Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Saumaklúbbur á einkamál.is

Ég var einu sinni hollvinur HÍ, er það kannski ennþá, veit ekki hvort það er dregið af mér um mánaðarmót, er ekki með mikla yfirsýn á áskriftir og vinafélög.

Ég er af skiljanlegum ástæðum, ekki í hollvinafélagi Hannesar Hólmsteins, en örvæntið eigi, það eru aðrir í því.  Frusssssssss

Sniðug svona hollvinafélög.  En hvað er hollvinur?  Getur maður verið vinur án þess að teljast hollvinur?  Ég geng út frá því að vinátta manns sé aðeins við fólk  og þá fólk sem manni er ekki mjög illa við, eða er það ekki útgangspunktur?

Kona spyr sig.

Sko, ég er arfabrjáluð út af sölunni á Fríkirkjuvegi 11, sem á að vera í eigu borgarinnar auðvitað og svo á að nota húsið til listrænnar starfsemi og svo mætti stofna þar barnamenningarhús.  Tækifærin eru ótal mörg.

Hvað um það, ég sé í visi.is að Hollvinafélag Hallargarðsins muni verða stofnað á morgun í Hallargarðinum.  (Ætli það sé tilviljun?).  "By all means" myndum þrýstihóp um átakið en ykkur að segja þá finnst mér tilhugsunin um að eiga garð fyrir hollvin sökka alveg ferlega.

Það mætti halda að maður væri desperat.  Svona eins og að fara á einkamál.is til að leita sér að saumaklúbbi.  Kommon.

En ég styð félagið ekki spurning.

En ég segi það satt að það er ekki í lagi heima hjá mér.

Ég elska ykkur samt.

Súmítúðebón.

Újeeeeeeeeeeeeeeee

 


Njet, njet, njet!

Ég vil galopnum á innfluttar kjötvörur. Ég er alls ekki sammála mínum elskaða flokki VG í þessu máli.  Það væri nú þokkalegt ef ástandið á manni væri orðið svo leim að maður tæki undir allt sem kemur frá höfuðstöðvunum.  Njet, njet, njet  ekki ég.

Ég veit ekkert um landbúnað, annað en það sem hann er að gera seðlaveskinu mínu.  Mín reynsla þar er ekki íslenskum landbúnaði í hag.  Ég vil almennilegt grænmeti og almennilegt kjöt á heiðarlegu verði.  Ég er óforbetranleg kjötæta og kjötátið vill ég fá að iðka án innblöndunar eilífra bændahagsmuna sem eru bara alls ekki mínir hagsmunir, eins og berlega kemur í ljós þegar þú kaupir t.d. lambakjöt.

Nú, ég hef áður sagt að ég er hrædd við kindur og kálfa og allt hvað heitir, nema ketti og hunda og þá borða ég ekki.  Ég kæri mig ekkert um að vita hvað gerist í málum litla sæta lambsins, frá því að það valhoppar með mömmu sín á fjallinu og þangað til það liggur steikt og ilmandi á mínum matardiski.  Það sem gerist á milli haga og maga, eða réttara sagt milli haga og neytendapakkninga, er einkamál lambsins.  Eigum við að ræða það eitthvað frekar?

Ég er frábær kokkur, get sannað það með því að bjóða ykkur í mat, en ætla ekki að gera það af því ég nenni því ekki.  Ég hef aldrei getað átt samskipti við íslenskt nautakjöt í mínu eldhúsi, án þess að útkoman verði líffræðilegt strokleður. (Ibba, já ég veit þú færð gott kjöt, en ekki ég).  Þess vegna vil ég geta keypt nautakjöt sem bragð er að.  Ég vil geta valið hvað ég borða og unnar kjötvörur er ekki valkostur.  Ég vil borða hollan mat án þess að lenda á vergangi.  Íslenskir bændur eru lítið í því að hjálpa mér í þeim efnum.

Hafið þið smakkað Bambann frá Skotlandi?  Hann er seldur hér en kostar auðvitað hvítuna úr augum manns vegna einhverra andskotans verndartolla.  Við erum að tala um þvílíka eðalsteik að maður er varla samur eftir að hafa reynt.

Hér er þetta spurning um afkomu og heilbrigði gott fólk.  Að borða almennilegan mat.  Það eru mannréttindi.  Í þeirri baráttu koma bændur alls ekki sterkir inn.  Og VG minn elskulegi er bara á villigötum með því að vilja viðhalda þessu löngu úr sér gegna einokunarkerfi.

Ég er örugglega algjör föðurlandssvikari, en þá verður að hafa það. 

Ég þekki heldur engar bændur, ekki kjaft og hef ekkert á móti þeim pc.  En þeir eru hindrun fyrir almennilegum matseðli á þessu heimili fjárinn hafi það.

Farin út að skjóta mér í matinn.

Síjú.


mbl.is Vilja ekki innflutning á fersku kjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo gay að það gargar

Ég hef alltaf verið yfirlýsingaglöð kona/stelpa/kornabarn.  Alveg frá byrjun hef ég kallað hátt og í hljóði að þennan eða hinn hlutinn myndi ég aldrei gera, eða fara, eða segja eða, eða, eða.

Það eina sem stendur eftir, er að ég brýt mín eigin prinsipp reglulega, til þess eins að geta sett ný.  Það er í sjálfu sér orðið mitt helsta prinsipp.

Ég á þó enn, nokkur óbrotin.

Kjósa aldrei Íhaldið.

Verja aldrei ofbeldi.

Úpps, þar með er það upp talið.  Fargings.

Og svo er glás af öðrum sem ég er löngu búin að brjóta, fjandinn hafi óstöðuglyndið.

Ég ætlaði aldrei aftur að nota vísakort (sko eftir að það brann yfir 199tíu og eitthvað).  Komin með amk tvö kreditkort.  Jájá sæl.

Ég ætlaði aldrei á sólarströnd og þess vegna hef ég farið fjórum sinnum og á örugglega eftir að fara aftur.

Ætlaði aldrei að reykja, aldrei að drekka áfengi og í beinu framhaldi aldrei að HÆTTA að reykja og aldrei að hætta að drekka.  Nú það er allt þverbrotið.  Ég er byrjuð og hætt að drekka, byrjuð að reykja og á leiðinni að hætta.  Leim?  Heldnú það.  Sökkar.

Ég ætlaði aldrei að horfa á Bandið hans Bubba, Eurovision myndbandið og Eurovision almennt.

Eurovisonmyndbandið sem er svo gay að það gargar, horfði ég á í Kastljósinu af því að því var beinlínis KASTAÐ framan í mig (fórnarlambið hérna).

Ég horfði á Silvíu Nótt, auðvitað og svo aftur í fyrra og ég gæti best trúað að ég myndi gjóa á keppnina aftur núna.  Megi ég skammast mín niður úr öllu valdi - fyrirfram til tilbreytingar.

Og s.l. þrjú föstudagskvöld hef ég horft á Bandið hans Bubba, þvert gegn vilja mínum, en strákurinn hann Eyþór sjarmeraði mig upp úr skónum, þegar ég óvart rakst inn í miðju kafi þáttarins. Blush

Og í kvöld gekk ég gjörsamlega fram af sjálfri mér.  Haldið þið að enn eitt prinsippið hafi ekki fokið út um gluggann, ég sverða og lýg því ekki, en ég GREIDDI ATKVÆÐI í gegnum símann, sem er svo smáborgaralegt að ég er að kafna úr móral.

Mér er ekki treystandi, ég segi það satt.  Næst tek ég lögregluna með mér í kjörklefann, þannig að ég merki ekki X við D.  Svei mér þá, því mér er ekki sjálfrátt.

Góða nótt.

Ég ætlaði aldrei að blogga á nóttunni eftir að Össur andskotaðist á blogginu á næturnar og uppskar vafasamar athugasemdir um eitthvað í blóði.

Þar fauk það, kl. er 0l.03.

Farin áður en ég sendi Hannesi Hólmsteini ástarkveðju!

 


mbl.is Eyþór hreppti stöðuna í Bandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gleymdi að spyrja

Ég var stórundarlegt barn.  Ég áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en nýverið.

Vó, hvað ég var furðuleg.  Mínar stelpur spurðu mig út í eitt um alla skapaða hluti, frá því þeim tókst að mynda setningu, ef ekki fyrr, svei mér þá.  Ég hins vegar, var farin að lesa bækur í samlede verker, upp úr sex ára.  Skildi auðvitað ekki helminginn, en einhvern veginn þróaðist sú hugmynd með mér þarna á þessum árum, að allra svara væri að leita í bókum.  Ég trúi því örlítið ennþá.

Ég held að ég hafi bloggað um harm minn gagnvart stráfellingu náinna ættingja útvarpsþulanna sem fluttu dánartilkynningarnar.  Mennirnir sögðu: Elskuleg dóttir mín,  faðir okkar, móðir okkar, lést í gær sóandó.  Ég var miður mín og frústreruð yfir öllum þessum dauðsföllum sem sífellt áttu sér stað hjá starfsfólki útvarpsins, en vissi samt að það var eitthvað bogið við þetta.  Spurði ég?  Nei, ég fattaði einhverju ári eða seinna að þeir voru að lesa upp tilkynningar frá öðru fólki.

Ég hélt lengi vel að amma mín segði satt, þegar hún laug því að mér þessi elska, að börnin kæmu út um magann á konum, eftir að Guð hefði komið þeim fyrir þar.  Ég spurði í huganum af hverju Guð, sem var almáttugur samkvæmt ömmu minni, hefði verið að fara þennan óþarfa milliveg við að koma börnum í heiminn þegar hann hefði getað skellt þeim beint í vögguna?  Ég spurði ekki nánar út í þetta en komst að hinu sanna útí porti í Verkó, hvar óuppdregnir strákandskotar fræddu mig um eðli barnsfæðinga, pre- og post.

Annars var mamma mín mjög oft ófrísk.  Það var dáldið í tísku þá og bara krúttlegt.  Alltaf jafn gaman að fá ný systkini (sem 99% voru stelpur), til að krúttast með.  Enda bjó ég hjá ömmu minni og gat dregið mig í hlé þegar ég var ekki í stuði fyrir grislinga.

En mér er það minnisstætt að amma mín elskuleg, sagði jafnan við mömmu í ásökunartón; Anna Björg, hvað er að heyra, ertu nú ólétt einn ganginn enn, ætlarðu aldrei að hætta?

Ég er enn að velta þessu fyrir mér, sko með sök móður minnar í óléttunni.  Ætli það hafi verið mikið um meyfæðingar þegar ég var lítil?

Ég veit það ekki því ég gleymdi að spyrja.

Dem, dem, dem.


Frummaður - sorrí

 magart0107_p54_pic3

Mér finnst vont að verða að játa það hér, en ég geri það samt.

Hin Norðurlöndin, eru alla jafnan með mun meiri félagslegan þroska en við villingarnir, snillingarnir á Íslandi.

Ég get verið ruddi, ég veit það, einkum og sér í lagi þegar mér hitnar í hamsi.  Mér hitnar í hamsi þegar ofbeldi og misnotkun á fólki, einkum konum og börnum, ber á góma.

Mér eru sendar kveðjur, undir rós stundum og svo með beinum persónulegum árásum í kommentakerfinu.  En það er ekki öðruvísi en við er að búast.  Málefni um vændi, mansal og allt sem því viðkemur, vekja heit viðbrögð þeirra sem sjá "frelsið" myndbirtast í niðurlægingu fólks.

Frelsi til að kaupa konur, frelsi til að horfa á klám, frelsi til að haga sér eins og frummaður (frummaður fyrirgefðu að ég geri þér skömm til).

Mér finnst fínt að ræða þessi mál, fá fram viðbrögðin, líka þessi sem er beint að persónu minni, því það segir mér hvað fólk er tilbúið að leggjast lágt, í stjórnlausri bræði.

Ég tek svona athugasemdir ekki alvarlega nærri mér, amk. ekki nóg til þess að ég þagni.

En hvað um það.  Ég er auðvitað að æra óstöðugan með því að blogga um þetta hitamál, en ég vona að helgin blási fólki í brjóst málefnalegum hugsanagangi, áður en þeir æða fram á bloggvöllinn.

Mikið andskoti eru Norðmenn þroskaðir og vísir, að gera kaup á kynlífsþjónustu refsiverða, svo að segja á sama tíma  og við leyfum allan pakkann.

Ójá, það var víst gert í skjóli nætur undir því yfirskyni að koma vændinu upp á yfirborðið.

Er það ekki fljótandi á yfirborðinu nú þegar?  Það hlýtur að vera.

Til hamingju Norge.


mbl.is Kaup á kynlífsþjónustu gerð refsiverð í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki gay

5249_middle_aged_african_american_diva_singer_woman_-_music 

Eurovison er dásamlegt fyrirbrigði.  Það bjargar t.d. lífi mínu á hverju vori.  Hefur gert svo lengi sem ég man, fyrir utan árið sem Gleðibankinn fór, þá var ég alvarlega "in to it" og hélt að við myndum taka þetta.  Ómæ, hvað ég hafði sextán sinnum rangt fyrir mér þá.

Eurovision er sum sé aðal pirringsaflgjafi minn ár hvert.  Það er gullnáma í viðkvæmt taugakerfi undirritaðrar og gefur henni færi á að fara offari í samtölum, bréfaskrifum (ok ekki alveg) og svo á blogginu núna.  Endalaus tækifæri af dásamlegu taugabrjálæði af öllum stærðum og gerðum.

Ég er greinilega ekki gay, hafi ég einhvern tímann haldið það.  Samkvæmt beturvitrungum þarf samkynhneigð til að fíla Eurovision eða kerlingarelement, sem ég veit ekki hvað er.

Ég er ekki með kerlingarelementið (held ég) og ég er "definately" ekki gay, og ég þoli ekki Euro.  Það er aðallega vegna íslenskra framlaga undanfarin öll ár sem við höfum tekið þátt, með nokkrum örfáum undantekningum.

Mér hefur ekki tekist að hlaða þessu myndbandi af herlegheitunum inn á tölvuna mína.  Og ég er ekki í víðtæku rusli.  Önnu vinkonu minn fyrir norðan finnst það flott, Heiðunni finnst það glatað.

Ég trúi þeim báðum.

Nú er búið að gera myndband af myndbandinu og á morgun verður gerð heimildarmynd um búningahönnuð myndbandsins og sögu rykkústsins sem leikarinn heldur á, síðan verður gerð heimildarmynd með haustinu sem fjallar um flutninga foreldra skriptunnar úr bæ í sveit.

Framundan eru bjartir dagar í eílífu andskotans urli taugakerfissins.

Lífið er stórkostlegur unaður.

Og framlag Svíðjóðar er hér, Charlotta vinkona Eika Hauks.

Svíþjóð: Hoppið inn í nútímann og fleygið þessari þreyttu vindvél.  Carola er búin með skammtinn.


mbl.is Myndband um myndbandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fargings sokkabandsorðan

Ég veit ekki með ykkur, en stundum þegar ég horfi á stjórnmálamenn í viðtölum í sjónvarpi, þá fæ ég svona óraunveruleikatilfinningu.  Ég hugsa alveg: Er þetta leikþáttur eða brandari?  Þetta getur ekki verið að gerast í alvörunni.  Svona hugsanir skiljið þið.

Í kvöld varð ég vitni af einni svona senu.  Í Kastljósinu var talað við uppvakningarborgarstjórann, um REI og um Fríkirkjuveginn.

Óheppilegt að Kjartan skuli hafa sagt að það væri möguleiki á að selja hlut í REI til einkaaðila.  En það er full samstaða og ekkert verður selt.  Hann hafði talað við Kjartan en ekki um þetta mál.  Það var ágreiningur en samt ekki.

Óheppilegt my ass.  Er þetta fólk ekki í sambandi hvort við annað?

Og Fríkirkjuvegur 11 sem borgarstjóri vildi ekki selja.  En ætlar samt að selja.  Af því að það er komið í ferli.  Þið vitið, þetta með ferlin sko, ekki hægt að stoppa þau.  Það stendur skýrum stöfum í Biblíunni.  Svo eru VG bara að slá sér upp á tillögunni um að láta ferlið ganga til baka.  Ekkert að marka þá.  En það er að marka hann sjálfan, Ólaf F.  Almannahagsmunir hafðir að leiðarljósi.  Ójá.

Höfuðið á mér var farið að rúlla í allar áttir.  Augun stóðu á stilkum og heilinn brann yfir.  Maður er nú ekki sterkur á svellinu fyrir, með mörg hjónabönd, heljarinnar sukk og hóp af árum að baki, sem vinna defenately gegn manni.

Kannski er það bara ég sem skil ekki djúp sannindi borgarstjórans.

Ef svo er þá á ég skilið fargings sokkabandsorðuna.

Viðtalið hér.


Í höfuðið á mér

heart

 Stundum verða martraðir manns ljóslifandi í raunveruleikanum.

Stundum er ég sjúklega hrædd um að deyja, reyndar mun minna núorðið eftir að ég varð edrú.  En mæómæ, hvað ég gat gert mér lífið erfitt.

Þegar ekki er haldbær innistæða fyrir óttanum sem heltekur mann þá er gott að geta gripið til einhvers sem mögulega gæti gerst.

Ég truflast úr hræðslu ef mér verður hugsað til hjartans í mér.  Ég meina, kommon, það er búið að slá í 56 ár, án þess að hvíla sig í eina sekúndu.  Ef ég fer að velta mér upp úr því og bæti við dassi af staðreyndum, ég reyki, ég er sykursjúk, ég er "alki on the rebound", ég hreyfi mig á milli stóla (nei, annars, rúlla mér um á sama stólhelvítinu, elda meira að segja sitjandi. Ok,ok,ok, ýkjur) og kransæðastífla í famílíusögunni, þá finnst mér að líffærið hljóti að fara að gefast upp þá og þegar og það, gott fólk, heldur fyrir mér vöku.  Ég tel slögin, svitna og bíð eftir að krumla dauðans læsist um hjarta mitt.

Nú, það má grípa til annars óbrigðuls ráðs þegar maður þarf að vera hræddur.  Ég mæli einmitt með því að sjá fyrir sér að það detti eitthvað af himnum ofan.  Allt frá flugvélum til skrúfa og og skrúfjárna úr verkfærakassa vélarinnar til geimsteina og stjörnubrota.  Það eru kannski lágmarks líkur á því, en það hefur gerst og þegar ég er í hræðslufóbíu, þá er ég viss um að ég sé óheppnasta mannvera í heimi.  Hreinræktað og náttúrulegt úrtak af eintaki sem fellur beint undir "Murphys law".

Svo má bíða eftir að skordýr komi á svæðið, að einhver hafi smyglað inn spordreka frá Grikklandi og að sá komi óboðinn í heimsókn.  Við tilhugsunina veit ég ekki hvort er verra, að sjá kvikindið eða vera bitin af því.  Hér má líka setja inn slöngur, Tarantúlur, morðóðar Býflugur og annan óþverra eftir þörfum eða p.n.

Ég hef langa reynslu af því að vera skelfingu lostin.  Ég býð ykkur upp á hugmyndir.  Tek bara lítilræði fyrir.  Bara fyrir kostnaði.

Njótið vel.

Mufokkingha.


mbl.is Járnstykki féll af himnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatur - spurning um svona lala

Hvað er hatur?  Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið, þegar ég hef lesið um Englu litlu sænsku og svo nú þennan litla dreng Oliver, sem rænt var í gær.

Ég held að ég hafi aldrei hatað nokkurn mann, sem betur fer.  Ég held að hatur sé stjórnlaus illvilji í garð annarrar persónu, þar sem sá sem hatar vill gera viðkomandi allt til miska., jafnvel saklausu fólki sem tengist þeim hataða.  Svona sirkabát.

Ég hata engan, er misvel við fólk eins og gengur og ég held að ég þekki heldur ekki kjaft sem hatar.

Samt notum við þetta orð óspart.  Orð missa bragðið, þegar tönglast er mikið á þeim.  Þið munið að einu sinni var ágætt það allra besta.  Nú er það orðið lala dæmi.

Sumir hata fisk, rigningu, flugvélar, flugur og köngulær.  Ég nærri því skil þetta með köngulærnar en ég held samt að ég hati þær ekki þó ég hafi megna, gegnheila andstyggð á þeim.

Hata hvað?

Ég kemst næst hatrinu held ég, þegar ég heyri um illa meðferð á börnum, þá brestur eitthvað í hjartanu á mér.  Mig langar virkilega að ná í rassgatið á þeim sem fremur verknaðinn.  En sem betur fer eru það bara eðlileg viðbrögð.  Vanmáttur alla leið.

Ég skipti mér alltaf af þegar ég sé illa farið með börn, þeim misboðið af fullorðnu fólki.  Það er ekki vinsælt, en mér er slétt sama.  Ég geri það samt.

Það er svona u.þ.b. það eina sem hægt er að gera til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar, í heimi þar sem börn svelta, deyja úr sjúkdómum. eru seld mansali í stórum stíl.

Ég hélt einu sinni að við værum að þroskast svo hratt, mannfólkið. Á ógnarhraða, svei mér þá.

En ég hata engan.  Ég hef hreinlega ekki heilsu í það heldur.  Það hlýtur að taka skelfilega á.

Í almættisins friði, megi sjálfur Óðinn blessa ykkur.


mbl.is Reynt að ræna bróður Olivers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játningar móðurinnar

Stundum birtist eitthvað í fréttum af rannsóknum sem "actually" meikar sens.  En flest allir sem hafa alist upp í systkinahópi eða hafa átt sín eigin börn, vita að frumburðirnir eru oft "fórnarlömb" fullkomnunaráráttu foreldranna í uppeldistaktík.

Ég gæti sagt ykkur sögur og já ég ætla að gera það.

Ég er frumburður foreldra minna.  Ég ólst upp hjá ömmu minni annars staðar í bænum og þegar hamskiptin frægu urðu á undirritaðri á gelgjunni, þá fóru foreldrarnir í fár.  Ég mátti mig ekki hræra.  Ég held að þau hafi trúað því að ég væri í lífshættu í Æskulýðsráðinu, í Búðinni og Glaumbæ.  Kannski höfðu þau rétt fyrir sér.  En ég lét ekki að stjórn og þau voru með þungar áhyggjur.  Þegar Greta systir fór á gelgjuna tveimur árum á eftir mér, höfðu þau náð að jafna sig nokkuð þessar dúllur.

En..

Frumburðurinn minn hún Helga Björk lenti í mér.  Hún er reyndar átta árum eldri en næsta systir í röðinni og nema hvað, ég ætlaði svo sannarlega að koma í veg fyrir að hún fetaði glapstigu móður sinnar.  Það var algjört aukaatriði  í mínum huga að hún sýndi nákvæmlega enga flóttatilburði út í lífið, lá í bókum, sinnti skólanum og endaði svo sem lögfræðingur þessi elska og hefur nú frekar reynt að ala móður sína upp, frekar en ég hana. Hún segir reyndar stundum,; "mikið rosalega hef ég verið leiðinlegt barn fram eftir öllu". Halo

Stundum náði ég mér einstaklega vel á strik í uppeldistöktunum.  Fræg að endemum er strokleðursræðan sem ég hélt yfir dóttur minni úti í Gautaborg þegar við bjuggum þar.  Helga Björk hafði fengið lánað til skoðunar merkilegt pennaveski, úttroðið af strokleðrum með lykt, frá Vivianne bekkjarsystur.

Ég: Hvernig getur Vivianne keypt svona mikið af strokleðrum?

Helga: Hún stal þeim í bókabúðinni.

Ég flippaði út.  Síðan kom strokleðursræðan sem stóð lengi og fjallaði um siðfræði, þjófsnauta og aðallega þjófsnauta.  Ég man að dóttir mín sat undir þessu "uppeldi" mínu, einbeitt á svip, en seinna sagði hún mér að hún hefði hætt að hlusta á fyrstu mínútunum. 

Það var allt svo merkilegt fannst mér, það sem ég hafði fram að færa.  Vivianne gerðist bankaræningi að sjálfsögðu og fór um með vopnum um alla Gautaborg daginn eftir fermingu. Bonnie endurborin, svei mér þá! Já sæl.

En einu sinn fannst mér að frumburður yrði að vera fullkomin, móðurbetrungur og gott betur.  Það tókst, en ég held svona eftir á að hyggja, að það hefði orðið þannig alveg án allra dramakasta og sjúklegrar viðleitni móðurinnar.

Stelpurnar mínar eru nefnilega svo gott sem fullkomnar.

Ég er að segja ykkur það.


mbl.is Elstu börnum refsað mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 2987256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband