Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Á ís(l)-ensku

Bubbi leitar að stjörnu í raunveruleikaþætti.  Hann er að leita að næstu stjörnu Íslands undir heitinu "Bandið hans Bubba".  Flott framtak, Bubbi leitar nýliða og það er flott.  Það eru ekki svo mörg tækifæri í boði fyrir unga tónlistarmenn.

En auðvitað fást þarna "aðalleikendur" fyrir engan pening og kannski er það ástæðan fyrir síendurteknum raunveruleikaþáttum, sem auðvitað njóta gífurlegra vinsælda.  Ég kalla svona X-Faktor - Idolþætti, aumingjahrollsprógrömm, því ekki eru allir þátttakendur beinlínis að kafna úr hæfileikum.  En að lokum er auðvitað einhver flottur sem stendur eftir sem sigurvegari. Eða hvað?

Það er bannað að syngja á ensku.  Bubbi er hræddur við að íslenskan deyi út.  "Ég veit ekki hvort þetta er ótti við tungumálið, getuleysi eða hvort það er auðveldara að bulla á ensku, en með þessu áframhaldi er sú hætta fyrir hendi að íslenskt tungumál í dægurtónlist deyi út. Hverfi bara!"

Skelfing er ég þreytt á þessari tungumála forsjárhyggju.  Af hverju í ósköpunum ætti íslenskan að deyja út?  Ég hefði haldið að það væri tónlistin sem skipti máli, ekki hvort hún er sungin á íslensku, dönsku eða ensku?  Mér finnst íslenskan yndisleg og það eru ekki allir sem fara í skóna hans Megasar, t.d. í þeim efnum, en ungir listamenn ættu að fá að ákveða sjálfir hvernig þeir flytja sín verk. 

En nú er þetta ekki spurning um frumflutt efni sýnist mér.  Það er áhyggjuefni.  Það er alltaf verið að fá fólk til að fremja annarra manna músík.  Engar áhyggjur á því, ónei.  Bara hvort ábreiðurnar eru sungnar á ylhýra.

Minn áhugi á "raunveruleikaþáttum" af þessu tagi er að "hverfa bara!"


mbl.is Bubbi býður þrjár milljónir fyrir íslenskuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldisfullur skíthæll!

OJ Simpson er ofbeldisfullur skíthæll án tillits til þess hvernig hann er á litinn.  Hann er að líkindum morðingi og hann er sannanlega ofbeldismaður, margsinnis kærður meira að segja. 

Þess vegna finnst mér merkilegt að kynþáttur skuli marka afstöðu fólks til sektar eða sakleysis mannsins.  Auðvitað er ég enginn sérfræðingur um bandarískt þjóðfélag, en þeir sem fylgdust með réttarhöldunum 1994 og 1995, eru flest allir jafn hissa á að hann skuli hafa sloppið þá.

Ég hef ekkert álit á ofbeldismönnum og mér er alveg sérstaklega í nöp við menn sem beita heimilisofbeldi.  Það litar kannski afstöðu mína, til nýjasta útspils OJ.

Ég veit hverju ég hefði svarað, hefði ég verið spurð.  Ég hefði sagt sekur og það án þess að hika.

Svona getur maður nú verið "litblindur".


mbl.is Kynþáttur markar afstöðu fólks til O.J. Simpson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauður bolur á morgun!!

1

Nú berast tölvupóstar eins og eldur í sinu, víða um heim, þar sem fólk er beðið að klæðast rauðum bolum á morgun, til að sýna stuðning við frelsisbaráttuna á Myanmar.  Níu manns hafa látist í mótmælunum undanfarna daga.

Ég hvet alla sem koma hér inn að lesa, að láta þetta berast og klæðast rauðu á morgun. 

Sýnum samstöðu.

Komasho.


mbl.is Fólk hvatt til að mæta í rauðum bolum á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemdir - frábær blogg

Þegar ég byrjaði að blogga, vissi ég lítið út í hvaða heim ég var að hella mér, en mikið skelfing er ég ánægð að hafa gert það.  Það hefur bara verið skemmtilegt.  Mis skemmtilegt auðvitað, en aldrei leiðinlegt.

Hvað um það, hér á Moggabloggi eru athugasemdirnar heil veröld út af fyrir sig.  Þar er heill heimur af allskyns umræðum sem skapast við færslurnar og oftast víkka þær út umræðuna, dýpka hana og þær eru, að mínu mati, nauðsynlegt uppbót við pistlana sem ég les.  Stundum skapast svo skemmtileg stemming við færslurnar að ég ligg í hláturskasti yfir hugmyndaauðgi þeirra sem þar eru á ferðinni.  Hlátur er svo heilandi krakkar mínir.

Þeir sem banna athugasemdir hjá sér, eru svolítið sér á báti, ég persónulega nenni ekki að lesa þá, en þeir trufla mig ekki lengur.  Ég lét þetta fara skelfilega í taugarnar á mér á tímabili, en svo sleppti ég því og nú er blóðþrýstingurinn ekki lengur í hættu (segi sonna).

Svo eru það nafnlausu athugasemdirnar og nafnlausu bloggin.  Í flestum tilfellum er það bara í góðu lagi ef fólk kýs að blogga nafnlaust og það geta verið margar og skiljanlegar ástæður fyrir því.  Það sem mér finnst ólíðandi eru dónarnir og hugleysingjarnir sem eru með dónaskap og árásir á fólk, í athugasemdakerfunum, og fela sig á bak við fölsk nöfn eða nafnleysi.  Það er samt ótrúlega sjaldgæft á mínu bloggi, að ég hafi þurft að taka út færslur og/eða loka á ip-tölur, þó það hafi að sjálfsögðu komið fyrir.

Ég hvet amk. alla að kíkja í kommentakerfið (sem ég er viss um reyndar, að flestir gera), því þar er hin eiginlega umræða í gangi, oft á tíðum.  Skemmtileg, fróðleg, gagnrýnin og allskonar.  Það er bara skemmtilegt.

Ég lofa.

Later.


Við í dágóðum félagsskap - Grímulaus Bush

1

Hana þar höfum við  það svart á hvítu.  Búski í eigin safa.  Samkvæmt útskrft af fundi  sem Bush átti með Jose Maria Aznar, þáverandi forsætisráðherra Spánar árið 2003, þá vissi forsetinn af vilja Saddam Hussein til að fara í útlegð að uppfylltum skilyrðum.

„Egyptar eiga í viðræðum við Saddam Hussein. "Hann virðist hafa gefið í skyn að hann sé tilbúinn til að fara í útlegð fái hann að taka með sér milljarð dollara og allar þær upplýsingar um gereyðingarvopn sem hann kýs að taka með sér,” sagði Bush. „Það yrði líka besta lausnin fyrir okkur og myndi auk þess spara okkur fimmtíu milljarða dala.”

Við vitum hvernig fór.  Við vitum líka hversu mörgum mannslífum saklausra borgara hefur verið fórnað í Írak frá innrásinni.

Við megum ekki gleyma að þarna erum við þátttakendur.  Eða kannski ekki lengur?  Mér skilst að það sé búið að taka okkur út af lista viljugu þjóðanna og það án þess að við höfum beðið um það.

Það væri kannski lag að fara að tékka á því hvort við séum með eða ekki.  Íslensk stjórnvöld vita það ekki, kannski veit Búski það.

Later.


mbl.is Bush vissi af vilja Saddams til að fara í útlegð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldisdómur III - Skilorðsbundinn

Ég reyndist sannspá þegar ég taldi að ég fengi nóg að gera þegar ég einsetti mér að blogga um skilorðsbundna dóma fyrir ofbeldi.  Nú er það Héraðsdómur Reykjaness sem leggur í púkkið. 

Að þessu sinni er um að ræða heimilisofbeldi.  Árásin sem átti sér stað á þáverandi heimili málsaðila í nóvember á sl. ári var með þeim hætti, að maðurinn tók konuna kverkataki og henti henni í framhaldinu í gólfið. Konan marðist og tognaði á hálsi, baki og yfir bringspölum. Hún fór ekki fram á miskabætur.

Ofbeldishundurinn fær tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tiltækið.  Mér finnst eins og dómarinn sé að segja blíðlega við hann; dona dona, gúkkulaðidrengurinn minn, ekki lemja kjéddlinguna, það kallar á töluvert vesen.  Hættessu strákur.

Síðan er manninum gert að greiða 10 þús. krónur í sakarkostnað.

Vó Héraðsdómur Reykjaness, rólegir á sektunum.  Það er óþarfi að rýja manninn inn að skyrtunni!

Hm, en ég held áfram á dómavaktinni.

 


mbl.is Skilorð fyrir árás á sambýliskonu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmir Íslendingar?

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las þessa "frétt" í Mogganum.  Hún er um mikla umræðu á blogginu vegna ummæla hans þarna "hvaðhannnúheitir" (Pablo Francisco) í Blaðinu á þriðjudag.

"Miklar umræður fóru af stað á bloggsvæði mbl.is á þriðjudag vegna ummæla Francisco. Flestir voru ósáttir við ummælin og könnuðust fæstir við að drekka áður en þeir mættu í vinnu."

Ég bloggaði um þetta í fíflagangi, af því mér fannst þetta fyndið og mér gæti ekki staðið meira á sama hvað einhverjum dúdda úti í heimi finnst um drykkjuvenjur Íslendinga.  Ekki það, að þær (venjurnar) séu eitthvað til að hrópa húrra fyrir, þegar þær taka á sig sína verstu mynd.

Auðvitað klæðir fólk mis vel að drekka.  Ég hætti vegna þess að það fór mér illa.  Það eru ábyggilega nokkuð margir sem mættu gera slíkt hið sama, skella sér í meðferð og vera til friðs.  Megin þorri fólks getur hins vegar drukkið sér til ánægju og án þess að leggja allt í rúst í kringum sig, í öllum skilningi þess orð.  Það fólk sést og heyrist sjaldnast, enda ekki með hryðjuverkastarfsemi niðri í bæ.

Annars er það alveg stórmerkilegt hvað við Íslendingar erum enn viðkvæmir fyrir áliti útlendinga á okkur.  Það er merki um lélega sjálfsmynd þegar maður leitar stöðugt álits á sjáflum sér hjá öðru fólki.

Hættum því.

Komasho.


mbl.is Mikil umræða á blogginu eftir ummæli Francisco um drykkjuþol Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við kassann í Hagkaupum ...

 1

..verður maður að geta rætt um örlög kvenpersóna í Íslendingasögunum.  Kveðist á við kassastarfsmanninn, rædd ýmsar flóknar uppskriftir á blóðmör og sýrustig regns í Amazon.  Ef þessar samræður og aðrar álíka geta ekki farið fram við kassann á meðan maður bíður eftir að matvaran renni í gegn, þá er það bara helvíti léleg þjónusta og ekki nokkrum Íslending bjóðandi.

Það er munur núna og fyrir svona fimm árum síðan, þegar maður gat átt djúpar samræður við kassastarfsmennina.  Íslendingar á kössum stórmakaða voru allir sem einn alveg stórkostlega ræðnir og þjónustulundaðir, enda lágmark að þeir séu það, miðað við launin sem tíðkast fyrir þessa vinnu.

Hvað þarf að vera í lagi þannig að maður geti keypt lífsnauðsynjar.

1. Varan þarf að vera til.

2. Þú þarft að eiga fyrir henni.

2. Þú þarft að skilja tölustafina sem koma upp á kassanum og vita hvað TOTAL þýðir.

3. Þú þarft að geta brosað og boðið góðan daginn og þakkað kassadömunni/herranum fyrir þjónustuna.

4.  Allt umfram það er bara bónus og með það geta allir verið glaðir.

Halló, hvað er að.  Er ekki með góðum vilja hægt að horfa framhjá því að fólkið á kössunum er ekki fullnuma í íslenskri tungu?  Er ekki hægt að vera þakklátur fyrir að fólk vill vinna þessa illa launuðu vinnu og Guð skal vita að VR þarf að fara hysja upp um sig í þessum geira. 

Svei mér þá ef góður hluti íslenskrar þjóðar er ekki með rasistatendensa.

Eða??

 


Loksins dómur við hæfi?

Svona miðað við dóma í kynferðisafbrotamálum þá held ég að dómurinn yfir Róberti Árna Hreiðarssyni, sé viðunandi, svona miðað við allt og allt.  Ekki að hann sé svo sem eitthvað til að hrópa húrra fyrir, en m.t.t. þess að refsiramminn er fjögur ár, þá er þetta skaplegt.  Ekki það að mér finnst nóg að gert.

Fyrir utan þann skelfilega glæp, að misnota sér aðstæður ungra stúlkna, til kynferðislegrar misnotkunar, er maðurinn í þeirri aðstöðu að sitja við yfirheyrslur á fórnarlömbum kynferðisofbeldis og auðvitað ætti honum að vera ljós, alvarleiki þeirra mála, fyrir nú utan siðleysið sem felst í því að vera inni í Barnahúsi svona yfirleitt.

Nú hefur Róbert Árni verið sviptur réttindum sínum sem héraðsdómslögmaður og það er gott.  Svo er spurning hvort hann áfrýjar til Hæstaréttar og hvað þar gerist svo.

Mikið skelfing mun ég fylgjast vel með því ef af verður.

Mér þætti gaman að vita hvers vegna ekki er hægt að tengja á þessa frétt í Mogganum.  Það er ekki eins og einhver hafi látist af slysförum.  Eru þeir hræddir um að við brjálaðir dómarar götunnar Lúkasiserum málið? 

Hvað veit ég.

 


Halló Renée

 

Hæ gamla,

Þar sem ég efast ekki eitt andartak um að þú ert dyggur lesandi Moggabloggs, þá vil ég láta þig vita að ég er til, finnst þú ógisla góð leikkona og ferlega sæt.  Ég vona líka að þú krækir í bítilinn Pál og bara allt gangi upp hjá þér sem þú tekur þér fyrir hendur.

Ég er haldinn sjúkdómi.  Hann heitir Imöldumarkossyndromikus og gerir það að verkum að ég er brjáluð í skó.  Vegna bágra efna hef ég þurft að hlaupa um nánast BERFÆTT í sumar og ef einhver reynir að segja þér að ég eigi fleiri TUGI skópara, þá er sá hinn sami að ljúga.

Ég var að velta því fyrir mér hvort þú gætir ekki komið með mér í skódeildina í Saks og gefið mér nokkur pör af háhælum fyrir veturinn.  Ég get ekki verið þekkt fyrir að skarta hvítu tréklossunum, með netamynstrinu, sem ég keypti í Gautaborg anno 1984, þegar jólin ganga í garð.

Ég myndi alveg gera mig ánægða með tvenn til þrenn pör.

Hvað segirðu um það vúman?

Láttu þitt fólk tala við sóandsó sem mun þá tala við mína sóandsó.

Yours sincerely,

Imalda II


mbl.is Skóálfurinn Renée Zellweger
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.