Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

..og ég drakk

Á RÚV segja þeir frá því að óvirkir alkar séu að falla þessa dagana vegna kreppunnar.

Vogur fullur.

Vogur er alltaf fullur - af fólki á ég við svo ég sé ekki alveg hvar þessi breyting á að koma fram.

Reyndar var mér sagt í meðferð oftar en einu sinni að allar sveiflur bæði upp og niður séu okkur ölkum hættulegar.

Ég drakk;

af því það rigndi, af því sólin skein, af því ég var blönk, af því ég átti peninga, af því ég var í fríi, af því ég komst ekki í frí til að drekka til að geta haldið upp á að vera í fríi.

Ég var svöng og ég drakk.

Ég var södd og ég drakk.

Ég gat ekki sofið og ég drakk.

Ég svaf of mikið og ég drakk.

Ég var leið og ég drakk.

Ég var glöð og ég drakk.

Ég drakk þangað til að ég drakk ekki lengur.

Myndi einhver segja að ég hafi verið í þörf fyrir meðferð?

Hm....?

Kreppunni slær auðvitað alls staðar niður.

Sorglegt.

Óvirkir alkar að falla.


Tekin í görn og nananabúbú

 kreisí

Eftir daginn í dag ætti ég að fá húsmóðursverðlaun ársins þ.e. ef þau væru veitt.

Hvernig ætli svoleiðis verðlaunastytta væri í laginu?  Silfursleif - gullpanna - áritaður pottur - eða bara úttekt í Bónus?

Ég gjörsamlega sló sjálfri mér við í dugnaði.

Ég fór í Krónuna, reif þar ofan í körfu eftir miða.  Eyðslusemi minni er við brugðið.

Hillusvipurinn var skilinn eftir heima.

Ég þreif, ég bakaði og ég lýg því ekki ég fór í svuntu á meðan ég bjó til kökuna.

Ég hefði átt að vera minna yfirlýsingaglöð á árum áður þegar ég sór og sárt við lagði að ég myndi ekki baka köku þó líf mitt lægi við.  Ég myndi aldrei fá kikk út úr því að dúlla mér í eldhúsi.  Aldrei!

Þetta var spurning um að vera hipp og kúl í kvennahreyfingunni.

En svona étur maður stöðug ofan í sig.

En..

Rosalega er það í stíl við allt annað hér á þessu landi að maður skuli lesa um hvað stendur til að taka af lánum úr ýmsum áttum til að redda fjárhag landsins sem er í rúst eins og þið vitið eftir að gulldrengir þjóðarinnar tóku okkur í görnina og nananabúbúuðu á okkur jónana og gunnurnar.

Financial Times er að færa okkur fréttir af ástandi mála.

Í framhaldi af því þá langar mig að vita hvort það er ekki kriminellt að hafa komið þjóðinni á kaldan klaka, þ.e. heiti maður feðgar eitthvað og hafi átt banka?

Má bara gera svona og tjilla svo í útlöndum á meðan heimurinn er að garga sig hása yfir því hvað við erum ómerkileg þjóð?

Munið þið eftir manninum sem stal hangikjötslærinu í fyrra og fékk óskilorðsbundið fangelsi?

Ég meina er hægt að brenna upp svo miklum peningum að það séu ekki til refsilög yfir það?

Hvað ætli björtustu vonirnar hafi kostað okkur mörg hangikjötslæri síðan þeir rúlluðu yfir?

Svara plís, ég er eins og ómálga barn, ég veit ekki neitt.

En..

Vikuinnkaupin í Krónunni voru níuþúsundogeitthvað með afslætti.

Ég tók strimilinn Ibba mín.

Ég er neytafrömuður og fyrirmyndarborgari villingarnir ykkar.


mbl.is Óska eftir 6 milljörðum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfallajöfnun

Það er best að skella inn eins og einni fíflafærslu til að áfallajafna.

Ég er nefnilega viss um að það að dagurinn á ekki eftir að verða áfallalaus í pólitískum skilningi og þessi stöðuga óvissa, reiði, og depurð geta drepið heilan hest, hvað þá eymingja eins og moi.

Forstokkað viðhorf mitt í sígarettumálunum er nú orðið mest í nefinu á mér enda ég búin að minnka reykingar niður í nokkrar á dag (misnokkrar múha) og er að verða að löðurmannlegum broddborgara í nikótínhegðunarlegum skilningi.

Hvað um það.

Munið þið eftir myndinni "Leaving Las Vegas"?  Æi þessi um manninn sem ákveður að drekka sig yfir móðuna miklu og tekst það auðvitað?  Nicolas Cage lék aðalhlutverkið.

Sko þessi mynd virkaði á mig þannig að mig langaði ekki til að fá mér í glas lengi á eftir.  Best að taka þó fram að þetta var áður en ég fór að drekka mér til vansa og fjölskyldu minni til ama og sárra leiðinda. 

Ergó: Myndin virkaði vel á mig sem fyrirbyggjandi boðskapur. 

En hún virkaði ekki vel á kæran vin okkar hér á kærleiks sem þá var að reyna að halda sér edrú og gekk verkefnið brösuglega.

Hann sagði mér að þegar hann horfði á myndina hafi gripið hann þessi rosalega brennivínslöngun sem jókst og jókst í takt við dauðadrykkju söguhetjunnar.

Nú hafa Danir gert rannsókn sem sýnir fram á að tóbaksviðvaranir auki reykingar. 

Þetta er nefnilega málið.  Fíkillinn, alkinn eða nikótínistinn lýtur ekki sömu lögmálum og hófsemdarmaðurinn.

Ég hef nefnilega setið og reykt í nikótínfullnægingu á meðan ég les alveg kúl og kæld textana á pökkunum sem eiga að fæla mig frá stöffinu.

"Reykingar drepa". 

Ég alveg: okokok, eitt sinn skal hver deyja.

"Reykingar eru mjög ávanabindandi, byrjaðu ekki að reykja".

Ég alveg stundarhátt við sjálfa mig: Er líklegt að sá sem er ekki byrjaður að reykja liggi og lesi utan á sígarettupakka?  Fífl. 

"Þeir sem reykja deyja fyrir aldur fram"

Ég alveg: Só, ég er fimmtíuogsex ekkert unglamb og kem sterkari inn með hverjum deginum sem líður.  Hvað segirðu um það addna Þorgrímur Þráinsson reykingarstalker og leiðindapúki?

Fíklar finna alltaf réttlætingar.  Hroki og forstokkun er helsta vopnið.

Nú má ég ekki vera að þessu.

Farin út að reykja og á meðan ætla ég að lesa vandlega utan á sígópakkann mér til skemmtunar.

DJÓK


mbl.is Ýtir andróðurinn undir tóbaksfíkn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju á að trúa?

Við Hljómsveitin vorum að tala um það áðan að okkur liði eins og við værum í lofttæmdum umbúðum eða ástandi.

Eins og við hefðum lent í náttúruhamförum sem ætlaði aldrei að linna.

Ég held að þessi óvissa, þessi endalausa bið sé að fara illa með alla. 

Við finnum ekki fyrir því hverja stund kannski en biðin, það sem er mögulega yfirvofandi heldur manni í heljargreipum.

Svo heyrum við svo margt.  Hverju á að trúa?

Það líður ekki sá klukkutími liggur við að hvíslað sé að manni nýjum "fréttum" um hvað sé í deiglunni, mis satt og rétt.  Þetta er prime-time samsæriskenningana.

NÚ LAS ÉG ÞETTA.

Mig svimaði, svei mér þá.

Ætlar þetta rugl engan enda að taka?


mbl.is Ráðherrar funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása

Sami grautur í sömu skál hjá Geir enn og aftur.

Engin niðurstaða varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Ég sem hélt að eitthvað væri að fæðast.

Geir ber ennþá fullt traust til Seðlabankastjóra.

Eruð þið að fokking grínast í mér?

Nú verður Samfó að fara að slíta þessu ef þeir ætla ekki að hverfa af yfirborði jarðar.

Þetta er orðinn ljótur leikur með þessa þjóð.

Hvað eigum við að gera almenningur?  Halda áfram að senda faðmlög þvers og kruss.

Stór hluti ykkar sá sér ekki einu sinni fært að standa með sjálfum ykkur í gær og þið fylltuð Laugaveg, Smáralind og Kringlu sem aldrei fyrr.

Busy, busy, busy!

Svei mér þá er þetta ekki mátulegt á okkur bara?

Þið fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.


mbl.is Engin niðurstaða enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að halda kúlinu

Undur og stórmerki eru að gerast á hverjum degi núna.

Ég er kolfallin fyrir mínum gamla kennara sem ég var löngu búin að senda út í ystu myrkur í pólitískum skilningi.  Jón Baldvin hefur auðvitað alltaf verið krútt, mismikið og frekt krútt, en nú er ég tilbúin að biðja hann um átógraf svei mér þá.

Karlinn meikaði svo mikinn sens hjá Agli í Silfrinu áðan að ég gat tekið undir hvert einasta orð og fáir koma skoðunum sínum til skila betur en sá gamli refur Jón Baldvin Hannibalsson.

Svo er hann auðvitað kennari af guðs náð og kann betur en flestir að setja upp hluti þannig að maður skilji þá.

Davíð mun vera á móti því að sækja um lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og því gengur ekkert né rekur í þeim málum.

En að Evrópusambandinu, ég er alltaf að verða meira á því að við eigum að reyna að komast þar inn um leið og við erum búin að þvo af okkur mesta skítinn og skömmina sem jakkafatamafían, bæði sú pólitíska og í fjármálageiranum er búin að ata yfir okkur.

Einar Már var líka beittur og skýr eins og hann er vanur.

En mikið rosalega erum við í djúpum skít við Íslendingar.

Það játast hér með að ég er með í maganum af angist, sko þegar ég hugsa til framtíðar.

Það er erfitt að halda kúlinu.

SILFRIÐ


mbl.is Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvað eineltiskjaftæðið

 mynd_2008-10-18_15-25-28bmynd_2008-10-18_16-00-10b

Einelti var ekki til sem orð þegar ég var í barnaskóla.  Melaskóla nánar tiltekið.

Þetta orð er að verða eitt af þeim mest misnotuðu í íslenskri tungu og það versnar dag frá degi.

Hver spekingurinn af fætur öðrum bloggar nú eða skilur eftir komment við annarra manna blogg og ásakar þá sem komu saman á Austurvelli í gær um einelti gegn Davíð Oddssyni.

Ég hefði reyndar kosið að mótmælin hefðu beinst að jakkafatamafíunni allri enda lítill munur á kúk eða skít að mínu mati.

En ég neita því alfarið að kennitalan, eiginmaðurinn, faðirinn og Reykvíkingurinn Davíð Oddsson hafi verið lagður í einelti af okkur 28Police sem þarna stóðum.

Seðlabankastjórinn og embættismaðurinn Davíð Oddsson má hins vegar taka pokann sinn vegna þess að hann er einn valdamesti maðurinn í havaríinu sem riðið hefur yfir okkur og ábyrgur eftir því  og ágætt að byrja á honum, af skiljanlegum ástæðum. 

Hér má sjá myndir af útifundinum "mannfáa" og smekklausu kommentin sem höfundur þeirrar bloggsíðu fær frá sumum lesendum sínum. Klikkið hér.

Og að eineltinu.  Minn skilningur á orðinu er að það lýsi ofsóknum á hendur börnum og ungmennum.  Punktur, búið, basta.

Eins og ég sagði þá var þetta orð ekki til þegar ég var barn þó einelti hafi svo sannarlega verið það.

Mér þætti vænt um að í hvert skipti sem fólk segir skoðun sína t.d. hér í bloggheimum, sem á ekki upp á pallborðið að spekingarnir (lesist fíflin) komi ekki og gargi einelti, einelti.

Ofsótt börn eiga skelfilega erfitt, ekki gengisfella alvarleika þess í upphrópunum um ofsóknir þar sem engar eru.

Þeir mega taka það til sín sem eiga það.

Bölvaðir asnarnir.

ARG


Fórum, vorum, sögðum og gerðum

Þá er það komið á hreint.  Það voru hatursfullir erlendir seðlabankar sem urðu íslensku bönkunum að falli.  Sjúkkitt, ég vissi að þetta var ekki okkur að kenna.  Jeræt.

Margir hafa verið að setja spurningamerki við hausatalningu löggunnar á mótmælafundinum á Austurvelli í gær, ég þar á meðal.

Róleg, það skiptir í sjálfu sér engu höfuðmáli hvort við vorum fleiri eða færri, málið var að við fórum, vorum, sögðum og gerðum og það verður endurtekið um næstu helgi.

Sófadýr og aðrar rolur; haskið ykkur upp á afturendanum og takið þátt.

En.. eftir situr spurningin um fjölmiðlana.  Taka þeir svona upplýsingum frá löggu og gleypa hráar?

En í  nýja Sunnudagsmogganum er heilsíðuauglýsing um jólahlaðborð.

Ég alveg við sjálfa mig sitjandi ein í eldhúsinu alltof snemma að morgni dags: Jólahlaðborð???? Fer einhver á svoleiðis í ár? 

Kannski hefur ástandið gengið gjörsamlega frá þessari litlu neysluhyggju sem ég þó hafði, steindrepið hana alveg, en mér fannst algjört antiklæmax að hugsa til þess að fara í svona fyrirkomulög við ríkjandi aðstæður.

En svo má halda því fram líka að það er jafnvel meiri þörf á svona jippói núna þegar fólk þarf að hressa sig við.

Ég hef mínar leiðir til að gleðja sjálfa mig sumir hafa aðrar.  Gott mál.

Varðandi jólahlaðborð þá eru liðin ansi mörg ár síðan ég fór á slíkt.

Það síðasta sem ég heiðraði með nærveru minni var fyrir ríflega áratug og þá gubbaði maður sem sat á næsta borði við mig yfir samkomuna, þar á meðal mig, enda borðaði hann ekkert en drakk þeim mun meira.  Það voru ekki margir á þeim tíma sem voru spenntir í matnum.

Svo sá ég að Dorrit dúllurófa á hóp af lopapeysum.  Flottar sumar.  Ég hins vegar klæði mig ekki í fakírbretti og ligg ekki á þeim heldur.

Mikið djöfulli sem íslenska ullin stingur.

Dorrit fær því rós í hnappagatið fyrir hugrekki og úthald.  Hún segist reyndar klæðast einhverju innan undir ullinni en kommon - hvenær hefur það verið nóg?

Ullin stingur í fleiri lög en ég hef tölu á.  Meira að segja þeir sem reka sig í mann eiga það til að veina upp.

Ókei, já ég er að ýkja.  Heimurinn væri hundleiðinlegur ef maður fengi ekki að smyrja smá.

Ég er farin að borða morgunmat og kem að vörmu.

Já - þetta er hótun aularnir ykkar.InLove


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farin áður en ég kom

Gaman að sjá hversu talnaglögg löggan er.  Ef við vorum á fimmtahundrað þá er ég farin að sjá fimmfalt.  Það er ekki öðruvísi.

En kannski er það svo, að ég hafi séð fleira fólk en í raun og sann stóð á Austurvelli.

Það má nefnilega segja að ég hafi mótmælt með glans, eins og mín er von og vísa.  Ég var eiginlega við dauðans dyr þarna á Austurvelli give or take smá ýkjur.

En það má að minnsta kosti segja að ég hafi mætt á mótmælin en hafi í raun verið farin áður en ég kom.

Þetta, villingarnir ykkar á sér aðdraganda og það er best að ég deili skemmtilegri innkomu minni að þessum fjöldafundi með ykkur.

Ég er sykursjúk.  Ég þarf að sprauta mig á morgnanna hvað ég gerði samviskusamlega í morgun.

Svo gerðist dálítið sem kom mér í vont skap, ég reif kjaft við nokkrar manneskjur, gerði líf nokkurra að heitasta helvíti og eitt leiddi af öðru, ég gleymdi að borða.  Var svo bissí í minni frábæru geðshræringu.

Svo tók ég mig til, málaði mig og snurfusaði og hentist af stað í mótmæli.

Never a dull moment.

Við krúsuðum endalaust til að finna stæði ég og Hljómsveitin, vorum auðvitað ekki nógu náttúruvæn til að taka strætó, helvítis svínabest við erum bæði tvö.

Á endanum fundum við stæðið og ég fór að leita að Sörunni og Jennýju sem voru mættar til að hitta okkur.

Og það var þá sem grasið kom eiginlega á móti mér þarna á Austurvellinum.  Ég vissi ekkert í hvaða átt ég ætlaði, ég sá nánast ekki neitt og vafraði um eins og drukkin kona sem ég var ekki - ég sverða. 

Var auðvitað búin að týna Hljómsveitinni sem ég er gift og elska út af lífinu, en ég ráfaði sem sagt þarna um svæðið alein.  Það að við höfum týnt hvort öðru er út af fyrir sig merkilegt miðað við fámennið sem löggan heldur fram að hafi verið á Austurvelli.

Þá hnippti í mig kona sem ég hef ekki séð lengi og var svona líka glöð að sjá mig.

Ég hálf rænulaus í sykurfalli; hæ, geturðu lánað mér símann þinn?

Hún: Ha jájá, hvað segirðu gott annars?

Ég: Símann (milli samanbitinna vara).

Hún rétti mér símann og ég gat loksins hringt í dóttur mína og ég sagði henni að ég væri rokin.  Svo rúllaði ég af stað eins og biluð garðsláttuvél.

 Helga mín takk fyrir lánið á símanum, ég knúsa þig næst.

Þar með lauk þátttöku minni í þessum fámennu mótmælum upp á nokkuð hundruð sálir.

Mér sem sýndist við vera að minnsta kosti tvöþúsund.

But what do I know?

En við mætum aftur eftir viku og ég ætla að hafa með mér nesti.

Úje.


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar

Mér líður ekki eins og ég hafi verið auðmýkt af því Ísland komst ekki í öryggisráð SÞ.

Mér líður eins og mér sé jafn slétt sama um öryggisráðið eins og mér hefur verið frá byrjun.

Það tekur ekkert frá mér - gefur mér ekki neitt.

Reyndar hefur mér fundist þetta framboð bölvaður hégómi en ég er auðvitað ekki með innmúraðar upplýsingar um hvað skiptir máli í heimi hér.

Í dag hef ég tapað húmornum.  Ég sé ekkert broslegt við nokkurn skapaðan hlut í augnablikinu en ég set allt mitt traust á að þetta rjátlist af mér þegar líða tekur á daginn.

Í dag er ég bálill. 

Ég ætla ekki út í það nánar, ég ætla að fara að taka til.  Skúra, skrúbba og þurrka af.

Það er ágætis meðal við reiði, depurð, hryggð og öllum fjandans neikvæðnipakkanum.

Fyrir sjálfa mig og alla hina sem ætla að mæta í dag og praktisera lýðræðið set ég meistara Bob Dylan hér fyrir neðan.

The times they are a-changin´.

Gæti ekki átt betur við en einmitt í dag.

 


mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 2987151

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.