Leita í fréttum mbl.is

Engin fjandans ganga í Hljómskálagarðinum

Fyrir utan þá staðreynd að það er gaman að vera vinstri maður í dag, þá er fleira sem kætir mig.

Bitru bloggin og viðtölin við stjórnarandstæðinga skemmta mér svolítið.

Það er ekki þornað blekið á málefnasamningi stjórnarinnar þegar allt liðið geysist fram á ritvöllinn og hefur orðið fyrir ferlegum vonbrigðum.

Eruð þið að fokking kidda mig?

Bjarni Ben, Þorgerður Katrín og Sigmundur Davíð voru auðvitað öll með geysilega háar væntingar til samstarfssamnings þessarar ríkisstjórnar!   Vonbrigði þeirra eru í beinu framhaldi þess vegna mikil og sár.  Halló, við erum ekki öll með möndlu í heila stað.

Stebbi Fr. gleðigjafi var ekki lengi að túlka málefnasamninginn.

"VG sviku kosningaloforð gagnvart ESB".

Stebbi hlýtur að hafa upplýsingar sem ég hef ekki.  Öruggar heimildir.

Krúttlegir líka þeir Bjarni Ben og Sigmundur Davíð.

Þeim finnst frekar lélegt að stjórnin ætli að leita til stjórnarandstöðunnar eftir stuðningi við ESB málið.

Aumingja mennirnir hafa auðvitað ekki hugmynd um að það er til eitthvað sem heitir þverpólitísk samstaða, að það er sama hvaðan gott kemur og að stjórnarandstaða er ekki það sama og skotgrafahernaður.

Svo sá ég í gær eða fyrradag viðtal við Sigmund Davíð, þann undarlega þenkjandi mann, sem var á því að Össur ætti að slíta stjórnmálasambandi við Breta út af Gordon Brown fyrirkomulaginu.

Vakna! 

Bretar settu á okkur hryðjuverkalög í október s.l. 

Þá hummaði íhaldið fram af sér viðbrögðin við því stóralvarlega máli.

Haarde hringdi ekki einu sinni og spurði hverju sætti en viðurkenndi seinna að "maby he should have".

Það er svartur blettur á þjóðarsögunni að hafa látið Bretana komast upp með þann gjörning.

Hryðjuverkalög!  Engin fjandans ganga í Hljómskálagarðinum þar börnin góð.

En nú finnst SD að við eigum að stökkva til yfir nýjasta útspili Gordons Brown (sem er alvarlegt, er ekki að draga úr því) en er ekki nálægt því eins alvarlegt og setning hryðjuverkalagana. 

Reyndar er setning hryðjuverkalagana næsti bær við hernaðarlega árás á landið hvað mig varðar.

Ef stjórnmálasambandi yrði slitið núna en ekki í s.l. haust þegar gjörningur Bretanna gargaði á alvarleg viðbrögðm yrðu Gordi og Darling bæði "dazed and confused" eins og skáldið réttilega kvað.

Alveg: Voðalega svíður þeim undarlega þessum Íslendingum.

Ekki að mér sé ekki nákvæmlega sama hvernig þeir bregðast við þessir flækjufætur.

Lalalalalalala

Fram þjáðir menn og allt það kjaftæði.....

 


mbl.is Ríkisráðsfundur fráfarandi stjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag væmin með tár í augum - á morgun rífandi kjaft

Í ekki svo mjög fjarlægri framtíð, þegar Ísland verður hið fullkomna jafnréttis- og félagshyggjusamfélag, þar sem enginn þarf að svelta og búa á götunni, munu afkomendur okkar segja barnabörnum sínum hvernig og hvenær hið nánast fullkomna þjóðfélag varð til.

Þeir munu segja eitthvað á þessa leið:

Jú, sjáðu til, það varð hrun á Íslandi, peningahrun, siðferðislegt hrun og Ísland varð eitt skuldugasta ríki í heimi.

Þá voru erfiðir tímar.

En svo kom vinstri stjórnin sem kölluð var Norræna velferðarstjórnin og lagði grunn að því góða samfélagi sem við þekkjum í dag.

Og afkomendur okkar munu horfa stórum augum á sögumanninn og spyrja hvort það hafi ekki alltaf verið jöfnuður á Íslandi.

Hehemm...

Ókei, smá draumórar hérna en eiga fullkomlega rétt á sér í tilefni dagsins.

Ég er plebbi og tilfinningavöndull og ég táraðist þegar ég horfði á blaðamannafundinn frá Norræna húsinu áðan.

Kannski þarf maður ekkert að vera væmin til að það komi kökkur í hálsinn á manni nú þegar félagshyggjurstjórn er sest að völdum.

Ég var nefnilega að átta mig á því þar sem ég sat snöktandi í sófanum að s.l. átján ár hefur ekki verið gott að vera venjuleg manneskja á Íslandi.

Svo ég nú ekki tali um þá sem einhverra hluta vegna voru með skerta getu til að þræla myrkranna á milli til að halda heimilinu gangandi og til að fæða og klæða börnin sín.

Orkan var hrá, græðgisleg og það var vont að þurfa að leita ásjár hjá samhjálparkerfinu, segir fólk sem hefur hina bitru reynslu og dæmin eru mörg.

Jafn vont og að anda að sér rakvélablöðum ef þið getið ímyndað ykkur það fyrirkomulag.

Þess vegna er allt í lagi að grenja smá.

Og í dag ætla ég að leyfa mér að vera klökk, væmin og mössímössí.

En á morgun byrja ég að rífa kjaft.

Eins víst og það kemur nýr dagur á morgun.


mbl.is Óbreytt stjórnskipan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræna staðreynd!

Samkvæmt þessu þá er Norræna staðreynd.

Fyrsta hreina vinstri stjórnin frá stofnun lýðveldisins. 

Það hríslast um mig hamingjuhrollur.

(Það má svona í tilefni dagsins).

Ég er ofboðslega spennt.

Korter í blaðamannafund.

Úje.

 


mbl.is VG samþykkir sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torfbæjarskyndibiti fortíðarinnar

Íslensk bjartsýni, dugur og þor er greinilega enn á fullu blasti í brjósti Íslendinga.

Um að gera að nýta viðkomandi framkvæmdagleði til að opna veitingahús - mörg.

Annars var ég að pæla í því, ég hef ekki farið út að borða ótrúlega lengi, fyrir utan nokkrar heimsóknir á góða veitingastaði í London fyrir rúmu ári síðan.

Hvað gerðist?

Ég sem var alltaf eins og grár köttur alls staðar.

Minni fjárráð - já, en ekki endilega.  Er ekki beinlínis þekkt fyrir að hanga of mikið í heimilisbókhaldinu og til margra ára lifði ég á íslensku aðferðinni - þetta reddast.

Ég er einfaldlega orðin svo elsk að heimilinu mínu. 

En það er samt gaman að fara út að borða, kertaljós, ljúf tónlist í bakgrunni, dempuð samtöl milli fólks á næstu borðum, allt ótrúlega stemmingsaukandi.

Ég man nefnilega þá tíma þegar það voru sirka þrír veitingastaðir í Reykjavík (fyrir utan hótelin) og tilbreytingarleysið algjört.

Brauðbær, hammari, mínútusteik (hvaðan kom sú nafngift?), nammi, nammi fannst okkur, enda ekki með mjög þróaða bragðlauka og er þá ekki verið að ýkja neitt sérstaklega.

Gamli Askur.  Allskyns steikur og franskar.

Sælkerinn með sínar gervifranskar.  Ég man enn bragðið.  Kokteilsósa, dásamleg uppfinning.

Halló!

Ég má ekki gleyma Umfó.  Ésús minn, kjamminn með músinni.  Köldu kótiletturnar með raspinu.  Vont, vont, vont.

Í norðangarra um miðjar nætur stóðu íslensk ungmenni við lúguna á Umferðamiðstöðinni, uppkrulluð af kulda, undirrituð með frosin læri og bókaða blöðrubólgu á mánudeginum og úðuðum í okkur torfbæjarskyndibita, þjóðlegri en flaggið og fjallkonan til samans.

Áningarstaður á leið heim frá Tjarnarbúð eða Klúbbnum, allir hálf sjúskaðir enda gera afmynduð og frosin andlit engin kraftaverk fyrir yndisþokkan, angandi af svörtum rússa eða brennivíni í kók.

Ó þú ljúfa fortíð.  Eða þannig.  Maður gerir það besta úr efniviðnum hverju sinni.

Og við komust flest til manns og rúmlega það.

Kjammi, kjammi, kjammi.

Silfrið næst.

Sjáumst.


mbl.is Margir hafa hug á því að opna nýja veitingastaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfheiði í umhverfisráðuneytið ef þú vildir vera svo vænn minn kæri formaður!

Það er tvennt sem ég vil koma á framfæri við sjálfa mig og aðra sem málið áhrærir.

Númer eitt þá á ég erindi við komandi ríkisstjórn.

Ég er með kröfu hérna og hún er skýr.

Krafan beinist að VG sem ég elskaði í kjörklefanum og geri enn og mun gera þangað til annað kemur í ljós.

Ég vil fá Álfheiði Ingadóttur sem umhverfisráðherra.

Halló, það er búið að nauðga íslenskri náttúru aftur á bak og áfram og nú er komið nóg.

Álfheiður er ekki í vinsældaöflun í pólitík.

Hún segir það sem hún meinar og meinar það sem hún segir.

Ekkert blúndu og slaufukjaftæði, ladídadí, svikogprettir.is 

Vinsamlegast verðið við þessari ósk minni, ég veit að þið bíðið með öndina í hálsinum eftir að ég segi ykkur hug minn.

Og að öðru minna máli og ómerkilegra.

Það er andsvitans auglýsingin frá einhverri svona BÝKÓ búð.

"Allt fyrir viðhaldið".

Ég get svarið það að þessi auglýsing er svo algjörlega laus við fordóma að það ætti að setja hana í jafnréttiskafla nýju stjórnarskrárinnar sem við ætlum að fara að semja (já á stjórnlagaþinginu).

Fagurt mannlíf í garðinum.  Jeræt.

Kona í viðhaldi á húsi, karl með eiginkonu að gjóa á konu, eða viðhaldið á húsinu, svo flörtí og krúttlegt.

Eða var fyrir 30 árum þegar fólk hló líka að fílabröndurum.

Eitt er víst að ég þagga niður í helvítis sjónvarpinu og hugsa þessum einfeldningi sem bjó til auglýsinguna þegjandi þörfina sem fattar ekki að hann er að gera stór mistök.

Ég meina STÓR MISTÖK!

Í nútímanum kjáninn þinn, kaupa konur líka nagla, skrúfur, steypustyrktarjárn, málningu og plankastrekkjara.

Alveg sjálfar.

Og ég held að flestum þeirra finnst þetta ekki fyndið.

Annars er ég í ljúfum laugardagsfíling, allsgáð og skemmtileg að vanda.

En Steingrímur; Álfheiði í umhverfis.

Annars er mér að mæta í næstu kosningum.

Farin að dansa og fremja ólíkindalæti.

 


mbl.is Ný ríkisstjórn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra að vera auðtrúa en lyginn

Ég sá á einhverjum miðli að verið var að gera grín að Mogganum fyrir trúgirni vegna fölsku fréttarinnar um ísbjörninn.

Blekkingin sem Mogginn var beittur er rakin í viðtengdri frétt.

Ég er kannski skrýtin en mér finnst alltaf krúttlegt þegar fólk er auðtrúa.

Það segir mér að að viðkomandi trúir enn á manneskjuna, hið góða í henni.

Reyndar var ítrekað gengið eftir sannleiksgildi ísbjarnarfréttarinnar.

En burtséð frá þessu þá eru þetta fullorðnir menn sem voru svona sniðugir, Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður á Akureyri og Páll L. Sigurjónsson, hótelstjóri á Hótel KEA voru hvatamenn að blekkingunum. Þeir og hinir Oddfellowgæjarnir á Akureyri.  Halló, ég hef alltaf haft illan bifur á svona karlaklúbbum.

Fullorðnir menn á djamminu að gera at er ekkert fyndið að mínu mati, bara kjánalegt.

Frekar dómgreindar- og ábyrgðarlaust.

Þetta er svona kalla-gufubaðs-klóra sér í pungnum- hlæja stórkarlalega-ropa og drekka ákavíti í botn án þess að blikna-fara í sjómann-kjéddlingarnar eru fífl- húmor.

Missir að minnsta kosti marks hjá mér.

Vonandi eru þeir með dúndrandi móral og megi hann endast þeim í nokkra daga mér að meinalausu.


mbl.is Ísbjörninn blekking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hata Eurovision!

Af því ég er yfirlýstur Eurovisonhatari sem elskar að hatast við fyrirbærið,  þá fylgist ég með útundan mér, kíki á kjólinn hennar Jóhönnu, sem er bara flottur, hlusta eftir því hvað útlendingarnir segja um lagið og svona, hvernig veðbankarnir raða upp laginu, haldið þið að það sé, og nýt þess í leiðinni að krullast upp.

Hvað get ég sagt?

Ég er fífl.

Fyrir hverja keppni segja Íslendingarnir að nú skuli farið af stað með raunhæfar væntingar að leiðarljósi, minnugir Gleðibankavonbrigðanna.  Þegar Ísland vann hér heima en tapaði stórt í keppninni.

En eftir því sem nær dregur byrja draumarnir, þjóðarstoltið og löngunin til að vinna að taka yfirhöndina.

Í morgun var skrifuð heil frétt í Fréttablaðið um að Andrew Loyd Webber væri yfir sig hrifin af laginu, teldi það aðalkeppinaut breska lagsins sem ég hef auðvitað ekki heyrt. (Hlusta bara á ákveðin lönd).

Það má lesa um að á æfingunum hafi ekki verið klappað fyrir þeim sem voru á sviðinu en fyrir Jóhönnu Guðrúnu var risið úr sætum og klappað um leið og hún lét sjá sig.

Ómæ, svo verða vonbrigðin svo sár þegar við töpum.

Fyrir mér er þetta leikur.

Eurovision er upp að nítíuprósentum algjört moð, ég meina hver setur rússneska lagið frá því í fyrra á geislann og hlustar sér til ánægju?  Það hlýtur að vera öflug sjálfspyntingahvöt sem fær fólk til þess.

Svo hlýtur hver maður að sjá að það er ekki hægt að keppa í músík.

Eða listum yfir höfuð ef út í það er farið.

Halló!

En ég held samt áfram að kíkja með öðru, hatast við lágkúruna og óska Íslandi alls hins besta.

Ég meina, hvað annað getur maður gert?

Þó að maður beinlínis sé í langdrengnum andskotans aulahrolli og hendist um allt í verstu krömpunum?

La´de swinge!


mbl.is Bjóst við meiri móðursýki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo þroskandi mannréttindamissir

fegurðardrottning

Ég var búin að koma mér notalega fyrir í sófanum til að njóta kvöldsins og ég ætlaði svo sannarlega ekki að blogga meira í dag.

En eftir að hafa setið gapandi, nánast lömuð af undrun yfir umfjöllun Kastljóss um samning þann sem Arnar Laufdal gerir við keppendurna í fegurðarsamkeppni Íslands (og hefur gert til margra ára) þá bara get ég ekki látið það eiga sig að láta lyklaborðið taka fyrsta skammt af viðbrögðum.

Rök margra með fegurðarsamkeppnum í gegnum tíðina hafa verið hversu þroskandi svona keppnir séu.

Hversu frábært það sé að læra framkomu (eins og stúlkurnar séu slefandi bavíanar fyrir keppni og kunni ekki mannasiði og kúki og pissi þar sem þær standa), kynnast innbyrðis (jeræt, þarf keppni í fegurð til?) og allt þetta kjaftæði sem enginn stoð er fyrir í raunveruleikanum.

Málið er einfalt; Læri, rass, brjóst og falleg andlit selja, það er hinn raunverulegi útgangspunktur.

Meira að segja foreldrar sumra stúlknanna mæra keppnina í hástert, finnst þetta frábært tækifæri fyrir dæturnar.

Ég er nú reyndar á að þetta sé framlenging á egói okkar foreldranna þegar börnin okkar fá viðurkenningu fyrir sitthvað í lífinu en það er önnur saga.

Svo kemur í ljós að allar þessar stúlkur hafa gert leynilegan samning, sem foreldrarnir fá ekki einu sinni að sjá.

Þar afsala þær sér ýmsum réttindum, eins og að ráða yfir eigin útliti, líkamsþyng,  já og háralit og litaraft verður að vera í formalíni óbreytt til þriggja ára eftir úrslitakvöld.

Þær afsala sér hluta tekna sinna til lengri tíma.

Þær afsala sér slysabótum ef þær meiða sig í keppni.

Þær afsala sér málfrelsi með því að mega ekki láta uppi efni samningsins.

Þær mega ekki einu sinni segja frá tillvist samnings og ef þær verða uppvísar að því að segja frá þessu lítilræði sem fjallar um niðurskurð á mannréttindum þeirra þá þurfa þær að borga 300.000 þúsund krónur að lágmarki til dólgsins ég meina fegurðarsamkeppnishaldarans.

Tíu stúlkur munu, í þessum skrifuðum orðum greiða Arnari Laufdal 30% af tekjum sínum vegna samningsins.

Og fleira og fleira.

Reyndar var þessi samningur eins og afkomandi Napóleons í oflæti hafi samið hann.

Að vera fegurðardrottning og snökta á sviðinu er að öðlast algjörlega nýja merkingu fyrir mér.

Ég vil ekki að það sé komið svona fram við íslenskar stúlkur og ég óska þess að ungar konur fari að sjá í gegnum þennan ljóta leik.

Já, en ég gleymdi það er víst svo svakalega gott og þroskandi að senda stúlkur í keppni um fegurð.

Þrælahald er svo dásamlega þroskandi - það vita allir.

Hvar er kviðristukittið mitt?

ARG.

Umfjöllunin um þennan ótrúlega samning.


Spilum "Sleifarlagið" fyrir Bretana

Ég er glöð með Össur (já, ekki að grínast) og finnst hann standa sig vel í að koma reiði okkar (og frústrasjónum) til skila með ruglið í Brown til réttra aðila.

Svo datt mér í hug hvort við ættum ekki að fara að dusta rykið af búsáhöldunum og halda upp í Breska sendiráð í næstu viku og koma áliti okkar á þessum karlasna til skila.

Það kostar okkur milljónir þegar hann opnar munninn maðurinn.

Já það kostar okkur hátt í sama og þegar Davíð, Geir og fleiri tjáðu sig eins og kjöldregnir galeiðuþrælar á hugbreytandi efnum en ekki alveg þó.

Ég og við eigum ekkert sökótt við breskan almenning, frekar en hann við okkur, það eru stjórnvöld beggja þessara landa sem hafa hagað sér eins og aular ásamt sukkbarónunum auðvitað.

Nú virðist vera að verða breyting þar á.

Össur þarf að minnsta kosti ekki að segja neitt; "Maby I should have" ef hann lendir í þriðju gráðunni seinna meir hjá breskum fjölmiðlamönnum.

Jabb, ég er á því í dag að Össur sé dúllurass.

Eigum við ekki að taka sleifarlagið okkar á þetta í næstu viku bara?

Ha?

Ég sver það, ég held að ég sé í stemmara fyrir það.


mbl.is Ummælum Browns mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolandi eða gerandi?

Gott Össur, kallaðu sendiherrann á þinn fund og lestu yfir breska andskotans fyrrverandi heimsveldinu.

Ég er algjörlega gáttuð á Gordoni Brúna sem gengur um ljúgandi eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég gef mér að minnsta kosti að hann sé að skrökva sig bláan í framan.

Látum karlinn svara til saka.

Aðeins ein (eða tvær) spurning í lokinn kæri Gordon (Össur þú spyrð hennar fyrir mig)?

Vaknaðir þú upp einn morguninn í október og hugsaðir meðan þú starðir á fésið á þér í speglinum:

"Þetta er tíminn til að taka litla Ísland í afturendann?"

Eða eigum við þetta skilið vegna gjörða sukkbarónanna?

Á ég að vera þolandi eða gerandi.  Plís, gera mér það ljóst.

Ég engist hérna.


mbl.is Boðar sendiherra á sinn fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.