Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Ég alkinn

spaceball

 

Á morgun á ég 15 mánaða edrúafmæli, (á morgun hvað, það er kominn sá 5. sé ég núna).

En í kvöld var ég eitthvað ónóg sjálfri mér og gat ekki fest hugann við neitt, fann mér ekkert að gera, mér leiddist og ég var pirruð.  Sum sé ekki gott mál fyrir alkann mig.  Sem betur fer hendir þetta sjaldan, en ég verð alltaf jafn óróleg, jafnvel óttaslegin þegar mér líður svona.

Ég fann enga ástæðu fyrir líðaninni, þannig að ég hætti að velta mér upp úr af hverju og fór að leita lausna.  Ég var nýbúin að lesa í AA-bókinni, þannig að ég endaði við sjónvarpið.  Ég fletti, (flett,flett) milli stöðva og á norsku sjónvarpsstöðinni var verið að sýna "Leaving Las Vegas" sem er ein öflugast mynd um eyðingarmátt alkahólismans sem ég hef séð, enda fjallar hún um mann sem ákveður að drekka sig í hel.

Svei mér ef ég fékk ekki trú á almættinu, upp á nýtt.  Þarna fékk ég inn með skeið, allan viðbjóðinn sem hinn virki alki gengur í gegnum og þarna endar alkinn dauður eftir að hafa eitrað fyrir sér með brennivíni þar til yfir lauk.

Og nú sit ég hér svo sæl og róleg, mér leiðist ekki lengur, hjarta mitt er bara fullt af þakklæti fyrir að hafa fengið hjálp, áður en það var of seint.

Eins og amma mín sagði alltaf; manni verður alltaf eitthvað til bjargar.

Það er sæll og glaður alki sem leggst til svefn núna eftir að ég kem þessari snúru minni í loftið.

Fimmtán mánuðir er nokkuð góður tími.  Ha???

Farin edrú að lúlla.

Góða nótt elskurnar mínar.

Úje.


Smá jólasnúra

 

Þetta er jólasnúra.

Reykjavíkurborg leggur 55 milljónir til SÁÁ, til ýmissa verkefna,næstu þrjú árin.  Þakka skyldi þeim.  Mér finnst þetta sjálfsagt og eðllegt en hefði viljað sjá helmingi hærri upphæð frá borginni í málefnið.  Þá hefði ég framkallað vísi af hneigingu.

 Það fer hreint ótrúlega í taugarnar á mér að SÁÁ skuli sífellt vera að berjast í bökkum.

Svo er annað sem er merkilegt svo ekki sé meira sagt og svei mér ef ég legg ekki fyrirspurn fyrir hann Þórarinn Tyfiringsson,yfirlækni á Vogi varðandi það mál, bara hér á blogginu mínu.

Af hverju eru 50% líkur á, ef pabbi karlmanns hefur farið á Vog að sonurinn fari líka, áður en hann verður 70 ára en ekki dæturnar?

Mér finnst það svo merkilegt.  Er annað mynstur í gangi með konur?

Ég er að drepast úr forvitni. 

Hvað með mig alkann sem hefur farið í meðferð á Vogi?  Ég á dætur.

Eru einhverjar svona prósentulíkur á að þær endi á Vogi vegna þess?

Mikið skelfing vildi ég fá svar við þessu.

Merkilegt.

En til hamingju með peningana SÁÁ.  Mikið skelfing eigið þið þá skilið.

Nú er ég á leið í lúll, edrú og glöð, þrátt fyrir að ég hafi ekki verið í mínu besta skapi í kvöld.

Guð gefi mér æðruleysi

ójá.

 

 


Hvað sagði ég ekki?

 

Nú, nú, passandi tímasetning á þessari frétt.  Ha?

Kona er ekki fyrr búin að láta taka viðtal við sig um eldhúsalkahólisma og drykkju bak við byrgða glugga, er þetta birtist.

Í fréttinni kemur ma fram:

"Ein af hverjum tíu sænskum konum á sextugsaldri drekka meira en hollt þykir. Sjö þúsund sænskar konur á sextugsaldri tóku þátt í könnun um heilbrigðismál með sérstakri áherslu á áfengisneyslu og geðheilsu þeirra. 

Tíunda hver kona sem tók þátt í könnuninni fer yfir hættumörk í áfengisdrykkju og jafnvel svokölluð fyllerísdrykkja er almenn meðal þessa aldurshóps kvenna."

Það er greinilega ekki bara á Íslandi sem fjöldi kvenna á miðjum aldri er að auka drykkju.

Mikið skelfing myndi ég vilja vita hvað veldur þessari aukningu?
Einhver?
Allt í einu rann upp fyrir mér það dimma ljós að ég muni sjálf vera á sextugsaldri, og búin að vera í nokkur árW00t
Er annars edrú, glöð og í góðum málum.Halo
Vona að það sé að ganga elskurnar mínarInLove 
Falalalalala

mbl.is Konur drekka hættulega mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á felgunni

Muhahahahaha, ekki ég sko, alveg bláedrú og í góðum málum.

En svona í tilefni dagsins þá eru Erlar út um allt.

300 dauðadrukkin kvikindi í fríhöfninni.

Munur að vera í góðum málum.  Falalalalala

Er með hana Jenný Unu í pössun á meðan litli bróðir hennar gerir það upp við sig hvort hann ætlar að fæðast núna eða seinna.

Jájá

Sjáumst.


mbl.is Fríhöfnin lokuð vegna 300 fullra útlendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag..

 

..voru teknar af mér ljósmyndir, ég er ekki búin að sjá þær en ég myndast yfirleitt skelfilega illa.  Ég er þó að vona að óræður og dreyminn svipurinn ásamt týpugleraugunum (eru ekki týpugleraugu skv. vinkonum mínum) skili sér þannig að ég slái í gegn.

..talaði ég lengi um líf mitt fyrir meðferð, fór í gegnum erfiða hluti og fannst það ekki baun erfitt.  Ég skildi svo ekkert í því fyrr en mér var bent á það nú undir kvöld, að ég var algjörlega búin á því.  Tekur greinilega töluvert á taugarnar.

..talaði ég við ca 500 fyrirtæki sem eiga að vera ábyrg á tölvunni minni sem bilaði í nótt.  Sko borðtölvunni.  Hver vísar á annan og annar á hinn.  Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn.  Gripurinn er í ábyrgð og verður það vonandi þegar Litlu Gulu Hænurnar s/f eru búnar að finna út hver ber ábyrgðina.

..var ég með Jenný Unu í pössun meðan mamman og pabbinn fóru í IKEAW00t.  Jenný var glöð og hress þrátt fyrir að vera "pínulítið lasin" og þegar ég var að vasast inni á baði, kom hún og sagði mér að ég ætti að þvo hendurnar "skrass" því löggan segði það.  Ég þvoði hendurnar.  Hún var hjá lækni í gær og í stað þess að vera glöð og kát í skoðuninni eins og venjulega, var hún pírípú og sagði við læknirinn að þær væru ekki vinkonur.  Læknir miður sín.

Nú er vika í að Maysan mín og fjölskylda komi frá London og þá geta jólin hafist.

Á meðan jólast ég bara og geri allt vitlaust í stórmörkuðunum.

Úje og falalalalalala

 


Andskotans meðvirknin

 

Ég er að drepast úr leti í dag.  Þess vegna hangi ég hér á tölvunni og reyni að koma mér undan því sem ég þarf að gera.  Ég færi mig á milli stóla.  Þvílík framkvæmdagleði.

Ég var að lesa um Amy Winehouse, þessa flottu söngkonu, sem er alveg búin að missa stjórnina á lífinu, eins ömurlegt og það nú er. 

Ég er ekkert rosalega upptekin af Britneyju og Amy, svona yfirhöfuð, enda þessar konur bara úti í heimi að dunda við að fokka upp lífi sínu við undirleik heimspressunnar og hver lesningin á fætur annarri færir manni nær þunglyndi án þess að maður geti nokkuð að gert.  Þá er best að líta sér nær.

En þessar sögur af þeim fá mig til að hugsa.  Um alkahólisma, minn eigin og annarra.

Pabbi hennar Amy er t.d. alveg viss um að hennar fíkn í dóp sé eiginmannsnefnunni að kenna.  Amy var aldrei í hörðu dópi fyrr en hún giftist þessum gæja, áður var hún "bara" í hassi.W00t  Halló, rólegur á meðvirkninni.  Rosalega væri þetta einfalt mál með fíknina, ef það væri bara hægt að fjarlægja alla sökudólganna af strætum og torgum og hviss, bang, allir í góðum málum.   Allir allsgáðir öll vandamál fyrir bí.

Auðvitað er hver alki/fíkill aleinn og óstuddur, algjörlega ábyrgur á sínu rugli.  Enginn og þá meina ég enginn er þess umkominn að "koma" fólki í dóp eða drykkju.  Ekki frekar en það er hægt að handtaka fólk fyrir að vera í vondum félagsskap.

Ég skil svo sem alveg þessa tilhneigingu ástvina að tengja stjórnleysi fíkilsins við kompaníið sem skapast í kringum neysluna, en því miður þá er þetta ekki svona einfalt.

Ég er persónulega alein og algjörlega ábyrg á minni drykkju og ég er líka á sama hátt ábyrg fyrir því að halda mér edrú.  Það gerir það enginn fyrir mig.  Oghananú.

Æi en nú er ég farin að sinna skyldustörfunum, allsgáð og brakandi edrú.  Óska öllum virku ölkunum bata sem fyrst og sé ykkur bara seinna, á eftir í kvöld eða eitthvað.

Auðvitað vona ég að "GÍLA" reki ekki jólasveinana út í drykkju og aðra óreglu, hún getur nefnilega verið ansi slæmur félagsskapur.

Ég á innsoginu

Jólin, jólin,

Flalalalala 

 


Edrúafmæli - Jólasnúra.

Fyrst vil ég þakka allar hlýju kveðjurnar sem okkur hafa borist vegna þess að í dag 4. desember eru 10 ár frá dauða litla barnabarnsins míns, hans Arons Arnar.  Mamma hans les bloggið og ég veit að henni þykir vænt um kveðjurnar.  En lífið heldur áfram.

Nú er það edrúafmælið mitt (5.des.). 14 mánuðir liðnir frá því ég fór á Vog, hvorki meira né minna.  Og þvílíkir mánuðir.  Ég verð næstum klökk þegar ég hugsa til þess hversu gefandi og góðir þeir hafa verið og hversu heppin ég er að hafa nú álpast í meðferð loksins.

Ég hef sum sé hangið sæl og ánægð á minni edrúsnúru, bærst í vindinum, stundum hafa stormað geysað, en aldrei lengi í einu. 

Ég blogga um alkahólisma fyrst og fremst fyrir sjálfa mig, til að halda mér við efnið og til að minna mig á.  Það hefur reynst mér vel og ég er búin að skrifa mig frá skömminni.  Það eitt og sér er þess virði að skella þessari baráttu á netið.

Í mér blundar líka sú von að einhver þó ekki væri nema einn, geti nýtt sér það sem ég skrifa og jafnvel fundið huggun og hvatningu af lestrinum.  Reyndar veit ég að það hefur hjálpað þó nokkrum og það hvetur mig til að halda áfram.

14 allsgáðir mánuðir er ekki lítill tími, ef tekið er tillit til þess að fyrir meðferð komst ég ekki í gegnum daginn án þess að deyfa mig með áfengi eða pillum.  Hm.. að tala um helsi, ójá.

Bloggdagurinn mikli er að kvöldi komin.  Í dag hef ég bloggað manískt, jafnvel þegar ég sjálf á í hlut, en tilgangurinn var að dreifa huganum.

Það tókst og svo þakka ég fyrir komment dagsins sem fengu mig til að skella upp úr hvað eftir annað.

Það er flottast að vera edrú, fyrir konu eins og mig.

Alveg langflottast.

Á morgun bíða jólafærslur ásamt dassi af öðru, ég þarf alltaf að vera að bögga fólk.Whistling

Falalalalala

Krakkar, varð að skella þessu hér inn í péessi.  Það eru fargings 19 dagar til jóla.  Ég er farin að ofanda.  Jösses.


Alkajól

 

Jól og alkahólismi eru eitruð blanda.

Sem betur fer var ég ekki orðin fyllibytta þegar stelpurnar mínar voru litlar.

Ég hef sloppið fyrir horn í jólahaldinu undanfarin ár, þ.e. áður en ég fór í meðferð, en bara rétt svo.

Í hitteðfyrra, þ.e. síðustu jólin sem ég var virk, var ég svo heppin að fá lungna- og barkabólgu.  Ég lá hálfdauð í rúminu yfir jólin, sem kom sér ákaflega vel, því ég var orðin langt leidd af drykkju og hefði átt verulega erfitt með að standa mig í því hlutverki sem ég hef ásamkað mér á jólum.

Læknirinn var svo elskulegur að segja mér að ég gæti smitað og þar með var komin pottþétt afsökun fyrir lok, lok og læs.  Ískápurinn var auðvitað úttroðin af dýrindis hráefnum til matargerðar en hva, það var sett á bið.

Bið sem í raun varði þar til ég fór í meðferð á nýju ári, seint á nýju ári.

Það er ekki eins og maður hafi verið eitthvað jólaskraut, ónei.

Ekki par jólaleg hún Jenný Anna þarna í restina.

En í fyrra og núna gegnir öðru máli.

Þetta er snúra, já jólasnúra.

Falalalalalalala!


An occasional beer

 60

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ég er óvirkur alki, og þannig vil ég hafa það.  Reglulega er ég spurð af fólki hvort ég telji að þessi eða hinn sé alki, það er hringt í mig vegna þess að aðstandendur hafa áhyggjur af einhverjum í fjölskyldunni og fólk vill bera áhyggjur sínar undir mig.  Ég skil það vel, en ég get ekki dæmt um hver er alkahólisti og hver ekki.  Það er ekki í mínu valdi, enda þó maður greinist með sjúkdóm, þá gerir það mann ekki að sérfræðing í greininni.  Yfirleitt vísa ég fólki á SÁÁ með sínar spurningar. 

Það sem skiptir máli er auðvitað alkinn sjálfur, hvort hann er búinn að ganga sína leið á enda og horfist í augu við ástandið sem blasir hvarvetna við, er búið að gera lengi og er öllum sjáanlegt nema honum.

Afneitunin er merkilegt og magnað fyrirbrigði.  Ég ætti að vita það.  Ári áður en ég fór í meðferð var ég lögð inn á sjúkrahús, dauðveik með ónýtt bris, þar sem ég var stödd í sumarfríi í fjarlægu landi.  Ein af dætrum mínum kom til að standa vaktina yfir móður sinni á móti eiginmanni.  Úff þetta er erfitt stöff.

Læknirinn var fljótur að reikna út vandamálið, brisið, ástand á mér og svona og þar sem hún, ásamt húsbandi og dóttur stóðu við sjúkrabeð hins forstokkaða alka, átti sér eftirfarandi samtal sér stað:

Læknir: You drink much?

Alkinn: No I can´t say I do, probably like most people (W00t)

Læknir: What do you drink?

Alkinn: A little red now and then and an occasional beer!!!! (Hvað segist um ca. 8 á dag?)

Heimspressan var því miður ekki á staðnum til að verða vitni að þessari stund sannleikans á Spáni, en hefði svipur dóttur minnar og manns náðst á mynd, hefði vantrúarsvipur þeirra verið algjörlega ekta.

Tek fram að mér fannst ég alls ekki vera að segja ósatt.  Það er hægt að búllsjitta sig að því marki að maður trúir bullinu í sjálfu sér, allt til að geta haldið áfram að drekka.

Þetta var erfitt en þema vikunnar hjá mér, er sjálfsblekkingin og mér er hollast að muna hvernig fyrir mér var komið.

Svo bið ég almættið í góðri samvinnu við sjálfa mig að halda mér edrú, einn dag í einu, svo ég meiði mína nánustu aldrei meir.

..og þá er það frá en þetta var snúra dagsins.


Að lifa með alkahólisma

 61

Í gær voru liðnir 13 mánuðir frá því ég kom heim af Vogi eftir tuttugu daga dvöl.  Ég blogga ekki eins mörg snúrublogg og áður, en það þýðir ekki að ég sé ekki jafn upptekin við að halda mér í bata, vera ábyrg og heiðarleg gagnvart sjálfri mér og öðrum.  Mér er alltaf að mistakast annað slagið, en með hægðinni hefst það.

Ég er fædd undir lukkustjörnu, því ekki í eitt einasta sinn hef ég fundið fyrir löngun í áfengi eða lyf, sem voru mín kjörefni, eftir að ég varð allsgáð.  Dagarnir hafa verið mis góðir, mikið oftar góðir en slæmir reyndar og þegar verst hefur látið, þá hefur mig borið gæfu til að grípa til þeirra verkfæra sem tiltæk eru í viðhaldi batans.

Það var ekki hátt á mér risið þegar ég gekk inn á Vog, þ. 5. október 2006.  Samt fylgdi því léttir, sá léttir sem gagntekur mann, þegar ekkert er eftir annað en að játa sig sigraðan.  Ég sit uppi með afleiðingar minnar neyslu, eins og sykursýki og aðra hliðarsjúkdóma, en hvað?  Tertubiti, segi ég.  Nú er ég á insúlíninu, bláedrú og mínir verstu dagar komast ekki í námunda við þá skástu í neyslu.

Ég byði ekki í það hefði ég orðið virkur alki sem ung kona.  Held að ég hefði ekki borið gæfu til að rísa upp úr þeim ósköpum.

Þess vegna verð ég hræð og full aðdáunar þegar ég les bloggið hennar Kleó, en þar fer ung kona sem er ótrúlega þroskuð og hughrökk.  Hún er að vinna í sjálfri sér og jafnframt talar hún við unga krakka um sína reynslu.  Lesið endilega bloggið hennar.  Það er mannbætandi.  Kleó lifir í lausninni, það reyni ég að gera líka og það mættu fleiri taka til eftirbreytni.

Njótið dagsins.

Ég fer edrú að sofa í kvöld.

Það er ekki spurning.

Þetta er sumsé snúra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband