Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

SÆNSKAR LEIÐIR TIL EFTIRBREYTNI

Ég er hrifin af hinum sænsku leiðum.  Sænska leiðin í vændismálum er flott þar sem kaup á vændi er refsivert.  Nú vill sænska ríkisstjórnin auka eftirlit með þeim sem sækjast eftir að starfa á dag- og frístundaheimilum eða í skólunum.  Þetta er svo sjálfsagt í rauninni að það er beinlínis fáránlegt að þetta skuli ekki fyrir löngu komið til framkvæmda.  Fólk sem vill ráða sig til starfa við öryggisgæslu í fyrirtækjum þarf að framvísa sakavottorði og í bönkum t.d. þarf fólk að vera með hreinan fjármálaferil.  Börnin sem eru það dýrmætasta sem við eigum eiga rétt á því að allra varúðarráðstafana sé gætt þegar umönnun þeirra er annars vegar.  Nú vil ég að við gerum það sama og Svíarnir.  Ekki seinna en í haust þegar Alþingi kemur saman. 

Að byrgja brunnin áður en barnið dettur ofan í hann er að mínu mati ósmekklegur málsháttur en hér smellpassar hann.


mbl.is Aukið eftirlit í Svíþjóð með fólki sem starfar með börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í NAFNI VINÁTTUNNAR

1

Ég er á leiðinni í Bláa Lónið.  OMG hvað gerir maður ekki fyrir vinkonur sínar.  Inga-Lill fer á laugardaginn og "skall" fara í hið bláa bað.  Konan hefur reyndar verið hér áður og hefur tam farið hringinn.  Það má segja að hún hafi ferðast eins og meðal Íslendingur um landið.  En hún elskar Bláa Lónið.  Þangað er ferðinni heitið á eftir.  Ég ætla að láta mig hafa það að fara ofan í vatnið ógurlega þrátt fyrir ættgenga klígjugirni.  Þannig er mál með vexti að ég hef fengið kísilinn á heilann.  Endurnýjast hann nokkuð?  Getur verið að hann sé allur morandi í húðhreistri frá baðgestum?  Hm..mig langar voða lítið til að bæta í safnið eða kanna það nánar.   Annars er þetta ekki að standa mér neitt sérstaklega fyrir þrifum.  Vinkonan vill í lónið og við förum að sjálfsögðu þangað.

Annars líður tíminn skammarlega fljótt.  Nú fer Inga-Lill sum sé á laugardagskvöldið og tíminn hefur  engan veginn staðið kyrr.  Hann hefur fj... hafi það flogið.

Síjúgæs með kísil í hári seinni partinn í dag. 


TIL ÍSLANDS ÁÐUR EN ÉG DEY???

1

Ég er smá hrifin af Stóns, svona eins og þeir voru.  Áður en að þeir urðu háaldraðir menn.  Núna finnst mér þeir skrautlegir eldri borgarar með flotta fortíð.  Músíkin er æði og karlarnir flottir.  Richard er einn sá skemmtilegasti að fylgjast með.  Maðurinn er bilað krútt.

Nú rokkhundarnir eru að túra um Evrópu og hófu ferðalagið í Belgíu þar sem þeir léku fyrir 33.000 aðdáendur.  Svo mikill áhugi var fyrir tónleikunum að gríðarlegt umferðaröngþveiti myndaðist, en bílaröðin var 50 km. löng sem er ca. leiðin frá Reykjavík til Selfoss.

Karlangarnir hafa greinilega enn eitthvað fram að færa.  Hvenær ætla mennirnir að spila á Íslandi?


mbl.is Rolling Stones ollu gríðarlegu umferðaröngþveiti í Belgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HJALLASTEFNAN Í HÖFUÐBORGINA

Það er bara jákvætt og skemmtilegt að Magga Pála með Hjallastefnuna ætli að taka við rekstri leikskólans Laufásborgar.  Samningur þar að lútandi var samþykktur af Leikskólaráði þ. 6. júní.  Hjallaskóli hefur ekki áður verið í Reykjavík.  Ég held að Hjallastefnan sé flottur kostur í leikskólaflórunni.  Skólarnir hennar Möggu Pálu hafa notið trausts og almennrar ánægju þeirra foreldra sem haft hafa krakkana sína hjá henni. 

Til hamó Magga mín, smjúts!


mbl.is Hjallastefnan tekur við rekstri leikskólans Laufásborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÆKNISHEIMSÓKN

1

Ég fór til læknisins míns áðan í venjulegt tékk á sykursýki og svoleiðis.  Það er svo sem ekki í frásögur færandi en læknirinn minn er "góðkunningi" okkar hjóna og við spjöllum um daginn og veginn á meðan hann sinnir sínu djobbi.  Ég hef ekki rýrnað á lengdina.  Nananabúbú þeir sem halda því fram að eftir fimmtugt fari maður að styttast í annan endann.  Ég er enn 162,5 cm á lengd.  Hávaxin og spengileg það er ég.  Ok,ok,ok, ég er allavega spengileg.  Mér var skutlað á vigtina líka (til að fá eitthvað index vegna sykursýkinnar) og ég er í grennra lagi en mun samkvæmt "indexinu" lifa allra kerlinga lengst (sorry börnin góð), þe ef ég hætti að reykja, hleyp maraþonið, sippa 500 sinnum á dag og tek lýsi. 

Ég var læknaritari til margra ára og það í sjálfu sér er heldur ekki í frásögur færandi.  Mér varð hins vegar hugsað til allra "eldri" kvennanna sem unnu í sjúkrahúsbatteríinu og höfðu tekið að sér lífvörslu alla lækna sem á deildunum störfuðu.  Ég var minnt óþægilega á þetta þegar ég kom að hitta lækninn minn áðan.  Í stóru ógnvekjandi glerbúri sátu nokkrar konur og afgreiddu sjúklinga, bæði í eigin persónu og gegnum símann.  Meðan ég beið hlustaði ég grannt eftir þegar ein af "lífvörðunum" varða sína lækna með kjafti og klóm.  Dæmi:

1. Nei, nei Magnús minn, læknirinn hefur engan tíma í þetta núna.  Hringdu í júlí. Símatíminn er í sumarfríi.

2. Læknirinn sagði að þú gætir komið í ágúst Magnúsína ef þú pantaðir þér tíma núna.  Nú ertu komin frá Akureyri gagngert?  Bíddu augnablik.... Magnúsína..Magnúsína ertu þarna? Læknirinn segir að þú getir fengið að koma á mánudaginn.  Þá þarftu bara að vera á hótelinu í tæpa viku og bíða.  Heppin þarna Magnúsína mín.

Ég er orðin það sem kallast "miðaldra" en finn ennþá ekki til tilbeiðslukenndar lotningar í návist lækna og hef enga löngun til að vernda þá fyrir öllum vondu/uppáþrengjandi/biluðu/taugaveikluðu/móðursjúku- sjúklingunum.

Góhóðar stundir!


AÐ SKILJA SKILNAÐI - EINHVER??

1

Ég er alveg hætt að botna í þessum rosalega skilnaðarfjölda á Íslandi.  Nú er í tísku að halda "konungleg" brúðkaup sem kosta hvítuna úr augunum á fólki og skilnaðum fjölgar að sama skapi og sambúðarslitum reyndar líka.  Árið 2006 skildu 498 hjón að lögum og 577 pör slitu sambúð.  Alls voru börn úr sambúðarslitum 1162 talsins. 

Að baki hverjum skilnaði liggur mis mikil hörmung og börnin eru oft mestu þolendur sambúðaslita.  Þarf fólk ekki að vanda sig ögn betur?

Auðvitað er það gott mál að fólk hangir ekki lengur saman vegna barna, fjármála og annara veraldlegra ástæðna.  Það viðgekkst allt of lengi.  En ansi þykir mér þetta há tala.  Væri ekki ráð að bíða öll lengur, a.m.k. með að gifta sig? 

Nú flæða sem sagt út á "markaðinn" yfir þúsund manneskjur (OMG) og hringdansinn hefst að nýju.


mbl.is 498 hjón skildu og 577 pör slitu sambúð á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BÚÐ HÉR, BÚÐ ÞAR!

 

Sumarstarfmaður ég elska þig!!! Rakasta Stinua!! Jag älskar dig!! I love you!!

Steingeit: Farðu í göngutúr og taktu eftir hversu mikið hefur breyst síðan í gær - ný búð hér og blóm að blómstra þar. Ákveddu svo hvað þér finnst skipta máli.

Ég hef ekki um þetta fleiri orð!


Á LEIFSGÖTUNNI?? OMG

Lögreglan lýsir eftir manni sem sakaður er um þjófnað.  Hann hrifsaði handtösku af konu á Leifsgötunni í dag.  Dóttir mín ásamt eiginmanni og barnabarni eiga heima á Leifsgötu.  Halló.. hvað er í gangi?

Það er ekki langt síðan að hin sama dóttir var að koma úr Sundhöllinni með Jennslubarnið, um hábjartan sunnudag, að það réðst að henni maður og reyndi að ná af henni veskinu.  Við förum að standa jafnfætis stórborgum heimsins í gripdeildum og árásum á fólk og það um hábjartan dag!  Ekki að það sé eitthvað öðruvísi að vera rændur á daginn en hingað til hafa þjófar og annað pakk látið fara lítið fyrir sér þar til sólin er sest.

Arg... 


mbl.is Lögreglan lýsir eftir manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MIKIÐ AÐ GERA

58

Jenny Una Erriksdóttirrr er hjá okkur til næturgistingar en í dag er ár síðan að foreldrar hennar, ásamt Jenny sjálfri, giftu sig.  Þau fóru því út að borða hjónin í tilefni dagsins.

  Hér gengur mikið á og miklar samningaumleitanir eru um hvenær skuli farið að lúlla.  Núna er húsbandið að lesa Einar Áskel en önnur tilraun til svæfingar er í gangi.  Jennslubarnið er búin að átta sig á muninum á nútíð, þátíð og fortíð og það sem gerðist fyrir fimm mínútum gerðist í gær en það sem liggur í framtíðinni er á eftir.  Svefninn er alveg örugglega ekki fyrr en einhvern tímann á eftir. 

Ég blogga á eftir kæru vinir og fer minn hefðbundna blogghring.

Síjúgæs!


SNÚRUBLOGG

1

Þegar ég byrjaði að blogga í marsbyrjun ákvað ég að blogga bara eins og andinn blæsi mér í brjóst hverju sinni.  Stundum um pólitík og femínisma, stundum í fíflagangi og stundum um alvarlega hluti eins og alkahólisma, sjálfri mér til áframhaldandi edrúmennsku og öðrum til fróðleiks.  Ég kíkti lauslega yfir færslurnar mínar í morgun og vó ég er bilaður persónuleiki.  Ég spila allan tilfinningaskalann eins og hann leggur sig.  En þannig er ég bara.

Ég hef frétt utan af mér að sumir sem þekkja mig ( ekki mínir nánustu ættingjar og vinir)  hafi látið  eftir sér áhyggjur og stundum hálfgerða hneykslun á að ég snúrubloggi.  Mín edrúmennska heitir snúra og reglulega blogga ég um minn alkóhólisma og ætla að halda því áfram.  Það sem virðist fara fyrir brjóstið á örfáum sálum (sem ég veit um amk) er að ég skuli ekki halda þessu fyrir mig. Að það muni vænlegra til árangurs.  Úff, þeir hinir sömu ættu að vita hvað leyndarmál og lygar geta af sér leitt og hafa gert fyrir konu eins og mig.  Atvinna mín til töluvert margra ára var líka að fást við afleiðingar hræðilegra leyndarmála.  Ég veit að þau bjarga engu.  Fyrir mig er það sáluhjálparatriði að skrifa eins og mig langar til hverju sinni.  Ef það er um að ég sé "fyrrverandi" fyllibytta í daglegri vinnu við minn alkóhólisma og lífstíl þá hef ég ekkert að fela.  Það gerir mér gott og er ákveðin trygging fyrir mig að læðupokast ekki svona "just in case" að mig langaði aftur í fyllerí í þeirri merkingu sem ég legg í það orð.  Mér finnst heldur ekki verra ef einhver, jafnvel bara einn væri nóg, gæti fundið stuðning í því sem ég skrifa og jafnvel nýtt sér það.  Þannig gerast nú kaupin á Eyrinni.  Við getum alltaf nýtt okkur reynslu annarra.  Ég er allavega alsgáð upp í topp og hef ekkert annað í hyggju, einn dag í einu ævina út. Mér gæti ekki staðið meira á sama nú orðið hvað fólki finnst um það sem ég er að gera ef ég er sjálf viss um að það sé rétt fyrir mig.  Og hananú.

Síjúgæs!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 144
  • Frá upphafi: 2988329

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 142
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.