Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Gleypt og skilað?

 peysan

Ég veit um mann, alveg satt, hann er utan af landi.

Hann átti til að gleypa peninga annað slagið þegar sálin í honum var ekki upp á sitt besta.

Hann vildi meina að þar væru þeir öruggastir.

Gleypa - skila - gleypa - skila.

Hin eilífa hringrás var notuð í stað banka.

Þetta hafði það í för með sér að maðurinn var fluttur í hús, með mörgu fólki, sumu í hvítum fötum, og hann var klæddur í aðskorna treyju með furðulegum ermum.

(Eða hefði verið væri þetta blákaldur sannleikur).

Þú mátt eiginlega ekki borða lykla, peninga, úrgang (þó sumar unnar matvörur hér á landi falli klárlega í þann flokk, nó dád abátitt) eða annað sem til óætis telst og getur verið heilsu þinni beinlínis hættulegt.

En gerir þú þetta þá áttu á hættu að  það verði skutlast til þín með ofannefnda treyju og þú klæddur í þessa sérstöku hönnun á fatnaði.

En svo eru sumir sem sleppa þrátt fyrir vægast sagt perralega siði við matarinntöku.

Þeir strá gullflögum yfir rísóttóið sitt þegar þeir vilja gera vel við sig.

(Ég spyr; hvað er að heiðarlegu silfri?).

Þrátt fyrir að málmblæti þetta sé til á myndum og skjalfest stendur á að mennirnir með treyjuna komi til á blússandi fart.

Hvar eru þeir?

Halló!

En hvað ætli viðkomandi strágull hafi verið mörg karöt?

Ég er forvitin.

gullklósett

Notuðu viðkomandi merkismenn- og konur aðferð mannsins sem ég minnist á?

Gleyptu og skiluðu?

Eða var eðalmálmi þessum bara kúkað í klósettið?

Nehei, það getur ekki verið.Halo

Þetta fólk er auðvitað fullkomlega áttað á stað og stund en fer bara svo vel meða. 

Og nú veina ég á kviðristukittið sem aldrei fyrr!

Hjálp.


Framsókn, Framsókn, dæs

Það er verið að ræða þingsályktunartillöguna um inngöngu í ESB í þinginu.

Fátt kemur á óvart.

Sjálfstæðismenn í skotgröfunum en eru þó með skoðun á málinu þó það megi segja að djúpt sé á henni.

Mr. Bertelsson sló í gegn hjá mér.  Ég er að verða ofboðslega höll undir Borgarahreyfinguna, er farin að hafa áhyggjur af þessu svei mér þá. Hvað um það, Þráinn kom sá og sigraði.

En ég hef áhyggjur af Framsókn sem situr uppi með prótótýpu manns sem líður af athyglissýki, málefnafátækt og lýðskrumsgreddu á formannsstóli.

Það er sorglegt að sjá þessi asnalæti í manninum sem hljóta að stafa af biturð vegna útkomu í kosningum.

Sigmundur Davíð; ekki láta þjóðina líða fyrir biturðina, dílaðu við þetta.

SD vildi ALLA ráðherra í salinn til að hlusta á fagnaðarerindið sem hann flutti, sem einkenndist mest af dylgjum og útúrsnúningum.

Sama með (addna) Eygló Harðardóttur (addna) sem virðist líta á sig sem sjálfskipaðan skemmileggjara málefnalegrar umræðu um þetta stóra mál sem önnur.

Mér er ekki hlátur í hug og ég vil beina því til allra þingmanna að hafa í huga að það er þjóðin sem mun segja af eða á varðandi inngöngu í ESB.

Haldið málinu ekki í gíslingu með málfundaæfingum og skítkasti.

Afgreiðið málið í nefnd.

Við höfum ekki efni á þessu karpi.

Við viljum fá að vita hvað er í boði.

Arg.


mbl.is Æði margir ráðherrar í húsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dugir ekki að sitja heima og lesa?

Dugir ekki að sitja heima og lesa sagði stórskáldið um leið og hann klæddi sig í bomsuúlpuna og vaðstígvélin og rauk í fjárhúsið.

Það dugir víst að sitja heima og lesa.  Mér að minnsta kosti.

Í gær horfði á hryllingsmynd eða krimma, en því miður þá var það ekki skálduð glæpasaga heldur blákaldur raunveruleikinn um einkavæðingu.

Gaddagylfa: Snæddu innmat.

Myndin á R.Ú.V. í gærkvöldi er skylduáhorf þar sem við erum komin undir stjórn AGS.

Svo gat ég ekki sofnað.

Og ég teygði mig í bók sem ég var hálfnuð með.

Það var þessi hér:

í frjálsu

Það er skemmst frá því að segja að þessi glæpasaga er svo spennandi að ég las hana til enda.

Gleypti hana í mig.

Ef þessi verður ekki kvikmynduð með þöglu týpunni með titrandi neðrivör, a la Bruce Willis í aðalhlutverki, þá er ég illa svikin.

Ég þoli reyndar ekki þann karl en það kemur ekki að sök því ég forðast eins og heitan eldinn að horfa á bíómyndir gerðar eftir bókum sem ég hef lesið.

Ég bý mér til mitt sögusvið, mína leikmuni, mitt fólk og ég læt ekki eyðileggja það fyrir mér af fólki sem hefur allt aðrar hugmyndir.

Bókin: Einfarinn og ofurtöffarinn Jack Reacher á hvergi heima og notar hvorki síma né tölvupóst. En þegar hann fær undarleg dulmálsboð gegnum bankakortið sitt veit hann hvaðan þau koma; frá félaga úr rannsóknarsérsveitinni sem hann eitt sinn stýrði. Tíðindin eru ógnvekjandi; einn úr hópnum hefur hlotið skelfileg örlög og flest hinna virðast horfin. Þau sem eftir eru safnast saman í Los Angeles til að grafast fyrir um örlög félaga sinna en flækjast brátt í þéttriðið net samsæris þar sem óþekktur óvinurinn er alltaf skrefi á undan.

Eftir þessa gjörninga, áhorf og lestur, er ég með bauga niður á kinnar og með timburmenn sem eru EKKI verðskuldaðir.

Því ég drakk ekki dropa.

Í rigningunni og í ferðalaginu um komandi helgi ráðlegg ég fólki að háma í sig spennubækur.

Þessi er kjörin í verkefnið.

Úje.


mbl.is Ingvi Þór hlaut gaddakylfuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Idjóta Capital og Hálfvita Group

marteinn frændi

Ari tekur við Landsvaka.

Hörður kemur til Sjóvá, Þór tekur hins vegar pokann sinn þar.

Tryggvi fer til Saga Capital.

Marteinn frændi fer til læknis.

Einar með bílinn í skoðun.

Só?

Ég er engu nær, þekki ekki þessa menn sem fá um sig "fréttir" í blöðin í hvert skipti þegar þeir stökkva út eða inn.

Bíð alveg eftir: Guðríður ræstitæknir hættir hjá Idjóta Capital og hefur störf á mánudaginn hjá Hálfvita Group.

Meira kjaftæðið.

Eina sem ég veit fyrir víst að Gunnar í Kópavogi og Gunnar á Selfossi eru í djúpum skít.

Af mér er það að frétta að ég er í sólbaði, eða væri ef sólin skini og ég nennti.

03_sunbathing

Og hana nú.

 


mbl.is Ari tekur við Landsvaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svari hver fyrir sig

Mikil viðskipti hafa verið hjá vændiskonum í Kaupmannahöfn í Danmörku undanfarna daga en þar hefur staðið yfir alþjóðleg ráðstefna um loftslagsmál.

Þarna koma saman embættis- og stjórnmálamenn væntanlega allir á launum frá ríkinu heima hjá sér.

Mér sýnist að allar þær þjóðir sem vilja kallast siðmenntaðar verði að banna kaup opinberra starfsmanna sinn á vændi.

Fylgjendum vændis er tíðrætt um frelsið.  Frelsið til að kaupa fólk og frelsi til að selja sig.

Flott ef þetta væri spurning um þjónustu þar sem varan er ekki fólk af holdi og blóði.

Hvar setjum við mörkin?

Þið megið versla ykkur konur og menn drengir mínir þegar við þjóðin borgum undir rassgatið á ykkur á ráðstefnur víða um heim.

En ekki kaupa konur yngri en sextán.

Nú eða fjórtán.

En í nafni frelsisin kemur auðvitað vel til greina að gefa þetta frjálst.

Þá geta þjónar fólksins keypt sér allt frá börnum og upp úr, allt eftir smekk hvers og eins.

En þetta má auðvitað ekki segja.

Er konan að halda því fram að stjórnmálamenn og embættismenn séu barnaperrar?

Svari hver sem vill og í leiðinni má svara þeirri spurningu hvar kaup á kynlífi hættir að vera barnaníð og stökkbreytist í "eðlileg" viðskipti.

Tólf ára, fjórtán, sextán, tuttugu?

Svari hver fyrir sig.

 


mbl.is Eftirspurn eftir vændi í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég sem sú "þjóð" sem ég óneitanlega er

Guðlaugur Þór, Birkir Jón og Eygló Harðardóttir fóru mikinn í ræðustól þingsins í dag.

Þeim finnst það niðurlægjandi fyrir þing og þjóð að stjórnarandstöðunni væri neitað um fund í nefndinni.

(Álfheiður Ingadóttir formaður nefndarinnar neitaði þessu).

Ég veit ekkert um efnisatriði málsins, það má vel vera að það sé verið að niðurlægja Guðlaug og félaga alveg endalaust og botnlaust og það er þá ekki voða gaman, neinei.

En..

varðandi mig sem "þjóð" sem ég er og enginn getur á móti mælt, þá er  núverandi meirihluti á Alþingi nokkur þúsund ljósár í að ná í skottið á íhaldinu með að niðurlægja mig, þeir sem lugu, földu, pretttuðu og þögguðu allt í hel í hruninu í haust og í kjölfar þess.

Þess vegna varð búsáhaldabylting krakkar mínir offkors.

Best að taka fram að ég hef ýmislegt við vinnubrögð Alþingis að athuga og á ég þá við meiri- OG minnihluta svo engin haldi að ég sitji í einhverri andskotans júfóríu vegna þess að sá flokkur sem ég kaus situr nú í ríkisstjórn.

En..

sem sagt, þá á Gulli fyrrverandi heilbrigðisráðherra, styrkþegi og gulldrengur ekki að hætta sér út á þetta svell.

Hann gæti runnið illilega á afturendann.

Mikið rosalega er ég annars hress.

En þið villingarnir ykkar?


mbl.is Niðurlægjandi fyrir þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píkuþema í næstu viku?

Er tittlingsþema hjá Mogganum þessa vikuna?

Svona penis season.

Alveg; tökum allt sem hefur með typpi að gera og gerum því ítarleg skil?

Fyrst var frétt um mann sem skaut sjálfan sig í stellið.  Áts.

Núna um mann sem skar undan elskhuga eiginkonunnar í Frakklandi.  Ennþá meira áts.

Það er auðvitað fréttnæmt þegar verið er að misþyrma barnasmiðnum, lostapinnanum, unaðsstjakanum, lilleven (hehemm).

Úff, má ekki heyra eða sjá orðið "lilleven" öðruvísi en að mig langi til að grípa til kviðristukittsins.

Ég hef alltaf haldið að ef það er skorið undan mönnum þá sé allt búið.

Nema auðvitað á skurðarborði.

Hvað er ég að blogga um þetta?

Jú, ég var að pæla í hvort Mogginn verður með píkuþema í næstu viku.

Bíð spennt.


mbl.is Aflimaði elskhuga eiginkonunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minna sárt my lord

 the butler

Ég á ekkert erfitt að finna til samkenndar með fólki, þ.e. þessu venjulega, mér og þér.

Ég skil aðstæður þess sennilega vegna þess að ég hef verið í svipuðum sporum, að minnsta kosti skynja ég það svoleiðis.

Svo er fólkið sem ég botna ekkert í.

Eins og t.d. karlinn í N-Kóreu, þessi sem sveltir þjóðina og býr til kjarnorkusprengjur og heldur fólki tengslalausu við umheiminn.

Ég tapa þræði.  Næ engum kontakt við þennan bústna brjálæðing.

Ég velti fyrir mér hvernig lífi hann lifi, hvort hann borði Seríos á morgnanna, rabbi við konuna eða krakkana og hafi áhyggjur af hvort bílinn fari í gang, segi góða nótt elskan við rekkjunautinn, kyssi hann blíðlega á kinnina og óski góðra draumfara.

Sé það ekki fyrir mér.

Ekki frekar en ég sé Angelinu og Brad sitja áhyggjufull yfir að hafa gleymt að kaupa wipes og hvað þau eigi að hafa í matinn.

Skilningsleysi mitt varðandi s.k. útrásarmenn (get ekki lengur skrifað útrásarv...., komin með óþol) er algjört.  Þeir gætu allt eins verið geimverur hvað mig áhrærir.

Ég get ekki samsamað mig fólki sem nennir ekki í venjulegar flugvélar, nostrar við sjálft sig út í það óendanlega, á nokkur stykki heimili á pínulitlu svæði eins og í Reykjavík, and on and on í ruglinu.

Í sjónvarpinu í gær þegar sagt var frá húsleit á heimili þessa manns, Ólafs, var tekið fram að enginn hafi verið í húsinu nema þjóninn hans!

Hvaða geðveiki er í gangi?  Brengluð sjálfsmynd eða mikilmennskubrjálæði? Við erum alþýðufólk við Íslendingar, þó sumir vilji tengja sig við göfugar ættir til að losna við smalaeðlið.

Það truflar mig lítið að Óli sé með þjón sem vermir inniskóna og plokkar á honum nefhárin.

Eða hvað það er sem svona bötlerar  gera fyrir húsbónda sína.

Mér er sama þó ég skilji ekki herra hálfvita og erkifífl í Kóreu.

Missi ekki svefn vegna heimilsástands og víravirkisblúndutilfinninga Angie og Brad.

En mig langar að geta samsamað mig landsmönnum mínum.

En kannski er Ólafur og kó ekki þjóðin.

ISG hefði átt að taka fram við hverja hún átti í Háskólabíói í haust.

Hún var kannski að vísa til þessarra þrjátíu?

Jabb, ég hef nú á þessari stundu ákveðið að það hafi verið þeir.

Ég get lifað með því, það er minna sárt my lord.

 


mbl.is Leitað í sumarhúsi Ólafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Thanks for nothing"

Lilja Mósesdóttir talar eflaust fyrir hönd margra þegar hún segir að við eigum að afþakka ráðgjöf AGS (og væntanlega öll afskipti þeirra hér á landi).

Ég vil þá burt.  Skila láni.  "Thanks for nothing".

Eftir því sem ég skoða meira um fyrirkomulag vinnubragða á þessum sjóði þá held ég að við séum í vondum málum í þessu "samstarfi" sem mér finnst nú eiginlega meira vera einhliða ákvarðanataka sjóðsins, eins og í vaxtamálunum.

Í dag hef ég reyndar ákveðið að treysta ekki stjórnmálamönnum (með örfáum undantekningum reyndar) lengra en ég get hent þeim og það er í mínu tilfelli núll.

Maður heyrir svo margt.

En hvað um allt það sem manni er ekki sagt?

Hvað um alla leyndina?

Hvað um Icesave?

Svo ætla ég rétt að vona að Alþingi bregði ekki fótum fyrir lýðræðið með því að koma í veg fyrir að við sækjum um aðild að ESB.

Róleg, ég er enginn stuðningsmaður ESB en veit minna en ekki neitt um hvað það inniber fyrir okkur að ganga þar inn.

Ekki frekar en allir hinir "sérfræðingarnir" sem eru óþreytandi við að telja upp "pros and cons" við inngöngu en geta ekki vitað neitt með vissu vegna þess að við höfum aldrei sótt um í guðanna bænum.

Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir stjórnlagaþing.

Nú reynir á vilja Alþings til að sýna fram á alvöru vilja til að leyfa "múgnum" og "skrílnum" að hlutast til um sín eigin mál í atkvæðagreiðslu um ESB samning.

Getur verið að meirihluti Alþingis sé hræddur við að leyfa okkur fólkinu að ákveða hvað við viljum?

Ég vona ekki.

Úff, ég er svo pirruð í dag og hef góða ástæðu til.

Er búin að fylgjast með umræðum á Alþingi, það tekur á.

Hmprf.....


mbl.is Ætti að afþakka ráðgjöf AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll stráin, öll stráin

Grasrótarhreyfingar eru nauðsynlegar og skemmtileg fyrirbæri.

Þær spretta upp vegna þarfa á breytingum, til að koma málstað á koppinn og þær geta gert kraftaverk á stuttum tíma.  Þar safnast saman fólk með sömu hugsjón.

Dæmin um grasrótarhreyfingar eru mörg og konur hafa verið duglegar að skipa sér í lið um brennandi málstað eins og t.a.m. Kvennaathvarf og Stígamót sem löngu hafa sannað gildi sitt.

Eðli grasrótarhreyfingar hlýtur að vera að leggja sig niður þegar takmarkinu er náð.

Allavega eru þær ekki eilífar, grasrótin leitar þangað sem þörfin er.

Borgarahreyfingin er dæmi um grasrótarsamtök sem komu, sáu og sigruðu.

Nú hriktir í stoðum hreyfingarinnar, strax eftir kosningar.

Ég hef unnið í grasrótarhreyfingum og eins frjóar og skemmtilegar og þær oftast eru þá hafa þær auðvitað neikvæðar hliðar og þær hrútleiðinlegar.

Eins og t.a.m. öll stráin sem vilja hafa um málin að segja og þá verður grasrótin seinvirk, fundirnir í þeim martröð og ofboðslega orkufrekir til lengdar.

Grasrótin er nefnilega ótrúlega fundaglöð.

Ég vona hins vegar að Borgarahreyfingin komi skikk á þetta hjá sér.

Það er glatað að þurfa að beina orku í innanhússátök þegar þörfin fyrir góð verk er í sögulegu hámarki.

Koma svo.


mbl.is Átakafundur hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2985744

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband