Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Það kemst ekki hnífurinn á milli ukkar

Merkilegt hvað öfgatrúarhópar eru hræddir við kærleika og ást.  Eitur í þeirra beinum, svei mér þá.

Ást er svo skelfileg í þeirra augum að hún má bara fara fram fyrir þrílæstum dyrum með slagbrandi og gaddavír fyrir gluggum.  Í metafórískri merkingu sko.

Ekkert káf, haldast í hendur eða strjúka kinn á almannafæri.  Jesús minn.

Þegar ég og Greta systir rifumst sem mest þegar við vorum 3 og 5 ára, þá klöguðum við sífellt í ömmu sem svaraði okkur alltaf eins; það kemst ekki hnífurinn á milli ukkar.  Amma mín kom austan af fjörðum.  Hehe.

Þannig er það með kristna og múslima, þessa í öfgakantinum, þeir eru herskáir, þá skortir umburðarlyndi og kynlíf og kærleikur er eitthvað sem verður að fara með eins og mannsmorð.

Þess vegna er ég ekki hissa þó útlenskum konum sem létu vel hvor að annarri í Dubai, hafi verið hent í mánaðarfangelsi.

Alveg í stíl við forstokkaðan huga öfgamannsins og slá á kærleikann hvar sem til hans næst, ég tala nú ekki um ef það eru í þokkabót fólk af sama kyni sem sýna væntumþykju og kyssast í þokkabót.  Vó, hættulegt.

Það gæti endað með ósköpum, konur gætu heimtað að fá að keyra bíl ef þessu heldur áfram þarna í Dubai.W00t

En hinir öfgakristnu eru ekki hótinu betri.

Hómófóbían ríður þar húsum sem aldrei fyrr.

Ég hef enga trú á að þetta fólk myndi kannast við guð þó það dytti á heimskan hausinn á sér fyrir framan hann.

En ef guði er þessi forpokun þóknanleg - ók þá ér ég hér með algjörlega trúlaus.

Aular og fíbbl.


mbl.is Ósiðleg framkoma í Dubai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mamma Mía minn afturendi

abba

Þó ég viti vart hvort ég er að koma eða fara þessa dagana þá er ég með suma hluti á hreinu.

Ég ætla ekki að sjá Mamma Mia þó mér yrði boðið þangað af sjálfri Sylvíu Svíadrottningu.

Sem er ekki mjög líklegt.

Ég hafði gaman að Abba þegar þeir unnu Eurovision og það tók af skelfilega fljótt.

Steingelt tyggjókúlupopp nú eða blöðrupopp að mínu mati.

En þegar ég fer að pæla í þessu, af hverju ég get ekki bara haft gaman að svona uppákomum þá verður mér algjörlega svara vant.  Ég hreinlega urlast upp.  Og tilhugsunin um að sitja í Háskólabíó og SYNGJA og dansa með myndinni fær mig til að lúta höfði. 

En svona hef ég sennilega alltaf verið varðandi söngvamyndir.

Sound of Music, ég get ekki enn gleymt því hvað mér fannst hún glötuð, það eru ekki margar svoleiðis myndir sem toppa hana.  Ég fór með systur mínar og var á gelgjunni, ég skammaðist fyrir að láta sjá mig á þessari mynd, þær skömmuðust sín fyrir að láta sjá sig með mér sem var vægast sagt ekki til fara á hefðbundin hátt.

Og afhverju féll ég ekki í stafi yfir Julie Andrews?

Jú, einfalt mál.  Nunna sem er svo lífsglöð að henni er ráðlagt að yfirgefa klaustrið (til að misbjóða ekki guði með gleðilátum ímynda ég mér) og gerast barnfóstra milljón barna og svo fær hún algjöra fullnægingu yfir að hugsa um barnahópinn móðurlausa, neita sér um allt og fórna sér endalaust og botnlaust fyrir famílíuna Tramp.  Svo slær hún smiðshöggið á ósómann og giftist pabbanum í lok myndar.  Og í allri þessari fórnarlambsblóðbunu sem stendur aftan úr Julie Andrews í að bjarga heiminum þá brestur hún út í söng í tíma og ótíma.

Fyrirgefið á meðan ég æli.

Og ég man eftir Sommer Holliday með Cliffanum og The Yong Ones með sama átrúnaðargoði. Ég horfði á þessar myndir aftur og aftur út af Cliff, ég var ástfangin af honum þegar ég var ellefu og maður þolir ýmislegt fyrir ástina.  Ég var ákveðin í að giftast manninum.

Bítlamyndirnar voru í lagi af því þeir voru töffarar.

Singing in the Rain er klassíker sem ég hafði gaman af en ég nenni ekki að horfa á hana aftur og aftur.

Bíðum nú við, fleiri? 

Örugglega, en mannsheilinn hefur þann dásamlega eiginleika að geta gleym skelfilegum upplifunum.

Mamma Mía minn afturendi.

P.s. Það má geta þess að ég hef ekki talað við kjaft sem ekki hefur elskað viðkomandi mynd.  Ég verð að játa mig utangarðs og það ekki í fyrsta skiptið.


mbl.is Mamma Mía! þvílíkur fjöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úllendúllendoff aðferðin

Ég vann ekki stóra vinninginn í Lottóinu, djöfuls óréttlæti.

Ó, fyrirgefið, ég var ekki með en það er sama ég hefði átt það svo innilega skilið.

En það eru mánaðarmót á morgun!

Mér líður yfirleitt vel alla daga mánaðarins, mis vel auðvitað, en ég held að ég sé þokkalega ánægð með mig og mitt svona á heildina litið.

Nema fyrsta dag hvers mánaðar.

Þá finn ég svo óþægilega fyrir því hvað manni vantar upp á til að endar nái almennilega saman.

Ég er alltaf með hjartslátt þann fyrsta, alveg fram yfir hádegi.

Þangað til að búið er að borga hverja krónu sem inn hefur komið en þá fer liturinn að koma aftur í andlið og þrýstingur verður eðlilegur, svona nokkurn veginn.

Samt grunar mig að það komi að því hér á mínu heimili og víða annars staðar að maður verði að taka úllendúllendoff aðferðina á reikningana.  Strax á morgun reyndar.

Það er borga þennan - bíða með þennan - borga þennan og svo framvegis.

En það er ekki kreppa, ISG sagði það í Viðskiptablaðinu.

Á morgun ætla ég að segja upp öllum óþarfa áskriftum af fjölmiðlum. 

Það er sparnaðaraðgerð nr. 1

Æi, ég er alls ekki að kvarta.  Hef það ágætt og sérstaklega miðað við marga aðra.

Þjáist bara af smávegis mánaðarmótaskjálfta.

En það hefði verið asskoti gott að vinna í Lottóinu.

Verð með næst.  Jeræt.


mbl.is Fyrsti vinningur gekk ekki út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónunjósnir

Hugmyndaflugi manna sem beita heimilisofbeldi eru lítil takmörk sett.

(Já karlar ég er ekki að skrifa um konur).

Leiðirnar sem farnar eru til að stýra og stjórna lífi konunnar eru ótalmargar og oft leggja þessir menn mikið á sig og það getur verið erfitt að standa þá að verki.

Nú veit ég ekkert um þetta einstaka mál sem meðfylgjandi frétt fjallar um en ég hef heyrt þessar svipaðar sögur margoft.

Peningar og fjármál eru afskaplega öflugt kúgunartæki.

Mörgum konum eru skammtaðir peningar til nauðþurfta ef nokkrir.

Sumar konur hafa ekki aðgang að peningum heimilisins og sá sem er algjörlega févana kemst ekki langt og fyrir konu sem ekki hefur neina peninga á milli handanna er erfitt að brjótast út úr ofbeldissambandi.

Svo ég tali nú ekki um þegar börn eru inni í myndinni.

Svo er það auðvitað algjörlega óviðunnandi ef starfsfólk stofnanna sem eru með aðgang að persónuupplýsingum um einstaklinga, fjárhagslegar eða af öðrum toga geti komist upp með að misnota þær.´

Samt heyrir maður reglulega um að fólk slái inn hinum og þessum í vinnunni og tékki á upplýsingum sem þeir hafa aðgang að.

Ég veit að spítalarnir hafa að mestu sett undir þennan leka.

Er það ekki hægt allsstaðar?

Í þessum tölvuvædda heimi hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir persónunjósnir.

Af hvaða hvötum sem þær annars eru framkvæmdar.


mbl.is Skoðar bankareikning án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jag har varit på toiletten i Tivoli"

 

Ég myndi ekki vilja vinna fyrir þessa konu.  Þessa með erfiðu börnin og sjálfa sig í messi.

Hún er þó með góðan húmor, gæti verið gaman að þekkja hana, upp að vissu marki.

Það er samt aldrei að marka svona auglýsingar eftir fólki í "vist". 

Þegar ég var á virkum barnapíualdri þá var það höfuðverkur hvers sumars að komast í vist.

Ég var reyndar heppin, lenti á ágætis fólki oftast þó svona eftir á að hyggja finnist mér út úr kortinu að fólk hafi ráðið mig frá sex ára aldri í barnapíudjobb.

Ég sá ekki upp fyrir barnavagninn þarna í fyrstu vistinni, en vagninn var flottur og ég var öfunduð um allan vesturbæ, bæði Á Hofsvallagötu- og Hringbrautarróló.

VIG_1802_71

Ég fékk einn bláan tuttuguogfimmkrónuseðil fyrir vikuna og það er eina skiptið í lífi mínu sem mér hefur tekist að leggja fyrir peninga.  Ég fékk rosalegt kikk út úr því.  Merkilegt að mér hafi ekki tekist að endurtaka þetta.

Svo fór ég til Köben þegar ég var sautján.  Blómasumarið mikla.  Það fór ekki vel get ég sagt ykkur, þó það hafi akktjúallí líka verið kúl og skemmtilegt.

Ég fór sem blanda af gesti og stugepige hjá sjálfum lögreglustjóranum í Köbenhavn.

Engum aukvisa var treyst fyrir villingnum mér sem þótti til als vís og það með réttu. 

Þar voru engin smábörn, ónei, en hjónin áttu tvo syni, annar var skemmtilegur en sjaldnast heima.  Hinn, hann Morten var nörd og lág í bókum alla daga og átti enga vini.  Ég held að Morten hafi verið smá undarlegur.

Þegar ég var í sólbaði eða að vesenast svona yfirleitt í húsinu þá kom hann aftan að mér.  Hann stóð og glápti eins og hann væri að bíða eftir að ég springi í loft upp eða eitthvað en sagði aldrei orð.  Krípí. 

Svo var mér réttur Manhattan kokteill á hverju kvöldi fyrir mat.  Og annar og annar af því þeim fannst Íslendingurinn svo skemmtilegur rallhálfur með lágmarks þol.

Ég röflaði einhver ósköp og mín uppáhaldssetning var "jag har varit på toiletten i Tivoli". Þvílíkt rugl.

Og ég var snögg að finna mér ábót í vínkjallaranum og man ansi lítið frá seinnipörtum daganna þarna í Valby.

Datt í rúmið á kvöldin nánast rænulaus, en merkilegt nokk þá hafði ég hljótt um mig.

Seinna stakk ég svo af úr þessu endalausa eftirmiðdagspartíi og hélt áfram upp á eigin spýtur við að kanna næturlíf Kaupmannahafnar.

Er það nema von að ég hafi beinlínis setið ofan á dætrum mínum þegar þær voru á þessum aldri.

En engin þeirra reyndist svo með villingagen móður sinnar svo ég hefði getað sparað mér áhyggjurnar.

Framhald seinna.

Nokkru seinna.

Síjú.

 


mbl.is „Börnin mín eru erfið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn heima

 

Ég vaknaði í morgun og mér fannst veðrið frábært og lífið enn betra.

Það er ljúfur laugardagur.

Í dag kemur lítil stúlka til okkar og að sögn ætlar hún að vera lengi, lengi, lengi og alveg þangað til nóttin er búin.

Hún ætlar sem sé að gista.

Við húsband náðum í hana í leikskólann á fimmtudaginn og tókum hana með í vesturbæinn til Jökuls "stórafrænda minn".  Og svo kom Ástrós skádóttir mín elskuleg líka og Jenný Una elskar Ástrósu og kallar hana "Ástrús".  Hér ríkti mikið fjör yfir kvöldmatnum.

Og eftir matinn þurfti hún að fara heim.  Í bílnum reyndi hún að díla við húsband.

Jenný: Ég get ekki farið heim, mamma mín er í skólanum, pabbi minn að spila í Iðnó og Lilleman er úti að leikaW00t.

Hb: Nei Jenný mín, mamma og pabbi eru bæði heima að bíða eftir stelpunni sinni og Lilleman er enn svo lítill að hann getur ekki verið úti að leika.

JU: En ég á ekki heima á Leifsgötu tuttuguogátta, ég er flutt í nýtt hús langt í burtu.  Ég ætla bara að vera hjá ykkur.

Hb: Núna ferðu heim elskan en á laugardaginn kemurðu og þá er frí í leiksólanum og þá máttu gista.

JU: Það ER laufardagur kjáni, ertu búinn að gleymaðí?

Ég hef ekki áhyggjur af að þessi unga stúlka geti ekki komið fyrir sig orði í framtíðinni.

Og svo sagði hún mér á fimmtudaginn að Franklín Máni Addnason hafi "bint" hendina á henni og hún hafi fundið til en ekki lengur.

Amman: En þá verð ég að skamma hann Franklín er það ekki?

JU: Nei amma, fóstran gerðiða.  Hann er alveg orðinn góður núna.

Jájá, annars góð bara.

Gleðilegan laugardag.

Later.


Ekki gera ekki neitt - plís

Ég er sammála Steingrími J. um að menn (konur) komi sér að verki.  En VG gera þá kröfu fyrir hönd þjóðarinnar.  Algjörlega satt og rétt hjá þessum frábæra stjórnmálamanni.

Ef þessi ríkisstjórn gæti hætt að ferðast aðeins og stoppað heima í viku eða svo þannig að hægt væri að kíkja á vandamálin hér innanlands með það að augnamiði að reyna að laga eitthvað svona áður en þjóðfélagið veltur á hliðina og heimilin á hausinn, þá gæti maður kannski leyft sér að draga andann án öndunarvélarinnar.W00t

Í þau skipti sem einhver mér nátengdur er í afneitun á að eitthvað þurfi að taka til bragðs og sá nátengdi er ekki ég sjálf, verð ég skelfingu lostin.

Það er ekki til meira óöryggi en það sem er fólgið í því að láta eins og ekkert sé og vera með nefið ofan í allra manna kirnum öðrum en sínum eigin.

Og svo vil ég koma á framfæri eftirfarandi skoðun minni.

Þar sem ég tel mig til VG og hef tröllatrú á flestum sem þar eru í forsvari verð ég að segja að það bjargaði ekki deginum að frétta að einn þingmaður VG hafi farið á hótelið að Elliðavatni í staðinn fyrir að bruna heim til sín.

Og ég varð öskuill þegar ég heyrði hann réttlæta þennan gjörning í fjölmiðlum og setja sig þar með á bekk með þeim fjölmörgu stjórnmálamönnum sem aldrei sjá neitt athugavert við eigin gjörðir.

Látum hina þingmennina liggja á milli hluta, en Árni Þór af hverju sagðirðu ekki einfaldlega að þetta yrði ekki endurtekið?  

Svo miklu flottara.

Svo legg ég til að þingmenn á Reykjavíkursvæðinu fari heim úr vinnu eftir daginn eins og samborgararnir án tillits til hvað hefur verið til siðs fram að þessu.

Þegar talað er um að við borgararnir eigum að sýna ráðdeild, draga saman seglin og minnka við okkur (Geir Haarde) þá er lágmark að kjörnir fulltrúar okkar gangi á undan með góðu fordæmi.

Og jafnvel þó vel áraði þá eiga svona vinnubrögð að heyra sögunni til.

Fruss.

Fyrirsögn stolið frá Intrum, þar kom að því að ég gat sótt eitthvað í þeirra smiðju, hehe.


mbl.is „Menn komi sér að verki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er akademískur kynþokkaskoðari

Ég tel mig vera sérfræðing í kynþokkafullum karlmönnum, eins og reyndar flestar konur.

Kannski er ég þarna með sérfræðikunnáttu sem ég gæti gert mér peninga úr.

Ég gæti til dæmis haldið keppni um kynþokkafyllsta karlmann Íslandssögunnar - nebb gengur ekki, kynþokki er yfirleitt aðstæðnabundinn og sést ekki eftir pöntun.

Ég hef orðið svo yfir mig hástemmd af kynþokkamönnum að ég hef átt það til að giftast þeim af einskærri góðmennsku við vísindasamfélagið, til að geta rannsakað nánar þessa guðsgjöf náttúrunnar.

Ég er akademískur kynþokkaskoðari.

En..

Sebastian Tellier hefur ekki únsu af kynþokka í mínum bókum, fyrirgefðu karlinn en það eru margir kallaðir en fáir útvaldir.  Svo er ekkert að marka mig á þessum síðustu, ég fann nefnilega prótótýpu kynþokkans í húsbandi, þannig að ég er hætt að spenna augun.

Leitir og þér munuð finna.  Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Svo eru sumir karlmenn löðrandi í kynþokka í augum einnar  en nördar og törnoff í augum þeirrar næstu.

Úff ég gæti sagt ykkur sögur.W00t

En ég ætla ekki að gera það perrarnir ykkar.

Kevin Spacy var gangandi kyntröll síðast þegar ég sá hann.  Samt held ég að hann sé hommi.  Bömmer fyrir konur heimsins ef rétt reynist.

Lennon, lokið mig inni, röddin, röddin, röddin.

Hugs, hugs, hugs,

Augun á Sigmundi Erni Rúnarssyni eru ákjósanlegur staður til að drekkja sér í á góðum degi, en til að forðast það að stökkva á flatskjáinn og stórslasa á sér andlitið er um að gera að loka augunum stelpur mínar.

Baltasar Kormákur er kjörið verkefni fyrir listamenn heimsins.  Manninn í brons, hann er fallegur drengurinn.

Hvernig stendur á því að ég man ekki eftir neinum sláandi kynþokkalöðrandi karlmanni fyrir utan ofannefnda?

Er mér að förlast?

Ég veit að þeir eru ógeðismargir en hugur minn er tómur.

Ég gæti hins vegar talið upp og verið að í allan dag, törnoffin í þessari deild.

En ég vil ekki láta súa mér.

Þeir hlaupa á þúsundum.

Og svo get ég sagt ykkur leyndarmál.  Ég er svo höll undir hið skrifaða orð að ég hef reglulega orðið ástfangin af rithöfundum.  Bara vegna þess að þeir eru svo þokkafullir í skrifum.

Og ég hef orðið bergnumin af bókaútgefanda, setjara, prófarkalesara og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég er nörd.

Úje.

P.s. að allt öðru.

Sara dóttir mín bað mig að setja þennan link inn svo hann væri aðgengilegur fyrir alla.

Endilega kíkið hér.

 


mbl.is Kynþokki í Öskjuhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútímalist á krepputímum

Ég sit hér við kertaljós og bjarmann af tölvuskjánum og blogga.  Ég elska að sitja í kyrrðinni og heyra í veðrinu úti sem mér heyrist vera að færast í aukana í þessum skrifuðu orðum.

En þegar ég sá þessa frétt um konuna á flæðiskerinu þá snarbrá mér.

Það er ekki klukkutími síðan ég sagði stundarhátt við hinn meðlim kærleiksheimilisins; Einar ég er á flæðiskeri stödd.

Hann: Nú afhverju segirðu það?

Ég: Það er kreppa maður minn og við eigum enga frystikystu.

Og hann náði ekki samhenginu á milli krísu í efnahagsmálum og frystikistuskorti.

Þannig að ég leiddi hann í allan sannleika um nauðsyn þess að eiga svoleiðis þarfaþing.

Og hér með bið ég ykkur að láta mig vita ef þið vitið um slíkt appírat til sölu.

Bara svo það sé á hreinu þá ætla ég ekki að geyma í henni slátur og svoleiðis viðbjóð.

Nei, í hana fer lambakjöt sem ég ætla að kaupa hjá austurlambi, brauð sem ég ætla að baka og fleiri ætem sem ég ætla að viða að mér í þeim tilgangi að spara peninga.

Þarna var sem sagt komin ástæðan fyrir flæðiskerstalinu og þess vegna brá mér smá þegar ég sá þessa frétt.

Ég og Mogginn göngum í takt.

En af því að nú þarf maður að herða hina ömurlegu sultaról þá verður maður enn pirraðri á flottræflishættinum og firringunni á stjórnmálamönnunum.

En ég ætla að taka þetta sparsemisátak alla leið.

Ég er nefnilega ógeðslega góð í hlutum sem ég tek mér fyrir hendur þegar þeir meika sens.

Ég ætla að taka sparsemishugtakið upp á æðra plan.

Ég ætla að gera það að friggings listrein.

Hugmyndir um sparnað í heimilisrekstri óskast.

En engan innmat  eða kattarfisk úr fiskbúðinni takk.

Það eru takmörk fyrir öllu.

Farin að lúlla.

 


mbl.is Kona á flæðiskeri stödd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"It gives me the creeps"

Nei, nei, ekki vera að splattera "heimilisbókhaldinu" í fjölmiðla.

Hvern fjandann kemur okkur almenningi við hvað hinir ósnertanlegu hafast við og hvernig vinir gera upp skuldir?

Bjarni Ben sagði víst við Matta Jó að það giltu aðrar reglur um "þá" og "okkur hin".

Hann átti auðvitað við sig og þá útvöldu sem ekki lytu sömu reglum, sömu lögum.

Og heilbrigðisráðherra biður aldrei um kvittun þegar hann á viðskipti við "vini" sína.

Þetta tal um vini og margumtalaða veiðiferð "gives me the creeps".

Þetta er eins og einhver innmúruð frímúrararegla eða bræðrafélag.

Algjörlega óþolandi.

Og svo sjáum við almúginn um aðhaldssemina bara, herðum sultarólina og svonnnnna.

Hva?


Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband