Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Af týndum gleraugum og maístjörnu

Þetta kvöld, frá kvöldmat eða svo, hefur verið lyginni líkast.  Ég týndi nefnilega gleraugunum mínum.  Ég er nærsýn með afbrigðum.  Ég byrjaði ekki að nota gleraugu fyrr en fyrir 10 árum, fannst ekki nógu hipp og kúl að vera gleraugnaglámur.  Ég fór í gegnum erfitt nám í Svíþjóð, t.d. án þess að sjá á töfluna.  Veit ekki hvernig ég glósaði, en það tókst.

Ég eignaðist fyrrverandi vini í búntum, þar sem ég lét hjá líða að heilsa þeim á götu.  Sá þá ekki, enda sé ég ca. 15 cm. frá mér, það sem lengra er burtu er í móðu.  Og nú get ég ekki fúnkerað án þess að hafa gleraugun.

Þau eru nærri því ósýnileg, með títanumgjörð, þetta eru týpugleraugu (víst Ibba, þetta eru mín týpugleraugu) og ég fann þau ekki þegar ég fór að horfa á fréttir.  Ég ein heima og ég sé ekkert frá mér þannig að ég hríslaðist um og leitaði og fann ekkert.  Ég var ekki sjón að sjá, hefði einhver séð mig.  Góð ráð voru dýr, fréttir voru að hefjast og ég verð að sjá þær, báðum megin. 

Hafið þið prufað að halda á sjónvarpinu á meðan þið horfið á það?  Ekki?  Það er hm.. sérstök lífsreynsla.

Ég skreið síðan um allt hús og leitaði, ég legg hluti frá mér á ólíklegustu stöðum, stundum hef ég lagt frá mér brillurnar inni í fataskáp og ég finn þau aldrei, húsband geri það.  Ég rak hausinn af alefli í bókaskápinn þar sem ég skreið um allt, án árangurs.

Minn heittelskaði brunaði heim áðan, mér til bjargar.  Hann gekk inn, beygði sig niður við borðstofuborðið og tók upp gleraugun.  Jájá, heldur að hann sé eitthvað.

Ég gat horft á Kiljuna óruglaða, en það gera reyndar allir Íslendingar en í mínu tilfelli var það kraftaverk "in the making".

Ég sé!

Gleðilegan 1. maí og þið látið ykkur auðvitað ekki vanta í baráttuna á morgun.

Fram þjáðir menn í þúsund löndum!

Maístjarnan gjöriðisvovel!


Dulbúin auglýsing á Mogga - ekki kúl

Fjarskiptafélagið Nova er með auglýsingu á síðunni minni og ég sit uppi með það eins og aðrir Moggabloggarar, hvort sem mér líkar betur eða verr, nema að sjálfsögðu að ég greiði fyrir að hafa auglýsinguna úti.  Það dettur mér ekki í hug að gera og því er hún þarna og gargar á mig í hvert sinn sem ég fer inn á síður, á annars ágætu bloggsvæði Moggans.  Annars líð ég ekki beinlínis fyrir þetta, en þið vitið hvað ég meina.

En við misstum hana Betu Rónalds, vegna þessa.  Það er súrt. 

En halló Mogginn!  Það er ekki góð blaðamennska er það að skrifa "fréttir" sem eru ekkert annað en auglýsingar.

Þarna er ný gjaldskrá og fyrirkomulag símafélagsins tíundað í þessari mjög svo vafasömu frétt.

Ef Bónus lækkar verð á kjötfarsi eða gefur blöðrur, á ekki að birtast frétt um það, samkvæmt þessari hugmyndafræði?

Og ég blogga við fréttina.  Fíbbblið ég en ég get ekki stillt mig.

Mér finnst þetta alveg ferlega hallærislegt.

Nóva, Smóva, þið platið mig ekki.  Ég er hjá Hive.

Þessi færsla er í boði Vodafón.

Nei djók.

 


mbl.is Ekkert gjald fyrir símtöl innan kerfis Nova
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sódóma

Í visi.is gefur að líta frétt um úttaugaða íbúa í miðborg óttans.

Ég hef vissa samúð með þessu fólki, enda hef ég verið í sömu sporum, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Ég bjó á Þingholtsstræti, nánast við Bankastræti. Það var á seinni kafla djammárana, þegar ég var í öflugum rómans með núverandi húsbandi.  Stutt á kránna og stutt á tún bæjarins, hvar við sátum í keleríi og drukkum alls kyns ólyfjan.  Á horninu var sú öflugasta bassatromma í heimi og ég sofnaði við búmmbangið alla daga, einhvern tímann undir morgun.

Svo flúðum við en létum okkur ekki segjast og komum aftur.  Orðin skver eins og venjulegt fólk og fluttum með opin augu, reynslunni ríkari og alls ekki tilbúin að læra af henni, á Laugaveginn.

Þar var migið utan í húsið.  Blönduðu kórana fyrir neðan svefnherbergisgluggana hef ég reynt að gera ódauðlega á blogginu, með ítrekuðum færslum.  Það var gubbað á útidyrnar, kúkað bak við hús og fólk eðlaði sig bæði fyrir framan og aftan.  Jájá.  Oftar en ekki lá við stórslysi þegar ég var í leið til vinnu á morgnanna, glerbrotin biðu eftir mér við útidyrnar.

Ég segi, mér var nær.

Við hverju býst maður þegar maður vill búa í miðjum suðupotti?  Í hringiðunni sjálfri?  Næstum inn á skemmtistöðum?  Ég held að maður geti ekki með nokkurri sanngirni búist við fuglasöng og dirrindí á nóttunni, amk. ekki þannig að það yfirgnæfi gleðilæti Reykvíkinga.

Við komumst við illan leik, farin á taugum, með lager af eyrnatöppum og svefnpillum, eftir umsátrið í hjarta borgarinnar, upp fyrir snjólínu.  Ég fór ekki í miðbæinn í fleiri mánuði eftir útrásina úr Sódómu.

Það sem ég er að reyna að segja hérna er einfaldlega þetta.  Opnunartími skiptir einhverju máli auðvitað og ég held að það eigi alls ekki að lengja hann.  En Íslendingar "skemmta" sér eins og villimenn.  Þeir veina, slást, pissa þar sem þeir eru staddir, þeir æla þegar þeir eru komnir með ónot af löglegum og ólöglegum efnum í líkamann og þeim finnst gaman að syngja.

Það þykir svo fínt að búa í Miðbænum.  Það er inn, svo hipp og kúl.  En ef fólk gengst upp í því, sem ég gerði sjálf (og það kostaði mig nánast geðheilsuna) þá verður að taka hinu góða með skítnum.

Svo gott fólk.  Sættist við umhverfið eða flytjið ella.

Ég lifði það af og gott betur.

Frétt


Best í heimi hvað?

Frá og með morgundeginum verður einn sálfræðingur í starfi hjá Fangelsismálastofnun Ríkisins.  Þórarinn Hjaltason hættir og ekki hefur verið ráðið í starf hans.

Ég er hætt að botna í þessu andskotans fyrirkomulagi sem tröllríður þjóðfélaginu þessa dagana.  Ef eitthvað er ætti að fjölga sálfræðingum við fangelsin, auka þjónustuna við það fólk sem situr á bak við lás og slá.  Gefa fólki möguleika á að koma út sem betri einstaklingar. 

En þarna má eflaust spara.  Það er líka reynt að spara á hjúkrunarfræðingum á Lsp.  Það er farið í geitarhús að leita ullar.

Draumaþjóðfélagið mitt lítur aðeins öðruvísi út.  Það væri líka skemmtileg tilbreyting að sjá og heyra af heilbrigðisráðherra án þess að hann sé að flytja manni einhverja bömmera í tengslum við sparnað í heilbrigðiskerfinu, launadeilum og útboð á deildum.

Svei mér þá ef maðurinn er ekki "bad news". 

Ég er farin að fá fyrir hjartað í hvert skipti sem ég rekst á hann í fjölmiðlum. Alltaf verið að berjast við að draga saman það sem nú þegar stendur höllum fæti.

Það er aumingjalegt að hafa ekki efni á að reka almennilega heilbrigðisþjónustu og það er lágkúrulegt að reyna að hýrudraga það fólk sem heldur í okkur lífinu þegar við veikjumst.

Best í heimi hvað?

Nú eru hjúkrunarfræðingar að mestu leyti konur.

Hvernig yrði afgreiðslan ef læknar ættu í hlut.  Væru þeir á leiðinni út um miðnættið?

ARG


mbl.is Einn sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei!

 nada

Aðalfréttin í Danmörku í dag er um hundinn hennar Möggu drottningar, sem varð fyrir bíl og slasaðist.

Halló, auðvitað hef ég samúð með dýrinu en rosalegt hype er þetta í sveltandi heimi.  Einn hundur á slysó og Danmörk bara í frussandi  hýsteríu.  Það er eitthvað að þessari forgangsröðun.  Svíar eru svona drottninga- og kóngaóðir líka.  Jafnvel þó því væri trúað um árabil að sjálfur kóngurinn væri eitthvað heftur.  Hann reyndist svo ekki vera það, er bara seinn til og fælin, sem mér finnst vel sloppið komandi undan nánustu ættingjum sínum.  Samkvæmt einræktun í kóngafjölskyldum ætti allt þetta lið að vera hálfvitar og rúmlega það.

Annars var Gurrí að skrifa um meðvirkni.  Sumir misskilja það hugtak geypilega og heimfæra samúð og samkennd upp á meðvirkni og sjúkdómsgera eðlilega hjálpsemi við fólk.

Einu sinni var aðalmálið að læra að segja nei og fólk fór á námskeið til að fullnuma sig í þeim hæfileika.  Það átti að slá á meðvirknina.  Ég þekkti nokkra sem rifu sig á viðkomandi fræðslu og urðu gjörsamlega óþolandi á eftir.

Geturðu rétt mér kaffið? Nei! Villtu gefa mér eld?  Nei! Geturðu svarað í símann, ég er í baði?  Nei! Ég er fótbrotin, villtu hringja á sjúkrabíl? Nei!

Ef þetta er ekki sjúkt, þá er ég mamma mín.

Maður má ekki fella tár yfir óförum annarra þá heyrast ramakvein í sérfræðingunum sem helda að þeir séu með fræðin á hreinu: "Ertu að grenja, djöfull ertu meðvirk."

Jájá.  En eitt er á hreinu, ég er ekki meðvirk með hundinum hennar Möggu, það eru aðrir í því.

Skiljið þið mig?

NEI!

Farin að lúlla.  Ójá.

 


mbl.is Ekið á hund Danadrottningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skammast mín..

Ég skil núna letina og kyrrsetuna í sjálfri mér bæði í gær og í dag.  Ég álpaðist nefnilega til að mæla mig.  Er með bullandi hita (Hallgerður, ekki orð).  Þetta er frábært, nú get ég bloggað, lesið og gert það sem mér sýnist án þess að vera með samviskubit.

Vér húsmæður (hélt aldrei að ég ætti eftir að kalla mig þessu starfsheiti)  erum vanmetin stétt.  Það segi ég satt.  Ég er að djóka, ég lulla mér í gegnum það litla sem þarf að gera hér á kæleiksheimilinu.

Ég skammast mín fyrir sumt.  Ég er snobbuð á vissan hátt.  Ji, hvað þetta hljómar agalega.  Ég vil t.d. ekki að fólk viti eftirfarandi..

..að ég borða sviðakjamma af og til (mjög sjaldan), það er eitthvað svo lítið cosmopolitan að borða andlit sem liggur bara í öllu sínu hálfa veldi á disknum manns.  Svo smalalegt og ódannað. 

..að ég þjáist af sjúklegri kurteisi þegar ég hringi í stofnanir og fer í búðir og banka.  Það er algjörlega ógeðslegt hvað ég kann mig vel.  Mig langar að vera töffari.  Kúl og snörp í tali.  Ekki fokka í mér hérna bankakona, þið vitið.

..að mig getur hlakkað til að horfa á American Idol, alveg allan mánudaginn.  Halló, maður er ekki sterkur á hinu andlega svelli með svona glataðan sjónvarpssmekk.  Enda segi ég ykkur það að ég dreg fyrir gluggana og lækka hljóðið, til vonar og vara af því ég er beisíklí á því að fólk haldi að ég horfi bara á Kiljuna og Mannamál, sem ég geri auðvitað.  En plebbagenið er alltaf að hrjá mig með reglulegu millibili.

..að ég er ekkert hipp og kúl þegar ég fer í ferðalög, ekkert vön og "ekkert að kippa mér upp við strætóferðir á milli landa syndrómið", eins og flestir Íslendingar sem eru alltaf á ferð og flugi.  Ferðalög eru ennþá alveg biggtæm gigg hjá mér og ég er uppveðruð í marga daga áður og eftir.  Sama hvað ég ferðast mikið.  Ég er svo leim að mér finnst það ennþá  stórviðburður að koma í fríhöfnina.

Halló, þetta er hitinn sem talar.

Ég er auðvitað ekkert svona mikill plebbi.  Eða hvað.

Yfir og út, ég er farin í rúmið með Guðbergi Bergssyni.  Ekkert svona aularnir ykkar.  Bók eftir manninn.  Róleg með ykkar saurugu hugsanir.

Arg


Klósettpappír í fegurðarskyni

 hippie-girl

Ég hef tekið ákvörðun.  Ég ætla að kaupa mér skanna, til að hlaða inn gömlum myndum og varðveita þær.

Af því ég er að drepast úr leti, eins og venjulega þessa dagana, þá sökkti ég mér ofan í gömul albúm, allt frá 197og eitthvað og fram til 1990.  Jösses, hvað ég er búin að hlægja og nostalgían hefur heltekið mig einn ganginn enn.

198og eitthvað var ég með sítt permanentað hár og svo sólbrennd úr ljósabekkjum að það er tómur viðbjóður.  Ég man að mér fannst ég sæt.  Ég lít út fyrir að vera Pamela í Dallas á sínum yngri árum, mínus brjóst. Soldið sjúskuð auðvitað, stífmáluð og alles.  Svo tilgerðarleg en samt ábúðarfull á leiðinni að bjarga heiminum í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með lakkrísbindi.  Ég er kona með hlutverk.  Hvernig gat maður látið fallerast af þessum hryllilegu hárgreiðslum og axlarpúðum?  Ég skil það ekki.

Og svo var það mynd myndanna.  197tíuogeitthvað, þegar mitt annað heimili var í Klúbbnum og Tjarnarbúð lagði systragerið mikið á sig til að verða súperfínar.  Ég t.d.  vatt klósettpappír í hárið á mér, til að fá krullur.  Það er skemmst frá því að segja að ég lít út um höfuðið eins og risastórt tröllabarn með milljón slaufur í hárinu.  Bjútí is pein, ég sverða.  Og ég fór meira að segja út í sjoppu með heilt rjóður úr Finnlandsskógi í hárinu, og það án þess að skammast mín.  Ég skulda umhverfinu biggtæm.  Á myndinni gefur að líta mig plús slatta af systrum, með eitur í glasi heima í Snælandinu og ég með tröllaslaufurnar, baðandi út höndum með munninn opinn, auðvitað blaðrandi frá mér allt vit.  Ég dey.

En einhvern veginn er það svo þegar maður lítur til baka, þá var alltaf allt svo gaman í minningunni.  Ég man ekki eftir því að hafa verið í hátíðarskapi hvern dag, en mér finnst eins og það hafi alltaf verið stanslaust stuð. 

Ætli það hafi ekki bara verið þannig?

Við segjum það.

Nú er ég farin að gera eitthvað annað en færa mig á milli stóla.  Ég lofa, lofa og lofa.


Komasho

Gaman að þessu.  Bensín og díselolían að hækka.  Hva!  Nú verður væntanlega tuðpartí hjá öllum þeim sem eru búnir að andskotans út í mótmæli vörubílstjóranna.

Við erum merkilegir Íslendingar.  Hef sjálf tekið þátt í tuðinu þangað til ég var orðin blá í framan.

Samt hljóta allir að vita, a.m.k. gruna, að samtakamátturinn flytur fjöll.

Dæmi: Fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga sem áttu að taka gildi 1. maí.  Aðgerðum frestað á elleftu stundu, en frestað samt.

Danir eru duglegir í að taka sig saman, finnist þeim þeir vera órétti beittir.  Frakkar líka og má þá nefna sem dæmi vörubílstjórana sem blokkera heilu þjóðvegina og almenningur fylgir þeim að málum, styður þá, enda grunar hinn almenna borgara kannski, að hagsmunir okkar, venjulegs fólks, hanga saman þegar allt kemur til alls.

Nú þegar bílstjórarnir hafa verið að mótmæla, þá bloggar hver beturvitringurinn á fætur öðrum um hversu helvíti böggandi þessir bílstjórar eru.

Sumir gefa góð ráð, sko þeir eiga að skilgreina sig betur, mótmæla þessu en ekki hinu og áfram og áfram.

Mikið skelfing er ég til í að mynda þrýstihóp til lækkunar matvæla.  Til styttingar biðlista á hinar ýmsu stofnanir og ég gæti endalaust talið upp.

En við byrjum á matarverðinu.

Einhver?


mbl.is Allir hækka bensínið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóttódansinn stiginn - úje

Ég hef enga trú á happadrætti, lottói, lengjunni og hvað þetta heitir allt saman.  Á menningarheimili mínu hér á átakasvæðinu eru aðrir í því.  Þessi aðrirWhistling er reyndar alltaf jafn fullviss um að hann vinni, verður beinlínis hissa í hvert skipti sem hann stendur uppi á vinnings.  Hann er voða oft hissa. 

Stundum tek ég lottódansinn fyrir aðila heimilisins og skrensa á lokatónunum fyrir framan hans hátign og veina; Lottó 5/32.

Hann: Fyrir utan þá staðreynd að þú ert ekki í lagi villingurinn þinn, þá máttu öppdeita þig í lottólaginu, það er 38 ekki 32.

Ég: Skiptir ekki máli, það er listrænt gildi tónlistar og hreyfilistar sem er aðalatriðið hér.

Og ég held áfram að dansa.

Og nú er listrænum sköpunarmætti mínum alvarlega ógnað.  Hvernig í fjáranum á ég að syngja; Lottó 5/40?  Ekki hægt, vantar rythmann algjörlega.

Ef þessir sumir sem lotta eins og mófóar á heimilinu halda því áfram, þá...... já þá fer ég á söngnámskeið og syng hann brjálaðan á nótæm.

Það hlýtur að vera eitthvað annað sem hægt er að brenna upp peningana í.

Eða kveikja í þeim eftir hádegi á laugardögum.

Liff í því.

 


mbl.is Fjölga kúlunum í lottóvélinni úr 38 í 40 í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlrembusvín í fullum blóma

 e50da8c24bd070e81b314d56c86e5450er109

Ég á tvö ilmvötn sem ég nota til skiptis, allt eftir tilefninu.  Stellu og Boss.  Unaður og ég gæti ekki án þeirra verið.

Ég á eitthvað af skartgripum, sem ég kalla einnota, en ég nenni ekki að eiga dýra hluti sem ég þarf að hafa áhyggjur af að týna, enda ég algjör sérfræðingur í að týna töskum, hönskum, treflum og öðru lauslegu.  Þyrfti að hafa tossaband í hönskunum mínum, en það er önnur saga.

Mér þætti gaman að sjá þann karl sem fengi mig til að breyta ilm - og skartvenjum mínum.  Vó hvað hann væri að vinna vonlaust verk.

Drengskrattinn sem Demi Moore er gift vill ekki að hún noti ilmvatn eða skartgripi.  Og hún á ekki að ganga í buxum.  Þarna er hvorki meira né minna, sjálfur Regan forseti eða annar íhaldsdraugur endurfæddur í krakkanum.

Annars skil ég ekki þessa kláru konu hana Demi Moore að finna eitthvað eftirsóknarvert í þessum drengstaula með attitjúdið.  Hún hefði getað sofið hjá honum án þess að kalla yfir sig reglugerðarmeistara aftan úr grárri forneskju.  En skítt með það, ég skil ekki allt.

Þessa dagana sigli ég snilldarlega fram hjá erfiðum málefnum.  Ég get ekki sett mig inn í mál dýrsins frá Austurríki sem hélt dóttur sinni fanginni í kjallaranum og nauðgaði henni og guð má vita hvað fleira þessi manneskjunefna hefur á samviskunni.

Né heldur get ég velt mér upp úr trúarsafnaðar hörmungunum í Texas.  Þar er nefnilega að myndbirtast það sem ég hræðist mest af öllu.  Ofsatrú plús karlmenn plús þjóðfélag sem leyfir slíku að grassera.  Útkoman er auðvitað misnotaðar konur og börn.  En ekki hvað.

Farin að gasa mig með ilmvatni.  Í dag hef ég þörf fyrir kryddaðan ilm.  Ég tek Stellu.  Varið ykkur, gas, gas, gas.

Súmítúðebón.


mbl.is Kutcher er illa við skartgripi og ilmvötn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband