Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Nýtt frá Londres

Brynja vinkona mín og hin ammans hans Olivers, er í London og eins og venjulega bætir hún mér upp skort af myndum af barnabarninu mínu, en foreldrar hans eru arfaslakir á myndavélinni.  Þessar myndir eru frá því í dag og í gær, kæra fjölskylda, vinir, kunningar og velunnarar (hérna beygi ég mig með enni að gólfi).

Fallega Londresfjölskyldan!

20080415134755_1

Í dag fór Oliver út að djamma á Pizza Express með ömmu-Brynju!  (Krúttkast)

20080416204319_6

Og svo fór amma-Brynja í heimsókn til Maysunnar í vinnuna hjá Arrogant Cat

20080416204250_5 

og ein að lokum af Maysunni minni og Oliver:

20080415192838_3

Sko, þarna tókst mér að breyta stærð í fyrsta sinn.  Hm.. ég er algjörlega brilljant.

Sé ykkur á morgun í vorinu, fuglasöngnum, gróandanum og í félagsskap gula fíflsins.

Ójá.

 


Þunglynd og í krónísku áfalli - Hjálp!

 

Ég er í heví nostalgíukasti núna.

Var að vesenast í geymslunni í morgun og rakst þar á bókakassa (einn af mörgum).  Auðvitað á maður ekki að kíkja í kassa í geymslum, því þá getur maður ekki hætt.

Í kassanum voru "stelpubækurnar" mínar, sem ég ætlaði dætrum mínum til aflestrar, en eitthvað hefur það farist fyrir.  Sem betur fer held ég svei mér þá.

Fyrir utan að finna fortíðarþránna heltaka mig (eða þannig) þá varð ég samt sjokkeruð að rekast á þær bækur sem voru mínar uppáhalds á árunum frá 8-10 ára, en þá fór ég að lesa fullorðinsbækur.

Millý Mollý Mandý og vinir hennar.  Matta Maja dansar, Matta Maja leikur í kvikmynd, Hanna Í París og Katla vinnur sigur.

Miðað við efni bókanna, sem er svo sem meinlaust, þá finnst mér mesta furða að ég hafi ekki  orðið eitthvað annað en ég er.  Þessar bækur eiga það sameiginlegt, ef mig misminnir ekki hroðalega, að fjalla um saklausar stúlkur, sem eru öllum góðar og þær eru alltaf hlýðnar.  Þær rugga ekki einum andskotans bát.  Katla var reyndar þunglynd og í krónísku áfalli, og það var ég líka á tímabili.  Segið að það hafi ekki áhrif.

Sumar bækur eru ekki góðar fyrir börn.  Eins og t.d. Grimms ævintýri, þar sem fólk var skorið, soðið, steikt og myrt á viðurstyggilegan hátt.  Margir sadistar í bókum Grimms bræðra, það segi ég satt.

En ég er ok, þrátt fyrir hlýðnu stelpurnar.  Ég tók mér þær ekki til fyrirmyndar, enda hefði það verið vonlaust, hvatvísin að drepa mig þá sem nú.

En ég er alin upp á Þjóðsögum Jóns Árnasonar og á þær allar.  Ætli ég eigi ekki eftir að hræða líftóruna úr barnabörnunum einn daginn, eins og gert var við mig.

Það er dásamlegt að láta hræða sig með útilegumönnunum í Ódáðahrauni og henni Garúnu, Garúnu.

Muhahahahahaha

Ég kem aftur á eftir.  Ég kem alltaf aftur.


Þar sem kapítal er tónsprotinn

11 

Ég á góðar minningar frá Fríkirkjuvegi 11, gamla Æskulýðsráðinu.  Þar var opið hús á kvöldin þegar ég var gelgja og á sunnudögum var hljómsveit og dans.

Ég vangaði, kyssti strák/a á þessum stað í fyrsta  og annað sinn.  Ég varð ástfangin í fyrsta sinn í þessu húsi. Ég grét úr mér augun á klósettinu, úr minni fyrstu ástarsorg sem gekk yfir á korteri, reyndar, því þá hafði ástin heltekið mig á ný.   Ef veggir gætu talað, ómæómæ.

En ég er komin af íslensku alþýðufólki í báðar ættir og ég verð stoltari af því með hverjum deginum sem líður.  Ég hefði þess vegna ekki átt séns í að geta keypt Fríkirkjuveg 11, þrátt fyrir að eiga þar pjúra þroskasögu án ættartölu auðvitað.  Það geta ekki allir verið Thors.  Söluauglýsingin var eiginlega sniðin fyrir væntanlegan kaupanda, þannig að enginn varð hissa þegar Björgúlfur Thor keypti húsið.

Ég hef ekkert á móti Björgúlfi Thor, en ég hef heilmikið á móti því að þessi perla í miðbænum og garðurinn við hana, fari í einkaeigu.  Það felur í sér t.a.m. að garðurinn verður lokaður af með lögregluvaldi, ef á þarf að halda, nokkrum sinnum á ári, þegar fyrirfólk (ég æli) á leið í húsið.

Skammastu þín Ólafur F og afgangurinn af valdaræningjunum í borginni.  Þetta hús er innmúraður hluti að sögu borgarinnar og á að vera til alemmingsnota.  Þarna er hægt að setja upp alls kyns starfsemi, fyrir fólk á öllum aldri.  Skammsýnin hjá borgaryfirvöldum er með ólíkindum.

Má eiga von á því að einhver grillinn kaupi Iðnó fljótlega til að nota sem einkaheimili?  Þá má jafnvel sjá bláblóðunga sigla um á tjörninni?

Mig hryllir við framtíðarsýninni þar sem kapítal er tónsprotinn.

Ekki nóta þar.


mbl.is Garðinum lokað ef gesti ber að garði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskulegar spurningar

Hallgerður bloggvinkona mín skrifaði skemmtilega færslu sem oftar, í dag.

Hún fékk mig til að fabúlera um óþarfa spurningar.

Einu sinni átti ég bók (Mad) sem hét snappy answers to stupid questions.  Sú var dásamleg.

En það eru þessar spurningar sem vaða uppi og eiga ekkert erindi.  Eru eyðsla á tíma og orku og valda pirringi sem er nú ærin fyrir.

Eins og:

Ég er komin í kápuna, búin að hengja mig í treflinum, troða á mig nefhlíf, hönskum, húfu og eldingavara og einhver spyr: Ertu að fara eitthvað?

Ég fæ ljósakrónu í höfuðið, ligg veinandi á gólfinu með blóðpoll undir mér, beinflísar úr höfuðkúpu liggja eins og hráviði út um allt gólf og einhver spyr: Meiddirðu þig?

Ég vinn stóra Lottópottinn í beinni útsendingu, ég hoppa hæð mína, öskra og garga af hamingju og blæs í lúður og einhver spyr: Hvernig líður þér?

Ég geng úti með vinkonu og ég hitti manneskju sem ég hoppa upp um hálsinn á, kyssi knúsa og rugla hárinu á og vinkonan spyr: Þekkir þú þessa?

Ég ligg í djúpum svefni og hrýt þannig að það heyrist til Hornafjarðar, slefa í djúpsvefni og sýni engin merki um að vita í þennan heim né annan  og "einhver" spyr:  Ertu sofandi?

Ég sit og tala í síma þannig að það stendur bunan út um munninn á mér, ég sveifla höndum, tala hátt og er að kafna úr fjálgleika og sá sem kemur aðvífandi kallar hátt til að yfirgnæfa rödd mína: Ertu í símanum?

Nei nú er ég farin að urlast.

Ætla að reyna að sofna.

Eruð þið að lesa þetta?

Segi svona.

 


Eftir djúpan disk

 

Mér þykir gaman að sletta á blogginu.  Bloggið er talmál að mínu mati, og það má alveg fara frjálslega með texta.  Þess vegna er bara liff í því að nota alls kyns orðskrípi, afbakanir og útlenskur í bland.  Þetta geri ég óspart þegar þannig liggur á mér.

En...

hvaðan kemur þetta "heilt yfir" tal út um allt?  Notað í fullri alvöru meira að segja?  Í sjónvarpi, útvarpi og á bloggi.  "Svona heilt yfir"?  Þetta er svo snubbótt.  Eitthvað sænsk eða danskt heyrist mér.  Över det hela taget.  Hm.. er ekkert betra til?

Má ég þá heldur biðja um smá Bibbísku hérna.

Ég hef þekkt þær nokkrar í gegnum tíðina og þær eru yndi.

Ein kom aldrei á staðinn fyrr en eftir djúpan disk.

Önnur var með paník í loftinu og parker á gólfinu.

Sú þriðja gekk sig reglulega upp að eyrum og hún bað mig stundum að koma með sér í konvoj niður Laugaveginn.

Bara krúttlegt svona heilt yfirW00t

Hm....


Ofbeldi á konum - einkamál þeirra?

Það eru margar ástæður fyrir því að stúlkur kæra ekki nauðgun, enda eru það bara brot af nauðgunarmálum sem eru kærð. 

Dómar í nauðgunarmálum gera það svo að verkum að ég er ekki hissa..

Ástæðurnar geta verið eftirfarandi:

Konan þekkir gerandann, flestar nauðganir á Íslandi eru s.k. kunningjanauðganir.

Konan treystir sér ekki í kæruferlið og allt sem á eftir kemur.

Oft lætur saksóknari mál niður falla.

Konunni er stundum hótað.

En það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þolendur nauðgunar skuli þurfa að kæra sjálfir til þess að obeldismaðurinn verði látinn svara til saka.  Annars fellur málið bara niður.  Þrátt fyrir að glæpurinn sé með sama refsiramma og morð.

Ef ég t.a.m. brýst inn í sjoppuna hérna við götuna mína, þá er það ekki undir sjoppueigandanum komið hvort ég verð kærð fyrir stuld og innbrot.

Það er ekki bíleigandinn sem ákveður hvort bílþjófurinn er ákærður fyrir að stela bílnum.

Meira að segja matarstuldur (hangikjötslærið í Hveragerði) fer fyrir dómstóla.

En ef kona er beitt heimilisofbeldi, kærir og dregur svo kæruna til baka, þá fellur málið yfirleitt niður.

Sama með nauðgunarmál.

Ofbeldi á konum er svona einkamál eitthvað.

Skrýtið?

Heldur betur andskotans kolruglað fyrirkomulag, ef ég á að segja meiningu mína, sem ég auðvitað hika ekki við að gera.

Dem, dem, dem.


mbl.is Stúlkan ætlar ekki að kæra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldarúnk hjá Hestamannafélaginu Losta

Hestamannafélagið Hörður heldur uppteknum hætti og fær konur til að fækka fötum á herrakvöldinu svo meðlimirnir geti setið slefandi yfir berum konulíkama.  Reyndar vakti þessi hefð þeirra, hjá Hestamannafélaginu Losta, neikvæða athygli í fyrra, þannig að nú í ár tóku þeir nafn félagsins út úr auglýsingunni og kalla þetta einkasamkvæmi.

Ég var að pæla í hvað ég vorkenni konunum í þessu félagi, þ.e. ef konur eru leyfðar í svona tittlingasamkundu.

Eða þá fjölskyldum þessara áhugamanna um listræna gjörninga.

Ég gef hér með skít í þennan félagsskap og aðra svipaða.

Geta þessir perrar ekki rúnkað sér einir heima hjá sér?

Það er eitthvað svo djöfulli aumkunarvert við tilhugsunina um fulla kalla í "huglægu"  hóprúnki.

Fyrirgefið á meðan ég æli.

Súmíækenteikitt.


mbl.is Harðir á strippinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sounds like a plan"

Í gegnum allar mínar megrunarkúra hef ég lært amk einn hlut.  Kíló eru afstæð.  Ég hef heldur aldrei orðið vör við að tvær baðvogir væru eins.  Það munar alltaf helling af grömmum, gott ef ekki kílóum.  Þá velur maður út þá vog sem vigtar minnst og ættleiðir hana.

Nú á að endurskilgreina kílóið og þá ætti maður að geta notið þess að lifa.

Annars á ég vinkonu sem hefur verið í megrun nánast frá fæðingu.  Hún hefur gert megrun að listrgrein og sérfræðiþekkingu.  Hún hefur svo mikla skömm á orðinu kíló að hún getur ekki sagt það.  Í staðinn segir hún kóló.  Það er eitthvað svo fyndið en sick að heyra hana segja; "ég er örgla búin að fitna um ein 5 kóló yfir jólin".  Krúttkast.

Kannski verður þetta endurskilgreint á persónulegum level.  Mín kílóþyngd yrði prógrammeruð inn í mína einkavog og vei þeim óviðkomandi mannfjanda (Whistling) sem stigi á hana.  Vogin gæti þá sent frá sér svipuð hljóð og þjófavörn í bílum gefur frá sér.  Sounds like a plan?

Það er dásamlegt að liffa á upplýstum tímum þar sem hægt er að endurskilgreina allan fjárann.

En..

Jenný Una var lasin heima í dag, en fékk að koma til ömmusín til að brjóta aðeins upp daginn.

Hún varð smá pírí og fór  inn í svefnherbergi og lagðist í rúmið mitt.

Amman lagðist hjá henni og strauk henni yfir kollinn en  barn vildi ekkert með ömmuna hafa.

Amma é fer í mitt rúm.  Þú ert alltaf að trufla mér og fikta mér.

Amman: What (eða þannig)???

Jenný: Þú ert alltaf að trufla fólk! (Ætli barn sé orðin læst og farið að lesa bloggið mitt?)

og svo stundu síðar:

Amman: Jenný mín hvað ertu að gera? (Barn að bardúsa í pottaskáp ömmunnar).

Jenný: É er að gera fyrirkommulag!W00t

Niðurstaða: Ég held að ég verði að hætta fyrirkomulags notkuninni um hríð.

Hehemm, eru börn eins og svampar?

Það er eins gott að blóta bara á blogginu, Jenný Una heyrir afskaplega vel.

Dem, dem, dem.


mbl.is Kílóið endurskilgreint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr landi með morðingjann

Ég er höll undir fjölmenningarþjóðfélag.  Mér finnst þau ákjósanlegri en hinn kosturinn.

Plúsarnir eru fleiri en mínusarnir, það held ég að sé alveg á hreinu.  Einkum og sér í lagi er frábært að fá fólk til Íslands, sem liggur úti í Ballarhafi, þar sem þjóðin er fámenn og allir undan öllum. 

Frusssssssss meiri viðbjóðurinn.

En, án gamans, það er öllu skemmtilegri bragur á þjóðlífinu eftir að nýjum Íslendingum tók að fjölga.

Það sem ég hins vegar vill að verði tekið á er að grunaðir morðingjar og fólk sem eftirlýst er í heimalandi sínu, sé sent þangað sem það á heima.

Ég skil ekki hvers vegna löggan er ekki búin að koma þessum eftirlýsta manni úr landi þar sem þeir vita um fortíð hans. ´

Flestir Pólverjar eru vinnusamt og heiðarlegt fólk, og þeir eiga ekki að þurfa að vera í tilvistarkreppu og verða fyrir aðkasti sem þjóð vegna nokkurra svartra sauða.

En burt með andskotans ofbeldismennina sem ríða húsum og gera líf okkar þegnanna allra að helvíti. 

Annars er mér sama hverrar þjóðar ofbeldismaðurinn er, þeir eru allir óæskilegir í mannlegu samfélagi á meðan þeir eru virkir í óþverraskapnum.  Það á að senda skýr skilaboð til þeirra, að það hafi afleiðingar að meiða fólk.

Íslensk skáldkona sagði einu sinni þessi vísu orð (reyndar í öðru samhengi en slétt sama); "það skiptir engu máli hvaða þjóðerni er áfast hinum endanum á tittlingnum".

Ég hallast að því að hún hafi haft rétt fyrir sér þar.

Hananú.

P.s. Af gefnu tilefni þá vil ég taka fram að ég sé enga lausn í sakavottorðum.  Enda fólk víða um heim á sakaskrá fyrir að mótmæla þjóðfélagsskipulagi svo dæmi sé tekið.

En eftirlýstir morðingjar og dæmdir ofbeldismenn mega fjúka.


mbl.is Hefur enn ekki gefið sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er kolfallin fyrir Sigmundi Erni

 060361-2079

Ég er fallin fyrir Sigmundi Erni Rúnarssyni, manninum með hin stingandi augu.  Ég held að hann hljóti að vera toppmaður í rannsóknarblaðamennsku.  Maðurinn hlýtur að sjá gegnum holt og hæðir með röntgenaugunum sem fylgdu honum við fæðingu. 

SE á pláss í hjarta mínu eftir að hafa fyrstur notað hina (of)nýttu setningu; "auglýsingar eru handan við hornið". 

En það eru ekki augun sem hafa orsakað fall mitt.  Heldur þátturinn hans, Mannamál.  Ekki svo mikið viðmælendurnir, en þeir eru upp og niður eins og gengur, heldur menningarumfjöllunin, þar sem Gerður Kristný og Katrín Jakobs, fara á kostum.  Reyndar hef ég séð Gerði Kristnýju oftar og hún er frábær og skelegg.

Svo er það hið frábæra framtak "The eye man" að hafa Einar Má til að flytja okkur pistilinn.  Mikið andskoti var hann góður í gærkvöldi.  Það munaði engu að ég ryki upp á Stöð 2 og léti manninn átógrafa á mér upphandlegginn.

Ég segi ykkur það, að Ray Davis í Kinks skrifaði einu sinni á handlegginn á mér og ég gekk með viðkomandi útlim í plasti, vikum saman, eða þar til önnur músíkhetja varð mér hugleiknari og þá var Ray settur út af sakramentinu og útlimurinn lagður í lút.  Æi þið vitið, mórallinn hjá úllanum alveg: Either your in or your out fyrirkomulagið.

Svo skammaði SE,  Þorgerði Katrínu fyrir að tala of mikið.  Kommon Sigmundur, er til stjórnmálamaður sem ekki þjáist af ofvirkni í  talfærum?  Æ dónt þeink só.

Habbíhúbba hvað ég elska mánudaga.

Nema þegar þeim sökka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 2987256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.