Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Upp með hrærivélarnar

Sextándi mótmælafundurinn á Austurvelli er í dag.

Þegar ég mæti á mótmæli þá geri ég það ekki vegna þess að sóandsó samtökin eða sóandsó mennirnir standa fyrir fundinum.

Ég þakka einfaldlega fyrir að geta fengið tækifæri til að mótmæla því skelfingarástandi sem yfir okkur er að dynja.

Ég mæti fyrir sjálfa mig og afkomendur mína.

Það er ekkert flóknara en það. 

Það mun færast í aukana að reynt verði að drepa málum á dreif, fá fólk til að draga sig í hlé og hætta hávaðaframleiðslunni.

Sýna biðlund, svigrúm, skilning og gefa andrúm og leyfa fólkinu sem keyrði okkur í kaf að halda áfram að dunda sér við það.

Það verður ekkert heilagt í viðleitninni við að svæfa okkur aftur.  Það verður höfðað til ýmissa tilfinninga eins og samúðar, vorkunnar, reiði, og paranoju.

Það verður reynt að etja okkur saman. 

Okkar ábyrgð felst í því að láta þetta ekki á okkur fá.

Mótmæli af öllum gerðum eru stjórnvöldum erfiður ljár í þúfu.

Stundum þarf maður að vera óþægilegur en ég get fullyrt að það þarf mikið að ganga á áður íslenskur almenningur fær nóg og ákveður að gera eitthvað í því. 

Því miður.

Við erum alltof hlýðin þjóð.

Betur væri að við hefðum sett hnefann í borðið strax.

Í staðinn fyrir að hlæja eins og fífl af auðjöfrum og pótintátum þeirra í stjórn landsins.

En það er búið og gert.

Núna, hins vegar, er það úthaldið sem skilar okkur áfram.  Áfangasigur er unninn.

En betur má ef duga skal.

Upp með hrærivélarnar og skeiðarnar.

Ókei, er að fara aðeins fram úr mér hérna, pottlok eru fín.

Farin að fremja eitthvað áhugavert.

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við með steinhjörtun

 steinhjarta

Ég er örugglega með steinhjarta.

Ég er orðin slægvitur og útundir mig eftir að ég fór að blogga.

Ég tek kópíur af öllum fjáranum sem ég les hér.  Hef alveg tilfinninguna; best að eiga þessa færslu hér, þessa athugasemd þar, ef ég þarf að súa einhverjum nú eða sanna mál mitt.

En þetta var nú útidúr í boði hússins og að gefnu tilefni.

En aftur að þessu með steinhjartað.

Ég ætla að mótmæla á morgun.

Jafnvel þó grátkórinn sem hamast á persónu Harðar Torfasonar muni stimpla mig með innræti upp á kaldrifjaðan fjöldamorðingja eða því sem næst.

"Það er jú búið að ákveða kosningar, hvað viltu meira kjéddlingarálft?"

Miðað við að landið okkar er á hausnum, ca. tvöþúsund milljarðar í skuldir sem þjóðin þarf að borga og þeir sem kikna undan því færa pakkann áfram á börn sín og barnabörn, þá þykir mér lítið leggjast fyrir baráttuandann að eyða honum í persónulegar árásir á Hörð Torfason vegna þess að hann var ekki alveg nógu korrekt í tali.

Miðað við að 12.000 manns ganga um atvinnulausir og þeim fjölgar "as we speak".

Miðað við að fólk er að missa ofan af sér heimilin.

Miðað við að fólk á varla fyrir mat handa börnunum og það gott fólk, er rétt að byrja.

Miðað við að okkur eru allar bjargir bannaðar og enginn í öllum heiminum treystir okkur fyrir horn þá finnst mér merkilegt að öll þessi orka geti farið í að ræða hver sagði hvað um hvern.

Ég finn til með persónunni Geir Haarde og fjölskyldu hans og það geri ég inn að innstu hjartans rótum.

Sama á við um ISG og hennar fólk.

Það held ég að eigi við um alla, ekki vafi í mínum huga hvað það varðar.

En er ég til í að falla frá þeim kröfum almennings sem hefur verið kallað á á mótmælafundum og borgarafundum frá því strax eftir hrun?

Að ríkisstjórnin fari frá?

Að stjórn Seðlabanka fari frá?

Að topparnir í Fjármálaeftirlitinu fari frá?

Ó nei, ég er ekki til í það.

Ekki fyrir allt heimsins glingur.

Það má vera að ég og fleiri ætlum að hanga á þessum kröfum vegna tilfinningaleysis, og þó..

Það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera.

Það hefur með það að gera að við erum í djúpum skít Íslendingar

Dýpri en okkur getur grunað er ég hrædd um.

Veikindi Geirs hafa ekkert með einbeittan mótmælavilja okkar að gera.

Hvað er að?

Þetta er orðinn einn alsherjar farsi.


mbl.is Sextándi mótmælafundurinn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofnir persónuleikar í bloggheimum?

Það er varla að ég hafi geð í mér til að tengja við þessa frétt, ekki vegna innihalds fréttarinnar heldur vegna orðfæris á góðum hluta þeirra bloggfærslna sem tengdar eru við frétt.

(Og ég las bara fyrirsagnirnar).

Ég er sammála Herði Torfasyni um að kosningar í vor eru hænuskref í rétta átt.

Hann hefði að sjálfsögðu getað komist öðru vísi að orði um veikindi Geirs Haarde, ef þetta er rétt eftir honum haft.

Ég ætla að láta Hörð njóta vafans þar til annað kemur í ljós.

Ég er líka sammála Herði varðandi mótmælin, við þurfum sem aldrei fyrr að láta í okkur heyra.

Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram, og fer í kosningabaráttu þar að auki, heldur fólk að henni verði úr verki?

Það er ekki eins og það liggi mikið eftir ríkisstjórnina frá því að hrunið varð þegar hún fékk sitt vinnusvigrúm, andrými og allt það kjaftæði sem sífellt var verið að sífra um.

En það er svo týpískt fyrir tvískinnung sumra að fá hland fyrir hjartað þegar þeir lesa um það sem haft er eftir Herði,sem ég get alveg tekið undir að hefði mátt orða með aðeins penni hætti, gapa af vandlætingu og geysast svo fram á bloggvöllinn í tugatali, með lyklaborð á lofti.

Sýnishorn af orðalagi úr fyrirsögnum þessa tillitsama og viðkvæma  fólks, fyrir hönd sumra - ekki allra, gjörið þið svo vel:

Úrþvætti, aumingi, farðu í rassgat Hörður, siðleysingi, fífl,  Hörður með sótsvart innræti og svo mætti lengi áfram telja.

Gott og vel, kannski eru þessir bloggar ofurviðkvæmir fyrir hönd þeirra sjúku, þola ekki kaldranalegt tal um veikt fólk, þá tek ég ofan fyrir því.

En hvar eru þessi skilningsríku góðmenni þegar þeir blogga við fréttina?

Eru þetta klofnir persónuleikar upp til hópa?

Ég er algjörlega gáttuð yfir þessum mjög svo ólíku birtingarmyndum á persónuleikum.

En burtséð frá því, það er á hreinu, við þurfum að koma ríkisstjórninni frá.

Það þarf að gerast strax í gær og við höldum að sjálfsögðu áfram að mótmæla.

Og í leiðinni sendi ég bæði Geir Haarde og ISG hlýjar batakveðjur.

Maður þarf ekki að láta af skoðun sinni þó fólk veikist og maður vilji því allt hið besta.

Svo á auðvitað ekki að persónugera vandann eða hvað?


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist nú?

Það er skelfilega sorglegt að Geir Haarde skuli vera svona veikur.

Auðvitað sendir maður honum óskir um góðan bata ásamt hlýjum kveðjum.

En Geir og ISG ætla að láta kjósa 9. maí en halda stjórnarsamstarfinu áfram.

Fyrirgefið, en það getum við ekki sætt okkur við.

Ríkisstjórnin er jafn vanhæf og hún hefur verið allan tíma frá hruni, ekkert hefur breyst þar.

Reyndar eru báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar að kljást við veikindi og ganga því haltir til leiks.

Nú reynir á stjórnarliða og almenna flokksmenn í Samfylkingunni.

Láta þeir þetta yfir sig ganga?

Við verðum að mótmæla sem aldrei fyrr.

Búsáhaldabyltingin lifi!


mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmorðsþema Stöðvar 2

Lengi vel vildi ég ekki trúa því að þöggun hjá fjölmiðlum gæti verið til staðar.

Mér fannst það svo ótrúlegt að slíkt gæti verið í opnu lýðræðisþjóðfélagi.  Hér á landi þurfum við ekki að hræðast neitt eða neinn!

(Hér tek ég mér andartaks hlé á meðan ég næ úr mér aulahrollinum vegna einfeldninnar sem ég greinilega hef þjáðs af, úff).

Það hlýtur að teljast nokkuð fréttnæmt þegar Sigmundur Ernir og kona hans Elín Sveinsdóttir, ásamt Kompásmönnum sem eru með margverðlaunaðan fréttaþátt er sagt upp - á einu og sama brettinu.

Ég og allir sem ég haf talað við hafa verið gapandi hissa á þessu, okkur hefur fundist sjálfsmorðsþema Stöðvar 2 vera tekið ansi langt með þessum gjörningum.

Í fréttum Stöðvar 2 var ekki minnst einu orði á brottreksturinn.

Ekki minnst einu orði á að fólkið hafi verið látið fara vegna endurskipulagningar sem er hin opinbera útskýring kjánanna á stöðinni.

Hins vegar var búið að eyða út bloggi Sigmundar Ernis.  Það var búið að klippa hann út úr mynd sem birtist fyrir fréttir af SE, Eddu og Loga.

Alveg þessi: Hér er Sigmundur Ernir og hviss bang, Sigmundur Ernir týndur.

Flytja fréttastöðvar ekki fréttir ef þær gerast á eigin heimili?

Get ég þá reiknað með að héðan í frá verði ekki minnst einu orði á neitt sem viðkemur starfsfólki Stöðvar 2?

Ég persónulega og prívat er hætt að horfa á fréttirnar á þessari þykjustu stöð sem greinilega vill ekki láta taka sig alvarlega.

Ísland í dag er brandari ársins.  Þar eru framleiddar helgimyndir af þóknanlegum stjórnmálamönnum og auðjöfrum.

Nú eru fréttirnar úti fyrir minn part líka.

Ég kóa ekki með þessum bjánum þarna.

Svo dauðvorkenni ég því ágætis fólki sem enn starfar á Stöðinni því þeir eru þó nokkuð margir.

Ömurlegt að þurfa að mega bara fjalla um sumt en ekki annað.

Og Ari Edwald?

Eigum við eitthvað að tjá okkur um hann?

Held ekki.

 


Góður hárdagur og sannfæring fyrir róða?

So far so good gæti ég sagt vegna þessara orða ISG.

Hún vill kosningar í vor og allt kemur til greina.

En það er eitt (af mörgu reyndar) sem er að bögglast fyrir brjóstinu á mér.

Ég sá t.d. Steinunni Valdísi í Kastljósinu í gær þar sem hún talar um að það verði að kjósa, verði að hlusta á fólk en svo endar hún mál sitt á því að hún muni samt hlýða forystu Samfylkingarinnar í þessu máli.

Ergo: Steinunn vill kosningar og telur stjórnina ekki á vetur setjandi EN hún ætlar að fara að vilja flokksforustunnar sem þýðir þá væntanlega að hún lætur sig hafa það verði niðurstaða hennar önnur en endregin afstaða Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar um hið gagnstæða.

Það er talað um það á tyllidögum að þingmenn eigi fyrst og fremst að fara eftir sannfæringu sinni.

Aldrei hefur verið ljósara en núna að það er vilji formanns og forystu sem ræður, sannfæringin er hliðarbúgrein.

Mér sýnist sem Geir og ISG hangi á samstarfinu og muni reyna að gera það fram að kosningum í vor.

Hvað með vilja þjóðarinnar ISG?

Hvað með vilja þingmanna flokksins?

Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að stór hluti þjóðarinnar treystir ekki stjórninni.

Það þurfti svo sem ekki skoðanakönnun til.

Á að halda áfram að líta fram hjá vilja fólksins og horfast í augu við getuleysi núverandi stjórnar til að taka á vandanum?

Ég auglýsi hér með eftir stjórnarþingmönnum sem eru til í að setja sannfæringu sína í fyrsta sæti en láta flokksforustuna á hliðarlínuna, þar sem hún á heima.

Annars er ég góð sko.

Vaknaði upp í morgun og sá að enn einn góður hárdagur var runninn upp.

Jess.

Viðtalið við þingmenn í Kastljósi


mbl.is „Allt kemur til greina"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Appelsínugula byltingin er hafin - úje

appelsínuguliborðinn

Það er enn slatti af fólki niður við Alþingi og flestir í appelsínugulu. Sú litfagra bylting er hafin og ég er hluti af henni.

Það má sjá á síðunni minni, ég er ekkert fyrir hálfkák, allt líf mitt er appelsínugult fram að þjóðstjórn, eða réttara sagt, fram að stjórnarslitum.  Frá því verður ekki vikið.

Appelsínugult er litur búddistanna.  Það eru flott trúarbrögð.  Fylgjendur þeirra eru ekki að troða trú sinni upp á annað fólk, elska friðinn og svona. 

Ef ég vildi endilega ganga í trúfélag þá færi ég þangað.  En ég vil ekki fæðast aftur sem kakkalakki eða könguló, það er bara ekki ég.  Ég vil fæðast aftur sem John Lennon eða Martin Luther King.

Já, ég á mér draum.

Appelsínugulur matur er fínn.

Gulrætur og appelsínur.  Nammi.

Blóm eru falleg í þessum tón og fleira og fleira.

Hér verða borðaðar gulrætur út í eitt þar til yfir líkur.

Ég vil benda ykkur á tilmæli frá Röddum fólksins að mótmæla ekki eftir klukkan átta annað kvöld og á laugardagskvöldið.

Þá er djamm í bænum og djammararnir myndu kannski vilja slást í hópinn með afleiðingum.

En á laugardeginum verður fundur á Austurvelli kl. þrjú eins og venulega.

Svo má auðvitað fremja trommuslátt niðri við Alþingi allan guðslangan morgundaginn.

Svei mér þá ég á ekki til appelsínugula flík í öllu mínu fatasafni.

Ekki lit að sjá í skápunum.  Ekki einu sinni hálsklútur.

Allt svart, brúnt og grátt.

Hvernig átti ég að vita að ég væri á leið í byltingu og að mig myndi vanta júníform?

Jæja, farin að lúlla.

Friður og hamingja veri með yður öllum.

Hari Kristna.

P.s. Ég ætla að segja ykkur það svona í trúnaði að í mínum huga heitir þessi bylting ekkert annað en pottabyltingin.


mbl.is Mótmælt í góðri sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kakófónía dauðans

Þessi sláttur úr og í varðandi kosningar er hreinlega að gera mig brjálaða.

Hvað er að þessum stjórnaliðum?

Það er ekki hægt að segja að þeir tali tungum tveim einu sinni, það er talað með tungu á mann!

Ég eins og fleiri skynja spennuna í Samfylkingunni, enda ekki nema von, það er farið að hitna all verulega undir þeim.

Meirihluti þjóðarinnar styður ekki þessa ríkisstjórn.

Össur segir blátt nei við stjórnarkreppu.  Halló monthaninn þinn, kreppan er nú þegar fyrir hendi.

Ég hef reyndar tilhneigingu til að finnast Össur vera að selja Norðurljósin í hvert skipti sem hann opnar munninn.  Hann er alltaf að gera milljarða díla út um heimsbyggðina.

Af hverju heldur þetta fólk að við klárum okkur ekki út úr neinu nema að akkúrat ÞAÐ haldi um taumana?

Eins og þeir hafa nú verið frambærilegir á dansgólfinu til þessa.

Dottið um allt eins og sauðdrukknir svallpésar á þorrablóti.

Ingibjörg Sólrún er veik og mér finnst að hún eigi að fá frið til að láta sér batna, láta málin í hendurnar á öðrum á meðan hún nær sér.

Eftir að hafa hlustað á hana, Össur, alla þingmennina í Kastljósi kvöldsins ásamt Geir Harðsnúna og Þorgerði Mannasætti Katrínu þá læðist að mér illur grunur.

Ég hef allt gengið grunað um að hugsa bara um eitt, hafa áhyggjur af aðeins einu.

Og það er hvernig þetta komi nú allt sem best út fyrir þau persónulega og flokkslega, hvert og eitt.

Þjóðin er búin að segja þeim á allan hugsanlegan máta að við viljum ekki láta stjórnina "hjálpa" okkur, ekki leiða okkur yfir götu einu sinni, vér viljum lifa fjandinn hafi það.

Átta sig, játa sig sigraðan og hoppa frá völdum.

Það er komið gott.

Þangað til verður framin kakófónía dauðans út um víðan völl.


mbl.is Ingibjörg vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðileyfi gefið út á íslensk börn

Líkamlegt ofbeldi á börnum er leyfilegt á Íslandi.  Það er nokkuð ljóst eftir daginn í dag.

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir manni sem gefið var að sök að hafa tvisvar til þrisvar rassskellt tvo drengi, sex og fjögurra ára, syni kærustu sinnar.

Hann bar líka olíu á rassinn á þeim. 

Hann lamdi kærustuna (bakhluta) með belti, var sýknaður þar líka, er áhugamaður um BDSM í kynlífi. 

Hvarflar að einhverjum fleirum en mér að það hafi verið meira en refsigleði sem hvatti manninn til afreka?

Að slá lítil börn er glæpur og í mínum augum aldrei réttlætanlegur.

Má slá börn í andlitið á Íslandi?

Er það smekksatriði dómara á landinu hvað telst ofbeldi á barni?

Valdbeiting við varnarlaus börn er ófyrirgefanlegt athæfi.

Til þess telst líka að ógna börnum eða hræða þau til hlýðni.

Með þessum dómi Hæstaréttar hefur verið gefið veiðileyfi á íslensk börn.

Meiri bölvaður tvískinnungurinn sem viðhefst á þessu landi.

Enda höfum við ekki staðfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ennþá.

Skammist ykkar.


mbl.is Mátti flengja drengi kærustu sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér leiðast uppskafningar

 11

Mér datt það svona í hug þar sem ég sat og las Moggann hvað mér leiðast uppskafningar af báðum kynjum á öllum aldri í öllum flokkum og utan þeirra.

Verst þykir mér þó að hlusta á uppskafninga á sjálfshátíð.

Æi, mér datt þetta sem sagt í hug af einhverjum ástæðum.

Jájá.


mbl.is ESB-umsókn þolir enga bið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.