Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég með lífverði eftir þetta blogg?

Hm, mér finnst ástandið á landinu verða æ farsakenndara.

Geir er með lífverði.  Kannski nauðsynlegt, ég skal ekki segja, en ég er á því að dauðadrukkinn Fellini hefði aldrei náð stemmingunni á Íslandi í dag á filmu.  Honum hefði hreinlega skort ímyndunarafl.

Þegar ég horfði á Kiljuna á miðvikudagskvöldið og sá viðtal Egils við Orra Harðarson vin okkar vegna bókar hans, Alkasamfélagið sem var að koma út, spurði Egill hvort Orri héldi að hann yrði barinn af meðlimum AA-samtakanna en Orri gagnrýnir hugmyndafræði þeirra harkalega í bókinni.  Orri gerði lítið úr því en mér sýndist hann brosa út í annað.

En kannski þarf Orri líka lífverði nú eftir að bókin er komin í búðir eða ég þar sem ég tek undir nánast allt í þessari merkilegu bók sem ég er búin að lesa spjalda á milli.

Orri skefur ekki utan af hlutunum.  Jafnvel hún ég fór í keng og köku þegar hann gagnrýnir upphafsmenn þeirrar hugmyndafræði sem veður uppi í ákveðnum samtökum og ganga að mínu mati þvert á alla skynsemishugsun.

Orri er frábær stílisti.  Sjálfsíronía hans er með þeim hætti að maður veinar úr hlátri þrátt fyrir sorglega umfjöllun höfundar um skelfilega upplifun sína af sjúkdómnum alkóhólisma.

Ég ætla ekki að tíunda hugmyndafræði leynisamtakana enda þarf ég þess ekki. 

Og ekki ætla ég að gera lítið úr því að fjöldi manna og kvenna finna þar aðstoð.

En ég hef eftirfarandi skoðun á hvernig ég vil vera edrú.

Ég viðurkenni að ég get ekki drukkið brennivín eða notað önnur hugbreytandi efni.

Algjört bindindi og sjálfsvinna með góðum slatta af heilbrigðu líferni er útgangspunkturinn.

Ég hafna því alfarið að máttur æðri mínum eigin geri mig heilbrigða og haldi mér þar.

Ég fer þá leið að leita mér lækninga á viðurkenndri heilbrigðisstofnun sem til þess er bær og síðan tek ég ábyrgð á mínum sjúkdómi.  Ekkert hanky panky þar.

Ef mér fer að líða illa þá er til urmull sérfræðinga með reynslu og menntun til að aðstoða mig til að ná aftur góðri líðan.

Í bók Orra segir frá því að í meðferðarbatteríi LSP sé trúarkuklið út úr meðferðarmyndinni og þar sé stunduð hugræn atferlismeðferð sem tæki til bata.

Hvar hef ég eiginlega verið?

Ég hef mikla trú á þeirri aðferð í meðferð geðsjúkdóma og ekki spurning að ég myndi nýta mér hana í baráttu við Bakkus.

En ég læt þetta duga í bili.

Vonandi á eftir að verða umræða í þjóðfélaginu um nýjar leiðir til bata. 

Halló, valkostir í meðferð eru bráðnauðsynlegir hlutir.

Og getum við plís haldið guði fyrir utan, ef hann er til þá er ég nokkuð viss um að hann er alveg þreyttur á alkavaktinni og hugsar: Djísús, til hvers haldið þið að þið séuð með heila bjánarnir ykkar?

Ég afþakk algjörlega þá ömurlegu stöðu að vera óvirkur og gagnrýnislaus móttakandi bata frá heilögum anda, guði, Jesús eða öðrum ósýnilegum.  Enda hefur það sýnt sig bæði á mér og öðrum að það er ekki á vísan að róa á þeim sjó.

Alkar líkja oft sínum sjúkdómi við sykursýki.  Ég er með hana líka og það er án gríns alveg jafn glórulaust að standa í meðferðarbandalagi við guð í alkóhólismanum og í insúlíndæminu.

Ég gæti þá rétt upp hönd alveg; guð sjáðu um insúlínið ég nennessuekki.

Það er svo sorglegt að gefa frá sér forræðið á sjálfum sér.

Já og góðan daginn.

Ég er edrú í boðinu. 


mbl.is Lífverðir gæta Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"We will ensure you" eða "we will screw you"?

Ég er að reyna að skilja atburðarásina hérna varðandi þennan svakalega misskilning milli Darlings og Árna M. Mathiesen.

Upp er komin upp alvarleg milliríkjadeila á milli landana og hana má rekja til símtals þessara tveggja manna að mér skilst.

Annað hvort hefur Árni sagt eitthvað allt annað en hann segist hafa sagt eða þá að hann er ekki sleipur í ensku.

Sagði Árni; "We will ensure you"  og Darling hefur ekki alveg náð Bjarkarframburði fjármálráðherrans og gefið dauðann og djöfulinn í að hann hafi sagt "We will screw you"?

Ég er eiginlega nokkuð viss um að þarna liggur hundkvikindið grafið.

Annars er þetta orðinn slíkur farsi að léleg bíómynd er ekki einu sinni sanngjörn samlíking.

Fyrirgefið en ég get ekki borið virðingu fyrir forsætisráðherra sem lætur eftir sér að nota orðið "dóni" og "fífl" um blaðamann sem honum finnst ekki sýna sér nægilega tillitsemi og lotningu og gerir það í hljómnemann í þokkabót þannig að það heyrist í steríó út um allan sal.

Halló hver er fífl hérna?

Án gamans þá er ástandið eldfimt og þessir talsmenn okkar með stöðuga blaðamannafundi verða að læra að tala varlega.

Mig langar ekki til að vakna við það í býtið í fyrramálið við að landher hennar hátignar Elísabetar Englandsdrottningar stigi hér á land og taki alla landsstjórnina höndum og færi í böndum til London.

En til vara EF það gerist þá mega þeir kippa stjórn Seðlabankans með.

Þá ættum við að geta farið að greiða úr þessum vandræðum.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiting æðruleysisorðunnar

Rosalega er Gordon Brown vanstilltur og taugaveiklaður stjórnmálamaður.

Hvað á það að þýða að fara fram með þessum hætti?

Hann hræðir líftóruna úr breskum sparifjáreigendum án þess að mál séu komin á hreint.

Ó, ég gleymdi, hann er í vondum málum vinsældarlega séð.

Hann hefði mátt telja upp að tíu karlinn áður en hann fór að hrópa, súsúsú.

En að annarri og öllu kvalarfyllri vanstillingu.

Ég finn til inn að innstu hjartans rótum með þingmönnum Samfó.  Þeir eru svo brímandi brjálaðir út í Davíð Oddsson fyrir gasprið í honum í Kastljósinu í gær, sem reyndar orsakaði nærri því heví milliríkjadeilu milli okkar og Breta, að þeir eiga erfitt með að sitja á sér í viðtölum.

Ég vil sæma þá Árna Pál Árnason og Lúðvík Bergvinsson, æðruleysisorðu þessarar síðu fyrir aðdáunarverð kúlheit í viðtölum núna áðan, Árni Páll hjá Íslandi í dag og Lúðvík hjá Helga Seljan.

Þeir komu því samt ágætlega frá sér hvað þeim fannst um framgöngu Davíðs, þeir gátu bara ekki blótað ærlega í fréttunum.

Karlinn verður auðvitað að fjúka.  Áður en einhver fer fram með vopnavaldi gegn íslensku þjóðinni.

En nú kemur að smá tjilli.  Það er ekki hægt að hugsa bara um fjármálabömmera allan daginn.

Kiljan er á eftir.  Það verður talað við Orra Harðar um nýju bókina hans Alkasamfélagið sem ég hef reyndar bloggað um áður.

Og svo verður fjallað um Stein Steinarr ofkors.

Svo fer ég fram á jákvæðar fréttir á morgun.

Sounds like a plan?

Úhújeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee

Sjá nánar um Kiljuna.

 


Alls konar sensasjónir

Hvar eru mennirnir sem standa að Icesave?

Af hverju standa þeir ekki vaktina og tala við fjölmiðla.  Útskýra hvað er í gangi?

Ég vissi ekki að íslenska ríkið væri ábyrgt fyrir sparifé breskra reikningseiganda í Icesave.

En það er ekki að marka, ég veit fjandann ekki neitt.

Það er leiðinlegt til þess að vita að íslenskur almenningur er nú úthrópað ótínt þjófapakk í útlöndum.

Blásaklaust eftir því sem ég best veit.

Ég gefst upp á að skilja þetta fyrirkomulag og ætla út að fylgjast með fiðrildunum í garðinum.

Þau eru að drepast í hárri fiðrildaelli þessir ræflar.

Þá lífsins sensasjón skil ég þó að einhverju leyti.

Dæs.

Ég flokka þetta fjandinn hafi það undir Landsbankadeildina.Pinch


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landstjórnin í Kastljósi

Þessa dagana vakna ég með örlítinn sting í maganum á hverjum morgni.

Hvað hefur gerst frá því ég lagði mig? 

Í morgun var búið að taka Glitni á sama hátt og Landsbankann.

Heimurinn er að ganga í gegnum miklar breytingar.  Græðgipólitíkin hefur beðið skipbrot.

Ég hef á tilfinningunni að ofvöxturinn á þjóðarlíkamanum sé sprunginn, sárið opið en heilunin er hafinn og það svíður helling.

Með illu skal illt út reka.

Svo var "landstjórnin" samankomin í einum manni í Kastljósinu í gær.

í Davíð Oddssyni myndbirtist hin mannfjandsamlega pólitík undanfarinn áratug eða lengur.

Mér fannst Sigmar standa sig ágætlega í að tala við Davíð, þó auðvitað hefði ég viljað dýpri spurningar sumstaðar.  En ég dáist að Sigmari.  Ég myndi ekki þora að anda upp úr mér orði við Doddson, hann er svo áktoríter eitthvað.  Enda hleypti hann spyrlinum sjaldan að.

Ég hef fylgst með DO frá því hann var í borginni og í gegnum landspólitíkina og mér virðist, guð fyrirgefi mér, að enn hafi hann töglin og hagldirnar.

Nú þegar ruglið í peningadrengjunum sem lengi vel hafa verið þjóðarhetjur á lystisnekkjum hefur keyrt okkur í það ástand sem við nú búum við finnst mér tími til kominn að skipta um fólk í brúnni.

Það er ekkert persónulegt, það er einfaldlega kommon sens.

Mitt eigið kommon sens segir mér að Davíð Oddson sé ekki fórnarlamb aðstæðna.

Að þetta peningarugl hafi verið mögulegt vegna hans þátttöku og þá meina ég ekki Davíð einan og sér heldur pólitíkina sem hann og félagar hans hafa rekið hér undanfarin áratug eða lengur.

Það hlakkar ekki í mér vegna ástandsins, svo sannarlega ekki enda erum við þessa dagana öll í sama bát.

En ég vil breytingar.  Fólk verður að taka ábyrgð og þar sem ég sá ekki betur í Kastljósinu (og undananfarið reyndar) þá er Davíð sá sem ræður og þá væri lag að byrja á að fá inn mann fyrir hann.

Svo koll af kolli.

Ég hins vegar er nokkuð jákvæð á að nú getum við íslenskur almenningur brett um ermarnar og tekið á.

Við höfum gert það áður.  Við erum töff í mótlæti.

Amen að eilífu.

Og að gefnu tilefni.  Hér hefur verið sett inn linkur í kommentakerfið þar sem hvatt er til undirskriftar um hvatningu á að DO segi af sér.  Erum við á leikskóla?  Þetta er ömurlegur gjörningur sem mér skilst að líti ekki fallega út á prenti.

Ekki agítera fyrir svona hallærisgjörningi á minni síðu.

LÁRA HANNA ER SKYLDULESNING.

 


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússkí urzad nadzoru finansów - WHAT???????

Við erum í sjokki við landsmenn.  Vel flest okkar sem komin erum til vits og ára erum svolítið ráfandi um eftir öll ósköpin sem hafa dunið yfir okkur undanfarið. 

Bara svo við séum með það á hreinu og hér er katastrófan færð til bókar.

En ég hélt að ég væri að tapa glórunni endanlega þegar ég í sakleysi mínu las Moggann í þessum skrifuðum orðum.

 Przyjęto ustawę o sytuacji wyjątkowej – kurs korony ustabilizowany tymczasowo
6 października parlament przyjął ustawę o sytuacji wyjątkowej z uwagi na szczególne okoliczności na rynku finansów. Ustawa już jest ważna.

Zgodnie z tą ustawą państwo ma prawo interweniować w działalność banków, funduszy oszczędnościowych i innych przedsiębiorstw finansowych a także zarządzać tymi przedsiębiorstwami finansowymi. Urząd nadzoru finansów ma prawo przejąć prowadzenie banków w całości lub częściowo. Fundusz hipoteczny może przejąć pożyczki hipoteczne banków.

Rząd oznajmił, że stan rachunków w bankach krajowych, funduszy oszczędnościowych i ich filii w całym kraju są w pełni bezpieczne. Filie banków na Islandii, usługi informacyjne, bankomaty i internetowa sieć bankowa są otwarte. Nadal możliwe jest ubieganie się o pożyczki i o udzielenie dokumentacji o przekroczeniach stanu konta. Dokłada się wszelkich starań do tego, aby klienci banków odczuwali w jak najmniejszym stopniu te zmiany, które zaszły.

Prowadzone są działania mające na celu wzmocnienie kursu korony islandzkiej i doprowadzenie do stabilności spraw związanych z kursem walut i poziomem cen. Bank Centralny (Seðlabanki) ustabilizował tymczasowo kurs korony na poziomie wkaźnika kursu 175, co odpowiada 131 koron w odniesieniu do Euro.

Informacje będą opublikowane od razu na stronie internetowej Centrum Międzynarodowego Alþjóðahús (z uwzględnieniem czasu przeznaczonego na tłumaczenie): www.ahus.is

Spennandi eða hvað?

Getur verið að við höfum verið að afsala sjálfstæðinu og tungumálinu fyrir rússagullið?

Jösses, ætli þetta sé ekki í fyrsta og eina skiptið sem Mogginn flytur fréttir á rússkí?

Vona það.

Ég hundskammast mín "nottla" fyrir að þekkja ekki muninn á rússneku og pólsku.

Ég mun ekki tala orð við sjálfa mig næstu dagana.


mbl.is Przyjęto ustawę
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokkmerkið

 bush-finger%202

Það hlýtur að vera sárt fyrir þá sem hafa trúað því inn að innstu hjartans rótum að Bandaríkjamenn væru vinir Íslands.

Það hlakkar alls ekki í mér, svo langt því frá, að annað hefur komið á daginn.

Mér hefur reyndar alltaf fundist að vinátta Kana sé algjörlega í réttu hlutfalli við notagildi "vinanna".

Ég sá Össur bálreiðan í viðtali í Stöð 2 þar sem hann segir að Bandaríkjamenn hafi sent Íslandi fingurinn.  Því til áréttingar sýndi ráðherrann okkur fingurinn, sár og dapur.

Ég held að svipað megi segja um Rússa og vináttu.  Að þeir séu ekki skömminni skárri en hin stórþjóðin.  Notagildið er mælikvarðinn á vináttuna þar líka held ég.

En af einhverjum orsökum vilja þeir lána okkur, amk. lítur allt út fyrir það.

Þá hneigir maður sig bara og segir takk kæru kammíratar.

Bandarísk valdapólitík sökkar eins og hún hefur alltaf gert.

Ekkert nýtt þar á bæ.


mbl.is Þurfum að leita nýrra vina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er forgengilegt í henni veröld

Ég er ein af þeim sem held ekki vöku minni.  Ég fell alveg fyrir kjaftæðinu um að ástand sé komið til að vera, að ekkert geti unnið á íslenska efnahagsundrinu, svo dæmi sé tekið, þrátt fyrir að þetta sama undur hafi aldrei komið í nálægð við mig.

En peningageðveikisfylleríinu er lokið.  Í bili að minnsta.  Er það ekki bara alveg ágætt?

Svo brosti ég út í annað þegar ég sá þessa frétt sem Mogginn hefur úr Jyllands-Posten, en þar er leitt að því líkum að Danir muni jafnvel fjölmenna hingað til jólagjafainnkaupa vegna gengishrunsins.

Þá gera þeir það.  Eins dauði er annars brauð og ladídadída.

En er það ekki merkilegt hvað hlutirnir geta breyst hratt?

Hvað allt er forgengilegt í henni veröld?

Það virðist hafa verið í gær eða fyrradag þegar Geir og Solla tóku einkaflugvélina á Natófundinn.  Alveg; við erum ríkir bastarðar vér Íslendingar.  Svo var ullað á almenning.

Ennþá styttra er síðan Þorgerður Katrín (sem ég held upp á, róleg hérna) fór tvær ferðir til Kína með mann og mús.  Nóg af seðlum, ekki vandamálið.

Það er heldur ekki langt síðan að maður hlustaði á hverja ræðu Óla pres eftir aðra sem voru svo uppfullnar af sjálfhælni á íslenska þjóð sem var náttúrlega betri, stórari, klárari en aðrar þjóðir.  Og allir alveg: Já, hann hefur nokkuð til síns máls.

Það virðist ekki svo ýkja langt síðan heldur að ég og fleiri höfðum efni á að pirra okkur á lúxusvandamálum eins og því að auðkýfingarnir (í þátíð?) voru að byggja með aðstoð þyrlna á Þingvöllum.  Ekki að það sé ekki fullkomlega réttlætanlegt að gagnrýna það, en vá hvað það átti eftir að minnka sem valid umræðuefni.

Ég man helling af eyðslusögum bæði af ráðamönnum og peningamógúlum.  Ég tók þessar sem smá dæmi.

Ég fer nú ekki út í að rifa upp sleikjuganginn, sérmeðferðina og gagnrýnislausa aðdáunina á bankaköllunum eða drengjunum, sem nú hefur komið í ljós að voru framhliðin ein.  Ekki mikil innistæða fyrir öllum milljónagreiðslunum sem þeir fengu t.d. bara við það að færa sig á milli stóla í sama póstnúmeri.

En pointið með þessari færslu er að það er aldrei á vísan að róa.

Þess vegna brosi ég framan í framtíðina.

Við gætum orðið olíuþjóð á morgun.

Hver veit?

Ha?


mbl.is Til Íslands í innkaupaferðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamstranir og afmælisbarn dagsins

Ég vakna alltof snemma.

Klukkan rúmlega sex var ég komin fram og farin á netmiðlana.

Nú tek ég á þessu rugli í sjálfri mér.  Ég breyti engu með þessari óbeinu þátttöku í efnahagsmálum.

Mér væri nær að fara og eyða peningum.

Segi svona.

Hvað var Bónusmaðurinn að hvetja fólk til að hamstra?

Er ekki í lagi hjá manninum?  Þetta er nú beinlínis framlag til hóptaugaáfalls.

Ekki að ég hafi hlaupið út og keypt inn í gámum en ég get ímyndað mér að barnafjölskyldur hafi orðið órólegar.  Það þarf að vera til matur handa blessuðum börnunum og þetta er illa gert.

br

En að dásemd þessa dags.

Fyrir 28 árum síðan fæddist litla barnið mitt hún Sara Hrund.

Hún er með hjarta úr gulli, hún er fyndin, skemmtileg og dugleg í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Ég er svo stolt af þessari stelpu sem hefur sigrast á lesblindunni sinni og er nú í einu og hálfu námi til stúdentsprófs með tvö lítil börn.  Reyndar á hún yndislegan mann sem tekur sinn hluta af pakkanum, en Saran lætur ekki stoppa sig í að ná markmiðum sínum, það er nokkuð ljóst.´

Elsku Saran mín, við óskum þér innilega til hamingju með daginn. 

Mamma þín þarf áfallahjálp.  "Litla barnið" hennar er komin fast að þrítugu.

Það gerir mig hundgamla.

Enn og aftur, til hamingju með daginn þinn elskan mín.Heart

Ég er farin í rúm. 

Heimurinn verður að klára sig rétt á meðan ég hvílist.

Dæs.


mbl.is Bankar verða opnaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu ekki að kidda okkur?

Hafið þið heyrt um stílbrot, stemmingsmorð, antiklæmax?

Gísli Marteinn; ertu ekki að fokking kidda okkur?

"Framundan eru erfiðir tímar og ég vona svo sannarlega að forsætisráðerra haldi áfram að tala beint við okkur um ástandið og að við bregðumst ekki traustinu og gerum það sem í okkar valdi stendur til að þreyja þorrann og góuna. Svo komum við eldri og þroskaðri undan vetri, hvenær sem honum lýkur."

Jájá, ég mun djöflast þar til ég blána í framan til að bregðast ekki trausti forsætisráðherra.

Á hvaða landsfundi frelsaðist þú góurinn?

Fórstu öfugumegin fram úr drengur?

Mér sem fannst þú svo mikil dúlla.

Pistillinn allur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2988611

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband