Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Byrgisperrinn dæmdur

Byrgisperrinn var að fá 3 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot.

Það er ekki degi of mikið þykir mér.

Ekki að ég sé svona heiftug og refsiglöð en þegar menn misnota fólk og börn í krafti trúar og valda þá þurfa skilaboðin að vera skýr.  Svona verður ekki liðið.

Svo má finna að því að ég skuli kalla hann perra.   Það verður að hafa það.  Fyrir mér er hann bara það.

En hann er ekki eini sökudólgurinn í málinu.  Það eru stjórnmálamenn sem létu hann valsa um á framlögum, þrátt fyrir að öll teikn væru á lofti um að ekki væri allt í lagi á kærleiksheimilinu.

Ég vil ganga svo langt að segja að trúfélög eigi ekki að vera með veikt fólk til meðhöndlunar.  Hvorki í meðferð eða á eftir.  Það kallar eimitt á svona misnotkun á fólki eins og hér er rauninn.

Fólk getur hoppað um allt í trylltu hamingjustandi með Jesú, en þar stoppar minn tolerans.

Ég fæ hroll við tilhugsunina um að þessum manni var treyst.  Sumir höfðu tekið hann í guðatölu.

Og ég fíflið var einu sinni á leið upp í Rockville til að gefa þeim peninga, af því ég féll algjörlega fyrir hinu "góða og fórnfúsa" starfi sem þar var unnið.

En í staðinn fór ég með monninginn niður á Her.  En þetta var um jól.

Í guðs friði.

Amen.


Nýtt Byrgismál?

Þessa dagana er mér beinlínis óglatt yfir fréttunum sem eru að berast um kynferðislegt ofbeldi.

Í Austurríki er villidýrið Frizl til umfjöllunar, hvert sem maður snýr sér.  Í smáatriðum fær maður fregnir af hvernig hann bar sig að, við að nauðga dóttur sinni.  Guð veit hvað fleira hann hefur á samviskunni þetta óargadýr.  En ég minni á að hann er ekki einn.  Það er þægilegt að halla sér að þeirri hugmynd að þessi maður sé verri en flestir.  Auðvitað er það rétt, hann hefur haft óvenjulangt úthald og djöfullega útsjónarsemi ásamt því að búa í þjóðfélagi sem kássast ekki mikið upp á nágrannann, en misnotkun á börnum er að eiga sér stað út um allt.

Ég þakka almættinu fyrir umræðuna sem hefur skapast hér í þjóðfélaginu og gerir óþverrunum erfiðara um vik að fela gjörningana.

Og nú er nýtt Byrgismál í uppsiglingu. 

Presturinn á Selfossi er farinn í frí á meðan mál hans er rannsakað.

Tvær unglingsstúlkur úr kórstarfinu hafa kært og tvær aðrar munu vera á leiðinni að leggja fram kæru.

Um þetta hef ég sem fæst orð.

Mér er bara alveg svakalega óglatt.


mbl.is Umkvörtun vegna sóknarprests barst kirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á hnén

Á hverjum sunnudegi, kvölds og morgna, að viðbættum helgidögum, glymja kirkjuklukkur um alla Reykjavík.  Ég bý við hliðina á einni og fæ klukkutónlist í eyrun, blásaklaus og algjörlega úr lögum við kirkjuna.  Ætti ég að fá mér lögfræðing, kæra til löggunnar, vera með kjaft og uppsteyt?

Nebb, sleppi því, heimurinn er ekki hannaður með sérþarfir mínar í huga.  Ég lifi því með klokkenspilinu, þrátt fyrir að þær byrji að klingja eldsnemma á morgnana. 

Ég sá og heyrði bænakallið sem er hljóðskúlptúr eftir Þórarinn Jónsson, myndlistarnema við LHÍ, í fréttunum í gær.  Krúttleg hugmynd.  Alvöru útkall í bænir hjá múslimum.  Mér fannst ögn skrýtið að heyra þetta í Reykvísku umhverfi, en verkinu er ætlað að varpa jákvæðu ljósi á múslímska trú.

Bænakallið hljómar fimm sinnum á sólarhring, eina mínútu í senn.  Það mun heyrast í viku.  Klukkan fimm í nótt vöknuðu einhverjir nágrannar og eru búnir að kvarta til lögreglunnar sem ætlar í málið. 

Ég segi róið ykkur og sýnið smá umburðarlyndi.  Rosaleg sérgæska er þetta í fólki að fara í símann og hringja í lögguna út af truflun sem er mínútulöng og tímabundin þar að auki.

Það má hugsa, liggjandi í rúminu, hálfsofandi: "Ok, svona hljómar bænakallið.  Ekki svo galið.  En mikið rosalega er huggulegt að vera bara trúlaus Íslendingur hér úti í ballarhafi og þurfa ekki að rífa sig upp til að henda sér á hnén núna um miðja nótt."  Og snúa sér svo á hina hliðina og sofna sætt og rótt.

Péess. Í staðinn fyrir trúlaus, má setja, heittrúaður, ofsatrúaður. smátrúaður, nærriþvíekkerttrúaður eftir þörfum.

Allah akbar.


mbl.is Kvartað til lögreglu yfir bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl í kápu og kjól

Þessi Benedikt páfakarl er að meika það bigg í Ameríku.  Merkilegt hvað fólk er yfirkomið yfir þessum karli í kjól og kápu (og lélegan skartgripasmekk) með vafasama fortíð.

Reyndar merkilegt að geta misst sig í hrifningarvímu yfir páfa svona yfir höfuð.  Það mætti halda að þessir karlar væru Beatles eða eitthvað.

Ég er ekki stútfull af umburðarlyndi gagnvart kaþólskri trú, til þess eru staðreyndir um margt misjafnt allt of margar.

Ég er alltaf að hallast að því meir og meir, að trúarsöfnuði, bæði litla og stóra, ætti að leggja niður.

Sjáið sértrúarliðið þarna í Texas, með konurnar í ljótu kjólunum, þar sem fjölkvæni viðgengst og saklaus börn veltast innan um þetta kolruglaða biblíuþyljandi lið.  Hvers slags samfélag er það sem lætur svona hluti grassera og ná hæstu hæðum í viðbjóði?

Kaþólskir prestar hafa misnotað börn í gegnum aldirnar, selt fátæku fólki syndaaflausnir frá Guði, rakað að sér fé, alið á hatri og fordómum, logið sig bláa í framan og verið minna heilagir en verstu kvikindi dýraríkisins.

Þjóðkirkjan, þessi sem við fæðumst inn í, og maður þarf að skrifa sig úr, þegar það ætti að vera á hinn veginn, viðheldur mannréttindabrotum og neitar að gera öllum meðlimum sínum jafn hátt (eða lágt) undir höfði.  Fokk og svínarí.

Nú er ég komin á skrið.  Öfgafullir múslímar eru líka stórhættulegir, en ég nenni ekki út í það mál núna, enda aðrir fullfærir í þeirri deild, svo ég segi ekki meir.

En Boston Legal er að byrja.  Nú er að sjá hvað Danny Crane gerir af sér þetta sunnudagskvöldið.

Ómægodd, hvað mér er uppsigað við trúarlega hræsnara.

Í Guðs friðiDevil


mbl.is Páfi heimsækir Ground Zero
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsröðun.

 congo_kids_congolese_children_children_of_congo

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég þarf að forgangsraða í lífinu.

Þá meina ég hugsunum mínum og upplifunum.  Setja þær í rétta röð.

Stundum finnst mér ég eiga ógeðslega bágt.  Það er auðvitað ekki í lagi.  Ég hef það fínt og þá er ég ekki að miða við neitt nema sjálfa mig.  Ef mér líður vel, er allsgáð, á mat að borða, þak yfir höfuðið börnin, barnabörnin og húsband eru hraust, þá hef ég allt sem ég þrái fyrir mína eigin hönd.

Peningar eru nauðsynlegir og ekki verra að eiga þá, þ.e. afgang til góðra verka, en þeir eru ekki upphaf og endir alls.

Þegar ég fer í sjálfsvorkunn þá er ég með flott ráð við því.  Það kemur mér niður á jörðina og ég mæli með því.

Ég fer inn á netið og skoða hvernig almenningur hefur það í fátækum löndum heimsins, sem vestræn lönd hafa mergsogið reyndar.  Ég minni mig á öll götubörnin í heiminum sem eru seld undir þvílíka mannvonsku að það er varla hægt að horfast í augu við það.

Áður en ég er öll myndi ég gjarnan vilja gera eitthvað.  Eitthvað meira en að borga með einu barni í Úganda.  Heimurinn hefur skroppið saman og það er ekki lengur hægt að bera við fáfræði á högum annarra. Er þá ekki eðlilegt að við förum og tökum ábyrgð hvert á öðru?  Ekki bara við sem einstaklingar, heldur þjóðin öll.  Allar þjóðir.

Það varnar mér svefns, svei mér þá, hið fullkomna afskiptaleysi ríkra þjóða á mannlegum hörmungum í kringum okkur.

Og í ljósi þess að stundum hefur mér fundist lífið helvíti erfitt, þá hefur það í raun aldrei komist í tæri við hugtakið, ef maður setur það í víðara samhengi.

Ég hef það svo helvíti gott, þrátt fyrir misvitra stjórnmálamenn á egóflippi og sjálfsdýrkunarfylleríi. 

En það er bara ekki nóg.  Við eigum að taka ábyrgð hvort á öðru.

Og ég meina það.

Þá er að finna út úr því hvað ég get gert.

Hugs.


Brúðir Krists

Ég er ekki höll undir kaþólska trú, og reyndar ekki undir nein trúarbrögð svona yfirhöfuð, þannig að ég ætla ekki að fara mæra hana, aldeilis ekki.  Fyrr dett ég dauð í gólf.

En þessar nunnur, sem eru búnar að vera hérna frá því 1952 eru algjörar dúllur.

Samt finnst mér sorglegt að einhver gangi um og trúi því að lífinu sé best lifað í ektastandi með Guði almó.  Það er eitthvað svo snubbótt.

En ég skil ekki allt og þó ég nái ekki þessu elementi í fólki sem "gefur" sig Guði á meðan það er enn í jarðvist, þýðir auðvitað ekki að það sé ekki bara í góðu.   Þannig að ég er ekki að fordæma eitt né neitt.

Mig rámar í mynd um nunnu með Audrey Hepburn, sem ég sá í Nýja Bíó þegar ég var 10 ára og það grét allt bíóið.  Ég líka.  Þá man ég eftir að mér fannst þetta nokkuð fýsilegur kostur, þ.e. að vera bara einn og sjálfur með Drottni í botni, enginn eldri maður um tvítugt myndi fokka upp lífi manns um leið og gelgjunni slægi inn.

Þetta átti eftir að breytast snarlega og ég hef skilið minna og minna í trúarbrögðum eftir því sem ég verð eldri.

Er það þroska- eða vanþroskamerki?  Ég hallast að báðu.

En þessu nunnukrútt eru örugglega búnar að gera helling til góðs í Stykkishólmi.

Fari þær í Guðs friði.

Amen.


mbl.is Gaman að koma en ekki að fara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múslimar og kvennakúgun

burka_graduation

Ég horfði á sænsku heimildarmyndina "Det svider í hjärtat" í kvöld á RÚV.  Hún fjallaði um unga múslima á Norðurlöndunum, aðallega þá sænsku, og möguleg tengsl þeirra við hryðjuverkasamtök.  Einnig var reynt að komast til botns í því hvað veldur, að strákar úr þessu umhverfi þrá það eitt að deyja píslarvættisdauða.

Þessi mynd stóð ekki undir mínum væntingum og svaraði svo sem engu, en hún var athyglisverð eigi að síður.  Það var fylgst með ungum manni frá Gautaborg sem hafði verið í afbrotum en tekið múslímska trú.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ástæða þess að ég fór að blogga um þetta, tvö "örlítil" atriði í myndinni.  Kona ætlar að heilsa Lennart hinum trúaða, með handabandi en hann setur höndina fyrir aftan bak og konan segir fyrirgefðu!!!

Hann getur ekki tekið í höndina á konu. Konan óhrein, óæðri.  Fyrirgefðu hvað?  Erum við að tapa okkur í aðlögunarhæfni hérna?

Hitt atriðið er úr íbúð sama manns, hann fer með mat inn í herbergi til konu sinnar, sem hann segir trúaða og geti þess vegna ekki verið í herbergi með ókunnugum karlmönnum.  Þetta gerist í Gautaborg dagsins í dag, rétt hjá þar sem ég bjó, gæti verið hérna í Breiðholtinu bara.

Ég er svo klofin í þessu máli.  Ég vil skilja og virða öll trúarbrögð á meðan þau standa ekki fólki fyrir þrifum, meiða og skemma.  Ég get aldrei, þó ég lifi til eilífðar, skilið að fólk geti lifað eins og ekkert sé og látið það vera hluta af lífssýn sinni að konur og stúlkubörn séu minna virði og réttlausari en karlmenn.

Ég missi gjörsamlega kúlið og víðsýnina og verð bálreið og pirruð.  Mér finnst það vont.  Það er alls ekki hlaupið að því að sýna umburðarlyndi þegar svona er í pottinn búið. 

Ég get svo sem ekki gert annað en að andvarpa yfir örlögum kynsystra minna í múslímskum löndum en hvað með okkur hér á Vesturlöndum?  Trúfrelsi er eitt en hvað með jafnréttislög?  Er það mögulegt að við sjáum konur með búrkur á Íslandi áður en langt um líður?  Væri það leyfilegt undir merkjum trúfrelsis eða skarast kvennakúgun trúarbragðanna á við landslög?

Andskoti sem þetta liggur þungt á mér.

Einhver?

En ég er samt alveg í því að vera umburðarlynd, en því sleppir algjörlega þegar kvennakúgunin ullar framan í mann og það frá minni elskulegu Gautaborg.

Arg.


Áfallakvóti Jennýjar Önnu

Ég er viðkvæm í dag, enda lasin.  Leggst ekki vel í undirritaða.  Ég hef verið að hugsa (já huxdagur hér á bæ, hvern fyrsta virkan dag eftir páska) um lífið og tilveruna, tilganginn og getuna til að takast á við það.  Ekki lítið verkefni, ég veit það en svona er þetta stundum.

Kveikjan að hugsinu var grein í visi.is um ungbarnadauða.  Þið sem þekkið mig vitið að það kemur ekki vel við mig.

Ég kann ekki vel að safna, nema lífsreynslu auðvitað, upp á gott og vont.  Enginn fer varhluta af áföllum í lífinu, þau eru mismörg eins og gengur, sum ásköpuð, sum ekki. 

Þegar mín persónulegu áföll hafa riðið yfir hef ég haldið, í fullri alvöru, að þetta gæti ég ekki höndlað, alls ekki, ég myndi ekki hafa það af.  Ekki séns að ég gæti hafið mig upp á lappirnar að þessu sinni og allur þessi pakki sem fer í gang þegar lífið verður erfitt.  En ég er ekki öðruvísi en annað fólk (eins gott að muna það svo mér slái ekki niður af spesveikinni), það er ekki um annað að ræða en að rísa á fætur og þvæla sér í gegnum lífið.  Það er nákvæmlega ekkert hetjutengt við að komast af úr áföllum, það eru engir aðrir kostir í stöðunni.  Þess vegna fer hetjutalið svolítið fyrir brjóstið á mér.

En svo sit ég hér, á fínum aldri, allt að því hortug og glottandi (ýkjur), af því að ég eins og svo margir aðrir á undan mér, náum okkur eftir áföllin.  Við byrjum að brosa á ný, getum gert grín að sjálfum okkur í dramatíkinni sem á undan er gengin og allt er eins og það á að vera.

Svo er það kvótinn.  Kvóti á manneskjulega harma.  Þegar barnabarnið mitt dó argaði ég á guð og mér fannst að hann hafi farið vel yfir mörkin, varðandi mig og mína fjölskyldu.  Svo rann það upp fyrir mér að það er enginn áfallakvóti til og guð var ekki merkjanlegur í áfallateyminu.  Þá gerðist ég sjálfstætt starfandi áfallafrömuður og leit til sjálfrar mín og stöku fagmanna í baráttunni við lífið.

Það er kannski þess vegna sem ég er öruggari með að höndla möguleg áföll framtíðarinnar.  Minn persónulegi guð er auðvitað með í myndinni, en ég er arkitektinn, skemmtanastjórinn og dyravörðurinn og vei þeim sem ætlar að vera með vesen við heilaga þrenningu.

Ég veit, hugsanir geta kallað á eitthvað, en hvað get ég sagt?

Lagið um minn einka guð er hér og lagið er flutt af dauðlegum manni.

 


Pólverjar vs Pólverjar vs Íslendingar

Pólsk glæpagengi vaða uppi og kúga samlanda sína með ofbeldi, ráðast inn á heimili þeirra og stórslasa heimilisfólkið.

Mér er sama hverrar þjóðar löghlýðnir borgarar eru, þeir eiga rétt á friðhelgi einkalífsins og að vera öruggir innan veggja heimilisins.

Þess vegna má það einu gilda á hvern glæpagengið ræðst, en auðvitað er þetta vatn á myllu þeirra sem vilja ekki útlendinga á Íslandi nema þá norræna menn og túrhesta.

En mikið vildi ég sjá þessa glæpagengismenn hent úr landi.

Ég vildi reyndar sjá á bak öllum ofbeldismönnum frá landinu, hverrar þjóðar sem þeir eru.

Ofbeldislaust Ísland, nokkuð göfugt markmið.

En þannig gengur það ekki.

Flestir útlendingar sem hér vinna, oft fyrir lélegt kaup og lélegan aðbúnað, eru heiðarlegt fólk og hafa bjargað fyrirtækjum fyrir horn, þegar Íslendingar hafa ekki fengist í vinnu.

Við ættum að hafa það í huga og ráðast ekki að heilu þjóðarbrotunum vegna undantekninganna.

En undantekningarnar mættu fara til fj.... fyrir mér.  Og allar þær íslensku með þeim.

Svo var nú það.


mbl.is Pólsk glæpagengi herja á aðra Pólverja hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hipp og kúl um allan heim

Utanríkisráðherrann er nú á leið til Barbados.  Til hvers veit ég ekki, væntanlega til að kynna framboð Íslands til öryggisráðsins.

Ég segi til fjandans með það hégómaframboð. 

Það má skýla sér á bak við þetta framboð alveg endalaust.

Íslend virðist ekki geta fordæmt hegðun Kínverja gagnvart Tíbetum út af því.

Mig grunar nú reyndar að þar sé verið að vernda hagsmuni fjármálageirans.  Það er svo hipp og kúl að fjárfeta í Alþýðulýðveldinu.

Frrrrrrusssssssssssssss

Nú leita Kínverjar dauðaleit að þrjátíu mönnum sem þeir segja að hafi verið forsprakkar mótmælaaðgerðanna í Lhasa.

Það þarf ekki kjarneðlisfræðing til að reikna út örlög þessara manna ef/þegar þeir nást.

Mér er óglatt.

Ég held að við ættum að taka til hérna heima, þar sem allt virðist á niðurleið og eyða minni peningum í snobbheimsóknir út um víðan völl með tugi manna í sendinefndum.

Það er þetta með arfann í garði nágrannans.

Og svo vil ég ekki sjá að íslenskar konur, hvorki ráðherra né alþingismenn, skelli á sig höfuðklútum til þóknunar löndum eins og Afganistan, þar sem meðalaldur kvenna er 44 ár, vegna heimilisofbeldis.  Það hlýtur að vera önnur og betri leið til að sýna samkennd og skilning.  Eða hvað?

Halló vakna!

En ISG er samt ein af mínum uppáhalds.

"The more the pity"

Og hananú.


mbl.is Hótað hörðum refsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.