Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Agú í boðinu

Mikið er ég þakklát fyrir að hafa fengið eitt barn í einu þrisvar sinnum í staðinn fyrir þrjú einu sinni.

Ég sver það, fleiri en eitt í einu með töluverðu millibili voru meira en nóg.

Sko, ekki vera með neinn æsing en ég er ekki ein af þessum konum sem ákvað að fara á eigin afli án hjálparefna í fæðingu og nei mér fannst aldrei tertubiti að eignast börn.

Mér fannst það helvíti vont og ég man það ennþá.

Ég er forstokkuð ég veit það en svoleiðis er það bara.

Sendi ákveðnum fæðingalækni fingurinn héðan, sko þessum sem sagði við mig þegar ég var að liðast í sundur í fjóra hluta fyrir framan hann;

Svona kona, slakaðu á þetta er ekkert vont!

Hann vissi það enda með margar fæðingar að baki eins og karlmenn yfirleitt.

En mikið rosalega vorkenni ég konunni sem eignaðist átta börn á bretti.

Reyndar vorkenni ég börnunum hennar meira og líka þeim sex sem fyrir voru.

Hvaða ábyrgðarleysi er það að hrúga svona mörgum börnum í heiminn?

Hvernig eiga foreldrarnir að sinna andlegum þörfum allra þessara barna svo vel sé?

Annars eru fréttir af þessu í dúllustíl.  Svo dætt að eignast átta stykki - agú.

Já krúttlegt fyrir alla nema starfsmenn á plani.

Svo segir móðir móðurinnar að hún sé með börn á heilanum.

Nákvæmlega.

Þegar þið farið í berjamó og týnið eins og brjálæðingar ákveðin dagpart þá vitið hvað þið sjáið þegar þið lokið augunum.

Jabb, ber, ber, ber.

Það er nákvæmlega það sem ég meina.

Annars er ég að fokkast í blogginu bara að gamni mínu, valdi það fram fyrir uppvaskið.  Tjuss.

Annars góð.

Agú.


mbl.is Áttburamóðir með börn á heilanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða á móti?

Þeir funda..

og funda

og funda meir.

Rosalega hlýtur að vera erfitt að verja bráðabirgðastjórn falli í nokkra mánuði.

Hefur örugglega með tóma ábyrgð að gera, já nú man ég það heitir að vanda sig.

Ekkert með að vera stöðugt í sviðsljósinu.

Nehei sko!

Annars kann ég Framsókn engar sérstakar þakkir fyrir að viðhalda vanlíðan og stressi hjá almenningi sem vill fara að sjá hlutina gerast.

Nú eða ekki gerast.

Þetta virðist vera hallærislegt leikrit eða spuni sem leikinn er af fingrum fram.

Út með það börnin góð.

Eruð þið með eða á móti?

Kannski sitt lítið af hvoru?


mbl.is Framsókn fundar að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..í aðsniðinni treyju með undarlegum ermum

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur gefa ekki upplýsingar um fjármál sín, hinir flokkarnir gera það hins vegar.

Þessir flokkar geta svo malað um gegnsæi þar til þeir falla í gólf, ég tek ekki mark á þeim.

Ég gef mér að þeir flokkar sem ekki eru með sitt á borði séu að fela bæði tölur og stuðningsaðila.

En að máli málanna.

Flokkarnir eiga að gera með sér samkomulag um hvernig staðið verði að kosningabaráttu.

Við erum nánast gjaldþrota þjóð í skelfilegri kreppu, nú skulum við sýna aðhaldssemi.

Engar auglýsingar í sjónvarpi og blöðum.

Það mætti reyndar gefa út kynningarbæklinga og láta þar við sitja.

Það er ekki nokkur leið fyrir ný öfl að ná til almennings í samkeppni við stóru flokksdurgana með fjármagnið á bak við sig.

Ég veit ekki hvort glansbæklingar eða sjónvarpsauglýsingar hjálpi fólki að gera upp hug sinn.

Annað hvort ertu að kjósa það sama og síðast "afþvíbara" og ættir nærri því að vera í kosningabanni vegna ábyrgðarleysis.

Nú eða þú tekur upplýsta ákvörðun eftir að hafa kynnt þér stefnu flokka, hverjir eru í framboði og hvað þú merki á eigin skinni (lesist buddu).

Mér finnst alltaf svo merkilegt að kjósa.  Ég var alin upp við að það væri eitt af grunnréttindum mínum sem manneskju og ég ætti að fara vel með þann rétt.

Því hugarfari hef ég skilað áfram til afkomenda minna.

Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef þær nýttu ekki kosningaréttinn stelpurnar mínar, þ.e. þessar tvær sem eru í aðstöðu til þess.

Ég myndi frekar vilja að þær kysu íhaldið heldur en að þær létu hjá líðast að mæta á kjörstað.

Ég kýs til vinstri, nú eða ekkert,  skila auðu ef þannig liggur á mér.

En frá því að ég fékk fyrst kjörseðil í hönd hef ég aldrei kosið miðju eða hægri.

Ef ég verð uppvís að slíku, leggið mig inn.

Í aðsniðinni treyju með undarlegum ermum.


mbl.is Dýr kosningabarátta er ekki í spilunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líku saman að jafna?

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, tók því ekki fagnandi að Írlandi væri líkt við Ísland.

Nei, nei, skil það alveg. 

Við erum ekki ánægð með að Íslandi sé líkt við Zimbabwe en það hefur samt verið gert undanfarna mánuði.

Maður verður bara að láta sig hafa það.

Zimbabwe norðursins höfum við verið kölluð í ræðu og riti.

Sumum íslenskum toppfígúrum í íslenskri stjórnsýslu (við nefnum engin nöfn) hefur verið líkt við Machiavelli  á góðum degi.

Við förum ekkert út í að ræða hvað sömu fígúrur hafa verið kallaðar þegar rignir, blæs, og öllum er kalt á áhyggjusvæðinu.

Látum það eiga sig.


mbl.is Vill ekki að Írlandi sé líkt við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir að minna mig á

Mér fannst fyndið að horfa á háborðið hjá Framsókn með frambjóðendunum til formanns á dögunum.

Þar voru saman komnir fimm karlar, hvítir, á besta aldri í jakkafötum.

Sama gamla, þreytta sviðsmyndin, sú sem enginn trúir á lengur.

Svo stökk Sigmundur Davíð fullskapaður og glænýr beint í formanninn.

Kosinn af fjögurhundruðfjötíuogníu Framsóknarmönnum.

Og nú á hann sitt korter og nýtir það út í ystu æsar.

En kæri maður, það verður einungis þetta korter sem þú færð ef svona heldur áfram.

Fólk bíður eftir að stjórnin verði til og aðgerðir geti hafist.

Framsóknarflokknum verður seint og illa fyrirgefið ef hann klúðrar þessu máli.

Kannski veit Framsókn eitthvað sem við vitum ekki.

Það má jafnvel vera að það liggi ekkert á að koma starfhæfri stjórn á koppinn.

Að það sé í raun alls ekki svo svakalega slæmt ástand á Íslandi eins og Geir vill t.d. vera láta.

Takið ykkur endilega tíma Framsóknarmenn, veljið orðalag, prófarkalesið, finnið ásættanlega leturgerð og línubil í verksamningi tilvonandi stórnar.

Því að fresta bara fram á mánudag meðan þið rúnkið ykkur yfir mikilvægi ykkar?

Frestið þessu fram að næstu helgi.

Að minnsta kosti.

Hugsið ykkur öll viðtölin og fjölmiðlaumfjöllunina sem þið fáið þá? Ókeypis PR rétt fyrir kosningar.

Ekkert liggur á!

En það er þessum töktum að kenna hjá Framsóknarflokknum sem gerir það að verkum að fólk er komið með ógeð á flokkakerfinu.

Takk fyrir að minna mig á.


mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar slysabætur?

Var að hugsa um eftirlaun áðan á meðan ég gekki um.  Var að æfa mig í að hugsa og ganga.  Gekk nokkuð vel bara.

Skil ekki alveg þetta eftirlaunafyrirkomulag en það er bara eitt af mörgu sem ég næ ekki að ryðja nothæfu í gegnum heilabússvinnsluna.

Sko, ef þú ert búin/n að vera ráðherra í meira en eitt ár samfellt þá áttu rétt á 12 mánaða biðlaunum.

Næ því, tékk.

Allir fráfarandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru alþingismenn.

Tékk, tékk.

Þær færa sig um sæti í vinnunni, fara af háborði yfir á lágstól og fá 335 þúsund ofan á alþingismannalaunin sín í 12 mánuði vegna aðeins minna skrifborðs, olnboga- og fótarýmis.

(Ekkert tékk)

Pólitískar slysabætur?

Olnbogabætur?

Hnésbætur?

Árni Matt ætlar að taka sín biðlaun og hefur nú þegar látið það berast þannig að enginn gangi nú um með væntingar um  fagurt eðli og hegðun til eftirbreytni, þegar hann á í hlut.

Hann segist vanur að taka því sem að honum er rétt!

Það kallar á ýmsar spurningar Árni minn?

Einhver annar en ég gæti stokkið á þetta svar og spurt sí svona hvort þetta eigi við um allar greiðslur sem þér bjóðast?

Bæði ofan og neðan borðs?

Nei, það getur ekki verið, ljótt af mér að fabúlera svona en þú verður að gæta orða þinna karlinn minn.

Svo ætla ég að segja eins og börnin:

Glætan að einn einasti af fráfarandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins afþakki biðlaun.

Þeir eiga þennan rétt samkvæmt lögum og þeir fara ekki að gerast lögbrjótar, ónei, haraldurá hafsbotni.

Later.


mbl.is Ráðherrar afsali sér biðlaunarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan hefur náð mér alla leið!

Ég er ekki vön að segja frá draumum mínum, enda hundleiðinlegt fyrir hlustandann, þið vitið ég var á Laugavegi sem var ekki Laugavegur heldur Oxford Street, með manninum mínum sem var ekki maðurinn minn heldur Charlton Heston (martröð).

En nú get ég ekki látið hjá líða að segja frá þremur ördraumum sem sérfræðingur á vettvangi hefur þýtt jafnóðum og þeir hafa komið í hús (höfuð).

Um daginn dreymdi mig að ég sæi samankominn þingflokk Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir voru með blaðamannafund fyrir utan Núllið í Bankastrætinu.

Þeir voru samróma um að þeir þjáðust af harðlífi!

Sérfræðingur á vettvangi túlkaði þetta strax.  Enginn mannaskítur, ekkert fjármagn.

Svo dreymdi mig ráðherra sömu stjórnar hvar allir voru nauðasköllóttir og var til þess tekið hvað þessi nýja greiðsla fór starfandi menntamálaráðherra vel.

Sérfræðingur var ekki í vandræðum: Ekkert hár, ekkert fjármagn.

Þann þriðja dreymdi mig rétt fyrir birtingu í morgun, hvenær ég hrökk upp svitastorkin og skelfingu lostin.

Í draumnum stóð ég í Bónus og var að þrefa við afgreiðslukonu vegna ónýts kattarfóðurs sem ég hafði keypt á kvöldverðarborðið fyrir okkur á kærleiks vegna fátæktar.

Bónuskonan (sem var ekki kona heldur Jón Ásgeir) vildi ekki greiða mér til baka, heldur láta mig fá nýjan kattarmat.

Við slógumst og tuskuðumst til, ég var mjög reið.  Ég veinaði og grét.  "Peningana mína, peningana mína" ég grét með þungum ekka.

Það er skemmst frá því að segja að ég gjörtapaði málinu.

Draumarnir segir mér bara eitt, að kreppan hefur náð mér alla leið. 

Einkum með tilliti til þess að slagsmál í draumi númer þrjú voru upp á 178 krónur íslenskar.

Hér þurfti engan sérfræðing til túlkunar og Geir ekki reyna að fegra ástandið!

Cry me a river!


mbl.is Gera of mikið úr vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum ekki liggja á milli hluta

Látum liggja á milli hluta hversu siðlaust það er að koma eignum sínum í skjól með því að skrá þær á eiginkonurnar.

Siðlaust og aumingjalegt.

En látum ekki liggja á milli hluta að komast til botns í öllu því sem þessir vesalingar hafa gert þegar þeir gerðu sér grein fyrir að skipið var að sökkva og þeir hófu aðgerðir til að bjarga Armaníklæddu rassgatinu á sjálfum sér.

Látum ekki liggja á milli hluta að rannsaka jakkafötin frá A-Ö.

Jafnvel þó það kosti.

Þó ekki væri til annars en að læra um mannlegt eðli og til að fyrirbyggja að hörmungarnar sem við tökumst nú á við, fólkið í landinu, geti aldrei endurtekið sig.

Aldrei nokkurn tímann.


mbl.is Fleiri bankamenn skráðu eignir á ættingja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsáhöld og búggamál

Það er varla að ég þori að segja það upphátt, en það virðist vera tekið mið af vilja fólksins við gerð þessarar bráðabirgðaríkisstjórnar.

Haldið þið að það sé?

Búsáhaldabyltingin með búgganum hans Guðmundar Andra er að skila bæði einu og öðru.

Allt þetta fólk sem á undanförnum mánuðum hefur komið og sagt okkur sagt, hef ég kynnst í gegnum fjölmiðla, aðallega Silfur Egils.

Fólk sem var þarna allan tímann og maður vissi hvorki haus né sporð á, vegna þess að það var ekkert verið að nota það. 

Fólk sem virðist kunna til verka og á engra meiri hagsmuna að gæta heldur en ég og þú.

Mikið skelfing er ég glöð með að Gylfi verði ráðherra í nýrri stjórn þegar og ef (ekki móðga Framsókn) hún verður til.

Og fjölmiðlar fá plús í kladdann (aðallega sumir fjölmiðlar) fyrir að hafa talað við fullt af fólki sem ég persónulega þori að trúa og treysta.

Gylfa (og Lilja Móses, svo ég nefni dæmi) má treysta er ég viss um.

Og vonandi þarf ég ekki að éta ofan í mig að þessu sinni.

Góðan daginn annars, ormarnir ykkar.


mbl.is Gylfi tók ráðherraboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rasisti fyrir allan peninginn

Sjitt, þarna slapp ég fyrir horn.

Hef kallað bloggara rasista, sá reyndar ansi mikið eftir því, ég gerði það í hita leiksins.

Nú er komið veiðileyfi á óvildarmenn ólíkra kynþátta (flott orðað hjá mér, ekki hægt að súa mér fyrir þetta?).

Nú verður það rasisti, rasisti, helvítis rasisti fyrir allan peninginn á blogginu.

Nei það verður óvildarmaður ólíkra kynþátta alla leið.

Segi svona.

En svona án gríns þá er algjörlega á huldu hvar mörkin eru á netinu.

Maður verður að passa sig og fara varlega, en í raun veit enginn nákvæmlega hvar mörkin liggja.

Vandlifað.

Ekki að mig langi neitt að fara að kalla einhvern ónöfnum...

en það gæti runnið upp sú stund.

Annað eins hefur nú gerst.


mbl.is Sýknaður af ummælum í bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 2987315

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband