Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Að vita ekkert um allt

Ég samgleðst yfirleitt konum sem fara fram í pólitík og í viðskiptalífinu þar sem hallar okkur stelpurnar.

Því brosti ég blíðlega til Söru Pallin í huganum þegar ég heyrði af framboði hennar til varaforseta Bandaríkjanna. Ég hugsaði líka, damn, damn, damn, nú hleypur á snærið hjá Rebbunum, kona í framboði og allt.

En ég hefði getað sparað mér áhyggjurnar.  Sara Palin vinnur ötullega að því að reyta fylgið af rebúblíkanaflokknum eins og hún hafi verið ráðin til þess alveg sérstaklega.

Mér finnst ljótt að segja það en konan er eins og barn sem alist hefur upp meðal dýra í frumskóginum.   Hún veit ekkert um allt.

Bandarísku fréttastofurnar draga konuna sundur og saman í háði.

Hún hefur verið glórulaus um málefni líðandi stundar.

Svo sá ég þetta frábæra myndband.

Sara Palin valdi að vera ekki lesbía.Pinch

Hún á hins vegar vinkonu sem valdi þennan lífsstíl, sennilega um leið og hún valdi sér Volvo og gluggjatjöld í íbúðina.

Alveg: Nú var ég að vakna hérna á þessum dásamlega morgni, sólin skín, fuglarnir syngja og ég er að drepast úr hamingju.

Hvað get ég gert í dag?  Jú ég ætla að velja mér Volvobíl til frambúðar (silfraðan), grænar gardínur í eldhúsið og svo ætla ég að velja um hvort ég á að vera lessa eða ekki.  Hugs, hugs, brak í heila, hm... ókei ég verð lessa!

Það er rosalega langur í mér fattarinn.  Af hverju gerði ég aldrei þetta val?

Þá hefði ég sloppið við að giftast mínum fjölmörgu eiginmönnum.

Fjandinn fattlausi.

Myndband.


mbl.is Palin fellur í áliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífi mínu sem stuðningsmaður innflytjenda er hér með lokið

Nei sko, það voru maðkar í mysunni á meðal hælisleitenda í Njarðvík.

Frussss, ég sem hélt að þarna væru eingöngu vængjaðir englar. 

Lífi mínu sem stuðningsmaður innflytjenda er hér með lokið.

Bölvað kjaftæði.

Ég held að enginn hafi efast um að lögreglan á Suðurnesjum með fyrrverandi lögreglustjóra í broddi fylkingar, hafi haft ástæðu til að gruna einhverja um græsku, enginn hélt að þeir væru bara að láta tímann líða í vinnunni, eða hvað?

Ónei,  það var framkvæmd og fyrirkomulag þeirrar rannsóknar sem fól í sér lögregluárás á hýbýli fjölda manna, handjárnun og annað ofbeldi sem gerði það að verkum að fólk reis upp á afturlappirnar.

Og ég er enn sama sinnis.  Svona kemur maður ekki fram.

Það eru til fleiri og mannúðlegri aðferðir við að handtaka fólk en þessi og flestar þeirra eru smekklegri en þessi fjöldaárás lögreglunnar og hefðu borið sama árangur.

En nú hafa stuðningsmenn þessara aðgerða heldur betur fengið réttlætingu fyrir gjörningnum.

Fyrir mér er hann hins vegar ennþá jafn fautalegur, ómannúðlegur og óþarfur.

Fólkið í Njarðvík á alla mína samúð.

Jájá.


mbl.is Drógu umsóknir til baka eftir húsleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert andskotans einkamál í héraði

Þegar ég sá forsætisráðherrann í fréttum beggja sjónvarpsstöðva harðneita því að það fundurinn sem hann boðaði til og ALLIR Seðlabankastjórarnir sætu að fundurinn hefði ekki verið krísufundur - ja - þá trúði ég honum ekki.

Ég trúi ekki orði lengur af því sem þeir í ríkisstjórninni segja, nema Jóhanna Sigurðardóttir, en hún er sér á báti á þessum síðustu og verstu.

Geir var svona frekar pirraður en fór vel með það eftir að hann tók ímyndina í gegn eftir skætinginn sem hann sýndi fréttamönnum fyrr í sumar.

Fólki virðist halda að Seðlabanki USA sé kjörbúð, sagði forsætisráðherrann dulítið pírí svona, enda þreyttur, búin að vera að vinka í Kauphöllinni í Nýju Jórvík og loka sjoppunni þar líka.

Svo er verið að pirra manninn með ágengum spurningum sem hann kærir sig ekkert um að svara.

Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta þessa dagana þegar maður horfir upp á þennan misskilning kjörinna fulltrúa okkar um stöðu sína gagnvart almenningi sem fara oftast fram í gegnum fjölmiðla.

Áddni dýró vildi heldur engu svara í föstudagsfréttunum þar sem hann var spurður út í málið með bandaríska seðlabankann.

Alveg: Þér kemur það ekki afturenda við attitjúd.

Þess vegna vill ég nota tækifærið af því ég er að blogga um þetta og minna téða ríkisstjórnarmeðlimi á fyrir hvern þeir vinna.

Ég vil líka benda þeim á að það er ekkert andskotans einkamál í héraði hvað þeir eru að aðhafast. 

(Þá er ég að meina að þeir komi því frá sér í stórum dráttum hvað sé á teikniborðinu, er ekki að fara fram á daglegt rapport frá þessum elskum). 

Ég og vel flestir sem ég þekki eru órólegir vegna efnahagsástandsins og maður er að bíða eftir svörum.

Þó það væri ekki nema örlítil vísbending um hvernig taka eigi á málunum.

En nei, ónei, þessir háu herrar eru í leyniklúbbi og ætla ekki að fara að deila aðgerðarplönum með okkur sótsvörtum.

Þetta endar með að taaaaaaaaapa verulegu fylgi í næstu kosningum.

Sem gætu komið fyrr en seinna.

Jájá.

Viðtalið við Geir.

Áddni um Seðlabanka USA

Og fyrir þá sem geta endalaust rifist um trúmál, frá mér til ykkar fyrir nóttina.

Friður.


mbl.is Enginn krísufundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærri dauð í tveimur löndum

Munið þið þá tíma þegar maður fór til bankastjórans, stillti sér upp í röð og ef maður var ekki nógu snemma á ferðinni varð að endurtaka leikinn daginn eftir?

Jabb, ekki svo langt síðan.  Það sem ég er hins vegar að nostalgíast með er öskubakkinn eða bakkarnir hjá stjóra og niðri í bankanum.

Þvílíkir draumatímar, þ.e. áður en fólk fattaði að það væri sóðalegt að reykja hvar sem er og algjör óþarfi að láta bjóða sér upp á það.

Ég man eftir að hafa setið í Domus Medica og reykt eins og mér væri borgað fyrir það á meðan ég beið eftir að komast til læknis út af hálsbólgu.  Ég minnist þess ekki að neinn hafi verið neitt sérstaklega hissa yfir því.

Þegar afmælis-, fermingar- og brúðkaupsveislur voru haldnar, eða hvar sem fólk kom saman til að gleðjast voru settar sígarettur og kveikjarar á hvert borð.  Það var ekki almennileg veisla ef ekki var boðið upp á Camlel og Viceroy að minnsta kosti.

Áttatíuogeitthvað sat ég löngum stundum á fundum í kvennahreyfingunni og við mökkuðum hver í kapp við aðra þannig að það var ekki líft á samkundunum.  Það var alltaf ein og ein kona sem kvartaði og við afgreiddum það með því að sú væri leiðinleg!

Nú eru aðrir tímar, eða hvað?

Fyrir þremur árum þegar ég var í sumó á Spáni var ég flutt fárveik inn á spítala.

Án þess að ég ætli að tíunda það neitt frekar þá var ég á leiðinni heim og fékk að fara niður í kaffiteríu ásamt húsbandi, Söru minni og spænskri vinkonu, hvar læknarnir mínir sátu ALLIR og þömbuðu bjór og reyktu sig bláa í framan.

Svo gerðist það þarna í kaffiteríunni að ég fór í sykurlost (ekki búið að greina sykursýki), ég froðufelldi þarna á gólfinu í heiftarlegum krömpum og læknarnir stukku til og skutluðu mér á börur (er mér sagt) og tveir þeirra voru í hvítu sloppnum með síuna lafandi úr kjaftinum.

Þeir misstu mig svo af börunum og búmm pang á gólfið.  Það er mesta furða að ég skuli vera lifandi.

En læknarnir voru búnir að sitja þarna og hygge sig yfir bjór töluvert góða stund og voru því drukknir undir sjúkrabörum.  Fyrir nú utan það að það getur verið erfitt að hlaupa með konu í villtum krampa með sígó í kjafti og sjá ekki neitt fyrir reyk.

(Ég lá í heittelskaða og Sörunni sem var komin út til að fylgjast með móður sinni eftir að ég rankaði við mér eftir töluvert langan tíma og hafði gífurlegar áhyggjur af því hvernig ég hefði tekið mig út í krampanum.  Alveg: Flettist pilsið upp í heila?  Var ég með lafandi tungu?  Var ég öll krumpuð í framan?  Ekki, verður minnistap varanlegt ((mundi ekki suma hluti)?  Eina sem ég pældi í hvort ég hafi verið eðlileg en ekki eins og hálfviti í krampanum, jösses).

Ég hef áður sagt ykkur að líf mitt hefur fram að meðferð ekki einkennst af mikilli lognmollu.

Ég hef nefnilega nærri drepist í tveimur löndum.

Á Spáni auðvitað af ofangreindum orsökum og árinu áður á Elmegade í Köbenhavn, hvar ég steðjaði fram á byssukúlu í gengjabardaga.  Byssukúlan tók ákvörðun um að beygja fram hjá á síðustu stundu og ég labbaði alveg vonn kúl mama áfram og klofaði yfir lögregluhindranir og sheferhunda.

Ég var í glasi for crying out loud.

En núna er ég nokkuð örugg með mig.  Bláedrú og meðferðuð á besta hugsanlegan máta.

Dem, þessi færsla átti aðallega að vera um þegar allir reyktu alls staðar og kvikmyndastjörnurnar fengu háar fjárhæðir fyrir að reykja í bíómyndum.

Æi, ég er eiginlega fegin að það má ekki reykja út um allt.

Það er ógeðslega ógeðslegt.

Ég vil að minnsta kosti að mínir doktóres séu edrú í vinnunni og ég krefst þess að þeir séu löngu hættir að reykja.

Þíjú.

 


mbl.is Kvikmyndastjörnur fengu stórfé fyrir að reykja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaus hrokinn og mannfyrirlitningin

Eftir að Haukur Guðmundsson hjá Útendingastofnun í félagi við Björn Bjarnason, klúðruðu máli Paul Ramses eins og frægt er orðið, mátti greina smá auðmýkt og jafnvel manneskjulega hlið á manninum.  Það fór honum nokkuð vel.

Og Ramses fékk að koma heim á meðan mál hans er í vinnslu.

Haukur er greinlega búinn að jafna sig síðan Ramses málið var á skömmustustiginu og nú hefur hann færst allur í aukanna.

Þeir eru með vitöl við hælisleitendur sem löggan réðst inn á með ofbeldi á dögunum og gerðu upptæka peninga sem þeir mátu sem svo að væru mögulega, kannski og ef til vill illa fengið fé.

Og mannvinurinn Haukur segir svo í viðtengdri frétt: 

Í einstökum tilvikum erum við búin að segja fólki að við ætlum ekki að greiða fyrir það kostnað í bili. Reykjanesbær ætlar þá að leyfa fólkinu að greiða sjálft það sem framfærslan kostar. Annars getur fólk bara farið á hótel ef það vill,“ segir hann. „Það hefur verið fullyrt að yfirvöld skuldi skýringar á þessum aðgerðum. Við erum búin að svara þessu og segja af hverju aðgerðin var gerð. Það var grunur um fölsuð skilríki og fólk var með furðulegar sögur um það af hverju það væri hér á landi. Reynslan hefur kennt okkur hvað þarf að gera."

Fólkið getur bara farið á hótel ef það vill segir mannvinurinn mikli.

Sniðug hugmynd.  Það er ekki svo geðslegt húsnæðið sem fólkinu er boðið upp á í Njarðvík.  Gömul verbúð sem ætti löngu að vera búið að rífa.

Væri töff hugmynd að tékka sig inn á hótel ef það væri ekki búið að rífa af "fólkinu" hverja krónu sem það átti.

Haukur er að segja okkur Íslendingum, í hvers umboði hann starfar, að "fólkið" geti étið það sem úti frýs.

Við erum nú meiri andskotans mannvinirnir Íslendingar.

Ég held að við eigum skilið að hafa Hauk Guðmundsson við störf.

Svo held ég að við sem viljum að komið sé fram við hælisleitendur sem hingað koma af lágmarks kurteisi ættum að fara að virkja grasrótina.

Það þarf mótvægi við alla heiftarpostulana sem hrópa húrra fyrir svínslegum ofbeldisaðferðum löggunnar á Suðurnesjum.

Ég vil ekki hafa svona útlendingapólitík.

Þessi karlaklúbbur í útlendingapólitíkinni snýr við í mér maganum.

Og nei, ég vil ekki hvern sem er inn í landið.

Og já, ég vil eftirlit með þeim sem hingað leita þar til þeim hefur verið veitt landvistarleyfi.

Ég er bara algjörlega með það á hreinu að það má koma fram við fólk á fleiri en einn veg.

Og Útlendingastofnun ásamt honum þarna lögreglustjóra á Suðurnesjum mættu hafa það í huga hvernig hægt er að koma hlutum í framkvæmd án þess að meiða og særa.

Skítapakk leyfi ég mér að segja.


mbl.is Hælisleitendur í viðtölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytt ástand

 ohk

Í Ölfusréttum míg rigndi í dag og þeir eru hættir að fá sér í glas karlarnir af því þeir eru svo hræddir við Legginn.  Ekki að undra, enda gott mál það á ekkert að vera fullur innanum vetrarmatinn, dýr eru dauðhrædd við drukkið fólk.

En þessi færsla er um rigningu, rigninguna sem var í Ölfusréttum og hér á Teigunum.

Það hefur ekki stoppað úrkoman í nokkra daga, bara lekur úr himninum án afláts.

Nú er ég hrifin af votveðri þegar stormur fylgir og bara einhverjar klukkustundir í einu.

Ég er eiginlega orðin þreytt á þessu ástandi.

Reyndar er ég aðallega þreytt á sjálfri mér þessa dagana.  Sennilega míg rignir líka í hausnum á mér.

Ég hugsa of mikið um það sem engu skiptir og geri of lítið af því sem ég þarf að gera.

Eiginlega hef ég ekki gert afturenda í dag að frátöldum einhverjum leim húsverkum.

Getur verið að lægðir sem fylgja rigningu leggist eins og þursar á herðarnar á manni?

Ég hef alveg stunið þungan í hvert skipti sem ég skipti um stól.

En ég talaði við Maysuna mína í dag.  Hún og Oliver komu frá Hong Kong í gær eftir langa flugferð til London.

Mér brá illilega þegar hún sagði mér frá því að hún hafi lent í þriggja bíla árekstri í HK á fimmtudaginn.  Hún var í leigubíl á leið heim frá vinnu þegar tveggja hæða rúta keyrði inn í leigubílinn og pakkaði honum snyrtilega saman.  Hann hentist svo á annan leigubíl og það varð uppi fótur og fit.

Maysan slapp óbrotin merkilegt nokk en hún var svo utan við sig að hún fór bara í stað þess að bíða eftir lögreglunni.

Nú er hún öll lemstruð í kroppnum og finnur til út um allt.

Hún er að bíða eftir að fá tíma hjá lækni.

Ég þakka fyrir að ekki fór verr en mikið skelfing var mér illa við að heyra þetta.

Það er kannski þess vegna sem ég er með hangandi haus.

Ég er alltaf svo hrædd um stelpurnar mínar.

Farin að sofa í höfuðið á mér.

Góða nótt

P.s. Myndin er tekin í Hong Kong í síðustu viku.


mbl.is Hundblautar Ölfusréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hong Kong - sería

Maya mín er að vinna að verkefni í Hong Kong og er búin að vera þar í tvær vikur með Oliver.  Þau vor að opna Arrogant Cat búð þar í borg.  Jájá.

Hún var að setja inn myndir í kvöld og auðvitað smelli ég þeim inn.

Mig dauðlangaði í ferðalag get ég sagt ykkur.

But here goes.

hong konghk1

Halló, sundlaugin er á þakinu.  Lúxus hvað.  Jésus Pétur hvað hann er fallegur þetta krútt.

hk2hk3

Og búðin er opnuð, mikið fjör og mikið gaman.

hk5hk6

Maysan þreytt og Oliver líka.        Og London börnin eru auðvitað í partíinu.

Later.

Jabb.

P.s. Myndirnar stækka þegar klikkað er á þær.

 


Dittinn og dattinn dagsins í dag

 

Ég vaknaði í vondu skapi.

Jájá, ég var nefnilega hangandi fram á nótt þvert ofan í mína betri vitund sem greinilega flutti ekki með mér og sveimar um í Seljahverfinu í góðu rokki.

Ástæða geðvonskunnar var Íslandspóstur.  Mig langar að senda það fyrirtæki út í ystu myrkur.

Sko..

Ég flutti fyrir viku.  Ég var búin að breyta heimilisfangi gegnum netið daginn áður.  Íslandspóstur virðist vera mjög nútímalegt fyrirtæki og býður upp á allskonar ditttinn og dattinn á sinni heimasíðu.

Ég fékk staðfestingu í pósti á mánudaginn, á mitt nýja heimilisfang um að breytingin væri komin til skila.

Og síðan ekki söguna meir.

Við höfum þurft að fara á gamla heimilið til að ná í póstinn og húsband hélt ribbaldanum í mér föstum og sagði fullur bjartsýni að þetta myndi smella í gegn á morgun.  Það hefur hann fullyrt á hverjum degi.

Þess vegna vaknaði ég arfaill þar sem ég sá póstmanninn steðja fram hjá íbúðinni minni hvar ég stóð og smókaði mig út í morgunkulinu.  Kannski var hann bara að steðja í vinnuna hvað veit ég en það var ekki júníforminu að kenna að ég sá rautt.

Í símann.  Blablabla.  Sóandsó.  Skýringar gefnar í lengd og breidd.

Íslandspóstur í kvenmannslíki: Þú verður að koma og borga fyrir áframsendingar.  Kostar sóandsó á mánuði.

Ég: Er ekki nóg að vera búin að tilkynna flutning?

Íík (sárlega misboðið): Þú hefur ekkert tilkynnt flutning.  Ég sé það hér í MINNI tölvu.

Ég: Jú ég gerði það fyrir viku.

Íík (hló yfirlætislega): Já er það, hehe, og við hvern talaðir þú (alveg; mér þætti gaman að sjá þig sanna mál þitt)?  Hefur þú eitthvað skriflegt í höndunum?

Ég: Ég gerði það á netinu.

Íík (búin að ggera það að verkefni dagsins að setja þessa konu på plads í eitt skipti fyrir öll): Þið verðið þá bara að halda áfram að sækja póstinn þangað til þetta hrekkur í gegn.  Nú eða borga fyrir áframsendinguna sem ég var að segja þér frá.  En það kostar auka. (Hlakkandi).

Ég: Það er þá ekki til neins að tilkynna flutning gengum heimasíðu?  Hvað langan tíma tekur svona lagað að virka?
ÍíK: Því get ég ómögulega svarað.

Ég: Arg.

Og ég er ekki að ljúga.

En ég er betri núna.  Búin að pústa og lemja í veggi.

Háeffin eru ekki endilega til að hrópa húrra fyrir.

Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að kona þessi væri ráðin til að halda viðskiptavinunum frá fyrirtækinu.

Vink á hana.

En ég er góð.

Kveðja inn í daginn frá ribbaldanum.


"Flóttamannavandinn" - vandi hvers?

Eitt stykki hælisleitandi kostar sexþúsundogfimmhundruð krónur á dag.

Menntamálaráðherra kostaði  fimm milljónir minnst vegna dvalar í Kína í x daga.

Smekklegar fyrirsagnir eða hvað?

Væri ekki ráð að reyna að hraða afgreiðslu á málum flóttafólks?  Það myndi valda töluvert minni vanlíðan hjá því og í leiðinni lækka kostnað íslenska ríkisins þar vegna styttri biðtíma.

Flestir hælisleitendur vilja auðvitað komast í vinnu og fara að lifa eðlilegu lífi eins fljótt og kostur er.

Ég hef orðið vör við það eins og sjá má í athugasemdakerfinu mínu við þessa færslu að það kallar á heitar tilfinngar margra ef maður sýnir af sér samúð með því fólki sem hingað leitar vegna þess að því er ekki líft í eigin landi.

En mér er svo nákvæmlega sama um það því ég er á því að við eigum að taka á móti fleiri flóttamönnum hér en við höfum gert enda erum við eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við.

Ég finn verulega fyrir aukinni andúð á útlendingum í þjóðfélaginu.

Oft er reynt að fela þessa andúðina og fórdómana (óttann) á bak við umhyggju fyrir "vesalings" manneskjunum sem hljóti að eiga svo skelfilega erfitt með að aðlagast.  Jájá.  Mun betra að deyja úr hungri  eða vera hreinlega drepinn heima hjá sér í langburtistan heldur en að komast í var í ókunnu og framandi landi eins og hér hjá okkur.  Á Íslandi er svo helvíti kalt og svo er íslenskan svo fjandi erfið og maturinn tormeltur fyrir "aumingjans" fólkið.

Þá er auðveldara að kljást við þá sem sýna óbeit sína á útlendingum eins og hún kemur fyrir af skepnunni, jafnvel þó að sendi ískaldan hroll niður eftir bakinu á mér.

Skoðun mín á "flóttamannavandanum" sem er auðvitað vandi Íslendingsins sem fær harðlífi af tilhugsuninni um nýja Íslendinga, er kölluð ýmsum nöfnum í athugasemdakerfinu.

Ég er til dæmis kölluð naívisti og femínisti sem eiga að vera skelfileg skammaryrði en hljóma eins og ljúf músík í mínum eyrum.

Ef það er einfeldni að trúa á að fólk sé í eðli sínu gott þá só bí it.

Ég er reyndar ekki enn búin að tengja femínisma inn í þessa umræðu en það er í góðu lagi.

Ég stend föst á minni skoðun. 

Mér segir svo hugur um að ekki muni af veita.

Súmítúðebón.


mbl.is Hælisleitandi kostar 6500 á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Arons Arnar

 

Í dag hefði dóttursonur minn hann Aron orðið 11 ára hefði hann lifað.

Tíminn hefur liðið ótrúlega hratt og ég sem hélt á tímabili í sorginni að hann myndi standa í stað.

En lífið heldur áfram þó enginn verði samur eftir.

Ég skrifaði einhvern tímann um að sársaukinn minnki og eftir sitji lítið ljós í hjartanu á okkur sem kynntumst og elskuðum þennan litla dreng þá tæpu þrjá mánuði sem hann var hjá okkur.

María Greta mamma hans Arons á núna lítinn gullmola sem heitir Oliver og er rúmlega þriggja ára.

Þessa dagana eru þau í Hong Kong þar sem hún er að vinna ákveðið verkefni og tók þann stutta með sér ásamt afanum til að passa.

Maya mín, ég veit að þessi dagur er þér alltaf þungur í skauti og ég hugsa til þín af öllum mínum kærleik.

En þú hefur haldið ótrauð áfram og tekist á við lífið og notið þess til fullnustu þegar versta sorgin var að baki.  Mér finnst þú hafa höndlað þína sorg afskaplega fallega og með fullri reisn.  Ég er ákaflega stolt af þér.

Nú er komið kvöld í Hong Kong og dagurinn bráðum að baki.

Góða nótt ljósið mitt.  Knúsaðu Oliver frá okkur.

Amman og mamman.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.