Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Þokuheilkenni strákanna

Í eftirleik bankahrunsins þegar Geir var "maðurinn" löfðu fjölmiðlamenn á honum og þjóðin við sjónvarpið og allir biðu eftir að hann segði eitthvað.

Einhvern sannleika sem myndi ljúka upp fyrir manni staðreyndunum um ástandið, hversu illa við værum stödd, hver væri ábyrgur (kannski hann smá) og svo endalaust framvegis.

En Geir sagði aldrei neitt sem leiddi mann í sannleika en hann sagði samt helling.

Bjarni Ben er svona líka, talar og talar og maður skilur ekki rassgat hvert hann er að fara.

Ég og ein góð vinkona mín höllumst að því að þetta sé nokkurs konar þokuheilkenni.

Sko, um leið og þeir segja eitthvað þá fyllist hausinn á manni af þoku, nú eða bómull, allt eftir því hversu lengi þeir mala.

Þennan "hæfileika" virðast þeir stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum öðlast þegar þjálfun í Valhöll er að baki og þeir samkvæmt flokkslögum, fullnuma.

Íhaldið vill ekki gera sig skiljanlegt við fólk, ef einhver skyldi halda það, þeir vilja halda okkur í þokunni og mistrinu, hamingjusamlega aftengdum frá raunveruleikanum.

Svo hófst biðin eftir að "maðurinn" segði orðin.

Þau eru  "fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki staðið mig betur" eða eitthvað á þá leið.

Það var enginn að ætlast til að hann húðstrýkti sjálfan sig eða að hann ynni sér stórkostlegt mein í refsingarskyni.

Bara þetta einfalda orð "fyrirgefið" og stór hluti fólks (ekki ég þó ég hefði virt það við hann) hefði gefið íhaldinu séns.

En ég er skelfilega þakklátt fyrir að fór sem fór, búin að bíða svo lengi eftir að koma kerfisflokknum frá völdum.  Sjálftökuliðinu, kunningjareddingargæjunum, jakkafatakörlunum sem klóra hver öðrum á bakinu svo ég taki þessar lýsingar ekki lengra að sinni.

Og enn þrjóskast "maðurinn" við.

Með besta vilja er hægt að túlka orð hans í gær sem afsökunarbeiðni, sko ef maður er ekki sofnaður yfir upptalningunni hjá honum um það sem var EKKI honum að kenna.

Svo er bankaleyndin gengin út í öfgar segir Geir!

Vá, "tell me something I don´t know"!

Og Geir; má treysta því að þú meinir að það sé langt í að samstarf við Samfó verði reynt aftur?

En Framsókn?

Gætir þú gefið upp hverjir eru eðalflokknum þóknanlegir?

Ekki að það skipti neinu, Sjálfstæðisflokkurinn mun nánast þurrkast út í kosningunum í vor, það er að segja ef fátvitaheilkenni þjóðarinnar tekur sig ekki upp aftur af fullum krafti.

En segðu okkur samt, bara svona til gamans.

Jeræt.


mbl.is Bankaleyndin gengið út í öfgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið til mín

Hér er sólarhrings gömul frétt sem ég ætlaði ekki að blogga um.

Mér líður svo illa með hana og ég er svo reið.

Í staðinn fyrir að láta liggja ætla ég svona fyrir sjálfa mig að blogga um dóm Hæstarétts sem hefur sýknað sóknarprestinn af ákæru um kynferðislega áreitni við unglingsstúlkur.

"Presturinn, sr. Gunnar Björnsson, var á síðasta ári ákærður fyrir að hafa brotið gegn tveimur 16 ára gömlum stúlkum með því að faðma þær og strjúka aðra þeirra og segja straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana. Hann var ákærður fyrir að kyssa hina stúlkuna á kinnina og segja að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg."

Mér skilst að presturinn hafi játað verknaðinn sem að hans sögn hafði ekkert með kynferðisáreiti að gera, hann er bara svo opinn og tjáningarríkur maður.

Svo snertiglaður og blíður.  Jesús bara alla leið og kraftaverk í gangi.

Er það nema von að ég hafi skömm á kjólklæddum mönnum hjá þessari glötuðu ríkisstofnun.

Það er ekki í fyrsta sinn sem kærleikurinn lekur út í útlimina á þeim blessuðum guðsmönnunum.

En ég, heiðin eins og ég telst vera af tæknilegum ástæðum sem ekki verða gefnar upp hér, skil auðvitað ekki að Jesús er að verki í prestum eins og þessum.

Kyssa, strjúka og faðma telst samkvæmt þessum dómi eðlilegt í kirkjunni.

Það þarf engan Hæstarétt til að segja mér hvað er viðeigandi og hvað ekki. 

Mikið rosalega bíð ég spennt eftir því hvort biskupinn yfir kirkjunni setur sérann aftur í vinnuna.

Komið til mín börnin góð.

 


mbl.is Sóknarprestur sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úje og hamingja í húsinu

 mary quant

Jájá, Liam Gallagher framleiddu föt og farðu með æðruleysisbænina bara, þú ert skaphundur.

Og að hinni eiginlegu ástæðu þessarar bloggfærslu sem hefur með grafalvarlegt mál að gera.

Ég er með fatavandamál.

Ég er fatafrík, reyndar verða þau að vera svört og þau eiga helst að heita eitthvað annað en "framleitt af Hagkaup fyrir Hagkaup".

Dætur mínar hafa séð mér fyrir flottum fatnaði undanfarin ár.  Helga og Sara kaupa alltaf handa mér þegar þær fara til útlanda. 

María Greta sendir mér frá London, notað og nýtt og ég gæti ekki verið meira happí með fyrirkomulagið.

En samt er farið að vanta í skápinn.

Ég man nefnilega að í fyrrasumar þegar veðrið var óíslenskt og sumarið var sumar, átti ég nánast ekkert af fötum sem hæfði tilefninu.

Tvo hörkjóla og svo var það upptalið.

Ég sagði við húsband í gær (kæruleysislega til að koma honum ekki í ham): Heyrðu, mig vantar föt.

Hann: (Rétti út handlegg og sveiflaði í átt að fataskáp eins og Mússolíni í svalaræðunni):

Hvað með ALLA kjólana þína?

Ég: Arg.  Þarftu ekki að taka til á lóðinni eða eitthvað?

Skilningsleysið algjört - kynjabilið á við "Grand Canyon".

Síðan hefur ríkt kjarnorkuvetur í samskiptum hér á kærleiks.

En...

Málið er að mér finnst bæði vont og vanþroskað að vera hégómleg hvað varðar fatnað.

Ég vildi vera meira hipp og kúl kona sem hengir ekki sjálfsmyndina á druslurnar sem hún gengur í.

Að mér þætti nóg að vera hrein og fín.

En þangað til það gerist ætla ég að kaupa mér föt eins og mér væri borgað fyrir það.

Ókei, ég ýki, en eins og eina mussu, eða pils fyrir sumarið ætti maður að geta sloppið með eða hvað?

Nananananana, farin að kyssa minn heittelskaða og semja frið um fataskápinn.

Ó, hann er ekki heima, ég geri það seinna.

En ég get glaðst yfir einu, ég á slatta af litlum svörtum.

Úje og hamingja í húsinu.

biba1

P.s. Svo datt ég í nostalgíuna þegar ég fór að leita að myndum við færsluna.  BIBA í London (Valdís, haltu þér), flottasta búð ever, Mary Quant, ésús minn, dagarnir í London, þegar lífið var föt og sætir strákar.

Ómæómæ, svo er bara friggings kreppa.

En það er ókeypis að hverfa til betri daga, þegar föt kostuðu ekki hvítuna úr augum manns.

Ætti ég að flokka hana þessa undir mannréttindi?

Nebb, fer undir lífstíl.


mbl.is Kominn í tískuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fer ekki rassgat

Við Íslendingar höfum öðlast tilgang í kreppunni.

Við erum vítið til varnaðar.

Skemmtilegt.

Maður í Eistlandi var handtekinn fyrir að lýsa því yfir að landið væri á sömu leið og Ísland í kreppunni.

Löggan kom daginn eftir og setti manninn í járn.

Það eru liðnir þeir dagar þegar maður límdi vegabréfið á ennið á sér og hrópaði á götuhornum útlandsins að maður væri frá landi elda og ísa.

Þessu fallega landi, með merkilegu söguna.  Landinu þar sem fólk skrifaði heimsbókmenntir á meðan Svíarnir t.d. voru að tjá sig á grjót.

Kannski var þetta misskilningur með þjóðarstoltið, ég hallast að því.

Við erum eins og aðrar þjóðir, góðar í sumu en lakari í öðru.

Þangað til núna.´

Núna erum við defenetlí verst í sumu og enginn, enginn, vill komast á þann stað sem við nú dveljum.

Þ.e. með allt niðrum okkur.

En sumt er krúttlegt og fær fólk í öðrum löndum til að brosa vinsamlega út í annað (jeræt) alveg:

"Dúllulegir þessir Íslendingar, með fimm manna teymi til að rannsaka stærsta bankarán sögunnar sem b.t.w. enginn ber ábyrgð á".

Ég held að ég grafi vegabréfið niður á töskubotn næst þegar ég fer út landi.

Nú eða sitji bara heima þangað til að það fennir yfir ósköpin.

Sem þýðir að ég fer ekki rassgat í þessu lífi að minnsta kosti.

Og Obama, Smobama, borðaðu slátur.


mbl.is Obama: Ekki sömu leið og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af þessari eða hinni kynslóðinni

Ég hef aldrei skilið hrifninguna á "My way" eða á Frank Sinatra sjálfum, ef við tökum þetta aðeins lengra.

Alveg er ég viss um að Frank hefur verið lágvaxinn.

Nánast sami dvellinn og Prince, Tom Cruse og fleiri mætir menn.

Af hverju hjartaknúsarar eru oft svona helvíti lágvaxnir er auðvitað bloggefni út af fyrir sig.

En það verður seinna.

Ég held að mín kynslóð finni ekki glóru í músík Franks og vina hans, Crosby og Martin.

Það vantaði allt líf, allan kraft í hana.  Þetta var svona "ég elska þig, villtu giftast mér og eignast með mér börn í þessari röð" tónlist.

Það er hægt að drepa mig úr leiðindum á einni B-hlið með þessum mönnum. (Ókeypis upplýsingar í boði hússins fyrir áhugasama). 

Ég spyr; hvar er hitinn og sexappílið?

Sama var með Shadows-kynslóðina á Íslandi sem missti af Bítlunum og Stonesog náðu aldrei málinu.

Þeir héldu bara áfram að vera í nælonskyrtu, með lakkrísbindi og greitt í píku.

Og fóru í Þórskaffi og rugguðu sér í lendunum.

Algjört törnoff sú kynslóð.

Við vorum hins vegar frábær, bítlakynslóðin sem síðan varð hippós.

Ég málaði á mér lappirnar með eylinernum mínum, rósir og læti upp á læri og gekk um í Jesúskóm, um ískaldan vetur.

Hippabarnið var nærri dáið úr akút þvagfærasýkingu.

Ég held reyndar að Shadows-gæjunum og Sinatrangenginu hefði fundist ég eins og hálfviti.

Það fannst foreldrum mínum að minnsta kosti.

En ég tók ekkert mark á því.

Þau voru af Maríu, Maríu, Maríu-kynslóðinni.

Skiljið þið hvert ég er að fara?

Nei?

Mér er alveg sama.

Ég er nefnilega líka af I don´t give a fuck kynslóðinni.

Úje.

Ekki spurning - Hagen tekur þetta.


mbl.is 40 ár frá því Sinatra flutti My way í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má vona

Skrímslið Fritzl mun eyða ævinni á stofnun fyrir geðsjúka einstaklinga.

Eins lengi og honum endist aldur til.

Ég hins vegar, vonast til að hann drepist fljótlega.


mbl.is Fritzl sakfelldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir harmarnir

Það má vera að það sem ég ætla að blogga um geti talist ósmekklegt.

Það verður þá að hafa það.

En ef eitthvað er ósmekklegt varðandi dauða þessarar vesalings konu, Natöshu Richardson, þá er það tilfinningaklámið bæði í fjölmiðlum og á blogginu, uppúrveltingurinn snýr við í manni maganum. 

Það er fjallað um dauða þessarar konu eins og ekkert geti mögulega verið merkilegra í heiminum.

Kynhneigðarsaga fjölskyldu hennar er tíunduð.  Afinn var bíari, pabbi hennar líka.

Só?

Ég get endalaust pirrað mig á vægi mannslífa í heiminum.

Tugir þúsunda barna látast úr sjúkdómum í Afríku á hverjum degi.

Annar eins fjöldi deyr úr hungri.

Tugþúsund litlar sálir sem ekkert hafa til saka unnið og það fer fram hjá flestum.

Það er að minnsta kosti ekki forsíðufregn neins staðar.

En deyji einhver sem telst til merkilegri persóna þá er eins og fólk gráti sig í svefn.

Ég tek fram að mér finnst verulega sorglegt þegar fólk deyr ótímabærum dauða.

En börn sem líða skort, þjást af sjúkdómum, eru notuð sem þrælar, seld eins og búfénaður, standa mér nærri hjarta og koma í veg fyrir að ég geti fallið í sorgarsjokk yfir svona fréttum.

En auðvitað er þetta harmafregn.

Það eru hins vegar allir harmarnir sem við heyrum ekki um sem ég hef áhyggjur af.


mbl.is Natasha Richardson látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegir

Halló, stýrivextir lækkaðir úr 18% í 17%

Ekki missa ykkur í hækkunarbransanum þið í Seðló.

Alveg óþarfi að fara offari og lækka eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég á ekki krónu.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara ein Jóhanna

Ég er alltaf að bíða eftir einhverju.

Núna t.d. bíð ég eftir vorinu.

Nú eða páskunum, ég er að bíða eftir páskunum, vegna þess að þegar þeir eru liðnir er stutt í Sumardaginn fyrsta, sem hefur reyndar ekkert með sumarbyrjun að gera en er rauður dagur á almanaki sem er alltaf jákvætt.

Samfylkingin bíður eftir Jóhönnu og stór hluti þjóðarinnar líka.

Ég er meira að segja að bíða eftir Jóhönnu vegna þess að ég held að fáir ef nokkrir séu betur til þess fallnir að vera í fremstu víglínu.

Það er góð æðruleysisæfing að bíða. 

En hvað sem Jóhanna nú kýs að gera þá sættist ég á það.

Það er ekki hægt að djöflast á manneskjunni svona undir drep.

Það er bara ein Jóhanna.

Og hananú.


mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makedónarnir

Minn heittelskaði er að horfa á handboltann.

Miðað við stóíska ró mannsins í sófanum eru Íslendingar í ágætis málum.

Mér gæti ekki staðið meira á sama enda íþróttahatari.

Sko, boltaíþróttahatari nema þegar Dorrit er á vellinum.

Og hávaðinn, hér heyrist ekki mannsins mál.

En...

Hvað á það að þýða að kalla menn frá Makedóníu, Makedóna?

Eru þeir dónalegri en menn af öðru þjóðerni?

Hvað varð um Makedóníumenn?

Sama ruglið var í gangi þegar þeir breyttu Mexíkönum í Mexíkóa.  Ég get ekki lifað með því.

En Dónarnir eru undir.

Það er bót í máli.

Áfram Ísland.


mbl.is Frábær sigur í Skopje
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 2987153

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband