Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Næturraunir

 

Ekki var ég fyrr búin að lýsa því yfir á blogginu, að hér í mínu hverfi, byggju engir Erlar, allt væri hljótt og aldrei partý eða aðrar hávaðaróstur á nóttunni, en fjandinn varð laus.  Ég gat ekki lókaliserað hamaganginn í nótt, hann var nálægt, en samt utan seilingar.  Glös voru brotin, tjaldsöngvar sungnir (María, María var tekið aftur og aftur), fólk dunkaði í gólf eða veggi, fór út að reykja og talaði hátt og þannig hélt það áfram fram á morgun.  En ég lifði það af.

Ég sofnaði á milli þátta og mig dreymdi drauma. Það hefur komið fram áður á þessu bloggi að ég legg ekki á fólk að hlusta eða lesa um draumfarir mínar, enda það leiðinlegasta í heimi að heyra að einhverjum hafi dreymt að hann væri í Færeyjum, en samt voru það ekki Færeyjar heldur Borgarnes og svo hafi viðkomandi hitt Kennedy sem var samt ekki hann heldur Davíð Oddsson og svo áfram og áfram.  Draumar eru tilfinningar sem mér finnst ekki hægt að koma til skila.  Enda algjörlega út í hött að vera tíunda þá við annað fólk.

Minn draumur innihélt eftirfarandi:

Flugvél, suðræn lönd, hús Héraðsdóms, spikfeita rottu með leðurhatt, tölvu, fimmþúsundkrónuseðla í miklu magni, lögguna og dýrar fasteignir.  Ég vaknaði í rusli og fári.

Var ég búin að segja að þetta hafi verið martröð?

Mikið djö.. sem ég er pirruð yfir þessu.

Drímon!

Úje

 


Umboðsmaður Íslands

Ég er ekki sérlega hrifin af umboðsmönnum, fasteignasölum, tryggingarsölumönnum og öðrum milliliðum sem nútíma þjóðfélag hefur komið sér upp.  Einu sinni handsalaði fólk samninga, virti þá og viðskipti voru gerð milliliðalaust og báðir aðilar högnuðust ef um hagnað var að ræða.

Ðe umboðsmaður, eða Einar Bárða, er að koma út á bók, það er trixin sem hann notar til að ná árangri í bransanum.

Ég hef ekki smekk fyrir þeirri "list" sem hann er umboðsmaður fyrir, ef undan er skilinn Garðar Cortes, en Einar Bárðarson er duglegur í vinnunni og býr í mörgum löndum.  Amk tveimur.  Hann halar líka inn peninga,  en það hafa aðrir gert á undan honum, þ.e. hagnast feitt á tónlistarmönnum. 

Hefur Jón Ólafsson komið út á bók?

Fyrir mér er samasem merki á milli umboðsmannsins og  commercial-músík.

Er þetta metsölubókin í ár haldið þið?

Verðum við einhverju nær?

Ædóntþeinksó.


mbl.is Bók um Einar Bárðarson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Je-je-je-je

Fyrir dálítið mörgum árum hefði ég misst fótanna, tapað áttum, komið af fjöllum, villst af vegi, vaðið í villu og svíma og eitthvað fleira sjálfsagt, ef Bítlarnir hefðu verið á leið til landsins.  Ég hefði fríkað út, ég sver það.  Kona sem missti sig í móðursýkiskasti yfir "The hard days night" og "Help", veinaði og grét í Tónabíó, hefði ekki haft taugakerfi til að þola hetjurnar "live".  Nú stendur í Mogganum að Bítlarnir séu á leið til landsins og ætli að vera á Borginni.  Þetta er auðvitað kjaftæði, nema að Lennon og Harrison, séu uppvakningar og það eru þeir örugglega ekki.

Það eru sum sé eftirlifandi helmingur Bítlanna sem eru á leiðinni hingað.  Lélegri helmingurinn, þó þeir séu auðvitað flottir.  Ringo er krútt.  Ég meina, þegar hann var í Atlavík og íslensku gestgjafarnir buðu honum flottasta humar sem hægt var að fá og þriggja stjörnu koníak, þá harðneitaði hann að borða eitthvað sem skriði og blandaði guðaveiginn í Pepsí.  Svona menn eru krútt.

Ég hlýt að vera orðin gömul, af því ég hef engan áhuga á að berja þessar fyrrum hetjur mínar augum.  Jafnvel ekki þó það eigi að kveikja á "Súlunni" og að Lennon hefði átt afmæli.

Bítlaæðið er í fjarlægri fortíð og nú hlusta ég bara á þá í græjunum mínum og fer í nostalgíukast þegar ég er í stuði.  Þeir geta svo henst út um allt fyrir mér.

Ég er gömul.  Það er á hreinu.

Hví hefur tíminn flogið svona frá mér?

Je-je-je


Vó, matsjó forsætisráðherra!

Það er veikleikamerki að taka upp evruna, einhliða.

Það er kvenlegt að gráta.

Karlmannlegt að hanga á krónunni, "no matter what" eins og Geir Hilmar sagði í dag.

Karlmannlegt að gefa ekki eftir, endurskoða aldrei og láta engan bilbug á sér finna.

Tökum upp dollara.  Það er svo mikið "hinn frjálsi heimur" er mér sagt.

Verum töff, matsjó og hörð í horn að taka.

Úje


mbl.is Geir H. Haarde: Að taka upp evru einhliða álitið veikleikamerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erill efndi til hópæsingar..

..á Akureyri í gær, bölvaður mörðurinn.  Ég var síst að skilja í hvað hefði orðið af honum, en ég hef ekki séð eitt orð í Mogganum í dag um að hann hafi verið á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur.  Erill er klárlega með hegðunarvandamál og það þarf að fara að stoppa karlinn af.

Erill efndi til múgæsingar í miðbæ Akureyrar í nótt, sem sagt, fyllti alla sem úti voru og rann mikið ölæði á fólk.  Skömm að þessu.

Annars efndi ég til hópæsingar í Hagkaup í Kringlunni áðan og það varð mér dýrt spaug.  Það var æsingur upp á sautjánþúsundsexhundruðogáttatíukrónur.

Aðilar að hópæsingu var undirrituð ásamt húsbandi, gamalli vinkonu og sárasaklausum eiginmanni hennar.

Dem, dem, ég hefði betur sett Eril í málið.

Úje


mbl.is Hópæsingur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitun alkans - Snúrukorn

63

Það er með Britneyju, kjéddluna eins og okkur hina alkana, að á meðan afneitunin er í gangi, er enginn máttur á jarðríki sem getur fengið mann til að hlusta.  Ekkert sem getur fengið okkur til að sjá að það sé eitthvað að hjá okkur.  Við getum hins vegar, bent á milljón ástæður fyrir því, hversu bágt við eigum og hve heimurinn sé okkur vondur og óréttlátur.  Við erum fórnarlömb.  Afneitun alkans er svo sterk, svo yfirþyrmandi að hún myndar vegg á milli hugsunar og skynsemi.

Hvað annað en afneitun á ástandinu fær mann til að meiða sjálfan sig og særa alla sem maður elskar og þykir vænt um?  Það er ekki eins og þeir sem haldnir eru sjúkdómnum alkahólisma, séu svona illa innrættir, vilji meiða og skemma og láta allt hrynja í kringum sig. 

Ég er svo fegin að mér tókst, með góðra manna hjálp að horfast í augu við minn vanda og fá hjálp við honum.  Þvílíkur léttir sem það er að hætta að ljúga, að sjálfum sér fyrst og fremst og svo auðvitað að öllum hinum í leiðinni.

Ég ætla a.m.k. að óska þess að þessi kona, sem er á milli tanna okkar allra, ásamt öllum þeim sem enn þjást af sjúkdómnum alkóhólisma, nái í gegnum afneitunina og uppskeri edrú líf í staðinn.

Og ég er í þann mun að fara að sofa - allsgáð að sjálfsögðu.

Nigthy - Nigthy

 


mbl.is Vinir Britney ráðþrota gagnvart afneitun hennar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég elska hana Diddu..

 

..en hún er ein af hljómsveitinni "Minä Rakasta Stinua" og þau voru í Kastljósinu í kvöld.  Ég get svarið það, að það er sama hvað hún Didda tekur sér fyrir hendur, það klikkar aldrei.  Hún er svo mikill karakter þessi stelpa, að það skiptir engu hvort hún syngur, skrifar eða talar.  Hún kemur alltaf skemmtilega á óvart.   Smellið og hlustið.  Didda er flott á Presley.

Úje!

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4355266/3


Í krúttkasti

 

jenny og oliver

Afi Jennýjar og Olivers, sendi mér þessa krúttmynd af þeim í gær.  Ég flippaði út.  Mikið rosalega eru þau miklar dúllur þarna, svona lítil.  Karakterinn leynir sér ekki en Oliver er bara krúsu beibí og Jenný Una er komin með einbeittan framkvæmdavilja.  Hehe.

Svona líta krúttin mín út núna uþb tveimur árum síðar.

Góður Oliver, alltaf í stuði.                     Og Jennslan........

Allaf góð, alltaf glöð og alltaf að sk... ok,ok, eins og Jenný segir, það er ekki meira í boði.

Later!

 

 

 


Ojabjakk!

..að Michael Jackson, barnaperri sé laus og liðugur.  Regulega er komið af stað orðrómi um að karlmennið MJ sé að fara að gifta sig, eigi vingott við þessa eða hina og blablabla, en svo er það jafnharðan borið til baka.

Michael Jackson hefur smekk fyrir smádrengjum.  Ef hann giftir sig þá er það til að reyna að blekkja.

Og eins og Eva bloggvinkona mín segir;  hver hefur áhuga?

Annars snýst heimur minn og annarra sem betur fer ekki í kringum þetta undarlega fólk í fréttunum. Þrátt fyrir að MJ hafi verið gripinn við iðju sína, oftar en einu sinni, þá helst honum það uppi, af því hann er frægur og hann var einu sinni alveg svakalega ríkur.

En hvern langar í smádreng, með afmyndað andlit af fegrunaraðgerðum?

Ekki konur, svo mikið er víst.

 


mbl.is Michael Jackson enn laus og liðugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur heimilisiðnaður í Hafnarfirði

Það var verið að framleiða áfengi í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði (er ekki sprengihætta af bruggi?).  Löggann tók það og maðurinn játaði.

Hann var að brugga gambra og landa.

Ég spyr:

Hver er munurinn á þessu tvennu?

Ég hélt að landi væri gambri og að gambri væri landi?

Ég er svo léleg í allri heimaframleiðslu.

Súmíbítmíbætmí.


mbl.is Bruggari tekinn í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 2988478

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.