Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Af öfugum Dorian og fortíðarsvengd

Það er laugadagur í mér, sem í mínu tilfelli er ágætt, þrátt fyrir eitt og annað sem ekki er svo bærilegt og ég fer ekki nánar í hér.

En ég er búin að þrífa eins og dauðadrukkinn fraktskiptsjóri, hér hefur ekkert sloppið.

Svo kveikti ég á kertum og hóf að lesa slúður.

Kreppan hefur svo sannarlega gert mér hluti þegar ég er farin að gleypa í mig fréttir af vesalings Michael Jackson.

Hvað er með manninn?  Hann er annað hvort haldinn Dorian Grey syndróminu með öfugum formerkjum og það liggur einhversstaðar falið málverk af íðilfögrum Mikka, eða þá að hann hefur lent á lýtalækni á tremma og niðurtúr.

Allt í einu langar mig í brenni.

Munið þið eftir því?

Nú eða apótekaralakkrís, úr gamla Vesturbæjarapóteki.  Þessi með stimplinum.

Eða snúið krummalakkrísrör.

Litla kók eða ískalda Póló.  Nei annars, ananas frá Sanitas.  Með stelpunni í strápilsinu á miðanum.

12 Pantyggjó með spíramintbragði.

Rauðan haltukjaftibrjóstsykur.

Heita vínarbrauðsenda úr Mjólkurbúðinni.

Ómæómæ.

Nú verð ég að fá mér banana.

Ekkert hættulegra í boði fyrir sykursýkiskonuna á nostalgíuflippinu.


mbl.is Michael Jackson áformar tugi tónleika í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjan að verða eyland?

Ég er ekki sú eina sem er nánast hætt að lesa eyjuna. 

Hún er að verða það sem ekki á að verða hægt að vera - andskotans eyland.

Þessi uppáhaldsfrétta- og bloggvefur undirritaðrar er nú á hraðri leið með að breytast í kosningaáróðursvef fyrir fullt af fólki.

Sem blogga til að prófkjörast.

Nú eru allir sótraftar á sjó dregnir og þeir hafa tekið land á hinni fyrrum ágætu eyju.

Reyndar eru Egill og fleiri eðalbloggarar enn þess virði að maður lesi en það er óþolandi að það verður vart þverfótað fyrir baráttubloggum.  Mig á 1. 2. og 3.!!

Svo eru það bloggararnir annars staðar sem eru á leiðinni í pólitíkina og ætla í forvöl eða prófkjör.

Nú ætla ég að móðga þá en skítt sama, ég vil bara að fólk viti hvar það hefur mig.

Ekki - og ég meina ekki, senda mér pósta og skilaboð um nýja áróðurspistla og benda mér á að lesa.

Það er vísasta leiðin til að ég eyði þeim og lesi ekki orð.

Ég er líka fúl yfir skorti á nýliðun hjá flokkunum.

Þetta er að stórum hluta fólk sem er búið að vera í hlutverkum innan flokka í langan tíma.

Sem er fínt - en hvar er nýja fólkið?

En fyrirgefið mikið skelfing er mikið af flottum konum hjá VG.

Jess ég held að ég muni kjósa VG nema eitthvað óvænt komi uppá.

Svo óska ég Geir Haarde og fjölskyldu hans velfarnaðar í veikindabaráttunni sem framundan er.

Jabb, ekki fleira í bili.


mbl.is Geir gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur ekkert versnandi fer

 hippie-girl

Það telst varla til tíðinda að krakkar í menntó komi saman með áfengi í ámavís og detti illilega í það.

Það má þó vera að það sé sjaldnast gert í leiguhúsnæði út í bæ.

Ég hef eiginlega ekki skoðun á því hvort þetta er hrikalega hneykslanlegt eða "buisness as usual".

Veit bara að það er ekkert nýtt undir sólunni.

Annars getur maður leyft sér að vera ansi umburðarlyndur þegar börnin manns eru sloppin fyrir horn.

Reyndar hékk ég á dætrum mínum fram eftir öllu, við náðum í þær og höfðum þær í gjörgæslu foreldrarnir, fram eftir öllu og það fíflalega er að þær gáfu sjaldnast ástæðu til að við værum með þessi læti.

En ég man eftir hinum ýmsu partíum þar sem heimili og götur voru teknar undir veisluhöld á mínum unglingsárum, engu eirt og lífsþorstinn var töluverður.

Mikið djöfull var mín kynslóð neysluglöð.

Svo var hún hortug þessi kynslóð og með eindæmum viss um að hún væri ávallt í rétti.

Eða var hún kannski ekki þannig?

Var ég bara í vondum félagsskap?

Nebb, við vorum "mean motherfuckers" í denn.


mbl.is Ólöglegt partí fékk snöggan endi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krúttið hann Áddni

Ef ég fer að fá bólgur og hnúða á hendur eða hvar sem er dytti mér samstundis í hug annað eða bæði:

Ég væri komin með alvarlegt mein og í beinu framhaldi myndi ég hringja í minn bloggandi lækni.

Ég myndi halda að ég væri með ofnæmi fyrir mat, lyfjum eða öðru því sem ég væri að innbyrða og myndi hringja í viðkomandi lækni.

Mér myndi aldrei detta í hug að einhver væri að eitra fyrir mér, jafnvel þó að það gæti fundist einhver/einhverjir sem gætu mögulega átt sökótt við mig.

En ég er reyndar nóboddí út í bæ, svo það er ekki að marka.

Öllum er sama hvort ég lifi eða dey (augnabliks hlé á meðan ég græt einmannaleika minn og reyni að hemja öflugan ekkann).

Árni fullyrðir að það hafi verið eitrað fyrir sér.

En hann hefur engar sannanir fyrir málinu.

Þetta væri kallað móðursýki ef ég gerði þetta OG hlypi með í blöðin.

Fólk myndi efast um geðheilsu mína nú eða segja að ég væri að troða mér í blöðin til að láta bera á mér af því ég væri á leið í framboð, svei mér þá hvað fólk getur verið ógeðslega ósmekklegt.

Er ekki hægt að setja stöffið í greiningu og fá úr þessu skorið?

Svona fyrir kosningar?

Skamm eiturbrasarar heimsins.

Að eitra fyrir krúttinu honum Vestmannaeyja-Áddna.


mbl.is DV: Eitrað fyrir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki komið nóg?

 bangalore

Greiðslustöðvun Kaupþings framlengd.

Gott fyrir skilanefndarmennina, eru þeir ekki með tuttuguogfimmþúsund á tímann fyrir hvert viðvik?

Ég sé fyrir mér gapastokk í hillingum á Austurvelli.

Eða myndi sjá ef ég hefði trú á ofbeldi.

En ég var að lesa þetta inni á dv.is

Tveir skilanefndarmenn fóru til Bangalor á Indlandi fyrr í mánuðinum til að meta eignir.

"Samkvæmt tölvupóstunum lagði sá starfsmaður skilanefndar Kaupþings sem skipulagði ferðina mikla áherslu á að skilanefndarmenn dveldu við góðan kost. „Mælir þú með hóteli fyrir okkur í Bangalor. Ég vil helst eitthvað í allra besta flokki ef þér er sama. Hversu mikinn tíma þurfum við þarna fyrir fundina og ef við viljum koma við á báðum svæðunum? Ég yrði þakklátur fyrir að dagskráin yrði í háum gæðaflokki. Hvorugur okkar hefur verið þarna þannig að við verðum að leggja traust okkar á þína dómgreind,“

Þetta er fólkið sem á að gæta hagsmuna bankanna sem íslenska þjóðin fékk í fangið eftir að auðmennirnir voru búnir að blóðmjólka þá.

Finnst einhverjum þetta í lagi?

Út með þetta fólk.

Svo er til háborinnar skammar ef þessi verkefnataxti er réttur.

Við þurfum að borga brúsann fyrir gróðærissukkið við almenningur.

En er virkilega ekki komið nóg af siðleysi og græðgi á okkar kostnað?

Mér sýnist partíið enn vera í fullum gangi.


mbl.is Greiðslustöðvun Kaupþings framlengd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir geysast fram gúbbarnir í flokknum eina

Heiða vinkona mín er greinilega að hugsa á svipuðum nótum og ég.

Pétur Blöndal ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri fyrir FLOKKINN!

Skrýtið, ég heyrði hann nefnilega tala á Alþingi um hversu ömurlega vanþakklát starf þingmannsdjobbið væri, þegar verið var að ræða eftirlaunaafnámið í fyrradag.

Hann talaði um allt umtalið á bloggsíðum.

Um umtalið úti í bæ.

Djöfuls skítadjobb fannst honum þó hann segði það ekki nákvæmlega svona.

Sama sinnis er Kristinn H. Gunnarsson, óánægjuþingmaður í Frjálslynda.

Þar sem ég hef legið yfir þinginu eftir stjórnarskiptin þá hef ég fylgst með KHG og hann er alltaf ósammála.

Hann þarf örugglega að leita eins og brjálæðingur á hverjum morgni eftir nýjum flötum á hverju máli sem tekið er fyrir í þinginu til að finna eitthvað til að setja út á.

Ég hafði samúð með Kristni þegar þeir voru að veitast að honum í Frjálslynda en nú býð ég eftir að hann tilkynni að hann gefi ekki kost á sér meir.

Af því þetta er ömurlegt starf, illa launað og vanþakklátt.

Annars ætti KHG að fara í Sjálfstæðisflokkinn eins og hinn órólegi þingmaður Frjálslyndra, Jón Magnússon gerði í gær.

Mér sýnist KHG vera smávegis á sjálfstæðissíðuna.

Jájá, eins og mér finnst og rétt er (Hildur Helga, ég sagði þér að ég myndi nota þennan).

Later!


mbl.is Pétur Blöndal sækist eftir 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herðapúðahroðbjóðurinn

 duran11

Ég er að þvo þvott (vélin sko), pússa glugga og svo hlusta ég á umræður um heilbrigðismál.

Ásta Möller er nærri því farin að gráta í ræðustól í þessum skrifuðum orðum.

En svo fór ég að lesa þessa frétt í bríaríi.

Og ég fór að hugsa um Júró, en ég elska að hata það fyrirbæri eins og ég hef sagt og skrifað ótölulega oft.

Í leiðinni mundi ég eftir skelfingarfréttum í Fréttablaðinu í morgun að djöfulsins herðapúðarnir eru að koma aftur.

Svo fór ég að skoða gömul Júró-myndbönd, ésús minn hvað ég hata herðapúða.

Ég átti dragtir, kápur og kjóla í miklu magni sem gerðu mig að lifandi vatteruðu herðatré.

Það sárgrætilegasta við það mál alltsaman er að mér fannst ég flott.

Kommon ég er 163 cm ef ég teygi all svakalega úr mér og ég var tæp fimmtíu kíló á tískutímabilinu.

Ég fór í blússu með herðapúðum.

Svo í jakka með herðapúðum.

Punkturinn yfir i-ið var svo frakki með herðapúðum.

Halló, hafið þið séð lifandi herðapúða gangandi um götur?

Ekki?  Kætist, það er ekki til að syrgja enda ógleymanlegur viðbjóður.

Nú bíður þessi hroðbjóður í bakherbergjum tískuhönnuða og bíður spenntur eftir að setjast á axlirnar á manni á hausti komanda.

ARG.

Ísland anno 1985, maður gæti dáið.


mbl.is Elektra miklu vinsælli en Jóhanna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíða, skoða, drolla og hangsa

Var einhver hissa á að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn í persónukjör í næst komandi kosningum?

Ekki ég.

Bíða, skoða, drolla og hangsa einkennir vinnubrögð íhaldsins og hefur gert lengi.

Svo er auðvitað best að breyta sem minnstu, allt of mikið í húfi að riðla kerfinu.

Steingrímur J. segir ásetning ríkisstjórnarinnar að koma málinu áfram þannig að við getum þá valið fólk af listunum í vor.

Frábært.

Jabb. Við sjáum til.


mbl.is Vinna áfram að persónukjöri þótt ekki náist sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varðar okkur um það?

Alltaf gott þegar dílerar og ofbeldismenn eru gómaðir.

En fyrirgefið, hvað kemur almenningi við, við hverja hinn ákærði og nú dæmdi talaði í síma?

Það er verið að gera mikið mál út af því að um amk. einn "frægan" einstakling var að ræða, mann sem hafði talað við dílerinn í síma og mögulega verslað af honum.

Maðurinn "frægi" var ekki fyrir dómi, hann var ekki til umfjöllunar vegna eins eða neins og þar af leiðandi varðar okkur ekkert um það.

Ef fíkniefnalögreglan hefur eitthvað á fólk þá væntanlega taka þeir viðkomandi og setja í járn.

Ef ég hringdi í einhvern sem seldi landa og ætti við hann ruglaðar samræður (sem er ekki saknæmt síðast þegar ég gáði) ætti ég þá á hættu að röddin á mér kæmi fyrir dóm, væri skráð í dómsskjöl og ég missti svo vinnuna jafnvel í þokkabót?

Maður heyrir bara hringla í handjárnunum í fjarska.

Eins gott að passa sig á hvað mann segir og við hvern og ég er ekki að grínast.

Svona er fólk tekið af lífi á Íslandi.

Skamm.


mbl.is Nöfn tekin út úr dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið við símann?

Sjálfstæðismönnum er meinilla við forsetann svo ég kveði ekki fastar að orði.

Þessu með greinina hans Eiðs geta þeir ekki sleppt.

Nú vilja Sjálfstæðismenn í utanríkismálanefnd fá formann nefndarinnar til að óska eftir upplýsingum frá forsetaembættinu og undanríkisráðuneytinu í tilefni af grein Eiðs Guðnasonar, fyrrverandi sendiherra í Mogganum.

Sko, Sjálfstæðismenn telja sig réttborna til flestra embætta sem fengur er í þessu þjóðfélagi (til að fyrirbyggja misskilning, sem þeim þykir fengur í, svona vegtylluplebbismi).

Þeir eru því búnir að vera friðlausir síða ÓRG var kjörinn forseti.

Því miður er ÓRG að leggja þeim upp í hendurnar alls kyns ástæður til að hamast og djöflast.

Óli farðu að hegða þér.

Ég skil vel að íhaldið vilji fremur velta sér upp úr forsetanum en sjálfum sér þessa dagana.

Eftir sautján ára valdasetu íhaldsins við kjötkatlana sem þeir toppuðu svo með að sitja lamaðir hjá meðan þjóðarskútuna rak stjórnlausa fyrir vindi, þá er útlitið ekki fagurt og ábyggilega hundleiðinlegt og laust við glamúr að horfast í augu við sjálfan sig.

Þess vegna má ólátast yfir öllum fjandanum, svo fremi það hafi ekki með þjá sjálfa að gera.

Af hverju hringir þetta fólk ekki í Eið.

Hann hlýtur að bíða við símann.


mbl.is Óska skýringa á grein Eiðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2985826

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband