Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Gott saman

Ég veit ekki hvort mér finnst kaldranalegra;

Útlendingaeftirlit eða Útlendingastofnun.

Svíarnir kalla sitt batterí "Invandrarverket".

Innflytjendastofnun er ágætt nafn.

Svo vona ég að sá aðili sem ráðinn verður sé húmanisti.

Að hann hafi samkennd og skilning með í farteskinu -

auk lögfræðimenntunarinnar offkors.

Nauðsynleg blanda og gott saman.


mbl.is Fjórir sóttu um Útlendingastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Hruni í leigubíla og viskídrykkju

Ástandið í þjóðmálum er að ná mér.

Ég þessi einstaka, frábæra, geðgóða, jafnlynda, fullkomna, yndislega og ljúfa kona, er ekki nema skugginn af sjálfri mér.

Og hvað gera byltingarsinnar þá?

Jú þeir lesa heilu bækurnar um hrunið.

Fyrst tók ég þessa.

Ég var ekki búin að fá nóg, þegar hér var komið sögu og ég hellti mér út í Hrunið eftir hann Guðna.

Bækur um hrunið og aðdraganda þess eru auðvitað skyldulesning, þó ekki væri nema til að reyna að skilja hvernig við Íslendingar gátum misst allt niður um okkur á meðan við dönsuðum um allt algjörlega ómeðvituð um að hið óumflýjanlega væri að gerast.  Að við værum ekki ósnertanleg og ofurklár, komin með leyniformúluna að velgengninni.

Svo bara hrynur allt í hausinn á okkur.

Lygasögunni líkast að lesa um þennan skelfingarkafla Íslandssögunnar sem enn sér ekki fyrir endann á.

En..

Það er ekki hægt að lesa sér til þunglyndis endalaust.

79 af stöðinni

Svo ég skellti mér í gleðibókmenntir.

Í samanburði við hrunabókmenntirnar auðvitað.

Ég var smástelpa þegar 79 af stöðinni var frumsýnd.

Bönnuð "böddnum" nema hvað, ég var óhuggandi.

Þá náði ég mér í bókina á safninu og las.

Skildi lítið í tvíræðum "á milli línanna lýsinga" á sambandi karls og konu.

Karlinn var nýkominn á mölina, sveitalegur, trúgjarn og saklaus.

Konan í kananum, lausgirt, óheiðarleg og viskídrekkandi.

Nú las ég endurútkomna 79 af stöðinni og hafði gaman að.

Einhver sagði að Indriði væri að herma eftir Hemmingway.

Mér finnst bókin hins vegar séríslensk eftirstríðsbók um átök sveitapiltsins við nútímann í sér.

Þessi bók verður seint talin meistaraverk.

Það er svo krúttlegur byrjendabragur á henni, en hún er skemmtileg heimild um fólkið í borginni þar sem smalagenið, hæðir og hólar heimahaganna þvælast endalaust fyrir nútímavæðingunni.

Lesið, lesið, lesið.

Kreppan líður fljótar.

Það geri ég.

 


mbl.is Einblíni meira á niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veður

 Nauthólsvík

Það er verið að malbika götuna mína.

Það lyktar allt af brenndu gúmmíi.

Hvar er gamla tjörulykt bernsku minnar?

En hei, krakkar, hvað er þetta með sumarið?

Ég er ekki vön að fara á samskeytunum vegna veðurfars, elska veturinn og haustið en síður vorið.

Þetta er algjört kreppusumar í veðurfari.

En sumur bernsku minnar voru sólrík.

Lykt af nýslegnu grasi, vínarbrauði, Sínalkói og bragð af rykugum rifsberjum stolnum úr görðum Ásvallagötu og Hringbrautar.

Ég er farin að skilja gamla fólkið sem oft talar um að hlutirnir hafi verið betri hér áður og fyrr.

Og nú langar mig í apótekaralakkrís.

Úr Vesturbæjarapóteki takk fyrir.

 P.s. Myndin er frá Nauthólsvík, árið 1966, tekin frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.


mbl.is Verður 20 stiga múrinn rofinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gef skít í Icesave

Ég ætla að vera fullkomlega ábyrgðarlaus borgari meðal borgara og gefa skít í Icesave.

Ekki að neinum komi það við, en ég er svo tjáningarglöð og alltaf að troða skoðunum mínum upp á mína elskulegu lesendur.

Oh, ég er svo mikill fjölmiðill á mínum fámiðli.

En krakkar, ég tilkynni hér með að ég er komin með upp í háls af Icesave.

Annar eins aragrúi sérfræðinga sem tjáir sig um hvað sé best í þessu máli, hvað beri að gera og hvað ekki, er að gera mig brjálaða.

Allt þetta fólk sem bloggar, er í viðtölum, skrifar í blöð og kemur í sjónvarp, sem segir okkur hvernig sé best að landa þessu máli.

Ekki semja - semja - fara í mál - senda fingurinn  og ladídadída.

Það er ekki hægt að mynda sér skoðun í þessu flóði "sérfræðiálita".

Svo er ofboðslega auðvelt að sitja heima hjá sér með nefið upp í loft og gefa álit út í cypertómið.

Er oft ansi dugleg í þeirri deild sjálf, látið mig þekkja þetta, en ég er á sérkjörum hjá sjálfri mér.  Só?

En ég sá Gylfa í viðtali í Kastljósinu í kvöld.

Ég trúi því að hann sé að tala af heiðarleika, það er að minnsta kosti mín tilfinning.

Og hann ber ábyrgð á Icesave eins og afgangurinn af landsstjórninni.

Sem er meira en hægt er að segja um marga æstustu álitsgjafana.

Þannig að nú ætla ég að halla mér aftur og bíða og sjá.

Svo vildi ég að Steingrímur J. gæfi þjóðinni ljósrit af bréfaskiptum okkar (sínum) við samningamenn Breta og Hollendinga.

Það er búið að garga eftir þessum pappírum sem hann sýndi Herði Torfa og Láru Hönnu.

Af hverju hélt hann ekki blaðamannafund um málið og sýndi bréfin?

Sussusussu Steingrímur.  Ekki gott.  Gegnsæi, mannstu, gegnsæi.

En..

Ég vil ekki meira garg, fullyrðingar og sérfræðiálit, hvorki keypt né færð fram aldeilis óumbeðið.

Og á meðan ætla ég að fíflast á blogginu eins og ekkert sé bankahrunið.

Og Icesave sé martröð.

Sem það er.

But you know what I mean.

Úje í sumarið.


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Björgólfur Thor

Ég er afskaplega þakklát Björgólfi Thor að opinbera líðan sína og ætlanir gagnvart "Icesave-klúðrinu" sem hann kallar hinu "tæru snilld" Sigurjóns Þ. Árnasonar.

Mér finnst gott til þess að vita að hann skuli vera að gera það sama og ég.

Þ.e. að hugsa stöðugt um Icesave.

Ég verð að játa að ég er með þetta mál á heilanum.

Eins og hver kjaftur á þessu landi og í nálægum löndum líka.

Munurinn á mér og Björgólfi Thor er hins vegar sá að hann ER Icesave-klúðrið.

Ég ER hinsvegar þolandi þessa sama klúðurs ásamt fjölda manns í mörgum löndum. 

Til viðbótar komandi kynslóðum.

En takk Björgólfur Thor fyrir að skenkja klúðrinu þanka á skrifstofunni þinni í London.

Svo ég tali nú ekki um frá snekkjupartíum víðsvegar um Evrópu.

Fyrirgefðu að mér skuli ekki vökna um augu af eintómu þakklæti..

..og beygja höfuð í duft.


mbl.is Hugsar daglega um Icesave-klúðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxusvandamál

Ég get ekki orða bundist við þessari "frétt" um móðurina sem talað er við og er reið, bálreið ásamt fleiri foreldrum sýnist mér, vegna þess að dótturinni var "hafnað" í Verzló þrátt fyrir góðar einkunnir.

Hvers lags hugarfar er þetta eiginlega?

Konan talar um að "börnin" hefðu þurft að fá áfallahjálp vegna þess að þau komast mögulega ekki í þá skóla sem þeim fannst henta best.

Róleg á dramatíkinni gott fólk.  Þetta er lúxusvandamál.

Ég segi velkomin á leiksvið lífsbaráttunnar. 

Lífið er ekki auglýsingabæklingur prentaður á glanspappír þar sem allar vonir og langanir okkar ganga eftir - af því að við höfum unnið okkur inn fyrir því með einkunnum, vinnuframlagi eða æskilegri hegðun.

Lífið er einfaldlega fullt af verkefnum og við sigrum stundum og stundum ekki.

Eins gott að átta sig á því.

Ég get ekki séð harminn í því að komast "bara" í Menntaskólann við Sund eða einhvern annan góðan skóla, því nóg er af þeim sem betur fer.

Við búum við þau forréttindi að geta menntað börnin okkar.

Hvernig væri að gleðjast yfir því?

Það er svo önnur saga og ömurleg að skólar eins og M.R. og Versló, svo ég taki dæmi, skuli velja úr nemendum eins og þeim sýnist, hegðandi sér eins og prímadonnur á sterum, með bullandi Harward wannabíisma.

Svei mér þá hvað vandamálin geta verið misstór og með allri virðingu fyrir foreldrakreppunni, misalvarleg.

Stór hluti þjóðarinnar er nefnilega að berjast við að láta enda ná saman.

Í kreppunni sko.


mbl.is Foreldrar bálreiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búrkur og skótau

burka 

Ég hélt ekki að ég ætti það eftir að verða algjörlega sammála Sarkozy, þeim smávaxna uppskafning og monthana.

En jafnvel það vígi er hrunið.

Sarkozy sagði á franska þinginu í dag, að búrka, klæðnaður múslímakvenna sé ekki velkominn í Frakklandi þar sem klæðnaðurinn sé ekki táknrænn fyrir trú heldur undirgefni kvenna.

Búrka er ein af skelfilegum uppfinningum múslímskra karlmanna til að hafa hemil á konum sínum.

Þær mega ekki sjást.

Horfa í gegnum net.

Ég hef lesið viðtal við konur þar sem þær lýsa upplifun sinni þegar þær byrja að nota búrkuna.

Jafnvægisskynið hverfur, þær sjá bara beint fram fyrir sig.

Kona í svoleiðis viðjum er ekki líkleg til að hlaupa mikið útundan sér eða vera með attitjúd.

Ekki að það séu ekki  lagðar hömlur á konur út um allan heim.

Eins og gert var í Kína á árum áður þegar fætur kvenna voru reirðir.

geisha-kyoto-n-065_3

Geisurnar hlupu ekki langt heldur á töfflunum með plattforminu.

Og við vestrænar konur sem erum búnar að kaupa hugmyndina um að það sé flott að ganga á háum hælum.

Þó maður hafi skögrað um fyrstu mánuðina.

Ég t.d. féll algjörlega fyrir þessu farartæki vestrænna kvenna og bruna áreynslulaust á þeim út um allar koppagrundir þegar sá gálinn er á mér.

 Er t.d. núna að prufukeyra eina sem yngsta dóttir mín gaf mér á laugardaginn.

Ég veit ekki með ykkur, en ég gæti gert byltingu á 10 sentímetra hælum.

Konur eru droppdeddgjorgíus í flottum skóm.

Hvað sem upprunalegri kúgunarhugmynd líður.

Ha?

Meiri andskotans verkuninni.


mbl.is Sarkozy: Búrka tákn undirgefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Riðið á vaðið í rannsóknum

 Hefilbekkur2

Ég er fjandinn hafi það forspá.

Um daginn varpaði ég þeirri spurningu fram á snjáldurskinnu, í algjöru bríaríi auðvitað, hvort það væri í lagi með fólk sem gerði það í bílum.

Ég var þá að hugsa um skort á hugmyndaflugi.

Hver þarf bíla þegar það eru þvottabretti, straubretti, snagar og hefilbekkur á hverju heimili.

snagi

Þarna hef ég beinlínis orðið fyrir andlegri reynslu og séð fram í tímann.

Fólk í Danmörku var að ríða í bílnum og hann fór út af.

Lögreglan segist hafa rökstuddan grun um að þetta ósiðlega athæfi hafi verið í gangi þegar bílinn keyrði á.

Það sem ég er að velta fyrir mér og vantar í fréttina er pönslænið.

Hvað liggur að baka rökstuddum grun lögreglunnar?

Fann hún eitthvað sem benti til samfara í bílnum?

Fann hún þvottabretti í framsætinu?

Eða hefilbekk?

Kannski las þetta fólk mínar heimspekilegu vangaveltur á snjáldrinu.

Og ákvað að "leggjast" í rannsóknir.

Ég sjálfmiðuð?

Ónei, bara raunsæ.

Súmítúðebón.

 


mbl.is Kynlífið endaði með ósköpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit minna en ekkert og hverjum er ekki sama?

Icesave gæti fellt ríkisstjórnina segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Jájá, skemmtilegur möguleiki, rólegur á hryllingnum herra prófessor.

Hvað fengjum við þá?  Hugs, hugs, flettíflett?

Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk með Framsókn á kantinum?

Nú eða Borgarahreyfingu, íhaldi og Framsókn.

Skemmtilegur möguleiki að fá gömlu flokkana aftur saman í stjórn.

Á ekki að leiða mann fyrir aftökusveit bara og ljúka djobbinu.  Ha?

Ég er enn að reyna að komast að niðurstöðu um Icesave.

Ég les allt sem ég kemst yfir.

Eins og Herdísi hér.

Mörð Árnason hér.

Baldur McQueen hér.

Og að lokum Teit Atlason hér.

Svo er annað sem er að trufla mig töluvert og það er viðsnúningurinn í Sjálfstæðisflokki.

Sem eru dedd á móti Icesave, sem er auðvitað þeirri heilagi réttur og allt það kjaftæði.

Í stjórn hins vegar, voru þeir tilbúnir til að skrifa undir þannig að það hvissaði í blekinu og nú spyr ég hvort það geti verið að það sé ekki verið að taka málefnalegar ákvarðanir í þeim flokki?

Getur verið að dagsskipunin sé að vera á móti öllu sem frá ríkisstjórn kemur?

Án tillits til hversu hallærislegt það er svona í ljósi sögunnar, þá talandi um Icesave.

Einver bloggaði um að þar sem VG stæðu í eldlínunni við að þrífa upp eftir hina flokkana og við svona lítil fagnaðarlæti væri mátulegt á íhald og Framsókn að VG rétti þeim ábyrgðina og léti þá um hreingerninguna.

Mikið djöfull væri það mátulegt á þá.

En ég er enn ekki búin að gera upp hug minn varðandi Icesave.

Hallast þó að því að okkur sé best að borga.

En..

Hvað veit ég?

..og hverjum er ekki sama!


mbl.is Icesave gæti fellt stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei, aldrei, aldrei, fótboltablogg!

 

bild2

Einn af andlausari dögum þessa sumars er í dag hvað mig varðar og vonandi verður hann fljótur að líða.

Er reyndar með flensu og var slegin þeirri hugsun áðan að kannski væri það svína.

Hélt jafnvel að það kæmi í bakið á mér að vera með yfirlýsingar um daginn um að ég hræddist ekki flensur, af hvaða toga sem væri.

Það er yfirleitt þannig hjá mér í lífinu að ég má ekki fullyrða um nokkurn skapaðan hlut, þá hreinlega gerist það gagnstæða og lætur sjaldnast bíða eftir sér.

Fullyrðingar eins og; ég ætla aldrei að blogga, aldrei að fara á feisbúkk, aldrei að versla í Bónus (eftir hrun), aldrei á sólarströnd, aldrei að borða hákarl, aldrei að verða alki (já ég veit, manni er ekki við bjargandi), aldrei að falla fyrir tónlistarmanni, hvað þá giftast einum, aldrei að blogga um fótbolta, hafa heldur betur komið aftan að mér.

Nú er sem sagt komið að síðasta lið á aldrei listanum.

Fótboltabloggi.

En það er út frá fagurfræðilegum sjónarmiðum sem ég blogga um Ronaldo.

Róleg, nei mér finnst hann ekkert ofboðslega fagur þó hann sé sykursætur og svona.

Hann er nefnilega plebbi.

Hangir með París Hilton.

bilde

Er í Gucci skóm, með tösku, belti og bílsæti "to match".

bild1

Er ofurtanaður.

Algjör "tíu árum síðar" nörd.

Svo er hann montinn eins og hani.

En hvað um það.

Hugsí, hugsí, hvað á ég eftir að gera sem ég ætla aldrei að gera?

Jú, halda á spikfeitri könguló.

Það verður friggings aldrei.

Tókuð þið eftir að það er ekki minnst einu orði á bolta í þessu fótboltabloggi?

Súmí.


mbl.is Ronaldo útskýrir af hverju hann yfirgefur United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 2985796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband