Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hingað og ekki lengra!

"Fjármagn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) getur mögulega lánað Íslendingum er ekki talið nægja til að fullnægja fjármagnsþörf Íslands, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Því er talið að IMF muni t.d. ekki leggjast gegn því að Ísland taki lán í Rússlandi."

Ég veit ekki með ykkur en stærð vandamálsins er að ná nýjum hæðum, eða kannski er ég að taka þetta inn af fullum þunga þessa dagana.

Sukkgreifarnir eru búnir að koma málum þannig fyrir að við íslenskur almenningur sitjum uppi með fjármagnsþörf í upphæðum sem eru svo stjarnfræðilega háar að við getum ekki meðtekið tölurnar nema upp að ákveðnu marki.

Hvernig gat þetta farið svona?  Ég og allir sem ég þekki spyrja sig stöðugt þessarar spurningar.

Látum okkur sjá, í allt vor og sumar var ríkisstjórnin á fjölmiðlaflótta og svaraði engu, nema með skætingi og útúrsnúningum í besta falli.  Þeir höfðu greinilega ákveðið að gera ekkert, segja ekkert.  Fólk sem gekk á eftir svörum eins og Sindri Sindrason hjá Markaðnum á Stöð 2 var kallaður dóni fyrir bragðið.

Nú vitum við að skýrslu sem Willam Buiter, prófessor í London School of Economics, var fenginn ásamt samstarfskonu sinni til að gera um orsakir efnahagsvanda Íslands og íslensku bankanna gerði grein fyrir alvarleika ástandsins. Þau skiluðu skýrslunni af sér í lok apríl og kynntu lítillega uppfærða útgáfu á fundi hér á Íslandi 11. júlí.

Skýrslunni var haldið leyndri því hún var of viðkvæm fyrir markaðinn.  Náið þið alvarleikanum í málinu?

Staðreyndir málsins eru einfaldlega þær að það hefur verið vitað um komandi hrun bankanna um fleiri mánaða skeið og ekkert verið aðhafst.

Mér kæmi ekki á óvart að á þessum tímapunkti hafi greifarnir hafið útflutning á fjármunum til staða þar sem erfitt er fyrir ríkið að koma höndum yfir þá.

Ég finn ekki til samkenndar með íslenskum stjórnvöldum sem hafa flotið sofandi að feigðarósi, né heldur hef ég samúð með flottræflunum.

Ég er hins vegar hvítglóandi af bræði. 

Ætlar ríkisstjórnin, stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitið bara að tjilla áfram í djobbinu eins og ekkert hafi gerst?  Að það hafi orðið smá dómgreindarskortur sem sé vart til að gera veður út af og halda síðan áfram með "buisness as usual"?

Nú stendur það upp á okkur almenning í þessu landi sem hefur verið dreginn inn í þessar hörmungar algjörlega að ósekju, að setja niður fót.  Hingað og ekki lengra!  Nú er komið nóg.

Þeir sem þykjast yfir það hafnir að vilja draga menn til ábyrgðar geta þá svifið yfir rústunum í greddulausu algleymisástandi háheilagleikans, sama er mér.

Ég vil uppgjör og ég vil nýja tíma, nýja siði og nýjar áherslur á Íslandi.  Að þessu sinni vil ég græðgina og óheiðarleikann, bræðrabandalagið og allar hinar valdaklíkurnar út úr myndinni.

Heyriði það?

(Ég hef stuðst við upplýsingar frá Láru Hönnuvarðandi skýrslu Buiter).

Hér er færsla Egils Helga um skýrsluna.


mbl.is Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mín viðkvæmu móment

 751966

Nú tala ráðamenn um að við þurfum öll að standa saman.  Öll sem eitt,  að við séum í sama bát.

Fíflið ég átti viðkvæmt móment í síðustu viku og féll fyrir hjalinu í körlunum í væmnikasti og er síðan búin að vera eins og hinir, apandi þetta blaður um samstöðu í fleiri daga í röð.

Mín viðkvæmu móment eru hættuleg.  Þegar þau slá mig í höfuðið missi ég rökhugsun og fell fyrir kylliflöt fyrir blekkingum.

Dæmi: Einu sinni var ég á markaði á Spáni, þar var sölumaður með sjónhverfingar og sýndi merkilegan eldhúshníf sem spændi upp agúrkur og lauka í dásamlegar jafnþykkar sneiðar.

Mómentið sló mig í hausinn ég keypti hnífinn og það eina sem ég spændi upp var góður hluti af fingrinum á mér. 

Það er þetta sem ég á við þegar ég tala um viðkvæm móment.  Þau hafa verið nokkuð blóðug í mínu tilfelli.

Ég held að það hafi verið Björgvin G. sem seldi mér samstöðuboðskapinn í viðtali við einhvern í síðustu viku.

Í morgun tók ég síðan upp á því að hugsa af eigin hvötum og ég spurði sjálfa mig; hvað meina þeir með þessu sífellda tuði um að við eigum að standa saman sem einn maður?  Að við séum öll í sama bát?

Jú ég náði því loksins.  Þetta er auðvitað blekkingarbrilljans.  Í sama bát?  Halló, eigum við að taka eins og eina umræðu um launamun minn og þinn Björgvin G?  Þú getur trútt um talað með þokkalega hátt kaup og þó nokkuð atvinnuöryggi til fjögurra ára í senn.  Svo ég gleymi ekki hinu spikfeita og gegnumspillta eftirlaunafrumvarp sem þú og kollegarnir hafið í bakhöndinni.

Ég er hins vegar á lífeyri úr mínum lífeyrissjóði nú um stundir, ég er ekki að kvarta, kemst þokkalega af en nú er meira en mögulegt að hann verði skertur á næsta ári.

Ég tek þetta litla dæmi til að sýna fram á að það er himinn og haf milli mín og urmuls af fólki og svo þeirra sem hrópa um það á torgum að við þurfum að snúa bökum saman. 

Gússífokkinggúss.

Ég myndi skilgreina þetta öðruvísi.  Jakkafötin eru á nokkuð góðu  fleyi, með káetum, klói og sturtu ásamt sjónvarpi og farsíma.

Ég er hins vegar á einhverjum hriplekum hliðarfleka með tertugaffla í árastað.

Cut the crap strákar.

Capíss?

 


mbl.is Landsbankinn: Engar reglur voru brotnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sagði Davíð?

Hvað sagði Davíð spyr Mogginn undrandi?

Síðan tíundar hann Kastljósviðtalið við kóng okkar allra.

En í Englandi spyrja menn þá væntanlega; What did this Davidperson actually say to make the P.M. go bonkers?

Svarið er komið.

Klikkið í hægra hornið til að fá enska textann.

Enginn þarf að vera hissa á því sem eftir kom.

Eða hvað?

P.s. Þetta myndband fer eins og eldur í sinu um víða velli netheimsins.

 


mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum bloggheima loga

Þeir sem trúðu viðskiptaráðherra þegar hann talaði um gegnsæi, upprætingu spillingar og allan þann pakka verða nú heldur betur að vakna.

 

Spillingin heldur áfram.  Gömlu vinnubrögðin lifa enn góðu lífi.

 

Ég hvet ykkur til að lesa ÞETTA og ÞETTA og birta á blogginu ykkar eða með örðum hætti láta andúð ykkar í ljós.

Er þessum mönnum ekkert heilagt?

 


Ólétt einn ganginn enn

Upp úr miðri síðustu öld þegar ég var að vaxa úr grasi var farið með kynferðismál eins og mannsmorð.

Skilaboðin voru misvísandi svo ekki sé meira sagt.

Vitanlega kom að því að vitneskjan um blóm- og býflugnahegðun manna og kvenna yrði manni ljós - úr munni götustráka á Hringbrautarróló sko - ekki eftir löglegum leiðum.

Við þá vitneskju varð okkur í alvörunni óglatt stelpunum.  Þvílíkur viðbjóður!  Svona gerði ekki siðað fólk, amk. ekki foreldrar okkar.  Allt saman góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar sem voru reglusamir og heiðarlegir í hvívetna. 

En ég fór að horfa á foreldra mína með grunsemdaraugum samt.  Gat verið.....?  Í rúminu á kvöldin..?  Í sömu íbúð og saklaus börnin sem þar sváfu..?  Ónei, það var útilokað.

En þetta leitaði samt á mann af og til og þar sem mömmurnar voru oft með barni þá voru útþandir magar þeirra stöðug áminning um þennan viðbjóðslega möguleika sem strákhelvítin höfðu hvíslað að okkur úti á róló.  Þeir hvæstu illkvittnislega í eyrað á okkur: Allir gera hitt.  Líka mömmur og pabbar.

Ómægodd.

Svo var sagt að börn væru yndisleg og ávallt velkomin.

En amma mín sem ól mig upp sagði við mömmu mína í símann í hvert skipti sem ég átti von á systkini: Anna Björg ertu að segja mér að þú sért ólétt einn ganginn enn?  Hvað á þetta að þýða?  Hvernig á hann Baldur að koma öllum þessum börnum á legg?W00t

Ég alveg: Hugs, guð setur inn barnið, biður mamma mín um það og það í trássi við pabba minn?

Nei ég varð að endurskoða afstöðu mína og ég komst að því að fullorðið fólk kunni ekki að skammast sín.

Það hegðaði sér eins og ótýnt pakk utanað landi (sorrí það voru fordómar í gangi á þessum árum).

En nú kemur kjarni málsins, í dag er árið 2008.

18 ára pilturinn Levi Johnston, tilvonandi tengdasonur Söru Palin (guð hjálpi honum) hefur ekki orðið fyrir þrýstingi frá kvensniftinni Söru, að giftast dótturinni sem á von á barni með honum.  Jájá og tunglið er úr gulli.  En það sem nánast grætir mig hérna er að hann heldur því fram að þungun kærustunnar hafi komið mjög á óvart!

Ég neyðist því til að draga þá ályktun að um tvennt sé að ræða í stöðunni.

A) Pilturinn trúir sama búllsjittinu og ég forðum, hann heldur að guð hafi sett í hana barnið og hann er smá sár yfir að almættið skuli ekki hafa haft hann með í ráðum.

B) Þarna er meyfæðing yfirvofandi og hann er að reyna að lifa af áfallið, eins og Jósep forðum.

Ég var með minn misskilning á tilurð barna árið 1957 sirkabát.

Levi krúttið er að vafra um í fáfræðiþokunni bara í þessum skrifuðum orðum.

Blessað barn farðu á bókasafnið.

Úff.


mbl.is Tilvonandi tengdasonur ekki þvingaður til neins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlátur í boði hússins

Merkilegt að fólk skuli vera að birgja sig upp af mat.

Trúir enginn Geir?  Hann segir að gjaldeyrisviðskipti séu að komast í eðlilegt horf.

Stórundarleg þessi vantrú á manninum.

Ég ætla ekki að hamstra mat.  Það er á hreinu.

Það hlýtur að vera til eitthvað innlent sem ég troðið í andlitið á mér ef í harðbakka slær og nei ég er ekki að tala um innmat og annan svoleiðis perrahátt í matarinntökum.

En ég er alltaf að tala við fólk.  Fólk sem hefur á því ýmsar skoðanir hverjum sé um að kenna, þ.e. allt þetta hörmungarástand. 

Flestir ef ekki allir eru þó sammála mér um eitt, en það er að eftir þessi ósköp sem nú halda okkur í heljargreipum ótta og óöryggis þá verði eitthvað nýtt að taka við.

Ný hugsun, annar forgangur.

Ég hef heldur ekki talað við einn einasta mann sem treystir stjórnvöldum til að klára þetta mál á farsælan hátt.

Fyrir mig sem átti ekkert til að tapa er óöryggið verst.  Að finnast ég engum geta treyst og það er þá sem manni fer að líða illa.

Hjálparleysi er vond tilfinning, ég veit ekki hversu lengi maður getur búið við þetta ástand án þess að það fari að koma í alvörunni niður á manni.

Svo finn ég svo innilega til með öllu því fólki sem hefur lagt sparnaðinn sinn í hendur bankanna og situr nú með sárt ennið.

Ég vil sjá samfélagið breytast.

Þetta rugl á ekki að geta endurtekið sig ef ábyrgt fólk stjórnar þessu landi.

Í morgun var ég í þörf fyrir að hlægja.  Auðvitað náði ég mér í tæki og tól til þess.

Þessi er gamall en hann stendur alltaf fyrir sínu.

Hlátur í boði hússins.

Eða þetta.

Farin í bili, en kem aftur.. ég kem alltaf aftur.


mbl.is Íslendingar birgja sig upp af mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur Egill og Jón Ásgeir

Þetta var sögulegt Silfur hjá Agli í dag.

Og já mér fannst hann komast ágætlega frá reiðilestrinum, var samt hrædd um að hann myndi beita ofbeldi yfir borðið.

En ég held að Egill hafi verið að tjá reiði margra í þjóðfélaginu.

En...

Mér fannst Jón Ásgeir standa sig aðdáunarlega vel líka miðað við hvað hann fékk í andlitið.

Það þarf mikið æðruleysi til og nei ég held ekki að JÁ sé siðblindingi.

Það þarf hugrekki í þeirri stöðu sem hann er í að koma og skýra mál sitt.

En eftir þennan þátt þá ríður á sem aldrei fyrr að fá svör við því hvað gerðist.

Var Glitnir í aðstöðu til að bjarga sér frá þroti þarna í upphafi þegar þeir leituðu hófanna hjá Seðlabankanum?

Mér finnst gott að hafa horft á viðtalið vegna þess að ég hef það skuggalega á tilfinningunni að hér sé ekki allt komið fram. 

Að allt sé ekki eins og sýnist.

Mér nægja ekki handpikkaðir sökudólgar.

Ég vil fá alla söguna.

Takk fyrir Egill.  Flottur.

Hannes Smárason sem var upptekinn við mikilvægari mál en að tala við íslensku þjóðina í gegnum Silfrið má vera í útlöndum.  Lengi.  Helst vildi ég að þessi lydda snúi aldrei aftur til þessa lands.

SILFRIÐ HJÁ LÁRU HÖNNU


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki að tala við þig - heldur er ég að tala við þig

Jenný Una Eriksdóttir litaði á borðið í gær og sagði aðspurð að hún hefði ekki gert það.  Það hafi verið önnur Jenný Una Eriksdóttir, mjög óþekk slík, sem gerði það en hún væri farin.

Jennýju má segja til málsbóta að hún er þriggjaoghálfs árs og með afskaplega líflegt ímyndunarafl.

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í stjórn Landsbankans, frábað sér að vera kallaður óreiðumaður á flokkráðsfundi í gær en takið eftir hann var ekki að vísa til Davíðs Oddsonar.

Samt er ekki vitað um að neinn annar hafi látið þessi orð falla um forsvarsmenn bankanna annar en téður Davíð, þó leitað sé með logandi ljósi.

Kjartan Gunnarsson, kt. sósósó-sósó, til heimilis að Sóandsó nr. sóandsó; ég trúi ekki orði af því sem þú segir, ég held að þú sért svona skelfilega hræddur við Föðurinn.

En ég er ekki að tala við þig, ég er að tala við Kjartan Gunnarsson með sömu kennitölu og sama heimilisfang.

Meikar það ekki sens kallinn minn?

Jújú erþaeggibara?


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygimál

Þegar ég var stelpa var stundum logið (skrökvað) að mér til að vernda mig frá sjálfri mér.

Ég vildi klippa marsípanstangirnar mínar niður í búta og var sagt að ef maður klippti mat hætti maður að vaxa.

Þetta með klipperíið hafði þær afleiðingar að enn get ég ekki klippt svo mikið sem persillu ofan á mat.

Mér var líka sagt að börnin væru sett inn í maga móðurinn af guði og svo kæmu þau út um naflann.  Þessu var reyndar logið um allan Vesturbæ og víðar.  Ég setti reyndar spurningamerki við þessa speki, fannst móðir mín þá illa elskuð af almættinu því hún var ansi oft með barni og svo fannst mér þessi millivegur í móðurkvið algjör óþarfi fyrst guð væri hinn gefandi aðili.  Skildi ekki af hverju hann setti ekki ungabarnið beint í vögguna almáttugur eins og hann var.

Þarna var auðvitað verið að ljúga að mér til að vernda mig frá þeim hroðalega sannleika að fólk hefur samfarir oft og reglulega án þess að skammast sín og með þessum líka afleiðingunum.

Skelfilegt.

En ég fullorðnaðist á endanum og hef leitast við að ljúga ekki að börnunum mínum, þó auðvitað hafi ég dottið út af beinu reglulega af því ég er ekki fullkomin (já ég veit, þið eruð standandi hlessa).

En það eru greinilega menn í landstjórninni og á öðrum merkilegum póstum sem halda að við fullorðna fólkið þolum illa sannleikann.

Það er logið á hverjum degi.  Engin hætta á ferðum, við erum komin yfir erfiðasta hjallann, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki inn í myndinni fyrir okkar hönd, nei, nei, þeir eru hérna í ráðleggingum bara.

Allar lygar undanfarinna vikna hafa gert það að verkum að ég treysti ekki kjafti sem opnar á sér þverrifuna í fjölmiðlum, þ.e. þeim sem halda um stjórnartaumana í skelfilegri kreppunni sem hér ríkir.

Það sem mér finnst þó skelfilegast er að það er orðið eðlilegur framgangsmáti að segja ósatt og þegar sannleikurinn kemur í ljós þá er lygin varin með því að málið hafi verið svo viðkvæmt að ekkert hafi mátt láta uppi um það.

Ég hef bloggað um það áður og ég geri það enn og aftur, ef fólk getur ekki sagt sannleikann þá á það að halda sér frá fjölmiðlum.  Segja ekki neitt.

Ég hef aldrei upplifað það að vera í eins lausu lofti og núna.

Vont að treysta engum. 

Ég reyni að vona það besta en reikna með því versta.

Svo geta Sjálfstæðismenn grenjað og hangið í stuðningssleik á lokuðum fundum sem samt eru ekki lokaðir.

Ég veit bara eitt, að þeir eru hvors annars en ekki mínir menn.

Samfylkingin ekki heldur og það er sárara.  Þeir voru nú einu sinni gamlir samherjar mínir í pólitík.

Fjárinn sjálfur.


mbl.is IMF lýsir vilja til að aðstoða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upptekin í þágu vísindanna

hamingja 

Merkilegur dagur þessi í gær.  Föstudagurinn 10. október. 

Ég áttaði mig á því í fyrsta sinn til fullnustu hversu smá þjóð við Íslendingar erum.

Þetta gerðist eftir að ég sá:

Guslu systur mína í hóp faðmlagi við kollega sína fyrir utan Glitni í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðva.

Erik tengdason minn með Hrafn Óla í Kastljósinu, þar sem hann var spurður út í kreppuna.

Robba tengdason minn í sama Kastljósþætti undir umfjöllun um Iceland Airways hvar hann sat og talaði í síma, enda mikið að gera hjá Airways mönnum.

(Það má svo bæta því við að í fimmtudagskastljósinu sat Guðjón Magnússon læknir fyrir svörum og hann er bróðir míns heittelskaða.  Hvar endar þetta?).

Þegar minni litlu fjölskyldu ber fyrir í fréttamiðlum þrisvar sama daginn þá verð ég að horfast í augu við þá staðreynda að við Íslendingar erum örkrúttaþjóð.  Míkró, eins og lítið hverfi í stórborg.

Ég er búin að vera (og er enn) í einhverskonar kreppuástandi undanfarið. 

Sú staðreynd að við römbum hér á barmi þjóðargjaldþrots og erum komin í stríð við Bretann ásamt öllu sem því fylgir, síast auðvitað inn í vitundina í skömmtum.  Sem betur fer.

Í Kastljósi í gærkvöldsins sagði Egill Helga eitthvað á þá leið að hann vonaði að hér myndi gefast tækifæri til að mynda nýtt íslenskt samfélag og að honum þætti það spennandi.

Þetta er einmitt tilfinningin sem ég og fleiri höfum haft undanfarið.  Að nú sé lag til að breyta.  Fyrst svona fór, eins skelfilegt og það nú er, væri auðvitað frábært ef á rústunum gæti risið ný tegund samfélags.  Með nýju verðmætamati.  Þar sem manneskjan og náttúran er í fyrirrúmi.

Sjáið þið til, hin glerharða og mannfjandsamlega stefna kapítalismans gengur ekki upp.  Hún hefur beðið skipbrot.

Ég er ekki reið út í Jón Ásgeir og þá Bónusmenn.

Ég er eitthvað pissed út í Björgúlfsfeðga, verð að játa það, enda þeir hvergi nærri til að taka þátt í reddingunum og til að þrífa upp eftir sig.

Ég er hins vegar haldinn háheilbrigðri og tærri reiði út í landstjórnina og stofnanir sem undir hana heyra.

Hrein og tær reiði sem beint er út í stað inn er afskaplega góð orka til að nýta til góðra verka.

Það vekur nefnilega öryggisleysi með mér að sjá þá ráðamenn rúlla um eins og stjórnlausa valtara dag eftir dag, alsendis ófæra til að taka á málinu.

En fyrst og fremst er ég með von í hjarta. 

Ég vona svo innilega að við nýtum þessa skelfilegu atburði til að læra af reynslunni og byggja eitthvað nýtt og betra á rústum þess gamla.

Við erum nefnilega forrík, af mannauði.  Við eigum sand af honum.

Later.

P.s. Ég ætlaði að steðja á Arnarhól og mótmæla í gær en gat það ekki vegna þess að ég var að svara spurningum í rannsókn sem ég er að taka þátt í um alkóhólisma.  Ég var því löglega afsökuð, ég var að fórna mér í þágu vísindanna.Halo

Mér varð hins vegar ekki um sel þegar ég sá í fréttum að það var verið að nota þetta tækifæri til að boða kommúnisma og syngja Nallann.

Halló, hoppið inn í nútíðina.


mbl.is Aleigan í 2 Bónuspokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2988611

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.