Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

HINN SÍGLAÐI SUMARSTARFSMAÐUR..

p Sumarstarfsmaðurinn á stjörnuspávaktinni í gærkvöldi.  Fellur aldrei verk úr hendi!

..Moggans, þessi sem er með ábyrgðina á stjörnuspánni, heldur áfram að slá sjálfum sér við (veggi og gólf).  Núna er þýðingarhæfileikinn í fullum blóma og hvaða máli skiptir orðalag og stafsetning þegar boðskapurinn er góður?  Stjörnuspá sunnudagsins fyrir undirritaða er svohljóðandi:

"Steingeit: Viltu ráðast á vandamál? Gefðu því allt sem þú átt. Hvert sem þú ert að hreinsa geymsluna heima eða í hausnum, þá virkar að kíkja í horn sem vilja gleymast."

Spekin vellur frá þessari slyngu og skemmtilegu sumarstarfspersónu.  Hvað gerði ég við líf mitt áður en hún kom inn í það þessi elska?  Ég hélt aldrei að ég ætti einhvern tímann eftir að bíða með öndina í hálsinum eftir að spáin væri sett á netið hvern dag.

Gúddnætgæs!


GÖMUL OG NÝ SAGA!

Ég var viðloðandi Samtök um Kvennaathvarf um margra ára skeið.  Það sem skar í augu hjá öllum sem komu að starfinu innan Kvennaathvarfsins var líðan barnanna sem komu til dvalar með mæðrum sínum.  Undantekningalaust voru þau þolendur ofbeldisins.  Mjög oft sem andlegir þolendur þar sem þau bjuggu við spennuna og óttan sem fylgir heimilisofbeldi og því miður allt of oft höfðu þau verið beitt ofbeldi sjálf, þe. líkamlegu og/eða kynferðislegu. 

Ég sá einu sinni þriggja og fjögurra ára systkini draga buxurnar sínar niður til að fela marblettina.  Ég sá börn með misstóra áverka en öll voru þau skelfingu lostin, þótt þau segðu ekki orð, störðu bara fram fyrir sig tómum augum.

Við sáum þau hjarna við og öðlast örlitla trú á betra líf eftir því sem dögunum í athvarfinu fjölgaði.  Við sáum glitta í börn sem þráðu frið og öryggi og gátu sleppt gjörgæslunni á foreldrunum.  Það á engu barni að bjóða upp á svona uppvaxtarskilyrði.  Ég held að skilningurinn á því sé að aukast og  Guði sé lof að Kvennaathvarfið skuli vera til fyrir þessi börn og mæður þeirra.  Þar er a.m.k. von til að mæðurnar komist út úr þeim vítahring sem heimilisofbeldi er og geti skapað krökkunum sínum nýtt og betra líf sem þau eiga svo innilega skilið.


mbl.is Mörg barnanna í Kvennaathvarfinu beitt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KLÁMRÁÐSTEFNAN GERÐ UPP

Alveg finnst mér furðulega auðvelt fyrir klámráðstefnugestina alræmdu að fá greidda "sáttargreiðslu" vegna ákvörðunar eigenda Hótel Sögu að hætta við að hýsa ráðstefnugesti.  Forsvarsmenn hótelsins hafa fallist á að greiða á fimmta tug gesta einhvers konar sárabætur vegna þess að hótelið hætti við að hýsa þessa ráðstefnugesti.  Er ekki alltaf verið að lofa og prísa frelsið?  Er eigendum Hótel Sögu ekki leyfilegt samkvæmt "frelsispólitíkinni" að úthýsa hverjum sem er af sínu hóteli?  Sigurgeir Þorgeirsson hjá Bændasamtökunum telur að þetta jafngildi ekki viðurkenningu á sekt í málinu.  Hvernig ber þá að túlka þessar millur sem þeir eru að greiða klámráðstefnufólkinu? Eru það pjúra almennilegheit? 

"Um er að ræða greiðslu vegna ferðakostnaðar, kostnaðar við gistingu og vinnu við undirbúning klámráðstefnunnar. Ekki fékkst gefið upp um hve háa upphæð er að ræða en samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins nemur hún nokkrum milljónum króna."

Ég get svarið að þetta vefst töluvert fyrir mér eins og ég er nú súper vel af Guði ger.  Af hverju borga þeir ef það er ekki jafnframt verið að viðurkenna einhverja sekt í málinu?  Hm.....


mbl.is Fallast á sáttagreiðslu vegna afboðunar klámráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL BLOGGVINA MINNA!

1

Eins og þið sjáið fór ég með bloggvinina niður í Nautshólsvík til að taka af þeim mynd.  Þetta eru sko bloggvinirnir sem ég held inni og elska út af lífinu.  Fyrr í vikunni henti ég hins vegar út 12 stykkjum af vafasömum vinum og tók líka mynd af þeim í Nauthólsvík.

Burtséð frá öllum fíflagangi þá vil ég bara segja ykkur kæru vinir að ég er rosalega bissí á meðan Inga-Lill er hjá mér.  Ég hendi inn einni og einni færslu en næ aldrei að fara allan blogghringinn.  Ég reyni þó að lesa hjá öllum. Ég ætla sko ekki að missa af neinu.  Ég vil ekki að þið haldið elskurnar mínar að ég sé svona "dissin" í eðli mínu og bið ykkur að hafa biðlund á meðan ég er í æðisgegnu og villtu sumarfríi mínu sem ég get ekki bloggað almennilega um án þess að eiga á hættu að vera tekin til fanga af lögreglunni (segi sonna).  Sjáumst á morgun og ég les eins og vanalega.

Smjúts tújúpípúlHeart


AF FÖSTUDEGI, JENNSLUBARNINU OG BABEL

Dagurinn í dag hefur verið góður.  Flestir annasamir dagar eru það.  Hér var helgin undirbúin með þrifum, keypt í matinn og drukkið mikið kaffi.  Sænska vinkonan drekkur fleiri bolla á dag og ég smitast.  Jenny kom til ömmu og Einarrrs og við höfum ekki séð hana síðan í matarboðinu á mánudag.  Jenny er með streptokokkasýkingu og hefur því verið heima.  Á þessum dögum sem liðnir eru, síðan við sáumst hefur hún bætt við sig heilmikið í orðaforða.  Hún er nú tveggja og hálfs og orðin nær altalandi.  Hún spyr hvort maturinn sé tilbúinn, hvað sé eiginlega að og hvort hún megi fá sælgæti.  Svo sagði hún lækninum sínum að hún væri þriggja ára og ætti afmæli í dag.  Hún kemur aftur á morgun með góða skapið og skemmtir okkur hérna fyrir ofan snjólínu.

Ég horfði á Babel í kvöld.  Væntingarnar voru gífurlegar enda mikið búið að lofa þessa mynd bæði í ræðu og riti.  Mér hugnaðist myndin engan veginn og þessar sögur sem verið er að tengja saman hafa engan tilgang finnst mér og ég fann aldrei til samúðar með karakter Brad Pitt og þeirrar sem leikur konuna hans en nafnið hennar er ekki til staðar í hausnum á mér á þessari stund.

Ég keypti SÁÁ-álfinn í dag, þennan fyrir unga fólkið og skellti honum á útidyrnar til að sölumönnum væri sýnilegt að þetta heimili væri búið að versla fyrirbærið.  Það breytti ekki því að tvisvar var hringt á bjöllunni og þar sem ég er svag fyrir málstaðnum, fyrir nú utan það að vera skjólstæðingur þessara samtaka, skarta ég nú þremur álfum á hurðinni.  Krakkar sem seljið can´t you take a hint???

Æi, læt þetta duga fyrir svefninn.

Gúddnætgæs!


ÚTTEKT Á KYNFERÐISLEGRI ÁREITNI..

.. á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka kemur tæpast til að skila miklum sannleika.  Ég dreg í efa að konur sem þar vinna og eiga afkomu sína undir starfinu komi til með að gera miklar játningar þegar Vinnueftirlitið gerir almenna úttekt á málinu.  En Jóhanna Sigurðardóttir, félgsmálaráðherra, hefur falið þeim að vinna málið.

Sömu tilfinningu fékk ég þegar ég sá í fréttum frá för portúgalska sendiherrans til Kárahnjúka til að kanna þar aðstæður landsmanna sinna.  Viðtölin við verkamennina voru ósannfærandi vegna þess að maður veit að þeir eru þarna í vinnu sem skiptir sköpum fyrir afkomu þeirra.

Ég er ein af mörgum sem hef áhyggjur af öllum þeim ljótu fréttum sem berast frá virkjunarsvæðinu varðandi aðbúnað og aðstöðu fólks af erlendum uppruna.

Arg..


mbl.is Ásakanir um kynferðislegt áreiti verða skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"FEITAR" FLUFFUR Í FARBANNI

Indverskur dómstóll hefur dæmt Indian Airlines í hag en flugfélagið setti flugfreyjur í farbann af því að þær voru of þungar að mati félagsins.  Dómstóllinn taldi að flugfélagið hefði rétt á að grípa til slíkra aðgerða með tilliti til öryggis og hertrar samkeppni á flugmarkaðnum.

Alls staðar í heiminum er stöðugt verið að lítilsvirða konur.  Birtingarmyndir kvennakúgunarinnar eru misjafnar, sumar grímulausari en aðrar, en það er ekki til það land í heiminum þar sem kvenfyrirlitningin grasserar ekki meira og minna dulin að sjálfsögu.  Ein af flugfreyjunum sem sett var í farbann var 2 kg. þyngri en "reglur" flugfélagsins sögðu til um.  Það er víða í heimi litið á konuna sem "æskilegasta" þegar hún er lítil, grönn og máttlaus og borðar eins og fugl.  Kona sem er í slíku ástandi er minna ógnandi.  Hún vekur líka verndartilfinningu hjá karlrembusvínum sem stöðugt óttast að þurfa að mæta konu á jafnréttisgrundvelli.

Ég ætla að vona að íslensku flugfélögin taki ekki upp þennan ósið nógu lengi hafa íslenskar flugfreyjur þurft að berjast við steríótýpuna af hinni "dæmigerðu" flugfreyju.  OMG hvað lífið getur verið erfitt stundum.

SíjúgæsInLove


mbl.is Deilt um þungar flugfreyjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AÐ VERA SNÚRA...

..er ekki alltaf auðvelt.  Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er óvirkur alki og oftast er ég glöð og hress en stundum á ég mína daga þar sem mér líður ekki sérstaklega vel.  Það gerist oftast ef ég gleymi mataræðinu, fundunum eða AA-fræðunum. Verst er þó ef ég sef ekki nóg.  Óbalans er stórhættulegur fólki eins og mér.  Í dag hefur dagurinn verið minna góður en oft áður.  Til að fyrirbyggja misskilning þá er það ekki svo að mig hafi langað í brennivín, ónei sem betur fer en svona dagar eru áminning um að rétta kúrsinn og ganga varlega um í lífinu.

Það hringdi í mig vinur minn í kvöld og við vorum ekki sammála og undir venjulegum kringumstæðum hefði það ekki pirrað mig eða komið mér í ham.  Í þetta skipti fannst mér að heiminum og honum væri hollt að vita nákvæmlega hvað mér fyndist um málefnið.  Egóið spratt fram, gamli hrokinn var uppábúinn í sparifötin tilbúinn að láta til skarar skríða.  Ég hentist út í rökræður sem engu skila, hafa aldrei skilað neinu og munu aldrei gera.  Við tuðuðumst á um stund þar til hann varð illa pirraður á ég væri með skoðanir og attitjúd og sagði þessa dásamlegu setningu sem gerir hvern jafnvægislítinn alka arfabrjálaðan: "Rosalega ertu illa stemmd, ertu að drekka?".  Hm.. hér er kona búin að vera á snúru í hartnær átta mánuði og hefur hangið þar hin ljúfasta í alls konar veðrum án þess að hrynja til jarðar og... ég varð kjaftstopp.  Í huganum henti ég símanum í vegginn, framdi hægfara limlestingu á viðkomandi manni, fór með æðruleysisbænina og sagði honum eins rólega og mér var unnt að við yrðum að tala saman á morgun.

Kannski hefur alki eins og ég fyrirgert rétti sínum til að vera í óbalans.  Ég veit það ekki.  Ég má jafnvel lifa við að fá svona spurningar það sem ég á eftir ólifað.  Hvað veit ég.  Ég er þó viss um að allar manneskjur geta átt von á alls kyns óþægilegheitum, þannig er bara lífið.  Ég get brugðist við mínum bömmerum með að taka leiðsögn frá þeim sem hafa gengið leiðina á undan mér og vera tilbúin til að taka olnbogaskotum lífsins, kannski ekki með bros á vör en þó jafnvægi og slatta af æðruleysi.  Ég fer edrú til fletis í nótt.

GúddnætgæsHeart


KATRÍN BARA FLOTTUST!

1

Rosalega er ég stolt yfir henni Katrínu okkar Vinstri-grænna.  Það var hrein unun að horfa á hana í ræðustól í kvöld.  Steingrímur var auðvitað flottur eins og alltaf en Katrín, glæný á þingi, talaði eins og hún hefði aldrei verið annars staðar en í ræðustól Alþingis.  Það er æðislegt að hafa svona konu eins og Katrínu (að öllum öðrum ólöstuðum) í framvarðarsveit flokksins.

Burtséð frá því hversu klár og skemmtileg Katrín er þá er hún svo skemmtilega "öðruvísi" á löggjafarsamkundunni.  Hún klæðir sig greinilega án tillits til hallærislegra hefða og ég er viss um að hún verður aldrei leiðitamur og litlaus Alþingismaður frekar en aðrir meðlimir Vinstri-grænna.

Óje hvað ég er stolt af stelpunni.


EITTHVAÐ Í ÁTTINA...

1

...en hvergi nærri nóg.  Hæstiréttur hefur dæmt 22 ára gamlan karlmann í 3 ára fangelsi fyrir að hafa þröngvað 14 ára stúlku með ofbeldi til samræðis.  Hann skal einnig greiða stúlkunni 1 milljón króna í miskabætur.

"Stúlkan kærði nauðgunina í nóvember árið 2005 og sagði hana hafa átt sér stað í íbúð mannsins í september. Hún hafi ásamt tveimur vinkonum sínum hitt manninn á Hlemmtorgi og hann hafi boðið þeim heim til sín til að hlusta á tónlist. Stúlkan sagði að maðurinn hefði þar farið með hana inn í herbergi og haft við hana samræði.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir, að stúlkan hafi skýrt frá atvikum með trúverðugum hætti og framburður hennar samræmist framburðum vitna. Engum vafa sé undirorpið, að stúlkurnar séu að greina frá raunverulegum atburðum sem sett hafi mark sitt á þær."

Miðað við að nauðgun er skilgreind í lögum innan sama refsiramma og morð er þetta vel sloppið eftir að hafa nauðgað 14 ára stúlkubarni.  Það á ekki að vera léttvægt að fremja slíkt ódæði sem nauðgun er og sleppa billega.

Arg....

 

 


mbl.is Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.8.): 6
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 167
  • Frá upphafi: 2988319

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 165
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.