Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Femínistablogg

Áfram stelpur!

 pink1

Til hamingju allir með þessar frábæru konur hjá VG í Reykjavík.

Ekki leiðinlegt að sjá þessi úrslit þegar maður vaknar glaður og hress á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna.

Njótið dagsins konur.  Við eigum hann.

Hugsum til kynsystra okkar sem eru ekki eins heppnar og við.

Konur sem búa við kúgun og mannréttindabrot.

Þó enn sé ýmsu ábótavant hjá okkur þá er það barnaleikur miðað við stóran hluta kvenna í heiminum.

Áfram stelpur!


mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum vændi strax!

Sextán samtök skora á stjórnvöld að leggja bann við kaupum á vændi.  Segir í  áskorun þeirra að því beri að fagna að enn einu sinni er komið fram á Alþingi frumvarp um að banna kaup á vændi.

Að því frumvarpi standa stjórnarflokkarnir ásamt þingkonum Framsóknarflokks.

Það er í raun óskiljanlegt að við skulum vera á þriðjaheimsplani hvað þetta varðar hér á Íslandi.

Milljónir kvenna og barna eru seld í kynlífsánauð víða um heim.

Vændi er af sömu rót sprottið, amk. eru örfín skil þarna á milli.

Þú átt ekki að geta keypt þér aðgang að líkama fólks með góðu leyfi samfélagsins.

Nú bærist í mér sú von að bann við kaupum á vændi verð lögfest hér á landi.

Og það strax.

Það væru dásamleg málalok.


mbl.is Skora á stjórnvöld að leggja bann við vændiskaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungfrú læri, kálfar, brjóst og bak

Female_Mannequin

Ég er á mínum hefðbundna laugardagssamning við sjálfa mig.

Ekki pólitík í dag umfram það sem þegar er orðið.

Sko, nema eitthvað gerist.

En að máli dagsins.

Á hverju ári verð ég jafn hissa þegar ég sé fjallað um fegurðarsamkeppnir?

Alveg: Ha? Eru þær tímaskekkjur virkilega enn við líði?

Jájá, heldur betur og ekkert á undanhaldi, það er nokkuð ljóst.

Mér finnst svo sorglegt að sjá þessar fallegu og efnilegu stúlkur standa fyrir framan "dómara" í fegurð sem undantekningalaust segja að "stúlkurnar verði að hafa innri fegurð og persónuleika til að eiga möguleika", og láta meta sig eins og gripi á markaði.

Hvað sem þeir segja "dómararnir" þá sitja þeir og mæla út læri, brjóst, maga, nef og allt hitt.

Þá er komin ungfrú sóandsó.

Það væri ágætis innlegg í jafnréttisbaráttuna að hætta þessu.

Ég vil meta bæði kynin af verkum sínum, hjartalagi og hæfileikum.

Ekki af tommufjölda frá læri og uppí nára.

Í hruninu höfum við þurft að læra að yfirborðsmennska og áhersla á ytra byrði og veraldleg gæði, segir okkur ekki nokkurn skapaðan um hlut um fólk.

Og reglurnar, leyfið mér að öskra.

Þær mega ekki reykja (flott að reykja ekki en er þetta ekki stjórnarskrárbrot? Segi svona, það er svo vinsælt að halda því fram þessa dagana).

Þær mega ekki vera mæður.  Helvítis Lólítuheilkennið þar eins og í tískubransanum.

Það er svo saurgandi að vera mamma.  Gargandi vitnisburður um að stúlkan sé búin að vera í hankípankí.

Það mætti ætla að keppendur væru að ganga í klaustur.

Erum við stödd á miðri síðustu öld þegar toppurinn á tilverunni var fyrir konuna að verma inniskó húsbóndans, vera aðlanðandi og halda kjafti?

Mér finnst svo sorglegt að horfa upp á þetta ár eftir ár.

ARG


mbl.is Magdalena Dubik kjörin ungfrú Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakslag í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Borgarstjórnarflokkur VG lýsir yfir vonbrigðum með nýútgefna umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um rekstur á nektardansstaðnum Goldfinger.

Þar segir m.a.

tilkynningu VG segir, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft mikið að segja í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi allt frá því hann hóf störf, og þar með sýnt rannsóknum og reynslu af þessum málum skilning og tekið á þeim mark. Í fyrri umsögn sinni um Goldfinger hafi lögreglustjórinn lagst gegn leyfisveitingu en nú virðist sem hann hafi verið þvingaður til að breyta afstöðu sinni til málsins."

Ég er sammála þessu.  Lögreglustjórinn hefur verið betri en enginn í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og því er það furðulegt að hann skuli hafa breytt afstöðu sinni.

Ég er paranojuð þegar þessi mál ber á góma og ekki að ástæðulausu.

Hver er í karlaklúbb með hverjum hérna?

Er erfitt að fá þetta lið allt saman til að skilja að nektardansstaðir ýta undir kynbundið ofbeldi og það er brýnt að koma í veg fyrir starfsemi af þessu tagi.  Eins og VG réttilega benda á þá er lokun þessara staða liður í baráttunni gegn hlutgervingu kvenna, gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir jafnrétti kynjanna. 

En Geiri og sumir strákanna geta sennilega hrósað sigri.

Lögrelustjórinn í Reykjavík hefur með þessari umsögn fært jafnréttisbaráttuna nokkur ár aftur í tímann.

Pirrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

P.s. Og Alexander Kristófer, rólegur, ég veit hvað þér finnst.


mbl.is Lýsa vonbrigðum með nýja umsögn um Goldfinger
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hamingusamir" vændiskaupendur?

Þegar ég skrifaði fagnaðarfærsluna vegna hertra aðgerða sænskra yfirvalda til að fylgja eftir banni við vændi þá flippaði kommentakerfið mitt auðvitað út.  Síðast þegar ég gáði voru komnar 171 athugasemd með mínum taldar.

Og sumir fara hamförum í innleggjunum sínum fyrir allan peninginn.  Manni eru ekki vandaðar kveðjurnar frá þeim sem vilja geta keypt sér kynlíf eins og þeir kaupa í matinn.  Frelsi segja þeir, frelsi til að kaupa frelsi til að selja.

En einhver velti upp ágætis sjónarhorni á umræðunni.  Í staðinn fyrir að einblína á hvers vegna konur stunda vændi tölum nú í staðinn um hverjir það eru sem kaupa þjónustuna. "Sounds like a plan"?

(Jájá, ég veit að það eru til konur sem kaupa vændi, ég er ekki að fjalla um þær núna).

Hvaða menn eru þetta sem fara á límingunum ef minnst er á femínista?

Að gera vændiskaup refsiverð?

Um bann við nektardansi?

Hverjir verja "frelsið" til að vera konur geti verið í ánauð?

Ég get sagt mína skoðun.  Ég held að flestir kaupendur vændis séu karlar sem ekki geta umgengist konur á eðlilegan hátt.  Eru hræddir við þær.  Kaup á konu krefst engra dýpri samskipta, ríða búið bless.  Konan er hlutur, kynlífsverkfæri.  Ég sé ekki þorskinn sitja á rúmstokknum og ræða við vændiskonuna um ástandið á stjórnarheimilinu eða spyrja hana hvað henni finnist um álver á Bakka.

Þetta eru menn sem finnst sér ógnað af konum.  Einkum og sér í lagi konum sem vilja jafna valdahlutföllin í þjóðfélaginu.  Það gerir þá brjálaða.

Þessir menn hljóta að vera með miðaldasýn á konur, maður kaupir ekki aðgang að líkömum fóks nema vera með viðhorf á við rotþró gagnvart viðkomandi.

En hvað veit ég?

En nú reikna ég fastlega með að þessir frelsisberar sem hafa tekið þátt í umræðum um "hamingjusömu" hóruna leggi af mörkum til umræðunnar að þessu sinni af sömu elju.

Og spurningin er:

Hvers konar karlmenn versla sér konur?

"Hamingjusama" hóran.


"Hamingjusama" hóran

Svíar eru raunveruleikatengdir og lausir við aumingjaskap og dubbelmóral þegar vændismál eru annars vegar.

Sænska leiðin er sú besta sem völ er á og nú tilkynntu stjórnvöld í dag hertar aðgerðir gegn vændi. 

Auknu fé verður varið til að framfylgja lögunum sem banna vændiskaup.

"Einnig verður fé varið til að styrkja endurhæfingarstofnanir fyrir fólk sem stundar kynlífsþjónustu eða hefur lent í kynlífsþrælkun. Þá fá heilbrigðisstarfsmenn sérstaka þjálfun til að fást við þessi mál."

Á meðan heimurinn er að vakna til meðvitundar um raunveruleikan á bak við kynferðislega misnotkun sem tengist vændi og klámi stígum við Íslendingar til baka inn í torfkofana í þessum skilningi og höfum gert vændi refsilaust.

Mér finnst svo borðleggjandi misnotkunin sem felst í því að kaupa líkama og kynlífsþjónustu annarrar manneskju.

Og trúir einhver að vændiskonur almennt séu í djobbinu af þeim finnist geðslegt, hipp og kúl að eiga kynmök við mis ógeðslega karla?

Er það ekki ánauð að vera í þeirri aðstöðu að selja líkama sinn?

Eða er fólk að slá ryki í augun á sér með því að einblína á goðsögnina um hamingjusömu hóruna?

Ég beið spennt eftir því að vændismálið yrði endurupptekið á Alþingi, af því það rann í gegn óvart á síðustu dögum þingsins fyrir kosningar í fyrra.

En enn bólar ekkert á því.

Í þessu máli væri okkur hollara að fylgja fordæmi Svía.  Við erum þróunarland í þessum málum eins og þau standa núna.

ARG

 


mbl.is Svíar herða aðgerðir gegn vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolinmæði er engin andskotans dyggð

v 

Creditinfo Ísland hefur í fyrsta sinn gert úttekt á kynjahlutfalli viðmælenda í fjölmiðlum. Niðurstöður sýna að konur koma aðeins fram í 21 prósenti þeirra frétta þar sem viðmælendur koma fram en karlmenn í 79 prósentum tilvika.

Jájá, ég get ekki logið því að ég sé hissa á þessu.  Konur eru sjaldgæfar svo ekki sé meira sagt sem viðmælendur í fjölmiðlum.

Það gremjulega er þó að það er hellingur af fólki sem gengur um og trúir því að jafnrétti séð náð.

Svo er annar slatti sem trúir því að róttækur femínismi skili engu, það sé best að taka jafnréttisbaráttuna í rólegheitum og í góðum fíling, ekki stíga á tær, ekki vera óþægilegur og alls ekki tengja sig við femínisma.

Mér sýnist það vera skila sér svona líka glimrandi vel eða hitt þó heldur.

Í fjölmiðlunum speglast valdahlutföllin í þjóðfélaginu ágætlega.

Ég veit ekki með ykkur en ég held að það dugi ekki ladídadída og gerriðiða strákar leyfið okkur að vera með kjaftæði.

Nei tökum á með báðum stelpur.

Ég er ekki þolinmóð kona, sem betur fer.  Þolinmæði er engin andskotans dyggð þegar jafnréttismál eru annars vegar.

Hér má sjá fréttina í heild á visi.is


Einum rúnkklúbbi minna - Úje

 pink1

 Í tilefni dagsins hefur ritstjórn þessa fjölmiðils (Whistlingeinróma) samþykkt að veita Borgarráði hvatningarverðlaunin "Bleika Kökukeflið".

"Á borgarráðsfundi nú í morgun var einróma samþykkt að hafna beiðni Strawberries um undanþágu til að reka nektardansstað. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Vinstri grænum að minnihluti borgarráðs hafi látið bóka eftirfarandi við afgreiðsluna:

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks fagna því að borgarráð skuli leggjast einróma gegn veitingu nektardansleyfis í dag þegar 93 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Synjunin er til marks um mikinn árangur í jafnréttismálum, enda er baráttan gegn klámvæðingunni eitt helsta verkefni nútímans. Reykjavíkurborg hefur á umliðnum árum verið í fararbroddi í þeirri vinnu og afar brýnt að svo verði áfram."

Meirihlutinn verður sem sagt ekki skammaður hér í dag.

Rúnklúbbunum fækkar, þeir eru að verða minnið eitt.  Mikið skelfing er það skemmtileg þróun.

Það er orðið fátt um fína "drætti" í rúnkbransanum.

Kona er á bleiku skýi.

Til hamingju stelpur (og strákar).

Újejejejejeje


mbl.is Strawberries fær ekki undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver fær grjótið?

 img-thing

Þegar ég 28 ára gömul gekk með yngsta barnið mitt, hana Söru Hrund, þá bjó ég í Svíþjóð, Gautaborg nánar tiltekið.

Og einn eftirmiðdag korteri fyrir fæðingu, fór litla fjölskyldan, þ.e. mamman, pabbinn, Helga og Maysa í lítinn leiðangur í verslunarmiðstöð. 

Þetta var ferð sem er nauðsynlega í annála færandi. 

Við vorum að kaupa hljómflutningstæki.  Og til að gera langa sögu stutta þá tók það óratíma fyrir karlinn og afgreiðslumanninn að ræða hljómflutningstæki, sögu þeirra, þróun, merki og annað skemmtilegt og á meðan var ég beðin um að fara á "Systembolaget" og kaupa kippu af bjór fyrir minn löglega eiginmann. 

Ég og Frumburður sveifluðum okkur léttilega í ríkið, þ.e. miðað við að ég var nærri því búin að fæða.

Og ég bað um viðkomandi bjór.

Og afgreiðslumaðurinn bað mig um skilríki.

Þetta var áður en ég hafði áhyggjur af aldrinum og langaði til að vera fullorðin og hann særði mig inn að beini. 

Ég sagðist vera 28 ára, hann hlyti að vera að grínast í mér.

Og Frumburður sagði, á sinni syngjandi gautaborgísku; Min mamma är vuxen för länge sedan!! Og henni var stórlega misboðið.

En afgreiðslumaðurinn gaf sig ekki og ég varð að ná í bjóráhugamanninn sem ég var gift og láta hann díla um sitt fljótandi brauð sjálfan.

Og þess vegna veit ég að hún Claire Birchell á Englandi, sem er 25 og fékk ekki að kaupa Jack Daniel´s grillsósu vegna þess að hún var ekki með skilríki (2% alkahól), á einhvern tímann eftir að gleðjast yfir þessum atburði.

Sko, þegar hún er komin með aldurinn á heilann eins og sumar KONA sem ég þekki afskaplega náið.W00t

stones-petal%20pink

En Femínistafélagið ætlar að afhenda bleiku steinanna niður á Austurvelli kl. 11.

Hver fær grjótið?  Ég bíð spennt.

Kem að vörmu.


mbl.is Of ung til að kaupa grillsósu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleika byltingin

 pink 4

Í dag 19. júní er Kvenréttindadagurinn, en þ. 19. júní 1915 fengu konur kosningarétt.  Fyrsta konan var svo kjörin á þing 1922.

Hugsið ykkur að það eru ekki liðin 100 ár síðan að við fengum að kjósa.

Það er ágætt að minnast allra þeirra kvenna sem lagt hafa kvenréttindabaráttunni lið í bæði smáu og stóru og það er þeim að þakka að börnin okkar geta sjálfsagt ekki ímyndað sér að fyrir ekki svo löngu gat bara helmingur þjóðarinnar kosið til Alþingis.

Nú finn ég hvergi dagsskrá morgundagsins en væntanlega verður hún svipuð og í fyrra, þ.e. að konur mála daginn bleikan.

Í fyrra var Mbl.is með bleikt ritmál í tilefni dagsins.

Spurning hvort það verður endurtekið.

Stelpur á morgun förum við allar í eitthvað bleikt.

Og auðvitað strákarnir líka, þó það nú væri.

Gleðilega hátíð.

P.s. Þið takið örugglega ekki eftir mér í bænum, en ég verð í látlausa kjólnum á myndinni og í bleikum skóm.  Æi ég er svo feimin eitthvað og vill ekki berast á.

Nananabúbú.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2985732

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.