Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

200.000 KONUR

378

Nú hefur Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans beðið afsökunar á að Japanski herinn hafi neytt um 200.000 kvenna til vændis í vændishúsum hersins í síðari heimstyrjöldinni. Hann virðist nú meira hafa stunið út úr sér afsökunarbeiðninni en Abe hafði nýlega látið hafa eftir sér að konurnar hefðu nú tæpast verið neyddar til nokkurs!  Kannast einhver við þessa útskýringu á vændi? Það þarf vart að fara lengra en til gærdagsins til að heyra ámóta röksemdafærslu um konur sem neyðast út í vændi.

Ekkert er nýtt undir sólunni.

Það er ekki ýkja langt síðan að nauðgun fór að teljast til glæpa í stríði.  Að nauðga sigruðum konum þótti eðlilegur bónus en ekki glæpur.

Það er allavega verið að biðjast afsökunar bæði á einu og öðru þessa dagana, víðsvegar um heim.


mbl.is Abe biðst afsökunar í vændiskonumálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GLAÐSINNA OG ÓTRÚVERÐUG

711

Ég er eiginlega hálf eftir mig eftir viðtalið í Kastljósi við lögreglumanninn sem að eigin sögn "lokaði" máli Lindu (Baugalín) þegar hún fór ásamt systur sinni til að kæra kynferðislega misnotkun á þeim báðum.

Mér fannst vont að hann skyldi nefna sem ástæðu fyrir því að gera ekkert með málið hafi verið að hún hafi verið svo glaðsinna!  Hvað merkir það að vera glaðsinna í þessu tilfelli?  Sú staðreynd að kollegi hans var sá ákærði og hann þekkti hann, var ekki ástæða minnti manninn.  En upp úr stendur að þarna hittu þær stöllur fyrir eina af fyrirstöðunum í kerfinu sem fjöldi annara ofbeldisþolenda hafa mætt og hafa haft og geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Mér finnst vont ef fólk persónugerir ákveðna glæpi. Það er auðveldara að benda út um gluggann á þennan manninn og hinn manninn sem gerði börnum mein.  Ókunnugir menn. Við getum verndað börnin okkar fyrir þeim, oftast.  Þess ber þó að gæta að flestir misnotkunarglæpir gegn börnum eru inni á heimilunum, hjá ættingjum barnsins eða öðrum sem eiga að gæta þeirra. Það er nú sári sannleikurinn í málinu.

 En aftur að lögreglumanninum sem stöðvaði kæru Lindu og systur hennar.  Þarna var maður sem var einungis holdtekja viðhorfa sem ríktu á þessum tíma og eru vissulega enn við líði.  Þetta eru viðhorf karlaveldisins. Viðhorf sem konur hafa fengið ærlega að kenna á í gegnum tíðina þegar þær hafa kært heimilisofbeldi á sér eða börnum sínum eða orðið fyrir nauðgun. 

Ég er viss um að með svona umfjöllun eins og hefur verið í Kastljósinu og annars staðar um þessi mál þá eru lóð lögð á vogarskálar barnsins megin.  Kvennanna megin.  Það ber að þakka.


Á YFIRREIÐ UM BLOGGHEIMA

91

Þegar ég var búin að lesa bloggvini mína í dag, bæði sæl og glöð, tók ég góða rispu í að kíkja á moggabloggara svona almennt.  Það var fróðleg, spennandi og hundleiðinleg lesning allt eftir málefnum, pennafærni og sollis.

Ég rakst á blogg um pólitík; vinstri, hægri og allt þar á milli.  Ég las um skoðanir bloggara á þjóðsöngsaflippi Spaugstofumanna, kærleikspistla, framsóknarskítkast eins og það gerist verst (rosaleg heift í Framsókn nú um stundir), um ofsatrú og það heiftarinnar reiðarslag að vera ekki réttu megin í trúnni,  um mótmæli gegn stríðinu í Palestínu og Írak, um kvikmyndagerðarmenn og um Júróvisjón svo fátt eitt sé talið.

ERGO: Maður þénar helling á að lesa moggablogg.  Alltaf skemmtilegt, alltaf fróðlegt og stundum alveg rosalega pirrandi.  Alveg eins og vinir og kunningjar eru, miskemmtilegir en alltaf þess verðir að á þá sé hlustað.

Ég bíð spennt eftir næsta skammti.


TÆKNILEGIR ÖRÐUGLEIKAR?...

64

...spyr ég nú þegar fallega ljóðið mitt um "Dóma heimsins" kemur út eins og sjá má á pistlinum hér á undan.  Skemmdarverk arrrrgggg einhver kvenhatari við stjórnvölinn? (segisonna).  Rosalega er bakgrunnurinn ófríður eitthvað.  Halló tæknideild Moggabloggs laga gjörið svo vel.

Vonandi eyðileggur útlitið ekki fyrir lesendum mínum upplifunina af þessu yndislega ljóði eftir hann Jóhannes úr Kötlum.

Síjú


DÓMAR HEIMSINS Í TILEFNI DAGSINS

 

 93

Verð bara svona í tilefni mánudagsins að skella inn því ljóði sem mest hefur hvatt mig áfram í gegnum árin.  Þetta ljóð hef ég í áranna rás skrifað inn í hvert einasta ferminga- afmælis- og útskriftakort til stúlkna sem ég þekki. Mér finnst ekki af veita að koma þessum heilræðum til kvenna þarna úti sem eru að tjá sig um klám, ofl. Það er illilega að þeim veist. Ég þarf vart að taka fram að dætur mínar fengu neðanskráð með móðurmjólkinni.  Þetta er líka ljóðið sem ég ætla að láta syngja yfir mér þegar ég er öll.  Jarðaförin auglýst síðar.LoL

OGGJÖRIÐISOVELLLL......

Dómar Heimsins, dóttir góð
munu reynast margvíslegir
Glímdu sjálf við sannleikann
hvað sem hver segir.

Gakktu einatt eigin slóð
hálir eru hversmannsvegir
Skeyttu ekki um boð né bann
hvað sem hver segir.

Inn í brjóst þitt ein og hljóð
rýndu fast ef röddin þegir.
Treystu á þinn inni mann
hvað sem hver segir.

- ljóð: Jóhannes úr Kötlum.

 


EUROVISION...SÆNSKUR SIGUR Í HÖFN

36

OMG..Eiki er dottinn út og við í xx. sæti eins og venjulega!  Svíar unnu keppnina að vanda skv. sænskum fjölmiðlum.  Sænskir hafa talað.  Ekkert framlag í Eurovision í ár kemst nálægt því að ógna "det svenska bidraget".  Himmel och Pannkaka. Skotheldur sigur Svía í ár.

Mér er annars slétt sama hver vinnur þessa keppni.  Mér finnst bara svo skemmtilega hallærislegur þessi þjóðarrembingur. Bæði þjóðsöngsrembingurinn í Íslendingum og svo Eurovisionrembingurinn í sænskum frændum okkar.

La det svinge la det rock and roll... lalalalala


mbl.is Svíar telja sig sigurstranglega í Evróvisjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞJÓÐSÖNGURINN

73

Það virðast allir vera að fara á límingunni vegna hins nýja texta sem Spaugstofan gerði við þjóðsönginn.  Ég skil ekki þessi læti.  Nú skilst mér á fólki sem veit að ekki megi spauga með þjóðsönginn.  Mér finnst það ættu að vera lög sem banna húmorsleysi, það er öllu meira áríðandi.  Mér hugnast ekki þjóðrembingur ég er meira að segja í prinsippinu á móti landamærum og einhvern tímann var ég meðlimur í hreyfingu sem hét, að því er mig minnir, world without bounderies".  Þessi hreyfing, hvaðhúnnúhét, hafði það að markmiði að öllum landamærum yrði lagt og heimurinn yrði allra. Dálítið róttækt kannski en alls ekki svo galið að hafa markmið. 

Það er í lagi að hafa þjóðsöng en hann á ekki að vera alheilagur. Stóran hluta ævi minnar þá hljóp ég á sunnudagskvöldum til að ná að slökkva á sjónvarpinu áður en þjóðsöngurinn var spilaður, því það var BANNAÐ að slökkva eftir að hann var byrjaður.  Þvílíkur hégómi.

Ég legg til að leyfilegt verði að varíera með þjóðsönginn.  Það væri gaman ef einhver setti hann í rappform þannig að venjulegt fólk gæti þó amk. trallað með.  Það þarf söngstig úr skóla til að geta hummað með honum eins og hann er úr garði gerður núna.

Íslands þúsund ár.... úje 

 


MEÐ TÁR Í AUGUM

83

Í Sunnudagskastljósinu áðan var höfundur bókarinn Launhelgi lyganna, gestur Evu Maríu.  Ég náði ekki fullu nafni konunnar en veit að hún er kölluð Linda.

Ég sat með tárin í augunum og hlustaði á frásögn Lindu.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hlusta á frásögn konu sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem barn, hvert skipti er nýtt,  en sársauki þeirra allra er sá sami. Í þetta skipti er það Linda sem gengur fram fyrir skjöldu og leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að búa börnum sem búa við kynferðisofbeldi, öruggari framtíð.  Mér fannst hún flott og hugrökk. Hreint aðdáunarverð kona.

Ég get ekki hætt að furða mig á því hvernig allt umhverfi barna bregst þeim æ ofan í æ, þegar þau búa við þann hrylling að vera misnotuð inn á heimilinu.  Það er hvergi skjól fyrir barnið, traust þess á lífinu er malað mélinu smærra, útleiðirnar engar, virðist vera.  Fullorðnir eiga það til að standa saman gegn barninu.  Betra að þegja en hræra upp í fjölskyldunni.  Uss. uss.. Þega Linda sagði frá rétt um tólf ára aldur var hún lokuð inni á klósetti á meðal fullorðna fólkið æpti og gargaði.  Mig verkjar í hjartað yfir þeim sársauka sem þessi litla telpa hlýtur að hafa fundið til innilokuð eins og sakamaður.  Síðan var hún, fyrir framan ofbeldismanninn, látin sverja við Biblíuna að ofbeldið hafi átt sér stað.  Manni langar að fara og brjóta eitthvað.

Það þarf mikið hughreysti til að koma fram og segja frá opinberlega.  Eins og Linda núna sem og Thelma Ásdísardóttir.  Ég er svo viss um að með því að rjúfa þöngnina leggja allar þessar konur  sem ákveða að segja frá, nýjan grunn fyrir börn framtíðar, þannig að erfiðara verði að meiða börn og nánast eyðileggja líf þeirra í barnæsku.  Það virðist kannski langsótt markmið að útrýma ofbeldi á konum og börnum en ekkert minna en það á að vera á stefnuskránni hjá okkur öllum.


AF MANSALI

51

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar umræðan um mansal, klám og vændi er á borðinu (allt þetta sami hlutur), hvort góður slatti fólks sem talar um þessa hluti  geri sér í alvöru ljóst hversu nútíma þrælahald á konum og börnum er gífurlegt.

Ég var að glugga í Fréttablaðið og las dagbók Þráins Bertelssonar þar sem ma. koma fram sláandi tölur um mansal í nútímanum en Þráinn hefur verið að vinna rannsóknarvinnu sem lýtur að bók sem hann er að skrifa.  Ég rak augun í eftirfarandi tölur:

Á hverju ári eru meira en 10 milljónir manna, aðallega þó konur og börn, seldar mansali. Og í Thailandi einu starfa meira en ein miljón kynlífsþræla við að svala fýsnum Vesturlandabúa - nær eingöngu konur og börn!!!

Á sama tíma sem við lögleiðum vændi eru milljónir á milljónir ofan misnotaðir og í ánauð.  Svo verður fólk hissa á að þeir skuli ergja mann þessir "frelsiselskandi" menn sem reka upp ramakvein ef einhver leyfir sér að minnast á raunveruleikan svo ég tali nú ekki um ef við leyfum okkur að vera á móti klámi.

Við megum vera á móti mansali svo fremi að það hrófli ekki við því sem þeir telja "eðlilegt" klám.  ARG....ég ríf í hár mér.


BLOGGVINIR MÍNIR...

25

..eins ólíkir og þeir eru skemmta mér konunglega.  Ég segi þetta ekki bara til að segja það eða til að sleikja mig upp við þá.  Ég veit fátt skemmtilegra í netheimum, en að sitja með sódavatnið mitt og sígó (uss bara þegar börnin eru ekki hér) og lesa þá alla sem einn.  Það er ekki vansagt þegar ég held því fram að þeir séu ólíkir.  Bloggin þeirra fjalla um allt milli himins og jarðar og það er svo skemmtilegt.  Ég kommentera stundum, stundum ekki en ég les allt af sömu áfergjunni.  Jafnvel þegar málefnið er ekki innan míns áhugasviðs.  Fólk er svo skemmtilega margbreytilegt og áhugamálin svo ólík.

Ég held að ég sé fínn bloggvinur.  Ég trassa ekki mitt fólk.  Hef einfaldlega brennandi áhuga á þeim sem ég heimsæki.

Þrátt fyrir ofansagt ætla ég að taka til hjá mér eftir helgi.  Ég er með of marga bloggvini og frá sumum heyri ég aldrei múkk.  Ég held að þeir safni að sér bloggvinum til að auka líkurnar á að fólk sem kemur inn á síður vinanna skutli sér í heimsókn til þeirra.  Frrrrrruuuuuuusssssss

Síjúgæs

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 2988388

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.