Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

Nokkurs konar ljóska

 d

Í mér blundar kona með viðkvæmt tilfinningalíf.

Nokkurs konar ljóska sem þolir ekki pólitík, vill kaupa sér föt, dingla augnhárunum og lesa glanstímarit.

Eftir að hafa verið lokuð inni síðan í hruni braust hún fram í morgun og gargaði blíðlega á mig þar sem ég sat og horfði framan í daginn.

Ég vil borða gæsalifur og mótsartkúlur í öll mál!

Ég vil ganga um á háum hælum með bera leggi og Gucci tösku á búlevard í útlöndum.

Ég vil fara á frumsýningar á leiðinlegum söngleikjum þar sem ilvatnsblandan frá hinum innantómu gestunum blandast þannig að lyktin verður peningar og eilíf veisluhöld.

Ég vil lifa lífi mínu í einni andskotans óslitinni dömubindaauglýsingu.

Þegar hér var komið sögu, múlbatt ég konuna og læsti hana inn í skáp.

Skilur hún ekki að við lifum á erfiðum tímum?

Er hún ekki meðvituð um ástandið í þjóðfélaginu?

Fífl og lofthöfuð.


Þegar lömbin þagna

 salat

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir að kreppan geti haft alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks.

"You can say that again".

Eins og vér Íslendingar höfum farið varhluta af þeirri vitneskju eða þannig.

Og ég hef verið að hugsa um þetta með heilsuna undanfarið.  Hvað ég gæti gert til að bæta hana.

Fyrsti kostur hefði verið að hætta að drekka en það er ekki hægt?  Af hverju spyrðu - jú ef þú hefði lesið bloggið mitt þá vissir þú að ég er óvirkur alki.  Tékk, tékk.

Þar sem ég vill helst ekki hætta að reykja ef ég mögulega kemst hjá því þá varð ég að líta á mataræðið til bættrar heilsu.

Ég fór að hugsa um að gerast grænmetisæta.

Þrátt fyrir að ég elski kjöt.  Fólk segir mér að kjöt sé óhollt.

Svo er ég líka dálítið upptekin af karmalögmálinu.

Ég sá alveg fyrir mér þar sem ég kæmi til himnaríkis eða á einhvern stað bara, hjá guði auðvitað og á móti mér kæmu öll litlu lömbin sem ég hef rifið í mig af græðgi og miskunnarleysi í gegnum tíðina.

Ásamt öllum köngulónum sem ég hef drepið.

Ásamt rjúpunum mínum sem ég elska svo mikið.

Ekki skemmtileg framtíðarsýn um dauðan viðurkenni ég og þessi framtíðarsýn lagði þungt lóð á grænmetisætuvogarskálina.

Enda þykir mér vænt um flest (takið eftir ekki allt) sem lifir.

Ég vill verða betri manneskja og skafa af mér gallana.  Stórt verkefni ég veit það en ég verð að minnsta kosti að reyna.

Ég sem sagt hugsaði mikið um grænmetisætufyrirkomulagið þar sem toppurinn á tilverunni væri hnetusteik á jólunum.

Ég get ekki sagt að ég hafi fyllst þrótti við hugsunina, heilsunni hrakaði eiginlega eftir því sem hugmyndin tók á sig fastara form.

Ég ákvað að rúlla hittingnum við lömbin sem ég hef nærst á, á undan mér bara.

Den tid den sorg.

Ég komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að þótt lömbin séu falleg á fæti,

þá eru þau enn fegurri þegar þau hafa þagnað og eru komin í snyrtilegar neytendapakkningar.

Farin út að reykja og rífa í mig ldýr.


mbl.is Kreppan gæti haft slæm áhrif á heilsuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frasamaskínur og djúpar pælingar - nú eða hitt þó heldur

 woman_laughing

Ég vil koma því á framfæri að það var ekki ég sem var að stela kjöti á Hellu um helgina.

Ég er nefnilega ekki með bílpróf OG hætt í víninu.  Annars...

En..

Ég var að rökræða við konu áðan um kreppuna og fleira.

Hún svaraði mér á þá leið í miðri samræðu að sú staðreynd að undantekningin sannaði regluna gerði það að verkum að hún hefði rétt fyrir sér.  Einhvern veginn þannig.

En þegar einhver leggur á borð fyrir mig rökleysuna "undantekningin sannar regluna" þá hætti ég að hlusta.

Hvaða fyllibytta kom með þessa röksemd undir morgun þegar heilinn á honum var kominn í áfengisóþol og hættur að virka?

Er ekki staðreyndin frekar hið gangstæða?  Ég hebbði haldið það.

Arg.

Og þessi hérna: "Þeir sem guðirnir elska deyja ungir".

Þetta var stundum sagt við okkur í fjölskyldunni þegar við misstum barn.  Vel meint og allt það en fór algjörlega öfugt ofaní mig.

Er þá guð (ef hann er til) beinlínis eigingjarn?

Finnst honum hundleiðinlegt að fá bara gamalmenni í himnaríki?

Vill hann yngja upp á heilögum lendum sínum?

Eða er þetta tómt kjaftæði og innantóm skyndibitaspeki?

Ædóntnó en ég vildi að fólk talaði meira frá hjartanu og minna eins og sjálfshjálparbók eða frasamaskínur.

En...

Ég hugsa of mikið.  Ég er að reyna að koma mér í gang.  Horfast í augu við lífið á þessum mánudegi eftir jól.

Þarf að gera margt og dagurinn flýgur áfram.

Ég ætla að leggja heilanum á meðan ég geri eitthvað að viti.

Ég geri ekkert hugsandi eins og fífl.

Það er bara svoleiðis.


mbl.is Með fulla bíla af kjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af flugfreyju, trylltum barnahóp og samtölum án krepputals

Ég fór í barnaafmæli þar sem ég hitti fullt af skemmtilegu fólki á öllum aldri.

Við töluðum ekki um kreppuna aldrei þessu vant enda allt fullt af börnum sem stukku um stofur í mögnuðum leikjum og það heyrðist í þeim.

Þess vegna brostum við eiginlega bara til hvors annars enda ekki hægt að heyra mannsins mál fyrir alls kyns spennandi leikhljóðum.

Á leið heim frá Stokkhólmi í gær horfði Jenný Una lengi á flugfreyjuna, alvarleg og hugsandi á svip.

Svo sagði hún:

Flugfreyja, þú ert mjög falleg kona.

Takk, sagði flugfreyjan og brosti fallega.

Jenný Una: Og svo ertu líka svo mjög fín.

Flugfreyjan: Takk elskan, þú ert líka fín.

Jenný Una (alveg; hvað er að konunni er hún blind?): Nei, érekki fín ér í gallabuxum.

En á morgun verð ég fín heima há mér.

Og það gekk eftir.  Afmælisbarnið sem hélt sína síðbúnu afmælisveislu með litlabróður (23. des. og 30. des), var í prinsessukjól og prinsessuskóm og á bakinu skartaði hún álfavængjum.

Amman bakaði hvíta prinsessuköku með silfurkúlum og kerti.

Hamingja barnsins var fullkomin.

Og þar með ömmunar líka.

Litli bróðir sem er alltaf glaður og ánægður breytti ekki út af vananum og skemmti sér konunglega enda orðinn eins árs.

Honum fannst skemmtilegast að leika sér með pappírinn utan af gjöfunum sem þau systkini fengu, innihaldið fékk að bíða betri tíma.


Róni eða vínmennungur

 

Ég var að lesa að það minnkar líkurnar á krabbameini að láta steikina liggja nokkra tíma í brennivíni fyrir steikingu.

Það á líka að vera allra meina bót að drekka eins og eitt til tvö rauðvínsglös á dag, það mun meira að segja vera ávísun á langlífi.

Áfengi ku vera gott fyrir blóðrásina, meltinguna magann og fleiri innanbúðarfyrirkomulög líkamans.

Svo mun áfengi einnig vera helvíti óholt fyrir sömu líffæri sé þess neytt í óhóflegu magni.

Þetta var ég að hugsa þegar ég sat í bíl fyrir utan ríkið í dag.  Nei, var ekki að versla, það lá annað fyrirtæki að áfengisversluninni.

Ég þurfti að bíða dágóða stund og ég virti fyrir mér fólkið inni í búðinni í gegnum glervegginn.

Fólk var mis kúl að sjá, sumir hlupu  flóttalega um með innkaupavagninn og ryksuguðu heilu víntegundirnar úr hillunum, aðrir gengu um með attitjúd og skoðuðu allskyns kryddvín og líkjöra.  Þeir voru meira að segja með saklausa bakhlið svei mér þá.

Mér kom í hug að það er alveg rosalegur tvískinungur í gangi gagnvart fíkniefninu áfengi á landinu.

Þú mátt en þú mátt samt ekki.

Þú skalt hafa gaman en þú skalt ekki hafa of gaman.

Þú skalt ekki vera frá vinnu vegna timburmanna og þú mátt ekki koma bakfullur heldur en þú mátt samt detta í það á vinnustaðarfylleríum.  Þú mátt æla ofan í tætara fyrirtækisins ef þú gerir það með félögunum á þeirra lögbundna vinnudjammi.

Af hverju má ekki koma með afleiðingarnar í vinnuna, bara nauðga orsökinni við skrifborðið eftir útstimplun.  Fara svo í sleik við deildarstjórann, segja nýja sölumanninum að grjóthalda kjafti, káfa á framkvæmdastjóranum og gráta utan í ritaranum?

Af hverju er það alkahólismi að drekka um hábjartan dag niðri á torgi en ekki að sitja og sötra hvítvín við sama torg á sama tíma en bak við vegg með matseðil fyrir framan þig?

Er það proppsið sem stjórnar sjúkdómsgreiningunni?

Þú ert alki ef þú ferð með strætó í ríkið, kaupir þinn bjór og lætur opn´ann á staðnum.

Þú ert vínmennungur ef þú ferð á Lexus í ríkið í Armanijakkafötunum, kaupir árgerð og tekur nótu.

Auðvitað þekki ég muninn á alka og róna - en gerir þú það?

Mér er alveg sama hvort fólk drekkur eða ekki - í alvörunni - mér hugnast þó frekar allsgáð fólk eftir að mér rann, sennilega af því að drukkið fólk er sífellt endurtakandi sig og talar barnalega.

En á áramótum fer í gang fylleríisorgía.  Ég hef alltaf áhyggjur af öllum börnunum í myndinni.

Gæti fólk ekki tekið því rólega að þessu sinni og gengið hægt um gleðinnar dyr.

Væri ekki lag að vera edrú þegar nýja árið er hringt inn?

Halló, ég er ekkert að beina orðum mínum til hófdrykkjumanna, þeir geta séð um þetta án þess að himnarnir opnist og fjöllin springi.

Ég er að tala um Happynewyeartýpurnar með brennivínsnefin sem þurfa að byrja árið á að vera með móral.

Og eru að afsaka sig alveg fram að næsta fylleríi.

Jájá.

Skál í kókinu.

 

 


mbl.is Lyf til að lengja augnhár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grönn í kreppu

málband

Ég var lengi sérfræðingur í negrunum.  Ég kynnti mér þær allar, prufaði margar og nú heldur þú sem lest að ég hafi verið spikbolti.

Ónei, hef reyndar einu sinni verið feit en það var þegar ég var full og andstyggileg og troðfull af róandi til að bíta höfuðið af skömminni.  Það þarf vart að taka fram að þá var ég ekki að pæla í megrunaraðferðum.

Það er nú yfirleitt þannig að við vestrænar konur erum með kíló á heilanum frá því í snemmbernsku.

Við erum mataðar á standardlúkkinu hvert sem við snúum okkur.

Þess vegna er mér til að mynda frekar kalt til Barbídúkknanna sem kenna stelpunum okkar að svona eigi konur að líta út og í leiðinni kennum við þeim að næra kaupgleðina með fötunum á þetta gervikvendi og öllum fylgihlutnum og fyrirkomulögunum sem hún þarf að eiga.

Burtséð frá því þá held ég að megrunarkúrar séu flestir gagnslausir.  Amk. þeir sem útiloka ákveðnar fæðutegundir.

Mér líður aldrei betur en þegar ég borða allan mat (nei, ekki slátur, unnar kjötvörur og úldinn fisk).

Hver man ekki eftir kókósbollumegruninni, hvítvíns- og eggjakúrnum, Scarsdale, Danska, Prins og Kók dæminu og áfram skal talið.

Ég gekk svo langt í mesta brjálæðinu að fá Mirapront (spítt) hjá heilsugæslulækni í Keflavík þegar ég var tuttuguogeitthvað.  Ég sagði við manninn þar sem hann sat á móti mér og horfði á mig;

Dr. Feelgood, ég er alltof feit, mig vantar megrunarpillur (ég var tíu kílóum undir kjörþyngd á þessum tímapunkti).

Hann (annars hugar): Ókei en þú mátt ekki taka fleiri en stendur á pakkningunni.

Ég: Nei, nei (á innsoginu). Jeræt.  (Ég hef ALLTAF tekið meira en stendur á pakkningunni og því skyldi ég breyta út af vananum.  Þetta sagði ég auðvitað ekki upphátt).

Ég var því ósofin í vinnunni, nagandi á mér kinnarnar og skyldi ekkert í hvað mér leið illa.

Ergó: Borða í hófi, allan mat og hætta að láta eins og kjánar gott fólk.

Þá eru allir þokkalega grannir í kreppunni.

Adjö!

Hey, hver fjandinn er að bloggforsíðunni?  Hún liggur bara niðri vegna bilana.  Ég kann alls ekki við þetta og hananú.


mbl.is Etum, drekkum og verum glöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallegar manneskjur og minna fagurt njósnafyrirkomulag

Ég man þegar ég las bókina 1984 eftir George Orwell.

Mér fannst allt að því hlægilega absúrd þessi framtíðarsýn höfundar, hvar stóri bróðir fylgist með hverri okkar hreyfingu og einkalíf er ekki til.

Nú er bók Orwells eins og barnaævintýri sem engan á að geta hrætt því raunveruleikinn er mikið lygilegri en Orwell karlinum gat dreymt um. 

Ég man þá tíma þegar fólk tókst í hendur og innsiglaði samninga. 

Nú hafnar Persónuvernd beiðni fyrirtækisins Lánstraust um að kortleggja greiðsluhegðun (þvílíkt orð) Íslendinga.

Borgar þú rafmagnsreikninginn á gjalddaga eða eindaga?  Eða ertu einn af þeim forstokkuðu sem greiðir mánuði of seint?  Þetta vill Lánstraust vita og selja til sinna kúnna. 

Ég vil ekki að það sé hægt að njósna um mig og selja upplýsingarnar til væntanlegra fyrirtækja sem ég skipti við og nei það hefur ekkert að gera með svarta samvisku mína, mér líður ágætlega þar nú um stundir, þetta hefur með pjúra mannréttindi að gera og friðhelgi einkalífsins.

nýlendurvöruverslun 1963

En...

Mikið skelfing var myndin um Kjötborg falleg.  Hún endurvakti trú mína á mannkynið sem hefur beðið mikinn hnekki undanfarið.

Ég ólst upp á þessum slóðum, reyndar aðeins vestar og mínar búðir voru hlið við hlið á Bræðraborgarstíg.  Reynisbúð, SS, Mjólkurbúðin og Kron.

Svo á Ásvallagötu var Steini fisksali, kjötbúð og Magga brauð.  Magga barnahatari sem ég hef sagt ykkur frá en sú kerlingarálft seldi fánakúlur sem voru hryllilega góðar.

Konurnar lyftu símanum og svo kom sendillinn með vöruna.

Allt á persónulegu nótunum.

Maður gat ekki stolist til að kaupa sér einn haltukjaftibrjóstsykur því kaupmaðurinn þekkti mann og spurði hvort amma hefði gefið leyfi.  Ekki laug maður að kaupmanninum.

Hm...

Ég sakna þessara tíma, held að þeir hafi verið mun manneskjulegri en þeir sem við lifum núna.

Ég vil ekkert dvelja í fortíðinni en þrátt fyrir allt þá fékk maður að vera manneskja á þessum árum en ekki einber helvítis kennitala.

En bræðurnir í Kjötborg fá mann til að brosa hringinn.  Þeir eru svo fallegar manneskjur.

Later.


mbl.is Lánstrausti hafnað í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjöt, nömm og köff

 jolasveldhus

Ef svo undarlega vildi til að mig myndi langa til messu á aðfangadagskvöld þá myndi ég steðja í Fríkirkjuna til Hjartar Magna.  Það er gott að vera í Fríkirkjunni og gott að vera nálægt þessum presti.

Ég veit þetta, þessi hálfgerði heiðingi sem ég er, vegna þess að hann hefur skírt tvö barnabarnanna minna.

En þrátt fyrir að ég sé algjör dragbítur á kollega guðs í þjóðkirkjunni og kaþólska fyrirkomulaginu þá viðurkenni ég það hér með að mér finnst jólamessan á aðfangadag afskaplega fallegt fyrirbrigði.  Svona eins og jólakveðjurnar, bráðnauðsynlegar á jólum.

Ég hef aftansönginn í bakgrunninum á meðan ég er að klára í eldhúsinu.

En samkvæmt fréttum er kirkjusókn að slá öll fyrri met, kannski hjálpar þetta fólki í kreppunni.

Við áttum yndislegt aðfangadagskvöld með Frumburði, Birni, og Jökli Bjarka, elsta barnabarninu mínu.

Draumur Jökuls um gítar nokkurn, að nafni Gibbson SG bærist honum eins og fyrir kraftaverk, rættist og svipurinn á drengnum var óborganlegur.

Jólin eru hátíð barnanna og við njótum góðs af.

Nú er ég á leiðinni í hálfgert náttfatajólaboð hjá Frumburði aftur.  Nú eru það Maya, Robbi og fallegi Oliver ásamt skádóttur minni henni Ástrós sem höldum jóladaginn saman.

Hlaðborð sem svignar undir hangiKJÖTUM, hamborgarahryggjum, nömmum og köffum.

Mikið gaman, mikil gleði.

Úff, það er full vinna að stöffa í sig á jólum en ykkur að segja þá er ég tiltölulega hófsöm í deildinni sem er eins gott ég er með sykursýki.

Sendi á ykkur mínar fallegustu hugsanir og ég óska ykkur fallegrar og friðsamrar jólahátíðar.

Við sjáumst í kvöld.

Þá verður síðueigandi kominn úr vemmilega jólahamnum og orðin forstokkuð með hvínandi attitjúd eins og hennar von og vísa er.

Við munum væmnijafna.

En ég elska ykkur í köku.

 

 


mbl.is Metaðsókn í Fríkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir edrú í boðinu

FunnyChristmasWineCartoon 

Þetta er skömm og svívirða.  Jólabjórinn hefur hækkað um helming á milli ára.

Hvernig á maður að halda heimili búandi við þetta okurverð á þessari mjög svo nauðsynlegu neysluvöru?

Ha?

Við tökum þennan aftur.

Mikið rosalega er ég glöð að vera ekki í bjór- og vínkaupunum.

Þegar ég drakk sem mest um árið, sko fyrir meðferð þannig að það fari ekkert á milli mála, þá var ansi erfitt að láta líta út fyrir að ég væri hófdrykkjumanneskja farandi alltaf í sama útibú ÁTVR.

Þess vegna fór ég í dragtina, setti hnút í hárið.  Málaði mig eins og motherfucker og fór á hælana.

Svo hríslaðist ég um ríkið og týndi í körfu.

Ég var viss um að það stæði utan á mér að ég væri bjórþambandi gardínubytta sem ætti ekki annars úrkosta en að ná mér í mitt stass sjálf þrátt fyrir að vera skjálfandi á beinunum.

Þess vegna átti ég það til að gera mig upptekna og ábyrgðarfulla í framan, dingla leðurhanskanum léttilega framan í fésið á kassanum og segja frosinni égvinnífjármálageiranumogsýnduértilhlýðilegavirðinguröddu: Ætlarðu svo að gefa mér nótu -vinur.

Sko, kjarni máls er sá að ölkum er held ég nokkuð sama hvað efnið kostar, að minnsta kosti minnist ég þess ekki að hafa velt mér upp úr því.  Það eina sem truflar þá er að verða mögulega uppiskroppa.

Þau sem drekka í hófi mega alveg verða pirruð yfir þessu, ég skil þá, en það er samt ekki endir og upphaf alls hvort sem er hjá þeim.

Niðurstaða: Ég er edrú, ég kaupi ekki áfengi og þeir sem ég þekki gera það í svo litlum mæli að það skiptir ekki höfuðmáli.  Mér gæti því ekki staðið meira á sama.

Ekki frekar en að ég skenkti því þanka hvað bjór og rauðvín kostaði á meðan ég drakk.  Kommon þetta var nauðsynjavara í mínum augum.

Mér er hins vegar ekki sama um drápsverðið á matvöru og mér finnst eins og allt hafi hækkað um MEIRA en helming í þeirri deild frá því í fyrra.

Allir edrú í boðinu.

Fyrir jól, fyrir jól, fyrir jól.


mbl.is Jólabjórinn hækkaði um allt að helming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tár í augum og ellefu mínútna þögn

jólakerling

Á morgun verða ellefu mínútna þögul mótmæli á Austurvelli kl. 15,00.

Síðan verður mótmælt kröftuglega strax þ. 27. janúar á sama stað.

Ég ætla að reyna að komast á morgun er í smá vanda hérna með tíma.

Annars er ég búin að vera jólin með afbrigðum.

Búin að baka fjóra marengsbotna.

Búa til lítra af ís.

Jájá.

Svo fékk ég skarpan og skemmtilegan mann í heimsókn og við húsband höfðum virkilega gaman af þessum hittingi í miðju jólastressi sem b.t.w. hrjáir mig ekki hinn eðla helming hér á kærleiks.

Fólk þarf að gefa sér tíma til að anda.

En þarna áttum við skemmtilega stund með miklum aufúsugesti.

Ég sat úti og reykti áðan og horfði á jólaljósin í húsunum í kring, hvít trén og rauðan himininn og ég fór í dálítinn jólafíling.

Það var gott að finna smá gleði í hjartanu, ekki veitir af.

Svo eru stelpurnar mínar svo yndislegar.  Þær fá tár í augun yfir jólasnjónum.  Þeim finnst hann svo fallegur.

Ég er á því að það sé töluvert mikið varið í dætur mínar.

Svo var ég að lesa yfir þessa færslu áður en hún fór í loftið og ég sá að hún var svo lítið ég í bökunarkaflanum eða þannig.  Ég var að baka en ég er samt ekki svona döll bökunarkona.  Ég rappa yfir bakstrinum fer í smók, reyti af mér brandara, ríf kjaft og sendi stjórnvöldum ljótar hugsanir (djók).

Einhvern tímann á meðan ég var í stríðinu gegn húsmóðurhlutverkinu hefði ég gargað af óþoli hefði ég lesið um einhverja bakandi kerlingu.

Svona er nú komið fyrir mér.

Gengin í björg.

Falalalalala

 


mbl.is Boða þögul mótmæli á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 2987151

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband