konu til að setja í hana, starta henni og hengja úr henni.

En nú eru breyttir tímar.

Karlmenn þvo eins og mófóar vænti ég.

Eða hvað?


mbl.is Þvottavélin frelsaði konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 10
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 2987141

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.