Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Ég er ekki perri :)

Ég horfi ekki á Mannaveiðar í sjónvarpinu og mér líður eins og ég sé perri.  Það eru allir að tala um þennan þátt og flestir að kafna úr hrifningu.  Só?? Ég ákvað nefnilega fyrirfram að hann væri glataður.  Sparar tíma en stundum veðjar maður á rangan hest.  Lítið við því að gera.

Ég var ekki fyrr búin að hella úr skálum reiði minnar vegna drottningarviðtala við stjórnmálamenn, um leið og ég sæmdi Helga Seljan, sokkabandsorðunni fyrir vasklega framgöngu, þegar hann talaði við ISG í Kastljósi þriðjudagsins, þegar allur pakkinn var rekinn ofan í kokið á mér í kvöld. 

Hvað haldið þið?.  Ísland í dag og Kastljósið voru með vinsælasta mann Íslands, þessa dagana, Kristján Möller, í yfirheyrslu.  Það er greinilega eitthvað í loftinu, fólk sennilega að vakna af vetrardvala, því nú var gefið í Kristján á báðum stöðum.  Sigmar í Kastljósi og Svanhildur og Sölvi (sem Kári í Erfðagreiningu segir að sé með stórt typpi, hann hefur sko séð hann í sundiBandit), hjóluðu í karlinn og létu hann ekki sleppa billega.  En maðurinn kann ekki að skammast sín.  Honum finnst hann í alvöru Guðs gjöf til íslensku þjóðarinnar.

Ætli það sé einhver vírus í loftinu, eða kemísk efnasamsetning, sem treður sér undir húð sumra sem komast til valda á þessu landi?  Sumir valdhafar snarsnúast í skoðunum og það hlýtur að vera vont að hafa skrifað grein fyrir tveimur árum eða svo sem gengur algjörlega á skjön við það sem viðkomandi stendur fyrir í dag og það án þess að maðurinn telji sig hafa skipt um skoðun.

Ég skiletta ekki enda ekki nema von, ég skil ekki einu sinni sjálfa mig.

Ergo: Ég held mér saman til morguns en þá bíða ný pirringseliment, gleðiefni og uppákomur.

Og ég tek þátt í því, bölvið ykkur upp á það börnin góð.

Nigthy, nighty. 


Flækjufætur

Hm.. að tala um fólk sem eru sannkallaðir flækjufætur?  Ætla til Mónakó en fóru til München.  Á ég að trúa því að þessi tvö nöfn séu eins á ítölsku?  Nú fyrst Mogginn segir það, þá hlýtur það að vera svo.

Ég man líka eftir því fyrir löngu í denn, þegar ég vann í Eymundsson, að inn stormaði kona og vildi kaupa hnattlíkan.  Hún vildi hnattlíkan á "íslensku" þ.e. það mátti ekki standa Munchen, Copenhagen eða Stockholm.  Hún gerði heljarinnar mál úr þessu, konan, og rauk út í fússi.  Kommon þetta var sjötíuogeitthvað, give me a break.  Ekki eins og það hafi allt verið löðrandi í úrvali.  Konan hefur kannski verið hrædd um að villast.  (Sé hana í anda með hnöttinn í flugvélinni).

En svo er hægt að fara til annarrar borgar en maður ætlaði í fyrstu.  Það er t.d. hægt að enda í Köben þó að viðkomandi sé alveg með það á tæru að hann sé að fara ofan í bæ á 17. júní til að djamma, og það sé ekkert ferðasnið á viðkomandi út fyrir landssteinana. Gvöð ég þekki svo skemmtilegt fólk en nefni engin nöfn (ekki ég svo það sé á hreinu).  Sá sami viðkomandi vaknaði líka á JFK í New York bara, eftir eitthvað hollígong (viðkomandi ungur og ör) og til að láta ekki klína upp á sig áfengisvanda hringdi þessi títtnefndi viðkomandi í frænku sína, fór í heimsókn og var þar í mánuð.  Smá svona breyting á plönum.  En þetta gerðist allt fyrir ógeðslega löngu síðan.  Og viðkomandinn alveg bláedrú og ábyrgur í líferni.  Eins gott.

Það hlýtur að vera smá bömmer að fara annað en maður ætlar?  Eða hvað?  Samkvæmt viðkomandi sem stundaði svoleiðis ferðalög, þá munu þau hafa verið smá súr, en samt soldið skemmtileg.

Úje, farin til Kína!

Cry me að river!  Ég hefði getað verið illa gift, en er það ekki.

Og ekkert helvítis knús hér.


mbl.is Ætluðu til Mónakó en fóru til München
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt Geirfinnsmál?

Ég hef alltaf haldið að við á Norðurlöndum, byggjum við mannúðlegt þjóðskipulag.  Reyndar gerum við það að mestu leyti, en stundum rekur mann í rogastans.

Eins og þegar löggan réðst á Saving Iceland fólkið, eins og þar væru hryðjuverkamenn á ferð, svo ég fari nú ekki langt aftur minningargötuna.

Svo heyrði ég að Íslendingurinn í Færeyjum væri búinn að vera í einangrunarvist í 170 daga samfleytt.  Þetta er ótrúleg mannfyrirlitning sem yfirvöld í Færeyjum (já, þeir kenna Dönunum um en eru varla að hafa þetta svona á móti vilja sínum) sýna í þessu tilfelli.

Ég spyr; hvað segja mannréttindasáttmálar um svona einangrunarvist?  Er ekki hámarkstími á hversu lengi má loka fólk inni í klefa á þennan hátt?

Ég man ekki hversu lengi Magnús Leopoldsson sat lengi í Síðumúlafangelsi, saklaus, í tengslum við Geirfinnsmálið, en það var lengi og mér hefur alltaf þótt það mál ljótur blettur á réttarsögu Íslands.  Allur pakkinn frá a-ö.

En ég hélt satt best að segja að svona meðferð á fólki væri ekki leyfileg í löndum þar sem mannréttindi og virðing fyrir þeim réttindum á að vera í hávegum höfð.

Gott að Solla er í málinu.

Getum við ekki fengið manninn til Íslands?

Úff


mbl.is Löng einangrunarvist Íslendings óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vekja upp dauða

 28

Ég er að þvo og ég er geðvond.  Órjúfanleg heild, þ.e. skapferlið og verkefnið.  Ég rembist við að ná sátt við alla hluti sem snúa að mér, en þetta andskotans sullumbull sem þvottur er, reynist mér erfiður ljár í þúfu.

Og þá er alveg yndislegt að fá pirringstækifæri úr Mogganum.  Sá sömu umfjöllun á visi.is í gær, en þá var mér sama, sléttbölvað sama.

Magni í krísu.  Hann er fetandi í fótspor eins og motherfucker.  Skjús my language. Skil krísuna 100%.

Af hverju er sífellt verið að vekja fólk upp frá dauðum?

Þá meina ég, af hverju er alltaf verið að hala inn peninga á að gera hluti sem aðrir hafa gert betur?

Ég veit að ég er óþolandi en þessi tribjút öllsömul eru algjörlega ekki fólki bjóðandi. 

Tinusjóvið, Queensjóvið, Bítlasjóvið og listinn er óendanlega langur.

Með allri virðingu fyrir þessu fólki sem dustar rykið af sjálfu sér, hendist upp á svið og tekur Bítla, Jagger, Mercury, Turner og allt hvað það heitir, er aumkunarvert í tilraunum sínum til að endurskapa það sem verður ekki toppað. A.m.k. ekki á hinu íslenska Broadway, þar sem skemmtiatriðin eru svipuð að gæðum og matseðillinn.  Útúrleiðinlegur og flatur.

Elskurnar mínar, þetta er einfaldlega ekki í ykkar deild.

Og ég leyfi mér að láta það fara í taugarnar á mér.  Alveg án þess að skammast mín.

Samt hafði ég gaman af Magna í Rockstar.  En það var þá.

Annars er ég ekki á leið neitt nema í þvottahúsið.  En ég er með skoðun og það er dásamlegt að geta sett hana fram á minni bloggsíðu.

Fólk sem hefur ekkert að syngja (frumlegt og sjálfsprottið) á að þegja.

Og hana helvítis nú.

Veit að allur hópurinn sem mætir á þessi fyrirkomulög er ósammála mér.  Só????

Farin að setja í þurrkara.

Arg í boðinu.


mbl.is Magni syngur lög Freddy og Mick
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reðurtákn Smárans

Það er auðvitað guðs mildi að ekki fór ver í turnbrunanum í gærkvöldi.  Sjúkkkkitt.

En..

ég skil ekki af hverju Íslendingar byggja þessar reðurbyggingar beint til himins.  Það er ekki eins og við séum í vandræði með landrými, meiriparturinn af þessu landi er óbyggður.

Já ég veit, það á að troða öllu á einn og sama blettinn.  Ég veit fátt ljótara en þessi háhýsi sem standa eins og Gúliver í Putalandi og gnæfa yfir lágreista byggð.  Eins og húsin í Hátúninu og við Austurbrún.  Svo höfum við nokkur hér við rætur Seljahverfis, auðvitað fyrir eldri borgara.  Það er einhver lenska að byggja upp í loft þegar byggt er yfir þá sem eru komnir á síðara æviskeið.  Svona magndæmi.  Allir í sama kofann, hver ofan á öðrum.

Þetta er svo andskot ljótt. 

Í hvert einasta sinn sem við húsband förum þarna niður í Smárann, frussa ég og segi það sama.  Mikið djöfull (segi reyndar ekki djöfull, blóta bara á blogginuHalo) er það ljótt þetta glertyppi sem er á leiðinni til himins.  Já,já, segir húsband, ég veit hvað þér finnst.  Og ég alveg að verða æst; finnst þér þetta fallegt maður???? Hann; nei, nei, en fjandans húsið er risið, róaðu þig.

Hm..

Svona geta samræður í sjálfrennireiðum verið glimrandi djúpar og frjóar.  Vandamálin margslungin og óleysanleg.

Ég kom ekki nálægt þessum kumbalda í gærkvöldi, bara svo það sé á hreinu.

Enginn í vegg.

Ójá.


mbl.is Ekki miklar skemmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljinn sem vatnar

Nú á að bæta við fjórum plássum í Gistiskýlinu, sem er fyrir heimilislaust fólk.  Skýlið þar sem fólkið er rekið út á götu á morgnanna.

Gott að það sé bætt við rýmum.  En það er ekki nóg.

Getur borgin ekki farið að hunskast til að koma heimilisgámunum í gagnið?  Þeir standa tilbúnir og það tekur mánuði að finna staðsetningu fyrir viðkomandi húsnæði.

Það er viljann sem vantar, það er greinilegt.

Það getur ekki verið svona mikið mál að koma þessu af stað, ég trúi því ekki.

Er borin gjörsamlega lömuð með þennan nýja meirihluta?

Allir í ve... nei, nei, þið megið jafna ykkur frá síðustu áhendingu.


mbl.is Gistiplássum fjölgað í Gistiskýlinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átógraf frá Helga Seljan?

Sumt verður maður að blogga um, vegna þess að það slær mann sem einstakt. 

Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að hjala af ánægju vegna sjónvarpsviðtals við stjórnmálamann. 

Ég er nefnilega ekki haldin persónudýrkunar elementinu margfræga og svo skipti ég reglulega um skoðanir á stjórnmálamönnum og öðrum líka, ef út í það er farið.  Það þarf s.s. slatta til að imponera mig.  Enn er ég þó nokkuð glöð með mitt fólk hjá VG enda eru þeir í stjórnarandstöðu og ýta vel á.  Ég vona og held að þeir myndu halda kúlinu og sannfæringunni, kæmust þeir í stjórn.  Ég læt þau njóta vafans þar til annað kemur í ljós.

En aftur að hrifningarvímunni sem ég fór í, í gær þegar ég horfði á Kastljósið.  Viðtalið við ISG olli þessu hrifningarfári.  Ekki Solla sjálf, þó mér þyki mikið í hana varið og ég hafi löngum stutt hana bæði í kjörklefa (ekki síðast af skiljanlegum) og í hjartanu, heldur framganga Helga Seljan.

Það er helvíti hart að maður skuli svo sjaldan, núorðið verða vitni að því að fréttamenn gangi á stjórnmálamenn, fylgi eftir spurningum sínum og ýti vel á, til að fá svör. (Þ.e. vinni vinnuna sína, en siti ekki eins og lamaðir áhangendur poppstjarna þegar þær mæta goðunum). Það ætti að vera regla en ekki tilefni til rosalegrar aðdáunar.  Ég er enn í andlegu yfirliði.

Hm.. ég var nærri því búin að hringja í Mr. Seljan og biðja um átógraf.  Hætti við það, hann er að austan eins og ég, gæti misskilist.

Bíð með það þangað til seinna.

Újess í boðinu.

 


Krúttfærsla

Búin að skúra, taka til á lóðinni, þrífa bílana á bílastæðinu og er núna að pústa aðeins.

Ég er vinsæll nágranni, eða væri það ef hlutirnir væru ekki stórlega ýktir.

Á eftir ætlum við að sækja nöfnu mín á leikskólann af því mamman er veik í bakinu.  Sara mín varð fyrir vinnuslysi fyrir nokkrum árum, slasaðist illa í baki og nú er hún komin með brjósklos.  Hún þurfti að fara á læknavaktina í fyrrakvöld vegna verkja en stelpan sú er ekki mjög kvartgjörn.  Og nú er bakið nánast læst.  Þess vegna förum við og náum í Jennsluna, af því pabbinn er að kenna.

Og eitthvað hefur Jenný Una heyrt mömmu sína kvarta yfir bakverkjum því í morgun þegar mamma hennar vakti hana brosti hún sínu blíðasta og sagði:

"Mamma, ég líður aeins bretur í bakinu".

Mamman: Ha, í bakinu?W00t

Jenný: Já ég varaði slæm í bakinu í gær, ég leikti mér svo mikið.

Segið að börn séu ekki eins og svampar á umhverfið. 

Farin í bili.

Bloggfrömuðurinn.

Mamman:

og "baksjúklingurinn" Jenný Una:

Stundum þarf maður mikið að hugsa.

Ælofitt!

Úje

 


Óminni alkans

 61

Það er til marks um hvað ég var í tómu tjóni á fyllerísárunum, að ég varð mjög hissa þegar ég sá að bloggið væri 2 ára.  Ég hélt að bloggið á Mogganum væri búið að vera við líði til margra ára. 

Þannig að bloggið er aðeins eldra en edrúmennskan mín.  Kostulegt hvað margt hefur farið fram hjá mér í "víninu".

Þegar fólk innbyrgðir áfengi og pillur eins og ég gerði, þá er stöðugt óminni það eina sem maður gengur að nokkuð vísu.

Eftir að af mér rann hef ég fengið sannanir á færibandi fyrir þessu.  Ég get horft á flestar bíómyndir frá 2003 og fram að meðferð, eins og ég sé að sjá þær í fyrsta sinn.  Það er plús.  Mínusinn er að húsband spyr aftur og aftur, alveg forviða; "ertu að segja mér að þú munir ekki eftir þessari mynd"? og ég alveg; nei, ég man andskotann ekkert eftir henni, hættu að spyrja.  ARG".  Honum finnst ég gangandi frávik mannsheilans.

Og bækurnar sem ég las.  Jesús minn.  Ég er að segja ykkur frá mega sparnaði hérna.  Ég ástundaði auðvitað mín bókarkaup í ruglinu, eins og ég var vön, og las.  Og ég las.  Enda þurfti ég stundum að negla mig niður í bækur, gleyma mér, svo ég missti ekki vitið.  Ég held að ég hafi notið bókanna, en ég man það ekki.  Því hafði ég nóg að lesa, fyrsta edrúárið mitt.  Efni bókanna hringdi ekki bjöllum, hvað þá meira.

Svo eru allir "litlu" hlutirnir sem duttu úr hausnum á mér.  Við hverja ég hafði talað.  Hverju ég hafði  logið til að flikka upp á ástandið og blekkja mína nánustu, til að halda andlitinu.  Öll samtölin sem fólk hefur vísað í og ég man ekki rassg... eftir.  En ég sný þessu upp í gamanmál, enda ekki til annars en að hlægja að þessu, nema ég gráti auðvitað, en ég er löngu búin að gráta út minn kvóta í lífinu.

Að lokum, til merkis um sjálfsblekkinguna og þá staðreynd að maður trúir því staðfastlega að enginn viti að maður er alltaf fullur og í tómu tjóni.

Ég talaði við Dúu vinkonu mína, sem var ein af þeim sem alltaf stóð með mér, var til staðar fyrir mig án þess að leggja mér lífsreglurnar og beið bara róleg eftir að ég áttaði mig.

Samtal:

Alkinn ég: Dúa; veistu, ég held að ég sé alkahólisti!!!

Dúan: Já er það? Whistling

Eftir að samtalinu lauk, henti Dúa sér í vegg.  Eins og ástand mitt hafi farið fram hjá henni eða nokkrum öðrum sem var í sambandi við mig.  En ég elska hana fyrir að hafa ekki sagt neitt á þeim tíma.  Ég hefði bara farið að gráta.

Ég elska þig Dúskurinn minn.InLove

Lífið er eitt stórt andskotans kraftaverk.  Þrátt fyrir snjó á miðju vori.

Allir edrú í boðinu.

Jenný minniskubbur hefur talað.

Yfir og út.


Dyggð undir dökkum hárum?

 

Ég las á Eyjunni að ríkustu menn heimst giftust yfirleitt dökkhærðum konum.  Merkilegur fjandi, eða ekki, þar sem aðeins 1,8% af fólki í heiminum er alvöru ljóshært.  Restin er með Clarol eða eitthvað annað litunarefni í hausnum.

En af hverju ætli þetta sé?  Þar sem ég reikna með að konur eigi þátt í að byggja upp samband og koma sér í það líka (já ég veit, róttæk kenning) getur verið að dökkhærðar konur viti betur hvað þær vilja?  Að þær miði út mennina með seðlana?

Auðvitað ekki.  Flestar konur eru dökkhærðar inni við beinið, þó við sem svoleiðis er ástatt um, séum úthrópaðar í öllum ævintýrum og frásögum gegnum aldirnar.

Engin dyggð undir dökkum hárum í sögunum, nema í ævintýrinu um Mjallhvíti, auðvitað, en hún bætti úr því með því að vera albínói, með gegnsæa húð, hvíta sem mjöll.  Svo var hún rjóð í kinnum, en þar held ég að hún hafi bara sólbrunnið þessi elska, því albínóar þola illa sól.

Svo vil ég koma því að, að Mjallhvít er með glataðan stílista.  Kjóllinn hefur aldrei gert sig í mínum bókum.

Af mínum 6 systrum er ein 100% blondína, hinar nærri því.  Ein er rauðhærð og ég er eins og skrattinn úr sauðarleggnum í hópnum.

Ætli ég sé rétt mæðruð?

Segi sonna.

Úti er ævintýri,.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 2987256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband