Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Alkinn ég

 

dansklemmur

Ég vaknaði í morgun og sjá, það hafði snjóað.

Ég verð að játa að ég er orðin ansi þreytt á þessu hvíta dufti út um allt.

Hvar er vorið?

Jájá, ætla ekki að blogga um veður.  Veðrið er eins og það er og þar til vísindin koma með veðurstillingatæki þar sem maður getur valið vetur, sumar, vor og haust, þá situr kona í súpu.

Ég er að fara í fermingarveislu.

Hm.. ég hef nú bloggað um fermingarveislur áður og það ekki allt fallegt.

En það geri ég bara í fokki og fíflaskap, þær eru ágætar.

Sko, í minni fjölskyldu þar er fólk frekar skemmtilegt.

En hei, vissuð þið að ég er alki?

Ég er það sko, ég spyr vegna þess að ein systir mín var að auglýsa eftir alkabloggi, það væri svo langt síðan og svo væru stjórnmálin að kæfa allt á þessari síðu minni.

Ég alveg tilbúin til þjónustu: Ég blogga um alkan mig bara í bítið í fyrramálið, ekki málið krúsa mín.

Og hér kemur það.

Ég er alki, á þriðja ári edrú. 

Drakk bjór og vin, át pillur og blandaði öllu saman þangað til að ég nærri dó.

Ég mæli ekki með þessum lífstíl.

Leiðinlegri sjúkdóm (eða hobbí allt eftir því hvar fólk skilgreinir sig) er ekki hægt að koma sér upp börnin góð.

Síðan ég varð edrú hefur líf mitt verið eintóm hamingja.

Hm. reynum aftur.

Síðan ég varð edrú hefur líf mitt gjörbreyst til batnaðar.

Ég á slæma og góða daga.

Á hverju kvöldi fer ég að sofa nokkuð sátt í sál og sinni.

Edrú í boðinu.  Ekki spurning.

Farin að taka mig til.

Þetta er snúrublogg börnin mín sæl og samstæð.


mbl.is Óveður á Súgandarfjarðarvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítlega eðlið?

Davíð hefur talað og um leið sýnir hann okkur innræti sitt sem ég hef oftlega haldið fram að væri ekki alltaf fallegt.

Látum það vera, einn maður, skítlegt eðli, eins og einhver sagði hér einu sinni.

Íslenska þjóðin stendur ekki eða fellur með einum manni, þrátt fyrir að hann heiti Davíð Oddsson.

En það sem gerir mig hrædda er að við lestur þessarar fréttar og annarra eins og t.d. þessarar, er að Davíð varð margoft að gera hlé á ræðu sinni vegna hláturs og lófaklapps landsfundargesta Sjálfstæðisflokksins.

Mig óar hreinlega við því að fulltrúar þessa stóra flokks (óðum minnkandi þó) komi að landsmálunum, fólk sem hlær yfir heiftarræðu karlsins, persónulegum árásum hans á útlit fólks svo ég nefni dæmi.

Talandi um heift, langrænki og hvítglóandi bræði.

Einhver þyrfti að kenna manninum æðruleysisbænina.

Þeir hylla Davíð eins og hetju.

Hvar hefur þetta fólk verið síðan í októberbyrjun og æ síðan?

Svo er hitt að það er varla kjaftur undir þrítugu á landsfundinum.

Hversu klikkað er það?

Úff.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lært?

Eftir Breiðavíkurmálin og annan ámóta hrylling sem börnum var boðið upp á hér á þessu landi hélt ég að við, þ.e.a.s. kerfið sem á að halda utan um börnin sem lenda í höndunum á því, hefðu eitthvað lært.

Í nágrannalöndunum er því þannig farið að ef minnsti grunur kemur upp um að verið sé að misnota börn þá þarf fólk að leita að annarri vinnu.

Barnið er sem sagt látið njóta vafans ekki sá fullorðni.

Hér er þessu greinilega þveröfugt farið.

Maður sem starfar á meðferðarheimili út á landi fékk á sig kæru um kynferðislegt ofbeldi á stúlku í hans umsjá í fyrra er aftur grunaður.

Í fyrra tilfellinu var ekki talið ástæða til kæru og maðurinn hélt því starfinu.

Núna hefur honum verið vikið frá tímabundið á meðan málið er skoðað.

Ég veit ekkert hvort þessi maður er sekur.

Ég veit hins vegar alveg nóg til þess að komi upp svona grunur og það í tvígang þá á maðurinn að vinna við annað en að bera ábyrgð á börnum.

Við höfum einfaldlega ekki efni á að hætta neinu þegar börnin okkar eru annars vegar.

Það er klippt, skorið og einfalt mál hvað mig varðar að minnsta kosti.

En það virðist vera þannig að þegar kemur að því að velja, þá stendur fullorðna fólkið saman gegn börnunum.

Kannski mótmæla sumir þessari staðhæfingu minni og það er í lagi.

Ég bendi þeim sömu á að kynna sér barnavernd á Íslandi bæði í lengd og bráð.


mbl.is Meint kynferðisbrot á meðferðarheimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann var að hugsa til mín - brrrrrrr

 woman_laughing

Laugardagsmorgnar hér á kærleiks eru oftast mjög huggulegir.

Þessi hér er skemmtileg undantekning.

Stundum nennir maður ekki að tala.

Svefninn situr einhvern veginn áfram í hausnum á manni og maður hlykkjast áfram eins og í draumi.

Þá eru það stikkorðasamskiptin bjarga stöðunni.

Ég: Værir þú til í að lækka útvarpið, ég heyri ekki sjálfa mig hugsa.

Hann: Sjálfsagt (hann lækkaði ekki en þóttist gera það, er hann að missa heyrn?)

Ég í huganum: $/%$&/#Q"Ö

Hann: Ég er að fara að vinna, á ég að kaupa eitthvað.

Ég: Nei.

Hann: Ha?

Ég: Ég tala við þig um það á eftir.

Hann: Ég elska létta morgunlund þína kona!

Ég: Hmrpfd

Ég stóð í eldhúsinu við að sprauta mig og svoleiðis og það kom kaldur gustur á lappirnar á mér.

Ég (kallaði hátt): Ertu úti að reykja, það varð allt í einu svo kallt?

Hann: Nei, það hlýtur að vera vegna þess að ég var að hugsa til þín honní.

Tíu núll fyrir honum og ég elska hann í tætlur.


Samanhristingssamkomurnar í guðs nafni

Siðrof er stórt orð sagði einhver nýlega í fjölmiðlum.

Man ekki hver.

En siðrof er orð sem kveikir engar tilfinningar hjá mér, ég þekki það ekki að því marki að það komi við mig.

Og nú hef ég tilfinningu fyrir því að þetta orð verði notað í annarri hverri setningu þangað til það verður gatslitið og fólk verður farið að biðja sér vægðar.

Svona eins og gegnsæið.  Gegnsæisorðið er orðið svo útjaskað að það hefur misst merkingu sína.

Einkum og sér í lagi vegna þess að þeir sem hafa unnið gegn öllu gegnsæi og opnum vinnubrögðum nota það eins og það sé eina orðið í eigu þeirra.

Svo að lokum, áður en ég fer og sef í hausinn á mér þá fer það ofboðslega fyrir brjóstið á mér þegar landsfundir og aðrar samanhristingssamkomur pólitískra flokka eiga sér stað, að þátttakendur koma því endalaust á framfæri hvað stemmingin sé dásamleg.

Svo mikið af nýju fólki.

Samkenndin algjör.

Baráttuhugurinn í algleymingi.

Stemmingin svooooo frábær.

Og ekki má gleyma landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem að þessu sinni skunduðu til fundar með Guð í farteskinu.

Sem þýðir það eitt að það þýðir ekki að biðja bænirnar sínar á meðan.

Guð er upptekinn með íhaldinu.

Nigthy, nigthy.


mbl.is Siðrof í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum á guðs og okkar vegum

Varúð, ég ætla að blogga um landsfund íhaldsins.

Þeir sem fara hamförum í koxmentakerfinu mínu og heimsins hættið að lesa og drífið ykkur á landsfundinn bara.

En Geir bað Sjálfstæðismenn afsökunar (hér með) í opnunarræðunni sinni í gær.

Oh Geir ég veit að við fíflahlutinn af þjóðinni sem enn hefur ekki séð ljósið og þar af leiðandi ekki kosið flokkinn, er afgangsstærð í hugum ykkar, en gastu ekki beint afsökunarbeiðninni að okkur líka, bara svona "for the hell of it"?

Og Fraudísk mismæli aldarinnar eða þessi gullmoli frá Sigurði Kára Kristjánssyni á landsfundinum í dag:

"Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni, þá hafnar Sjálfstæðisflokkurinn aðild að Evrópusambandinu"!!!!

Dásamlegt.

En kannski var þetta ekki "Fraudian slip of the tounge".

Kannski er þetta bein afleiðing af yfirskrift fundarins sem mér skilst að sé eitthvað á þessa leið;

"Göngum hreint til verks" og Sigurður Kári að tala þarna beint frá hjartanu.

Þetta verður skemmtileg helgi.

Og svo birtir Mogginn fréttir að öllu sem sagt er á fundinum.

Ekkert má á milli veggja liggja.

Í gær las ég blogg frá landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hvar viðkomandi hélt því fram að Guð væri sko örugglega hægri maður.

Hann bauð tam upp á þetta fallega veður í tilefni landsfundarins.

Nei, nei,  Sjálfstæðismenn og konur halda alls ekki að þeir séu nafli alheimsins.

Ekki séns.

Úje


mbl.is Mistökin Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til allra flokka

Takk Ragna fyrir að fresta brottvísun fimm hælisleitenda sem átti að reka úr landi í morgun.

Ástæða frestunarinnar er sú að í ráðuneytinu er nú þegar til meðferðar kæra vegna ákvörðunar um brottvísun til Grikklands.

En þetta heitir að sleppa fyrir horn í bili.  Engan veginn nóg að gert.

Það er fólk ekki fénaður sem hírist á Suðurnesjum í þessu ömurlega húsnæði og það sem meira er, það virðist öllum gleymt.

Mér finnst við ömurlegir Íslendingar að koma svona fram við meðmanneskjur okkar.

Þetta er undarleg stefna og fjandsamleg gagnvart fólki (flestu í neyð) að hola því niður á einn stað, þar sem það er í raun einangrað frá samfélaginu og bíður örlaga sinna við ömurlegar aðstæður.

Ég fer fram á það sem kjósandi í þessu landi að allir flokkar sendi fulltrúa sína á staðinn og sjái og finni á eigin skinni hvernig búið er að hælisleitendum á Íslandi.

Svo vil ég fá skýr skilaboð um hvernig flokkarnir vilja haga þessum málum komist þeir til valda.

Ég dauðskammast mín fyrir að eiga þátt í þessum kaldranalegu móttökum fólks sem hingað leitar.

Getum við ekki gert biðina þolanlegri og styttri?

Það hlýtur að vera.

Og haska sér svo suður með sjó.


mbl.is Brottvísun hælisleitenda frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki leiðinlegt

Dadadaríraríra, ekki leiðinlegt að vakna upp við svona hressandi og skemmtilegar skoðanakannanir.

Sem eru auðvitað ekki kosningaúrslit. en ákveðin vísbending um það sem koma skal.

En það telst merkilegt á mínum vinstri græna bæ þegar flokkurinn fer yfir Sjálfstæðisflokkinn.

Það vermir mitt gamla kommahjarta.

Úhúje.

En..

Mér finnst ekki leiðinlegt að sjá á hversu Borgarahreyfingin bætir stöðugt við sig.

Mér finnst það bæði frábært og nauðsynlegt að fá þau inn á þing.

Jabb, en ég er sum sé nývöknuð.

Veit varla hvað ég heiti.

Kem að vörmu.

Lalalalalalala og skál í boðinu.


mbl.is VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í klemmu

 kreisí

Í dag skrapp ég til læknis.  Jájá og það er ekki það sem ég ætla að blogga um en ég var sem sagt stödd úti á lífinu, þe í læknamiðstöð nokkurri hér í bæ þegar ég hitti mann.

Eða maðurinn hitti mig held ég að réttara væri að segja.

"Blessuð" sagði hann hressilega og slengdi hrömmunum utan um mig.

Mér brá nokkuð, bæði vegna þess að maðurinn var upp á þrjár hæðir og þurrkloft að stærð og svo gat ég ekki fyrir mitt litla líf munað hver hann var.  Ég muldraði þó kveðju framan í magann á honum þar sem ég náði sirkabát þangað upp.

Hann lét mig niður og ég hlaut ekki skaða af merkilegt nokk.

"Heyrðu" sagði hann dálítið óöruggur á svip, "þú manst eftir mér er það ekki"?

Ég: "Nei, þú verður að fyrirgefa, er orðin svo ómannglögg í seinni tíð" (sem er lygi, man allt of mikið eftir fólki, líka því sem ég vil helst gleyma).

Hahahaha, hann gargaði úr hlátri, sló sér á lær og rúðurnar í læknamiðstöðinni titruðu af hávaðanum.    Útundan sá ég að fólk var að safnast saman til að fylgjast með endurfundum mannsins sem ég vissi ekki hver var og undirritaðrar.

Ég: "Unnum við saman einhvern tímann"?

Hann: "Hahahahahahohoho, nei, góða (hér var hann búinn að gera sjálfan Pavarotti að vælukjóa í raddstyrkleika), manstu ekki ég er xxxxx og þú vildir ekki sofa hjá mér út af klemmunum í denn?"

Ég dó, hjarnaði við og stundi: "Kle.. klemm ...klemmunum?  Sofa hjá....??????

Hann (hér var ég töluvert áhyggjufull yfir að íbúar í Hveragerðu næmu mögulega ekki nógu vel það sem hann sagði): "Já manstu ekki við vorum í sleik við Tjörnina, þér fannst ég rosa sætur og hefðir örugglega komið með mér heim og allt, en svo datt þvottaklemma úr vasanum mínum og þá hættirðu með mér út af því það væri svo lítið töff  að vera strákur og vera með klemmur í vasanum".

Ég: "Hvaða vitleysa."

Hann: "Jú, þú gerðir það góða, þar gerðirðu mistök, þú hefðir átt að giftast mér ég er svo duglegur á heimili.  Hahahahahahaoghohohoho".

Ég sver fyrir að hafa nokkurn tímann hitt þennan mann, hvað þá farið í sleik við hann eða talið honum til vansa að ganga með tauklemmur á sér.

Þvert á móti hef ég alltaf fallið fyrir mönnum með góðan tauklemmulager.

En að þessu sögðu, hver andskotinn er í gangi?

Eitthvað samsæri gegn mér?

Ég held að ég haldi mig heima þar sem ég er örugg eða hvað?

Kona spyr sig.

En læknirinn sagði mér að fara heim og heila sjálfa mig.

Ókei, hann sagði það ekki en það hefði verið flottur endir á deginum.

Cry me a river.


Jabb

Sjálfstæðisflokknum verður flest að meini þessa dagana.

Verði þeim að góðu.

Jabb.


mbl.is Fleiri vilja Bjarna en Kristján
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.